Hæstiréttur íslands

Mál nr. 194/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Föstudaginn 23. mars 2012.

Nr. 194/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. mars 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. mars 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að beitt verði úrræðum 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í hinum kærða úrskurði er við mat á skilyrðum gæsluvarðhalds á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 173/2012 sem kveðinn var upp 19. þessa mánaðar. Sú tilvísun á ekki við þar sem mat á lagaskilyrðum fór fram miðað við stöðu rannsóknarinnar þann dag sem dómurinn var kveðinn upp. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði X, kt. [...], til að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. mars nk. kl. 16. Þá er þess jafnframt krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að lögregla hafi haft til rannsóknar þrjú alvarleg líkamsárásarmál sem kærði er sterklega grunaður um að eiga aðild að, ásamt öðrum nafngreindum mönnum. Um sé að ræða eftirgreind mál:

Mál nr. 007-2012-665 sem varði brot X, kt. [...], Y, kt. [...], Z, kt. [...], Q, kt. [...], R, kt. [...], S, kt. [...], T, kt. [...], U, kt. [...], V, kt. [...], fyrir húsbrot og sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 4. janúar 2012, í félagi, ruðst í heimildarleysi inn í íbúðarhús við [...] í [...]og veist þar að A, B og C, sem þar voru staddir og slegið þá ítrekað í höfuð og víðs vegar um líkama með hættulegum vopnum og bareflum, þ. á m. golfkylfum, plastkylfu, hafnaboltakylfu, handlóðum og tréprikum, með þeim afleiðingum að A, kt. [...], hlaut þverbrot á hægri sköflungi, brot á hægri hnéskel, 6 cm opinn og gapandi skurð á framanverðum hægri sköflungi, bólgur og mar á hægri fótlegg, úlnliðum og höndum.  C hlaut skurð á enni.  B, kt. [...], hlaut 3 cm, stjörnulaga sár á hnakka, brot á ölnarbol, skrapsár á báðum öxlum, stórt mar á upphandlegg vinstra megin, mar á báðum framhandleggjum yfir öln, mar á miðjum framhandlegg og mar á vísifingri hægri handar.

                Sé háttsemin talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 231. gr. almennra hegningarlaga.

Mál nr. 007-2012-13402 sem varði brot X, kt. [...], Y, kt. [...], og R, kt. [...], fyrir hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung, í félagi, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 15. desember 2011, í íbúðarhúsnæði að [...] í [...], veist að D, sem þar var staddur, Y með því að slá D í hnakkann með tréspýtu, rifið í vinstra eyra hans og slegið hann í vinstri kjálkann og að lokum neytt E, sem var gestkomandi í íbúðinni, til að kasta af sér þvagi yfir höfuð D með því að hóta að beita hann ofbeldi ef hann léti ekki verða af því. Þá hafi Y slegið F, sem einnig var staddur í íbúðinni, aftanvert í höfuðið með tréspýtu þar sem hann sat á sófa í stofu íbúðarinnar svo hann féll í gólfið og þar sem hann lá í jörðinni, í félagi við fleiri, sparkað í bak hans og dregið hann inn á salerni íbúðarinnar þar sem X sló hann í andlitið og X og Y haft í hótunum við hann að senda á hann menn ef hann kærði árásina, með þeim afleiðingum að F hlaut stóran skurð hliðlægt á höfði vinstra megin.

Sé háttsemin talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 225. gr. almennra hegningarlaga.

Mál nr. 007-2012-14588 sem varði ætlað brot X, kt. [...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa 12. október 2011 að [...] í [...] ráðist á G, kt. [...], og H, kt. [...], slegið G í andlit og maga, tekið hann kverkataki og hert að með þeim afleiðingum að G missti meðvitund, þá hlaut hann glóðarauga og jafnframt slegið H í andlitið þannig að hann féll í gólfið og þar sparkað í líkama hans þar sem hann lá í gólfinu og stigið á höfuð hans, allt með þeim afleiðingum að H hlaut áverka í andliti, glóðarauga og sár á eyra.

Sé þessi háttsemi talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Í öllum þessum þremur málum liggi fyrir framburðir brotaþola og vitna um þátt kærða og meðkærðu. Í málunum liggi fyrir læknisvottorð sem styðji frásagnir brotaþola. Þá liggi einnig fyrir framburðir annarra sakborninga um þátt kærða í málunum.

Rannsókn þessara mála sé ekki lokið. Rannsókn fyrstnefnda málsins 007-2012-665 sé langt á veg komin. Rannsókn mála nr. 007-2012-13402 og -14588 sé hvergi nærri lokið, en í þeim málum hafi flestir brotaþolar og vitni gefið skýrslur eftir að kærði og meðkærði Y voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald 15. mars sl. Að sögn þeirra var ástæðan sú að umræddir aðilar óttuðust mjög kærða og meðkærða Y.

Mál þessi séu umfangsmikil og um tíma hafi átta aðilar setið í gæsluvarðhaldi vegna þeirra. Lögregla eigi enn eftir að yfirheyra frekar kærða og aðra sakborninga, sem hafa verið afar ósamvinnuþýðir og lítið vilja tjá sig um málin. Þá liggi fyrir lögreglu að taka frekari skýrslur af vitnum, jafnframt sem beðið sé niðurstaðna tæknirannsókna á ofangreindum brotavettvangi.

Í tengslum við rannsókn ofangreindra líkamsárásamála hafi lögregla þann 14. og 16. mars framkvæmt húsleitir í húsnæðum sem tilheyra kærða og meðkærða Y. Lögregla hafi fundið þar og lagt hald á mikið magn muna sem lögregla telji að séu annars vegar þýfi og hins vegar munir sem kærði og meðkærði Y hafi tekið af fólki með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi. Lögreglu hafi borist ábendingar um að kærði og meðkærði Y geri út hóp manna, sem leggi stund á innbrot, sölu fíkniefna og fjárkúganir, þ.e. handrukkun.

Hafi lögregla nú þegar rakið hluta þessara muna til innbrota og annarra auðgunarbrota. Í málinu hafi komið fram framburður eins aðila, sem gefinn var 19. mars sl., um að hann hafi að beiðni kærða X lagt stund á innbrot og önnur auðgunarbrot. Hafi hann nefnt í því skyni fimm innbrot inn á heimili fólks. Kvaðst hann hafa afhent X þýfið úr þessum innbrotum, upp í skuld sem X hefði lagt á hann. Kærði sé nú undir sterkum grun um aðild að mjög hrottafengnum og hættulegum líkamsárásum, þá sé hann og undir rökstuddum grun um að standa fyrir skipulagðri starfsemi auðgunarbrota. Það sé því afar brýnt að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, þannig að lögregla hafi svigrúm til þess að ná betur utan um málin og tryggja rannsóknarhagsmuni þeirra. Í ljósi brotaferils kærða megi gera fastlega ráð fyrir því að hann muni reyna að hafa áhrif á framburði vitna og annarra sakborninga gangi hann frjáls ferða sinna.

Í máli þessu liggi fyrir dómur Hæstaréttar Íslands nr. 173/2012 um að lagaskilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála sé uppfyllt í máli þessu. Ekkert nýtt hafi komið fram í málinu sem breytt geti því mati, heldur frekar að það mat hafi styrkst með hinum nýju brotum sem lögregla hafi nú til rannsóknar.

Með vísan til alls ofangreinds, gagna málsins og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild að mjög hrottafengnum og hættulegum líkamsárásum og jafnframt undir rökstuddum grun um að standa fyrir skipulagðri starfsemi auðgunarbrota. Rannsókn málanna er ekki lokið. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málanna með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála svo og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 173/2012, er því fallist á kröfur lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. mars 2012, kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.