Hæstiréttur íslands

Mál nr. 479/2010


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Þjófnaður


Fimmtudaginn 17. febrúar 2011.

Nr. 479/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari)

gegn

Ísmari Erni Steinþórssyni

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

Líkamsárás. Þjófnaður.

Í var ákærður fyrir þjófnaðarbrot með ákærum 9. og 22. september 2009. Þá var hann ákærður fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með ákæru 2. desember s.á., með því að hafa stungið A með hnífi í kvið, með þeim afleiðingum að hann hlaut stungusár á kviðinn. Fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá hluta af ákæru 22. september 2009. Með dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, var Í sakfelldur fyrir framangreind brot og var refsing hans ákveðin fangelsi í 20 mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða A nánar tilgreindar skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. júlí 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd. 

Ákærði krefst sýknu af I. lið ákæru lögreglustjórans á Akureyri 22. september 2009. Einnig krefst hann sýknu af ákæru ríkissaksóknara 2. desember 2009, en til vara að háttsemin verði heimfærð undir 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara lækkunar hennar. Loks krefst hann refsimildunar og þess að sakarkostnaður verði að hluta lagður á ríkissjóð.

Af hálfu ákæruvaldsins er fyrir Hæstarétti gerð sú leiðrétting á I. lið ákæru lögreglustjórans á Akureyri 22. september 2009 að fallið er frá ákæru fyrir aðra muni en einn sjónauka, geisladiskahulstur með tíu geisladiskum og sólgleraugu.

Sakaferli ákærða er nægilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eftir uppsögu hans var ákærði dæmdur 8. desember 2010 í Héraðsdómi Norðurlands eystra til 30 daga fangelsisrefsingar og sviptingar ökuréttar ævilangt.

Fallist er á með héraðsdómi að sannað sé að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi, sem hann er ákærður fyrir í I. lið ákæru lögreglustjórans á Akureyri 22. september 2009, að teknu tilliti til þeirra breytinga, sem lýst er að framan. Jafnframt verður, með vísan til forsendna héraðsdóms, staðfest að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem hann er ákærður fyrir af ríkissaksóknara í ákæru 2. desember 2009. Er háttsemi hans réttilega heimfærð til refsiákvæða og refsing hæfilega ákveðin.

Ákærði stakk A, starfsmann veitingahússins [...], með veiðihníf í kviðinn vinstra megin og kemur fram í skýrslu læknis, sem meðhöndlaði A, að hnífurinn hefði líklega gengið 3,5 til 5 sentimetra inn í kviðarholið og stungusárið verið um 2 sentimetrar á breidd. Hann kvað afleiðingar þessa, þegar ekki verður skaði á kviðarholslíffærum eða stærri æðum, að því er lýtur að vinnufærni almennt vera þær að full vinnufærni náist eftir tvær til fjórar vikur. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til þess sem fram kemur í héraðsdómi verður niðurstaða um skaðabótakröfu A staðfest.

Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ísmar Örn Steinþórsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 433.744 krónur, þar með talin málsvarnarlaun og ferðakostnað skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gísla M. Auðbergssonar héraðsdómslögmanns, 381.569 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. júní 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 14. apríl s.l., er höfðað hér fyrir dómi með tveimur ákæruskjölum lögreglustjórans á Akureyri og ákæruskjali ríkissaksóknara á hendur Ísmari Erni Steinþórssyni, kt. 030889-3399, Mýrarvegi 116, Akureyri, og X, kt. [...], [...], [...]. 

1.  Ákæruskjal lögreglustjóra, útgefið 9. september 2009.  Mál nr. S-221/2009.

Með þessu ákæruskjali er mál höfðað á hendur ákærða, Ísmari Erni; fyrir eftirtalin þjófnaðarbrot: 

„I. Með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 21. maí 2009, brotist inn í íbúðarhúsið að [...] og stolið þaðan Dell Inspiron 4140 fartölvu, Dell fartölvu, heimabíókerfi af gerðinni Samsung sem saman stóð af tveimur stórum hátölurum og tveimur litlum, DVD spilara og bassaboxi, heimabíókerfi af gerðinni Dantax með tveimur stórum hátölurum og magnara, hljómflutningstækjum af gerðinni JVC, Playstation 2 leikjatölvu með stýripinnum og tveimur singstar mikrafonum og snúrum, DVD spilar af gerðinni JVC, stórum Ipone hátalara og snúru, myndavél af gerðinni Minolta, skartgripaskríni með ýmiskonar skartgripum, Nokia GSM síma, 15 DVD myndum, 14 bjórum, gjafabréfi í Átak spa að verðmæti 4.000- kr., rauðvínskút, tveimur hvítvínsflöskum, þremur rauðvínsflöskum, einni ginflösku, einni rommflösku, einni koníaksflösku og einni flösku af Tía María líkjöri, auk smámyntar í íslenskum og erlendum peningum.

II. Með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 16. júní 2009, stolið tveimur boxum úr lokuðum skáp í anddyri lögreglustöðvarinnar á Akureyri, við Þórunnarstræti, en í boxum þessum voru geymdir óskilamunir í vörslu lögreglu, svo sem stafræn upptökuvél, tvær stafrænar myndavélar, ein filmumyndavél, nokkur seðlaveski með kortum og peningum, armbönd, gleraugu, armbandsúr, húslyklar og bíllyklar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Við meðferð málsins fyrir dómi var af hálfu fulltrúa ákæruvalds fallið að hluta frá sakarefni ákæruskjalsins.  Var þannig miðað við að ákærði hefði aðeins stolið sjö bjórflöskum og einni hvítvínsflösku.  Þá var alfarið fallið frá því sakaratriði að ákærði hefði stolið þremur rauðvínsflöskum.

2.  Ákæruskjal lögreglustjóra, útgefið 22. september 2009.  Mál nr. S-256/2009.

Með þessu ákæruskjali er mál höfðað á hendur ákærðu, Ísmari Erni og X;

„fyrir eftirtalin þjófnaðarbrot:

I.  Gegn Ísmari Erni, fyrir að hafa sunnudagsmorguninn 12. júlí 2009, stolið úr kyrrstæðum bifreiðum, sem stóðu á tjaldstæði við [...], tveimur sjónaukum, geisladiskahulstri með 10 geisladiskum, IMM flakkara, Trust tengiboxi (flakkara) og sólgleraugum.

II.  Gegn X, fyrir að hafa á sama tíma og á sama stað stolið myndavél í svartri tösku, úr kyrrstæðri bifreið.

II.  Gegn Ísmari Erni, fyrir að hafa aðfaranótt sunnudagsins 12. júlí 2009, stolið söfnunarbauk frá ABC barnahjálp með ótilgreindri peningaupphæð, af afgreiðsluborði verslunarinnar [...] að [...].

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

3.  Ákæruskjal ríkissaksóknara, útgefið 2. desember 2009.  Mál nr. S-370/2009.

Með þessu ákæruskjali er mál höfðað á hendur ákærða Ísmari Erni;

„fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 10. október 2009, í anddyri veitingahússins [...], stungið A með hnífi ofarlega vinstra megin í kvið með þeim afleiðingum að hann hlaut tveggja sm. langt stungusár á kviðinn.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 710.260, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. október 2009 en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá 1. janúar 2010 til greiðsludags.“

Við aðalmeðferð málsins leiðrétti fulltrúi ákæruvalds misritun á dagsetningu í ákæruskjalinu.  Var þannig á því byggt að atvik hefðu gerst föstudagskvöldið 9. október 2009.  Er þetta heimilt, enda í samræmi við rannsóknargögn lögreglu og önnur framlögð skjöl, sbr. ákvæði 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.

Skipaður verjandi ákærða, Gísli Auðbergsson héraðsdómslögmaður hefur fyrir hönd ákærða, Ísmars Arnar Steinþórssonar, í greinargerð og við flutning fyrir dómi, krafist þess að hann verði sýknaður af sakargiftum samkvæmt ákæruskjölum útgefnum 22. september og 2. desember 2009.  Þá krefst verjandinn að ákærða verði gerð eins væg refsing og lög leyfa vegna þeirrar háttsemi sem lýst er í ákæruskjali sem útgefið er þann 9. september 2009, og að hún verði að fullu skilorðsbundin, en eftir atvikum bundin sérstöku skilorði.  Verjandinn krefst þess að einkaréttarkröfu, sem lýst er í ákæruskjalinu frá 2. desember 2009, verði vísað frá dómi, en til vara að krafan verði lækkuð.  Loks krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna, og jafnframt að allur málskostnaður verði lagður á ríkissjóð.

Skipaður verjandi ákærðu Árni Pálsson hæstaréttarlögmaður hefur fyrir hönd ákærðu X, í greinargerð og við flutning fyrir dómi, krafist þess að hún verði sýknuð af refsikröfu ákæruvalds, en til vara að hún verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þá krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna og að þau verði felld á ríkissjóð.

I.

Ákæruskjal lögreglustjóra, útgefið 9. september 2009.  Mál nr. S-221/2009.

Ákærði Ísmar Örn hefur fyrir dómi skýlaust játað þær sakir sem lýst er í I. og II. kafla ákæruskjals.  Er viðurkenning hans í samræmi við rannsóknargögn lögreglu.

Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, er nægilega sannað að hann hafi framið þau brot sem honum eru að sök gefin í ákæruskjali, I. og II. kafla.  Liggur og fyrir að við frumrannsókn málsins var þýfinu að stærstum hluta komið aftur til eigenda fyrir tilstilli lögreglu.

Að ofangreindu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir greindar sakir, en háttsemi hans er réttilega heimfærð til ákvæða í ákæruskjali.

Ákæruskjal lögreglustjóra, útgefið 22. september 2009.  Mál nr. S-256/2009.

a). Ákæruliður III.

Samkvæmt frumskýrslu barst lögreglunni á Akureyri tilkynning aðfaranótt sunnudagsins 12. júlí 2009 um þjófnað í versluninni [...] við [...].  Í skýrslunni segir m.a. frá því að er lögreglumenn komu á vettvang hafi starfsmenn verslunarinnar, þ. á m. vitnið B, greint frá því að söfnunarbauk frá ABC- barnahjálpinni hefði verið stolið af afgreiðslukassa.  Fram kemur að starfsmennirnir hafi sýnt lögreglu myndskeið úr öryggismyndavél, en þar hafi mátt sjá að klukkan 01:21 nefnda nótt hafi komið inn í verslunina þrír einstaklingar.  Er staðhæft að einn þessara einstaklinga sé ákærði Ísmar Örn og að hann hafi farið að afgreiðslukassanum, beðið færis á meðan nefndur starfsmaður var upptekinn við starf sitt, en þá sætt færis og tekið söfnunarbaukinn, stungið honum inn á sig, en farið síðan út úr versluninni ásamt fylgdarliði.  Tekið er fram í skýrslunni að ákærði hafi verið íklæddur svartri hettupeysu og ljósum gallabuxum. 

Í nefndri frumskýrslu lögreglu er greint frá því að kl. 05:05, umrædda nótt, hafi starfsfólk verslunarinnar tilkynnt lögreglu að ákærði Ísmar Örn hefði á ný komið í verslunina ásamt fylgdarliði og vegna grunsemda um að hann hefði stolið nefndum söfnunarbauk hefði númer bifreiðar sem hann var í verið skrifað niður.  Hafi verið um að ræða bifreiðina [...], [...], fólksbifreið, dökkgræna að lit.

Samkvæmt rannsóknargögnum var ákærði Ísmar Örn handtekinn sunnudagsmorguninn 12. júlí 2009 í Öxnadal, en hann var þá farþegi í fyrrnefndri bifreið, og í fylgd tveggja vinkvenna.  Vegna ölvunarástands og grunsemda um þjófnaðarbrot var hann í kjölfar handtökunnar vistaður í fangaklefa lögreglustöðvarinnar á Akureyri.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu að morgni mánudagsins 13. júlí sama ár játaði ákærði Ísmar Örn að hafa tekið söfnunarbauk í versluninni [...] við [...] aðfaranótt sunnudagsins 12. júlí.  Ákærði bar að hann hefði ekki haft vitneskju um hvar afgreiðslumaðurinn var er hann tók baukinn.  Hann staðhæfði að í bauknum hefði aðallega verið smámynt eða klink, en upplýsti ekki frekar um fjárhæðina.  Samkvæmt yfirheyrsluskýrslunni var ákærða sýnt myndskeið úr öryggismyndavél verslunarinnar, en í framhaldi af því er bókað:  „Á myndunum sést þú stinga söfnunarbauknum inn á þig og ganga með hann út, hvað segir þú um það?“  Svar ákærða er þannig skráð: ,,Það er rétt, svona gerðist þetta.“

Fyrir dómi játaði ákærði sakargiftir og bar að hann minnti það helst að hann hefði tekið söfnunarbaukinn eftir að hafa keypt eitthvað í versluninni, en hann kvaðst hafa verið í fylgd vinkvenna.  Ákærði kvaðst hafa farið með baukinn í bifreið sem hann var farþegi í, en þar hefði hann verið opnaður af vitninu C.  Um verðmæti í bauknum hafði ákærði svofelld orð:  „Þar voru nokkrir tíkallar eða eitthvað“. 

Vitnið C gaf skýrslu hjá lögreglu þann 26. ágúst 2009.  Lýsti hún atvikum máls mjög á sama veg og ákærði Ísmar Örn hér að framan, en hún kvaðst hafa fylgst með gjörðum hans í versluninni.  Að öðru leyti treysti hún sér ekki til að greina frá málavöxtum, enda hafi hún verið talsvert ölvuð er atburðurinn gerðist. 

Fyrir dómi bar vitnið C við algjöru minnisleysi um atvik máls.  Hið sama gerði meðákærða, X, en hún kannaðist við að hafa verið ökumaður bifreiðar í greint sinn.

Vitnið B, starfsmaður umræddrar verslunar, lýsti atvikum máls á sama veg og rakið er í frumskýrslu lögreglu.  Vitnið staðhæfði ennfremur að ætíð væru peningar í söfnunarbaukum ABC- hjálparstofnunarinnar, en þó yfirleitt aðeins í smámynt.  Vitnið bar að baukar þessir væru á stærð við stóra ávaxtadós og væru þeir tæmdir reglulega.  Vitnið kvaðst hafa þekkt ákærða Ísmar Örn er hann kom í verslunina í síðara skiptið nefnda nótt og vísaði þar um til fyrrnefnds myndskeiðs úr öryggismyndavél.  Vitnið kvaðst án árangurs hafa lagt að ákærða að skila bauknum. 

Ákærði reisir sýknukröfu sína á því að margnefndur söfnunarbaukur ABC-barnahjálparinnar hafi verið verðlaus, a. m. k. hafi fjárhagslegt gildi hans verið mjög óverulegt.  Þá sé ósannað að baukurinn hafi innihaldið peninga og því hafi ekki verið um andlag þjófnaðar að ræða.  Loks telur ákærði að eftir atvikum geti háttsemi hans varðað við gripdeildarákvæði 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, frekar en þjófnaðargrein laganna, 244. gr.

Niðurstaða.

Með játningu ákærða, sem er í samræmi við trúverðugan vitnisburð starfsmanns umræddrar verslunar fyrir dómi, en einnig önnur gögn, er sannað að ákærði tók í sínar vörslur söfnunarbauk ABC- barnahjálparinnar þá er starfsmaðurinn var að sinna öðrum viðskiptavinum.  Í ljósi nefndra framburða og gagna er ekki varhugavert að telja sannað að fjármunir hafi verið í bauknum er atvik gerðist. 

Að ofangreindu virtu þykja skilmerki þjófnaðarákvæðis 244. gr. almennra hegningarlaga vera uppfyllt.  Er ákærði Ísmar Örn því sannur að sök og er háttsemi hans rétt færð til ákvæða í ákæruskjali.

b). Ákæruliðir I. og II.

Samkvæmt frumskýrslu Jóhannesar Sigfússonar lögregluvarðstjóra barst lögreglunni á Akureyri tilkynning að morgni sunnudagsins 12. júlí 2009, kl. 07:30, um að sést hefði til ferða óþekktra aðila á tjaldstæðinu við [...]. Var efni tilkynningarinnar á þá leið að aðilar þessir hefðu verið að snuðra við bifreiðar félagsmanna [...], sem þar voru með samkomu.  Meðal félagsmanna hefðu fljótlega vaknað grunsemdir um að þessir aðilar væru með óhreint mjöl í pokahorninu, en þeir hefðu hlaupið undan er reynt var að ná tali af þeim.  Var í þessu sambandi vísað til þess að einn þeirra hefði á hlaupunum hent frá sér myndavél, en annar aðili virst halda á einhverjum hlutum innan klæða.  Fylgdi tilkynningunni að aðilar þessir hefðu að lokum ekið frá [...] í mosagrænni jeppabifreið og var talið að hún væri á leið til Akureyrar.  Í frumskýrslunni segir frá því að nokkru eftir að tilkynningin barst hefði stúlka hringt á lögreglustöðina og óskað aðstoðar þar eð bifreið hennar hefði bilað í Öxnadal.  Hefði fljótlega legið fyrir að stúlkan var ökumaður bifreiðarinnar [...], sem er dökkgræn fólksbifreið af gerðinni [...].  Þar sem hún hefði svarað til lýsingar á þeirri bifreið sem nokkru áður var sögð hafa ekið frá [...] hefði lögreglan hraðað sér á vettvang. 

Liggur fyrir að lögreglan kom að bifreiðinni [...] kyrrstæðri við Gloppugil í Öxnadal, klukkan 08:51.  Samkvæmt gögnum var ákærða X þá í ökumannssæti og vitnið C við hlið hennar í framfarþegasæti.  Segir í frumskýrslu lögreglu að þær hafi báðar virst allsgáðar, en að farþegi í aftursæti, ákærði Ísmar Örn, hafi aftur á móti legið fyrir, ölvaður.  Segir frá því að kúpling bifreiðarinnar hafi vera ónýt og hafi hún því verið skilin eftir en nefndir aðilar verið færðir á lögreglustöðina á Akureyri.  Vegna ölvunarástands var ákærði Ísmar Örn vistaður í fangaklefa kl. 09:40, en tekið er fram að hans ósk hafi lögmanni hans verið tilkynnt um þá ráðstöfun. 

Í skýrslu lögregluvarðstjóra segir frá því að í samræðum hans við ákærðu X hafi hún viðurkennt að hafa tekið myndavél ófrjálsri hendi úr ólæstri bifreið í [...].  Hún hafi hins vegar kastað vélinni frá sér er hún varð þess vör að einhver veitti henni eftirför.  Jafnframt segir í skýrslunni að ákærða X hafi haft orð á því að vitnið C hefði verið sofandi í bifreiðinni er atvik gerðust í [...] og að það hafi verið í samræmi við frásögn C.

Í skýrslu varðstjórans segir ennfremur um nefndar samræður að ákærða X hafi ekki verið viss um að ákærði Ísmar hefði tekið muni ófrjálsri hendi í [...]. 

Í nefndri skýrslu segir loks frá því að nafngreindur aðili hafi haft símasamband á lögreglustöðina á Akureyri og tilkynnt að hann væri eigandi bifreiðar sem stolið hefði verið úr í [...].  Hafi hann í því sambandi nefnt sem þýfi Garmin 176C GPS staðsetningartæki, sjónauka í álhulstri og geisladiskahulstur með ellefu geisladiskum.

Fram kemur í gögnum lögreglu að leitað hafi verið í föggum nefndra stúlkna, ákærðu X og vitnisins C, á lögreglustöðinni á Akureyri.  Ekkert hafi fundist og hafi þeim verið sleppt að lokinni formlegri skýrslutöku. 

Í frumskýrslu lögreglu segir að í samráði við umráðamann bifreiðarinnar [...], þ.e. móður ákærðu X, hafi bifreiðin verið dregin á lögreglustöðina á Akureyri, en þar hafi verið gerð leit í henni.  Í leitarskýrslu, sem dagsett er nefndan dag. kl. 18:01, segir að haldlagðir hafi verið eftirtaldir munir sem fundust í bifreiðinni: 

LG svartur tónlistarspilari, hvítur AIGO multimedia player, sólgleraugu, fjórar medalíur stílaðar á nafngreindan aðila, hvítur IMM HD flakkari, svartur sjónauki lítill 10x25, svartur sjónauki JASON, GRUST flakkari, svart CD-hulstur HEITECH, rauðar PELTOR eyrnahlífar með útvarpi merktar „SKG“ og svartur bensínbrúsi.

Samkvæmt framburðarskýrslu, sem ákærða X gaf kl. 10:00 þann 12. júlí 2009, en hana tók rannsóknarlögreglumaðurinn Valur Magnússon, tjáir hún sig um kæruefnið svofellt:  „Við vorum að fara frá Akureyri til Reykjavíkur, Ísmar og C voru með mér, við ákváðum að stoppa við [...] þegar við sáum bílana þar.  Ég fór í einn bílinn sem var ólæstur og tók myndavél, en þá sá einhver kona mig og ég  hljóp í burtu og kastaði myndavélinni frá mér og ók í burtu, en ég var ökumaðurinn.  C var sofandi í bílnum þegar þetta gerðist en ég sá ekki hvað Ísmar var að gera.  Ég held þetta hafi verið myndavél, en hún var í svartri tösku sem var frammi í bílnum.  Bíllinn var annað hvort Land Rover eða Range Rover.“  Nánar aðspurð bar ákærða að hún hefði átt hugmyndina að því að stela úr bílum í [...], Vegna bilunar í bifreiðinni kvaðst hún hafa hætt akstri við Bakkaselsbrekku í Öxnadal en hún kvaðst þá hafa verið á leið til Akureyrar.

Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu yfirheyrði sami lögreglumaður ákærða Ísmar Örn eftir vist í fangaklefa að morgni 13. júlí 2009, kl. 09:40.  Við skýrslutökuna skýrði ákærði frá því að hann hefði hafið neyslu áfengis laugardagskvöldið 11. júlí um kl. 20:00.  Hann hefði drukkið bjór, koníak og whiský og kvaðst hann hafa verið orðinn ölvaður er atvik gerðust í [...].  Ákærði lýsti atburðum þar nánar þannig:  „Ég held við höfum verið á leiðinni til Reykjavíkur.  Við fórum í einhverja bíla í [...] en við sáum bíla þar, við ætluðum að fara að reykja en gerðum þetta.  Ég fór í einhverja bíla, ég man ekki alveg hvaða, ég held þetta hafi verið Land Rover bílar.  Ég held ég hafi farið tvær ferðir og tók allt sem ég gat.  Allt sem ég tók á að hafa verið í bílnum hjá okkur þegar við vorum tekin, við losuðum okkur ekki við neitt áður en við vorum handtekin.  X var ökumaður á okkar bíl, ég hafði skipt við C og var frammi í.  Ég held að C haf verið í bílnum allan tímann og ekki gert neitt en ég sá ekki hvað X gerði.  Ég man ekki hvers vegna við hættum eða hvort einhver varð var við okkur.  Við keyrðum svo aftur til Akureyrar en ég man eiginlega ekkert eftir þeirri ferð.  Svo vorum við handtekin einhvers staðar á leiðinni.  Ég man aðallega eftir að hafa tekið flakkara úr bílunum.“ 

Samkvæmt yfirheyrsluskýrslunni var ákærða Ísmari Erni sýnt ætlað þýfi sem lögreglan hafði haldlagt eftir fyrrnefnda leit í bifreiðinni [...].  Er haft eftir ákærða að hann hafi játað að hafa tekið úr bifreiðunum við [...] tvo sjónauka, geisladiskahulstur með diskum, multimedia player, Trust tengibox, og sólgleraugu.  Einnig er haft eftir ákærða að hann hafi neitað að hafa tekið úr bifreiðum GPS staðsetningartæki, verðlaunapeninga, golfskó og gjafakort.  Um tilgang þjófnaðarins kvað ákærði nær öruggt að þau hafi ætlað að reyna að selja þýfið. 

Samkvæmt vistunarskýrslu lögreglu voru ákærða Ísmari Erni færðir drykkir kl. 02:00 og 04:00 aðfaranótt 13. júlí 2009, en í síðara skiptið fékk hann einnig að reykja.  Segir í skýrslunni að gætt hafi verið að ákærða í fangaklefanum kl. 06:35 og 07:40, að hann hafi farið á salernið kl. 00:10 og hafi fengið að reykja kl. 00:11.  Skráð er að ákærði hafi verið látinn laus þennan dag kl. 10:20.

Gögn lögreglu bera með sér að munum þeim sem lögregla lagði hald á hafi verið komið til skila til eigenda.

Skýrslur fyrir dómi.

Fyrir dómi lýsti ákærða X yfir algjöru minnisleysi um gjörðir sínar aðfaranótt og að morgni 12. júlí 2009, en af þeim sökum treysti hún sér heldur ekki til að tjá sig um sakarefni II. kafla ákæruskjalsins.  Varðandi minnisglöpin hafði ákærða svofelld orð:  „Ég var bara ekkert í mjög góðu ástandi … og var bara búin að vera vakandi og étandi pillur og eitthvað og ég man ekkert eftir þessu ...“.  Af frásögn hennar verður ráðið að hana rámi í að hafa tekið kvíðastillandi lyf og flogaveikislyf.  Hún kvaðst hins vegar ekki minnast þess að hafa komið við í [...], en hana rámaði í afskipti lögreglu en minntist þó ekki eiginlegrar handtöku.  Þá kvaðst hún ekki minnast þess að hafa gefið framburðarskýrslu hjá lögreglu, en kannaðist við undirskrift sína á skýrslunni og sagði eftir yfirlestur hennar fyrir dómi:  „Greinilega hef ég sagt þetta.“  Nánar lýsti ákærða því að hún hefði sumarið 2009 oft haft umráð yfir bifreið móður sinnar, [...], og þá á stundum ekið með ákærða Ísmari Erni og vitninu C. 

Fyrir dómi kvaðst ákærði Ísmar Örn hvorki geta játað né neitað sakarefni I. kafla ákæruskjalsins.  Vísaði hann til áfengisdrykkju laugardagskvöldið 11. júlí 2009 og minnisglapa um gjörðir sínar af þeim sökum að morgni 12. júlí.  Er atvik gerðust  kvaðst hann hafa verið í slagtogi með ákærðu X og vitninu C.  Minntist hann þess að þau hefðu verið á leið til Reykjavíkur í bifreið sem sú fyrrnefnda hafði umráð yfir.  Kvaðst hann hafa haldið áfram áfengisdrykkjunni á suðurleiðinni, en bar að C hefði sofnað í bifreiðinni.  Ákærði kannaðist við að þau hefðu staldrað við við félagsheimilið [...], en kvaðst ekki minnast gjörða sinna þar.  Vegna minnisglapanna treysti hann sér ekki til að staðfesta efnisatriði áður rakinnar skýrslu sem hann hafði gefið hjá lögreglu, þar sem hann lýsti eigin þjófnaðarbrotum.  Af sömu ástæðu kvaðst hann ekki geta tjáð sig um gjörðir fyrrnefndra stúlkna og þá ekki hvort þær hefðu stolið einhverjum munum í greint sinn.  Ákærði staðhæfði hins vegar að þeir munir sem hann hafði séð hjá lögreglu og hann játaði að hafa stolið hefðu ekki verið í bifreiðinni þegar þau lögðu af stað frá Akureyri þá um nóttina.  Ákærði staðfesti að lokum nafnritun sína á nefndri yfirheyrsluskýrslu hans hjá lögreglu, en um skýringu á efni hennar hafði hann svofelld orð: „... ég var ekki alveg viss um hvort ég hafði stolið þessu eða þær tvær.“ Ákærði nefndi það einnig að hann hefði verið búinn að fá nóg af vistinni á lögreglustöðinni er hann tjáði sig um kæruefnið. 

Vitnið C skýrði frá því að aðfaranótt 12. júlí 2009 hefði hún verið með ákærðu í bifreið og bar að ætlan þeirra hefði verið að aka til Reykjavíkur.  Vitnið kvað ákærðu X hafa ekið bifreiðinni og bar að hún hefði því ekki neytt áfengis eða lyfja.  Sjálf kvaðst hún hafa neytt áfengis og af þeim sökum sofnað ölvunarsvefni, en vaknað í [...] við það að X skellti bílhurðinni og ók af stað.  Vitnið minntist þess ekki að hún hefði farið út úr bifreiðinni í [...].  Vitnið kannaðist hins vegar við að hringt hefði verið til lögreglu vegna bilunar í bifreiðinni, en er lögreglumenn komu til aðstoðar hefðu þau öll verið handtekin vegna ætlaðs þjófnaðarbrots.  Vitnið kvaðst ekki hafa haft vitneskju um slík brot og bar að hún hefði heldur ekki séð þýfi í bifreiðinni.

Vitnið D, ættuð frá Þýskalandi, kvaðst hafa gist í [...] aðfaranótt 12. júlí 2009, en tilefnið hefði verið samkoma [...].  Vitnið kvaðst hafa gist í eigin bifreið ásamt samferðafólki þá um nóttina, en vaknað árla morguns og þá séð hvar tveir menn á aldrinum 18 til 22 ára voru á vappi um tjaldstæðið.  Kvaðst vitnið ekki hafa gætt að þessu frekar heldur lagt leið sína á snyrtinguna í félagsheimilinu [...], en síðan farið aftur í eigin bifreið.  Skömmu eftir þetta kvaðst vitnið hafa heyrt umgang og litið út en þá séð hvar ung stúlka var að opna hurð á bifreið, en í framhaldi af því hafi það séð að hún hélt á svartri myndavélartösku.  Kvaðst vitnið hafa veitt því eftirtekt að stúlkan lokaði hurðinni hljóðlega, og þar sem það hefði talið sig vita að hún tilheyrði ekki þeirri fjölskyldu sem átti bifreiðina hefði hún afráðið að gæta að þessu háttalagi nánar.  Kvaðst vitnið hafa fylgt stúlkunni eftir en jafnframt ávarpað hana á ensku, og m.a. haft uppi þá fyrirspurn hvort að hún ætti umrædda myndavél.  Vitnið bar að stúlkan hefði ekki brugðist við þessum orðum heldur haldið för sinni áfram.  Vegna þessa kvaðst vitnið hafa kallað á hjálp og í framhaldi af því hrópað á ensku að þjófar væru á tjaldstæðinu.  Vitnið kvaðst hafa veitt stúlkunni eftirför en hún þá sprett úr spori og um síðir kastað myndavélinni frá sér.  Vitnið kvaðst á þeirri stundu hafa ætlað að fyrrnefndir tveir aðilar biðu stúlkunnar við félagsheimilið og hafi hún því afráðið að hætta eftirförinni, en í þess stað tekið myndavélina í sínar vörslur.  Um svipað leyti og þetta gerðist kvaðst vitnið hafa veitt því eftirtekt að ungur ljóshærður karlmaður íklæddur svartri peysu var þarna á vettvangi.  Kvaðst vitnið hafa séð það greinilega að hann var með eitthvað falið undir peysunni.  Vitnið kvaðst hafa greint vitninu E, sem kominn var á vettvang, hvað um var að vera og bar að hann hefði þá þegar brugðist við og hafið eftirför.  Vitnið bar að umrætt fólk, sem allt hefði verið ungt að árum, hefði um síðir komist undan á bifreið og ekið henni í átt til Akureyrar.  Fyrir dómi lýsti vitnið atvikum máls nánar og lýsti m.a. að nokkru klæðaburði nefndra aðila, en það kvað albjart hafa verið.

Vitnið E, fæddur 1959, kvaðst umrædda helgi í júlí 2009 hafa verið á sumarhátíð [...], sem haldin hafi verið í [...].  Sunnudagsmorguninn 12. júlí kvaðst vitnið hafa vaknað við umgang þýskra félaga og nokkru síðar heyrt að vitnið D kallaði á ensku og hafði um það fyrirspurn hvað einhver nærstaddur aðili væri að aðhafast. Í framhaldi af þessu kvaðst það hafa heyrt að hlaupið var úti við, en síðan heyrt viðvörunarorð D um að fólk ætti að vakna þar eð þjófar væru á vettvangi.  Kvaðst vitnið vegna þessa hafa sprottið á fætur og farið út úr tjaldinu.  Vitnið kvað albjart hafi verið og kvaðst það hafa séð D á hlaupum nálægt trjáreit við félagsheimilið [...], en á undan hefði hlaupið ung stúlka.  Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt að stúlkan hafi sveiflað frá sér einhverjum svörtum hlut en engu að síður haldið för sinni áfram.  Vitnið bar að D hefði hætt eftirförinni eftir þetta, tekið hlutinn upp og komið með hann.  Kvaðst það þá hafa séð að um var að ræða myndavél í svartri tösku.  Vitnið staðhæfði að síðar hefði komið í ljós að myndavélin tilheyrði einum félaganum í nefndum klúbbi, en hefði verið skilin eftir í ólæstri bifreið þarna á tjaldstæðinu.  Vitnið kvaðst eftir þetta hafa rætt við D og eiginmann hennar, en þá séð hvar ungur maður var að fara um tjaldstæðið.  Vitnið bar að hann hefði verið íklæddur dökkri hettupeysu og hefði verið greinilegt að hann var með eitthvað innanklæða.  Vitnið bar að D hefði hrópað upp að hinn ungi maður væri einn af þeim sem hefðu verið með fyrrnefndri stúlku.  Vitnið kvaðst vegna þessa hafa reynt að veita unga manninum eftirför, en hann þá horfið fyrir húshornið á félagsheimilinu [...] og er þangað kom hefði vitnið séð hvar maðurinn var kominn inn í bifreið, sem þá um leið hefði ekið af stað og að þjóðvegi nr. 1.  Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt að bifreiðin staðnæmdist allgóða stund við gatnamótin, en síðan hafði það séð að henni var ekið upp Vatnsskarðið, í átt að Skagafirði.  Vitnið bar að framangreind atburðarás hefði tekið um 5-10 mínútur, en það kvaðst, eftir að bifreiðinni var ekið áleiðis í Skagafjörðinn, hafa hringt í neyðarlínuna 112, en þá fengið símasamband við lögregluna á Akureyri.  Vitnið ætlaði að klukkan hefði þá verið 06:30 til 07:30.  Vitnið kvaðst hafa greint lögreglu frá helstu málavöxtum, en þó alveg sérstaklega lýst umræddri bifreið, en hún hafi verið mosagræn að lit og auðþekkjanleg, enda af gerðinni [...].  Síðar þennan dag kvaðst vitnið hafa verið í frekara símasambandi við lögregluna á Akureyri og þá m.a. veitt upplýsingar um þá muni sem talið var að horfið hefðu á tjaldstæðinu, en þá jafnframt fengið upplýsingar um að þeir hefðu að einhverju leyti fundist í umræddri bifreið. 

Fyrir dómi lýsti nefnt vitni atvikum máls nánar, þar á meðal klæðaburði, háralit og athæfi fyrrnefndra ungmenna.  Vitnið ætlaði að þau hefðu verið þrjú, en hafði þann fyrirvara á, að það hefði fylgst með þeim úr nokkurri fjarlægð, en auk þess hefðu þau verið á hlaupum.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð ölvunareinkenni, fát eða fum á nefndu fólki. 

Jóhannes Sigfússon varðstjóri staðfesti fyrir dómi efni áður rakinnar lögregluskýrslu.  Vitnið bar að ákærða X hefði ekki borið sýnileg merki ölvunar eða vímuefnaneyslu, hvorki í tali eða framkomu.  Hið sama hefði gilt um húðlit og sjáöldur augna hennar.  Vitnið staðhæfði að ef svo hefði verið hefði verið gripið til viðeigandi aðgerða gagnvart henni sem ökumanni bifreiðarinnar [...].  Vitnið vísaði til þess að það hefði rætt við ákærðu á leið þeirra á lögreglustöðina á Akureyri og áréttaði efni frumskýrslu að því leyti.  Vitnið kvað ákærða Ísmar Örn hafa verið undir greinilegum áhrifum áfengis og bar að af þeim sökum hafi verið gripið til viðeigandi ráðstafana.

Valur Magnússon rannsóknarlögreglumaður bar að við yfirheyrslu á lögreglustöð þann 12. júlí 2009, kl. 10:00, hefði ákærða X komið eðlilega fyrir.  Kvaðst vitnið alls engin vímuefnaáhrif hafa séð á henni og bar að ef svo hefði verið hefði skýrsla ekki verið tekin af henni um kæruefnið.  Vitnið bar að ólíkt þessu hefði ákærði Ísmar Örn ekki verið skýrsluhæfur vegna ölvunar.  Af þeim sökum hafi hann verið vistaður í fangaklefa.  Vitnið bar að við yfirheyrslu daginn eftir hefði hann verið í þokkalegu ástandi.  Vitnið staðfesti að öðru leyti rannsóknargögn og aðgerðir lögreglu.

Af hálfu ákærðu, X og Ísmars Arnar, er um sýknukröfur einkum vísað til grunnreglna opinbers réttarfars um sönnunarbyrði ákæruvalds, sbr. ákvæði 108. gr. laga nr. 88, 2007 um meðferð sakamála.

Niðurstaða.

Ákærðu, Ísmar Örn og X, hafa fyrir dómi bæði neitað sök, sbr. I. og II. kafla ákæruskjals.

Ákærði Ísmar Örn hefur fyrir dómi dregið frásögn sína fyrir lögreglu þann 13. júlí sl. til baka og lýst yfir minnisleysi um gjörðir sínar umræddan sunnudagsmorgun að öllu verulegu.  Vísar hann til ölvunarástands síns, en minnist þess þó að hafa haft viðveru í [...]. 

Ákærða X gaf eins og áður er rakið skýrslu hjá rannsóknarlögreglumanni kl. 10:00 sunnudaginn 12. júlí 2009.  Fyrir dómi lýsti hún yfir nær algjöru minnisleysi við gjörðir sínar, þ. á m. að því er varðar nefnda skýrslugjöf hjá lögreglu.

Vitnið C hefur við meðferð málsins lítt getað greint frá ferðum sínum með ákærðu nefndan sólarhring.  Hún minnist þess þó að hafa vaknað af ölvunarsvefni í bifreið sem ákærða X ók og hafði til umráða.  Kvaðst hún hafa vaknað upp við hurðarskell og þá séð hvar ákærða var að aka frá [...].

Að ofangreindu virtu og í ljósi framlagðra gagna ákæruvalds verður lagt til grundvallar að ákærðu hafi síðla nætur þann 12. júlí 2009 ekið í [...]-bifreiðinni [...] frá Akureyri áleiðis til Reykjavíkur, en á leiðinni áð í [...].  Verður lagt til grundvallar að eftir tiltölulega stutta viðdvöl í [...] hafi ákærðu afráðið að snúa við og aka sömu leið til baka eða allt þar til ákærða X ákvað að hætta akstrinum í Öxnadal vegna bilunar í bifreiðinni.  Liggur fyrir að hún óskaði í framhaldi af því eftir aðstoð lögreglu.

Vitnin D og E hafa bæði lýst atvikum á tjaldstæðinu í [...] umræddan morgun.  Þar á meðal hafa þau lýst því að styggð hafi komið á unga konu og hún hlaupið undan er yrt var á hana, en hún þá jafnframt kastað frá sér svartri tösku, sem í reyndist vera myndavél.  Staðhæfði vitnið E að síðar hefði komið í ljós myndavélin hafði verið í ólæstri bifreið og var í eigu samferðarmanns.  Eru lýsingar nefndra vitna mjög í samræmi við þá skýrslu sem ákærða X gaf á lögreglustöðinni á Akureyri þennan morgun.

Samkvæmt vitnisburðum lögregluvarðstjóra og rannsóknarlögreglumanns er afskipti höfðu af ákærðu X í greint sinn var hún allsgáð og vel á sig komin þegar afskipti voru höfð af henni í Öxnadal umræddan morgun og við skýrslutöku á lögreglustöðinni á Akureyri nokkru síðar.  Staðfestu lögreglumennirnir skýrslur sínar fyrir dómi.  Vitnisburður C er einnig að nokkru leyti í samræmi við vætti lögreglumannanna. 

Fyrir liggur að það þýfi sem tilgreint er í rannsóknargögnum og ákæruskjali fannst við leit í bifreið ákærðu, [...].  Liggur og fyrir að ákærði Ísmar Örn játaði skilmerkilega þjófnað er honum var sýnt þýfið við yfirheyrslu lögreglu, sbr. sakaratriði I. kafla ákæruskjals.  Er í því samhengi til þess að líta að framburður vitnanna D og E fyrir dómi er að nokkru í samræmi við lögregluskýrslu ákærða Ísmars Arnar hjá lögreglu.

Þegar ofangreint er virt í heild og þá ekki síst þegar litið er til vitnisburðar þeirra lögreglumanna sem afskipti höfðu af ákærðu Ísmari Erni og X skömmu eftir að atvik gerðust í [...] eru afturkallanir ákærðu á játningum sínum við lögreglurannsókn málsins, þann 12. og 13. júlí 2009, að áliti dómsins, ótrúverðugar.  Ákæru hafa heldur ekki véfengt að hafa gefið þessar skýrslur eða gefið skýringar á framburði sínum fyrir dómi sem tekið verður tillit til við úrlausn málsins.  Er það niðurstaða dómsins að ekki sé varhugavert að telja sannað, þrátt fyrir neitun ákærðu, að þau hafi gerst sek um þau þjófnaðarbrot sem lýst er í I. og II. kafla ákæruskjals.  Ber ákærða X, líkt og Ísmar Örn, fulla refsiábyrgð á háttseminni, en brot þeirra eru réttlega heimfærð til lagaákvæða í ákæruskjali.

Ákæruskjal ríkissaksóknara, útgefið 2. desember 2009.  Mál nr. S-370/2009.

1. Samkvæmt rannsóknargögnum var lögreglunni á Akureyri tilkynnt föstudagskvöldið 9. október 2009, klukkan 21:31, að karlmaður hefði orðið fyrir stórfelldri líkamsárás, þ.e. hnífsstungu, við [...]. Var þegar brugðist við og var flokkur lögreglumanna kominn á vettvang örfáum mínútum síðar, en samtímis komu þar að sjúkraflutningamenn.  Var hinn slasaði, A, fæddur 1988, fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri, en hann hafði verið við störf á bar á neðstu hæð skemmtistaðarins umrætt kvöld.

Samkvæmt gögnum var lögreglumönnum er fyrstir komu á vettvang tilkynnt að ætlaður árásaraðili hefði farið af vettvangi í skyndi, en fregnir bárust fljótlega um að hann væri við járngrindverk skammt sunnan við skemmtistaðinn.  Segir frá því að er lögreglumenn komu þangað hafi þeir hitt fyrir vitnið F, en þá einnig séð að ákærði hékk á hvolfi á girðingunni og var flæktur með fæturna í efsta hluta hennar.  Þar á vettvangi munu og hafa verið fleiri aðilar, m.a. vitnin G og H, er lýstu því, að þeir hefðu hlaupið á eftir ákærða eftir að atvik gerðust nærri aðalinngangi [...].  Var ákærði losaður af girðingunni og færður á lögreglustöðina á Akureyri.

Í frumskýrslu er vettvangi við umrædda girðingu lýst þannig:  „Við girðinguna beint neðan við þar sem Ísmar hafði hangið á með höfuðið niður, lágu peningar, hnífur og sprauta fyrir tóbak sem allt virtist hafa dottið úr vösum Ísmars.  Snjór var á jörðinni og bleyta, en peningaseðlarnir og hnífurinn virtust þurr.  Þessir hlutir virtust því ekki  hafa legið þarna lengi.  Ísmar var með sár á hægri hendi, í þykkhöndinni, neðan við þumalinn inni í lófanum.  Sárið var eins og skurður og blæddi úr því.  Ljósmyndir voru teknar á vettvangi, af Ísmari, sárinu á höndum hans og mununum sem lágu undir girðingunni.“

Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir áður nefndum aðilum, G, H, en einnig I, að hinn slasaði aðili, A, hefði vegna starfa sinna sem barþjónn haft samskipti við ákærða.  Hafi þau afskipti endað þannig að hann hafi leitt ákærða að útidyrahurð skemmtistaðarins og vísað honum út.  Og er A hafi komið til baka hefði hann haft á orði að hann hefði verið stunginn.  Vegna þessa hefðu nefndir aðilar stokkið til og hlaupið út úr húsinu á eftir ákærða. 

Í rannsóknargögnum lögreglu er því lýst að við vettvangsskoðun hafi sést blóðblettur við barborðið.  Þá er því lýst að vettvangur hafi verið ljósmyndaður, en auk þess hafi verið gerðar ráðstafanir hjá starfsmönnum öryggisfyrirtækis til að fá viðeigandi myndskeið úr upptökuvél er sýndi anddyri skemmtistaðarins þá um kvöldið.  Liggur fyrir í málinu mynddiskur, sem ákæruvald lagði fram, og sagt er að sýni m.a. ferðir gesta í anddyrinu [...] á þeim tíma sem hér um ræðir.

Í rannsóknargögnum, sem Jónas Halldór Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður tók saman, er aðstæðum í og við [...] nánar lýst, þ.á.m. með litljósmyndum og árituðum texta.  Myndirnar sýna m.a. aðalinngang skemmtistaðarins, en einnig port baka til og sunnan við.  Má þar sjá járngirðingu, um tveggja metra háa.  Segir í myndtexta að þar megi sjá nærmynd af hnífi, smámynt og sprautu.  Auk þessa eru myndir af hinum slasaða brotaþola á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri og segir í texta að sjá megi skurð á kvið hans, er hafi við mælingu verið um tveggja sentimetra langur.  Einnig er mynd af bol sem hinn slasaði aðili er sagður hafa verið í, en í texta segir:  „Ljósmyndin sýnir blóðblett í bolnum og fyrir neðan blettinn má sjá skurðinn á bolnum …  Skurðurinn reyndist vera um tveggja sm langur.“

Í áverkavottorði Vals Þórs Magnússonar, skurðlæknis og yfirlæknis handlækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri, sem dagsett er 6. nóvember 2009, er áverka A og læknismeðhöndlun lýst þannig:

„Sjúklingur kom á slysadeild FSA að kvöldi dags  þann 9. október 2009 eftir að hafa orðið fyrir hnífsstungu í kviðvegg.  Hann var starfsmaður í [...] hér í bæ og var við hefðbundna vinnu þetta kvöld en varð þá skyndilega fyrir líkamsárás frá einum gesta staðarins.  Sá bar að honum hníf og stakk í kviðinn vinstra megin ofantil.  Fékk strax talsverða verki við stunguna en við komu var hann með t.t.l. mjúkan kvið en um 2 cm stórt og t.t.l. hreint sár í efri magál vinstra megin í miðlínu.  Sýndist ekki hafa farið í gegnum meginæð eða annað sem þar liggur en erfitt að dæma um dýpt stungunnar, það sáust engin önnur örugg áverkamerki.  Gerð var ómskoðun af kviðarholi ásamt tölvusneiðmyndun af kviðarholi, það sáust ekki áverkamerki á kviðarholslíffærum en greinilega hafði hnífurinn farið í gegnum kviðvegginn allan þannig að áverkinn hefði getað orðið afar alvarlegur ef innar hefði farið hnífurinn.  Það sást svolítið loft nærri garnahenginu sem er þá merki um áverka þar en slíkt jafnar sig af sjálfu sér þar sem ekki er um að ræða þarmaskaða.  Sárið var hreinsað og því lokað samkvæmt venju og sjúklingur fékk sýklalyf í forvarnarskyni.  Það var fylgst með honum og líðan hans allgóð, hann treysti sér síðan að halda heim en leið þá verr og kom því strax aftur á slysadeild.  Undirritaður skoðaði hann þá að nýju og var um að ræða streitutengt viðbragð í kjölfar áverkans en engin merki um áverka af nýjum toga eða annað þess háttar.  Sökum aðstæðna og þess sem á undan hafði gengið var ákveðið að hafa sjúkling til eftirlits á handlækningadeild yfir nóttina.  Líðan hans var góð að morgni dags, hann var mjúkur í kvið og engin einkenni sem kröfðust frekari rannsókna eða eftirlits af hálfu deildarinnar eða undirritaðs.  Hann fékk almennar ráðleggingar við útskrift og frekara eftirlit ekki áformað af hálfu deildarinnar ef allt gengi að óskum.  Hann hefur ekki leitað á slysadeild eða á deildina síðar eftir því sem vitað er.

Niðurstaða:  Sjúklingur varð fyrir hnífsstungu sem olli ekki áverka á innri líffærum en skurður var í gegnum kviðvegginn þannig að áverkinn hefði mögulega geta orðið afar alvarlegur og jafnvel lífshættulegur.  Þar sem ekki sáust merki á kviðarholslíffærum eða æðum þá verður að gera ráð fyrir því að sárið grói vel og hann muni ekki hafa neina líkamlega kvilla sökum þessa síðar meir.“

Samkvæmt beiðni lögreglunnar á Akureyri rannsakaði tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hníf þann sem lögreglan lagði hald á á handtökuvettvangi ákærða, þ.e. við járngirðinguna sunnan [...] að kveldi 9. október 2009.  Í rannsóknarskýrslu, sem rituð er af Boga Sigvaldasyni rannsóknarlögreglumanni af þessu tilefni, segir m.a. að engin nothæf fingraför hafi fundist á hnífnum.  Hnífnum er þannig lýst:  „Um er að ræða stálhníf, sjálfskeiðung, vasahníf með veiðihnífsblaði og með stálskefti, sem blaðið fellur inn í.  Hnífurinn er af gerðinni Ödeman, merktur á blaði.  Aðrar merkingar á blaði eru „stainless 440 steel made in Spain.“  Eftirfarandi mælingar voru gerðar á hnífnum.  Heildarþyngd hnífs:  138,83 grömm, heildarlengd hnífs: 183 mm, lengd hnífsblaðs:  83 mm, lengd skeftis:  100 mm, mesta breidd blaðs: 22 mm.  Meðfylgjandi eru ljósmyndir af hnífnum, en í myndtexta þar sem verið er að lýsa hnífsblaðinu segir:  ,,... má sjá blóðbletti sem sýni var tekið frá.  Við prófun reyndist um mennskt blóð að ræða.“  Hnífurinn var meðal gagna sem ákæruvaldið lagði fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins.

Eins og áður er fram komið var ákærði handtekinn utan við [...] að kveldi föstudagsins 9. október sl., kl. 21:36.  Eftir að ákærði hafði verið færður á lögreglustöð var að beiðni lögreglu gerð á honum læknisskoðun kl. 22:20.  Segir í framlögðu læknisvottorði heilsugæslulæknis um skoðunina að ákærði hafi verið með grunnan skurð í lófa hægri handar á yfirborði húðar sem ekki hafi náð í gegn og að hann hafi verið með blóð undir nöglum á vísifingri og löngutöng hægri handar.  Einnig segir að hann hafi verið með grunnt skafsár í vinstri lófa og tvær blóðrákir á hægra læri.  Í vottorðinu er því lýst að ákærði hafi verið vakandi, aðeins drafandi í tali en áttaður á stund og stað.  Hann hafi verið rólegur í fasi en svipbrigðalítill.  Segir að við stutt minnispróf hafi hann munað tvær tölur af fjórum.  Þá segir að hann hafi verið með áberandi rauðsprengd augu og fljótandi og hafi verið óöruggur við að ganga eftir beinni línu.  Í vottorðinu segir að í viðtali við ákærða hafi ekki komið fram teikn um geðrofseinkenni, þ.e.a.s. ranghugmyndir eða heyrnarofskynjanir.  Haft er eftir ákærða að hann hafi drukkið áfengi nefndan dag, þ.e.a.s. tvo bjóra, en ekki tekið nein lyf eða fíkniefni.  Það álit er látið í ljós að ákærði hafi verið undir áhrifum vímuefna, líklega áfengis.

Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu voru tekin blóðsýni til alkóhól- og vímuefnaákvörðunar úr ákærða kl. 22:00 umrætt kvöld.  Í matsgerð rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem dagsett er 3. nóvember s.á., segir að í sýninu hafi ekki verið í mælanlegu magni ólögleg ávana- og fíkniefni, en að áfengismagn í blóði hafi verið 2,48‰.

Ákærði var vistaður í fangaklefa að kveldi 9. október 2009 kl. 22:35, en samkvæmt gögnum var haft samband við verjanda hans kl. 23:03 þá um kvöldið.  Ákærði var yfirheyrður af lögreglu tvívegis þann 10. október s.á. um kæruefnið.  Fyrst í stutta stund kl. 11:34, en í framhaldi af því var honum gefið færi á að ræða í síma við lögmann þann sem síðar var skipaður verjandi hans í málinu.  Ákærði var yfirheyrður af lögreglu aftur sama dag frá kl. 20:58 til 21:08.  Báðar þessar yfirheyrslur voru teknar upp með hljóði og mynd og eru disklingar þar um á meðal gagna málsins.  Við síðari yfirheyrsluna var ákærða sýnd myndskeiðsupptaka frá kvöldinu áður úr [...] og er það myndskeið á disklingi, sem lagður var fyrir dóminn.  Var það sýnt við aðalmeðferð málsins.  Ákærði var leystur úr haldi lögreglu eftir síðari yfirheyrslu lögreglu þann 10. október sl. kl. 21:13.

Við lögreglurannsókn málsins voru vitni yfirheyrð.  Var vitnið A þannig yfirheyrt laust eftir miðnættið þann 10. október 2009, en önnur vitni á tímabilinu frá 12. til 29. október sl.  Þar á meðal voru H, J, F, G, I, K og L.

Bótakrafa í málinu var lögð fram þann 19. nóvember 2009 og var hún birt ákærða samdægurs.

2. Ákærði, Ísmar Örn, neitaði í fyrrnefndum yfirheyrslum hjá lögreglu þann 10. október 2009, að hafa stungið barþjóninn A með hnífi að kveldi 9. s.m.  Hann kannaðist hins vegar við að hafa verið í [...] umrætt kvöld og minntist þess að hafa spjallað við gesti þar innandyra.  Einnig minntist hann þess að hafa rífist við einhvern ónefndan „gæja“ og kvaðst hafa átt í einhverjum stælum við hann, en hafði um það svofellt orð:  ,,Ég réðist eitthvað á hann og sá aðili öskraði eitthvað.“  Ákærði kvaðst mjög óljóst minnast greinds atviks og ætlaði helst að hann hefði yfirgefið vettvang eftir viðskiptin.  Við síðari lögregluyfirheyrsluna var ákærða sýnt myndband úr eftirlitsmyndavél [...], en það er sagt sýna frá anddyri skemmtistaðarins.  Kvaðst ákærði þekkja sjálfan sig á myndskeiðinu, m.a. fötin, og nefndi í því sambandi að hann hefði verið íklæddur  rauðsvartri hettupeysu.  Ákærða var jafnframt sýnd ljósmynd af hnífi þeim er fannst á vettvangi, þ.e. við járngirðinguna sunnan [...].  Ákærði kvaðst kannast við hnífinn og bar að hann hefði fengið hann lánaðan hjá nafngreindum kunningja sínum.  Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa verið með hnífinn á sér þetta kvöld.

Fyrir dómi, við þingfestingu og við aðalmeðferð, neitaði ákærði sök. Vísaði ákærði til minnisglapa um gjörðir sínar umrætt föstudagskvöld vegna áfengisneyslu.  Hann kvaðst hafa verið við drykkju þennan dag og minntist þess að hafa farið í miðbæinn.  Jafnframt rámaði hann í að hafa verið fyrir utan [...] þá um kvöldið, en áréttaði að öðru leyti algjört minnisleysi um málsatvik.  Fyrir dómi var ákærða sýnt áður nefnt myndskeið úr eftirlitskerfi [...].  Véfengdi ákærði að þar mætti sjá honum bregða fyrir, en bar að einum þeirra aðila sem þar kæmi fyrir svipaði til hans í útliti.  Ákærða voru jafnframt sýndar myndbandsupptökur af yfirheyrslum hans hjá lögreglu.  Hann véfengdi þær ekki, en treysti sér ekki til að rifja upp eða skýra frekar frá eigin gjörðum umrætt kvöld.

Fyrir dómi áréttaði ákærði fyrri framburð sinn hjá lögreglu um að hann hefði fengið hníf lánaðan hjá kunningja nokkru fyrir greindan atburð og hefði sá hnífur verið líkur þeim hníf sem lögregla haldlagði fyrir utan [...].  Bar ákærði að hnífurinn hefði verið á heimili hans, en hann kvaðst ekki hafa orðið hans var eftir að hann var handtekinn þann 9. október sl.  Ákærði áréttaði fyrri framburð sinn hjá lögreglu og kvaðst ekki minnast þess að hafa haft hnífinn meðferðis umrætt kvöld. 

Vitnið A, fæddur 1988, skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði umrætt kvöld verið við störf í [...], en hann kvaðst hafa starfað þar um helgar.  Nefnt kvöld kvaðst hann hafa verið barþjónn á neðstu hæð skemmtistaðarins, nærri anddyrinu, en tilefnið hefði verið einkasamkvæmi vegna afmælisveislu ungrar konu.  Vitnið bar að á meðal gesta hefðu verið starfsmenn skemmtistaðarins, þar á meðal vitnin I og G.  Vitnið kvaðst hafa verið að störfum á nefndum bar er G benti því á að einn gestanna hefði í óleyfi farið upp á efri hæð hússins.  Vegna þessa kvaðst vitnið hafa farið upp og náð í aðilann, en það hefði verið ákærði í máli þessu.  Vitnið bar að ákærði hefði brugðist vel við ósk þess um að fara aftur niður, en þó haft á orði:  „Hvað þykist þú vera.“  Vitnið kvaðst hafa átt stuttar samræður við ákærða þegar þeir komu á neðri hæðina, við barinn, og þá m.a. gert honum grein fyrir að gestir yrðu að fylgja húsreglum, en þegar það hafi ekki nægt hefði vitnið afráðið að vísa honum út úr húsinu.  Vitnið kvaðst í framhaldi af þessu hafa fylgt ákærða frá barnum í anddyrinu, um ytri forstofuna og að aðalútdyrahurðinni.  Vitnið lýsti atvikum máls nánar þannig:  „… hann (ákærði) labbar út og stendur síðan fyrir framan mig eitthva𠅠 Það var eins og hann ætlaði að segja eitthvað og ég var að hlusta eftir því, en náði því ekki, svo allt í einu stingur hann mig…  Og ég átta mig ekki á þessu alveg strax, lít niður og sé þetta og labba því beint inn á bak við barborðið og finn þar handklæði til að þrýsta að sárinu og hringja í 112.“  Vitnið kvaðst ekki hafa séð hníf þann sem ákærði beitti almennilega og í raun aðeins í örskotsstund séð málmhlut í hendi hans.  Vitnið kvaðst aldrei hafa verið í vafa um að það var ákærði sem stakk:  „Hann var sá eini sem stóð þarna úti og ég sá engan sem stóð þarna nálægt. … Þegar hann stingur mig þá náttúrulega grúfi ég mig niður og ég sé eitthvað í hendinni á honum.“  Vitnið bar að við hnífstunguna hefði það bölvað ákærða, en hann þá hlaupið á brott.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð hvert ákærði fór, en vitnið hefði hringt í neyðarlínuna og ætlaði að það hefði þá haft orð á því að það hefði verið ákærði sem veitti vitninu áverkann.  Vitnið ætlaði að umrædd samskipti við ákærða hefðu í heild varað í 6-7 mínútur, en það kvaðst hafa átt orðræðu við hann á efri hæðinni og síðan hjá barnum í anddyrinu í um 1 ½ mínútu.  Þá kvaðst það hafa staðið hjá ákærða í anddyri útidyrahurðarinnar, en ákærði hefði verið þar fyrir framan hann á stéttinni, í um 30 - 45 sekúndur.  Vitnið bar að engin þung orð hefðu fallið á milli þeirra og ekki hefði verið um átök eða stimpingar að ræða.  Vitnið bar að ákærði hefði virst vera í slæmu ástandi, og nefndi að hann hefði m.a. verið þvoglumæltur.  Engu að síður hefði hann gengið óstuddur.  Vegna kviðáverkans kvaðst vitnið hafa misst úr vinnu í [...] í fjórar helgar, en það kvaðst hafa verið um tvo mánuði að ná líkamlegum bata.  Vitnið bar að þrátt fyrir batann hefði það ekki treyst sér til að hefja störf í [...] að nýju og vísaði til andlegra eftirkasta atburðarins. 

Vitnið J, fædd 1993, kvaðst hafa verið í afmælisboði á neðstu hæð [...] föstudagskvöldið 9. október sl.  Vitnið kvaðst um tíma hafa brugðið sér út fyrir og verið á gangstéttinni nærri aðalútidyrahurðinni, og þar kvaðst það hafa orðið vitni að samskiptum ákærða og A.  Vitnið kvaðst fyrst hafa séð til nefndra aðila í anddyrinu, en þá hafi A verið að fylgja ákærða að útidyrahurðinni.  Vitnið bar að A hefði í raun verið að „henda“ ákærða út og kvaðst það hafa fylgst með því er hann stóð í hurðargættinni, en ákærði staðið þar fyrir framan, á stéttinni.  Við þessar aðstæður kvaðst vitnið hafa séð ákærða stinga A í magann eða síðuna.  Vitnið kvað A hafa brugðist við með því að ýta ákærða frá sér en síðan séð hann halda um kviðinn.  Vitnið bar að eftir þetta hefði ákærði gengið fram hjá því, áleiðis að miðbænum.  Nánar aðspurt um athæfi ákærða sagði vitnið:  „Hann alla vegana lokaði hnífnum þegar hann var búinn að stinga hann …  Ég sé náttúrulega ekkert hnífinn sjálfan þegar hann stingur en ég sé samt að hann stingur hann …“.  Í þessu sambandi vísaði vitnið til handarhreyfingar ákærða er atburðurinn gerðist, en það kvaðst hafa séð atburðarásina vel þrátt fyrir að dimmt hafi verið úti og vísaði til þess að það hefði aðeins verið í tveggja til þriggja metra fjarlægð.  Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt nefnda aðila rífast fyrir atganginn, en eftir árásina kvaðst það hafa fylgt A eftir er hann fór inn í [...] og þá m.a. séð að hann fór að barborðinu og talaði í síma.  Við það tækifæri kvaðst vitnið hafa séð að hvítur bolur hans var blóðugur.  Sérstaklega aðspurt fyrir dómi staðfesti vitnið þá frásögn við skýrslugjöf hjá lögreglu að það hefði heyrt A segja eftir atgang ákærða við útidyrahurðina; „ertu þroskaheftur“.  Vitnið kvaðst hafa verið eitt á vettvangi með nefndum aðilum er atburðurinn gerðist.

Vitnið I, fæddur 1988, kvaðst hafa verið á frívakt umrætt kvöld og verið að skemmta sér í afmælisteiti vinkonu, sem haldið hefði verið í anddyri [...].  Vitnið kvaðst hafa verið við barinn er það veitti því eftirtekt að A barþjónn kom niður stigann með ,,dreng“ sem hann kannaðist ekki við.  Vitnið kvaðst hafa fylgst með störfum A á barnum, en þá jafnframt heyrt að hann átti í einhverjum orðaskiptum við piltinn.  Kvaðst vitnið m.a. hafa heyrt þau orð falla af hálfu A að tímabært væri að drengurinn færi út úr húsinu.  Vitnið kvað piltinn hafa andmælt þeim orðum en í framhaldi af því kvaðst það hafa séð þá ganga saman áleiðis að útidyrahurðinni.  Atvikum lýsti vitnið nánar þannig:  „... ég geng svona í humátt á eftir þeim og síðan kemur A aftur inn, bara örstuttu síðar, innan við tíu sekúndur, hann heldur um síðuna og kveinkar sér eitthvað aðeins.  Ég spyr hvað gerðist?  Ég var stunginn segir hann og hann labbar síðan aftur fyrir borðið og hringir á Neyðarlínuna ...“.  Við meðferð málsins lýsti vitnið framhaldinu á þá leið að það hefði beðið hjá A þar til lögregla og sjúkrabíll komu á vettvang, en þá haft spurnir af því að vitnið F hefði hlaupið á eftir ætluðum árásaraðila út úr [...].  Vegna þessa kvaðst vitnið hafa farið út og gengið suður fyrir húsið, en þá séð hvar lögreglan hafði handtekið ætlaðan árásaraðila.  Vitnið kvaðst í framhaldi af því hafa skýrt lögreglumönnum frá vitneskju sinni um málið.

Vitnið F, fæddur 1988, kvaðst hafa verið í afmælishófi í anddyri [...] umrætt kvöld og m.a. fylgst með því er fyrrverandi starfsfélagi þess, A, fór á eftir pilti á efri hæð [...].  Kvaðst vitnið síðar hafa þekkt þann aðila sem ákærða í málinu.  Vitnið kvaðst eftir þetta hafa fylgst að nokkru með viðræðum A og ákærða á barnum á neðri hæðinni og m.a. heyrt að sá fyrrnefndi hafði á orði að ákærði þyrfti að fara út úr húsinu ef hann hagaði sér ekki.  Nokkru síðar kvaðst vitnið hafa fylgst með því er þeir tveir, ákærði og A, gengu saman að útidyrahurðinni, en vitnið kvaðst þá hafa verið við fatahengið, ásamt vitnunum G og H.  Vitnið ætlaði að innan við mínúta hefði liðið frá því að það sá A ganga að útidyrahurðinni með ákærða þar til hann kom aftur í anddyrið, en hann hefði þá haldið um magann eða síðuna og sagt frá því að hann hefði verið stunginn.  Vitnið kvaðst strax hafa brugðist við og farið út úr [...] ásamt fyrrnefndum félögum og hlaupið vestur [...] en síðan suður [...].  Vitnið kvaðst ekki hafa séð til ákærða og því snúið við, en sunnan við skemmtistaðinn, séð hvar hann hékk fastur á járngrindverki.  Kvaðst vitnið eftir þetta hafa fylgst með ákærða allt þar til lögregla kom á vettvang og handtók hann.

Vitnið G, fæddur 1988, lýsti atvikum fyrir dómi mjög á sama veg og síðast nefnt vitni.  Vitnið kvaðst þannig hafa fylgst með því er A fylgdi ákærða að anddyri [...], en skömmu síðar séð hvar hann kom aftur inn í anddyrið og hélt um síðuna: „hann lyftir upp bolnum og ég sá blóð eftir stungusár, hann sýnir mér sárið á hægri síðu.“  Vitnið kvaðst hafa brugðist við þessu og stokkið út ásamt félögum sínum og hlaupið suður [...].  Skömmu síðar kvaðst vitnið hafa séð hvar ákærði hékk fastur í girðingu sunnan við [...].  Vitnið kvaðst hafa beðið hjá ákærða þar til lögreglan kom á vettvang, en það hafi og m.a. tekið ákærða tökum og haldið honum föstum.  Þar á vettvangi kvaðst vitnið hafa veitt því eftirtekt að hnífur lá í grasinu.

Vitnið H, fæddur 1988, lýsti atvikum við meðferð málsins mjög á sama veg og áðurnefnd vitni, G og F.  Vitnið kvaðst þannig hafa fylgst með því er A fylgdi ákærða að anddyri [...].  Eftir það kvaðst vitnið í raun ekki hafa séð frekar til samskipta þeirra og dró það að því leyti nokkuð úr fyrri frásögn sinni hjá lögreglu um málsatvik.  Vitnið staðhæfði aftur á móti að örstutt stund hefði liðið frá því að A fór með ákærða að anddyrinu þar til hann kom aftur inn, en það kvaðst þá hafa séð að hann hélt um magann.  Vitnið kvaðst nokkru síðar hafa séð hvar ákærði hékk öfugur í járngirðingu sunnan við [...], en þá jafnframt veitt því eftirtekt að hnífur lá hjá honum, í grasinu við girðinguna.

Vitnið K, fædd 1990, kvaðst hafa verið í afmælisteiti vinkonu á neðri hæð [...] umrætt kvöld, en þar á barnum kvað það kærasta sinn, A, hafa verið við störf.  Vitnið kvaðst hafa séð til ákærða er hann kom inn á kvennasnyrtinguna stutta stund og þá veitt því eftirtekt að hann var með blóðhlaupin augu.  Nokkru síðar kvaðst vitnið hafa fylgst með samskiptum kærastans og ákærða og þ. á m. heyrt orðræðu þeirra um veru og vilja ákærða til að fara á efri hæð skemmtistaðarins.  Vitnið kvað orðræðu þeirra hafa lokið á þann veg að A hefði sagt við ákærða að hann gæti ekki lengur verið innan dyra, en í framhaldi af því hefði það séð þá ganga saman áleiðis að útidyrahurðinni.  Vegna þessa kvaðst vitnið hafa haft gætur á barnum, en skömmu síðar séð hvar A kom aftur inn og þá veitt því athygli að hann hélt um magann.  Vitnið kvaðst jafnframt hafa heyrt hann segja: „ég var stunginn“, og þá séð að blóðblettur var á maga hans.

Vitnið L greindi frá því í skýrslutöku hjá lögreglu í lok október 2009 að vitnið hefði keypt hníf í útilífsverslun árið 2008.  Vitnið bar að skömmu fyrir skýrslutökuna hefði það átt samtal við ákærða og innt hann eftir nýliðnum atburði í [...].  Vitnið kvað ákærða hafa svarað því til að hann hefði haft umæddan hníf í vörslum sínum, en í því efni vísað til þess að hann hefði tekið hnífinn er hann kom í heimsókn á heimili vitnisins nokkru áður.  Jafnframt kvaðst vitnið hafa heyrt ávæning ákærða um að hnífurinn hefði komið við sögu í [...].  Fyrir dómi kvaðst vitnið þekkja hníf þann sem lögreglan lagði hald á sem sinn og áréttaði að hann hefði horfið af heimili vitnisins eftir að ákærði kom nokkru fyrir umræddan atburð í [...].

Vitnið Valur Þór Marteinsson skurðlæknir staðfesti fyrir dómi áður rakið læknisvottorð.  Vitnið bar að A hefði verið með stungusár á kviði, en ekki eiginlegan skurðáverka.  Vitnið kvað sárið hafa verið tiltölulega hreint og með skörpum börmum.  Sárið hefði náð í gegnum kviðvegginn, um 3,5-5 sentimetra, og því náð inn í kviðarholið.  Vitnið bar að ekki hefðu verið sjáanlegir áverkar á kviðarholslíffærum, þ.e. á milta, nýrum, þörmum eða á stærri æðum.  Vitnið bar að ef það hefði verið raunin hefði það getað valdið lífshættulegum blæðingum.  Vitnið bar að í raun hefði því ekki verið um lífshættulegan áverka að ræða og það þrátt fyrir að viðkomandi hefði ekki komist undir læknishendur.  Það var ætlun vitnisins að sjúklingur með slíkan áverka væri u.þ.b. tvær til fjórar vikur að ná fullum bata.

Fyrir dómi staðfestu lögreglumennirnir Haraldur Logi Hreinsson og Jónas Halldór Sigurðsson áður rakin rannsóknargögn lögreglu.

Við aðalmeðferð málsins fór dómari ásamt sakflytjendum á vettvang.

Af hálfu ákærða, Ísmars Arnar, er um sýknukröfu einkum vísað til sönnunarskorts, sem ákæruvaldið verði að bera hallann af, samkvæmt grunnreglum opinbers réttarfars.  Af ákærða hálfu er á því byggt að ósannað sé hvernig brotaþolinn hlaut áverka sinn, en að auki séu þau gögn sem ákæruvaldið byggi á ekki viðhlítandi, þ. á m. myndbandsupptaka úr [...].  Þá sé frumrannsókn lögreglu ófullnægjandi og vitnaleiðslur brotakenndar, að virtri neitun ákærða.

Niðurstaða.

Samkvæmt ákæruskjali er ákærða, Ísmari Erni, gefið að sök að hafa stungið A með hnífi ofarlega vinstra megin í kvið, með þeim afleiðingum að hann hlaut stungusár.

Ákærði hefur fyrir dómi neitað sök, en hann hefur jafnframt vísað til minnisleysis um gjörðir sínar að kveldi 9. október sl. að öllu verulegu vegna áfengisdrykkju.  Ákærði hefur þó borið að hann rámi í að hann hafi um tíma hafst við í [...] umrætt kvöld. 

Að virtum rannsóknargögnum, ekki síst niðurstöðum alkóhólrannsóknar, sem eru í samræmi við frásagnir vitna, verður lagt til grundvallar að ákærði hafi verið undir verulegum áfengisáhrifum að kveldi 9. október sl.  Niðurstaða málsins verður í ljósi þessa, en einnig í ljós fyrrnefndrar frásagnar ákærða ekki nema að takmörkuðu leyti byggð á frásögn hans.

Fyrir dómi hefur brotaþolinn A, sem var að sinna störfum sínum í [...], lýst samskiptum sínum við ákærða, fyrst á efri hæð, en síðan við bar í anddyrinu og loks er vitnið fylgdi ákærða út fyrir aðaldyr [...].  Hefur hann lýst því að er hann stóð í hurðargættinni andspænis ákærða hafi ákærði fyrirvaralaust stungið hann í kviðinn með hnífi, en síðan horfið af vettvangi.  Frásögn vitnisins J er fylgdist með atburðarrásinni rétt utan við aðaldyrnar, er í öllum aðalatriðum samhljóða frásögn brotaþolans. 

Að áliti dómsins er framburður A og J skilmerkilegur og trúverðugur miðað við aðstæður.  Framburður þeirra er einnig í samræmi við framburði annarra vitna, sem fylgdust með samskiptum ákærða og A í [...] skömmu fyrir greind samskipti þeirra við aðaldyrnar.  Þá er myndbandsupptaka er sýnir anddyri skemmtistaðarins að áliti dómsins í samræmi við þá atburðarás sem vitni hafa lýst, þar á meðal um viðveru og ferðir ákærða í [...].

Þegar framangreint er virt í heild, en einnig þegar litið er til rannsóknargagna lögreglu, þar á meðal varðandi hníf þann sem lögregla lagði hald á á handtökuvettvangi ákærða, rétt sunnan [...], ásamt framburði ákærða og vitnis um vörslur hnífsins svo og læknisvottorðs vegna áverka brotaþola, þá þykir fyllilega sannað að ákærði hafi í umrætt sinn stungið A í kvið, eins og lýst er í ákæru með þeim afleiðingum sem þar greinir.  Varðar brot ákærða að þessu virtu við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981, enda var brot hans sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar að leggja háskalegu vopni til nefnds brotþola.

II.

Ákvörðun refsingar.

Ákærða, X, sem er 18 ára, gekkst samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins undir sektargreiðslu með sáttargerð sýslumanns í febrúar 2007 vegna fíkniefnabrots.  Þá var hún með dómi í janúar 2008 dæmd í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnaðarbrot, en að auki var hún dæmd til að greiða sekt og svipt ökurétti tímabundið vegna umferðarlagabrots, m.a. ölvunaraksturs. 

Með þjófnaðarbroti því sem ákærða hefur nú verið sakfelld fyrir rauf hún skilorð fyrrnefnds dóms og verður hann því tekinn upp og ákærðu dæmd refsing í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, með áorðnum breytingum.  Nefndur dómur hefur hins vegar ekki ítrekunaráhrif þar sem ákærða var einungis 16 ára er hún framdi það brot sem þar var dæmt fyrir.

Að ofangreindu virtu, ungum aldri og atvikum að öðru leyti þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi, sem rétt þykir að skilorðsbinda til tveggja ára frá uppkvaðningu dómsins að telja, sbr. 57. gr. laga nr. 19, 1940 með síðari breytingum, og skal refsing hennar falla niður haldi hún á þeim tíma almennt skilorð 3. mgr. 57. gr. nefndra laga.

Ákærði, Ísmar Örn, sem er liðlega 20 ára, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hlotið sex refsidóma.  Hinn 9. mars 2007 var hann dæmdur í eins mánaðar fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára fyrir þjófnaðarbrot, en brotið framdi hann 17 ára.  Þá var honum með dómi í janúar 2008 gert að greiða sekt vegna ölvunaraksturs og aksturs án þess að hafa öðlast ökurétt, en auk þess var hann sviptur ökurétti í sex mánuði.  Hinn 6. júní sama ár var ákærði dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir þjófnað og vopnalagabrot, en brotin framdi hann fullra 18 ára.  Um hegningarauka við fyrrnefnda dóma var að ræða, og var eldri skilorðsdómur auk þess dæmdur upp, sbr. ákvæði 60. gr. laga nr. 19, 1940.  Refsingin var skilorðsbundin til tveggja ára.  Með dómum í nóvembermánuði 2008 og mars og apríl 2009 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni en einnig ítrekuð umferðarlagabrot, þar á meðal ölvunar- og fíkniefnaakstur.  Var honum vegna þessa gert að greiða sektir, en jafnframt var hann sviptur ökurétti í samtals 5 ár.  Nefndur skilorðsdómur var hins vegar látinn haldast, sbr. heimildarákvæði 60. gr. laga nr. 19, 1940.

Ákærði hefur með þeim brotum sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir rofið skilorð dómsins frá 6. júní 2008.  Verður sá dómur nú tekinn upp og ákærða dæmd refsing með þeim brotum sem hér eru til umfjöllunar í einu lagi, samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, með áorðnum breytingum. 

Við ákvörðun refsingar ákærða Ísmars Arnar ber meðal annars að líta til þess að hann hefur í þessu máli verið sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, þar á meðal innbrot í íbúðarhús.  Þá hefur hann verið sakfelldur fyrir hættulega líkamsárás, með því að stinga starfsmann á skemmtistað í kviðinn með hnífi.  Hlaust af alvarlegur áverki, en þó ekki lífshættulegur.  Ber vegna þessa að líta til 1. og 3. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Að áliti dómsins var háttsemi ákærða ófyrirleitin.  Ákærði játaði hins vegar brot sín að hluta skýlaust við lögreglurannsókn og komst hluti af þýfi í kjölfar þess til skila til eiganda.  Er þetta ákærða til málsbóta.  Að auki virðist ákærði undanfarin misseri hafa tekið sig á, en hann hefur m.a. farið í meðferð vegna áfengisfíknar, en einnig hefur hann þegið stuðning og farið í félagslega endurhæfingu.  Er þetta staðfest með vottorðum sem skipaður verjandi lagði fyrir dóminn.  Ber að virða ákærða þetta einnig til málsbóta.  Að öllu þessu virtu, en einnig ungum aldri ákærða svo og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 þykir refsing ákærða eftir atvikum hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði, sem ekki þykir fært að skilorðsbinda.

Skipaður réttargæslumaður A, Stefán Ólafsson hæstaréttarlögmaður, hefur haft uppi bótakröfu í málinu á hendur ákærða Ísmari Erni, en henni er lýst í ákæruskjali, útgefnu 2. desember 2009.  Krafan er dagsett 19. nóvember 2009 og var hún endanlega sundurliðuð og rökstudd við aðalmeðferð málsins. Er um lagarök m.a. vísað til ákvæða skaðabótalaga nr. 50, 1993, 1., 3., 4. og 26. gr.

Ákærði hefur með líkamsárs gagnvart A bakað sér skyldu til greiðslu bóta vegna þess tjóns sem af henni hlaust.  Verður því ekki fallist á kröfu ákærða um að vísa beri kröfunni frá dómi.

Krafist er í fyrsta lagi miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur.  Engin gögn eru henni til stuðnings, en í ljósi atvika og 26. gr. skaðabótalaga þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 350.000 krónur.  Krafist er í öðru lagi kostnaðar vegna fatatjóns, 20.000 krónur, og er í því sambandi nefndur bolur og buxur.  Krafa þessi er ekki studd gögnum, en í ljósi framlagðra gagna þykir eðlilegt að fallast á hana að fullu.  Í þriðja lagi er krafist vinnutekjutaps að fjárhæð 90.260 krónur.  Krafa þessi er rökstudd með gögnum og verður hún tekin til greina að fullu.  Um þóknun réttargæslumanns svo og um vexti fer eins og í dómsorði greinir.

Að kröfu ákæruvaldsins og í samræmi við dómsniðurstöðu verða ákærðu dæmd til greiðslu sakarkostnaðar. 

Samkvæmt yfirliti sýslumannsins á Akureyri nemur sakarkostnaður vegna ákærða Ísmars Arnar samtals 87.356 krónum, sem er nánar skýrður svo, að 22.722 krónur séu til komnar vegna blóðtökuvottorðs og 45.684 krónur séu vegna rannsókna á blóðsýni vegna lyfja- og eiturrannsókna samkvæmt reikningi frá Rannsóknastofu Háskóla Íslands.  Ber að dæma ákærða Ísmar Örn til að greiða þennan kostnað, en einnig til greiðslu réttargæslulauna og ferðakostnaðar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, og málsvarnarlaun og ferðakostnað skipaðs verjanda síns, Gísla Auðbergssonar héraðsdómslögmanns, sem ákveðst eins og í dómsorði greinir að virðisaukaskatti meðtöldum, en ferðakostnaðurinn dæmist að nokkru að álitum.

Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðst eins og í dómsorði greinir að virðisaukaskatti meðtöldum.

Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88, 2008 fyrir uppkvaðningu dóms þessa.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Ísmar Örn Steinþórsson, sæti fangelsi í 20 mánuði.

Ákærða, X, sæti 45 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi hún almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.

Ákærði Ísmar Örn greiði A 462.260 krónur í skaðabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 19. nóvember 2009 til 1. janúar 2010 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði, Ísmar Örn, greiði 767.356 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun réttargæslumanns brotaþola Stefáns Ólafssonar hrl., 125.000 krónur og ferðakostnað hans 60.000 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Gísla Auðbergssonar hdl., 375.000 krónur og ferðakostnað hans 120.000 krónur.  Þá greiði ákærði Ísmar Örn annan sakarkostnað, 87.356 krónur.

Ákærða, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Pálssonar hrl., 187.500 krónur.