Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-173

Ólöf Sigurðardóttir, Elísabet Sigurðardóttir, Sesselja Kristín Sigurðardóttir, Pétur Jónsson, Jón Pétursson, Sigurður Pétursson og Pétur Ingi Pétursson (Guðjón Ármannsson lögmaður)
gegn
Vilhjálmi Einari Sumarliðasyni, Evu Ingibjörgu Sumarliðadóttur, Jóhannesi Torfa Sumarliðasyni, Þórdísi M. Sumarliðadóttur, Ólöfu S. Sumarliðadóttur, Pétri Ísleifi Sumarliðasyni, Sveinbjörgu R. Sumarliðadóttur og Ágústi Páli Sumarliðasyni (Ingi Tryggvason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Veiðiréttur
  • Jörð
  • Fasteign
  • Kaupsamningur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 18. júní 2020 leita Ólöf Sigurðardóttir, Elísabet Sigurðardóttir, Sesselja Kristín Sigurðardóttir, Pétur Jónsson, Jón Pétursson, Sigurður Pétursson og Pétur Ingi Pétursson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. maí 2020 í málinu nr. 470/2019: Ólöf Sigurðardóttir, Elísabet Sigurðardóttir, Sesselja Kristín Sigurðardóttir, Pétur Jónsson, Jón Pétursson, Sigurður Pétursson og Pétur Ingi Pétursson gegn Vilhjálmi Einari Sumarliðasyni, Evu Ingibjörgu Sumarliðadóttur, Jóhannesi Torfa Sumarliðasyni, Þórdísi M. Sumarliðadóttur, Ólöfu S. Sumarliðadóttur, Pétri Ísleifi Sumarliðasyni, Sveinbjörgu R. Sumarliðadóttur og Ágústi Páli Sumarliðasyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á því að þeir eigi, sem eigendur jarðarinnar Ferjubakka 3-Efstibær, veiðirétt fyrir landspildu úr landi jarðarinnar Ferjubakka 3, sem var undaskilinn við sölu jarðarinnar samkvæmt kaupsamningi 27. október 1943. Leyfisbeiðendur eru núverandi eigendur landspildunnar. Með dómi héraðsdóms var krafa gagnaðila tekin til greina og talið að við sölu jarðarinnar hefði verið ólögmætt samkvæmt þágildandi lögum nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði að skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti frá landareigninni. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms og vísaði til þess að hlutfallsleg veiðiréttindi fyrir landspildunni, með takmörkunum sem leiddu af lögmætu samkomulagi frá árinu 1891 um skiptingu veiði milli nærliggjandi jarða, hefðu fylgt með við sölu jarðarinnar.

Leyfisbeiðendur telja að málið hafi víðtækt fordæmisgildi um gildi sameignarreglu laga nr. 112/1941, sem sé efnislega sambærileg þeirri reglu sem nú er að finna í lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, gagnvart svonefndri bújarðareglu sem slegið hafi verið fastri með dómi Hæstaréttar 3. mars 2016 í máli nr. 530/2015. Þá telja leyfisbeiðendur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem hann fari á skjön við niðurstöðu Hæstaréttar 20. apríl 2018 í máli nr. 169/2017. Í dóminum sé með engu móti rökstutt hvernig hægt sé að horfa fram hjá þágildandi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 112/1941 sem kveðið hafi á um að væri landareign eða veiðiréttur í óskiptri sameign væri sameigendum öllum veiði jafnheimil. Loks telja leyfisbeiðendur að málið varði mikilvæga hagsmuni sína sem séu fólgnir í þeim veiðiréttindum sem undir eru í málinu.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi, umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið, né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.