Hæstiréttur íslands

Mál nr. 243/2007


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Nauðgun
  • Tilraun
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


         

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007.

Nr. 243/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari)

gegn

Y

(Brynjar Níelsson hrl.

 Þórður Bogason hdl.)

 

Líkamsárás. Nauðgun. Tilraun. Skaðabætur. Sératkvæði.

 

Y var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að fyrrum eiginkonu sinni X, brugðið belti um háls hennar og hert að, þannig að hún hlaut mar á hálsi, blæðingar undir húð á hálsi og andliti og marblett á hægri olnboga. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að við mat á refsingu verði að líta til þess að árásin var framin á heimili X og stóð yfir í nokkurn tíma og að sú aðferð, sem Y beitti við líkamsárásina, stofnaði lífi hennar í hættu. Með vísan til niðurstöðu héraðsdóms var Y hins vegar sýknaður af sakargiftum um tilraun til nauðgunar. Að þessu virtu þótti hæfileg refsing ákveðin fangelsi í 15 mánuði og greiðsla miskabóta að fjárhæð 600.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. febrúar 2007 af hálfu ákæruvaldsins og krefst þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, refsing þyngd og honum gert að greiða X 2.000.000 krónur með vöxtum eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi. Til vara er þess krafist að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og kröfu X vísað  frá héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, svo og sýknu hans af sakargiftum um brot gegn 194. gr., sbr. 20. gr. sömu laga.

Við mat á refsingu ákærða verður að líta til þess að með þeirri aðferð, sem hann beitti við líkamsárás á fyrrum eiginkonu sína, X, stofnaði hann lífi hennar í hættu. Árásin var framin á heimili hennar og stóð yfir í nokkurn tíma. Að þessu virtu ásamt því, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi varðandi ákvörðun refsingar, er hæfilegt að ákærði sæti fangelsi í 15 mánuði. Ekki eru efni til að binda þessa refsingu skilorði.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um rétt X til miskabóta úr hendi ákærða. Er fjárhæð þeirra hæfilega ákveðin 600.000 krónur, sem ákærða verður gert að greiða með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Rétt er að ákærði greiði þriðjung áfrýjunarkostnaðar málsins, þar á meðal af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem í dómsorði segir, en að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði greiði X 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2005 til 2. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði ⅓ hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, sem alls nemur 464.350 krónum, en þar af eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur. Að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

 

Sératkvæði

Ingibjargar Benediktsdóttur

          Ég er sammála niðurstöðu meirihluta dómenda um að sakfella ákærða fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og heimfærslu brotsins til refsiákvæða svo og þeim forsendum er búa að baki þyngingu refsingar hans fyrir það brot. Ég er hins vegar ósammála niðurstöðu meirihluta dómenda um að sýkna ákærða af tilraun til nauðgunar.

Eins og nánar er lýst í héraðsdómi hringdi X í lögreglu aðfaranótt 1. maí 2005 og óskaði eftir aðstoð. Komu tveir lögreglumenn á heimili hennar og tjáði X þeim að ákærði hafi skömmu áður komið á heimili hennar, þau ræðst við í sófa í stofu íbúðarinnar og hann viljað fá hana til samfara. Þegar hún hafi neitað beiðni ákærða hafi hann reiðst, tekið taubelti af buxum sínum, sett það um háls hennar og hert að. Í framhaldi hafi hann klætt þau bæði úr buxum og nærbuxum og reynt að nauðga henni. Um klukkustund síðar ræddi X við lækni á slysadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss og þar lýsti hún atburðum næturinnar og á ný þegar hún kom á neyðarmóttöku spítalans laust eftir hádegi sama dag. Í beinu framhaldi af dvöl sinni á neyðarmóttöku gaf X skýrslu hjá lögreglu. Hún lýsti því í öll skiptin að hún hafi verið á heimili sínu þegar ákærði knúði dyra, óskaði eftir að koma inn og í framhaldi hafi hann falast eftir samþykki hennar til kynmaka. Í kjölfar synjunar hennar hafi hann hert belti að hálsi hennar, þvingað hana niður á gólf, sest ofan á olnboga hennar og reynt að nauðga henni. X kom fyrir dóm tæplega tuttugu mánuðum síðar og skýrði í öllum meginatriðum frá atvikum á sama veg. Þegar framburður hennar er metinn heildstætt er ljóst að hún hefur verið sjálfri sér samkvæm og í engu vikið frá eða breytt aðalatriðum hans. Framburður hennar fær stoð í frumskýrslu lögreglu, tveimur læknisvottorðum, vætti fyrrnefndra lögreglumanna og lækna fyrir dómi, en ekkert hefur hins vegar komið fram í málinu sem hefur veikt eða hnekkt vætti hennar þannig að máli skipti. Ákærði hefur sagt að hann hafi snert maga og brjóst X umrædda nótt, en hún hafi brugðist við þessu með því að ýta hendi hans frá sér og sagt að hann ætti ekki að vera að þessu. Síðan hafi X farið að æsa sig og meðal annars borið honum á brýn að honum væri alveg sama um dóttur þeirra hjóna. Við þessi ummæli hafi „slokknað“ á honum og hann næst munað eftir sér á hnjánum við sófann á gólfinu, en X hafi þá verið í símanum. Í yfirheyrslu hjá lögreglu sagði ákærði hins vegar að þegar hann mundi næst eftir sér hafi hann verið ofan á X. Hann gat hvorki gefið skýringu á þessum breytta framburði né á minnisleysi sínu á hluta atburðarásarinnar. Einu skýringar hans á því að framburður X væri rangur voru þær að hann „trúi því ekki upp á sjálfan “sig að hafa veist að X með umræddum hætti. Honum varð einnig tvísaga um hvort hann var að koma úr íbúðinni eða að henni þegar hann sagðist hafa hitt X fyrir utan heimili hennar um nóttina. Skýringar hans fyrir ástæðu heimsóknar hans til hennar um miðja nótt verða einnig að teljast afar ósennilegar. Þá ber jafnframt að líta til þess að X hringdi strax í lögreglu eftir að umræddur atburður átti sér stað, fór í kjölfarið í læknisskoðun bæði á slysadeild og neyðarmóttöku og lagði fram kæru hjá lögreglu samdægurs. Skortur á rannsóknargögnum sem gætu bent til þess að séð hafi á fötum X getur engu breytt um sönnunarmat á sekt ákærða, enda hefur X ekki haldið því fram að ákærði hafi fengið sáðlát og ekki getur ráðið úrslitum hvort nærbuxur eða önnur föt hennar hafi rifnað. Þegar alls þessa er gætt eru slíkar líkur á að mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og öðrum sönnunargögnum sé rangt, að ég tel að ómerkja eigi hinn áfrýjaða dóm með vísan til 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, og leggja fyrir héraðsdóm að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram á ný og fella síðan efnisdóm á málið.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2007.

Ríkissaksóknari höfðaði málið með ákæru útgefinni 15. desember 2005 á hendur ákærða, Y, búsettum á Englandi, til refsingar „fyrir sérstaklega hættu­lega líkamsárás og tilraun til nauðgunar, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 1. maí 2005 á heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar, X, með ofbeldi reynt að þröngva henni til samræðis er hann brá belti um háls hennar og herti að, dró konuna niður á gólf með því að toga í beltið, settist klofvega ofan á hana, tók hana úr buxum og nærbuxum, þrýsti öðru hnénu á upphandlegg hennar og hélt henni þannig fastri um stund. Við þetta hlaut X mar á hálsi, blæðingar undir húð á hálsi og andliti og marblett á hægri olnboga.“

Er háttsemin talin varða við 2. mgr. 218. gr. og 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 2. gr. laga nr. 40/1992.

X krefst 2.000.000 króna miskabóta með vöxtum og dráttar­vöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2005 til greiðsludags, svo og greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.

Ákærði krefst aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins og að miskabóta­kröfu verði vísað frá dómi, en ellegar verði hann dæmdur í vægustu refsingu sem lög leyfa og miskabætur lækkaðar verulega frá því sem krafist er.

I.

Aðfaranótt sunnudagsins 1. maí 2005 kl. 04:13 var lögregla kvödd að [...]. Hildur Rún Björnsdóttir og Sigurður Pétursson fór á vettvang og ræddu við tilkynnanda, X. Í frumskýrslu Hildar, sem hún staðfesti fyrir dómi, er haft eftir X að hún hafi verið að koma heim af dansleik um kl. 03 þegar fyrrverandi eiginmaður hennar og barnsfaðir, ákærði í málinu, hafi hringt dyra­bjöllu og hún boðið honum inn. Að sögn X hafi ákærði verið rólegur, þau ræðst við í sófa í stofunni og hann viljað hafa samfarir við hana. Hún hafi hafnað þeirri ósk, hann reiðst, tekið taubelti af buxum sínum, sett það um háls X og hert að. Í fram­haldi hafi hann klætt þau bæði úr buxum og nærbuxum og reynt að nauðga henni, fyrst með því að leggjast ofan á hana í sófanum, en síðan með því að draga hana með beltinu niður á stofugólf og leggjast ofan á hana þar. Kvaðst X hafa náð að bíta ákærða. Hún sagði hann hafa haldið beltinu um háls hennar í 20-30 mínútur, en ekki náð að eiga við hana samræði. Hann hafi síðan losað beltið og farið á brott. Í niðurlagi skýrslunnar er lýst roðaáverkum á hálsi X. Henni var ekið á slysa­deild, en ekki var talin ástæða til afskipta af ákærða um nóttina.

Fyrir dómi báru Hildur og Sigurður að þau hefðu gert nákvæma leit að umræddu belti í íbúð X, en ekki fundið. Þau kváðust ekki hafa greint að X væri undir áhrifum áfengis og báru að hún hefði verið róleg, en þó miður sín eftir atburði.

X kom á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH) kl. 04:49 sömu nótt. Í vottorði Ásmundar Jónassonar læknis, sem hann staðfesti fyrir dómi, má finna sambærilega lýsingu X á atburðum. Þess er þó ekki getið að ákærði hafi klætt sig og X úr buxum. Þá er haft eftir X að ákærði hafi haldið beltinu um háls hennar í 15-20 mínútur og hann lagst með hné ofan á olnboga hennar á stofu­gólfinu. Hún hafi að lokum náð að tala hann til „þannig að hann hætti af sjálfsdáðum og gerði hann tilraun til að nauðga henni en kom ekki fram vilja sínum“. Við líkamsskoðun greindi Ásmundur töluvert mar kringum háls, ofarlega, eins og eftir belti, auk punktablæðinga (blóðhlaupsbletta) á hálsi og upp eftir sitt hvorum vanga, að gagnaugasvæði. Á hinn bóginn hafi ekki verið merki um blæðingar í slím­húð augna. Er greindum áverkum lýst sem „líkamsárás, nánast tilraun til kyrkingar“. X hafi og kvartað undan eymslum í olnbogum, en þar hafi ekki sést mar. Fram kemur að hún hafi verið róleg, en þó í losti. Í niðurlagi vottorðsins segir að haft hafi verið samband við Neyðarmóttöku LSH, en starfsmaður þar hafi ekki talið þörf á frekari skoðun.

Fyrir dómi kvaðst Ásmundur hafa skráð frásögn X af atburðum jafnóðum og hún hefði lýst þeim. Hann sagðist þó ekki viss hvort hún hefði sjálf notað orðið „nauðgun“. Ásmundur bar að sér hefði fundist frásögnin trúverðug og að áverkar á hálsi og andliti X, sér í lagi hin staðbundna punktablæðing, væru augljós merki þess að hert hefði verið að hálsi hennar í kyrkingarskyni. Það að ekki hefði fundist punktablæðing í augum taldi Ásmundur á hinn bóginn benda til þess að ekki hefði verið um „alvarlega kyrkingartilraun“ að ræða.

II.

X fór heim að lokinni aðhlynningu á slysadeild, en leitaði kl. 13 sama dag til Neyðarmóttökunnar (NM) og óskaði eftir réttarlæknisfræðilegri skoðun, með tilliti til kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás og tilraun til nauðgunar. Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir framkvæmdi umbeðna skoðun. Í gögnum NM, sem Arnar staðfesti fyrir dómi, kemur fram að X sé 156 sentimetrar á hæð og 82 kíló. Ástandi hennar er svo lýst: „Er dofin, róleg, samvinnuþýð en svipbrigða­laus.“ Að sögn Arnars spurði hann X fyrst um atburði liðinnar nætur og skráði eftir henni jafnóðum atvika­lýsingu, í skýrslu sem ber yfir­skriftina „Frásögn sjúklings“. Þar segir að X hafi verið að skemmta sér ásamt systur sinni þáliðna nótt og systirin ekið henni heim um kl. 03:20. X hafi verið nýkomin inn þegar einhver hafi bankað um kl. 03:30, X haldið að systir hennar væri á ferð og opnað dyrnar. Þar hafi ákærði staðið, hún hleypt honum inn og þau ræðst við í einhverjar mínútur. Ákærði hafi fljótlega látið í ljós áhuga sinn á samförum, hún neitað og hann reynt að tala hana til. Í framhaldi hafi hann byrjað að ógna henni og sagst myndu hafa samræði við hana, með góðu eða illu. X lýsti því svo að ákærði hefði staðið yfir henni á greindum tímapunkti og reynt að káfa á henni. Hún hefði streist á móti, „eiginlega hálffrosin“ og vantrúa þegar hann hefði tekið belti sitt, reyrt það um háls hennar, þvingað hana til að leggjast á bakið á gólfinu og sest ofan á hana, með hné sín ofan á olnbogum hennar. Af skýrslunni má ráða að ákærði hafi í framhaldi klætt sjálfan sig og hana úr buxum og nærbuxum, en á meðan hafi hún haldið báðum höndum um beltisólina til að koma í veg fyrir köfnun. Ákærði hafi og reynt „að hafa við hana mök en tókst ekki“. Hún hafi barist um í allt að 15 mínútur og ýmist reynt að losa sig eða tala hann til og loks tekist það með því að spyrja hvort hann gæti horft framan í dóttur þeirra, ef svo héldi áfram sem horfði. Ákærði hafi þá róast og staðið á fætur, X rifið beltið af sér og hent því í hann. Í kjölfar þessa hafi hann klætt sig, ráfað um íbúðina og því næst gengið út og X hringt í lögreglu. Ákærði hafi komið inn í sömu andrá, hent húslyklum á borð og horfið á braut. Fram kemur í sömu skýrslu að X hafi sagst ekki muna atburðarás í smáatriðum, enda verið þreytt og búin að drekka 3-4 bjóra fyrr um kvöldið og nóttina. 

          Ofangreindri skýrslu fylgir gátlisti, sem ber með sér að X hafi svarað því játandi að ákærði hafi snert hana með getnaðarlim sínum, káfað á kynfærum hennar og á brjóstum. Aðspurður af hverju sömu upplýsinga væri ekki getið í skýrslunni sjálfri bar Arnar að X hefði verið spurð nefndra spurninga að lokinni skýrslugjöf og því hefði ekki verið ástæða til að breyta skýrslunni. Hann kvaðst hafa framkvæmt hina réttarlæknisfræðilegu skoðun á grundvelli allra nefndra upplýsinga. Við hana hefðu komið í ljós miklir blóðhlaupsblettir (punktablæðing) kringum háls, upp eftir vöngum og inn á enni, en þessa áverka taldi Arnar geta samrýmst lýsingu um áverka eftir belti og áreynslu- eða rembingsöndun gegn mótstöðu. Þá hefði sést byrjandi mar á hægri handlegg, innanvert og aftan til á olnboga, um það bil 1½ sentimetri hvoru megin. Nánar aðspurður kvað Arnar umrædda punktablæðingu vera merki um kyrkingu eða tilraun til kyrkingar. Hann sagði slíka blæðingu geta komið hratt fram og yfirleitt ná hámarki innan sólarhrings frá ákomu, en eftir það tæki hún að dofna.

Meðal gagna málsins eru ljósmyndir, teknar á NM 1. maí, sem staðreyna ofangreinda áverka og staðlaðar líkamsteikningar, en Arnar staðfesti að hann hefði fært inn á þær sömu áverka.

III.

X fór samdægurs á lögreglustöð og kærði ákærða fyrir líkamsárás og tilraun til nauðgunar. Hún greindi frá því að þau hefðu skilið fyrir tveimur árum og ættu saman eina dóttur, sem hefði verið í umgengni hjá ákærða þessa helgi. Samskipti X og ákærða hefðu verið upp og ofan á þessu tímabili, hann ítrekað falast eftir því að þau hefðu samfarir og hún í nokkur skipti látið undan eftir miklar fortölur og þrýsting af hans hálfu. Liðna nótt hefði hún verið að skemmta sér ásamt systur sinni, sem hefði ekið henni heim um kl. 03. X kvaðst hafa verið búin að drekka um fjóra bjóra, hafa verið með áfengisáhrifum, en þó muna nokkuð vel eftir öllu sem hefði gerst. Um fimm mínútum eftir heimkomu hefði dyrabjöllunni verið hringt, hún farið til dyra og ákærði þá staðið í gættinni. Hún hefði undrast að sjá hann, en hleypt honum inn, að hans beiðni, enda ekki óvanalegt að hann heimsækti hana að næturlagi. Ákærði hefði sagt að dóttir þeirra væri sofandi á heimili hans og í góðum höndum. Jafnframt hefði hann spurt hvort systir hennar væri farin, hún jánkað því og boðið honum að setjast í sófa í stofunni. Ákærði hefði síðan spurt hvort hún væri búin að hugsa málið og vísaði X til þess að hann hefði spurt hana daginn áður hvort hún væri reiðubúin að stunda kynlíf með honum. Hún hefði áður svarað neitandi og hefði áréttað það í sófanum. Að sögn X hefði ákærði þá fært sig nær henni, byrjað að grípa í brjóst hennar og nánast staðið yfir henni þegar hún hefði séð hann losa belti af buxum sínum. Því næst hefði hann dregið ólina úr buxnafestingum, búið til lykkju með því að draga ólina gegnum sylgju, skellt henni utan um háls hennar og hert að, þó ekki þannig að hefti blóðflæði eða kæfði rödd hennar. Í kjölfar þessa hefði ákærði sagt að hann ætlaði að eiga samfarir við hana og spurt hvort hún vildi gera það með látum eða með góðu. X kvaðst ekki muna hvort og þá hverju hún hefði svarað og gat þess að hún hefði verið orðin fremur hrædd á þessum tímapunkti, sagt ákærða að þetta væri hvorki fyndið né þægilegt og beðið hann að hætta. Í sömu andrá hefði hann togað í beltislykkjuna og dregið hana niður á stofugólfið. Við það hefði lykkjan herst að hálsi hennar og hún fundið minnkað blóðflæði til höfuðs. Hún hefði því gripið með hægri hendi um beltið og reynt að losa takið, en hina höndina hefði hún notað til að verja sig, enda orðin skelfingu lostin. X kvað ákærða einhvern veginn hafa náð að klæða hana úr buxum og nærbuxum, en kvaðst hvorki muna hvernig hann hefði borið sig að né hvort fötin hefðu skemmst. Því næst hefði hann ýtt henni eftir gólfinu, út í eitt horn stofunnar og hert meira að hálsi hennar. Að sögn X hefði hún þá tekið eftir að ákærði væri nakinn fyrir neðan mitti og jafnframt séð að limur hans væri ekki reistur. Hann hefði sest klofvega ofan á brjóstkassa hennar, gripið í hægri hönd hennar og klemmt hana undir vinstra hné sínu. Við þetta hefði lykkjan herst enn meira að hálsi hennar, henni fundist augun ætla að springa út úr höfðinu og hún farið að halda að hún myndi deyja. Ákærði hefði í framhaldi hnikað sér til, en við það hefði losnað um háls hennar og hún getað talað. Kvaðst X þá hafa spurt ákærða hvort hann myndi geta horft framan í dóttur sína eftir þetta. Hún sagðist ekki muna hvort ákærði hefði svarað, en kvaðst muna eftir að hafa náð að bíta hann í vinstri hönd eða fótlegg. Við það hefði hann sleppt taki sínu á beltinu og farið ofan af henni. X kvaðst hafa notað tækifærið, sprottið á fætur og farið inn í baðherbergi. Hún kvaðst hafa verið þar smástund, halda að hún hefði tekið ólina af sér þar inni, en sagðist þó ekki vera viss. Þegar hún hefði komið fram að nýju hefði ákærði verið fullklæddur, hann ráfað um íbúðina og sagt eitthvað, sem hún myndi ekki, enda sjálf verið afar æst á þeim tímapunkti. Hún hefði sagst ætla að hringja í lögreglu, ákærði þá farið út úr íbúðinni, komið aftur skömmu síðar, lagt húslykla á eldhús­borð og því næst farið á brott. Lögregla hefði síðan komið á vettvang og ekið henni á slysa­deild LSH. X lét þess getið að ákærði hefði hringt í hana strax um morguninn, beðið hana afsökunar og sagst ekki geta haft dóttur þeirra hjá sér eftir þetta. Einnig hefði hann sent henni nokkur SMS smáskilaboð. Þá segir í skýrslunni að X hafi ekki haft rænu á því að minnast á við lækna slysadeildar að reynt hefði verið að nauðga henni.

Ákærði mætti sama dag á lögreglustöð samkvæmt boðun. Honum var kynnt tilefni skýrslugjafarinnar og sagðist hann ekki vilja verjanda að svo stöddu. Aðspurður um kæru X kvaðst ákærði telja líklegt að þær sakir sem hún bæri á hann væru réttar. Hann kvaðst hafa átt erfitt með svefn þáliðna nótt og ákveðið að fara heim til X til að sækja tannbursta dóttur sinnar, vitandi að X hefði verið að skemmta sér og hann talið að hún yrði ekki heima. Þegar hann hefði komið að heimili hennar, líklega um kl. 03:30, hefði hann séð X koma að húsinu og hann gengið á eftir henni inn í anddyri. Hún hefði farið inn í íbúð sína, hann spurt hvort hann mætti koma inn og spjalla við hana og hún samþykkt það. X hefði síðan kveikt á kerta­ljósum og tónlist og þau sest í sófa í stofunni. Þar hefðu þau rætt saman á rólegum nótum og hann spurt hvort einhver möguleiki væri á því að þau tækju upp fyrra sam­band. Samhliða því hefði hann fært sig nær X, byrjað að stjúka fætur hennar og í eitt skipti komið við brjóst hennar. X hefði brugðist illa við því og sagt að brjóstin væru „prívatið“ hennar. Í framhaldi hefði hún hækkað róminn og farið að segja honum hálfpart til syndanna vegna þess hvernig hann hefði verið í þeirra hjóna­bandi. Ákærði kvað þá gagnrýni hafa verið að mörgu leyti rétta og hann því setið þegjandi og hlustað á hana. X hefði haldið upp­teknum hætti, farið að æsa sig meira og sagt ákærða lifa í þeirri sjálfsblekkingu að honum þætti vænt um dóttur þeirra. Að sögn ákærða hefði eitthvað gerst innra með honum við þau frýjuorð, hann misst alla stjórn og ekki muna meira eftir sér fyrr en hann hefði legið á hnjánum ofan á X og hún verið klemmd undir honum á stofugólfinu. Hann hefði horft í andlit hennar og hugsað: „Guð minn góður, hvað er ég að gera.“ Í framhaldi hefði hann staðið á fætur, X fylgt á eftir og hún farið í símann til að hringja. Ákærði kvaðst þá hafa farið út úr íbúðinni, sest inn í bifreið sína, áttað sig á því að hann væri með lykla að íbúð X og ákveðið að skila þeim. Þegar hann hefði komið inn í íbúðina hefði X verið að tala í símann, hann lagt lyklana á borð við hlið hennar og gengið út að nýju. Hann kvaðst hafa setið drykklanga stund í bifreiðinni fyrir utan húsið og séð lögreglu koma og fara af vettvangi. Í framhaldi hefði hann ekið heim til sín og þar „brotnað endanlega niður.“ Sagði ákærði vanlíðan sína hafa verið svo mikla að undir kvöld hefði hann hugleitt að svipta sig lífi. Aðspurður kvaðst ákærði alls ekki muna eftir að hafa sett belti um háls X eða hafa klætt sig og hana úr buxum og lét þess getið að hann notaði ekki belti við þær buxur, sem hann hefði verið í um nóttina. Kvaðst ákærði enn vera í sömu fötum og sýndi lögreglu viðkomandi buxur, sem voru með teygju og bandstreng í mittisstað. Ákærði kvaðst ekki vita til þess að X hefði bitið hann um nóttina. Hann kvað rétt að hann hefði hringt í hana um morguninn, sagðist muna eftir að hafa spurt hvort hún væri illa farin og að hún hefði svarað „Já, frekar“, en viljað ræða málið við betra tækifæri. Ákærði kvaðst einnig minnast SMS skilaboða, en með þeim hefði hann viljað biðjast afsökunar, enda gert sér fulla grein fyrir að hann hefði gert eitthvað hræðilegt af sér um nóttina. Ákærði kvaðst ekki kunna skýringu á því af hverju hann ætti að vilja skaða X og tók fram að hann væri ekki ofbeldismaður. Hann lét þess getið að svipað hefði gerst einu sinni áður á ævi hans, en þá hefði hann verið að halda upp á afmæli sitt og óboðnir gestir farið að „abbast uppá“ móður hans. Við það hefði hann misst alla stjórn á sér, ráðist á einn mannanna og síðan föður sinn, þegar sá hefði viljað stilla til friðar, en sjálfur myndi ákærði ekkert eftir þeim atburðum.

Sveinn Magnússon héraðslæknir kom á lögreglustöðina skömmu eftir miðnætti 2. maí og framkvæmdi líkamsskoðun á ákærða. Í vottorði hans 3. maí 2005 kemur fram að ákærði hafi verið rólegur og samvinnufús. Við mælingu hafi ákærði reynst 178 sentimetrar á hæð og vegið 112,5 kíló. Engir áverkar fundust á líkama hans.

IV.

Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa X, dagsett 15. júlí 2005, sem lögregla kynnti ákærða í símaviðtali 2. nóvember sama ár. Samkvæmt upplýsingaskýrslu, sem rituð var vegna þessa, mun ákærði ekki hafa tekið kröfunni illa og sagst myndu borga X umkrafðar 2.000.000 króna, ef hann aðeins ætti slíka fjármuni til reiðu. Í sömu skýrslu kemur fram að rætt hafi verið við X samdægurs og hún sagst ekki vita hvað orðið hefði um umrætt belti. Lögregla fór í framhaldi á vettvang ætlaðs brots og liggur fyrir skýrsla þar að lútandi, dagsett 8. nóvember 2005, ásamt fjölda ljós­mynda úr íbúð X, sem er á neðri hæð í fjögurra íbúða fjöleignarhúsi. Við sama tækifæri ljósmyndaði lögregla SMS skilaboð af skjá farsíma X, meðal annars eftir­farandi tvö skilaboð, sem bera með sér að hafa verið send úr farsíma ákærða um og eftir kl. 05 aðfaranótt 1. maí:

          „Þad falla dár líka erna ifir viðbjóðnum sem ég lagði á þíg fyrirgefðu“

          „Skal aldrei tala eða koma nálægt þér afdur skal alda mini veigalegtfrá“

Þá liggur fyrir að X sótti tíu viðtöl hjá Heiðdísi Sigurðardóttur sál­fræðingi, þar af níu á tímabilinu frá 5. maí til 21. október 2005 og eitt nú fyrir skömmu, en slík við­talsmeðferð er liður í þjónustu NM. Í vottorði Heiðdísar 12. desember 2006, sem hún staðfesti fyrir dómi, kemur fram að X hafi greinst með einkenni áfalla­röskunar. Um vottorðið og vætti Heiðdísar verður annars fjallað á viðeigandi stað í VIII. kafla hér á eftir.   

Loks er í gögnum málsins útprentun úr málaskrá lögreglu 17. nóvember 2005, þar sem greint er frá ferli rannsóknarinnar og þess getið að ákærði eigi skráð lögheimili á Bretlandi.                 

V.

          Ákæra var gefin út 15. desember 2005 og hún send lögreglu til birtingar fyrir ákærða, fyrst 30. janúar 2006, því næst 20. febrúar, þar næst 23. maí og loks 29. ágúst; ávallt án árangurs. Liggur fyrir dagbókarskýrsla um birtingar­­tilraunir, þar sem meðal annars kemur fram að óskað hafi verið eftir aðstoð Interpol á Englandi við öflun upp­lýsinga um heimilisfang og símanúmer ákærða þar í landi. Sú við­leitni bar engan árangur. Þá liggur fyrir umboð frá ákærða til verjanda síns, dagsett 3. nóvember 2006, þar sem hann felur verjanda að taka við birtingu ákæru og mæta við þingfestingu málsins, sem fram fór 21. þess mánaðar. Ákærði kom fyrst fyrir dóm við aðalmeðferð málsins 21. desember og staðhæfði að hann hefði fyrst frétt af tilvist ákærunnar skömmu fyrir útgáfu nefnds umboðs. Sækjandi lýsti því síðan yfir við munn­legan mál­flutning að ákæruvaldið byggði ekki á því að dráttur á birtingu ákæru yrði rakinn til þess að ákærði hefði reynt að koma sér undan réttvísinni.   

VI.

                    Fyrir dómi lýsti ákærði sig saklausan af ákæru, en kvaðst þó, sem fyrr, hafa misst ákveðið tímabil atburðarásar úr minni aðfaranótt 1. maí 2005. Hann greindi annars frá því að samskipti sín og X hefðu verið góð eftir skilnað og hann heimsótt hana og dóttur þeirra, svo sem þegar hann hefði verið að sækja stúlkuna í umgengni. Einnig hefðu hann og X stundum farið saman í bíó og á dansleiki, þau haldið kyn­lífs­sam­bandi og eftir atvikum haft samfarir um það bil tvisvar í mánuði. Aðspurður um atvik 1. maí skýrði ákærði frá því að hann hefði legið andvaka um nóttina, en dóttirin, sem þá hefði verið níu ára, sofið fastasvefni. Hann hefði því ákveðið að kíkja heim til X í því skyni að sækja tannbursta og snyrti­dót stúlkunnar, en á meðan hefði fullorðin kona gætt hennar. Að sögn ákærða hefði hann haft lykil að íbúðinni og ekki búist við að X væri heima. Hann hefði lokið erindi sínu laust eftir kl. 02:30 og verið staddur fyrir utan anddyri fjölbýlishússins þegar X hefði komið heim í bifreið systur sinnar. Þau hefðu heilsast, X því næst lokið upp dyrum að íbúð sinni, ákærði spurt hvort hann mætti kíkja í smáspjall og hún boðið honum inn. Í fram­haldi hefði X kveikt á kertum og tónlist og þau sest saman í sófa í stofunni. Þar hefðu þau spjallað um samband sitt og um dótturina og ákærði á meðan strokið kálfa X, en það hefði henni ávallt þótt gott. Hún hefði síðan byrjað að æsa sig og skammast út í hann fyrir að hafa ekki staðið sig nægilega vel í hjónabandinu og gagn­vart dóttur þeirra. Kvaðst ákærði hafa setið rólegur undir reiðilestrinum, beðið þess að X róaðist og á meðan strokið henni um magann, en það hefði henni einnig þótt afar gott. Ákærði sagði X ekki hafa kvartað undan nefndum atlotum og hún dregið buxur sínar upp fyrir kálfa. Þegar hann hefði síðan snert brjóst hennar utan­klæða hefði hún sagst ekki vilja slíkt, beðið hann að hætta og ákærði þá snúið sér aftur að kálfum hennar. Hann kvað X enn hafa verið æsta í skapi þegar þarna var komið sögu og hann ákveðið að leyfa henni „að rasa út“. Í framhaldi hefði hún sagt að honum þætti ekki vænt um dóttur sína og væri alveg sama um hana. Kvaðst ákærði hafa orðið „óþolinmóður“ við að hlusta á slíkan áburð og þegar X hefði sagt að honum væri alveg sama hvort stúlkan væri lifandi eða dauð hefði skyndilega „slokknað“ á honum og síðan myndi hann ekki meira eftir sér fyrr en hann hefði verið fullklæddur á hnjánum, á gólfi milli stofu og eldhúss og X staðið í eld­húsinu, klædd svörtum buxum og peysu og verið að tala í síma. Þegar borin var undir ákærða sú lýsing hans hjá lög­reglu að hann hefði fyrst rankað við sér á stofu­gólfinu, með X klemmda undir sér, gaf hann þá skýringu á misræminu að hann myndi betur eftir atvikum nú en þegar hann hefði gefið umrædda lögregluskýrslu. Ákærði kvaðst hafa yfirgefið íbúðina í kjöl­far þessa, en snúið til baka skömmu síðar, sett lykla að íbúðinni á borð og því næst sest undir stýri bifreiðar sinnar. Þar hefði hann setið einhverja stund, séð lögreglu koma á vettvang og færa X á brott og hann einhverju síðar ekið heim. Aðspurður kvaðst ákærði vart minnast þess að hafa sent X fyrrgreind SMS skilaboð, þrætti þó ekki fyrir að hafa gert það, en sagðist ekki muna hvert tilefni skila­boðanna hefði verið. Sjálfur hefði hann forðast að ræða við X næstu vikur á eftir. Nánar aðspurður kvaðst ákærði lítið geta sagt um sakar­efnið af fyrrgreindri ástæðu og ekki vita af hvers völdum X hefði hlotið áverka á hálsi, en staðhæfði að hann hefði ekki borið belti umrædda nótt. Jafnframt sagðist hann ekki eiga belti við þær buxur, sem hann hefði verið í um nóttina. Ákærði kvaðst halda að þau X hefðu setið saman í sófanum í 15-20-30 mínútur áður en hann hefði „dottið út“ og hefði hún fljótlega byrjað að æsa sig. Hann kvaðst á engum tímapunkti hafa falast eftir samförum við hana þessa nótt. Þráspurður um sakarefnið kvaðst ákærði ekkert vita með vissu hvort hann hefði framið þann verknað, sem honum væri gefinn að sök, en sagðist ekki trúa slíku upp á sjálfan sig, enda hefði hann aldrei lagt hendur á kvenfólk og væri fráleitt ofbeldishneigður að eðlisfari. Hann kvaðst ekki eiga vanda til að detta út með framangreindum hætti, en minntist eins eldra tilviks, þess sama og hjá lögreglu. Ákærði gat þess jafnframt að ef einhver vildi reita hann til reiði þá ætti viðkomandi að tala illa um dóttur hans og þeirra samband. Verjandi spurði ákærða um samskipti hans og X eftir að hann flutti til Englands. Verður fjallað um þann fram­burð í VII. kafla hér á eftir.

X bar fyrir dómi að hún hefði komið heim umrædda nótt, laust eftir kl. 03, verið með vægum áfengisáhrifum og ein í íbúð sinni þegar dyra­bjöllunni hefði verið hringt. Hún hefði farið til dyra, ákærði staðið fyrir utan og viljað koma inn til að ræða um dóttur þeirra. Hún hefði því hleypt honum inn fyrir og þau sest niður í sófa í stofunni. Þar hefði ákærði spurt hvort hún væri búin að hugleiða ósk hans um að þau myndu sofa saman, hún þvertekið fyrir það og sagt að ekki yrði af slíku sambandi milli þeirra. Í framhaldi hefði ákærði fært sig nær henni í sófanum, byrjað að „káfast í“ henni og haldið áfram að ræða um samfarir þeirra í milli. X kvað ákærða jafnframt hafa snert brjóst hennar utan­klæða, en sagðist ekki muna hvort hann hefði strokið henni um kálfa. Hann hefði síðan kropið yfir hana, með annað hnéð í sófanum og hinn fótinn á stofugólfinu og hún þá séð hann losa taubelti af buxum sínum. Beltinu hefði hann því næst brugðið eld­snöggt um háls hennar og hert að öndunarvegi. Að sögn X hefði hún tekið með annarri hendi í beltið, svo ólin myndi ekki herðast of fast og hún gæti talað, en hina höndina hefði hún notað sér til varnar. Ákærði hefði í framhaldi sagst „ætla að komast yfir“ hana, hann togað í beltið og þannig kippt henni upp úr sófanum, en síðan látið hana dragast niður á stofu­gólfið. Í kjölfar þessa hefði hann látið fleiri orð falla, en hún ekki veitt þeim eftirtekt, enda óttast um líf sitt og hugsað um það eitt að reyna að losa um ólina. Kvaðst X síðan hafa áttað sig á því að ákærði væri búinn að draga af henni bæði buxur og nærbuxur og afklæða sjálfan sig fyrir neðan mitti, en þannig hefði hann setið klofvega ofan á brjóstkassa hennar og klemmt olnboga hennar við gólfið með hnjánum. Í þeirri stöðu hefði hún séð að getnaðar­limur hans var slappur og kvaðst hún aðspurð ekki minnast þess að hann hefði með nokkrum hætti reynt að koma limnum inn í leg­göng hennar eða snerta hana með limnum, framar því að sitja ber ofan á henni. X kvaðst ekki vita hve lengi ákærði hefði setið ofan á henni í nefndri stellingu, en þegar hann hefði fært sig upp á bringu hennar hefði hann misst tak sitt á beltisólinni, hún náð betur andanum og spurt hann hvort hann gæti horft framan í dóttur sína eftir þetta. Við þau ummæli hefði ákærði staðið á fætur og hún rokið inn í baðherbergi. Aðspurð kvaðst X ekki vera viss hvort hún hefði klætt sig frammi í stofu eða inni á baði og ekki heldur hvort hún hefði tekið ólina með sér þangað inn. Hún hefði svo komið aftur fram, sagst myndu hringja í lögreglu og látið verða af því. Ákærði hefði í framhaldi yfirgefið íbúðina, komið aftur skömmu síðar og sett húslykla á eldhúsborð, en því næst horfið á braut. Nánar aðspurð kvaðst X ekki vita hvað orðið hefði um beltið, en sagðist muna eftir að hafa hent því frá sér. Hún hefði svo leitað að beltinu strax næsta dag, en ekki fundið. Borin voru undir X þau svör hennar við gátlista NM að ákærði hefði snert hana með getnaðarlim sínum og káfað á kynfærum hennar og kvaðst hún ekki geta útilokað að það væri rétt. Hún kvaðst ekki vita hvað hefði orðið til þess að ákærði beitti hana ofbeldi og kannaðist ekki við að þau hefðu rætt um dóttur sína í sófanum og ákærði reiðst einhverjum ummælum hennar um samband þeirra feðgina.

VII.

Ákærði kvaðst fyrst hafa frétt af skaðabótakröfu X þegar hún hefði hringt í hann og sagt að ef hann samþykkti kröfuna myndi greiðsla fást úr ríkissjóði. Í kjölfar þessa hefði lögregla birt honum bótakröfuna 2. nóvember 2005 og hann tekið jákvætt í kröfuna vegna ummæla X. Ákærði greindi einnig frá því að eftir að hann hefði flutt til Englands, 23. desember 2005, hefðu þau X haldið síma- og tölvupóst­sam­bandi, bæði sín á milli og vegna samskipta við dótturina. X hefði meðal annars vakið máls á því að ef hann greiddi henni 15.000 sterlings­pund, afsalaði sér sameigin­legri forsjá stúlkunnar og útvegaði ábyrgðarmenn að láni fyrir X, myndi hún falla frá kæru sinni á hendur honum. Ella væri hann „í vondum málum“. Til skýringar á síðastgreindu lagði ákærði fram útprentun tölvupóstsamskipta og SMS skilaboða milli hans og X á tíma­bilinu 18. október til 7. desember 2006. Þar má finna tölvupóst frá 25. nóvember, þar sem X nefndi að ákærði væri bjartsýnn, gæti reynt 15.000 pund og ef hann vildi fá umgengni við dóttur þeirra milli landa yrði að semja um slíkt og hann að samþykkja að X færi ein með forsjá stúlkunnar. Ákærði svaraði því til að hann myndi athuga hvað hann gæti gert með 15.000 pund fyrir jól, spurði hvort X félli þá frá kæru sinni eður ei og bað hana að svara því strax. X svaraði 26. nóvember og sagðist engu geta lofað fyrr en búið væri að ganga frá nefndri forsjárbreytingu og umgengnisréttarsamningi, auk þess sem ákærði yrði að ganga frá láninu áður en hún drægi kæruna til baka. Ekki er ástæða til að rekja önnur samskipti ákærða og X á greindu tímabili, enda umræðuefnið ýmist óviður­kvæmi­legt eða þýðingarlaust fyrir úrlausn málsins.

X bar fyrir dómi að ákærði hefði átt frumkvæði að því að hún drægi kæru sína til baka, en hún hefði alls ekki verið reiðubúin til þess. X sagði þó rétt að hún hefði boðist til að gera það gegn 15.000 punda greiðslu, en sagðist aðeins hafa verið „að stríða“ ákærða með því. Um sama leyti hefði hún einnig verið að biðja hann að gefa eftir sameiginlega forsjá dóttur þeirra og sagði umrætt lán hafa verið í nafni ákærða, sem hún hefði ranglega setið uppi með eftir skilnað þeirra.

VIII.

Samkvæmt 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skulu röksemdir dómara lúta að því hvað teljist sannað og með hverjum hætti. Um sönnun fer annars eftir reglum 45.-48. gr. laganna. Í því sam­bandi ber að meta skynsamlegan vafa til hagsbóta fyrir ákærða, bæði um atriði er varða sekt hans og önnur, sem telja má honum í óhag. Sönnunarbyrði hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 45. gr., en sönnunarmat dómara er frjálst, þó þannig að dómur skal fyrst og fremst reistur á sönnunar­­­gögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr.

Í máli því, sem hér er til meðferðar, veltur niðurstaða á því hvort ákæruvaldinu hafi tekist að sanna, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi annars vegar gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hins vegar tilraun til nauðgunar í skilningi 194., sbr. 20. gr. sömu laga, með því að hafa „með ofbeldi reynt að þröngva X til samræðis er hann brá belti um háls hennar og herti að, dró konuna niður á gólf með því að toga í beltið, settist klofvega ofan á hana, tók hana úr buxum og nær­buxum, þrýsti öðru hnénu á upp­handlegg hennar og hélt henni þannig fastri um stund.“ Er afleiðingum nefndrar háttsemi lýst í ákæru, til samræmis við læknisfræðileg gögn málsins.

Fyrir liggur framburður ákærða fyrir dómi, sem samrýmist frásögn hans hjá lög­reglu, að „slokknað“ hafi á honum og hann „dottið út“ á meðan hann og X hafi setið í sófa í stofu íbúðar hennar. Ákærði telur skýringuna vera þá að X hafi örskömmu áður svívirt tilfinningalegt samband hans og dóttur þeirra. Fyrir dómi sagðist ákærði næst muna eftir sér fullklæddum, krjúpandi á gólfinu milli stofu og eld­húss, en á sama tíma hefði X staðið í eld­húsinu, klædd svörtum buxum og peysu og verið að tala í síma. Breytti hann þannig fyrri framburði hjá lögreglu, en þá kannaðist ákærði við að hafa rankað við sér á stofugólfinu, með X klemmda undir líkama hans. Hvað sem líður trúverðugleika dómsframburðar ákærða liggur fyrir að X er ein til frásagnar um hvað gerðist frá því að ákærði kveðst hafa misst minnið og þar til hann segist hafa rankað við sér á stofugólfinu.

X hefur frá upphafi verið stöðug í þeim vitnisburði að ákærði hafi gert lykkju á beltisól sína, brugðið henni fyrirvaralaust um háls hennar og hert að. Hún hefur og lýst því að ákærði hafi í fram­haldi togað í ólina, þannig dregið hana niður á stofu­­gólfið og hann sest þar ofan á brjóst­kassa hennar. Við þetta hefði ólin herst meira að hálsi hennar, hún orðið afar ótta­slegin og reynt eftir megni að losa um ólina á sama tíma og hún hefði reynt að verjast ákærða.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var X með sýnilega áverka á hálsi þegar lögregla kom á heimili hennar aðfaranótt 1. maí 2005. Læknisfræðileg gögn málsins og vitnisburður læknanna Ásmundar Jónassonar og Arnars Haukssonar fyrir dómi stað­festa einnig að X hafi borið áverka á hálsi. Samkvæmt vætti sömu lækna samræmast áverkarnir því að ól hafi verið hert um háls hennar í kyrkingarskyni, líkt og X hefur haldið fram.

Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki hafa orðið var við áverka á hálsi X þegar hann kom á heimili hennar umrædda nótt. Með hliðsjón af því að ákærði sat við hlið X í sófa drykklanga stund verður að telja fullvíst að hann hefði tekið eftir áverkum á hálsi hennar í umrætt sinn. Samkvæmt öllu framangreindu verður að telja sannað að ákærði hafi valdið X umræddum áverkum eftir að hann kveðst hafa misst minnið. Verður enn fremur að telja sannað að ákærði hafi valdið áverkunum með belti eða annarri lykkju, sem hann brá um háls X. Var árásin því sérstak­lega hættuleg vegna þeirrar aðferðar sem ákærði beitti. Verður hann því sakfelldur fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.

IX.

X hefur frá upphafi borið að aðdragandi líkamsárásar ákærða hafi verið vilji hans til að hafa samfarir við hana, sem hún hafi neitað honum um. Ákærði hefur greint frá því að hann hafi strokið X þar sem þau sátu í sófanum og komið við brjóst hennar, en hún hafi gefið honum skilaboð um að hætta því. Ákærði hefur hins vegar frá upphafi neitað því að tilefni þess að hann reiddist hafi verið synjun X við samförum. Hefur ákærði staðhæft, bæði í skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi, að tilefnið hafi verið ásakanir X um hirðuleysi hans gagnvart dóttur þeirra. Þótt þannig megi draga þá ályktun af framburði ákærða, að hann hafi gert tilraunir til að fá X til kynlífsathafna við sig umrætt sinn, leiðir það ekki af framburði hans að tilefni líkamsárásar hans hafi verið neitun um kynlíf. Getur það ekki haggað þessari niður­stöðu þótt ákærði hafi viðurkennt fyrir lögreglu að hafa setið klofvega ofan á X þegar hann rankaði við sér á stofugólfinu.

Í málinu liggja ekki fyrir upplýsingar um hvernig ákærði fór að því að færa sjálfan sig og X úr buxum og nærbuxum er hún lá á gólfinu umrædda nótt, meðan hann hélt lykkjunni fastri um háls hennar og sat ofan á henni. Í umsögn læknis vegna fyrstu komu á slysa- og bráðadeild er hvorki getið um að X hafi verið færð úr fötum né er þar að finna nánari lýsingu á ætlaðri nauðgunartilraun. Samkvæmt umsögninni var haft samband við neyðarmóttöku sem taldi ekki þörf á frekari skoðun. Við skýrslugjöf hjá lögreglu sama dag kvaðst X ekki muna hvernig ákærði náði henni úr fötunum eða hvort hann hafi eyðilagt fötin við það. Ekki liggja fyrir rann­sóknar­gögn um ástand fata X. Því er ekkert komið fram í málinu um að séð hafi á fötum hennar vegna ætlaðra aðfara ákærða. Að mati dómsins verður ekki fram hjá því litið að framburður X nýtur ekki stuðnings í öðrum gögnum málsins að þessu leyti. Er það því álit dómsins að fyrir hendi sé skynsamlegur vafi um hvort ákærði hafi í umrætt sinn fært sjálfan sig og X úr buxum og nærbuxum eða með öðrum hætti gert tilraun til að þröngva henni til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka. Með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar eru til sönnunar í opinberu máli og lýst er hér að framan er því óhjákvæmilegt að sýkna ákærða af tilraun til nauðgunar samkvæmt 194. gr. hegningarlaga.

X.

Ákærði er nú 37 ára. Samkvæmt sakavottorði hefur hann ekki orðið uppvís að refsiverði háttsemi síðan 1997 er hann hlaut fangelsisdóm fyrir ölvunarakstur. Umrætt brot og önnur eldri hafa engin áhrif við refsiákvörðun í þessu máli.

Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að árás ákærða var lífshættuleg, fólskuleg og unnin innan veggja heimilis fyrrverandi eigin­konu hans og barnsmóður, sem átti sér einskis ills von frá hans hendi. Þótt ekki hafi verið sýnt fram á að kynferðislegar hvatir hafi búið að baki árásinni verður engu síður að líta til þess að ofbeldi ákærða stóð yfir í umtalsverðan tíma og var til þess fallið að niðurlægja barns­móður hans og svipta hana mannlegri reisn. Loks verður að líta til þess að árásin hafði alvarlegar andlegar afleiðingar í för með sér fyrir X, eins og ráða má af vott­orði Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings, svo og framburði og eftirfarandi hátt­semi X sjálfrar. Á hinn bóginn má líta til þess að líkamlegir áverkar X voru smávægilegir og að ákærði sýndi nokkur merki iðrunar í framhaldi af broti sínu, enda þótt hann játaði það ekki fyrir lögreglu. Að lokum verður að líta til þess að rúmlega tuttugu mánuðir eru liðnir frá því brotið var framið. Má rekja þann drátt annars vegar til óútskýrðra tafa á lögreglurannsókn málsins og hins vegar til þess að ákærði flutti af landi brott skömmu eftir að ákæra var gefin út og náðist ekki að birta hana fyrr en 21. nóvember síðastliðinn. Verður unað við þá mál­flutningsyfir­lýsingu ákæru­valdsins, að ákærði eigi ekki sök á þeim drætti, sbr. 2. mgr. 117. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Að því virtu, sem nú hefur verið rakið, þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði.  

Ákærði er búsettur á Englandi ásamt sambýliskonu. Hann er í fastri atvinnu hjá stóru byggingafyrirtæki og hefur ekki áform um að flytja aftur til Íslands. Þegar litið er til þessa og haft er í huga hve langt er liðið frá framningu brotsins, þykir mega ákveða að fresta fullnustu sex mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá dómsuppkvaðningu, enda haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

X á ótvíræðan rétt til miskabóta úr hendi ákærða samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Með hliðsjón af atvikum öllum, vottorði Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings um andlegar afleiðingar líkams­árásarinnar og vættis hennar fyrir dómi, þykja miskabætur til X hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Ber sú fjárhæð vexti eins og í dómsorði greinir.

Í ljósi téðra málsúrslita og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opin­berra mála ber að skipta sakarkostnaði í málinu. Fyrir liggja tvenn sakarkostnaðar­yfirlit, dagsett 28. nóvember 2005 og 19. desember 2006. Samkvæmt þeim er áfallinn sakarkostnaður 210.604 krónur. Þar af eru 45.000 krónur vegna læknisþjónustu Sveins Magnússonar 1. maí 2005, 32.000 krónur vegna læknisvottorðs frá Neyðarmóttöku LSH, 98.604 krónur vegna réttargæsluþóknunar Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdóms­lög­manns á rannsóknarstigi máls og loks 35.000 krónur vottorðs Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings. Er ekki efni til annars en að ákærði greiði einn kostnað vegna nefndra sér­fræði­gagna, samtals 112.000 krónur. Þar sem ákærði er á hinn bóginn sýkn af tilraun til nauðgunar þykir rétt að skipta greiddri þóknun réttargæslumannsins til helminga þannig að ákærði greiði 49.302 krónur, en sama fjárhæð leggist á ríkissjóð. Þá ber með sömu röksemdum að skipta til helminga þóknun lögmannsins vegna réttar­gæslu­starfa fyrir dómi, sem og málsvarnarlaunum Sjafnar Kristjánsdóttur héraðsdóms­lög­manns, sem skipuð var verjandi ákærða 21. nóvember 2006. Með hliðsjón af eðli og umfangi máls þykir þóknun réttargæslumannsins hæfilega ákveðin 124.500 krónur og laun verjanda 249.000 krónur, hvoru tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari sótti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Héraðsdómararnir Jónas Jóhannsson, Sigrún Guðmundsdóttir og Skúli Magnússon kváðu upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, Y, sæti fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu sex mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá dóms­uppkvaðningu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði X 400.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí til 2. desember 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 348.052 krónur í sakarkostnað, þar með talinn helming 249.000 króna málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Sjafnar Kristjánsdóttur héraðsdóms­lög­manns og helming 124.500 króna þóknunar Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslög­manns, skipaðs réttargæslu­manns X.

 

S é r a t k v æ ð i

Jónasar Jóhannssonar

 

Ég er sammála meirihluta dómenda um forsendur fyrir sakfellingu ákærða fyrir sérstaklega hættulega líkams­árás á fyrrverandi eiginkonu sína, X, á heimili hennar aðfaranótt sunnudagsins 1. maí 2005 og að sú háttsemi sé réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru vegna þeirrar aðferðar, sem ákærði beitti. Leiðir skilja við upphaf IX. kafla. Fyrir því eru eftirgreindar ástæður.

X hringdi í lögreglu kl. 04:13 umrædda nótt og óskaði eftir aðstoð. Í framhaldi tjáði hún lögreglumönnunum Hildi Rún Björnsdóttur og Sigurði Péturssyni að ákærði hefði skömmu áður heimsótt hana, þau ræðst við í sófa í stofu íbúðarinnar og hann viljað fá hana til samfara. Hún hefði hafnað þeirri umleitan, hann reiðst, tekið taubelti af buxum sínum, sett það um háls X og hert að. Í fram­haldi hefði hann klætt sig og hana úr buxum og nærbuxum og reynt að nauðga henni, fyrst með því að leggjast ofan á hana í sófanum, en síðan með því að draga hana með beltinu niður á stofugólf og leggjast ofan á hana þar. Er hér um fyrstu frásögn X að ræða, sem höfð var eftir henni á vettvangi og þannig skráð í frumskýrslu. Hafa báðir lögreglu­menn borið fyrir dómi að X hafi verið miður sín þegar hún greindi frá atburðum.

          X ræddi næst við Ásmund Jónasson lækni á slysadeild LSH, um klukku­stundu síðar. Var þá skráð eftir henni að ákærði hefði komið í heimsókn, hann óskað eftir kynmökum, sem hún hefði synjað um, hann þá gerst ógnandi, tekið belti og reyrt um háls hennar, þvingað hana niður á gólf, lagst með hné ofan á olnboga hennar og gert tilraun til að nauðga henni, en hætt af sjálfsdáðum þegar hún hefði náð að tala hann til. Fyrir dómi bar Ásmundur að sér hefði fundist umrædd frásögn trúverðug og staðfesti þau ummæli í læknisvottorði að X hefði verið „sjokkeruð“ þegar hún greindi frá atburðum.

          X leitaði til Neyðarmóttöku LSH laust eftir hádegi sama dag og óskaði eftir réttarlæknisfræðilegri skoðun, í þeim beina tilgangi að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás og tilraun til nauðgunar. Arnar Hauksson kvensjúkdóma­læknir gat þess í sinni skýrslu að X hefði verið „dofin, róleg, samvinnuþýð en svipbrigða­laus“ þegar hann hefði hlýtt á frásögn hennar um atburði liðinnar nætur og skráð eftir henni að ákærði hefði heimsótt hana, þau ræðst við og hann reynt að fá hana til samfara, sem hún hefði þvertekið fyrir. Ákærði hefði reynt að káfa á henni, staðið ógnandi yfir henni og sagst myndu hafa samræði við hana, með góðu eða illu. Hún hefði streist á móti og verið „hálffrosin“ og vantrúa þegar hann hefði tekið belti sitt, reyrt það um háls hennar, þvingað hana til að leggjast á bakið á gólfinu og sest ofan á hana, með hné sín ofan á olnbogum hennar. Ákærði hefði í framhaldi fært sig og hana úr buxum og nærbuxum og reynt að hafa kynmök við hana, ekki tekist það og látið af háttsemi sinni eftir að X hefði höfðað til dóttur þeirra.

          Framangreindar lýsingar á atburðarás eiga það sammerkt að í engu tilviki er því lýst með nákvæmum hætti hvernig ákærði eigi að hafa borið sig að þegar hann á að hafa reynt að nauðga henni um nóttina. Þá virðist gæta ákveðins misræmis milli fyrstu frásagnar og þeirrar þriðju um það á hvaða tímapunkti ákærði eigi að hafa fært þau úr buxum, en sama atriðis er ekki getið í skýrslu Ásmundar. Við mat á sönnunargildi umræddra skýrslna ber einkum að hafa tvennt í huga. Í fyrsta lagi, að um er að ræða endursögn þeirra, sem hlýddu á lýsingu X og að henni gafst ekki færi á að tjá sig um hvernig frásögnin væri færð í letur. Í annan stað er til þess að líta að markmið læknanna tveggja var að afla áverkalýsingar X, svo að þeir gætu í kjölfarið sinnt hlutverki sínu að framkvæma líkams­skoðun. Í öllum tilvikum er því þó lýst, að X hafi verið heima hjá sér þegar ákærði hefði knúið dyra, óskað eftir að koma inn fyrir, í framhaldi falast eftir samþykki X til kynmaka og í kjölfar synjunar hennar hert belti að hálsi hennar, dregið hana niður á gólf og reynt að nauðga henni.

          X gaf formlega skýrslu hjá lögreglu í beinu framhaldi af dvöl sinni á Neyðar­móttökunni. Hún kvaðst hafa verið nýlega komin heim þegar ákærði hefði hringt dyrabjöllunni, hún hleypt honum inn og þau sest niður í sófa í stofunni. Þar hefði ákærði vakið máls á kynlífi þeirra í milli, hún verið því afhuga, hann gripið um brjóst hennar og nánast staðið yfir henni þegar hann hefði losað taubelti af buxum sínum, gert lykkju á ólina, skellt henni um háls hennar og hert að. Í kjölfar þessa hefði ákærði sagt að hann ætlaði að hafa samræði við hana, með góðu eða illu, hann togað í ólina og dregið X niður á stofugólfið með þeim afleiðingum að ólin hefði herst mjög að hálsi hennar og hún fundið minnkað blóðflæði til höfuðs. X kvaðst á þeim tímapunkti hafa verið skelfingu lostin og hún reynt með annarri hendi að losa um ólina, en hina höndina hefði hún notað sér til varnar gegn ákærða, sem setið hefði klof­vega og ber fyrir neðan mitti ofan á brjóstkassa hennar.

          Við framangreindar kringumstæður er vart við því að búast að X hafi áttað sig nákvæmlega á því hvenær og hvernig ákærði klæddi þau hvort um sig úr buxum og nærbuxum, svo sem hún staðhæfði, enda kom fram í sömu skýrslu að X hefði óttast um líf sitt. Þá lýsti hún ekki tilteknum hrottaskap við nefndar aðfarir ákærða og verður því ekki séð að sönnun fyrir ætlaðri nauðgunartilraun velti á því hvort föt X hafi skemmst eður ei. Lýsing hennar virðist þvert á móti vera lág­stemmd, meðal annars um það að getnaðarlimur ákærða hafi ekki verið reistur, að hann hafi setið ofan á brjóstkassa hennar án þess að reyna að þröngva limnum inn í fæðingarveg hennar og hann látið sjálfviljugur af háttsemi sinni í kjölfar þess að hún hefði höfðað til dóttur þeirra og bitið frá sér.

          Þegar X kom fyrir dóm, tæplega tuttugu mánuðum síðar, skýrði hún frá atvikum á sama veg í öllum meginatriðum, meðal annars um að ákærði hefði káfað á henni í sófanum, í framhaldi kropið yfir hana, losað um taubelti sitt, brugðið því um háls hennar og hert að, í kjölfarið sagst „ætla að komast yfir“ hana, dregið hana niður á stofugólfið og þar sest klofvega ofan á hana, eftir að hafa klætt þau hvort um sig úr buxum og nærbuxum. X bar sem fyrr að hún áttaði sig ekki á því hvenær ákærði hefði fært þau úr buxum, enda hefði hún óttast um líf sitt og hugsað um það eitt að losa beltisólina frá hálsi sínum. Þá hélt hún fast við fyrri frásögn um að getnaðarlimur ákærða hefði verið slappur, sagðist ekki minnast þess að hann hefði reynt að þröngva limnum inn í fæðingarveg hennar og að hann hefði látið sjálfviljugur af háttseminni í kjölfar þess að hún hefði höfðað til dóttur þeirra.

          Þegar frásögn X er metin heildstætt er einsætt að hún hefur aldrei hvikað frá því að ákærði hafi komið óvænt í heimsókn umrædda nótt, hann falast eftir samförum við hana, í framhaldi af synjun hennar brugðið beltisól um háls hennar og gert tilraun til að nauðga henni. Þótt þess sé ekki getið sérstaklega í læknisvottorði Ásmundar Jónassonar, að ákærði hafi fært sig og X úr buxum og nærbuxum, hefur X ávallt verið stöðug í þeim vitnisburði að atvik hafi verið með þeim hætti og greindi sannanlega frá því, fyrst í viðtali við Arnar Hauksson, næst við skýrslugjöf hjá lögreglu og loks fyrir dómi, að ákærði hefði klætt þau úr að neðan og sagst ætla að hafa samræði við hana með góðu eða illu. Nefndur vitnisburður hefur ávallt verið án ofhermis. Er það mat dómsins að hann sé trúverðugur og breytir engu í því sambandi þótt X geti ekki staðið fast á því nákvæmlega hvenær og hvernig ákærði hafi afklætt þau. Að teknu tilliti til þeirra hrikalegu aðstæðna, sem ákærði kom henni í, verður þvert á móti að telja að nefnd óvissa X um sömu staðreyndir auki á trúverðugleika frásagnar hennar, sem og sá vitnisburður X að limur ákærða hafi ekki verið reistur og hann látið sjálfviljugur af háttsemi sinni.

          Niðurstaða um sekt ákærða ræðst af heildarmati á sönnunargildi skýrslna hans og X hjá lögreglu og fyrir dómi, að teknu tilliti til annarra gagna málsins, sbr. 46.-48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Vitnisburður X fyrir dómi er í heild trúverðugur og samrýmist fyrri lýsingum hennar á atburðarás um öll þau atriði, sem máli skipta. Hún hefur á engu stigi málsins getið þess að tilefni heimsóknar ákærða hafi verið að sækja tann­bursta eða snyrtidót dóttur þeirra, svo sem ákærði hefur borið. Er með nokkrum ólíkindum að ákærði skuli ekki hafa látið neitt uppi við X um þann tilgang næturheimsóknarinnar, ef fótur var fyrir honum á annað borð. Þá hefur X ávallt staðið fast á því að hún hafi verið stödd í íbúð sinni þegar ákærði hafi knúið dyra. Ákærði hefur á hinn bóginn haldið því fram að þau hafi hist í anddyri umrædds fjöl­býlis­húss þegar X hafi verið að koma heim. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 1. maí 2005 kvaðst ákærði þá hafa verið að koma að húsinu, en fyrir dómi sagðist hann hafa verið búinn að sækja umrædda muni í íbúð X og hafa verið á leið burt þegar þau hefðu hist í anddyrinu. Er hér um augljóst misræmi að ræða. Þá greindi ákærði lögreglu frá því að hann hefði misst úr minni atburðarás í stofunni og rankað við sér á stofugólfinu, krjúpandi á hnjánum með X klemmda undir líkama hans. Fyrir dómi breytti ákærði þeim framburði og staðhæfði að X hefði verið að tala í síma í eldhúsi íbúðarinnar þegar hann hefði rankað við sér á ný eftir tímabil óminnis. Sú skýring ákærða á hinum breytta framburði, að hann muni betur eftir atburðum tæpum tuttugu mánuðum eftir að þeir gerðust, er fjar­stæðu­kennd. Hitt er einsætt, samkvæmt framburði ákærða fyrir dómi, að hann á enga minningu um tiltekið tímabil næturinnar, hið sama og ákæra lýtur að. Sakarneitun hans byggir því fyrst og fremst á eigin staðfestu um að hann trúi því ekki upp á sjálfan sig að hafa veist að X með þeim hætti, sem honum er gefið að sök. Á hinn bóginn hefur ákærði jafnframt sagt að hann viti ekki með vissu hvort þær sakir séu réttar eður ei. 

          Í ljósi framanritaðs hlýtur niðurstaða um sekt ákærða að byggjast fyrst og fremst á vitnisburði X fyrir dómi, svo framarlega sem hann fær viðhlítandi stoð í öðrum gögnum málsins. Frásögn hennar fær stuðning í frum­skýrslu lögreglu, tveimur læknisvottorðum og vætti fyrr­nefndra lögreglumanna og lækna fyrir dómi, ekki síst um þá staðreynd að X hafi verið miður sín þegar hún greindi frá umræddri nauðgunartilraun. Er ekkert fram komið í málinu, sem hnekkir vitnisburði X eða veikir, svo nokkru nemi. Á hinn bóginn styðja fyrstu viðbrögð ákærða þá niður­stöðu að eitthvað sérlega ámælisvert hafi gerst um nóttina, en í tveimur SMS skila­boðum, sem hann sendi X um og eftir kl. 05, kemur fram iðrun yfir „við­bjóðnum“, sem hann hefði lagt á hana og loforð þess að hann muni aldrei tala við hana eða koma nálægt henni aftur. Af tímasetningu nefndra skilaboða verður vart dregin önnur haldbær ályktun en að ákærði hafi þá vitað upp á sig alvarlegar sakir, en ekkert bendir til þess að hann og X hafi verið búin að ræða saman um nóttina eða að ákærði hafi með öðrum hætti fengið upplýsingar um ætlaða nauðgunartilraun. Þá ber að líta til þess að ákærði hefur verið tvísaga um tilteknar, mikilvægar stað­reyndir málsins, að skýring hans á umræddri heimsókn er með ólíkindablæ, að X hringdi í lögreglu strax um nóttina, fór í kjölfarið tvívegis í læknisskoðun á LSH og lagði fram kæru samdægurs. Hefur engin skýring fengist á því af hverju X ætti að bera á ákærða rangar og upplognar sakir af svo alvarlegum toga, en samkvæmt framburði hans var samband þeirra tveggja með ágætum þegar mál þetta kom upp. Er þannig ekkert fram komið, sem bendir til þess að annarlegar hvatir hafi búið að baki kæru X og að hún hafi lagt á sig slíkt erfiði, sem að framan greinir, í þeim tilgangi einum að klekkja á ákærða. Samskipti ákærða og X, sem getið er um í VII. kafla, geta hér engu breytt, enda hafa þau ekkert sönnunargildi um atvik máls. Að öllu þessu gættu hníga skyn­semis­rök í þá einu átt að leggja beri vitnisburð X til grund­vallar dómi í málinu.

          Samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992, skal hver sá, sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvar manni til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka, sæta fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að sextán árum. Hafi sá hinn sami tekið ákvörðun um að vinna slíkt ódæði og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar að eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins, skal honum refsað fyrir tilraunabrot, sbr. 1. mgr. 20. gr. hegningarlaganna, þegar brot er ekki fullkomnað.

          Í máli þessu er ákærði sannur að því að hafa, í framhaldi af áleitni í garð X og höfnun hennar á kynferðislegu samneyti við hann, brugðið beltisól um háls hennar, á meðan þau sátu í sófa í stofu íbúðar hennar, sagst ætla að eiga samræði við hana með góðu eða illu, eða „komast yfir“ hana, því næst togað hana niður á stofu­gólfið og sest klofvega ofan á brjóstkassa hennar, eftir að hafa fært þau hvort um sig úr buxum og nærbuxum, og þannig haldið henni einhverja stund. Þótt ákærði hafi ekki reynt að þröngva getnaðarlim sínum inn í fæðingarveg X bendir framangreind atlaga hans að X og téð ummæli eindregið til þess að fyrir honum hafi vakað að eiga við hana samræði gegn vilja hennar í skilningi 194. gr. almennra hegningarlaga. Ber því að sakfella ákærða fyrir tilraunabrot samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

          Þar sem meirihluti dómenda er ósammála framangreindri niðurstöðu er ekki ástæða til að fjölyrða um refsingu ákærða, en ella bæri að tiltaka hana með hliðsjón af reglum 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga, sem og 2. mgr. 20. gr. laganna. Að teknu tilliti til aldurs brotanna er það álit mitt að refsing væri þannig hæfi­lega ákveðin fangelsi í átján mánuði. Jafnframt bæri að dæma ákærða til greiðslu 600.000 króna miskabóta auk vaxta og dráttarvaxta, sem og til greiðslu alls sakar­kostnaðar.

          Í ljósi meirihlutaatkvæðis er ég sammála röksemdum fyrir refsiákvörðun, skil­orðs­bindingu að hluta, ákvörðun um miskabætur og sakarkostnað.