Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-211

Guðmundur Þ. Pálsson (Baldvin Björn Haraldsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Hannes J. Hafstein lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjármálafyrirtæki
  • Yfirdráttarheimild
  • Aðild
  • Fyrning
  • Tómlæti
  • Ógilding samnings
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 19. júní 2019 leitar Guðmundur Þ. Pálsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 31. maí sama ár í málinu nr. 843/2018: Landsbankinn hf. gegn Guðmundi Þ. Pálssyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.

Gagnaðili höfðaði mál þetta og krafðist þess að leyfisbeiðanda yrði gert að greiða sér 4.751.999 krónur auk dráttarvaxta vegna yfirdráttarskuldar á tékkareikningi leyfisbeiðanda sem hafði verið notaður í tengslum við afleiðuviðskipti hans við Landsbanka Íslands hf., en gagnaðili tók við ýmsum réttindum og skyldum þess banka í október 2008. Ágreiningur aðila laut að því hvort gagnaðila eða Landsbanka Íslands hf. hafi verið heimilt að stofna til yfirdráttarskuldar á reikningnum við uppgjör afleiðusamninga og hvort krafa vegna yfirdráttar hafi verið fyrnd við höfðun málsins eða gagnaðili hafi glatað rétti til að halda henni uppi vegna tómlætis. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila með þeim rökum að gögn málsins renndu ekki stoðum undir að leyfisbeiðandi hafi óskað eftir eða samþykkt að reikningurinn yrði yfirdreginn vegna vanskila hans í viðskiptum við gagnaðila. Hafi því ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir fjárkröfunni sem gagnaðili gerði í málinu. Einnig var vísað til þess að gagnaðili hafi krafið leyfisbeiðanda um greiðslu á sömu kröfu í máli sem þingfest var í mars 2011 en fellt síðan niður. Eftir það hafi gagnaðili ekki haft kröfuna uppi fyrr en um sex og hálfu ári síðar. Hafi því leyfisbeiðandi með réttu mátt líta svo á að gagnaðili myndi ekki innheimta kröfuna eftir að fyrra málið hafi verið fellt niður og hafi gagnaðili jafnframt sýnt af sér verulegt tómlæti og glatað þannig rétti til heimtu kröfunnar. Í dómi Landsréttar var talið að í ljósi samnings leyfisbeiðanda við Landsbanka Íslands hf. og fyrri viðskipta hans við bankann og síðan gagnaðila hafi mátt ganga út frá því að heimilt hafi verið að mynda yfirdrátt á reikningi leyfisbeiðanda vegna uppgjörs á afleiðusamningum þeirra án tillits til þess hvort hann hafi hverju sinni samþykkt það sérstaklega. Að virtum atvikum málsins og að um væri að ræða kröfu vegna peningaláns hafi leyfisbeiðandi ekki getað haft réttmætar væntingar um að gagnaðili hafi fallið frá henni og hafi því krafan ekki fallið niður vegna tómlætis. Var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila höfuðstól kröfunnar, 3.487.732 krónur, en vextir sem gagnaðili hafði skuldfært á reikninginn á árunum 2008 til 2010 voru taldir fallnir niður samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og í andstöðu við dómafordæmi Hæstaréttar um tómlæti, túlkun samningsskilmála sem séu einhliða samdir af fjármálafyrirtæki og réttaráhrif ákvarðana Fjármálaeftirlitsins frá október 2008 um ráðstöfun réttinda og skyldna eldri viðskiptabanka til nýrra. Þá telur leyfisbeiðandi að málið hafi vegna þessa verulegt almennt gildi og varði það sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

 Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í ljósi dómsúrlausna sem áður hafa gengið né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.