Hæstiréttur íslands

Mál nr. 529/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Útlendingur


                                                         

Föstudaginn 3. ágúst 2012.

Nr. 529/2012.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Óli Ásgeir Hermannsson fulltrúi)

gegn

X

(Unnar Steinn Bjarndal hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. 18. gr. laga nr. 86/2008, var staðfestur

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. ágúst 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. ágúst 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. ágúst 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að að vægari úrræðum verði beitt, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. ágúst 2012.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness  með vísan til 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008, sbr. b lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að kærði, sem kveðst heita X, fæddur [...] 1974 í Nígeríu, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. ágúst 2012, kl. 16:00.

Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, til vara að vægari úrræðum verði beitt en til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Krafan er reist á því að kærði hafi brotið gegn ákvæðum 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002.

Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að þann 29. júlí sl. hafi lögreglan haft afskipti af kærða í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en hann hafi verið að koma frá Bologna á Ítalíu. Kærði hafi verið beðinn um að framvísa vegabréfi eða einhverjum skilríkjum en hann hafi sagt að hann væri ekki með nein skilríki á sér. Kærði hafi verið spurður hvernig hann hefði getað komist í flug til Íslands án skilríkja og hafi hann svarað því til að hann hefði fengið hjálp frá vini sínum. Þegar búið var að færa kærða í aðstöðu lögreglustjórans á Suðurnesjum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi hann aftur verið spurður hvort hann væri með einhver skilríki. Hann hafi þá framvísaði  nígerísku ökuskírteini. Hann hafi verið spurður um frekari skilríki og kvaðst hann hafa eyðilagt þau. Síðar hafi komið í ljós að kærði hafði gefið lögreglu rangar upplýsingar því að í flugvél þeirri, sem hann kom með frá Bologna, hafi fundist vegabréf útlendings frá Ítalíu og dvalarleyfisskjal frá Ítalíu. Öll skilríkin hafa verið rannsökuð og þau reynst grunnfölsuð.

Leitað hafi verið í upplýsingakerfum ISIS og Interpol vegna nafns þess sem kærði hafi gefið upp en það ekki skilaði árangri.

Tekin hafi verið fingraför og myndir af kærða og sé alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra í sambandi við Interpol og fleiri erlendar stofnanir í því skyni að komast að því hver kærði er. Einnig sé verið að rannsaka ferðaleið kærða en að mati lögreglu sé hún ótrúverðug.

Engin svör hafi borist frá erlendum yfirvöldum um að kennsl hafi verið borin á kærða.  Telur lögreglustjórinn á Suðurnesjum að rökstuddur grunur leiki á því að kærði gefi rangar upplýsingar um það hver hann er, enda hafi hann á engan hátt getað gert grein fyrir sér með sannanlegum hætti og ferðasaga hans sé ótrúverðug. Telur lögreglustjóri því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar hjá lögreglu og Útlendingastofnun.

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008 og b lið  1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála telur lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. ágúst 2012, kl. 16:00.

Krafa lögreglustjórans á Suðurnesjum er sett fram annars vegar á grundvelli 7. mgr. 29. gr. útlendingarlaga nr. 96/2002 og hins vegar á grundvelli b liðar 1. mgr. 95. gr. laga sakamálalaga nr. 88/2008. Skilyrði b liðar 95. gr. laga nr. 88/2008 þykja ekki uppfyllt í málinu.

Í 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008 segir að ef útlendingur neitar að gefa upp hver hann er, rökstuddur grunur er um að útlendingur  gefi rangar upplýsingar um hver hann er eða hann sýnir af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála, eftir því sem við á. Í málinu hefur lögreglan sýnt fram á rökstuddan grun um að kærði hafi gefið rangar upplýsingar um hver hann er. Ber því að taka kröfu lögreglustjórans til greina eins og hún er fram sett, þó með þeirri breytingu að gæsluvarðhald verður úrskurðað til miðvikudagsins 8. ágúst 2012, kl. 16:00.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómar kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. ágúst 2012, kl. 16:00.