Hæstiréttur íslands

Mál nr. 333/2012


Lykilorð

  • Skuldamál


                                     

Fimmtudaginn 24. janúar 2013.

Nr. 333/2012.

Exorka ehf.

(Óskar Sigurðsson hrl.)

gegn

Útrás ehf.

(Gunnar Sólnes hrl.)

og gagnsök

Skuldamál.

Ú ehf. tók að sér, með samningi, verkefnaöflun fyrir E ehf. sem fólst í því að finna kaupendur að tilteknum rafstöðvun. Á grundvelli viljayfirlýsingar um kaup L ltd. á stórri rafstöð af E ehf. keypti félagið þrjár dísilvélar af M A/S. Viðskipti E ehf. og L ltd. gengu til baka og gekk fyrirtækið U inn í kaup E ehf. á tveimur vélanna, en samkomulag náðist milli M A/S og E ehf. um niðurfellingu þriðja kaupsamningsins. Deildu aðilar um þóknun Ú ehf. vegna sölu þeirra, á grundvelli samnings þeirra á milli um skiptingu söluhagnaðar. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að með því að tvær vélanna hefðu gengið til U á sama verði og E ehf. hefði áður keypt þær á hefði enginn hagnaður orðið af viðskiptum þeirra á milli. Hefði umræddur samningur milli Ú ehf. og E ehf. því ekki komið til framkvæmda í samræmi við efni sitt. Þá var talið að ekki væru efni til greiðslu þóknunar vegna niðurfellingar samnings um þriðju vélina þar sem engin sala hefði farið fram í því því tilviki. Var E ehf. því  sýknað af kröfu Ú ehf. um greiðslu frekari þóknunar en E ehf. hefði þegar greitt Ú ehf. samkvæmt reikningi hins síðarnefnda.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. maí 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 5. júlí 2012. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 86.666 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi undirrituðu aðaláfrýjandi og Lijnco Printing Ltd. í Hollandi viljayfirlýsingu 17. febrúar 2006 um kaup á stórri rafstöð. Á grundvelli hennar gerði aðaláfrýjandi tvo kaupsamninga 28. júlí 2007 við Man B&W Diesel A/S í Danmörku um kaup á þremur dísilvélum, samtals að andvirði 3.140.000 evrur. Til staðfestingar pöntun á vélunum greiddi hið hollenska fyrirtæki 10% af samningsfjárhæðinni til aðaláfrýjanda sem greiddi hana áfram til seljanda. Svo fór að Lijnco Printing Ltd. féll frá viðskiptum sínum við aðaláfrýjanda með bréfi 20. apríl 2007 til hins síðarnefnda og krafðist endurgreiðslu innborgunar sinnar.

Í tölvubréfi gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda 6. júní 2007 var sú tillaga gerð af hálfu gagnáfrýjanda að allar vélarnar yrðu boðnar til sölu fyrir 3.600.000 til 3.800.000 evrur. Hagnaður af sölunni yrði þá 450.000 til 650.000 evrur, söluþóknun til gagnáfrýjanda 150.000 til 216.700 evrur og sams konar þóknun til aðaláfrýjanda 300.000 til 433.300 evrur, en hún yrði háð endanlegu söluverði. Í tölvubréfinu var tekið fram að bærist lægra tilboð en 3.600.000 evrur skyldi það borið undir aðaláfrýjanda. Með tölvubréfi aðaláfrýjanda 8. sama mánaðar til gagnáfrýjanda var þessi tillaga samþykkt. Komst þar með á samningur milli aðila um hvernig staðið yrði að sölu vélanna og skiptingu söluhagnaðar miðað við þær forsendur sem þar greindi.

Fyrirtækið Unipak Tissue Mill Division í Líbanon gekk inn í kaupsamning aðaláfrýjanda og Man B&W Diesel á tveimur díselvélanna og fyrir það greiddi líbanska fyrirtækið aðaláfrýjanda 235.000 evrur 15. nóvember 2007. Þá varð að samkomulagi milli aðaláfrýjanda og Man B&W Diesel að aðaláfrýjandi greiddi Man B&W Diesel samtals 35.000 evrur vegna kostnaðar hins síðarnefnda af því að Unipak Tissue Mill Division gekk inn í áður gerðan samning Man B&W Diesel og aðaláfrýjanda um kaup á vélunum. Aðaláfrýjandi og Man B&W Diesel gerðu síðan samning 21. janúar 2008 sín á milli um að fella niður kaupsamning um þriðju vélina gegn því að Man B&W Diesel endurgreiddi aðaláfrýjanda 60.000 evrur.

Í málinu liggur fyrir reikningur gagnáfrýjanda 31. maí 2008 til aðaláfrýjanda að fjárhæð samtals 2.119.000 krónur vegna „Project: Lijnco Holland ... Task: Sale of MAN 16V28/328 engines.“ Í meðfylgjandi vinnuskýrslu fyrir tímabilið júní til desember 2007 kom fram að um væri að ræða undirbúning, kynningu og aðstoð við sölu og næmi vinnutímafjöldi vegna þessa 120 klukkustundum. Í annan stað var tilgreindur kostnaður við fund gagnáfrýjanda 22. til 23. ágúst í Kauppannahöfn með Man B&W Diesel vegna ráðgjafar, ferða- og gistikostnaðar, samtals 349.000 krónur, og sams konar kostnaður vegna fundar gagnáfrýjanda 27. til 29. október 2007 í París með Unipak Tissue Mill Division að fjárhæð 410.000 krónur. Að lokum er tilgreind ráðgjafarvinna, 10.500 krónur á klukkustund, samtals að fjárhæð 1.260.000 krónur, en sú tala kemur heim og saman við þá 120 vinnutíma sem fyrr greinir. Óumdeilt er að þessi reikningur var greiddur af hálfu aðaláfrýjanda.

II

Svo sem áður greinir gerðu málsaðilar með sér samning um milligöngu gagnáfrýjanda vegna sölu á þremur dísilvélum sem aðaláfrýjandi hafði áður samið við Man B&W Diesel um kaup á fyrir 3.140.000 evrur vegna viðskipta sinna við Lijnco Printing Ltd. Ágreiningslaust er að Unipak Tissue Mill Division gekk inn í samninginn við Man B&W Diesel um kaup á tveimur vélanna á sömu kjörum og aðaláfrýjandi, þar með talið söluverð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu aðaláfrýjanda af kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu ⅓ hlutar af áðurnefndri 60.000 evra endurgreiðslu Man B&W Diesel til aðaláfrýjanda vegna niðurfellingar kaupa á þeirri dísilvél sem þar um ræðir.

Í samningi aðila þessa máls var gert ráð fyrir söluhagnaði vegna áframsölu vélanna sem næmi á bilinu 450.000 til 650.000 evrum og skyldi honum skipt á milli aðila þannig að aðaláfrýjandi fengi ⅔ hluta hans og gagnáfrýjandi ⅓ hluta. Með því að vélarnar gengu til Unipak Tissue Mill Division við sama verði og aðaláfrýjandi hafði áður keypt þær á af Man B&W Diesel varð enginn hagnaður af viðskiptum aðaláfrýjanda og Unipak Tissue Mill Division. Kom umræddur samningur málsaðila því ekki til framkvæmda í samræmi við efni sitt. Samkvæmt þessu hefur gagnáfrýjandi ekki sýnt fram á að hann eigi kröfu á frekari greiðslu úr hendi aðaláfrýjanda en hinn síðarnefndi innti af hendi samkvæmt umræddum reikningi gagnáfrýjanda 31. maí 2008. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda.

Eftir þessum málsúrslitum verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Exorka ehf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Útrásar ehf.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. febrúar 2012

Mál þetta var þingfest 23. febrúar 2011 og áritað um aðfararhæfi 28. sama mánaðar. Það var endurupptekið með úrskurði 21. júlí 2011 og tekið til dóms 19. janúar 2012. Stefnandi er Útrás ehf., Fjölnisgötu 3b, Akureyri, en stefndi er Exorka ehf., Hafnargötu 89, Reykjanesbæ.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða 86.666 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 66.666 evrum frá 15. nóvember 2007 til 31. janúar 2008 en af 86.666 evrum frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða 7.723.200 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 5.792.400 krónum frá 15. nóvember 2007 til 31. janúar 2008 en af 7.723.200 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda en til vara að þær verði lækkaðar með tilliti til málavaxta og auk þess að vaxtakrafa verði leiðrétt með tilliti til málavaxta. Þá er þess krafist að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda um málskostnað. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Stefnandi, sem er verkfræðistofa á sviði vélaverkfræði, orkuverkfræði og skipaverkfræði, tók að sér verkefnaöflun fyrir stefnda sem fólst í því að finna kaupendur að svokölluðum Kalina-rafstöðvum. Í málinu deila aðilar um þóknun til stefnanda vegna sölu þriggja dísilvéla sem tengdust Kalina-orkuveri í Hollandi.

Málavextir eru að öðru leyti þeir að stefndi, Exorka ehf., var stofnað árið 2001 og var megintilgangur félagsins að selja Kalina-rafstöðvar sem nýta glatvarma og lághita. Með aðilum tókst samstarf og gerðu þeir með sér rammasamning um verkfræðiráðgjöf 10. maí 2001. Þann 16. desember 2005 gerðu aðilar með sér samning um verkefnaöflun stefnanda fyrir stefnda. Í samningnum, sem ber yfirskriftina verkefnablað, segir m.a. að stefndi hafi hafið markaðssetningu á rafstöðvum til þess að vinna orku úr lághita. Átak í markaðsmálum hafi leitt til þess að ein rafstöð hafi verið seld til Þýskalands til nýtingar á jarðhita. Sóknarfæri séu á nýtingu varma frá iðnaði, orkuverum og sorpbrennslu. Stefnandi muni aðstoða stefnda við kynningu á starfsemi stefnda og sé verkefnið fólgið í þátttöku í markaðsstarfi stefnda. Ennfremur sé verkefni stefnanda fólgið í hagkvæmnisúttektum á einstökum verkefnum, tilboðsgerð og aðstoð við gerð sölusamninga. Stefnandi muni leiða verkefnið og greiði stefndi stefnanda fasta þóknun fyrir hverja rafstöð sem vinna stefnanda leiðir til sölu á. Stefnandi fái ekki greitt fyrir útlagðan kostnað við verkefnið en óski stefndi sérstaklega eftir þátttöku stefnanda í kynningar- og söluferðum skuli semja um greiðslur á útlögðum kostnaði í hverju tilviki. Þá er í samningi aðila kveðið nánar á um þóknun til stefnanda sem skyldi vera háð stærð seldra rafstöðva.

Þann 17. febrúar 2006 undirritaði stefndi og Lijnco í Hollandi viljayfirlýsingu um kaup á stórri rafstöð og var andvirði samningsins áætlað 6.000.000 evra. Ekki er deilt um í málinu að það var stefnandi sem hafði milligöngu um þessi viðskipti. Á grundvelli þessarar viljayfirlýsingar gerði stefndi samning við MAN B&W Diesel A/S í Danmörku um kaup á þremur dísivélum, samtals að andvirði 3.140.000 evrur samkvæmt tveimur kaupsamningum. Í kaupsamningum var kveðið á um að stefndi skyldi greiða 10% af kaupverði til MAN B&W Diesel A/S til að staðfesta pöntunina og varð úr að Lijnco greiddi 315.000 evrur til stefnda sem greiddi þá fjárhæð áfram til MAN B&W Diesel A/S.

Svo fór að Lijnco féll frá kaupunum með bréfi 20. apríl 2007 og krafðist endurgreiðslu á innborguninni að fjárhæð 315.000 evrur. Stefndi sat því uppi með bindandi kaupsamninga um þrjár dísilvélar við MAN B&W Diesel A/S án þess að kaupandi væri að þeim.

Samningur var gerður á milli aðila um að stefndi reyndi að finna kaupendur að dieselvélunum. Í tölvupósti 6. júní 2007 frá Þórhalli S. Bjarnasyni, stjórnarformanni stefnanda, til Runólfs Maack, stjórnarformanns stefnda, segir m.a. að Þórhallur hafi látið það berast að vélarnar væru til sölu og nokkrar fyrirspurnir hafi borist. Í póstinum stingur Þórhallur upp á verðhugmyndum og að söluþóknun stefnanda verði 1/3 af hagnaði. Í tölvupósti 8. júní 2007 samþykkti Runólfur f.h. stefnda þessa tillögu Þórhalls.

Samningar komust á fyrir tilstilli stefnanda við fyrirtækið Unipak í Líbanon um kaup á tveimur dísilvélum. Var gengið þannig frá kaupunum að Unipak gekk inn í samning stefnda við MAN B&W Diesel A/S og greiddi Unipak stefnda 235.000 evrur fyrir þau viðskipti. Þá náði stefnandi samningi við MAN B&W Diesel A/S um riftun á kaupum á þriðju vélinni og endurgreiddi MAN B&W Diesel A/S 60.000 evrur til stefnda af því tilefni þann 19. mars 2008.

Þann 31. maí 2008 gaf stefnandi út reikning á hendur stefnda að fjárhæð 2.119.000 krónur vegna ferðalaga og ráðgjafar og greiddi stefndi þann reikning 11. júlí 2008.

Í málinu krefur stefnandi stefnda um söluþóknun vegna fyrrgreindra viðskipta. Í stefnu er gerð krafa um 1/3 í söluþóknun af 295.000 evrum (235.000+60.000). Telur stefnandi að greiðsla Unipak að fjárhæð 235.000 evrur til stefnda sé hagnaður af fyrrgreindum viðskiptum með sölu á tveimur dísilvélum til Líbanon og að endurgreiðsla MAN B&W Diesel A/S á 60.000 evrum til stefnda sé einnig hagnaður. Við munnlegan flutning málsins féllst lögmaður stefnanda á þau sjónarmið stefnda að taka beri tillit til reiknings MAN B&W Diesel A/S vegna kostnaðar af ábyrgðum o.fl. að fjárhæð 35.000 evrur og að sú fjárhæð komi til frádráttar kröfu stefnanda vegna sölunnar til Unipak að fjárhæð 235.000 evrur. Krafa vegna endurgreiðslu MAN B&W Diesel A/S til stefnda að fjárhæð 60.000 evrur standi hins vegar óbreytt.

Endanleg dómkrafa sundurliðast því með eftirfarandi hætti: Krafist er 1/3 af 200.000 evrum vegna sölu á tveimur vélum til Unipak eða 66.666 evra og 1/3 af 60.000 evrum vegna endurgreiðslu MAN B&W Diesel A/S til stefnda eða 20.000 evra eða samtals 86.666 evra.

II.

Þórhallur S. Bjarnason, stjórnarformaður stefnanda, sagði m.a. í skýrslu sinni fyrir dómi að samningurinn við Unipak hefði komist á fyrir tilstuðlan stefnanda. Stefndi hafi þar hvergi komið að málum. Samið hafi verið svo um að Unipak gengi inn í samning Lijnco við MAN B&W Diesel A/S og greiddi 235.000 evrur til stefnanda fyrir að taka yfir samninginn. Það hafi verið Unipak hagkvæmt því langur afgreiðslufrestur hafi verið á umræddum vélum frá MAN B&W Diesel A/S, allt að eitt ár á þessum tíma, að því er hann minnti. Auk þess hafi nýjar vélar frá MAN B&W Diesel A/S verið dýrari en þær sem Unipak keypti. Varðandi þriðju vélina hafi stefnandi annast öll samskipti við MAN B&W Diesel A/S sem leitt hafi til samnings um að þeim kaupum var rift og MAN B&W Diesel A/S endurgreiddi stefnanda 60.000 evrur. Þessi málalok hafi hentað MAN B&W Diesel A/S vel. Vélin hafi verið komin langt í framleiðslu og MAN B&W Diesel A/S hafi haft þörf fyrir hana í annað verkefni.

Sigurpáll B. Ásgeirsson er núverandi framkvæmdastjóri stefnda. Hann hóf störf hjá fyrirtækinu árið 2007. Hann sagði Lijnco hafa gert kröfu á stefnda um endurgreiðslu á innborgun að fjárhæð 315.000 evrur sem Lijnco hefði greitt við pöntun. Hann telji hins vegar að stefnda beri ekki skylda til að endurgreiða þá fjárhæð samkvæmt samningi aðila.

Runólfur Maack var einn eigandi stefnda og stjórnarformaður félagsins fram til ársins 2007. Hann sagði að samið hefði verið um að stefnandi annaðist sölu á fyrrgreindum vélum og fengi 1/3 af ágóða í sinn hlut.

Gestur Bárðarson var framkvæmdastjóri stefnda á þessum tíma. Hann sagði að samkomulag hefði verið um að stefnandi reyndi að finna kaupendur að díselvélunum þremur og fengi 1/3 af hagnaði sölunnar. Hins vegar hafi Lijnco gert kröfu um endurgreiðslu á innborgun og því hafi hann sagt við fyrirsvarsmenn stefnanda að ekki væri unnt að reikna út hagnað fyrr en lyktir þess máls lægju fyrir. Hann hafi látið af störfum hjá stefnanda 2010 og þá hafi lögmaður Lijnco enn verið að hafa samband án þess þó að hafa gert formlega kröfu. Samkvæmt samningi stefnda við Lijnco hafi Lijnco átt rétt á endurgreiðslu innborgunar í þrjá mánuði frá pöntun. Lijnco hafi hins vegar ekki afpantað fyrr en eftir þann tíma.

III.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndi skuldi sér stefnufjárhæð sem sé sú þóknun sem stefndi hafi samþykkt að greiða til stefnanda. Stefnukrafan sé gerð í evrum, þar sem samið hafi verið um greiðslu til stefnda í evrum og greiðslur lagðar inn á gjaldeyrisreikning stefnda þann 15. nóvember 2007.

Til vara sé gerð sú krafa að stefndi greiði stefnanda í íslenskum krónum jafnvirði þeirra evra sem greiddar voru til stefnda 15. nóvember 2007 og 31. janúar 2008. Þessi varakrafa sé sett fram ef til þess kæmi að dómur komist að þeirri niðurstöðu að stefnanda hafi borið að umreikna kröfu sína í íslenskar krónur þegar greiðslur áttu sér stað til stefnda.

Vaxtakröfu sína byggir stefnandi á 5. gr. laga nr. 38/2001 en umsaminn gjalddagi hafi verið sá dagur er stefnandi fékk greiðslu til sín.

Að öðru leyti byggir stefnandi kröfu sína á reglum samningaréttar um að stefndi hafi skuldbundið sig til greiðslu á stefnukröfum.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að krafa stefnanda eigi ekki við rök að styðjast og framlögð gögn styðji ekki dómkröfur stefnanda.

Í fyrsta lagi hafði stefnandi ekki lagt fram sannanir fyrir tilgangi greiðslunnar að fjárhæð 235.000 evrur frá Unipak sem hann telji vera söluhagnað. Í málavaxtalýsingu stefnanda komi réttilega fram að Unipak hafi einungis gengið inn í kaupsamning stefnda við MAN B&W Diesel A/S og því keypt réttindi af hinu stefnda félagi. Fyrir þessar tvær vélar hafi stefndi verið búinn að greiða innborgun til MAN B&W Diesel A/S að fjárhæð 210.000 evrur og sé því eðlilegt að sá hluti kaupverðsins renni aftur til baka til stefnda. Þá hafi stefndi þurft að greiða aukakostnað að fjárhæð 35.000 evrur til MAN B&W Diesel A/S. Greiðsla að fjárhæð 235.000 evrur hafi því hvorki verið kaupverð á vélunum né hagnaður stefnda af sölunni heldur einungis endurgreiðsla á innborgun auk þátttöku í aukakostnaði.

Í öðru lagi byggi stefnandi á því að greiðsla MAN B&W Diesel A/S til stefnda að fjárhæð 60.000 evrur sé söluhagnaður. Það liggi hins vegar í augum uppi að hér sé ekki um söluhagnað að ræða heldur einungis endurgreiðslu á innborgun.

Í þriðja lagi byggir stefndi á því að hluti kröfunnar sé þegar greiddur með greiðslu stefnda á reikningi stefnanda, dags. 31. maí 2008, að fjárhæð 2.119.000 krónur og hafi lögmaður stefnanda viðurkennt þá staðreynd í bréfi sínu 6. maí 2007.

Stefndi telur að engin sala á rafstöð hafi farið fram. Einn kaupandi hafi yfirtekið samning stefnda við MAN B&W Diesel A/S um kaup á tveimur dísilvélum en samningi vegna þriðju vélar hafi þurft að rifta. Þóknun samkvæmt samningi aðila hafi verið bundin við árangur í sölu rafstöðva og hafi átt að takmarkast við hana. Engin sala hafi hins vegar farið fram á rafstöðvum og hafi stefndi tapað nokkur þúsund evrum á öllum þessum viðskiptum.

Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnanda og mótmælir jafnframt kröfu stefnanda um málskostnað þar sem innheimtuviðvörun hafi ekki verið send.

IV.

Stefnandi tók að sér markaðssetningu og verkefnaöflun fyrir stefnda sem fólst í því að selja svokallaðar Kalina-rafstöðvar til nýtingar á lághita. Jafnframt tók stefnandi að sér verkfræðiráðgjöf fyrir stefnda. Vinna stefnanda leiddi til samnings stefnda við Lijnco í Hollandi um kaup á Kalina-orkuveri. Eftir að stefndi og Lijnco höfðu undirritað viljayfirlýsingu þess efnis 17. febrúar 2006 samdi stefndi við MAN B&W Diesel A/S í Danmörku um smíði á þremur dísilvélum til nota við orkuverið. Óumdeilt er í málinu að samningurinn við Lijnco komst á fyrir tilstuðlan stefnanda. Þá er ennfremur óumdeilt að stefnandi skyldi fá í sinn hlut 1/3 af söluhagnaði. Lijnco greiddi 315.000 evrur við pöntun en svo fór að Lijnco féll frá kaupunum og sat þá stefndi uppi með þrjár dísilvélar í smíðum hjá MAN B&W Diesel A/S.  Samningur komst á með aðilum um að stefnandi reyndi að selja vélarnar fyrir stefnda. Í málinu hafa verið lögð fram tölvupóstsamskipti aðila þar sem fram kemur að stefnandi skyldi fá í þóknun 1/3 af hagnaði seldra dieselvéla. Í vitnaleiðslu fyrir dómi staðfestu fyrirsvarsmenn stefnda á þessum tíma, þeir Runólfur Maack og Gestur Bárðarson, að samningur þess efnis hafi komist á milli aðila.

Stefnandi heldur því fram að samningur við Unipak hafi komist á fyrir tilstuðlan stefnanda. Ekkert í málinu hefur komið fram af hálfu stefnda sem sýnir fram á annað. Þá sýna tölvupóstsamskipti að stefnandi annaðist samskipti og samningsumleitanir sem leiddu til þess að MAN B&W Diesel A/S féllst á að rifta kaupum á þriðju vélinni og endurgreiða stefnda 60.000 evrur.

Unipak gekk inn í samning stefnda við MAN B&W Diesel A/S um kaup á tveimur vélum og greiddi stefnda 235.000 evrur fyrir þau viðskipti. Lítur stefnandi á þá fjárhæð sem hagnað stefnda af viðskiptunum en undir rekstri málsins féllst stefnandi á að til frádráttar komi 35.000 evrur vegna kostnaðar stefnda við söluna. Krafa stefnanda er því 1/3 af 200.000 evrum eða 66.666 evrur vegna sölunnar til Unipak. Þá lítur stefnandi á endurgreiðslu MAN að fjárhæð 60.000 evrur sem hagnað af viðskiptunum og krefst einnig 1/3 af þeirri fjárhæð eða 20.000 evra.

Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að stefnandi hafi komið á samningi við Unipak í Líbanon með þeim hætti að Unipak gekk inn í samning stefnda við MAN B&W Diesel A/S og greiddi 235.000 evrur fyrir. Sú fjárhæð telst hafa verið hagnaður af sölunni að frádregnum 35.000 evrum sem stefnandi hefur fallist á að komi til frádráttar. Á stefnandi samkvæmt samningi aðila rétt á þóknun að fjárhæð 66.660 evrur vegna þessarar sölu.

Öðru máli gegnir um endurgreiðslu MAN B&W Diesel A/S á 60.000 evrum til stefnda. Í því tilviki var ekki um sölu á dísilvél að ræða í skilningi samkomulags aðila heldur var samningi stefnda og MAN B&W Diesel A/S rift og féllst sá síðarnefndi á að endurgreiða hluta innborgunar. Verður ekki fallist á með stefnanda að honum beri þóknun vegna þess þó að stefnandi hafi séð um samskipti við MAN B&W Diesel A/S þar að lútandi. Samningur aðila tók aðeins til þóknunar vegna hagnaðar af sölu en ekki til þess að hafa milligöngu um riftun samningsins.

Varnir stefnda byggja ennfremur á því að stefnandi hafi fengið kostnað sinn greiddan samkvæmt reikningi, dags. 31. maí 2008, að fjárhæð 2.119.000 krónur sem stefndi greiddi. Reikningurinn er vegna tveggja ferða, annars vegar til Parísar og hins vegar til Kaupmannahafnar, svo og vegna ráðgjafar að fjárhæð 1.260.000 krónur. Fyrirsvarsmaður stefnanda, Þórhallur S. Bjarnason, gaf þá skýringu í skýrslu sinni fyrir dómi að ferðirnar hafi verið farnar að beiðni stefnda vegna þess að fyrirsvarsmaður stefnda hafi ekki haft tök á að fara þessar ferðir vegna annarra verkefna. Stefndi greiddi reikninginn athugasemdalaust og verður því ekki talið að hann hafi áhrif á kröfu stefnanda í þessu máli sem varðar umsamda þóknun vegna sölu. Þá á sú málsástæða stefnda ekki við rök að styðjast að stefnandi hafi í innheimtubréfi fallist á að þessi reikningur komi til frádráttar stefnukröfum.

Niðurstaða málsins verður því sú að stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 66.666 evrur en því hefur ekki verið mótmælt að krafan sé gerð í evrum. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu reiknast dráttarvextir frá þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannarlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Fyrra innheimtubréf stefnanda til stefnda er dagsett 2. apríl 2009 og reiknast því dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2004 frá 2. maí 2009 til greiðsludags.

Stefndi hefur mótmælt kröfu stefnanda um málskostnað þar sem innheimtuviðvörun hafi ekki verið send. Sú krafa á ekki við rök að styðjast þar sem tvö innheimtubréf hafa verið lögð fram í málinu. Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Stefndi, Exorka ehf., greiði stefnanda, Útrás ehf., 66.666 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. maí 2009 til greiðsludags og 800.000 krónur í málskostnað.