Hæstiréttur íslands
Mál nr. 730/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 16. október 2014. |
|
Nr. 730/2013.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Birni Finnssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Upptaka.
B var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir vörslur á barnaklámi. Farið var með málið sem játningarmál í héraði og refsing B ákveðin 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Þá var honum gert að sæta upptöku á tilteknu myndefni og tölvubúnaði. Fyrir Hæstarétti dró B játningu sína til baka og hélt því fram að menn, sem brotist hefðu inn í íbúð hans, hefðu halað niður hinu ólögmæta efni. Breyttur framburður B þótti á hinn bóginn enga stoð eiga í gögnum málsins og var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um sakfellingu B. Var refsing hans ákveðin tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um upptöku staðfest.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. nóvember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og staðfest ákvæði héraðsdóms um upptöku á tölvubúnaði, ljósmyndum og hreyfimyndum. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hann málsvarnarlauna.
Fyrir héraðsdómi var farið með mál þetta sem játningarmál samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði játaði sakargiftir bæði hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi að viðstöddum verjanda sínum. Fyrir Hæstarétti dró ákærði játningu sína til baka. Hann heldur því fram að hann hafi ekki halað niður hinu ólögmæta efni heldur hafi þar verið að verki menn sem brutust inn í íbúð hans. Þessi staðhæfing hans fær enga stoð í gögnum málsins og verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða.
Þegar tekið er tillit til þess að myndefni það, sem ákært er fyrir, er að hluta til mjög gróft telst refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði en fallist er á það með héraðsdómi að fresta skuli fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er staðfest ákvæði héraðsdóms um upptöku og málsvarnarlaun.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Björn Finnsson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og málsvarnarlaun eru staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 387.887 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 5. júlí 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 1. júlí sl., er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru, dagsettri 12. júní 2013, á hendur Birni Finnssyni, kt. [ ],[ ],[ ] fyrir kynferðisbrot, með því að hafa föstudaginn 6. júlí 2012, og um nokkurt skeið fram til þess dags, á þáverandi heimili sínu að [ ] í [ ], haft í vörslum sínum á Spire turntölvu 160 ljósmyndir og á Ace turntölvu 8 ljósmyndir og 5 hreyfimyndir, sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, en tölvubúnaðurinn með myndefninu var haldlagður þann sama dag.
Er þetta talið varða við 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er jafnframt krafist að framangreint myndefni og Spire og Ace turntölvur, sem lögregla lagði hald á, verði gert upptækt samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 19/1940.
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði.
Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur árið 1949 og hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot svo kunnugt sé. Hann hefur játað brot sitt hjá lögreglu og fyrir dómi. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Myndefni og tölvubúnaður sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins skulu gerð upptæk eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Björn Finnsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Upptæk skulu vera Spire turntölva, Ace turntölva, 168 ljósmyndir og 5 hreyfimyndir, sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt og lögregla lagði hald á.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.