Hæstiréttur íslands
Mál nr. 493/2004
Lykilorð
- Aðfarargerð
- Sératkvæði
- Börn
- Kærumál
|
|
Föstudaginn 14. janúar 2005. |
|
Nr. 493/2004. |
K(Valborg Þ. Snævarr hrl.) gegn M (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Börn. Aðfarargerð. Sératkvæði.
K
krafðist þess að sér yrði heimilað að fá dóttur hennar og M tekna úr umráðum M
og fengna sér með beinni aðfarargerð en K fór með forsjá stúlkunnar. Hafði
stúlkan sem var nýorðin 15 ára lýst vilja sínum til að dveljast áfram hjá M. Í
málinu lá fyrir dómur Hæstaréttar í máli aðila þar sem hafnað var kröfu M um að
honum yrði fengin forsjá stúlkunnar til bráðabirgða. Í Hæstarétti var tekið var
fram að fyrrgreind niðurstaða Hæstaréttar um forsjá yfir stúlkunni byggðist á
því hvað væri henni fyrir bestu. Engin gögn hefðu verið lögð fram í málinu sem
breyttu þeirri niðurstöðu. Yrði því að telja að M hefði ekki fært fram rök sem
veittu tilefni til að varhugavert yrði talið að gerðin næði fram að ganga. Var
því fallist á kröfu K um að forsjá hennar yfir dóttur aðila yrði komið á með
beinni aðfarargerð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum næsta dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. desember 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að sér yrði heimilað að fá dóttur aðila tekna úr umráðum varnaraðila og fengna sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst heimildar til aðfarargerðarinnar og að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um aðfarargerð verði hafnað og henni gert að greiða sér kærumálskostnað.
I.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili farið með forsjá dóttur aðila, sem fædd er [...] 1989, samkvæmt staðfestu samkomulagi þeirra í mars 1992. Stúlkan hefur hins vegar dvalist hjá varnaraðila frá því í ágúst 2004 gegn vilja sóknaraðila og lýst vilja sínum til að gera það áfram. Með stefnu 31. ágúst 2004 höfðaði varnaraðili mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra á hendur sóknaraðila þar sem hann krafðist forsjár stúlkunnar auk þess sem hann gerði kröfu um að honum yrði fengin forsjá hennar til bráðabirgða. Með úrskurði héraðsdóms 15. október 2004 var síðastnefndri kröfu varnaraðila hafnað. Sú niðurstaða var staðfest með dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2004 í máli nr. 435/2004. Þar sem stúlkan dvaldist hjá varnaraðila krafðist sóknaraðili þess 19. nóvember 2004 fyrir Héraðsdómi Reykjaness að forsjá hennar yfir stúlkunni yrði komið á með beinni aðfarargerð. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila hafnað.
II.
Samkvæmt fyrrnefndum dómi
Hæstaréttar fer sóknaraðili með forsjá dóttur aðila. Þegar sá dómur var kveðinn
upp lá fyrir álitsgerð sálfræðings frá 16. september 2004 þar sem komist var að
þeirri niðurstöðu að það væri stúlkunni fyrir bestu að fara aftur til
sóknaraðila þrátt fyrir vilja hennar að vera áfram hjá varnaraðila. Í dómi
Hæstaréttar var sérstaklega tekið fram að héraðsdómari hefði tekið rökstudda
afstöðu til þess atriðis að stúlkan hefði lýst vilja sínum til þess að dveljast
áfram hjá varnaraðila, en það væri eitt af því sem bæri að líta til þegar
komist væri að niðurstöðu í deilu aðila um hvað væri barninu fyrir bestu.
Fyrrgreind álitsgerð liggur fyrir í þessu máli ásamt álitsgerð sálfræðings frá
28. nóvember 2004, sem aflað var að tilhlutan héraðsdóms til að kanna viðhorf
stúlkunnar til beiðni sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 45. gr. og 43. gr. barnalaga
nr. 76/2003. Samkvæmt þessari síðari álitsgerð er vilji stúlkunnar óbreyttur,
en hún er nýorðin 15 ára. Fyrrnefnd niðurstaða Hæstaréttar um forsjá yfir
stúlkunni byggðist á því hvað væri henni fyrir bestu. Engin gögn hafa verið
lögð fram í máli þessu sem breyta þeirri niðurstöðu. Með vísan til
framangreinds verður að telja að varnaraðili hafi ekki fært fram rök sem veita
tilefni til að varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga. Verður því
fallist á kröfu sóknaraðila um að forsjá hennar yfir dóttur aðila verði komið á
með beinni aðfarargerð.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Sóknaraðila, K, er heimilt að fá dóttur aðila, A, tekna úr umráðum varnaraðila, M, og afhenta sér með beinni aðfarargerð.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Sératkvæði
Ingibjargar Benediktsdóttur
og
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
I.
Í 6. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir að foreldrum beri að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess sé ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefi tilefni til. Skuli afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast. Í VI. kafla laganna er fjallað um dómsmál vegna ágreinings um forsjá barns. Þar er samkvæmt 43. gr. skylt að veita barni, sem náð hefur nægilegum þroska, kost á að tjá sig um mál nema telja megi að slíkt geti haft skaðleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins. Getur dómari falið sérfróðum manni að kynna sér viðhorf barnsins og gefa um það álit samkvæmt 42. gr. laganna. Þessi lagaákvæði eru í samræmi við alþjóðlegar reglur um réttindi barna svo sem samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. auglýsingu nr. 18/1992. Í 12. gr. hans er mælt fyrir um að aðildarríki skuli tryggja barni, sem myndað getur eigin skoðanir, rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða og skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.
Fyrrgreind lagaákvæði byggja sýnilega á sjónarmiðum um að börn skuli, eftir því sem aldur og þroski leyfir, njóta nokkurs sjálfstæðs réttar til aðildar að ákvörðunum um málefni sem þau varða, þó að þau séu ekki orðin 18 ára gömul, en við það aldursmark verða þau nú lögráða samkvæmt 1. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en fyrr hafi þau stofnað til hjúskapar.
II.
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að henni verði heimilað að fá dóttur sína og varnaraðila, sem nú er á 16. aldursári, tekna úr umráðum hans og fengna sér með beinni aðfarargerð. Styður sóknaraðili kröfuna við 45. gr. barnalaga, þar sem heimiluð er aðför til að knýja fram afhendingu barns til rétts forsjármanns, ef sá sem barn dvelst hjá neitar að afhenda það. Tekið er fram í lagaákvæðinu, að gæta skuli ákvæða 43. gr. laganna við meðferð aðfararmálsins.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði liggja fyrir í þessu máli álitsgerðir tveggja sérfræðinga sem rætt hafa við stúlkuna. Báðir hafa þeir staðfest að eindreginn vilji hennar standi til þess að dveljast áfram hjá föður sínum. Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur taldi hagsmunum stúlkunnar best borgið með því að fara til sóknaraðila en allt að einu væri vafasamt að senda hana þangað gegn eindregnum vilja hennar. Lá þetta álit fyrir í máli því um bráðabirgðaforsjá stúlkunnar sem dæmt var í Hæstarétti 17. nóvember 2004. Héraðsdómari neytti síðan heimildar 1. mgr. 43. gr., sbr. 45. gr. barnalaga og fól Þorgeiri Magnússyni sálfræðingi að kanna afstöðu stúlkunnar til kröfu sóknaraðila. Taldi hann afstöðu stúlkunnar alveg eindregna. Í hinum kærða úrskurði er því lýst, að þessi sérfræðingur hafi komið fyrir dóminn. Þar hafi hann talið það geta verið ábyrgðarhluta að taka öll ráð af barni um persónulega hagi þess og þá ekki hvað síst, þegar um sé að ræða stálpað barn og á þeim aldri sem um ræði í málinu. Sé vilji barns byggður á skynsamlegum rökum og ekki algjör tilbúningur sé hætt við að með því að líta framhjá vilja þess sé verið að ofbjóða sjálfstæði þess og öðrum mikilvægum þáttum sem barn á þessum aldri eigi rétt á að litið sé til, eins og komist er að orði.
III.
Með dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2004 í máli nr. 435/2004 var kröfu varnaraðila um bráðabirgðaforsjá hafnað, meðan rekið væri dómsmál um forsjá stúlkunnar. Í forsendum dómsins er tilgreindur málflutningur aðilanna að því er snerti fyrrgreint álit Gunnars Hrafns Birgissonar um að vafasamt væri að senda stúlkuna til sóknaraðila gegn vilja sínum. Sóknaraðili kvað þá þess að vænta að stúlkan yrði fengin með góðu til að koma til sín þegar henni yrði kynnt staða mála, ef hafnað yrði kröfu varnaraðila í því máli um bráðabirgðaforsjá. Kæmi til aðfararmáls yrði afstaða hennar til flutnings könnuð fyrir héraðsdómi samkvæmt 45. gr., sbr. 43. gr. barnalaga. Varð þessi málflutningur ekki skilinn á annan veg en þann, að sóknaraðili hygðist ekki knýja fram flutning stúlkunnar gegn vilja hennar, þó að varnaraðila yrði synjað um forsjá til bráðabirgða, ef sá vilji reyndist staðfastur þegar og ef til aðfarar kæmi. Vísaði Hæstiréttur til þessa málflutnings í forsendum fyrir þeirri niðurstöðu að hrófla ekki að svo stöddu við forsjá stúlkunnar.
IV.
Eins og fram kemur í forsendum hins kærða úrskurðar liggur ekkert fyrir í
gögnum málsins um að það geti farið í bága við hagsmuni stúlkunnar að dveljast
áfram hjá varnaraðila eins og eindreginn vilji hennar stendur til. Fyrrgreind
lagaákvæði um könnun á afstöðu barna byggjast á því að slík afstaða skipti máli
við úrlausn máls með þeim fyrirvörum þó sem ákvæðin greina. Hér er um að ræða
15 ára gamalt barn sem tekið hefur eindregna afstöðu til þess hjá hvoru
foreldra sinna það vill búa. Í máli þessu hefur ekki verið sýnt fram á að
aðstæður annars foreldrisins til þess að annast barnið séu betri en hins. Má
ætla að afstaða barns með nægilegan aldur og þroska skipti einmitt máli þegar
svo stendur á.
Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2004 var aðeins tekin afstaða til kröfu um forsjá til bráðabirgða miðað við þá stöðu málsins sem þá var uppi. Í þeim dómi fólst ekki sú afstaða að unnt væri að knýja fram afhendingu telpunnar gegn vilja hennar. Tekið skal fram, að fyrrgreind ákvæði barnalaga gera, eins og þar var vikið að, ráð fyrir að réttum forsjármanni kunni að verða synjað um afhendingu barns þrátt fyrir forsjárvald hans. Var þetta raunar einnig talið áður en bein ákvæði um þetta voru lögfest, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni réttarins 1993, bls. 1457.
Þegar litið er til lögmælts réttar dóttur málsaðila til áhrifa á ákvarðanir
um málefni sín, hagsmuna hennar af því að verða ekki þvinguð gegn vilja sínum
til að flytjast til sóknaraðila og að öðru leyti til þess sem að framan greinir
auk forsendna hins kærða úrskurðar, teljum við að staðfesta beri hinn kærða
úrskurð og dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðila 150.000 krónur í
kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms
Reykjaness 9. desember 2004.
Með aðfararbeiðni sem barst héraðsdómi 24. f.m. krafðist sóknaraðili, K, [...] á Z, úrskurðar dómsins um að henni verði heimilað að fá dóttur málsaðila, A, fædda [...] 1989, tekna úr umráðum varnaraðila, M, [...] í Hafnarfirði, og fengna sér með beinni aðfarargerð. Þá er þess krafist að kæra á úrskurði í máli þessu fresti ekki réttaráhrifum hans og að í úrskurðarorði verði kveðið á um að aðfararfrestur verði enginn. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að hafnað
verði kröfu sóknaraðila um heimild til aðfarargerðar. Þá er
krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málið var tekið til
úrskurðar að undangengnum munnlegum málflutningi 3. þ.m.
I.
Í
kjölfar slita á óvígðri sambúð málsaðila gerðu þau með sér samkomulag, sem
staðfest var 12. mars 1992, um að sóknaraðili færi ein með forsjá tveggja dætra
þeirra. Engin breyting hefur verið gerð á þessu samkomulagi. Er eldri dóttir
málsaðila nú lögráða, en sú yngri, A, á 16. aldursári. Frá því í ágúst á þessu
ári hefur A í óþökk sóknaraðila dvalið hjá varnaraðila í Hafnarfirði og neitað
að fara aftur til sóknaraðila, sem er eins og fram er komið búsett á Z. Höfðaði
varnaraðili mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra með stefnu útgefinni 31.
ágúst 2004 og gerði kröfu um að honum verði falin forsjá stúlkunnar. Jafnframt
gerði hann, með vísan til 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003, kröfu um að
honum yrði fengin forsjá hennar til bráðabirgða. Hafnaði dómurinn þeirri kröfu
varnaraðila með úrskurði 15. október 2004, sem var staðfestur með dómi
Hæstaréttar 17. f.m. Í kjölfar dómsins setti sóknaraðili fram þá kröfu sem hér
er til úrlausnar. Er hún byggð á 45. gr. barnalaga.
II.
Að því málavexti varðar tekur
sóknaraðili fram að stúlkan hafi dvalið hjá varnaraðila haustið 2002 og þá með
samþykki sóknaraðila. Í nóvember það ár hafi varnaraðili gefist upp á því að
hafa stúlkuna hjá sér og haft samband við barnaverndaryfirvöld vegna þess. Hafi
komið fram í bréfi Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði að varnaraðili hefði ekkert
ráðið við stúlkuna, sem skrópað hafi í skóla og gengið illa að búa hjá
varnaraðila og sambýliskonu hans. Hafi komið fram í frásögn varnaraðila á
þessum tíma að stúlkan hafi ekki staðið við loforð, logið að varnaraðila og
sambýliskonu hans og gert allt til að vera á móti þeim. Hafi orðið úr að
stúlkan flutti til sóknaraðila að nýju. Hún hafi þá og eftir dvöl sína hjá
varnaraðila verið illa á sig komin bæði námslega og félagslega. Hafi verið
unnið töluvert að því af hálfu skólayfirvalda á Z að aðstoða stúlkuna. Þannig
hafi kennarar sinnt henni sérstaklega umfram aðra nemendur og unnið hafi verið
markvisst að málefnum hennar í samvinnu skóla og sóknaraðila. Hafi stúlkunni
farið að ganga betur í kjölfar þessa og hún byrjað að taka félagslegum
framförum. Þá hafi hún bætt hegðun sína til mikilla muna.
Fyrir
liggur að stúlkan hefur ekki sótt skóla um hríð. Af hálfu sóknaraðila er því
haldið fram að varnaraðili hafi í byrjun skólaárs blekkt skólayfirvöld í
Hafnarfirði til samvinnu við sig. Þannig hafi hann tilgreint í beiðni um
skólavist að lögheimili stúlkunnar yrði hjá honum og með því fengið skólastjóra
Lækjarskóla í Hafnarfirði til að innrita stúlkuna í skólann. Hafi skólavist
verið samþykkt með fyrirvara, en síðan hafnað eftir að sóknaraðili hafði rætt
við skólastjórann og gert honum grein fyrir málavöxtum. Hafi varnaraðili, þegar
fyrir lá að stúlkan fengi ekki skólavist í Hafnarfirði, átt að senda hana
norður þannig að hún gæti hafið skólaárið og síðan beðið niðurstöðu í forsjármáli
aðila. Á Z eigi stúlkan vísa skólavist og séu kennarar þar reiðubúnir til að
aðstoða hana við að vinna upp það tjón sem hún hafi orðið fyrir í skólastarfi
og þeir séu að auki best til þess fallnir vegna þekkingar á stöðu og þörfum
stúkunnar.
III.
Að því er málsatvik varðar tekur
varnaraðili fram að þegar eldri dóttir málsaðila komst á unglingsár hafi farið
að bera á ósamlyndi milli hennar og sóknaraðila sem leitt hafi til þess að hún
hafi flutt af heimili sóknaraðila áður en hún varð 16 ára gömul. Um tíma og þar
til hún flutti á heimavist framhaldsskóla hafi hún dvalið hjá vistforeldri á Z.
Síðastliðin tvö ár hafi hún verið búsett hjá varnaraðila, en hún hafi ekki
dvalið hjá sóknaraðila frá því að hún flutti frá henni á sínum tíma. Stúlkan A
hafi eins og systir hennar átt í erfiðleikum í samskiptum við sóknaraðila. Hún
hafi ennfremur borið því við að sóknaraðili hafi beitt hana harðræði og í eitt
skipti leitað til læknis í fylgd systur sinnar vegna áverka sem hún hafi hlotið
af völdum sóknaraðila. Hafi varnaraðili beint tilkynningu til
fjölskylduþjónustu [...] um vanrækslu sóknaraðila gagnvart stúlkunni, en þeirri
tilkynningu hafi ekki verið sinnt.
Af hálfu varnaraðila er því haldið
fram að A hafi í ágúst á þessu ári, eftir skamma dvöl hjá varnaraðila, neitað
að fara aftur til sóknaraðila. Hafi hún óskað eftir því að sækja skóla í
Hafnarfirði. Eftir tveggja vikna skólavist í Lækjarskóla í Hafnarfirði hafi
sóknaraðili komið í veg fyrir að stúlkan fengi að halda skólagöngu þar áfram. Í
kjölfarið hafi varnaraðili höfðað forsjármál á hendur sóknaraðila. Þá hafi hann
lagt fram beiðni um forsjá til bráðabirgða í því skyni að tryggja skólagöngu
stúlkunnar í samræmi við vilja hennar.
IV.
Við meðferð þess máls, sem rekið var
fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra í tilefni af kröfu varnaraðila um
bráðabirgðaforsjá, var aflað álitsgerðar sálfræðings. Ræddi sálfræðingurinn,
dr. Gunnar Hrafn Birgisson, við stúlkuna og átti viðtöl við málsaðila sitt í
hvoru lagi og saman. Lýsti stúlkan þeim vilja sínum að dvelja áfram hjá
varnaraðila. Samkvæmt álitsgerðinni er það hins vegar mat sálfræðingsins að það
sé stúlkunni fyrir bestu að fara aftur til sóknaraðila og halda áfram námi sínu
á Z. Sóknaraðili þekki stúlkuna, styrkleika og veikleika
hennar betur en aðrir. Varnaraðili hafi aftur á móti takmarkaða innsýn í
siðferðisbresti stúlkunnar. Er það ennfremur mat sálfræðingsins að varnaraðili
hafi unnið með stúlkunni í því að fara á bak við sóknaraðila. Beri þetta vott
um skort á skilningi á ábyrgð foreldris. Þá hafi varnaraðili ekki gert nægilega
vel grein fyrir því hvers vegna hann hafi ekki fyrr en nú haft uppi kröfu um
forsjá stúlkunnar í ljósi þeirrar staðhæfingar hans að sóknaraðili beiti hana
harðræði. Telur sálfræðingurinn að varnaraðili og stúlkan ýki sögur um andlegt og
líkamlegt ofbeldi sóknaraðila gagnvart stúlkunni og að varnaraðili horfi
framhjá því sem sóknaraðili hafi gert vel. Í álitsgerðinni kemur einnig fram
það mat að vilji stúlkunnar til að dvelja áfram hjá varnaraðila sé byggður á
því að hún vilji komast undan uppeldi sóknaraðila, sem setji henni mörk, og að
hún geti farið sínu fram hjá varnaraðila. Hafi stúlkan ekki gott af því að
komast undan foreldravaldi á þann hátt sem hún ætli sér. Reynslan sýni að
varnaraðila og eiginkonu hans muni reynast erfitt til lengdar að veita
stúlkunni það aðhald sem hún þurfi. Þrátt fyrir það álit sitt, að það sé
stúlkunni fyrir bestu að fara til sóknaraðila, telur sálfræðingurinn vafasamt
að senda hana þangað með valdi gegn vilja hennar haldi hún óbreyttri afstöðu.
Á grundvelli
framangreindrar álitsgerðar og þess að engin sönnun hefði komið fram fyrir því
að sóknaraðili beitti stúlkuna líkamlegu eða andlegu ofbeldi var kröfu
varnaraðila um bráðabirgðaforsjá hafnað. Var þar um einnig haft í huga að
stúlkan hefur nánast alla sína tíð gengið í skóla á Z og fyrir liggi vottorð
skóla um góðan árangur af stuðningi við hana. Verði og að ætla að líkur séu til
þess að henni muni sækjast betur námið í sínum gamla skóla þar sem náms- og
félagslegar þarfir hennar séu vel þekktar og unnið með þær. Með dómi
Hæstaréttar í málinu 17. nóvember 2004 var niðurstaða héraðsdóms staðfest með
vísan til þessara forsendna hans og að eftirfarandi athuguðu: „Fyrir Hæstarétti
heldur [M] því fram að í áliti sálfræðingsins sé talið vafasamt að senda stúlkuna
til [K] gegn vilja hennar. [K] bendir hins vegar á að það sé talið vafasamt að
hún verði send norður til hennar með valdi gegn vilja sínum, haldi hún
óbreyttri afstöðu. Þess sé að vænta að hún verði fengin með góðu til að fara
til varnaraðila þegar barnaverndaryfirvöld kynni henni stöðu mála, verði
úrskurður héraðsdóms staðfestur. Kæmi til aðfararmáls yrði afstaða hennar til
flutnings könnuð fyrir héraðsdómi við fyrirtöku þess samkvæmt 45. gr., sbr. 43.
gr. barnalaga.“
Á dómþingi
í málinu 26. f.m. og í samræmi við 45. gr. barnalaga fól dómurinn Þorgeiri
Magnússyni sálfræðingi að ræða við A og kanna afstöðu hennar til þeirrar kröfu
sóknaraðila sem hér er til úrlausnar. Átti sálfræðingurinn samtal við stúlkuna
þennan sama dag. Í skýrslu sem hann ritaði af þessu tilefni og lögð hefur verið
fram í málinu segir meðal annars svo:
„A er nýorðin 15 ára gömul. Vöxtur og útlit samsvarar
aldri. Klæðnaður og fas er laust við
öfga eða sérkenni, þetta er myndarleg og fremur lífleg stúlka í viðkynningu. A
kemur þannig eðlilega fyrir, er fljót að mynda fyrstu tengsl og reynist eiga
auðvelt með að tjá sig um hagi sína. Ekki verður vart við miklar
tilfinningasveiflur í samtalinu eða jafnvægisleysi en stúlkan er einörð í
málflutningi sínum þannig að ákveðinna öfga verður vart. Málflutningurinn er
þannig einhæfur, allur á aðra hliðina. Hún reynir eftir mætti að rökstyðja þá
afstöðu sína að vilja dvelja áfram hjá föður sínum á meðan á málarekstri
stendur, lýsir í því sambandi annars vegar miklum göllum í fari móður sinnar og
samskiptum þeirra tveggja í gegn um tíðina, og hins vegar góðu og batnandi
sambandi sínu við föður sinn, konu hans og systur sína hér syðra og vel
heppnaðri aðlögun sinni að öllum aðstæðum hér. Hún vill hefja skólanámið hið
fyrsta í Hafnarfirði, segist læra heima núna og fá við það utanaðkomandi
aðstoð. Hún telur fullreynt að samskipti þeirra mæðgna gangi ekki upp, ekki
einu sinni um skemmri tíma. Hún finnur
ekki að hún eigi sjálf stóran þátt í ósamlyndi þeirra mæðgna, telur að
skapbrestir móður skipti hér mestu. Hún
sér fátt jákvætt við vistina nyrðra, er þó tilbúin að heimsækja fólkið sitt þar
reglulega í framtíðinni og segist sakna bróður síns. Hún á erfitt með að sjá
neikvæðar hliðar á föður sínum eða þeirri ráðstöfun að hún búi hjá honum til
frambúðar.“
Þessu
næst er í skýrslunni gerð ítarlegri grein fyrir því sem fram kom hjá stúlkunni
um samskipti hennar við sóknaraðila annars vegar og varnaraðila hins vegar og
fjölskyldur þeirra. Er ekki þörf að rekja þennan kafla skýrslunnar sérstaklega.
Í lokakafla hennar, sem ber yfirskriftina samantekt og
mat, segir síðan svo:
„Um er að
ræða 15 ára gamla telpu, A, sem rætt var við til að ganga úr skugga um afstöðu
hennar til þess að flytja aðsetur frá föður sínum í Hafnarfirði til móður
sinnar á Z á meðan verið er að útkljá deilu foreldranna um forsjá yfir henni
fyrir dómstólum. Ekki kemur annað fram en að A sé eðlilega þroskaður unglingur
og í samtalinu er hún í góðu andlegu jafnvægi.
Telpan
hafnar því alfarið að flytja til móður sinnar þótt um skemmri tíma væri, telur
slíkt fullreynt. Ástæður þeirrar ákvörðunar segir hún vera ófullnægjandi
tilfinningatengsl þeirra mæðgna, samskiptaörðugleika og ofríki sem hún lýsir
nánar og rekur allt til erfiðra skapsmuna móður sinnar. Hún lýsir þessu sem
langvarandi vanda sem hún hafi reynt að taka á og sætta sig við án árangurs.
Hugmyndin að flytja til föðurins virðist ekki vera ný af nálinni eða
stundarhugdetta heldur undirbúin frá því í vor og sem slík önnur tilraunin sem
hún gerir í þessa veru á tveimur árum. Hún telur sambúð sína við föðurinn og
hans fólk ganga vel, finnst hún mæta skilningi og hlýju og fellir sig við agann
á heimilinu.
Matsmanni
virðist afstaða telpunnar vera alveg eindregin. Eins og títt er hjá börnum sem
afstöðu taka í málum sem þessu, skerpir hún mjög andstæðurnar milli foreldranna
í viðleitninni að tína til rök og réttlæta ákvörðun sína. Henni er hins vegar
greinilega misboðið vegna framkomu móðurinnar og lýsir tengslum þeirra sem óþægilegum og ófullnægjandi. Sjálf er hún
sannfærð um að hún sé að gera rétt og skynjar stuðning við ákvörðun sína frá
föður sínum og systur sem hún telur að hafi bæði gengið í gegnum svipað ferli
sjálf.“
Þorgeir
Magnússon kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og staðfesti þessa skýrslu
sína. Aðspurður kvað hann það álit sitt að stúlkan væri undir áhrifum frá öllum
þeim sem koma að ákvörðun um samastað hennar. Styrki varnaraðili hana eflaust í
þeirri afstöðu hennar að halda því til streitu að dvelja áfram hjá honum.
Aðspurður um það hvort stúlkan væri trúverðug í frásögn sinni svaraði Þorgeir
því til að hún viði að líkindum að sér rökum og réttlæti sína afstöðu með
nokkuð ýktri frásögn án þess þó að í því felist að verið sé að spinna upp
ósannindi frá rótum. Þá kom fram hjá honum að í eðli sínu séu það ekki góð
skilaboð til barna að þau fái að stýra því algjörlega hvaða kröfur séu gerðar
til þeirra í uppeldislegu tilliti. Á hinn bóginn sé til þess að líta að það
geti líka verið ábyrgðarhluti að taka öll ráð af barni um persónulegustu hagi
þess og þá ekki hvað síst þegar um er að ræða stálpað barn og á þeim aldri sem
um ræðir í málinu. Sé vilji barns byggður á skynsamlegum rökum og ekki algjör
tilbúningur sé hætt við að með því að líta framhjá vilja þess sé verið að
ofbjóða sjálfstæði þess og réttilætiskennd og öðrum mikilvægum þáttum sem barn
á þessum aldri eigi rétt á að litið sé til. Sé vilji barns hins vegar í
andstöðu við brýna hagsmuni þess, hagsmuni sem sjáanlegt er að hafa
úrslitaáhrif um framtíð barns, sé litlum vafa undirorpið að taka verði völdin
af barninu.
V.
Helsta
málsástæða sóknaraðila er sú að hagsmunir stúlkunnar krefjist þess að hún verði
tekin úr umsjá varnaraðila og flutt í umsjá sóknaraðila og lögmætu ástandi
þannig komið á.
Réttur
sóknaraðila sé ótvíræður. Hún hafi forsjá stúlkunnar ein á hendi og sé henni
rétt og skylt samkvæmt 4. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 að krefjast þess
að lögmætu ástandi verði komið á og stúlkunni komið í hennar umsjá. Hafi
Hæstiréttur Íslands með dómi sínum 17. nóvember sl. hafnað kröfu varnaraðila um
forsjá stúlkunnar til bráðabirgða, en varnaraðili kosið að vanvirða ákvarðanir
réttarins. Ekkert hafi breyst frá því dómurinn var uppkveðinn og hafi
Hæstiréttur lagt mat á hvernig hagsmunum stúlkunnar sé best borgið. Mál þetta
snúist um að framkvæma dóm Hæstaréttar og ekkert í gögnum málsins bendi til
þess að framkvæmd dómsins sé andstæð hagsmunum barnsins.
Við
úrlausn málsins beri dóminum að leggja til grundvallar hagsmuni barnsins og sé
dómurinn bundinn af áliti Hæstaréttar þar um. Skýrsla Þorgeirs Magnússonar
sálfræðings breyti engu þar um. Ekkert komi þar fram sem gefi til kynna að
flutningur stúlkunnar norður á Z sé andstæður hagsmunum hennar og ekkert sem
gefi til kynna að slíkt yrði henni skaðlegt. Ekkert slíkt komi heldur fram í
álitsgerð Dr. Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings. Í skýrslu hans komi fram
það mat hans að vilji stúlkunnar til að dvelja áfram hjá varnaraðila sé byggður
á því að hún vilji komast undan uppeldi sóknaraðila, sem setji henni mörk, og
hún geti farið sínu fram hjá varnaraðila. Telji hann stúlkuna ekki hafa gott af
því að komast frá foreldravaldi á þann hátt sem hún ætli sér og vísar til
reynslunnar í því sambandi. Kemur þar fram að á meðan á dvöl stúlkunnar hjá
varnaraðila stóð haustið 2002 hafi það verið mat varnaraðila að illa gengi með
búsetu stúlkunnar hjá honum. Hún hafi skrópað í skóla, ekki staðið við loforð,
sagt ósatt og gert allt til að vera á móti honum og sambýliskonu hans. Hafi
varnaraðila verið orðið ljóst að hann réði ekkert við stúlkuna. Því verði hún
nú að snúa til sóknaraðila með aðstoð yfirvalda. Komi fram í álitsgerð Gunnars
Hrafns það mat hans að varnaraðila og konu hans muni reynast erfitt til lengdar
að veita stúlkunni það aðhald sem henni sé nauðsynlegt. Þar komi einnig fram að
mikill munur sé á hæfileikum aðila til að svara þörfum stúlkunnar og mikill
munur á innsýn þeirra í sértæk vandamál barnsins, sóknaraðila í hag. Á þessum
gögnum hafi dómstólar byggt þá niðurstöðu sína að forsjá varnaraðila til
bráðabirgða væri andstæð hagsmunum barnsins. Skýrsla Þorgeirs Magnússonar sálfræðings
breyti þar engu um.
Kröfu
sína byggir sóknaraðili svo sem fram er komið á 45. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Ákvæðið vísi til aðfararlaga um meðferð máls, en þó skuli gæta ákvæðis 43. gr.
barnalaga, þar sem fjallað sé um rétt barns til að tjá sig um mál. Segi í
greinargerð með frumvarpinu að gæta þurfi að því að meta vandlega í hverju máli
fyrir sig hvað barni er fyrir bestu og sú staða geti hæglega komið upp að vilji
barns komi skýrlega í ljós en það sé í andstöðu við hagsmuni þess að fara eftir
þeim vilja. Nefna megi dæmi um að barn skýri frá því í forsjármáli, með
ótvíræðum hætti, að það vilji búa hjá öðru foreldra en jafnframt sé ljóst að sú
afstaða sé byggð á því að sá aðili sé eftirgefanlegri í samskiptum þeirra en
hitt foreldrið. Niðurstaða máls varðandi forsjá barns verði ekki einvörðungu
byggð á afstöðu barns heldur verði að taka ákvörðun á grundvelli þess sem
dómari metur að sé því fyrir bestu, eftir að heildstætt mat hafi verið lagt á
alla þá þætti sem máli kunna að skipta fyrir hagsmuni þess. Dæmið sem tekið sé
í greinargerð með frumvarpi til barnalaga sé nákvæmlega sambærilegt atvikum í
því máli sem hér sé til úrlausnar. Því sé dómara rétt að líta fram hjá vilja
stúlkunnar en láta niðurstöðu ráðast af heildstæðu mati á hagsmunum hennar.
Í fylgiskjali
II með frumvarpi til barnalaga nr. 76/2003, sem geymi álit starfshóps þriggja
reyndra sálfræðinga, sé það nefnt að þegar barn lýsir vilja sínum í forsjármáli
sé nauðsynlegt að vita á hverju hann byggist, óháð aldri barnsins. Séu talin
upp nokkur atriði sem nauðsynlegt sé að kanna, meðal annars reynsla af fyrri
dvöl hjá foreldri.
Enda
þótt hér sé um aðfararmál að ræða sé dómari engu að síður bundinn af því að
láta niðurstöðu sína velta á hagsmunum barnsins, að öðrum skilyrðum fullnægðum.
Er í því sambandi vísað meðal annars til 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um
réttindi barnsins sem og dómaframkvæmdar. Hvort mögulegt verði að framfylgja
úrskurðinum vegna neikvæðrar afstöðu telpunnar sé ekki viðfangsefni dómsins,
heldur eingöngu að kveða á um rétt sóknaraðila til að fá umráð barnsins með
atbeina sýslumanns og félagsmálayfirvalda. Verði leitað aðstoðar hjá
félagsmála-yfirvöldum sem hafi verið sett inn í málið og lýst sig reiðubúin til
aðstoðar við framkvæmd úrskurðarins.
VI.
Í greinargerð varnaraðila er vísað til
álitsgerðar Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings, sem gerð er grein fyrir í
kafla II hér að framan. Í álitsgerðinni komi skýrt fram að það sé vafasamt að
senda stúlkuna til sóknaraðila gegn vilja hennar. Sóknaraðili hafi haldið því
fram í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti að vafasamt væri að stúlkan yrði send
til sóknaraðila gegn vilja sínum, héldi hún óbreyttri afstöðu. Kæmi til
aðfararmáls yrði afstaða stúlkunnar til flutnings könnuð fyrir héraðsdómi við
fyrirtöku þess samkvæmt 45. gr., sbr. 43. gr. barnalaga. Sé í dómi Hæstaréttar
sérstaklega vísað til þessa til stuðnings niðurstöðu réttarins.
Fyrir liggi skýrsla Þorgeirs
Magnússonar sálfræðings, sem aflað hafi verið á grundvelli 45. gr., sbr. 43.
gr. barnalaga. Í álitsgerðinni komi fram að vilji stúlkunnar sé óbreyttur og
hún hafni því alfarið að flytja til sóknaraðila jafnvel til skemmri tíma.
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að
það sé andstætt hagsmunum stúlkunnar að hún verði með þeirri valdbeitingu, sem
í innsetningargerð felst, fengin til að flytja til sóknaraðila. Að mati
varnaraðila fælist í því brot á sjálfsákvörðunarrétti stúlkunnar, sbr. 6. mgr.
28. gr. barnalaga. Stúlkan sé á sextánda aldursári og verði sjálfráða eftir tvö
ár. Það sé viðurkennt sjónarmið í barnarétti að eftir því sem barn verður eldra
hafi það ríkari rétt til að ráða persónulegum högum sínum.
Valdbeiting með aðfarargerð sé að mati
varnaraðila viðbót við þá valdbeitingu sem sóknaraðili hafi nú þegar haft í
frammi gagnvart stúlkunni með því að meina henni skólagöngu í nágrenni við
varnaraðila, en stúlkan hafi ítrekað og staðfastlega neitað að fara aftur til
sóknaraðila á Z þar sem hún er skráð í skóla. Er þess krafist með hliðsjón af
eindreginni afstöðu stúlkunnar að dómari geri barnaverndarnefnd viðvart um aðstæður
stúlkunnar þannig að hægt sé á grundvelli ákvæða barnaverndarlaga að beita
viðeigandi úrræðum til stuðnings henni, sbr. 4. mgr. 43. gr. barnalaga. Verði
að telja að brýnustu hagsmunir stúlkunnar nú séu þeir að hún fái að setjast á
skólabekk og halda áfram námi eins og skólaskylda kveður á um.
VII.
Í 1.
mgr. 45. gr. barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um það að neiti sá sem barn
dvelst hjá að afhenda það réttum forsjármanni geti héraðsdómari, að kröfu hans,
ákveðið að forsjánni verði komið á með aðfarargerð.
Svo sem
fram er komið hefur forsjá þeirrar dóttur málsaðila, sem aðfararbeiðni tekur
til, verið í höndum sóknaraðila allt frá því í mars 1992. Þrátt fyrir þessa
skipan og í óþökk sóknaraðila hefur stúlkan dvalið hjá varnaraðila frá því í
ágúst á þessu ári og neitað að fara aftur til sóknaraðila. Samkvæmt 4. mgr. 28.
gr. barnalaga felur forsjá barns í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að
ráða persónulegum högum barns og ráða búsetustað þess. Er með þessu fullnægt
almennum skilyrðum þess að sóknaraðila verði heimilað að fá dóttur málsaðila
tekna úr umráðum varnaraðila og fengna sér með beinni aðfarargerð. Til þess er
hins vegar að líta að samkvæmt 1. mgr. 45. gr. barnalaga skal í aðfararmáli
gæta ákvæða 43. gr. laganna. Í því ákvæði, sem tilheyrir þeim kafla laganna er
varðar dómsmál vegna ágreinings um forsjá barns, er í 1. mgr. mælt fyrir um það
að veita skuli barni, sem náð hefur nægilegum þroska, kost á að tjá sig um mál
nema telja megi að slíkt geti haft skaðleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust
fyrir úrslit málsins. Er þetta í samræmi við sjónarmið sem lýst er í 6. mgr.
28. gr. barnalaga, en samkvæmt því ber foreldrum að hafa samráð við barn sitt
áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins
gefur tilefni til. Er þar að auki tiltekið að afstaða barns skuli fá aukið vægi
eftir því sem barnið eldist og þroskast. Af þessu og athugasemdum sem fylgdu
frumvarpi því er varð að lögum nr. 76/2003 verður dregin sú ályktun að þegar
leyst er úr aðfararmáli samkvæmt 45. gr. laganna geti niðurstaða málsins að
ákveðnum skilyrðum uppfylltum ráðist af afstöðu barns til þess og enda þótt
hagsmunum barnsins samkvæmt heildarmati á þeim kunni að vera betur borgið með
því að hunsa vilja þess.
Samkvæmt
skýrslu sálfræðings, sem aflað var í samræmi við 43. gr. barnalaga, er afstaða
dóttur málsaðila til dómkröfu sóknaraðila mjög eindregin. Vill hún dvelja áfram
hjá varnaraðila og aftekur með öllu að fara til sóknaraðila. Engin efni eru til
að líta svo á að sú afstaða sem stúlkan hefur samkvæmt þessu lýst sé ekki í
samræmi við raunverulegan vilja hennar. Þá verður ekki heldur á því byggt að sá
vilji hennar að dvelja áfram hjá varnaraðila hafi í of ríkum mæli mótast af
atriðum sem horfa verður framhjá við úrlausn máls af þessu tagi. Þetta eitt
getur þó ekki staðið því í vegi að krafa sóknaraðila um heimild til
aðfarargerðar geti náð fram að ganga. Þannig gæti sú aðstaða að vera fyrir
hendi, hvað sem framangreindu líður, að vilji stúlkunnar fari í bága við brýna
hagsmuni hennar og sé þar af leiðandi að engu hafandi. Hvað þetta varðar er það
hins vegar mat dómsins að engin slík aðstaða sé hér fyrir hendi. Er í því
sambandi sérstaklega til þess að líta að ganga verður út frá því, þrátt fyrir
óbreytta skipan forsjár, að stúlkan geti, eftir atvikum með íhlutun
barnaverndaryfirvalda, hafið skólagöngu í Hafnarfirði, verði staðfest með
dómsúrlausn að hún skuli dvelja hjá varnaraðila.
Að
framangreindu virtu og þegar sérstaklega er litið til aldurs stúlkunnar,
skýrslu Þorgeirs Magnússonar sálfræðings og vitnisburðar hans fyrir dómi, og að
auki höfð hliðsjón af fyrirliggjandi álitsgerð Gunnars Hrafns Birgissonar
sálfræðings, þykir varhugavert að taka að svo stöddu til greina framkomna kröfu
sóknaraðila um aðfarargerð. Henni verður því hafnað.
Rétt
þykir að málskostnaður falli niður.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari
kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o
r ð :
Kröfu sóknaraðila, K, um að henni verði heimilað að fá dóttur málsaðila, A, fædda 15. nóvember 1989, tekna úr umráðum varnaraðila, M, og fengna sér með beinni aðfarargerð, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.