Hæstiréttur íslands

Mál nr. 416/2006


Lykilorð

  • Ölvun við akstur
  • Akstur sviptur ökurétti


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. febrúar 2007.

Nr. 416/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Stefáni Jóhannessyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Ölvun við akstur. Akstur sviptur ökurétti.

S var sakfelldur fyrir að hafa ekið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Hann hafði frá árinu 1986 hlotið 14 refsidóma fyrir ölvun við akstur en með 13 þeirra var hann jafnframt dæmdur fyrir akstur sviptur ökurétti. Refsing S þótti m.a. með hliðsjón af sakarferli hans og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Þá hafði hann enn á ný unnið sér til ævilangrar ökuréttarsviptingar og var hún því áréttuð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. júlí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, en þyngingar á refsingu og sviptingar ökuréttar.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds en til vara að refsing verði milduð.

          Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1986 hlotið 14 refsidóma fyrir ölvun við akstur, en með 13 þeirra var hann jafnframt dæmdur fyrir akstur sviptur ökurétti. Refsing ákærða þykir með hliðsjón af því sem rakið er í héraðsdómi, sakaferli hans og 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði var fyrst sviptur ökurétti ævilangt með dómi 12. mars 1987 fyrir ölvun og réttindaleysi við akstur og 16. febrúar 2006 var sú ökuréttarsvipting síðast áréttuð. Hann hefur nú enn á ný unnið sér til ökuréttarsviptingar vegna ölvunaraksturs síns 6. apríl 2006 eins og krafist er af hálfu ákæruvalds. Verður því að árétta með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum að ákærði skuli vera sviptur ökurétti ævilangt.

Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um málskostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Stefáns Jóhannessonar.

Ákærði skal vera sviptur ökurétti ævilangt.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 198.323 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.750  krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. júlí 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 21. júní s.l., er höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með ákæruskjali lögreglustjórans á Akureyri útgefnu 16. maí 2006 á hendur Stefáni Jóhannessyni, kt. 140269-3609, Fálkagötu 30, Reykjavík;

„fyrir umferðalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 6. apríl 2006, ekið bifreiðinni MG-183, undir áhrifum áfengis (2.93‰) og sviptur ökurétti, frá vínbúðinni við Hólabraut á Akureyri og að Laxagötu 4.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 48, 1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga sbr. lög. nr. 44, 1993 og lög nr. 84, 2004.“

Af hálfu ákærða er krafist sýknu. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.á.m. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Hilmars Ingimundarsonar hrl.

I.

Samkvæmt rannsóknargögnum barst lögreglunni á Akureyri tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð um ölvaðan ökumann á bifreiðinni MG-183 hjá ÁTVR við Hólabraut á Akureyri laust eftir kl.16:00 þann 6. apríl 2006.  Er lögreglumenn komu að staðnum sáu þeir téðri bifreið ekið af stað frá bifreiðastæði ÁTVR og að Laxagötu 4 þar sem bifreiðin var stöðvuð.  Lögreglan hafði tal af meintum ökumanni, ákærða í máli þessu. Var hann greinilega ölvaður.  Ákærði var handtekinn og færður á lögreglustöð til skýrslutöku.  Við skýrslutöku kom fram að hann var sviptur ökurétti.  Vaktlæknir kom og tók blóðsýni úr ákærða sem samkvæmt rannsókn reyndist innihalda 2.93‰ alkóhóls.  Bifreið ákærða var færð á lögreglustöð og kveikjuláslyklar í vörslu varðstjóra.

II.

Ákærði neitar að hafa ekið bifreiðinni í greint sinn en viðurkennir ölvun sína.  Kveðst hann hafa verið búinn að drekka áfengi meira og minna alla nóttina áður.  Til hafi staðið að fara með rusl á bifreiðinni og því hafi hann verið staddur í bifreiðinni þegar lögreglan kom, en hann hafi verið að reyna að opna skottið á bílnum.  Kveður hann A bróður sinn hafa ekið bifreiðinni og hafi hann verið búinn að aka bifreiðinni smá hring, m.a. til að fara í sjoppu og vínbúðina.  Kveður ákærði A bróður sinn hafa verið á staðnum er lögreglan kom en lögreglan hafi ekkert rætt við hann.  Kveður ákærði ekkert hafa verið hlustað á sig þarna á staðnum, hann hafi bara verið „tekinn með látum“.  Aðspurður um hvort eitthvað áfengi hefði verið í bílnum kvaðst ákærði ekki vita hvort búið hafi verið að taka það inn, en það hafði verið verslað eitthvað.

Vitnið B, lögreglumaður, lýsir afskiptum sínum að málinu þannig að það hafi komið til þeirra tilkynning um að ölvaður maður væri á bíl á bílastæðinu fyrir framan Ríkið.  Þeir hafi ekið í áttina þangað, vestur Gránufélagsgötu, og séð ákærða sitja undir stýri kyrrstæðrar bifreiðarinnar.  Þeir hafi ekið áfram í áttina að Hólabraut, snúið við þar og þá séð að bíllinn var farinn.  Þeir hafi síðan séð hvar bifreiðinni var ekið út af bílastæðinu við Laxagötu og áfram inn þá götu.  Þeir hafi ekið því á eftir honum en er þeir komu að honum hafi verið búið að leggja bílnum og drepa á honum við Laxagötu 4 eða 6.  Vitnið kveðst þekkja ákærða en geti ekki staðfest að hann hafi ekið bifreiðinni, en kveður hann hafa setið undir stýri á bifreiðastæðinu við Ríkið.  Þetta hafi gerst á nokkrum sekúndum, eða í mesta lagi einni til tveim mínútum.  Vitnið ber að ekki hafi verið aðrir í bifreiðinni en ákærði og ekki aðrir á vettvangi.  Þegar þeir hafi hins vegar verið að hafa afskipti af ákærða hafi bróðir ákærða komið út í dyr á húsinu og ávarpað hann eitthvað.  Vitnið kveðst telja alveg útilokað að annar en ákærði hafi ekið bifreiðinni.  Aðspurt um hvort lögreglumennirnir hafi átt orðaskipti við bróður ákærða ber vitnið að einhver orð hafi farið þeirra á milli, hann hafi spurt þá hvað væri að og svoleiðis.  Vitnið sagðist ekki muna nákvæmlega framburð ákærða á vettvangi en kveður hann hafa þrætt eitthvað fyrir að hafa ekið bifreiðinni, en vitnið minntist þess ekki hvort ákærði hafi rætt um að einhver annar hefði gert það.

Vitnið C, lögreglumaður, ber að þeir lögreglumennirnir hafi ekið vestur Gránufélagsgötu í átt að Oddeyrargötu þegar þeir hafi séð umrædda bifreið fyrir utan áfengisverslunina og hafi ákærði setið undir stýri.  Vitnið kveðst síðan hafa séð í baksýnisspeglinum að bifreiðinni var ekið af stað, þeir hafi því snúið við og ekið á eftir bílnum norður Laxagötu, þ.e. til vinstri út af bílaplaninu, og hafi þeir komið að bifreiðinni kyrrstæðri fyrir utan hús númer 4 við götuna.  Vitnið kveðst þekkja ákærða og hafi ekki séð betur en hann væri einn í bílnum.  Aðspurt kveðst vitnið ekki gera sér grein fyrir hvað atburðarrásin hafi tekið langan tíma, en telur að um nokkrar sekúndur hafi verið að ræða, í það mesta eina til eina og hálfa mínútu.  Vitnið álítur að ekki sé mögulegt að um annan ökumann hafi verið að ræða.  Hann hafi séð ákærða einan í bílnum þegar þeir óku framhjá og síðan er þeir komu að bílnum þar sem hann var kyrrstæður á bílastæðinu hafi ákærði verið einn í honum og undir stýri.  Aðspurt kveðst vitnið ekki geta fullyrt hvort bifreiðinni hafi verið lagt fyrir utan Laxagötu 4 eða 6, en fyrst það hafi fullyrt í frumskýrslu að það hafi verið Laxagata 4, þá hljóti svo að vera.  Vitnið ber að enginn annar hafi verið á vettvangi en maður hafi komið út í dyrnar á húsi þarna er lögreglumennirnir voru komnir út úr bílnum, en vitnið segist ekki hafa rætt við hann.  Vitnið kveðst ekki hafa rætt við ákærða neitt að ráði en þó hafa spurt hann hvar lyklarnir væru en ákærði hafi spurt á móti „hvaða lyklar“?  Vitnið minnir að vitnið B hafi síðan fundið lyklana í bílnum.  Vitnið kveðst ekki geta sagt til um hvort áfengi hafi verið í bílnum.  Ekki hafi verið kannað hvaða erindi ákærði átti í vínbúðina eftir að ábending barst um að hann væri þar.  Vitnið minnist þess ekki að ákærði hafi getið þess að einhver annar hefði ekið bifreiðinni.

Vitnið A, bróðir ákærða, féllst á að bera vitni í málinu en kveðst ekki muna eftir umræddu atviki.

III.

Samkvæmt samhljóða framburði tveggja lögreglumanna sat ákærði undir stýri bifreiðarinnar MG-183 þar sem hún var kyrrstæð fyrir utan Vínbúðina við Hólabraut, og var ákærði þá einn í bílnum.  Annar lögreglumaðurinn bar að hann hafi síðan séð í baksýnisspegli lögreglubifreiðarinnar að bifreiðinn var ekið af stað.  Báðir staðfestu þeir að þeir þekktu ákærða.  Báðir lögreglumennirnir bera að ákærði hafi verið einn í bifreiðinni og setið undir stýri hennar er þeir komu að henni kyrrstæðri í Laxagötu.  Báðir bera þeir að atburðarrásin, frá því þeir sáu bifreiðina kyrrstæða við Vínbúðina og þar til þeir komu að henni í Laxagötu, hafi tekið í mesta lagi eina til tvær mínútur.  Telja þeir ómögulegt að annar en ákærði hafi ekið bifreiðinni umrædda vegalengd.

Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að komin sé fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Varðar sú háttsemi hans við lagaákvæði þau er í ákæru greinir.

IV.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði alls sautján sinnum hlotið dóm fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum, aðallega vegna ölvunar- og sviptingaraksturs.  Þann 1. nóvember 2002 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar að upphæð kr. 130.000,- og sviptur ökurétti ævilangt fyrir brot gegn sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.

Þann 15. sama mánaðar hlaut ákærði 15 mánaða fangelsisdóm og var ökuleyfissvipting ævilangt áréttuð, fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga og 244. gr. almennra hegningarlaga.  Var ákærða veitt reynslulausn þann 26. október 2004 í tvö ár á eftirstöðum refsingar, 225 dagar.

Þann 5. október 2005 var ákærði dæmdur til 12 mánaða fangelsis og sviptingar ökuréttar ævilangt fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.  Var þar um tvö brot á téðum lagagreinum að ræða en einnig rauf ákærði skilorð reynslulausnar.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2006 var ákærða dæmdur hegningarauki fyrir brot á sömu greinum umferðarlaga.

Að ofangreindu virtu þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi.

Samkvæmt dómi uppkveðnum 5. október 2005 var ákærði sviptur ökurétti ævilangt.  Með dómi uppkveðnum 16. febrúar 2006 var áréttuð ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.  Þar sem ákærði hefur þegar verið sviptur ökurétti ævilangt, sbr. framanskráð, eru ekki efni til að dæma ökuréttarsviptingu í þessu máli eins og krafist er í ákæru.

Samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað, nemur hann kr. 19.892.- vegna blóðtöku og alkóhólrannsóknar og kr. 22.990- vegna ferðakostnaðar verjanda og ber að dæma ákærða til greiðslu þeirra fjárhæða í sakarkostnað ásamt málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hrl., sem ákvarðast kr. 140.000,- að virðisaukaskatti meðtöldum eða samtals kr. 182.882-.

Dóminn kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Stefán Jóhannesson, sæt fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði greiði kr. 182.882- í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., kr. 140.000- og er þá virðisaukaskattur innifalinn.