Hæstiréttur íslands
Mál nr. 340/2009
Lykilorð
- Skaðabætur
- Torfærutæki
- Líkamstjón
- Vátrygging
- Málsástæða
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 18. febrúar 2010. |
|
Nr. 340/2009. |
Garðar Haraldsson (Viðar Lúðvíksson hrl.) gegn Natalie Tess Aðalsteinsdóttur (Kristján Thorlacius) |
Skaðabætur. Torfærutæki. Líkamstjón. Vátrygging. Málsástæður. Gjafsókn.
N slasaðist í mars 2002 er hún féll af vélsleða, sem hún missti stjórn á, en sleði þessi var í eigu G. Fyrir lá að sleðinn var hvorki skráður í samræmi við ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987 né hafði verið aflað vátrygginga vegna hans. N var ekki með hjálm á höfði er slysið varð og hlaut hún alvarlega höfuðáverka. N höfðaði mál til heimtu skaðabóta í samræmi við matsgerð dómkvaddra matsmanna. Reisti hún kröfur sínar á því að G bæri sem eigandi vélsleðans ábyrgð á honum og væri skaðabótaskyldur vegna alls tjóns sem hlotist hefði af notkun hans. Talið var að samkvæmt venjuhelgaðri skýringu á 88. gr. og 90. gr. umferðarlaga bæri eigandi ökutækis ekki skaðabótaábyrgð án sakar samkvæmt þeim lagaákvæðum á tjóni, sem ökumaður verður fyrir við notkun þess. Í því efni breytti engu þótt eigandinn hefði vanrækt að skrá ökutækið eða sinna skyldu sinni til að afla vátryggingar. N var við stjórn vélsleðans er slysið átti sér stað og var talið að hún gæti þegar af þeirri ástæðu ekki krafið G um fébætur á grundvelli 88. gr. og 90. gr. umferðarlaga. Engu skipti fyrir réttarstöðu N að G hefði vanrækt að kaupa ábyrgðartryggingu til að tryggja greiðslu skaðabóta vegna tjóns af völdum vélsleðans. Þá varð ekki séð að N hefði borið því við fyrr en í greinargerð fyrir Hæstarétti að krafa hennar væri reist á því að G bæri sakarábyrgð á tjóni hennar vegna vanrækslu á skyldu sinni til að kaupa sérstaka slysatryggingu ökumanns og fékk sú málsástæða ekki komist að í málinu. Þá var ekki fallist á að G hefði borið að leiðbeina N um akstur sleðans eða sjá til þess að hún notaði hlífðarhjálm, enda var N 17 ára þegar slysið varð og hafði að eigin sögn nokkrum sinnum áður ekið vélsleða. Loks var því hvorki borið við í málinu að vantað hefði einhvern annan tiltekinn hlífðarbúnað né að nokkur tiltekin bilun eða galli hefði verið á búnaði sleðans. Var G því sýknaður af kröfu N.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2009. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi slasaðist stefnda 10. mars 2002 er hún féll af vélsleða, sem hún missti stjórn á þegar hún ók niður brekku við austanvert Hafravatn, en sleði þessi var í eigu áfrýjanda. Fyrir liggur að sleðinn, sem telst torfærutæki í skilningi 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, var hvorki skráður samkvæmt 63. gr. sömu laga né hafði verið aflað vátrygginga vegna hans eftir fyrirmælum XIII. kafla þeirra. Stefnda var ekki með hjálm á höfði er slysið varð og hlaut hún alvarlega höfuðáverka. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra manna 25. febrúar 2008 er varanleg örorka hennar af völdum slyssins 20% og varanlegur miski 20 stig, en að auki var hún talin hafa verið óvinnufær tímabundið í sex mánuði eftir slysið og eiga rétt til þjáningabóta vegna jafn langs tíma, þar af í 26 daga rúmliggjandi. Um þessar niðurstöður matsgerðarinnar er ekki ágreiningur í málinu.
Stefnda höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta í samræmi við framangreinda matsgerð með stefnu 20. júní 2008. Samkvæmt stefnunni reisir hún kröfu sína á því að áfrýjandi beri sem eigandi vélsleðans ábyrgð á honum og sé skaðabótaskyldur vegna alls tjóns sem hlotist hafi af notkun hans eftir 90. gr., sbr. 88. gr. umferðarlaga. Áfrýjandi hafi vanrækt skyldu sína til að skrá vélsleðann og afla vátryggingar samkvæmt 91. gr. laganna, en af þeim sökum beri hann eftir 90. gr. þeirra „persónulega ábyrgð á öllu því tjóni sem hlýst af völdum vélsleðans“. Sé óumdeilt að stefnda hafi slasast við notkun vélsleðans, en af þeim sökum sé fullnægt skilyrðum 88. gr. umferðarlaga fyrir skaðabótaskyldu áfrýjanda. Að auki er því borið við í héraðsdómsstefnu að áfrýjanda hafi borið að leiðbeina stefndu um notkun sleðans áður en hún hóf akstur í umrætt sinn og tryggja að til staðar væri hjálmur og annar nauðsynlegur hlífðarbúnaður, en hvorugu þessu hafi hann sinnt. Einnig sé ósannað að vélsleðinn hafi verið í viðhlítandi ástandi og verði áfrýjandi að bera hallann af því. Loks er því andmælt í stefnunni að stefnda geti sjálf borið nokkra sök á slysinu eða afleiðingum þess.
Samkvæmt venjuhelgaðri skýringu á 88. gr. og 90. gr. umferðarlaga ber eigandi ökutækis ekki skaðabótaábyrgð án sakar samkvæmt þeim lagaákvæðum á tjóni, sem ökumaður verður fyrir við notkun þess. Í því efni breytir engu þótt eigandinn hafi vanrækt að skrá ökutækið eða sinna skyldu sinni samkvæmt 93. gr. laganna til að afla vátryggingar eftir fyrirmælum 91. gr. og 92. gr. þeirra. Eins og fyrr segir var stefnda við stjórn vélsleðans er slysið átti sér stað og getur hún þegar af þeirri ástæðu ekki krafið áfrýjanda um fébætur á grundvelli sérreglna 88. gr. og 90. gr. umferðarlaga. Engu skiptir fyrir réttarstöðu stefndu að áfrýjandi hafi vanrækt að kaupa ábyrgðartryggingu samkvæmt 91. gr. umferðarlaga til að tryggja greiðslu skaðabóta vegna tjóns af völdum vélsleðans, enda hefði hún sem ökumaður sleðans ekki getað notið verndar af slíkri vátryggingu. Í héraðsdómsstefnu kemur hvergi fram að krafa stefndu sé reist á því að áfrýjandi beri sakarábyrgð á tjóni hennar vegna vanrækslu á skyldu sinni eftir 93. gr. umferðarlaga til að kaupa sérstaka slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. þeirra, enda verður ekki fallist á þann málflutning stefndu fyrir Hæstarétti að slík málsástæða felist í áðurgreindum orðum í stefnunni um að áfrýjandi beri „persónulega ábyrgð“ á öllu tjóni hennar, sem hlotist hafi af völdum vélsleðans. Ekki verður séð að þessari málsástæðu hafi verið borið við af hendi stefndu fyrr en í greinargerð hennar fyrir Hæstarétti og fær sú málsástæða því ekki komist að í málinu samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum.
Stefnda hefur einnig byggt á því að áfrýjandi hafi vanrækt að leiðbeina sér um notkun vélsleðans og tryggja að hjálmur og „eftir atvikum annar hlífðarbúnaður“ væri til staðar við notkun sleðans umrætt sinn, en svo hafi ekki verið. Stefnda var 17 ára gömul er slysið varð. Hún var með ökuréttindi og hafði að eigin sögn nokkrum sinnum áður ekið vélsleða. Verður ekki fallist á að áfrýjanda hafi við þessar aðstæður borið að leiðbeina stefndu um akstur sleðans. Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. umferðarlaga, eins og hún hljóðaði þegar stefnda varð fyrir slysinu, skyldi hver sá, sem var á torfærutæki sem var á ferð, nota hlífðarhjálm og eftir 2. mgr. ákvæðisins bar ökumanni að sjá til þess að farþegi, yngri en 15 ára, sinnti þeirri skyldu. Stefnda var sem fyrr segir ökumaður vélsleðans og bar henni sjálfri eftir þessum lagaákvæðum að gæta þess að nota hlífðarhjálm, en engin skylda hvíldi á eiganda sleðans að sjá til þess. Því hefur ekki verið borið við í málinu að vantað hafi einhvern annan tiltekinn hlífðarbúnað þegar stefnda ók vélsleðanum. Þá hefur því ekki verið hreyft að nokkur tiltekin bilun eða galli hafi verið á búnaði sleðans. Eru því ekki skilyrði til að fella á áfrýjanda skaðabótaábyrgð á tjóni stefndu á þessum grunni.
Eins og mál þetta liggur fyrir verður samkvæmt öllu framansögðu að sýkna áfrýjanda af kröfu stefndu. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest, en rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem nánar greinir í dómsorði
Dómsorð:
Áfrýjandi, Garðar Haraldsson, er sýkn af kröfu stefndu, Natalie Tess Aðalsteinsdóttur.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 23. mars 2009.
Mál þetta er höfðað 20. júní 2008 og dómtekið 24. febrúar 2009. Stefnandi er Natalie Tess Aðalsteinsdóttir, Hjallabraut 5, Hafnarfirði. Stefndi er Garðar Haraldsson, Hörgatúni 17, Garðabæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða henni 9.223.651 krónu með vöxtum skv. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 10. mars 2002 til 6. apríl 2008, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins að teknu tilliti til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.
Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
I.
Hinn 10. mars 2002 fór stefnandi ásamt stefnda og kærasta sínum, syni stefnda, að Hafravatnsvegi. Í þeirri ferð ók stefnandi vélsleða, af gerðinni Kawazaki með skráningarnúmerið RB-247, og kastaðist hún af sleðanum og slasaðist. Vélsleðinn var ótryggður, en stefndi var eigandi hans. Ágreiningur er með aðilum um aðdraganda ferðarinnar og atvik á Hafravatnsvegi þegar slysið varð.
Í stefnu málsins segir að ferðin hafi verið farin í þeim tilgangi að aka vélsleða. Er komið var upp að Hafravatnsvegi hafi stefndi falið stefnanda, sem þá var 17 ára, stjórn sleðans og hún ekið af stað. Hafi stefnandi ekki verið með hjálm og enginn hjálmur verið með í ferðinni. Stefndi hafi ekki kennt henni sérstaklega handtök við akstur sleðans og hafi stefnandi ekið af stað, en fest sleðann. Stefndi ásamt fleirum hafi aðstoðað stefnanda við að losa sleðann og stefnandi þá ekið aftur af stað niður brekku, en skyndilega misst stjórn á sleðanum með þeim afleiðingum að hún kastaðist af honum töluverða vegalengd og staðnæmdist í snjóskafli. Við þetta hafi hún fengið þungt höfuðhögg og ljótt sár á enni.
Stefndi kveður í greinargerð sinni að það sé ekki rétt að ferð stefnda, sonar hans og stefnanda að Hafravatni hafi verið farin í þeim tilgangi að aka vélsleða. Stefndi hafi ætlað að fara einn upp að Hafravatni en í þann mund sem hann hafi verið að leggja af stað hafi son hans og stefnanda borið að garði. Hafi þau óskað eftir því að fá að fara með stefnda í ferðina upp að Hafravatni. Þegar þangað hafi verið komið hafi stefnandi óskað eftir því að fá að aka vélsleðanum þrátt fyrir að hjálmur væri ekki með í för. Af hálfu stefnda og sonar hans hafi ekki verið tekið vel í þá hugmynd, en fyrir þrábeiðni stefnanda hafi henni verið leyft að prófa vélsleðann, enda hafi stefnandi sagst vera vön akstri vélsleða og fjórhjóla. Stefndi hafi ásamt syni sínum ætlað að sýna stefnanda hvernig stjórna skyldi sleðanum, en á stefnanda hafi verið að skilja að slík kennsla væri óþörf. Stefnandi virðist hins vegar ekki hafa búið yfir nægilegri reynslu eða kunnáttu til aksturs sleðans. Eftir skamman akstur hafi hún ekið sleðanum meðfram trjám og fest sleðann í trjágrein. Eftir að sleðinn hafi verið losaður hafi stefnandi ýtt bensíngjöfinni nánast í botn og þeyst af stað. Stefndi og sonur hans hafi kallað til stefnanda að sleppa bensíngjöfinni, en án árangurs. Stefnandi hafi fljótlega misst stjórn á vélsleðanum og kastast af honum.
Í kjölfar slyssins var stefnandi flutt á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Á sneiðmynd af höfði og hálsi stefnanda sáust brot víðsvegar á höfuðkúpu og blæðing inn í kúpuna, fyrir framan heilastofn, aftan við clivus og utan á heilanum hátt í hægra parietalsvæði. Þá greindist mar á temporalissvæði. Vegna þessa áverka þurfti stefnandi að undirgangast nokkrar aðgerðir og m.a. var fjarlægt skemmt svæði úr heila stefnanda við temporal lobe. Dvaldi stefnandi í þó nokkurn tíma á sjúkrahúsinu.
Stefnandi kveður að afleiðingar slyssins á heilsufar hennar hafi verið verulegar, bæði líkamlegar og andlegar. Líkamlegar afleiðingar slysins séu fyrst og fremst verulegur heilaskaði sem sé einnig rót hluta andlegra afleiðinga slyssins. Meðal andlegra afleiðinga megi nefna persónuleikabreytingar, þunglyndi og kvíða, áráttuhegðun o.fl. Sömuleiðis hafi veruleg seinkun orðið á skólagöngu stefnanda vegna andlegra afleiðinga slyssins, auk þess sem hún hafi misst hlutastarf sitt vegna þeirra. Þá hafi stefnandi farið að finna fyrir flogum árið 2005 og síðan verið greind með flogaveiki, sem talin sé bein afleiðing slyssins.
Stefndi gekkst undir lögreglustjórasátt með sektargerð hinn 15. ágúst 2002 fyrir vanrækslu á skráningu og vátryggingu umrædds vélsleða.
Með bréfi, dags. 18. mars 2003, fór stefnandi fram á það við Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi að stofnunin greiddi stefnanda bætur vegna slyssins. Því erindi var hafnað með bréfi, dags. 24. mars 2003, á þeim grundvelli að Alþjóðlegar bifreiðatryggingar væru ekki greiðsluskyldar vegna líkamstjóns ökumanna óvátryggðra ökutækja. Í bréfinu segir að 4. kafli reglugerðar nr. 556/1993, sem fjalli um bætur til tjónþola af völdum óvátryggðs ökutækis, taki fyrst og fremst mið af hagsmunum þriðja manns, þ.e. að tjónþolinn eignist rétt á Alþjóðlegar bifreiðatryggingar hafi ökutækið verið óvátryggt, í sama mæli eins og ábyrgðartrygging hafi verið í gildi. Þannig öðlist ökumaður sem veldur tjóni sjálfur ekki bótarétt.
Tjón stefnanda var metið með matsgerð örorkunefndar, dags. 21. mars 2006. Var það niðurstaða nefndarinnar að stefnandi hefði hlotið 5% varanlega örorku af slysinu og 12% varanlegan miska. Þá var hún talin hafa verið óvinnufær í þrjá mánuði vegna slyssins.
Í kjölfar mats örorkunefndar krafði stefnandi stefnda, með bréfi, dags. 31. janúar 2007, um greiðslu skaðabóta vegna slyssins. Því kröfubréfi var hafnað með bréfi, dags. 9. febrúar 2007.
Stefnandi taldi mat örorkunefndar of lágt og fór því fram á dómkvaðningu matsmanna með matsbeiðni, dags. 14. desember 2007. Hinn 8. janúar 2008 voru Sigurður Thorlacius læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmaður dómkvaddir til að meta tjón stefnanda og skiluðu þeir matsgerð, dags. 25. febrúar 2008. Töldu matsmenn heilsufar stefnanda hafa verið stöðugt 1. janúar 2007 og tímabundna óvinnufærni vera sex mánuði. Námstafir mátu matsmenn tvö skólaár. Þjáningatímabil töldu matsmenn vera sex mánuði, þar af 26 daga rúmliggjandi. Þá töldu matsmenn varanlegan miska vera 20 stig, en varanlega örorku 20%.
Með bréfi, dags. 6. mars 2008, krafði stefnandi stefnda um greiðslu skaðabóta á grundvelli téðrar matsgerðar, samtals að fjárhæð 11.192.123 krónur, sem var sundurliðuð með eftirfarandi hætti:
|
Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. skaðabótalaga |
312.768 kr. |
|
Bætur vegna tafa á námi |
1.000.000 kr. |
|
Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga 26 d * 2.210 kr. pr. dag, 154 d * 1.190 kr. pr. dag |
240.720 kr |
|
Miski skv. 26. gr. skaðabótalaga, 20% |
1.358.700 kr |
|
Varanleg örorka skv. 5. og 6. gr. skaðabótalaga, 20% |
6.311.463 kr. |
|
Vextir til uppgjörsdags |
914.260 kr. |
|
Útlagður kostnaður |
590.934 kr. |
|
Lögmannsþóknun |
623.330 kr. |
|
Virðisaukaskattur af lögmannsþóknun |
152.716 kr. |
|
|
Samtals 11.192.123 kr. |
Með bréfi lögmanns stefnda, dags. 8. apríl 2008, var kröfu stefnanda svarað og henni hafnað. Stefnandi hefur höfðað mál þetta í kjölfarið.
Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og stefndi aðilaskýrslu. Þá gaf sonur stefnda, Gunnlaugur Garðarsson, skýrslu fyrir dómi og matsmennirnir Ingvar Sveinbjörnsson og Sigurður Thorlacius. Verður framburður þeirra rakinn síðar eftir því sem ástæða er til.
II.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að stefndi beri, sem eigandi vélsleðans, ábyrgð á vélsleðanum og sé bótaskyldur vegna alls þess tjóns sem af notkun hans hlýst skv. 90. gr., sbr. 88. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Samkvæmt 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 teljist vélsleði torfærutæki og sé hann skráningarskyldur skv. 63. gr. sömu laga. Samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 78/1997 um skráningu ökutækja, með síðari breytingum, sem hafi verið í gildi þegar slysið átti sér stað, hafi skráningarskylda á vélsleðanum hvílt á stefnda sem eiganda hans. Stefndi hafi hins vegar vanrækt þessa skyldu sína sem og skyldu sína skv. 91. gr. umferðarlaga til að tryggja sleðann. Beri stefndi því persónulega ábyrgð á öllu því tjóni sem hljótist af völdum vélsleðans skv. ákvæðum 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Stefnandi telur sannað og óumdeilt að stefnandi hafi slasast við notkun sleðans, en það sé m.a. staðfest í frumskýrslu lögreglu og í framburði stefnda fyrir lögreglu. Að þessu virtu telur stefnandi skilyrði 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 uppfyllt og því ljóst að stefndi sé bótaskyldur vegna líkamstjóns stefnanda.
Auk þessa er á því byggt að stefnda, sem eiganda sleðans, hafi borið að leiðbeina stefnanda um notkun hans sem og tryggja að til staðar væri hjálmur og eftir atvikum annar hlífðarbúnaður sem nauðsynlegur hafi verið við notkun sleðans. Þá byggir stefnandi sömuleiðis á því að ástand sleðans sé ósannað og stefndi beri sem eigandi sleðans hallann af sönnunarskorti þar um.
Því er alfarið hafnað að stefnandi hafi sýnt af sér nokkurs konar eigin sök í málinu og verði ekki með nokkru móti séð að hún beri á einhvern hátt ábyrgð á tjóni sínu. Þeim fullyrðingum stefnda er hafnað sem röngum og ósönnuðum. Sömuleiðis er á því byggt að stefndi beri ótvírætt sönnunarbyrðina fyrir þeim fullyrðingum sínum og halla af öllum sönnunarskorti.
Stefnufjárhæð er reiknuð á grundvelli matsgerðar Sigurðar Thorlacius læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl., dómkvaddra matsmanna, dags. 25. febrúar 2008. Stefnufjárhæð, reiknuð á grundvelli laga nr. 50/1993 og niðurstaðna matsgerðar, er nánar tiltekið 9.223.651 króna og sundurliðast hún með eftirfarandi hætti:
|
1. Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. skaðabótalaga |
312.768 kr. |
|
2. Bætur vegna tafa á námi o.fl. |
1.000.000 kr. |
|
3. Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga |
240.720 kr. |
|
4. Miski skv. 26. gr. skaðabótalaga |
1.358.700 kr. |
|
5. Varanleg örorka skv. 5. og 6. gr. skaðabótalaga |
6.311.463 kr.
|
|
Samtals |
9.223.651 kr. |
Kröfu um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns styður stefnandi við 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Bótafjárhæð er byggð á meðalmánaðarlaunum stefnanda á árinu 2001 (625.545/12), 52.128 krónur, margfaldað með óvinnufærnismánuðum skv. matsgerð dómkvaddra matsmanna, samtals 312.768 krónur. Stefnandi hafi unnið hlutastarf með skóla og samkvæmt matsgerð sé sannað að hún hafi orðið óvinnufær og því orðið af framangreindum tekjum.
Stefnandi byggir kröfu um bætur vegna tafa á námi á 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dómvenju um sambærilegar bætur, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 188/2004. Stefnandi hafi orðið fyrir verulegri röskun á stöðu og högum við slysið, sbr. orðalag ákvæðisins. Sömuleiðis sé ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir töluverðum annars konar útgjöldum, svo sem kostnaði vegna lyfja og sjúkraþjálfunar, lækniskostnaði o.fl. sem falli einnig undir 1. gr. laga nr. 50/1993 og stefnandi eigi ótvírætt að fá bættan. Stefnanda sé hins vegar örðugt að sýna fram á slíkan kostnað og telur því heimilt að stefnanda séu ákvarðaðar bætur vegna þessa að álitum. Stefnandi byggir á því að hæfilegar bætur vegna framangreinds séu 500.000 krónur fyrir hvert skólaár sem stefnandi hafi misst úr, samtals 1.000.000 króna.
Krafa um þjáningabætur er byggð á 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en samkvæmt matsgerð Sigurðar Thorlacius og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. hafi þjáningatími stefnanda verið 6 mánuðir og hún þar af rúmliggjandi í 26 daga. Nánar tiltekið er fjárhæð þjáningabóta (26 dagar * 2.210 kr. pr. dag + 154 dagar * 1.190 kr. pr. dag), samtals 240.720 krónur.
Krafa um bætur fyrir varanlegan miska er reist á 4. gr. skaðabótalaga, en samkvæmt fyrrnefndri matsgerð hafi varanlegur miski stefnanda verið metinn 20%. Nánar tiltekið er bótafjárhæð miskabóta (6.793.500*0,2) 1.358.700 krónur.
Stefnandi byggir kröfur sínar um bætur fyrir varanlega örorku á 5. og 6. gr. skaðabótalaga, en varanleg örorka stefnanda hafi verið metin 20%. Tekjuviðmið við útreikninga á bótum fyrir varanlega örorku sé byggt á tekjum stefnanda þremur árum fyrir slys eða eftir atvikum lágmarkstekjuviðmiðum skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Stefnandi byggir kröfu um málskostnað á ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi krefst þess jafnframt að fá bættan sem málskostnað allan útlagðan kostnað vegna málsins, þ.m.t. kostnað vegna öflunar matsgerða og læknisvottorða.
Um lagarök vísar stefnandi til 1.-7. gr. og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi vísar einnig til 2., 63., 88., 90., 91. og 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þá vísar stefnandi til reglugerðar nr. 78/1997 um skráningu ökutækja, með síðari breytingum. Um varnarþing er vísað til ákvæða 32. gr. laga nr. 91/1991.
Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.
Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III.
Af hálfu stefnda er öllum kröfum og málsástæðum stefnanda mótmælt. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að málsgrundvöllur stefnanda sé rangur og óljós. Stefndi segir að stefnandi byggi dómkröfur sínar á því „að stefndi beri, sem eigandi vélsleðans, ábyrgð á vélsleðanum og sé bótaskyldur vegna alls þess tjóns sem af notkun hans hlýst skv. 90. gr. sbr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987“. Þá hafi stefnandi einnig vísað til 91. gr. umferðarlaga til stuðnings dómkröfum sínum. Stefndi telur sig hins vegar ekki geta borið neina skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á framangreindum grundvelli, enda beri eigandi ökutækis aldrei ábyrgð á tjóni ökumanns ökutækisins samkvæmt umferðarlögum. Hlutlæg ábyrgð eiganda ökutækis og vátryggingarskylda samkvæmt 88., 90. og 91. gr. umferðarlaga taki einungis til farþega í ökutækinu (og tiltekinna aðila utan þess), en aldrei til líkamstjóns ökumanns ökutækisins, svo sem fram komi í fræðiritum og staðfest sé í dómaframkvæmd. Umrædd lagaákvæði og málsástæður, sem stefnandi vísi til, eigi því alls ekki við í málinu.
Þá hafi stefndi ekki verið í neinu samningssambandi við stefnanda og ekki tekið á sig neinar skyldur til að tryggja stefnanda bætur ef hún slasaðist með einhverjum hætti.
Samkvæmt framangreindu hafi stefnandi ekki sýnt fram á bótagrundvöll fyrir kröfum sínum. Beri því að sýkna stefnda alfarið af kröfum stefnanda.
Stefndi byggir jafnframt á því að stefnandi beri sjálf alla sök á slysinu. Stefnandi hafi sjálf, eftir slysið, ýjað að því að hana hafi skort leiðbeiningar um aksturinn, en þrátt fyrir það hafi hún óskað eftir að fá að prófa vélsleðann. Það hafi hún hins vegar gert á eigin áhættu og ábyrgð, enda geti enginn annar gætt að kunnáttu hennar og færni en hún sjálf. Stefnandi hafi ekki notað hjálm eða hlífðarfatnað við aksturinn, sem henni hafi þó verið skylt samkvæmt 1. mgr. 72. gr. umferðarlaga.
Þá hafi stefnandi sýnt stórkostlegt gáleysi við aksturinn, hún virðist hafa haft takmarkaða stjórn á vélsleðanum og ýtt bensíngjöfinni í botn þvert á það sem aðstæður kröfðust. Með framangreindri háttsemi hafi stefnandi sjálf valdið tjóni sínu.
Stefndi telur að samkvæmt framangreindu beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar um eigin sök, XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 og öllum hefðbundnum vátryggingarskilmálum. Bendir stefndi sérstaklega á að stefnandi hafi verið 17 ára er slysið varð og átti ekki að taka að sér stjórn ökutækis nema að hafa til þess þekkingu og kunnáttu, sbr. meginreglur 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Almennar reglur skaðabótaréttar um áhættutöku leiði og til sömu niðurstöðu, enda hafi stefnandi tekið áhættu með stórkostlega gálausum akstri, sem hún hafi hvorki haft kunnáttu né öryggisbúnað til.
Því er alfarið mótmælt af hálfu stefnda að hann hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu gagnvart stefnanda í tengslum við notkun sleðans. Fullyrðingar stefnanda þar um séu rangar og ósannaðar, en stefnandi beri alfarið sönnunarbyrðina fyrir þeim fullyrðingum sínum samkvæmt almennum sönnunarreglum skaðabótaréttar.
Hvað sem því líði þá hafi akstur stefnanda á vélsleðanum alfarið verið að frumkvæði hennar sjálfrar og hafi stefndi og sonur hans latt stefnanda fremur en hitt. Stefndi og sonur hans hafi sýnt stefnanda helstu atriði varðandi notkun sleðans, en eins og áður greinir hafi verið á stefnanda að skilja að slík kennsla væri óþörf þar eð hún hefði til að bera reynslu við akstur vélsleða og fjórhjóla.
Það sem mestu varði sé hins vegar að ökumenn sem hafi aldur til verði eðli máls samkvæmt að gæta sjálfir að eigin reynslu og þekkingu við akstur ökutækja. Það hvíli engin leiðbeiningarskylda á eigendum ökutækja gagnvart þeim sem óski eftir að aka þeim. Akstur stefnanda í umrætt sinn hafi alfarið verið að frumkvæði og hvatningu stefnanda. Stefnandi hafi verið 17 ára er slysið varð og hafi ekki átt að taka að sér stjórn ökutækis nema að hafa til þess þekkingu og kunnáttu, sbr. og meginreglur 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem áður er vísað til.
Stefnandi geti ekki með neinum hætti stofnað til leiðbeiningar- eða aðgæsluskyldu af hálfu stefnda við slíkar aðstæður, heldur hafi stefnandi alfarið borið ábyrgð á eigin kunnáttu.
Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda, að stefnda hafi borið að tryggja að til staðar væri hjálmur og eftir atvikum annar hlífðarbúnaður. Í fyrsta lagi hafi alls ekki staðið til af hálfu stefnda að stefnandi æki vélsleðanum í umræddri ferð. Í því sambandi er áréttað að það hafi verið fyrir þrábeiðni stefnanda sjálfrar að hún ók sleðanum.
Það sé auk þess alfarið á ábyrgð ökumanna sjálfra að nota þann hlífðar- og öryggisbúnað sem hæfir í hverju tilviki, sbr. 1. mgr. 72. gr. umferðarlaga. Stefnandi geti ekki fært þá ábyrgð að lögum yfir á stefnda í máli þessu.
Stefndi telur að stefnandi hefði ekki orðið fyrir því tjóni sem hún kveðst hafa orðið fyrir ef hún hefði verið með hjálm er slysið varð. Hafi hjálmur ekki verið til staðar, svo sem stefnandi heldur fram, þá hafi hún ekki undir nokkrum kringumstæðum átt að aka sleðanum. Verði stefnandi því alfarið að bera hallann af akstri sínum sjálf. Af lýsingu í stefnu og framlögðum gögnum að dæma megi ljóst vera að allt líkamstjón stefnanda sé að rekja til höfuðhöggsins sem hún hlaut í slysinu. Stefnandi hafi í það minnsta ekki fært fram sönnunargögn um hvort einhvern hluta líkamstjóns hennar megi rekja til annars en höfuðhöggsins. Verði því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Stefndi vísar til þess að í stefnu segi að stefnandi byggi á því að „ástand sleðans sé ósannað og stefndi beri sem eigandi sleðans hallann af sönnunarskorti þar um“. Stefndi fái ekki skilið umrædda málsástæðu. Hafi stefnandi eitthvað við ástand vélsleðans að athuga þá verði stefnandi að tilgreina það með skýrum hætti í stefnu, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og leiða sönnur að því í samræmi við almennar réttarfarsreglur og sönnunarreglur skaðabótaréttar. Það hafi stefnandi ekki gert og beri því að líta framhjá málsástæðu þessari.
Varakrafa stefnda byggir á því að virðulegur dómur komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu efni, þrátt fyrir framangreint, til að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu byggir hann varakröfu sína, um stórlega lækkun krafna stefnanda, á því að kröfur stefnanda séu of háar og í ósamræmi við dómvenju og meginreglur skaðabótaréttar.
Í því sambandi byggir stefndi á sömu sjónarmiðum og varðandi aðalkröfu um eigin sök og áhættutöku stefnanda við akstur sleðans. Vísar stefndi einnig til meginreglna 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 í þessu sambandi, sem og þeirrar staðreyndar að stefnandi hafi ekið sleðanum án hjálms eða annars lögskilins hlífðarbúnaðar, sbr. 1. mgr. 72. gr. umferðarlaga. Telji dómurinn ekki að þær málsástæður eigi að leiða til sýknu þá komi þær í það minnsta til verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda.
Þá leggur stefndi sérstaka áherslu á að stefnandi hefði ekki orðið fyrir því tjóni, sem hún kveðst hafa orðið fyrir, ef hún hefði borið hjálm er slysið varð. Stefnandi verði því í það minnsta að bera sjálf þann hluta tjóns síns, sem rekja megi til höfuðáverka, sem hún hlaut í slysinu. Samkvæmt gögnum málsins verði allt líkamstjón stefnanda rakið til höfuðhöggs sem hún kveðst hafa hlotið í slysinu. Verði ekki séð hvernig stefnandi geti haft uppi skaðabótakröfu á hendur stefnda vegna þessa. Stefnandi hafi ekki fært fram sönnunargögn um hversu stóran hluta líkamstjóns hennar sé að rekja til annars en höfuðhöggsins. Verði stefnanda allt að einu dæmdar bætur úr hendi stefnda vegna slyssins verði þær bætur því einungis dæmdar að álitum og þá afar lágar.
Þá byggir stefndi kröfu sína um lækkun bóta á ákvæðum 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Bótaskylda yrði stefnda þungbær, yrði hún felld á hann, enda sé hann ekki efnamaður. Stefndi njóti ekki ábyrgðartryggingar, sem tekið gæti til bótaskyldu hans. Stefndi hafi ekki verið hálaunamaður, en þar fyrir utan hafi hann nýverið misst starf sitt hjá Ræsi hf., sem hætti starfsemi fyrr á árinu. Þá geti eiginkona hans einungis unnið 50% vinnu utan heimilis. Samanlagðar atvinnutekjur stefnda og eiginkonu hans séu því lágar, en þær hafi samtals numið 249.856 krónum fyrir skatt eftir að stefndi missti vinnuna. Í greinargerð stefnda áskildi hann sér rétt til að leggja fram gögn þar að lútandi á síðari stigum málsins. Yrði stefndi dæmdur til greiðslu skaðabóta í málinu þá yrðu hann og eiginkona hans að taka lán hjá fjármálastofnun til að standa skil á greiðslu bótanna. Sé vandséð hvernig þau munu geta staðið undir afborgunum af slíku láni.
Stefndi telur að við mat á beitingu reglunnar í 24. gr. skaðabótalaga verði að hafa hliðsjón af því að af hans hálfu hafi ekki staðið til að stefnandi æki vélsleðanum í umræddri bílferð. Þá verði og að hafa hliðsjón af háttsemi stefnanda í tengslum við akstur vélsleðans, sem hafi alfarið verið að hennar frumkvæði, sem og af öðrum þeim málsástæðum sem stefndi hafi vísað til hér að framan.
Þá telur stefndi að ekki sé fullreynt hvort stefnandi eigi rétt til bóta úr hendi Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi (ABÍ), þrátt fyrir að ABÍ hafi hafnað málaleitan stefnanda þar að lútandi. Verði í það minnsta ekki séð að höfnun ABÍ byggi á texta þágildandi reglugerðar nr. 556/1993, þar sem segi skýrum stöfum: „Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. skulu bæta tjónþola tjón, sem hlýst af notkun óvátryggðs skráningarskylds ökutækis.“ Stefnandi hafi ekki staðið undir tjónstakmörkunarskyldu sinni að þessu leyti, en stefndi eigi sanngjarna kröfu um að stefnandi leiti leiða til að fá hugsanlegt tjón sitt bætt frá öðrum en stefnda einum.
Í öllu falli skuli stefndi njóta þess ef bótaskylda ABÍ er fyrir hendi, sbr. ákvæði 1. mgr. 25. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Stefndi mótmælir tölulegum útreikningi bótakröfu stefnanda og telur að lækka eigi kröfur stefnanda verulega.
Varðandi bætur vegna tímabundins atvinnutjóns segir stefndi að stefnandi hafi ekki fært fram sönnur á tjóni sínu undir þessu lið, enda liggi ekki fyrir hvort stefnandi hafi orðið af nokkrum tekjum á umræddum tíma eða þá hversu miklum. Sú aðferð, sem stefnandi beiti, að byggja kröfu sína á meðalmánaðarlaunum árið fyrir slys, feli ekki í sér slíka sönnun og hafi verið hafnað í dómaframkvæmd. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda samkvæmt þessum bótalið.
Um bætur vegna tafa í námi o.fl. segir stefndi að stefnandi hafi ekki leitt rök eða sönnur að tjóni sínu samkvæmt þessum bótalið og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda samkvæmt honum.
Þá sé verulega óljóst hvers vegna og að hve miklu leyti stefnandi krefjist greiðslu um bætur vegna útlagðs kostnaðar við lyfjakaup og sjúkraþjálfun, lækniskostnaðar o.fl. undir þessum þætti. Í öllu falli sé slíkt tjón stefnanda ósannað. Hvort tveggja eigi með réttu að leiða til sýknu stefnda af þessum bótalið.
Þá verði ekki séð að stefnandi hafi óskað eftir því skriflega við dómkvadda matsmenn að þeir legðu mat á þennan þátt. Umfjöllun þeirra um þennan þátt komi því stefnda á óvart, en hann hafi ekki átt þess kost að gæta hagsmuna sinna við matið að þessu leyti. Almennar reglur réttarfars leiða því til þess að líta ber framhjá þessum þætti matsgerðar dómkvaddra matsmanna.
Hvað varðar þjáningabætur segir í greinargerð stefnda að hann geri ekki athugasemdir vegna þessa þáttar að svo stöddu, en telur þjáningabótatímabilið ofmetið. Stefndi áskildi sér rétt til að óska eftir yfirmati á þessum þætti líkamstjóns stefnanda, sem og öðrum þáttum þess.
Varðandi miska segir stefndi að í stefnu vísi stefnandi bæði til 26. gr. og 4. gr. skaðabótalaga vegna þessa þáttar. Í öllu falli sé ljóst að stefnandi eigi ekki rétt til bóta úr hendi stefnda á grundvelli 26. gr. laganna.
Stefndi telur varanlegan miska stefnanda ofmetinn í matsgerð dómkvaddra matsmanna og í greinargerð sinni áskildi hann sér rétt til að óska eftir yfirmati á þessum þætti líkamstjóns stefnanda.
Um bætur vegna varanlegrar örorku segir stefndi að alla útreikninga vanti við þennan kröfulið stefnanda, þ. á m. upplýsingar um aldursstuðul samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga og tekjuviðmiðun samkvæmt 7. gr. laganna. Stefndi hafi því ekki átt þess kost að staðreyna kröfuna. Þar eð rökstuðning og útreikninga skorti að baki kröfunni verði tilvist hennar að teljast ósönnuð og beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið.
Þá segir stefndi í greinargerð sinni að stefnandi hafi ekki lagt fram neinar upplýsingar eða yfirlit yfir þær greiðslur, sem stefnandi hafi þegið eða eigi rétt á frá Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóðum, sem koma skuli til frádráttar kröfunni á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Dómkrafa stefnanda að þessu leyti sé þannig óljós, órökstudd og ósönnuð. Beri því að sýkna stefnda af henni.
Enn fremur telur stefndi að kröfur stefnanda um greiðslu bóta vegna tímabundins tekjutaps, tafa í námi og þjáninga séu fyrndar, sbr. m.a. ákvæði 1. málsl. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 29. gr. þágildandi laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Hafi stefnandi enda átt þess kost að hafa þær kröfur uppi þegar á árinu 2002, eða í síðasta lagi á árinu 2003. Hafi þær kröfur því verið fyrndar er mál þetta var höfðað. Krafa stefnanda um greiðslu vaxta, sem eru eldri en fjögurra ára við þingfestingu, sé einnig fyrnd, sbr. að sínu leyti 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og nú 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Áskilur stefndi sér einnig rétt til að bera fyrir sig fyrningu annarra dómkrafna stefnanda.
Stefndi kveður að sökum óvissu í málinu sé því mótmælt að stefnandi eigi rétt til málskostnaðar úr hendi stefnda þó að kröfur hans verði að öðru leyti teknar til greina, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dráttarvextir verði fyrst dæmdir af kröfu stefnanda frá dómsuppsögudegi. Kröfur stefnanda séu bæði óljósar og háðar verulegum vafa, sem hafi gert stefnda nauðsynlegt að taka til varna í máli þessu. Ósanngjarnt sé að stefnandi njóti þess í formi dráttarvaxta. Vísar stefndi að þessu leyti til 9. gr. laga nr. 38/2001.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttar um sýknu eða lækkun skaðabóta vegna eigin sakar og áhættutöku, sem og almennra vátryggingarskilmála. Þá vísar stefndi til ákvæða XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987.
Stefnandi verði sjálf að bera hallann af öllum sönnunarskorti í málinu samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar um sönnun á tjóni og bótagrundvelli.
Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa stefnda um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.
IV.
Í máli þessu er deilt um það hvort stefndi sé bótaskyldur vegna slyss sem stefnandi varð fyrir 12. apríl 2002 er hún féll af vélsleða sem hún var ökumaður á. Ágreiningur er um útreikning og fjárhæð bótakröfunnar og upphafstíma dráttarvaxta. Einnig er ágreiningur um það hvort bótakrafa stefnanda og vaxtakrafa sé fyrnd. Í málinu er óumdeilt að stefndi var eigandi vélsleðans og að sleðinn var ótryggður.
Fyrir liggur að stefnandi varð fyrir tjóni við notkun á vélsleðanum umræddan dag. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna, Sigurðar Thorlacius læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, frá 25. febrúar 2008, hlaut stefnandi alvarlegan höfuðáverka og þurfti að gangast undir aðgerð, þar sem skaddað svæði í hægra gagnaugablaði heilans var fjarlægt. Stefnandi hafði umtalsverð einkenni heilaskaða en með tímanum dró mikið úr þeim. Eftir stendur væg minnisskerðing, væg hegðunarfrávik auk flogaveiki sem krefst lyfjameðferðar sem gera má ráð fyrir að verði ævilöng.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi beri, sem eigandi vélsleðans, ábyrgð á vélsleðanum og sé bótaskyldur vegna alls þess tjóns sem af notkun hans hlýst samkvæmt 90. gr., sbr. 88. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Stefndi telur að lagaákvæði þau sem stefnandi vísar til eigi ekki við í málinu þar sem eigandi ökutækis geti aldrei borið ábyrgð á tjóni ökumanns samkvæmt umferðarlögum. Hlutlæg ábyrgð og vátryggingarskylda samkvæmt 88., 90. og 91. gr. umferðarlaga taki einungis til farþega í ökutækinu, eins og fram komi í fræðiritum og staðfest sé í dómaframkvæmd.
Það hefur verið viðtekin túlkun að stjórnendur ökutækja eigi ekki bótarétt eftir hlutlægri ábyrgðarreglu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Við aðalmeðferð málsins vísaði lögmaður stefnanda til dóms Hæstaréttar í dómasafni réttarins árið 1996, bls. 3049, til stuðnings því að 88. gr. umferðarlaga taki til tjóns sem ökumaður verður fyrir. Í dóminum var til umfjöllunar slys ökumanns vélsleða sem var hvorki skráður né vátryggður lögum samkvæmt. Ágreiningur var um það hjá aðilum málsins hver væri eigandi vélsleðans og höfðaði tjónþoli mál á hendur þremur aðilum til heimtu bóta vegna slyssins. Í forsendum Hæstaréttar er vísað til þess að enginn vafi væri á því að Þ væri eigandi sleðans og væri hann því einn fébótaskyldur samkvæmt 90. gr. umferðarlaga, sbr. 88. gr. laganna. Með hliðsjón af þessum ágreiningi í málinu og þar sem bótakrafa tjónþola var ekki reist á 88. gr. umferðarlaga verður ekki dregin sú ályktun af þessum dómi að stefnandi geti í máli því sem er hér til úrlausnar reist kröfur sínar á hlutlægri ábyrgðarreglu 88. gr. umferðarlaga.
Í málatilbúnaði stefnanda er hins vegar jafnframt vísað til sakarábyrgðar stefnda með því að stefndi hafi vanrækt skráningarskyldu á vélsleðanum og lagaskyldu sína til að tryggja sleðann og beri hann því persónulega ábyrgð á tjóni stefnanda. Vísar stefnandi til 90. gr. umferðarlaga, en í ákvæðinu segir að það sé skráður eða skráningarskyldur eigandi (umráðamaður) vélknúins ökutækis sem beri ábyrgð á því og samkvæmt 93. gr. umferðarlaga hvílir vátryggingarskylda skv. 91. gr. og 92. gr. á eiganda ökutækisins. Stefndi vanrækti þá skyldu að tryggja vélsleðann sérstakri slysatryggingu skv. 92. gr. umferðarlaga og verður af þeirri ástæðu bótaskylda lögð á stefnda vegna slyss stefnanda.
Stefndi telur að stefnandi beri sjálf alla sök á slysinu, en hún hafi ekki notað hjálm og sýnt stórkostlegt gáleysi við aksturinn. Fyrir dómi sagði Sigurður Thorlacius læknir að það hefði getað bjargað ýmsu um afleiðingar slyssins hefði stefnandi notað hjálm. Ekki væri hins vegar hægt að fullyrða um það en líkur væru á því. Verður því ekki staðhæft að hjálmur hefði komið í veg fyrir afleiðingar slyssins. Þá verður að líta til þess að stefnanda stóð ekki til boða hjálmur þar sem stefndi hafði ekki tekið hjálm með í ferðina. Um ástæðu þess að stefndi var ekki með hjálm meðferðis sagði hann að um hafi verið að ræða „gleymsku“, eins og hann orðaði það í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi. Telja verður að á stefnda hafi hvílt sú skylda að sjá til þess að öryggisbúnaður væri fyrir hendi og notaður. Gegn andmælum stefnanda er ósannað að hún hafi þrábeðið stefnda um að fá að aka vélsleðanum og var stefnda í sjálfsvald sett hvort hann leyfði henni að aka sleðanum eða ekki. Jafnframt er ósannað að hún hafi ekið vélsleðanum með ógætilegum hætti. Að öllu þessu virtu verður stefnandi ekki látin bera tjón sitt sjálf að hluta eða öllu leyti vegna eigin sakar eða áhættutöku.
Stefndi gerir kröfu um að bætur til stefnanda verði lækkaðar á grundvelli almennrar heimildar í 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi mótmælir þessu. Ákvæði 24. gr. skaðabótalaga felur í sér heimild til að skerða eða fella niður skaðabótarétt ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi og er einungis unnt að nota þessa heimild í sérstökum undantekningartilvikum. Horfa verður til þess að niðurfelling eða lækkun bóta yrði stefnanda þungbær og hún hefur ekki getað fengið tjón sitt bætt með öðrum hætti en úr hendi stefnda. Stefnda var í lófa lagið að leggja fram gögn til að sýna fram á að fjárhagsstaða hans eða félagslegar aðstæður séu með þeim hætti að bótaskylda yrði honum svo þung að ástæða sé til að lækka bótafjárhæð eða fella niður skaðabótaábyrgð hans, en það hefur hann ekki gert. Framlagt gjafsóknarleyfi getur ekki dugað í því sambandi. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að aðstæður séu að öðru leyti óvenjulegar þannig að leitt geti til lækkunar eða niðurfellingar bótaskyldu.
Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu að takmarka tjón sitt með því að fullreyna hvort hún eigi rétt til bóta úr hendi Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi (ABÍ). Fyrir liggur í gögnum málsins að stefnandi beindi bótakröfu til ABÍ en var synjað um hana þar sem slysið væri ekki bótaskylt samkvæmt reglugerð nr. 556/1993. Einnig liggur fyrir bréf Lífeyrissjóðs verslunarmanna um að stefnandi uppfylli ekki skilyrði sjóðsins til að fá örorkulífeyri og í bréfi Sjúkratrygginga Íslands segir að slys stefnanda falli ekki undir slysatryggingu almannatrygginga. Er því ekki fallist á að hún hafi ekki reynt að fá tjón sitt bætt frá öðrum en stefnda. Þá er ekki fallist á að það að stefnandi hafi ekki sótt um örorkulífeyri til Tryggingarstofnunar ríkisins geti leitt til þess að stefndi verði hér ekki dæmdur til að greiða henni bætur, enda ekki ástæða til að ætla að hún uppfylli læknisfræðileg skilyrði til að fá slíkan lífeyri.
Verður þá tekin afstaða til einstakra kröfuliða í bótakröfu stefnanda.
Stefnandi krefst bóta vegna tafa á námi með vísan til 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, Sigurðar Thorlacius læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl., er við ákvörðun varanlegrar örorku litið til þess að hún hafi lokið námi tveimur árum á eftir jafnöldrum sínum og að líklegt sé að nám verði henni erfiðara en áður. Verða henni því ekki dæmdar sérstaklega bætur skv. 1. gr. skaðabótalaga vegna tafa á námi. Stefnandi gerir einnig, með vísan til 1. gr. skaðabótalaga, kröfu um bætur vegna kostnaðar sem hún hafi haft vegna lyfja og sjúkraþjálfunar, lækniskostnaðar o.fl. Stefndi mótmælir kröfunni. Engin gögn liggja fyrir um útlagðan kostnað eða upplýsingar um þjónustu sem hún hafi þurft á að halda. Er ekki fallist á að stefnanda sé svo örðugt að sýna fram á slíkan kostnað, eða upplýsa um hann, þannig að bætur verði dæmdar að álitum. Er þessum kröfulið því hafnað.
Kröfu sína um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón byggir stefnandi á 2. gr. skaðabótalaga og er krafan að fjárhæð 312.768 krónur. Fyrir slysið vann stefnandi hlutastarf með skóla og lögð hafa verið fram gögn um launatekjur stefnanda á árinu 2001. Með hliðsjón af þessu og þar sem stefnandi var óvinnufær í sex mánuði samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, sem ekki hefur verið hnekkt með yfirmati, hefur verið sýnt fram á að hún eigi rétt til bóta vegna tímabundins atvinnutjóns. Verður því fallist á þennan kröfulið stefnanda.
Krafa stefnanda um þjáningabætur á grundvelli 3. gr. skaðabótalaga er að fjárhæð 240.740 krónur og er byggð á niðurstöðu matsmanna. Verður stefndi því dæmdur til að greiða henni þennan kröfulið.
Þá verður stefnda gert að greiða stefnanda bætur vegna varanlegs miska á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, að fjárhæð 1.358.700 krónur, enda hefur niðurstöðu matsmanna um miskastig ekki verið hnekkt með yfirmati.
Krafa stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku byggir á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna og er nægilega rökstudd. Verður því fallist á þennan kröfulið að fjárhæð 6.311.463 krónur.
Sérregla 99. gr. umferðarlaga um fyrningu bótakrafna á ekki við um skaðabótakröfu stefnanda þar sem bótaskylda stefnda er grundvölluð á almennri sakarreglu og er bótakrafa stefnanda ófyrnd, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, nú 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Mál þetta var höfðað 20. júní 2008 og teljast vextir af kröfunni fyrir 20. júní 2004 því fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, nú 3. gr. laga nr. 150/2007.
Með vísan til framangreinds verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 8.223.671 krónu með 4,5% vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, frá 20. júní 2004 til 6. apríl 2008, en með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði frá þeim tíma til greiðsludags, en þá var liðinn mánuður frá því stefnandi lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Stefnandi fékk útgefið gjafsóknarleyfi 20. febrúar 2007 vegna reksturs málsins. Gjafsóknarkostnaður hennar greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Guðmundar Ómars Hafsteinssonar hdl., sem ákveðst, með hliðsjón af málskostnaðarreikningi, 1.187.610 krónur. Stefndi fékk útgefið gjafsóknarleyfi 23. janúar 2009 og því greiðist gjafsóknarkostnaður hans einnig úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Daníels Isebarn Ágústssonar hdl., sem er ákveðin, með hliðsjón af málskostnaðarreikningi, 1.324.324 krónur. Við ákvörðun málflutningsþóknunar hefur í báðum tilvikum verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Garðar Haraldsson, greiði stefnanda, Natalie Tess Aðalsteinsdóttur, 8.223.671 krónu með 4,5% vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, frá 20. júní 2004 til 6. apríl 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Guðmundar Ómars Hafsteinssonar héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 1.187.610 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Þá greiðist allur gjafsóknarkostnaður stefnda úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Daníels Isebarn Ágústssonar héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 1.324.324 krónur.