Hæstiréttur íslands
Mál nr. 233/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 5. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2016 þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Krafa varnaraðila um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila barst héraðsdómi 13. janúar 2016 og var hún reist á árangurslausu fjárnámi sem varnaraðili hafði fengið gert hjá sóknaraðila sama dag, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Í kröfu varnaraðila var fjárkrafa hans sögð nema 1.123.490 krónum. Sóknaraðili andmælti kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti og var hún því tekin fyrir í sérstöku máli. Þegar það var tekið fyrir 11. mars 2016 lagði sóknaraðili fram kvittun fyrir greiðslu sama dag til lögmanns varnaraðila að fjárhæð 1.138.490 krónur og má af gögnum málsins ráða að með henni hafi sóknaraðili greitt meðal annars 15.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar varnaraðila af kröfu um gjaldþrotaskipti.
Frumskilyrði þess að bú verði tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 er að sá, sem slíka kröfu gerir, sé lánardrottinn þess sem krafan beinist að. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið hafði sóknaraðili greitt kröfu varnaraðila áður en hinn kærði úrskurður var upp kveðinn og var varnaraðili því ekki lengur lánardrottinn sóknaraðila. Brast því skilyrði til að taka bú hans til gjaldþrotaskipta. Þegar af þeirri ástæðu verður hafnað kröfu varnaraðila um skiptin.
Sóknaraðili gerði ekki kröfu um málskostnað fyrir héraðsdómi. Varnaraðila verður á hinn bóginn gert að greiða honum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Austurstrætis 5 ehf., um að bú sóknaraðila, Kamran Keivanlou, verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2016
Með beiðni, sem barst dóminum 13. janúar sl., hefur sóknaraðili, Austurstræti 5 ehf., kt. [...], Austurstræti 7, Reykjavík, krafist þess að bú varnaraðila, Kamran Keivanlou, kt. [...], Vatnsstíg 16-18, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Við fyrirtöku beiðninnar 24. febrúar sl. var sótt þing af hálfu beggja aðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málinu var frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu varnaraðila og var hún lögð fram af hans hálfu í þinghaldi 9. mars sl. Var málið þá tekið til úrskurðar eftir að aðilum að kröfu sóknaraðila eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig.
Málsatvik
Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila er studd við 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 en árangurslaust fjárnám var gert hjá varnaraðila 13. janúar sl. Samtals er krafa sóknaraðila að fjárhæð 1.123.490 krónur og er sundurliðuð með eftirfarandi hætti í beiðni hans:
|
Höfuðstóll |
900.000 krónur |
|
Dráttarvextir til 13.01.2016 |
24.329 krónur |
|
Innheimtuþóknun |
98.216 krónur |
|
Aðfararbeiðni |
14.000 krónur |
|
Kostnaður vegna aðfarar |
43.300 krónur |
|
Gjaldþrotaskiptabeiðni |
7.000 krónur |
|
Vextir af kostnaði |
2.633 krónur |
|
Virðisaukaskattur |
34.012 krónur |
|
Samtals |
1.123.490 krónur |
Krafa sóknaraðila byggir á dæmdum málskostnaði. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettum 29. september 2015, var varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 500.000 krónur í málskostnað. Þá dæmdi Hæstiréttur varnaraðila til að greiða sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað 4. nóvember 2015.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Krafa sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta byggir á ákvæði 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sem gerir ráð fyrir að lánardrottinn geti krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta ef árangurslaust fjárnám hefur verið gerð hjá skuldaranum á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag. Þetta skilyrði sé uppfyllt, enda hafi árangurslaust fjárnám farið fram hjá varnaraðila að beiðni sóknaraðila 13. janúar sl. Þá hafi varnaraðili ekki sýnt fram á að hann sé fær um að standa skil á skuldbindingum sínum eða verði það innan skamms eða að krafa hans sé nægilega tryggð með veði.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili kveður að hann hafi ekki verið boðaður til fyrirtöku málsins hjá sýslumanni 13. janúar sl. þegar árangurslaust fjárnám hafi farið fram hjá varnaraðila að beiðni sóknaraðila. Honum hafi því verið ókunnugt um kröfuna og ekki geta gripið til varna. Skilyrðum 24. gr. laga nr. 90/1989 um aðför hafi ekki verið fullnægt.
Varnaraðili mótmælir því að hann sé ógjaldfær. Hann þiggi laun frá Aflacom General Trading ehf. og skattskýrslur sýni fram á það. Þá þiggi varnaraðili einnig greiðslur frá erlendri skrifstofu Alfacom General Trading. Að lokum eigi varnaraðili sparnaðarreikning í Evrópu.
Varnaraðili bendir á að hann hafi kært Ásgeir Kolbeinsson stofnanda sóknaraðila til lögreglu fyrir fjármálamiðferli. Það mál sé nátengt kröfu sóknaraðila.
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli árangurslauss fjárnáms, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eins og fram kemur í beiðni hans til dómsins, sem móttekin var 13. janúar sl. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort skilyrði gjaldþrotaskipta séu fyrir hendi.
Byggir sóknaraðili á því að hið árangurslausa fjárnám sem fram fór hjá varnaraðila 13. janúar sl. feli í sér líkindi fyrir ógjaldfærni hans og að varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann sé allt að einu fær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar eða verði það innan skamms tíma eða að krafa hans sé nægilega tryggð með veði.
Varnaraðili hefur krafist þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað, m.a. þar sem hann hafi ekki verið boðaður til fyrirtöku málsins hjá sýslumanni 13. janúar sl. þegar árangurslaust fjárnám hafi farið fram hjá varnaraðila að beiðni sóknaraðila. Honum hafi því verið ókunnugt um kröfuna og ekki geta gripið til varna. Ljóst er að varnaraðili neytti ekki þeirra úrræða sem hann hafði að lögum til að krefjast úrlausnar héraðsdóms um aðfarargerðina, samkvæmt 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, innan þess tímafrests sem þar greinir. Varnaraðili getur því ekki byggt á því að fjárnámið hefði ekki átt að ná fram að ganga og það veitir líkindi fyrir ógjaldfærni hans.
Þá byggir varnaraðili á því að hann sé gjaldfær. Varnaraðili hefur ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings að hann sé gjaldfær og eigi fyrir skuldum. Hann hefur því ekki hnekkt því að fyrir hendi séu skilyrði fyrir því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli beiðni sóknaraðila.
Þá vísar varnaraðili til þess að hann hafi kært Ásgeir Kolbeinsson stofnanda sóknaraðila til lögreglu fyrir fjármunamisferli. Ekki liggur fyrir í málinu hvernig þetta tengist gjaldþrotaskiptabeiðni þeirri sem um ræðir og kemur þessi málsástæða því ekki til skoðunar.
Sóknaraðili þykir með gögnum málsins, sem fyrir lágu er málið var tekið til úrskurðar, leitt að því nægilegar líkur að hann eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila og hefur varnaraðili viðurkennt að skuld þessi sé fyrir hendi. Árangurslaust fjárnám sem fram fór 13. janúar sl. veitir líkindi fyrir ógjaldfærni varnaraðila eins og fram kemur í fjölmörgum dómafordæmum Hæstaréttar á þessu sviði. Fjárnáminu hefur ekki verið hnekkt og varnaraðila hefur ekki sýnt fram á að hann sé gjaldfær.
Tveimur klukkustundum fyrir uppkvaðningu úrskurðar bárust dóminum upplýsingar frá lögmanni, sem þó hefur ekki komið fram í málinu sem lögmaður varnaraðila, um að krafa sóknaraðila hefði verið greidd og að hann vænti þess að málið yrði fellt niður. Í máli þar sem krafa um gjaldþrotaskipti byggir á árangurslausu fjárnámi sem ekki hefur verið hnekkt og ekki hefur verið sýnt fram á gjaldfærni, skiptir ekki máli um efnislega niðurstöðu málsins þótt varnaraðili kunni að hafa greitt þá kröfu sem fjárnámið byggðist á, sbr. dóma Hæstaréttar í máli nr. 620/2013 og í máli nr. 338/2014, haldi sóknaraðili á annað borð kröfu sinni til streitu. Þá tekur dómurinn fram til útskýringar, þótt því hafi ekki verið haldið fram af varnaraðila í greinargerð hans, að 67. gr. um frávísun máls ex officio vegna annmarka á beiðni í upphafi á ekki við á því stigi sem málið er nú rekið fyrir dóminum.
Með vísan til alls þess sem að framan greinir ber því að fallast á kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila.
Sóknaraðili hefur ekki gert kröfu um málskostnað úr hendi varnaraðila og úrskurðast hann því ekki.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Bú varnaraðila, Kamran Keivanlou, kt. [...], Vatnsstíg 16-18, Reykjavík, er tekið til gjaldþrotaskipta.