Hæstiréttur íslands

Mál nr. 688/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 15

 

Þriðjudaginn 15. desember 2009.

Nr. 688/2009.

Ártúnsbrekka ehf.

(Kristinn Brynjólfsson framkvæmdastjóri)

gegn

VBS Fjárfestingarbanka hf. og

(Helgi Jóhannesson hrl.)

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

 

Á ehf. höfðaði mál gegn V hf. og Í  og krafðist þess að staðfest yrði með dómi að afmá skyldi tiltekin uppgreidd veðskuldabréf úr þinglýsingarbókum. Þá krafðist hann viðurkenningar á því að V hf. og Í bæru skaðabótaábyrgð ef sýnt væri fram á að dráttur á aflýsingu bréfanna hafi valdið honum fjártjóni. Undir rekstri málsins féll Á ehf. frá fyrri dómkröfu sinni þar sem sýslumaður hafði þá orðið við kröfu hans um að aflétta veðskuldabréfunum af fasteign þess. Talið var að viðurkenningarkrafa Á ehf. væri svo óákveðin og óljóst orðuð að hún bryti í bága við fyrirmæli 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Um leið fæli hún í sér beiðni um lögfræðilegt álit dómsins og væri þannig einnig í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laganna. Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins vegna þessa staðfest í Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ártúnsbrekka ehf., greiði varnaraðilum, VBS Fjárfestingarbanka hf. og íslenska ríkinu, hvorum fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2009.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu 10. nóvember sl., er höfðað með stefnu sem birt var stefndu 8. og 15. apríl sl.

Dómkröfur stefnanda eru þannig orðaðar í stefnu:

Stefnandi gerir þær kröfur að staðfest verði með dómi að afmá skuli uppgreidd veðskuldabréf úr þinglýsingarbókum af fasteignum með fastanúmer 229-8067 og 229-8153 að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík. Um er að ræða 10 handhafaskuldabréf með uppfærslurétti sem áður hvíldu á 2. veðrétti en hvíla nú á 1. veðrétti skv. þinglýsingarvottorði. Hvert þessar bréfa er að fjárhæð kr. 5.000.000 og voru þau útgefin þann 5. október 2005.

Að auki gerir stefnandi kröfu um viðurkenningardóm, eins og heimilt er samkvæmt 2. tölulið 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem skorið er úr um hvor stefndu beri skaðabótaábyrgð ef sýnt er fram á að dráttur þessi á aflýsingu bréfanna hefur valdið stefnanda fjárhagstjóni.

Þá er og krafist málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum að mati dómsins auk 24,5% virðisaukaskatts.

Stefndu krefjast þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi og þeim úrskurðaður málskostnaðar að mati dómsins. Að auki krefst stefndi, VBS Fjárfestingarbanki hf., þess að forsvarsmaður stefnanda, Kristinn Brynjólfsson, verði persónulega dæmdur til greiðslu málskostnaðarins. 

Við munnlegan flutning málsins féll stefnandi frá fyrri kröfu sinni í stefnu og stendur því eftir krafa hans um viðurkenningardóm samkvæmt síðari lið kröfugerðarinnar, auk kröfu hans um málskostnað. Er sá þáttur kröfugerðarinnar hér til úrlausnar.

II.

Í megindráttum eru málsatvik eftirfarandi:

Á árinu 2004 gerðu VBS Fjárfestingarbanki hf. og Hönnunar- og listamiðstöðin Ártúnbrekku ehf. með sér samning um fjármögnun bankans á breytingu á geymslu- og lagerhúsnæði að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík. Til tryggingar skuldinni gaf hinn síðarnefndi út 56 veðskuldabréf, sem tryggð voru með krossveði í öllum eignarhlutum fasteignarinnar, sem þá voru sjö að tölu. Í ársbyrjun 2007 var nýr eignaskiptasamningur gerður um fasteignina að Rafstöðvarvegi 1a, en samkvæmt honum var eigninni skipt úr sjö í átta eignarhluta. Sex af þessum eignarhlutum voru auðkenndir með sömu fastanúmerum og í fyrri eignaskiptasamningi, en einn leið undir lok. Því urðu til tveir nýir eignarhlutar, sem fengu fastanúmerin 229-8067 og 229-8153. Við þinglýsingu hins nýja eignaskiptasamnings voru veðskuldirnar ekki færðar á tvo síðastgreinda eignarhluta.

Stefnandi keypti eignarhluta 229-8067 og 229-8153 10. mars 2007 og voru þeir þá veðbandalausir. Afsali var þinglýst 17. apríl sama ár. Skömmu síðar krafðist VBS Fjárfestingarbanki hf. þess að Sýslumaðurinn í Reykjavík leiðrétti þinglýsingabók í þá veru að fyrrnefnd veðskuldabréf hvíldu einnig á umræddum eignarhlutum, og varð sýslumaður við þeirri kröfu.

Við nauðungarsölu, sem fram fór 18. apríl 2007, keypti VBS Fjárfestingarbanki hf. fjóra eignarhluta fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 1a. Síðar á árinu, eða 18. september, keypti bankinn aftur tvo eignarhluta fasteignarinnar, einnig við nauðungarsölu. Voru þá eftir þeir tveir eignarhlutar eignarinnar sem hér er deilt um, þ.e. nr. 229-8067 og 229-8153.

Við fyrstu fyrirtöku nauðungarsölu á tveimur síðastgreindum eignarhlutum 19. febrúar 2009 mótmælti fyrirsvarsmaður stefnanda nauðungarsölunni og lagði fram gögn máli sínu til stuðnings. Lutu mótmæli hans að því að krafa VBS Fjárfestingarbanka hf. samkvæmt áhvílandi veðskuldabréfum væri að fullu greidd, og hefði hún greiðst upp við fyrri nauðungarsölur á öðrum eignarhlutum. Því bæri sýslumanni að aflétta veðskuldabréfum, sem hvíldu með 2. veðrétti á ofangreindum eignarhlutum. Sjá má af framlögðum gögnum stefnanda að krafa þessi var margítrekuð, ýmist við Sýslumanninn í Reykjavík, VBS Fjárfestingarbanka hf. eða lögmann bankans. Fór svo að lokum að Sýslumaðurinn í Reykjavík aflétti 21. apríl sl. veðskuldabréfum á 2. veðrétti af eignarhlutum 229-8153 og 229-8067, enda töldust þau uppgreidd með uppboðsandvirði annarra eignarhluta fasteignarinnar.  

Þar sem Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur nú orðið við kröfu stefnanda um að aflétta umræddum veðskuldabréfum af áðurnefndum eignarhlutum, féll stefnandi frá þeirri kröfu sinni, eins og áður greinir.

III.

Af hálfu VBS Fjárfestingarbanka hf. er frávísunarkrafan á því reist að viðurkenningarkrafa stefnanda sé ódómtæk, þar sem aðeins sé óskað eftir áliti dómsins á því hvor stefndu kunni hugsanlega að bera skaðabótaábyrgð vegna meints tjóns stefnanda, ef sýnt er fram á að dráttur á aflýsingu bréfanna hafi valdið stefnanda fjárhagstjóni. Dómkrafan sé því aðeins beiðni um lögfræðilegt álit dómsins, en ekki um viðurkenningu á réttindum eða ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu. Af þeim sökum beri að vísa kröfunni frá dómi, sbr. 24. og 25. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum d. liður síðasttalins ákvæðis.

Einnig er á því byggt að stefnandi færi engin rök fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvort hið meinta tjón eigi að leiða til skaðabótaskyldu stefndu, og þá hvors þeirra. Ekki verði heldur séð hver sé hin meinta sök stefndu, né á hvaða bótagrundvelli krafan sé reist. Framsetning kröfunnar uppfylli því engan veginn skilyrði réttarfarsreglna um skýrleika og afmörkun dómkrafna. Þá er á það bent að stefnandi láti nægja að segja í stefnu að ljóst sé „að með því að aflýsa ekki uppgreiddum bréfum eru stefndu að skaða hagsmuni stefnanda en tjón vegna þessa er nú þegar orðið verulegt“. Að áliti stefnda er þessi fullyrðing stefnanda bæði ósönnuð og ósönn, enda ekki rökstudd nánar, en geri stefnda þó ómögulegt að taka til varna. Krafan sé þannig vanreifuð að öllu leyti, og beri að vísa henni frá dómi, sbr. 25. gr. og 80. gr. laga um meðferð einkamála.

Að öðru leyti telur stefndi að kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda sé í heild svo óljós og vanreifaður, þ.á m. um aðild og hagsmuni stefnanda af sakarefninu, um aðild hvors stefnda fyrir sig, málsgrundvöll, málsástæður og lagarök, að ómögulegt sé að átta sig á samhengi málatilbúnaðar hans.

Krafa stefnda um persónulega ábyrgð Kristins Brynjólfssonar á málskostnaði er á því byggð að málsókn þessi sé tilefnislaus. Í málinu séu gerðar sömu kröfur og nú þegar séu hafðar uppi í öðru dómsmáli, sem rekið sé á milli stefnanda og stefnda, VBS Fjárfestingarbanka hf. Þá hafi forsvarsmaður stefnanda í rúm tvö ár, í nafni hinna ýmsu félaga, reynt að tefja lögmætar efndir með ótal dóms- og ágreiningsmálum. Til stuðnings þeirri kröfu vísar stefndi til 1. og 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

Sýslumaðurinn í Reykjavík byggir frávísunarkröfu sína á sömu málsástæðum og VBS Fjárfestingarbanki hf. Að auki er lögð á það áhersla að dómkrafan þurfi að vera þannig úr garði gerð að hún geti endurspeglað dómsorð. Fari því fjarri að dómkrafa stefnanda uppfylli það skilyrði. Þá telur stefndi að krafan sé að öðru leyti mjög óljós, óglögg og skilyrt, og feli um leið í sér beiðni um lögfræðilegt álit dómsins. Krafan fari þannig í bága við 1. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafi stefnandi á engan hátt sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni, eða að öðru leyti fært rök fyrir kröfu sinni. Allt framanritað eigi að leiða til þess að vísa eigi málinu í heild frá dómi. 

Stefndi tekur undir þau sjónarmið meðstefnda, VBS Fjárfestingarbanka hf., að aðild málsins sé vanreifuð, bæði til sóknar og varnar. Þá telur stefndi að stefnanda hafi borið að beina kröfu sinni um viðurkenningu á skaðabótaábyrgð að íslenska ríkinu.

Til stuðnings kröfu sinni um málskostnað í þessum þætti málsins vísar stefndi til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V.

Stefnandi mótmælir kröfum stefndu um frávísun málsins og gerir þess í stað kröfu að málið verði tekið til efnisúrlausnar. Þá gerir hann kröfu um að stefndu verði in solidum gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann hafi á tímabilinu frá 23. janúar til 1. apríl sl. margítrekað farið þess á leit við stefndu að þeir afléttu uppgreiddum skuldabréfum af eignum hans við Rafstöðvarveg 1a. Stefndu hafi þó ekkert aðhafst, aðeins bent hvor á annan. Á sama tíma hafi stefndi, VBS Fjárfestingarbanki hf., reynt að knýja fram nauðungarsölu á eignunum á grundvelli hinna uppgreiddu skuldabréfa. Niðurstaðan hafi að lokum orðið sú að Sýslumaðurinn í Reykjavík aflétti veðskuldunum af eignum hans 21. apríl sl., eða sama dag og mál þetta var þingfest. Telur hann augljóst að allt hafi þetta valdið honum fyrirhöfn og fjárhagstjóni, sem stefndu beri ábyrgð á.

Stefnandi kveðst styðja viðurkenningarkröfu sína við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og telur sér fyllilega heimilt að haga kröfugerðinni á þann hátt sem hann geri í stefnu.

VI.

Eins og áður greinir féll stefnandi frá fyrri dómkröfu sinni um að afmá skyldi uppgreidd veðskuldabréf úr þinglýsingabókum af eignarhlutum hans í fasteigninni að Rafstöðvarvegi 1a, Reykjavík, enda hafði Sýslumaðurinn í Reykjavík þá orðið við kröfu hans um að aflétta veðskuldunum af fasteigninni. Eftir stendur hins vegar síðari krafa stefnanda, um viðurkenningardóm þar sem skorið er úr um hvor stefndu beri skaðabótaábyrgð ef sýnt er fram á að dráttur þessi á aflýsingu bréfanna hafi valdið stefnanda fjárhagstjóni, eins og orðrétt segir í stefnu.

Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er að finna fyrirmæli um efni stefnu. Samkvæmt d. lið ákvæðisins skal greina svo glöggt sem verða má dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum o.s.frv. Af orðalagi kröfu stefnanda, eins og hún er hér sett fram, má helst ráða að stefnandi sé að óska liðsinnis dómsins við að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þess dráttar sem varð á því að veðskuldabréfunum var aflýst. Engar upplýsingar liggja þó fyrir um meint tjón stefnanda af þessum sökum, hvers eðlis tjónið sé og hvernig hann hyggist færa sönnur á það. Engin tilraun er heldur gerð til þess að sýna fram á saknæma og ólögmæta háttsemi stefndu, hvað þá að meint tjón stefnanda sé afleiðing af aðgerðum eða aðgerðaleysi þeirra. Raunar hefur stefnandi ekki tekið afstöðu til þess hvor stefndu kunni að bera skaðabótaábyrgð vegna þessa, og óskar því einnig eftir að dómurinn skeri úr um það. Krafa stefnanda, svo óákveðin og óljóst orðuð, brýtur augljóslega í bága við fyrirmæli 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um leið felur hún í sér beiðni um lögfræðilegt álit dómsins, og er þannig einnig í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. sömu laga. Verður ekki hjá því komist að fallast á kröfur stefndu um að vísa kröfunni frá dómi, og um leið málinu í heild sinni.

Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 150.000 krónur til hvors þeirra. Ekki þykja efni til að verða við kröfu stefnda, VBS Fjárfestingarbanka hf., um að forsvarsmanni stefnanda, Kristni Brynjólfssyni, verði persónulega gert að greiða málskostnað.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Ártúnsbrekka ehf., greiði hvorum stefndu, VBS Fjárfestingarbanka hf. og Sýslumanninum í Reykjavík, 150.000 krónur í málskostnað.