Hæstiréttur íslands

Mál nr. 217/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 25

 

Miðvikudaginn 25. apríl 2007.

Nr. 217/2007.

Ákæruvaldið

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. maí 2007, kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2007.

          Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að X, fd. 6. janúar 1979, til heimilis í Litháen, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. maí 2007, kl. 16:00.

          Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi kærði komið til landsins 7. mars sl.  Kærði sé ekki með vinnu hér á landi og hafi ekki sótt um dvalarleyfi.

          Kærða var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2007 gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. og c. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991. Með dómi Hæstaréttar 15. mars 2007 var úrskurðurinn felldur úr gildi, þar sem ekki þótti nægjanlega fram komið að skilyrðum b. eða c. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 væri fullnægt, en kærða hins vegar gert að sæta farbanni allt til 30. mars 2007 kl. 16.  Með dómi Hæstaréttar 26. mars 2007 var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag með skírskotun til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991.

          Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi höfðað í dag opinbert mál á hendur kærða með útgáfu ákæru.  Samkvæmt ákæruskjali er honum gefið að sök :

          1.             hylmingu með því að hafa mánudaginn 12. mars 2007, haft í vörslum sínum og reynt að selja, þrjú armbandsúr af gerðinni Raymond Weil, samtals að verðmæti 262.780 krónur, en armbandúrunum var stolið úr skartgripaversluninni MEBU í Kringlunni á tímabilinu 10. til 11. mars 2007.

          2.             vopnalagabrot, með því að hafa í ofangreint sinn borið bitvopn á almannafæri og átt tvö táragasvopn sem lögregla fann við leit á honum og dvalarstað hans. 

          3.             þjófnað, með því að hafa í verslun B.T. að Fjarðargötu 13 í Hafnarfirði, sunnudaginn 18. mars 2007, stolið fartölvu af gerðinni Thoshiba Satellite, að verðmæti 179.999 krónur. 

          4.             þjófnað, með því að hafa, í verslun B.T. að Skeifunni 11 í Reykjavík, miðvikudaginn 21. mars 2007, stolið fartölvu af gerðinni Fujitsu Simens, að verðmæti 149.999 krónur. 

          Kærði hafi hjá lögreglu viðurkennt aðild sína að ofangreindum brotum.  Lögreglustjóri telji yfirgnæfandi líkur fyrir því að kærði muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus.  Fyrir liggur mat Hæstaréttar um nauðsyn þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi og hefur ekkert fram komið sem getur breytt því mati.

          Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála er niðurstaða úrskurðar þessa sú, að fallast beri að fullu á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

          Kærði, X, litháskur ríkisborgari, fd. 6. janúar 1979, til heimilis í Litháen, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. maí 2007, kl. 16:00.