Hæstiréttur íslands
Mál nr. 66/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Skattur
|
|
Þriðjudaginn 7. febrúar 2006. |
|
Nr. 66/2006. |
Hólmfríður Á. Vilhjálmsdóttir(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Tollstjóranum í Reykjavík (Guðfinna H. Þórsdóttir fulltrúi) |
Kærumál. Fjárnám. Skattar.
H krafðist þess að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem gert var í fasteign hennar til tryggingar skattaskuldum sambýlismanns hennar. Talið var að þar sem H og sambýlismaðurinn hefðu talið fram sameiginlega til skatts allt frá árinu 1994 og notið þess hagræðis sem samsköttun fylgdi væru fyrir hendi þær aðstæður sem veittu T heimild til að krefja H um skattaskuld sambýlismanns hennar, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/1993. Var hin umdeilda fjárnámsgerð því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. janúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2006, þar sem staðfest var fjárnám, sem gert var að kröfu varnaraðili 22. júní 2005, í eignarhluta sóknaraðila í Garðsstöðum 3, Reykjavík. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hólmfríður Á. Vilhjálmsdóttir, greiði varnaraðila, Tollstjóranum í Reykjavík, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2006.
Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur með beiðni móttekinni 15. júlí 2005. Málið var þingfest 22. ágúst 2005 og tekið til úrskurðar 14. desember 2005.
Sóknaraðili er Hólmfríður Á. Vilhjálmsdóttir, [kt.], Garðastöðum 3, 112 Reykjavík.
Varnaraðili er Tollstjórinn í Reykjavík, Tryggvagötu 19, 101 Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík, nr. 011-2005-07318, sem fram fór hjá sóknaraðila þann 22. júní 2005 að kröfu varnaraðila í eignarhluta hennar í Garðastöðum 3, fnr. 223-9270, Reykjavík, fyrir krónum 4.644.749, verði felld úr gildi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Endanlegar dómkröfur varnaraðila eru að kröfum sóknaraðila verði hrundið og að fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2005-07318, sem fram fór að kröfu varnaraðila þann 22.06.2005, verði staðfest fyrir höfuðstólsfjárhæð kr. 3.019.841, auk áfallandi dráttarvaxta og annars kostnaðar til greiðsludags. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
I
Með aðfararbeiðni varnaraðila dagsettri 10. mars 2005 var þess óskað að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila til tryggingar skuldar maka hennar, Ásgeirs Jóhannesar Kristjánssonar, að höfuðstól kr. 3.019.841 en samtals kr. 4.644.749, auk áfallandi dráttarvaxta skv. vaxtalögum nr. 38/2001 til greiðsludags og alls kostnaðar af frekari fullnustugerðum ef til þeirra komi. Skuldin er sögð vera vegna vangoldinna opinberra gjalda makans samkvæmt gjaldaseðli og meðfylgjandi greiðsluseðli. Um heimild til fjárnáms er vísað til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 5. gr. 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekju og eignaskatt. Hinn 22. júní 2005 var gert fjárnám til tryggingar skuldinni í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Garðastöðum 3, Reykjavík.
Sóknaraðili og sambýlismaður hennar voru skráð í óvígðri sambúð frá 02.12. 1992 til 16.02.2005. Fjárnám það sem um er deilt í málinu var gert vegna opinberra gjalda sambýlismannsins fyrir álagningarárin 2001, 2002, 2003 og 2004 (þ.e. tekjuár 2000-2003). Fjárnámið fór fram að sóknaraðila fjárstöddum.
Með bréfi lögmanns sóknaraðila dagsettu 2. febrúar 2005 til varnaraðila var því lýst yfir að ekki sé fallist á að sóknaraðili beri ábyrgð á opinberum gjöldum sambýlismanns síns. Vísað er til þess að reglur 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekju- og eignaskatt um að hjón beri óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og að innheimtumaður ríkissjóðs geti gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja eigi ekki við þar sem sóknaraðili og sambýlismaður hennar hafi ekki bæði lýst því yfir að þau óskuðu samsköttunar eins og áskilið sé í 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003.
II
Sóknaraðili byggir á að hún sé ekki skuldari þeirra opinberu gjalda sem fjárnámið var gert vegna og að hún beri ekki ábyrgð á opinberum gjöldum sambýlismanns síns. Hún hafi aldrei með nokkrum gerningi samþykkt slíka ábyrgð. Vísar hún til þess að ákvæði 116. gr. laga um tekju- og eignaskatt nr. 90/2003 um óskipta ábyrgð á greiðslum skatta gildi eingöngu um samskattað sambúðarfólk. En í 3. mgr. 62. gr. laganna komi fram að sambúðarfólk telji ekki fram saman nema það sæki um það sérstaklega. Sóknaraðili nefnir einnig að á meðan ekki liggi fyrir yfirlýsing til skattstjóra frá báðum sambúðaraðilum í þessu tilviki þá sé ekki um samskattaða einstaklinga að ræða. Um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun, sem verði að túlka þröngt gagnvart sóknaraðila og reglum kröfuréttarins um ábyrgðir.
III
Varnaraðili byggir á að sóknaraðili og sambýlismaður hennar hafi óskað sérstaklega eftir samsköttun með því að rita bæði undir og skila inn sameiginlegum framtölum áranna 2001, 2002, 2003 og 2004. Þar með hafi sóknaraðili notið þess skattalega hagræðis sem samsköttun fylgi jafnframt því að gangast undir þá óskiptu ábyrgð sem henni sé samfara. Bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi fyrst óskað eftir samsköttun með sambýlismanni sínum með því að rita ásamt honum undir sameiginlegt skattframtal 1994 í dálk 6 á forsíðu. Þetta teljist nægjanlegt skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 og geri þar með samábyrgð sóknaraðila og sambýlismanns hennar á skattkröfum hvors annars virka sbr. 116. gr. laganna. Hafi samsköttunin varað í tíu ár og hafi sóknaraðili ekki séð ástæðu til að vefengja ábyrgð sína allan þann tíma fyrr en nú. Af framlögðum afritum álagningarseðla sóknaraðila fyrir umrædd ár, megi sjá að inneignum sóknaraðila hafi verið skuldajafnað upp í opinber gjöld sambýlismann hennar. Skuldajöfnun sem þessi sé heimil ef samsköttun er fyrir hendi, sbr. 8. mgr. 68. gr. laganna, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 63/1999 um greiðslu barnabóta og jafnframt á 14. mgr. 68. gr. B. laga 90/2003, sbr. 19. gr. reglugerðar nr. 990/2001 um greiðslu vaxtabóta. Sóknaraðili hafi engar athugasemdir gert við framkvæmd þessa og verði að telja það sóknaraðila til tómlætis að vefengja fyrst nú samsköttunina. Enda hafi sóknaraðili í tíu ár notið þess skattalega hagræðis og borið þá ábyrgð sem af samsköttun leiði og engar ráðstafanir gert til að telja fram sem einstaklingur. Skýrt sé kveðið á um óskipta ábyrgð samskattaðs sambúðarfólks á álögðum sköttum hvors annars í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 en samhljóða ákvæði hafi verið í 1. mgr. 114. gr. eldri laga nr. 75/1981 um tekju- og eignaskatt.
Ákvæði 116. gr. laga nr. 90/2003 fjalli um ábyrgð á skattgreiðslum skv. þeim lögum, þ.e. á tekju- og eignarskatti, svo og sérstökum eignarskatti gjaldanda. Ákvæði 30. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, fjalli um ábyrgð á útsvarsgreiðslum til sveitarfélaga. Sé þar vísað til umræddrar 116. gr. Í ákvæðum 1. gr. laga nr. 134/1993 um iðnaðarmálagjald og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra sé einnig vísað til ábyrgðarreglna laga nr. 90/2003 varðandi ábyrgð á iðnaðarmálagjaldi, búnaðargjaldi og gjaldi í framkvæmdasjóð aldraðra. Ábyrgðin nái þannig ótvírætt til þeirra skatta sem ákvarðaðir séu á grundvelli hins sameiginlega skattframtals hjóna og sambúðarfólks sem það undirriti og sendi inn. Varnaraðili telur sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila á opinberum gjöldum sambýlismanns síns skýra og óvefengjanlega.
IV
Sóknaraðili ritaði í athugasemdadálk á skattframtali sínu 1994: Sjá sameiginlegt framtal með sambýlismanni og barnsföður, Ásgeiri J. Kristjánssyni, kt. 030858-7199. Liggur fyrir að sóknaraðili og sambýlismaður hennar rituðu bæði undir sameiginlegt skattframtal það ár og óskuðu þannig samsköttunar og að þau voru samsköttuð allt upp frá því meðan sambúð þeirra varði. Hefur ríkisskattstjóri staðfest að álögð gjöld á sóknaraðila og sambýlismann hennar og barnabætur þeim ákvarðaðar gjaldárin 1994-2004, vegna tekna á árunum 19932003 og eigna í lok þeirra ára, miðuðust við þær skattareglur sem lúta að samsköttun sambýlisfólks og byggðist álagningin á sameiginlegu skattframtali þeirra, sbr. 3. mgr. 62. greinar laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignaskatt og áður 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum. Jafnframt hefur ríkisskattstjóri staðfest að sóknaraðili hafi án þess að hreyfa mótmælum notið þess skattalega hagræðis sem samsköttun fylgir.
Fyrir liggur að sóknaraðili og sambýlismaður hennar hafa undirritað sitt hvora tekjusíðuna á skattframtölum 2001 og 2002 eins og ráð er fyrir gert að hjón geri og að þau hafa sameiginlega undirritað eignasíðu framtalanna. Framtöl 2002 og 2003 eru óundirrituð en eignasíða merkt bæði sóknaraðila og sambýlismanni hennar.
Með hliðsjón af því að fyrir liggur að sóknaraðili og sambýlismaður hennar óskuðu samsköttunar þegar á árinu 1994 og því sem upplýst er um framtalsmáta þeirra síðan og samsköttun þykir ótvírætt að það hafi verið vilji þeirra að þau væru samsköttuð enda kom engin ósk frá þeim um annað. Þykir fullnægt áskilnaði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 um að þau hafi skriflega óskað samsköttunar. Samkvæmt því bera þau óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau hafa verið lögð og getur innheimtumaður gengið að hvoru þeirra um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja sbr. 1. mgr. 116. gr. laga 90/2003. Samkvæmt því verður fallist á kröfur varnaraðila og hin umþrætta aðfarargerð staðfest.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík, nr. 011-2005-07318, sem fram fór hjá sóknaraðila, Hólmfríði Á. Vilhjálmsdóttur, þann 22. júní 2005 að kröfu varnaraðila, Tollstjórans í Reykjavík, í eignarhluta sóknaraðila í Garðastöðum 3, fnr. 223-9270, Reykjavík.
Málskostnaður fellur niður.