Hæstiréttur íslands
Mál nr. 45/1999
Lykilorð
- Sameignarfélag
- Ábyrgð
- Fyrning
- Vanlýsing
|
Föstudaginn 18. júní 1999. |
|
|
Nr. 45/1999. |
Steinar Harðarson og Henning Þorvaldsson (Valgarður Sigurðsson hrl.) gegn Lífeyrissjóðnum Lífiðn (Guðni Á. Haraldsson hrl.) |
Sameignarfélag. Ábyrgð. Fyrning. Vanlýsing.
Sameignarfélagið R gaf úr skuldabréf í janúar 1990 og voru H og S, tveir af eigendum félagsins, sjálfskuldarábyrgðarmenn á bréfinu. Bréfið var framselt L í febrúar 1990. Var bréfið í vanskilum frá því í byrjun janúar 1991. Bú R, H og S voru tekin til gjaldþrotaskipta í september 1992 og var kröfu á grundvelli skuldabréfsins ekki lýst í búin. Árið 1998 höfðaði L mál til innheimtu skuldarinnar. Talið var að sem eigendur R hefðu H og S borið ábyrgð á skuldbindingum félagsins, og var ábyrgðin talin sambærileg því að þeir hefðu lýst yfir sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingunum. Var fyrning kröfu L talin ráðast af ákvæði 4. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, hvort sem ábyrgð S og H væri studd við yfirlýsingu þeirra um sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfinu eða stöðu þeirra sem eigenda að félaginu. Var fyrningartími kröfunnar því löngu liðinn þegar mál var höfðað, enda hafði L ekki borið því við að nokkuð hefði verið aðhafst fyrr til að rjúfa fyrningu hennar. Voru S og H sýknaðir af kröfum L.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 4. febrúar 1999 að fengnu áfrýjunarleyfi. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málið var tekið til dóms í héraði eftir munnlegan flutning þess 3. september 1998. Við uppkvaðningu héraðsdóms 29. október sama árs var því lýst yfir að aðilarnir teldu ekki þörf á að málið yrði flutt á ný, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt gögnum málsins tilkynntu áfrýjendur ásamt Sigurbjarti Á. Þorvaldssyni firmaskrá Hafnarfjarðar 16. júní 1987 að þeir hefðu stofnað sameignarfélagið Reisi. Félagið gaf út 31. janúar 1990 skuldabréf, sem áfrýjendur rituðu jafnframt nöfn sín á sem sjálfskuldarábyrgðarmenn. Fjárhæð skuldarinnar var 500.000 krónur, sem bar að greiða með tólf jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 3. mars 1990, ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Óumdeilt er að staðið hafi verið skil á greiðslum samkvæmt bréfinu allt til gjalddaga 3. janúar 1991, en tvær síðustu afborganirnar hafi hins vegar ekki greiðst. Skuldabréfið er nú í eigu stefnda. Í málinu krefur hann áfrýjendur um greiðslu eftirstöðva skuldarinnar.
Bú beggja áfrýjenda, fyrrnefnds Sigurbjarts og Reisis sf. voru tekin til gjaldþrotaskipta 28. september 1992. Skiptum var í öllum tilvikunum lokið 26. nóvember 1993 án þess að greiðsla fengist upp í almennar kröfur. Kröfu var ekki lýst í þrotabúin á grundvelli skuldabréfsins. Var fyrning skuldarinnar því ekki rofin með gjaldþrotaskiptum á búum áfrýjenda, sbr. 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með því að krafan hefði að engu leyti fengist greidd með lýsingu hennar glataði stefndi hins vegar ekki rétti á hendur áfrýjendum með vanlýsingu.
Sem eigendur Reisis sf. báru áfrýjendur ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Sú ábyrgð á öllum skuldum félagsins var sams konar og ef áfrýjendur hefðu lýst yfir sjálfskuldarábyrgð á þeim, sbr. dóma Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 911, og 1996, bls. 455. Ræðst því fyrning kröfu stefnda á hendur áfrýjendum af ákvæði 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, hvort sem ábyrgð þeirra er studd við yfirlýsingu þeirra um sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi stefnda eða stöðu þeirra sem eigenda að félaginu. Fyrningarfrestur hófst þegar krafan varð gjaldkræf á gjalddögum 3. janúar og 3. febrúar 1991, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905. Þegar málið var höfðað með birtingu stefnu 11. febrúar 1998 var fyrningartími kröfu stefnda löngu liðinn, enda hefur hann ekki borið því við að nokkuð hafi fyrr verið hafst að til að rjúfa fyrningu hennar. Samkvæmt því verður fallist á kröfu áfrýjenda um sýknu.
Eftir þessum úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi handa hvorum þeirra um sig eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Steinar Harðarson og Henning Þorvaldsson, eru sýknir af kröfum stefnda, Lífeyrissjóðsins Lífiðnar.
Stefndi greiði áfrýjendum hvorum um sig samtals 100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. október 1998.
Málið var dómtekið 3. september sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi er Lífeyrissjóðurinn Lífiðn kt. 581096-2759, áður Lífeyrissjóður Rafiðnaðarmanna, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, en stefndu eru Henning Þorvaldsson, kt. 260443-2679, Sléttahrauni 27, Hafnarfirði, Steinar Harðarson kt. 191052-7069, Lækjarhvammi 14, Hafnarfirði og Reisir sf. kt. 560687-1849, Reykjavíkurvegi 60, Hafnarfirði.
Dómkröfur
1. Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða honum skuld að fjárhæð kr. 84.303.- ásamt dráttarvöxtum frá 3. janúar 1991 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að stefndu greiði málskostnað auk virðisaukaskatts. Um dráttavexti er vísað til III. kafla laga nr. 25/1987 með breytingum fram að greiðsludegi.
2. Stefndu krefjast alfarið sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefndu verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu og beri málskostnaður dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. degi eftir dómsuppsögu til greiðsludags, sem höfuðstólfærist á 12 mánaða fresti.
Málavextir
Þann 29. nóvember 1989 gaf stefndi Reisir sf. út skuldabréf að fjárhæð kr. 500.000.- og skyldi skuldin endurgreiðast með 12 jöfnum afborgunum á 1 mánaða fresti í fyrsta sinn 3. mars 1990. Vextir skyldu vera meðalvextir banka og sparisjóða á hverjum tíma skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands, sem þá voru 29,3 % á ári. Sjálfskuldarábyrgðaraðilar á bréfinu in solidum eru stefndu Henning og Steinar. Bréfið var framselt Lífeyrissjóði rafiðnaðarmanna 5. febrúar 1990. Ábyrgðaraðilum skuldabréfsins var stefnt 27. nóvember 1990 vegna vanskila, en málið var hafið, er bréfinu var komið í skil, en það samt verið í vanskilum frá 3. janúar 1991.
Stefndi Reisir sf. var tekinn til gjaldþrotaskipta 28. september. Bú stefndu Steinars og Hennings voru tekin til gjaldþrotaskipta 28. september sama ár. Kröfu á grundvelli framangreinds skuldabréfs var ekki lýst í bú stefnda Reisis sf. né í bú stefndu, Steinars og Hennings og voru skiptalok í öllum þrotabúunum 26. nóvember 1993.
Málástæður og lagarök
1. Stefnandi byggir kröfu sína á skuldabréfinu og vanskilum á því sem nemi kr. 83.333.- og við bætast samningsvextir til 3. janúar 1991. Um málskostnað er vísað til XVII. kafla laga nr. 91/1991 og ákvæða skuldabréfsins, um vexti er vísað til laga nr. 25/1987 og um virðisaukaskatt til laga nr. 59/1988. Í málflutningi lagði stefnandi áherslu á að stefndu, Henning og Steinar, sem sameigendur að Reisi sf. bæru persónulega og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins, þ.ám. á eftirstöðvum skuldabréfsins.
2. Stefndu byggja á því að skuldabréfið hafi verið í vanskilum frá 3. janúar 1991 eða rúmlega átta ár og engar aðgerðir verið hafðar uppi til að rjúfa fyrningu ábyrgðarskuldbindingarinnar frá því málið, sem höfðað var 27. nóvember 1990, var hafið. Krafa stefnanda sé byggð á sjálfskuldarábyrgð stefndu á ábyrgð skuldar, en slíkar skuldir fyrnist á 4 árum frá gjalddaga, sbr. 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 og sé því krafan á hendur þeim fallin niður fyrir fyrningu og er vísað til reglna kröfuréttarins um fyrningu skuldbindinga sbr. lög nr. 14/1905 varðandi sýknukröfuna. Um málskostnaðarkröfuna og dráttavexti á hann, er vísað til 1. mgr. 130. gr. og 4. tl. 129. gr. laga nr. 91/1991 og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Stefndi hefur í málflutningi mótmælt þeirri málsástæðu, að stefndu Henning og Steinar beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldinni samkvæmt skuldabréfinu og hefur mótmælt henni sem of seint fram kominni.
Niðurstöður
Mál þetta er höfðað gegn stefndu Henning og Steinari persónulega og fyrir hönd sameignarfélags þeirra Reisi sf. og í lagarökum í stefnu kemur fram að byggt sé á ákvæðum skuldabréfsins. Stefnandi fer ekki út fyrir þessa röksemdarfærslu, er hann heldur því fram, að stefndu beri ótakmarkaða ábyrgð sem aðalskuldarar skuldabréfsins sem sameigendur að Reisi sf. en í nafni þess var ritað undir bréfið og er því ekki um of seint fram komna málsástæðu að ræða.
Skiptalok á þrotabúi stefndu hefur ekki þau áhrif að þeir stefndu Henning og Steinar losni undan ábyrgð sinni á skuldum Reisis sf. sem eigendur félagsins, heldur hefur vanlýsing á stefnukröfunni í þrotabú stefndu þau áhrif, að ekki verður gengið að eignum þrotabúanna til að fá greiðslu hennar, sbr. 165. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991. Hins vegar verður að telja með vísan til sömu greinar að vanlýsingin hafi valdið því að ekki hafi verið rofin fyrning að því er kröfu stefnanda á hendur stefndu, sem sjálfskuldarábyrgðarmönnum á eftirstöðvum skuldanna skv. bréfinu og er hún því fallin niður vegna fyrningar sbr. 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905. Þá verður og með tilvísun í 2. tl. sömu greinar að telja að gjaldkræfir vextir af skuldabréfinu, sem ná lengra aftur en 4 ár frá birtingu stefnu í málinu þ.e. frá 11. febrúar 1998 séu niður fallnir sakir fyrningar, 1. og 2. tl. 1. mgr. 73. gr. gjaldþrotalaga miðast eingöngu við þær kröfur, sem eru til umfjöllunar í þrotabúinu, og því á greinin ekki við um kröfu stefnanda.
Í málinu eru stefndu, Henning og Steinar, sem sameigendur að Reisi sf. dæmdir til að greiða eftirstöðvar skuldarinnar skv. skuldabréfinu kr. 83.333.- auk dráttavaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. febrúar 1994 til greiðsludags og má höfuðstólsfæra þá sbr. 12. gr. vaxtalaganna. Ekki er efni til að leggja skuldir sérstaklega á Reisi sf. þar sem að það er ekki lengur starfandi.
Eftir þessum úrslitum þykir rétt að dæma stefndu, Henning og Steinar, til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst kr. 85.000.- að meðtöldum virðisaukaskatti.
Töluverður dráttur hefur orðið á dómsuppsögu sem stafar af dvöl dómarans erlendis meginhluta septembermánaðar og svo önnum við önnur mál.
Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndu, Henning Þorvaldsson og Steinar Harðarson, greiði stefnanda, Lífeyrissjóðnum Lífiðn, kr. 83.333.- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga frá 11. febrúar 1994 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda í málskostnað kr. 85.000.- að meðtöldum virðisaukaskatti.