Hæstiréttur íslands
Mál nr. 293/2014
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Nákomnir
|
|
Fimmtudaginn 4. desember 2014. |
|
Nr. 293/2014.
|
Þrotabú IceCapital ehf. (Haukur Örn Birgisson hrl.) gegn Símoni Sigurði Sigurpálssyni og Miðbúðinni fjárfestingarfélagi ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Nákomnir.
Þrotabú I ehf. krafðist riftunar á ætluðum gjöfum I ehf. til annars vegar S og hins vegar M ehf. og endurgreiðslu sömu fjárhæðar. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að ekki hefðu verið slík hagsmunatengsl milli I, S og M ehf. að þeir væru nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá var jafnframt talið að skilyrðum 131. gr. og 141. gr. sömu laga væri ekki fullnægt. Voru S og M ehf. sýknaðir af kröfum þrotabús I ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2014. Hann krefst þess aðallega að rift verði gjöf IceCapital ehf. til stefnda Símonar að fjárhæð 200.106.281 króna og að honum verði gert að greiða sér sömu fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2008 til greiðsludags. Til vara gerir áfrýjandi sömu kröfu á hendur stefnda Miðbúðinni fjárfestingarfélagi ehf. Jafnframt krefst áfrýjandi þess að rift verði greiðslu IceCapital ehf. til stefnda Miðbúðarinnar fjárfestingarfélags ehf. að fjárhæð 421.116.255 krónur og að stefnda verði gert að greiða sér sömu fjárhæð ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2011 frá 10. október 2008 til greiðsludags, allt að frádregnum 12.265.790 krónum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fallist er á það með héraðsdómi að ekki hafi verið slík hagsmunatengsl milli stefndu og IceCapital ehf., sem hét Sund ehf. á þeim tíma sem atvik málsins tóku til, að stefndu hafi verið nákomnir félaginu í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., eins og ákvæðið hljóðaði fyrir setningu laga nr. 95/2010. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, þrotabú IceCapital ehf., greiði stefndu, Símoni Sigurði Sigurpálssyni og Miðbúðinni fjárfestingarfélagi ehf., hvoru fyrir sig 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2014.
I.
Mál þetta, sem var dómtekið 17. janúar sl., er höfðað 28. desember 2012, af þrotabúi IceCapital ehf., Smáratorgi 3 í Kópavogi, gegn Símoni Sigurði Sigurpálssyni, Þingási 3 í Reykjavík, og Miðbúðinni fjárfestingarfélagi ehf., til húsa á sama stað.
Í málinu gerir stefnandi í fyrsta lagi eftirfarandi kröfur aðallega á hendur stefnda Símoni en til vara á hendur stefnda Miðbúðinni:
1. Aðallega að rift verði með dómi gjöf stefnanda (áður Sund ehf.) til stefnda Símonar að fjárhæð 200.106.281 króna og að stefndi Símon verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 200.106.281 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2008 til greiðsludags. Þá gerir stefnandi í þessum lið kröfu um málskostnað úr hendi stefnda Símonar.
2. Til vara að rift verði með dómi gjöf stefnanda (áður Sund ehf.) til stefnda Miðbúðarinnar að fjárhæð 200.106.281 króna og að stefndi Miðbúðin verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 200.106.281 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2008 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda Miðbúðarinnar.
Í öðru lagi gerir stefnandi eftirfarandi kröfu á hendur stefnda Miðbúðinni:
Að rift verði með dómi gjöfum stefnanda (áður Sund ehf.) til stefnda Miðbúðarinnar að fjárhæð 421.116.255 krónur og að stefndi Miðbúðin verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 421.116.255 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2008 til greiðsludags, allt að frádregnum 12.265.790 krónum. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda Miðbúðarinnar í þessum lið.
Stefndu gera sameiginlega þá kröfu að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað, hvort heldur aðal- eða varakrafa verði tekin til greina.
Í öndverðu kröfðust stefndu þess að málinu yrði vísað frá dómi. Málflutningur fór fram um frávísunarkröfuna 10. október sl., en með úrskurði 31. sama mánaðar var henni hafnað.
II.
Bú IceCapital ehf., sem áður bar heitið Sund ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2012. Frestdagur við skiptin er 26. janúar 2012. Innköllun mun hafa verið birt í Lögbirtingablaði 23. og 30. mars 2012. Kröfuskrá, þar sem fram kemur að lýstar kröfur nemi rúmlega 51 milljarði króna, var lögð fram á skiptafundi 31. maí 2012. Á fundinum lýsti skiptastjóri því að hann hefði fengið bókhald félagsins síðustu fjögurra ára í tölvutæku formi og myndi skoða hvort efni væri til að láta rannsaka það. Þá yrði skoðað hvort ástæða væri til að höfða riftunar- eða innheimtumál til að reyna að endurheimta fé í búið.
Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu mun stefnandi hafa átt hluti í íslensku viðskiptabönkunum. Þegar þeir hafi fallið í október 2008 hafi félagið orðið að mestu eignalaust en setið eftir með háar skuldir.
Mál þetta lýtur að ráðstöfun samkvæmt kaupsamningi, sem dagsettur er 18. ágúst 2008, milli stefnda, Miðbúðarinnar Fjárfestingafélags ehf., sem seljanda og Sunds ehf., síðar IceCapital ehf., sem kaupanda. Stefndi Símon undirritaði samninginn fyrir hönd stefnda, en hann mun vera eigandi stefnda Miðbúðarinnar og er eini stjórnarmaður þess og framkvæmdastjóri. Kaupsamningurinn laut að kaupum hins gjaldþrota félags á 135.059.444 hlutum í BYR sparisjóði á samtals 608.956.746 krónur. Samið var um að kaupverðið yrði greitt með eftirfarandi hætti:
„A) Skuldajöfnun á skuld seljanda við kaupanda samtals kr. 200.106.281,-
B) Yfirtöku á láni seljanda frá BYR sparisjóði samtals staða 18.08.2008 kr. 233.232.676,-
C) Yfirtöku á láni seljanda frá Landsbanka samtals staða 18.08.2008 kr. 187.883.579,-
D) Með móttöku kaupanda á greiðslu frá seljanda samtals kr. 630.730,- í reiðufé.
E) Með móttöku kaupanda á endurgreiddum fjármagnstekjuskatti til seljanda sem dreginn var frá við arðgreiðslu frá BYR vegna hlutanna, samtals kr. 11.635.060,-. Greiðsla þessi leggist inn á reikning kaupanda eigi síðar en 3 dögum eftir að hún berst.“
Í kaupsamningnum kemur fram að kaupandi muni tilkynna um kaupin til stjórnar BYRS sparisjóðs. Þá segir þar að samningurinn „jafngildir framsali seljanda á hlutunum til kaupanna og teljast hinir seldu hlutir afhentir kaupanda við yfirtöku á lánasamningi við BYR sparisjóð og Landsbanka Íslands“. Átti kaupandi að taka við öllum réttindum og skyldum sem fylgdu hinum seldu hlutum frá og með greiðsludegi, eins og segir í samningnum.
Stefnandi hefur lagt fram gögn úr rafrænu bókhaldi hins gjaldþrota félags sem sýnir hvernig þessi viðskipti voru þar færð til bókar. Samkvæmt þessum gögnum voru kaupin á bréfunum að fjárhæð 608.956.599 krónur færð til hækkunar miðað við 18. ágúst 2008 á bókhaldslykil 7708 sem sýnir færslur óskráðra hlutabréfa. Þá sýna gögnin hækkun skulda félagsins sama dag vegna yfirtöku þess á láni hjá BYR að fjárhæð 233.232.676 krónur og hjá Landsbankanum að fjárhæð 187.883.579 krónur. Samkvæmt bókhaldinu var krafa á hendur stefnda Símoni á viðskiptamannareikningi hans hjá hinu gjaldþrota fyrirtæki á sama tíma lækkuð um 200.106.281 krónu. Áður en til lækkunarinnar kom nam skuld stefnda Símonar við félagið samkvæmt viðskiptamannareikningi hans 227.913.871 krónu. Munaði þar mestu um færslu, sem dagsett er 30. nóvember 2007 með eindaga 3. desember sama ár, sem virðist bera með sér að félagið hafi lánað stefnda Símoni 190 milljónir króna. Nánar tiltekið segir í útskýringum á færslunni: „Lán Símon Sigurpálsson.“
Samhliða framangreindum kaupsamningi milli stefnda Miðbúðarinnar og hins gjaldþrota félags keypti stefndi Símon af stefnda Miðbúðinni stofnfjárbréf í BYR sparisjóði að nafnvirði 5.461.962 krónur samkvæmt kaupsamningi, dags. 18. ágúst 2008. Kaupverðið var ákveðið 27.878.809 krónur og átti það að greiðast í fyrsta lagi með skuldajöfnun á skuld seljanda, stefnda Miðbúðarinnar, við kaupanda, stefnda Símon, að fjárhæð 20.369.999 krónur, í öðru lagi með yfirtöku á láni stefnda Miðbúðarinnar frá Landsbanka Íslands samkvæmt stöðu þess 18. ágúst 2008 sem nam 7.604.486 krónum, í þriðja lagi með greiðslu á 375.247 krónum í reiðufé frá kaupanda til seljanda og í fjórða lagi með móttöku kaupanda á endurgreiddum fjármagnstekjuskatti til seljanda að fjárhæð 470.923 krónur.
Í málinu hefur verið lagður fram lánssamningur, dags. 30. júlí 2007, milli Ellerts Vigfússonar og BYRS sparisjóðs, að fjárhæð 244.448.00 krónur. Samningur þessi virðist í fyrstu hafa fengið númerið 101RLRE072140001 en að því hafi síðar verið breytt í 175RLRR081120001. Gögn málsins bera með sér að stefndi Miðbúðin hafi með samþykki lánardrottins yfirtekið skuldbindinguna með yfirlýsingu um skuldskeytingu 7. febrúar 2008. Láninu var skuldbreytt með skilmálabreytingu, dags. 18. apríl 2008, þar sem kveðið var á um að höfuðstóll lánsins, miðað við 7. febrúar 2008 að viðbættum áföllnum vöxtum, næmi 266.168.733 krónum og að endurgreiða bæri lánið 7. febrúar 2009. Í málinu liggur fyrir samningur, dags. 18. ágúst 2008, með yfirskriftinni „Skuldskeyting lánssamnings nr. 175RLRE081120001“. Þar yfirtekur hið gjaldþrota félag skuldbindingu samkvæmt lánssamningnum með samþykki Byrs sparisjóðs. Í skuldskeytingunni kemur fram að lán þetta sé „að eftirstöðvum miðað við 10.10.2008 ISK 238.682.940“. Á forsíðu umrædds lánssamnings hefur verið skráð undir stimpli BYRS sparisjóðs: „nýr greiðandi 10.10.2008 / Sund ehf. kt. 580483-0549“. Jafnframt liggja fyrir í málinu tveir veðsamningar, annar dagsettur 18. ágúst 2008 og hinn 7. nóvember 2008, þar sem hið gjaldþrota félag setur annars vegar 70.159.417 og hins vegar 36.735.928 nafnverðseiningar af stofnfjárhlutum í BYR sparisjóði að veði til tryggingar á efndum ofangreinds lánssamnings.
Í stefnu kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi ákveðið 22. apríl 2010 að taka yfir vald stofnfjáreigenda BYRS sparisjóðs og víkja stjórninni frá. Bráðabirgðastjórn hafi verið skipuð og ýmsar ákvarðanir teknar, meðal annars um að ráðstafa öllum eignum sparisjóðsins til Byrs hf. Sparisjóðurinn var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2010 tekinn til slitameðferðar. Kveður stefnandi óumdeilt að eftir þetta hafi stofnfjárbréf í Byr sparisjóði verið verðlaus.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að stefndu hafi verið nákomnir hinu gjaldþrota félagi í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi Símon hafi verið viðskiptafélagi fyrirsvarsmanna stefnanda um langt árabil og vinur framkvæmdastjóra stefnanda, Páls Þórs Magnússonar. Stefndi Símon sé eigandi alls hlutafjár í stefnda, Miðbúðinni fjárfestingarfélagi ehf. Sem dæmi um þau nánu tengsl sem hafi verið milli beggja stefndu og stefnanda nefnir stefnandi að hið gjaldþrota félag hafi verið einn af stærstu hluthöfum í VBS fjárfestingarbanka hf. sem nú sé í slitameðferð. Stefndi Miðbúðin hafi einnig átt stóran hlut í bankanum en hafi selt hlut sinn á síðari hluta ársins 2008. Framkvæmdastjóri stefnanda, Páll Þór Magnússon, hafi verið formaður stjórnar VBS fjárfestingarbanka hf. Stjórnarformaður stefnanda Jón Kristjánsson hafi verið í varastjórn VBS fjárfestingarbanka hf. ásamt m.a. stefnda Símoni f.h. stefnda Miðbúðarinnar fjárfestingarfélags ehf. Stefnandi tekur fram að taka megi fleiri dæmi um tengsl stefndu við stefnanda.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að hið gjaldþrota félag hafi verið ógjaldfært í skilningi laga nr. 21/1991 frá septembermánuði 2008. Því hafi það verið ógjaldfært þegar stefnandi telur að hinar riftanlegu ráðstafanir hafi átt sér stað 10. október 2008. Á þeim tíma hafi stefnandi verið nær eignalaust félag, en skuldir félagsins hafi numið mörgum milljörðum króna. Þessu til stuðnings bendir stefnanda t.d. á að samkvæmt ársreikningum stefnanda 2008 og 2009 hafi eigið fé stefnanda verið neikvætt um 17,5 milljarða króna í lok árs 2008 og um rúma 24,6 milljarða króna í árslok 2009. Í ársreikningi félagsins 2008 segi m.a. að tap ársins 2008 nemi rúmlega 32,2 milljörðum króna og að eigið fé félagsins sé neikvætt í árslok um 17.579.000 milljónir króna. Þessi atriði hafi valdið því að vafi hafi leikið á um rekstrarhæfi félagsins.
Þessu til frekari stuðnings vísar stefnandi til þess að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 komi fram að á tímabilinu frá 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hafi skuldir félagsins og tengdra félaga hækkað um 44,7 milljarða króna. Í evrum talið hafi skuldbindingar félaganna hækkað um 236,5 milljónir evra eða 117%. Á sama tímabili hafi nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda numið 43,3 milljörðum króna.
Stefnandi byggir enn fremur á því að fyrirsvarsmönnum stefnanda hafi augljóslega verið ljóst að félagið væri ógjaldfært þegar hinar riftanlegu ráðstafanir hafi átt sér stað. Í raun hafi stjórnarformaður stefnanda viðurkennt þetta í skýrslutöku hjá skiptastjóra þegar hann lýsti því hvernig eignahlið stefnanda hefði þurrkast út við hrun viðskiptabankanna haustið 2008 og aðeins skuldir hafi staðið eftir. Undir þessum kringumstæðum hafi hinar riftanlegu ráðstafanir verið framkvæmdar. Telur stefnandi fullljóst að hið gjaldþrota félag hefði aldrei keypt verðlaus stofnfjárbréf í Byr sparisjóði í miðju bankahruni nokkrum dögum eftir þjóðnýtingu Glitnis, setningu neyðarlaganna og yfirtöku FME á Landsbanka Íslands og Kaupþingi banka.
Stefnandi byggir í þessu sambandi á því að öll skjöl er tengjast kaupum félagsins á stofnfjárbréfum í eigu stefnda Miðbúðarinnar séu dagsett aftur í tímann. Í fyrsta lagi sé um að ræða kaupsamning milli stefnanda og stefnda Miðbúðarinnar, í öðru lagi samning um skuldskeytingu milli Byrs sparisjóðs og stefnanda og í þriðja lagi veðsamninga milli Byrs sparisjóðs og stefnanda. Öll framangreind skjöl beri með sér að hafa verið undirrituð 18. ágúst 2008. Stefnandi byggir á því að skjölin séu dagsett aftur í tímann og samningarnir hafi í raun verið undirritaðir hinn 10. október 2008.
Stefnandi telur að kaupsamningurinn, sem dagsettur sé 18. ágúst 2008, sé málamyndagerningur og hafi eingöngu verið gerður í því skyni að losa stefnda Miðbúðina við verðlaus stofnfjárbréf sín í Byr sparisjóði eftir bankahrunið 2008 og stefnda Símon undan skuld sinni við stefnanda. Til stuðnings fullyrðingum sínum um að kaupsamningurinn hafi verið gerður 10. október en ekki 18. ágúst 2008 vísar stefnandi í fyrsta lagi til þess að dagbókarfærsla í bókhaldi félagsins vegna viðskiptanna hafi verið stofnuð og bókuð sama daginn eða 10. október 2008. Í öðru lagi sýni samningur Byrs sparisjóðs og stefnanda um skuldskeytingu einnig fram á að kaupsamningurinn hafi verið dagsettur aftur í tímann, enda komi fram í samningnum að miða skuli eftirstöðvar lánsins við 10. október 2008. Þá vísar stefnandi til tölvuskeytis frá starfsmanni Byrs sparisjóðs þar sem fjallað hafi verið um skuldskeytingu lánsins og nafnabreytingu á stofnfjárbréfunum. Þar komi m.a. fram að frestur til að ganga frá málinu væri til 10. október 2008 og að mikið lægi á að málið yrði klárað.
Stefnandi heldur því einnig fram að skuldskeytingarsamningur Byrs sparisjóðs og hins gjaldþrota félags sé augljóslega einnig dagsettur aftur í tímann, enda sé staða lánsins þar miðuð við 10. október 2008 eða tæpum tveimur mánuðum eftir að kaupsamningurinn og skuldskeytingarsamningurinn hafi átt að hafa verið undirritaðir. Þá megi ráða af veðsamningum, sem eigi að hafa verið undirritaðir 18. ágúst 2008, milli Byrs sparisjóðs og hins gjaldþrota félags vegna viðskiptanna, að sparisjóðsstjóri Byrs, Ragnar Z. Guðjónsson, hafi ekki ritað undir samningana fyrr en 12. desember 2008. Þetta telur stefnandi styðja það að allir samningar sem tengist viðskiptunum hafi verið dagsettir aftur í tímann.
Varðandi fyrsta kröfuliðinn er aðallega á því byggt af hálfu stefnanda að sú ráðstöfun, sem hafi falist í A-lið 1. gr. kaupsamningsins, sem dagsettur sé 18. ágúst 2008, feli í sér riftanlega ráðstöfun í skilningi laga nr. 21/1991. Þar sé því ranglega haldið fram að um sé að ræða skuldajöfnun á skuld seljanda við kaupanda samtals að fjárhæð 200.106.281 króna. Hið rétta sé að um sé að ræða skuld stefnda Símonar við stefnanda sem hafi komið til af lánveitingu hins gjaldþrota félags til stefnda Símonar að fjárhæð 190.000.000 króna. Í bókhaldi stefnanda sé lánið í samræmi við þetta bókað 30. nóvember 2007 sem lán til stefnda Símonar og lánsfjárhæðin færð til skuldar á viðskiptareikning stefnda Símonar hjá stefnanda.
Stefnandi kveður skuldajöfnun þessa hafi verið til lækkunar á skuld stefnda Símonar við stefnanda. Samkvæmt texta í bókhaldi stefnanda (fylgiskjali 1459) hafi 200.106.281 króna verið færð til lækkunar á skuld stefnda Símonar við stefnanda. Í fylgiskjali 1459 í bókhaldi stefnanda sé færslan bókuð með eftirfarandi hætti:
|
Dags. |
Bókhaldslykill |
Texti |
Upphæð |
|
18.8.2008 |
7620 - Viðskiptamenn Símon S. Sigurp. |
Kaup 135.059.444 x 2,1978 x 2,08 |
-200.106.281 |
|
|
|
Afstemmt: |
0 |
Eins og áður sé rakið hafi dagbókarfærslan í bókhaldinu vegna viðskipta með stofnfjárbréf í Byr sparisjóði verið stofnuð og bókuð þann 10. október 2008 en færslan hins vegar verið dagsett 18. ágúst 2008.
Stefnandi tekur fram að stefndi Símon hafi ekki verið eigandi stofnfjárbréfanna sem stefndi Miðbúðin hafi selt hinu gjaldþrota félagi með kaupsamningnum. Því verði að teljast augljóst að um eftirgjöf skuldar stefnda Símonar við stefnda að fjárhæð 200.106.281 krónu hafi verið að ræða, enda hafi stefndi Símon ekki afhent verðmæti á móti sem hafi verið í hans eigu. Það eina sem hafi komið í stað eftirgjafar skuldarinnar hafi verið verðlaus og yfirveðsett stofnfjárbréf í Byr sparisjóði í eigu þriðja aðila, stefnda Miðbúðarinnar.
Stefnandi telur að almenn skilyrði riftunar séu óumdeilanlega fyrir hendi að því er varði eftirgjöf skuldar stefnda Símonar. Ljóst sé að möguleikar kröfuhafa til að fá fullnustu krafna aukist ef riftun nær fram að ganga. Einnig sé ljóst að niðurfelling skuldarinnar milli stefnda Símonar og hins gjaldþrota félags hafi ekki verið í samræmi við greiðslur til annarra kröfuhafa og því leitt til mismununar kröfuhafa. Stefnandi byggir aðallega á því að niðurfellingin á skuld stefnda Símonar feli í sér gjöf samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 2. mgr. 131. gr., sbr. 194. gr. laga nr. 21/1991 megi krefjast riftunar á gjöfum til nákominna, sem hafi verið afhentar sex til fjörtíu og átta mánuðum fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Frestdagur í búinu hafi verið 26. janúar 2012 og gjöfin afhent á síðustu fjörtíu og átta mánuðum fyrir frestdag í skilningi tilvitnaðra lagaákvæða.
Stefnandi byggir á því að framangreind ráðstöfun uppfylli öll þrjú meginskilyrðin sem þurfi að vera fyrir hendi til að hún teljist falla undir gjafahugtak 131. gr. laga nr. 21/1991. Niðurfærsla skuldar stefnda Símonar hafi falið í sér eftirgjöf skuldar hans, en slík ráðstöfun geti talist gjöf í framangreindum skilningi. Ráðstöfunin hafi valdið því að stefnandi hafi ekki lengur átt lögvarða fjárkröfu á hendur stefnda Símoni og því leitt til rýrnunar á eignum stefnanda. Niðurfelling hinnar persónulegu skuldar stefnda Símonar hafi jafnframt leitt til þess að hann sé laus undan persónulegri greiðsluskyldu og njóti um leið fjármuna sem hefðu að öðrum kosti runnið til stefnanda og um leið til kröfuhafa hans. Því verði að líta svo á að ráðstöfunin hafi leitt til auðgunar stefnda, enda hafi tilgangur ráðstöfunarinnar beinlínis verið að fella niður persónulegar skuldir stefnda Símonar. Þá verði ekki annað séð en að ráðstöfunin hafi haft þann eina tilgang að ívilna stefnda Símoni og létta af honum fjárhagslegum byrðum á kostnað stefnanda. Augljóst sé að hún hafi hvorki byggst á viðskiptalegum forsendum né samningsbundinni skyldu stefnanda.
Verði ekki fallist á að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 byggir stefnandi til vara á því að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. sömu laga. Samkvæmt því ákvæði megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, hafi þrotamaðurinn verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafi haft af henni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.
Stefnandi telur ráðstöfunina hafa verið ótilhlýðilega þar sem með henni hafi verið felld niður kröfuréttindi í eigu stefnanda gagnvart stefnda Símoni án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir af hans hálfu. Um hafi verið að ræða stofnfjárbréf sem hafi verið í eigu þriðja aðila, stefnda Miðbúðarinnar fjárfestingarfélags ehf. Ekki verði séð að niðurfelling skuldar stefnda Símonar hafi verið framkvæmd með hagsmuni stefnanda eða önnur málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi heldur hafi hún miðað gagngert að því að ívilna stefnda Símoni sem hafi verið viðskiptafélagi fyrirsvarsmanna stefnanda og nákominn stefnanda í skilningi laga nr. 21/1991. Ráðstöfunin hafi verið óvenjuleg og framkvæmd á miklu erfiðleikatímabili hjá stefnanda, nokkrum dögum eftir hrun íslenska bankakerfisins, eins og fyrirsvarsmönnum stefnanda hafi verið fullljóst. Af þessu leiði að eftirgjöf kröfuréttindanna getur ekki á nokkurn hátt talist tilhlýðileg ráðstöfun eins og á hafi staðið. Þá telur stefnandi ljóst að hin ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að eignir stefnanda, hér kröfuréttindi, hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Niðurfelling skuldar stefnda Símonar hafi leitt til þess að hann hafi losnað undan persónulegri greiðsluskyldu. Með því hafi stefnandi og kröfuhafar hans orðið fyrir tjóni sem því nemi, enda ljóst að eftir það hafi ekki verið unnt að ganga að stefnda persónulega um greiðslu skuldarinnar.
Stefnandi byggir jafnframt á því að hann hafi verið ógjaldfær í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 þegar ráðstöfunin var gerð. Nánar tiltekið sé á því byggt að á þeim tíma, þ.e. 10. október 2008, hafi fjárhagsstaða stefnanda verið orðin slík að félagið hafi í raun ekki verið fært um að greiða skuldir sem fallið hafi á gjalddaga í fyrirsjáanlegri framtíð og ekki hafi verið líklegt að úr rættist. Á þessum tíma hafi fyrirsjáanlegt greiðsluþrot blasað við stefnanda eins og síðar hafi komið á daginn. Stefnandi byggir jafnframt á því að stefndi Símon hafi vitað, eða í öllu falli mátt vita, um ógjaldfærni stefnanda þegar ráðstöfunin var gerð og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að hún hafi verið ótilhlýðileg. Stefnandi bendir á að grandsemiskilyrði 141. gr. sé fullnægt ef móttakanda hefði átt að gruna að skuldari væri ógjaldfær. Svo hafi verið ástatt hér, meðal annars í ljósi tengsla stefnda Símonar við stefnanda.
Um fjárkröfu stefnanda á hendur stefnda Símoni vísar hann til þess að í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 sé kveðið á um að fari riftun fram með stoð í 131. 138. gr. laganna skuli sá sem hag hafi haft af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hafi orðið honum að notum, en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabús. Af þessu leiði jafnframt að sé fallist á riftun umþrættrar ráðstöfunar á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 eigi stefnandi kröfu um endurgreiðslu þeirrar auðgunar sem af ráðstöfuninni hafi leitt. Stefnandi kveðst byggja á því að auðgun stefnda svari til niðurfellingar skuldar hans við stefnanda, samtals 200.106.281 krónu. Ef ekki hefði komið til niðurfellingar skuldar stefnda Símonar á láni gagnvart stefnanda, hefði stefnandi getað krafið stefnda persónulega um greiðslu eftirstöðva lánsins. Með umræddri ákvörðun hafi sá möguleiki stefnanda verið felldur niður og hafi það leitt til samsvarandi auðgunar stefnda. Tjón stefnanda svari jafnframt til þeirrar auðgunar stefnda. Krafist sé dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. október 2008 til greiðsludags. Um það vísar stefnandi til dómvenju Hæstaréttar Íslands þess efnis að riftunarkröfur beri dráttarvexti frá þeim degi sem hin riftanlega ráðstöfun hafi farið fram.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að verði riftun ekki viðurkennd á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, en þess í stað á grundvelli 141. gr. laganna, þá eigi stefnandi skaðabótakröfu á hendur stefnda eftir almennum reglum, sbr. 3. mgr. 142. gr. laganna. Stefnandi byggir á því að tjón hans, í skilningi skaðabótareglna, sé hið sama og samkvæmt auðgunarkröfu stefnanda. Þannig sé á því byggt að niðurfelling skuldar stefnda Símonar við stefnanda hafi leitt til þess að stefnandi og kröfuhafar hans hafi ekki fengið notið þeirra kröfuréttinda á hendur stefnda Símoni sem þeir hefðu ellegar átt á grundvelli láns stefnanda og stefnda Símonar. Tjón stefnanda svari til fjárhæðar hinna niðurföllnu kröfuréttinda, 200.106.281 krónu. Krafist sé dráttarvaxta frá sama tíma og í auðgunarkröfu.
Fallist dómurinn ekki á framangreindar kröfur á hendur stefnda Símoni gerir stefnandi til vara þá kröfu að stefndi, Miðbúðin fjárfestingarfélag ehf., verði látinn þola riftun og endurgreiðslu þeirrar ráðstöfunar sem hafi falist í niðurfellingu lánsins.
Þyki sannað að stefndi Miðbúðin hafi staðið í skuld við stefnanda að fjárhæð 200.106.281 króna, líkt og kaupsamningurinn beri með sér, þá kveðst stefnandi byggja á því að niðurfelling þeirrar skuldar feli í sér riftanlega ráðstöfun í skilningi 131. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Verði þeirri málsástæðu haldið fram í málinu, að skuldin hafi raunverulega verið stefnda Miðbúðarinnar en ekki stefnda Símonar, kveðst stefnandi skora á stefnda Miðbúðina að sýna fram á það með vísan til 67. gr. laga nr. 91/1991. Verði í ljós leitt að skuldin tilheyri stefnda Miðbúðinni þá feli það í sér að stefnandi sé með kaupsamningnum að fella niður skuld stefnda Miðbúðarinnar gegn því að fá í hendurnar verðlaus stofnfjárbréf í Byr sparisjóði. Nánar vísar stefnandi um þetta til umfjöllunar um síðari kröfulið sinn hér að neðan. Sú umfjöllun eigi við varðandi þennan kröfulið og sé byggt á sömu málsástæðum og þar komi fram.
Varðandi síðari kröfulið stefnanda á hendur stefnda Miðbúðinni byggir hann á því að yfirtaka stefnanda annars vegar á láni stefnda Miðbúðarinnar hjá Byr sparisjóði, sbr. B-lið kaupsamningsins, sem dagsettur sé 18. ágúst 2008, og hins vegar uppgreiðsla stefnanda á láni stefnda Miðbúðarinnar hjá Landsbankanum, sbr. C-lið kaupsamningsins, feli í sér riftanlegar ráðstafanir í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991. Dómkröfu stefnanda samkvæmt þessum kröfulið kveður hann vera samtölu hinna yfirteknu lána, sbr. B- og C-liði kaupsamningsins (233.232.676 + 187.883.579 = 421.116.255 kr.), allt að frádregnum 12.265.790 kr., sbr. D- og E-liði kaupsamningsins.
Stefnandi byggir á því að sú ráðstöfun sem hafi falist í B-lið 1. gr. kaupsamningsins feli í sér riftanlega ráðstöfun í skilningi laga nr. 21/1991. Samkvæmt þessum lið hafi átt að greiða hluta af kaupverði stofnfjárbréfanna með yfirtöku á láni stefnda Miðbúðarinnar við Byr sparisjóð, samtals 233.232.676 krónur. Eins og nánari grein hafi verið gerð fyrir hér að framan telur stefnandi að öll skjöl er tengist þessum viðskiptum hafi verið dagsett aftur í tímann og kaupsamningurinn hafi raunverulega verið undirritaður 10. október 2008.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að í raun hafi kaupin á stofnfjárbréfunum verið gjöf til stefnda Miðbúðarinnar til hagsbóta fyrir stefnda en til tjóns fyrir stefnanda. Í þessum kröfulið er á því byggt að yfirtaka stefnanda á láni stefnda Miðbúðarinnar við Byr sparisjóð, samtals að fjárhæð 233.232.676 krónur feli í sér riftanlega ráðstöfun í skilningi 131. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi tekur fram að samkvæmt fylgiskjali 1459 í bókhaldi stefnanda kaupi hið gjaldþrota félag stofnfjárbréf í Byr sparisjóði á 608.956.599 krónur. Taflan hér að neðan sýni hvernig viðskiptin hafi verið bókuð í bókhaldi stefnanda:
|
Dags. |
Bókhaldslykill |
Texti |
Upphæð |
|
18.8.2008 |
7708 - Óskráð hlutabréf - safnlykill |
Kaup 135.059.444 x 2,1978 x 2,05 |
608.956.599 |
|
18.8.2008 |
8727 - Byr yfirtekið Miðbúðin |
Kaup 135.059.444 x 2,1978 x 2,06 |
-233.232.676 |
|
18.8.2008 |
8728 - NLÍ 12004 |
Kaup 135.059.444 x 2,1978 x 2,07 |
-187.883.579 |
|
18.8.2008 |
7620 - Viðskiptamenn Símon S. Sigurp. |
Kaup 135.059.444 x 2,1978 x 2,08 |
-200.106.281 |
|
18.8.2008 |
7812 - Íslandsbanki 528-26-1983 |
Kaup 135.059.444 x 2,1978 x 2,09 |
630.730 |
|
18.8.2008 |
7620 - Viðskiptamenn Miðbúðin Fjárfestingafélag |
Kaup 135.059.444 x 2,1978 x 2,10 |
11.635.060 |
|
18.8.2008 |
1530 - Hækkun gengis fjárfestingabréfa |
Kaup 135.059.444 x 2,1978 x 2,11 |
147 |
|
|
|
Afstemmt: |
0 |
Stefnandi kveðst aðallega byggja á því í þessum þætti málsins að yfirtaka stefnanda á láni stefnda Miðbúðarinnar hjá Byr sparisjóði 10. október 2008 feli í sér gjöf á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 2. mgr. 131. gr., sbr. 194. gr. laga nr. 21/1991 megi krefjast riftunar á gjöfum til nákominna, sem hafi verið afhentar sex til fjörtíu og átta mánuðum fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Frestdagur í búinu hafi sem fyrr segir verið 26. janúar 2012 og gjöfin þannig afhent á síðustu fjörtíu og átta mánuðum fyrir frestdag í skilningi tilvitnaðra lagaákvæða. Eins og áður hafi verið rakið byggir stefnandi á því að stefndi Miðbúðin sé nákominn stefnanda í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi telur að öll skilyrði gjafar í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 séu fyrir hendi. Að mati stefnanda sé augljóst að gjöfin, sem fólst í yfirtöku láns við Byr sparisjóð, hafi rýrt eignir stefnanda, enda hafi endurgjaldið verið verðlaus stofnfjárbréf í Byr sparisjóði. Stefnandi hafi tekið á sig háa fjárskuldbindingu eingöngu í því skyni að losa stefnda Miðbúðina undan lánsskuldbindingu sinni gagnvart Byr sparisjóði sem hafi leitt til þess að sá síðarnefndi hafi ekki lengur átt lögvarða fjárkröfu á hendur stefnda heldur eingöngu kröfu á stefnanda sem hafi á þessum tíma, 10. október 2008, verið ógjaldfært félag sem hafi stefnt í gjaldþrot. Ráðstöfunin hafi þegar af þessum ástæðum leitt til rýrnunar á eignum stefnanda og samsvarandi auðgunar stefnda Miðbúðarinnar. Hafi ráðstöfunin leitt til auðgunar stefnda Miðbúðarinnar enda tilgangur hennar beinlínis sá að fella niður persónulega skuld stefnda vegna kaupa á stofnfjárbréfum sem á þeim tíma sem ráðstöfunin var gerð hafi verið verðlaus. Stefnandi telur gjafatilgang einnig augljósan. Ekki verði annað séð en að ráðstöfunin hafi haft þann eina tilgang að ívilna stefnda Miðbúðinni og létta af félaginu fjárhagslegum byrðum á kostnað stefnanda og kröfuhafa hans. Stefnandi telur augljóst að um gjöf hafi verið að ræða í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi umrædd ákvörðun um yfirtöku stefnanda á lánsskuldbindingu stefnda Miðbúðarinnar hvorki byggst á viðskiptalegum forsendum né samningsbundinni skyldu stefnanda.
Stefnandi telur að gjöfin, sem hafi falist í yfirtöku lánssamningsins, hafi verið afar óvenjuleg ráðstöfun í mörgum skilningi. Telur hann ljóst að til þess að þessi riftanlega ráðstöfun gæti orðið að veruleika hafi allir orðið að leggjast á eitt til þess að fléttan gæti gengið upp. Stefnandi telur að ákveðin líkindi séu með þessum þætti málsins og málavöxtum í hæstaréttarmálinu nr. 442/2011 (Exeter Holding). Fyrirsvarsmenn stefnanda hafi augljóslega beitt áhrifum sínum innan Byrs sparisjóðs til þess að yfirtakan gæti orðið að veruleika með fulltingi þáverandi fyrirsvarsmanna sparisjóðsins allt í þeim tilgangi „að losa“ vin sinn og viðskiptafélaga, stefnda Símon og stefnda Miðbúðina, undan skuldbindingum vegna kaupa á stofnfjárbréfunum í Byr sparisjóði. Með þessu hafi áhættunni af stofnfjárbréfunum í raun verið velt yfir á Byr sparisjóð, enda nýr skuldari lánssamningsins ógjaldfært félag á þeim tíma sem skuldskeytingin hafi átt sér stað. Kveðst skiptastjóri líta svo á að honum sé skylt samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 að tilkynna sérstökum saksóknara um þennan gerning. Bendir hann á að með dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011 hafi fyrrverandi stjórnarformaður og fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs verið dæmdir til fangelsisrefsingar fyrir umboðssvik.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stjórnendur Byrs sparisjóðs hafi á þeim tíma, líkt og í refsimálinu, velt áhættu af tjóni vegna stofnfjárbréfa yfir á Byr sparisjóð. Hafi þetta verið gert með þeim hætti að samþykkt hafi verið af hálfu stjórnar Byrs sparisjóðs að skuldaraskipti yrðu á láni stefnda Miðbúðarinnar við Byr sparisjóð þannig að nýr skuldari yrði stefnandi. Þetta hafi verið samþykkt án þess að raunverulegt verðgildi stofnfjárbréfanna væri kannað og án þess að óskað hafi verið eftir frekari tryggingum fyrir yfirtöku lánsins en veðum í stofnfjárbréfunum sjálfum, þvert gegn því sem fram hafi komið í útlánareglum sparisjóðsins. Allt þetta hafi verið gert þrátt fyrir neikvæða eiginfjárstöðu stefnanda á þeim tíma sem skuldskeytingin hafi verið samþykkt. Tilgangurinn hafi verið sá að losa stefnda Miðbúðina við verðlaus stofnfjárbréf í sparisjóðnum og setja þau, ásamt áhvílandi lánsskuldbindingum, inn í stefnanda sem á þessum tíma, í október 2008, hafi verið ógjaldfært félag.
Stefnandi bendir á að á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað hafi hið gjaldþrota félag verið einn stærsti hluthafi Byrs sparisjóðs og hafi áðurnefndir Jón Kristjánsson og Páll Þór Magnússon setið í stjórn Byrs sparisjóðs. Þegar málið sé skoðað heildstætt blasi að mati stefnanda við að góðir og gegnir stjórnarmenn í Byr sparisjóði hefðu aldrei samþykkt skuldskeytingu lánsins ef umrædd tengsl hefðu ekki verið til staðar. Aðkoma stjórnenda Byrs að málinu sé hins vegar ekki til umfjöllunar í þessu máli og verði því ekki fjallað frekar um hana á þessum vettvangi að öðru leyti en því að bent sé á að fram hafi komið á opinberum vettvangi að bráðabirgðastjórn Byrs hafi sent ábendingu um viðskiptin til embættis sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitsins vegna gruns um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað í tengslum við þau.
Stefnandi byggir á því að fyrirsvarsmenn þessa stóra hluthafa í Byr sparisjóði hafi beitt sér fyrir því að sparisjóðurinn samþykkti skuldskeytinguna. Hann telur að um hafi verið að ræða greiða fyrirsvarsmanna hins gjaldþrota félags við viðskiptafélaga sinn, stefnda Símon, og stefnda Miðbúðina. Heldur stefnandi því fram að þessi greiði sé sambærilegur og „greiði“ sem einn ákærðu í fyrrgreindu hæstaréttarmáli hafi borið um í skýrslutöku fyrir dómi. Í þessu sambandi vekur stefnandi athygli á því að fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags, Jón Kristjánsson og Páll Þór Magnússon, hafi báðir „selt“ félaginu 4. nóvember 2008 stofnfjárbréf sem hafi verið í þeirra persónulegu eigu. Báðir hafi fyrirsvarsmennirnir átt persónulega 25.000.000 hluta sem seldir hafi verið hvor um sig á rúmar 90 milljónir króna. Skiptastjóri kveðst hafa höfðað riftunarmál á hendur Jóni og Páli og byggir á því að kaup stefnanda á stofnfjárbréfunum hafi verið gjafagerningur í skilningi laga nr. 21/1991 og gerður í þeim eina tilgangi að losa fyrirsvarsmennina við verðlaus stofnfjárbréf í Byr sparisjóði með samsvarandi tjóni fyrir stefnanda.
Verði ekki fallist á að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 byggir stefnandi til vara á því að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. sömu laga. Stefnandi telji ráðstöfunina hafa verið ótilhlýðilega, enda hafi hið gjaldþrota félag tekið á sig háa fjárskuldbindingu með yfirtökunni án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir af hálfu stefnda Miðbúðarinnar, enda hafi stofnfjárbréfin verið verðlaus á þeim tíma sem ráðstöfunin hafi átt sér stað 10. október 2008. Augljóst sé að yfirtaka lánsskuldbindingarinnar hafi ekki verið framkvæmd með hagsmuni stefnanda eða önnur málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi heldur gagngert til þess að ívilna stefnda Miðbúðinni. Ráðstöfunin hafi verið afar óvenjuleg og framkvæmd á miklu erfiðleikatímabili hjá stefnanda, nokkrum dögum eftir hrun íslenska bankakerfisins, eins og fyrirsvarsmönnum félagsins hafi verið fullljóst. Af þessu leiði að yfirtaka stefnanda á lánsskuldbindingu stefnda Miðbúðarinnar geti ekki á nokkurn hátt talist tilhlýðileg ráðstöfun eins og staðið hafi á. Þá telur stefnandi ljóst að hin ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að eignir stefnanda hafi ekki getað orðið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Yfirtaka stefnanda á lánsskuldbindingu stefnda Miðbúðarinnar gagnvart Byr sparisjóði hafi leitt til þess að stefndi Miðbúðin hafi losnað undan greiðsluskyldu á láninu.
Stefnandi byggir jafnframt á því að félagið hafi verið ógjaldfært í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 þegar ráðstöfunin var gerð 10. október 2008, eins og þegar hefur verið gerð grein fyrir. Stefnandi kveðst jafnframt byggja á því að stefndi Miðbúðin hafi vitað, eða í öllu falli mátt vita, um ógjaldfærni hins gjaldþrota félags á þessum tíma og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg, sbr. fyrri umfjöllun um grandssemi stefnda Símonar.
Stefnandi vísar til þess að í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 sé kveðið á um að fari riftun fram með stoð í 131. 138. gr. laganna skuli sá sem hag hafi haft af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu, hér stefnanda, fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hafi orðið honum að notum, en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabús. Af þessu leiði jafnframt að sé fallist á riftun umþrættrar ráðstöfunar á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, svo sem stefnandi krefjist, eigi stefnandi rétt á að krefja stefnda um endurgreiðslu þeirrar auðgunar sem af ráðstöfuninni hafi leitt. Stefnandi byggir á því að auðgun stefnda Miðbúðarinnar svari til þeirrar lánsfjárhæðar sem stefnandi hafi yfirtekið hjá Byr sparisjóði, samtals 233.232.676 krónum. Tjón stefnanda samsvari þessari sömu fjárhæð. Krafist sé dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. október 2008 til greiðsludags. Vísast um það til dómvenju Hæstaréttar Íslands þess efnis að riftunarkröfur beri dráttarvexti frá þeim degi sem hin riftanlega ráðstöfun hafi farið fram.
Verði riftun ekki viðurkennd á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, en þess í stað á grundvelli 141. gr. laganna, byggir stefnandi á því að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnda Miðbúðinni eftir almennum reglum, sbr. 3. mgr. 142. gr. laganna. Hann telur tjón sitt nema sömu fjárhæð og auðgunarkrafa hans. Á því sé byggt að yfirtaka stefnanda á lánsskuldbindingu stefnda Miðbúðarinnar hafi leitt til þess að stefnandi og kröfuhafar hans hafi ekki fengið notið þeirra fjármuna sem hið gjaldþrota félag hafi tekið sér á hendur með yfirtöku lánsskuldbindingarinnar. Tjón stefnanda svari því til fjárhæðar hins yfirtekna láns, 233.232.676 krónur. Stefnandi krefjist dráttarvaxta frá sama tíma og í auðgunarkröfu.
Samkvæmt C-lið 1. gr. kaupsamningsins, sem sagður er dagsettur 18. ágúst 2008, hafi hið gjaldþrota félag einnig átt að taka yfir lánsskuldbindingu stefnda Miðbúðarinnar hjá Landsbankanum. Fyrir liggi að af þessu hafi ekki orðið, enda hafi Landsbanki Íslands hf. (gamli bankinn) ekki samþykkt skuldskeytinguna fyrir sitt leyti. Bankinn hafi hins vegar samþykkt 6. október 2008 að veita stefnanda nýtt lán sem hafi verið notað til að greiða upp umrætt lán stefnda Miðbúðarinnar, sbr. C-lið 1. gr. kaupsamningsins.
Stefnandi byggir aðallega á því að uppgreiðsla stefnanda á láni stefnda Miðbúðarinnar hjá Landsbankanum 10. október 2008 feli í sér gjöf á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 2. mgr. 131. gr., sbr. 194. gr. laga nr. 21/1991, megi krefjast riftunar á gjöfum til nákominna, sem hafi verið afhentar sex til fjörtíu og átta mánuði fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna.
Stefnandi telur augljóst að þau þrjú meginskilyrði þess að um gjafagerning sé að tefla samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt. Í fyrsta lagi hafi ráðstöfunin, sem fólst í uppgreiðslu lánsins, rýrt eignir stefnanda, enda hafi endurgjaldið vegna hinnar nýju lántöku verið verðlaus stofnfjárbréf í Byr sparisjóði. Í öðru lagi hafi gjöfin leitt til auðgunar stefnda Miðbúðarinnar sem hafi þar með losnað undan lánsskuldbindingum sínum við Landsbankann gegn afhendingu á verðlausum stofnfjárbréfum. Í þriðja lagi telur stefnandi gjafatilganginn augljósan og vísar um það til þess sem áður er rakið um yfirtöku stefnanda á láni stefnda hjá Byr sparisjóði að breyttu breytanda.
Verði ekki fallist á að ráðstöfunin, sem fólst í uppgreiðslu á láni stefnda Miðbúðarinnar fjárfestingarfélags ehf. hjá Landsbankanum, sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 byggir stefnandi til vara á því að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. sömu laga. Stefnandi telur ráðstöfunina hafa verið ótilhlýðilega, enda hafi stefnandi með nýja láninu tekið á sig háa fjárskuldbindingu án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir af hálfu stefnda Miðbúðarinnar, enda stofnfjárbréfin verðlaus á þeim tíma sem ráðstöfunin átti sér stað 10. október 2008. Augljóst sé að lántakan hafi ekki farið fram með hagsmuni stefnanda eða önnur málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi heldur gagngert til þess að ívilna stefnda Miðbúðinni. Ráðstöfunin hafi verið afar óvenjuleg og framkvæmd á miklu erfiðleikatímabili hjá hinu gjaldþrota félagi, nokkrum dögum eftir hrun íslenska bankakerfisins, eins og fyrirsvarsmönnum félagsins hafi verið fullljóst. Af þessu leiði að uppgreiðsla stefnanda á lánsskuldbindingu stefnda Miðbúðarinnar geti ekki á nokkurn hátt talist tilhlýðileg ráðstöfun eins og atvikum hafi verið háttað. Þá telur stefnandi ljóst að hin ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að eignir stefnanda hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Uppgreiðsla lánsins hafi leitt til þess að stefndi Miðbúðin hafi losnað undan greiðsluskyldu á láninu. Stefnandi byggi jafnframt á því að hann hafi verið ógjaldfær þegar ráðstöfunin hafi verið gerð. Um þetta vísar stefnandi alfarið til þess sem að framan sé rakið.
Stefnandi reisir fjárkröfu sína í kröfulið 2 á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að því leyti sem riftunarkrafan sé reist á 131. gr. laganna, en á 3. mgr. 142. gr. laganna að því leyti sem riftunarkrafan byggist á 141. gr. laganna. Dómkröfu stefnanda á hendur stefnda Miðbúðinni sundurliðar stefnandi með eftirfarandi hætti:
Yfirtaka á lánsskuldbindingu gagnvart Byr sparisjóði............. kr. 233.232.676,-
Uppgreiðsla á lánsskuldbindingu gagnvart Landsbankanum... kr. 187.883.579,-
Samtals kr. 421.116.255,-
Samkvæmt bókhaldi stefnanda hafi stefndi Miðbúðin innt af hendi tvær greiðslur til stefnanda, í samræmi við D- og E-lið 2. gr. kaupsamningsins, með færslum sem dagsettar séu 18. ágúst 2008. Eins og áður hafi verið nefnt sé dagbókarfærslan í bókhaldinu hins vegar stofnuð og bókuð 10. október 2008. Með hliðsjón af því, sbr. einnig því sem áður sé rakið varðandi dagsetningu kaupsamningsins, er á því byggt af hálfu stefnanda að greiðslurnar hafi verið inntar af hendi 10. október 2008. Um sé að ræða eftirfarandi færslur:
Greiðsla 10. október 2008............................................................... kr. 630.730,-
Greiðsla 10. október 2008.......................................................... kr. 11.635.060,-
Samtals kr. 12.265.790,-
Stefnandi dregur ofangreinda fjárhæð, 12.265.790 krónur, frá dómkröfunni samkvæmt kröfulið 2, sbr. hér að ofan.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kröfu um riftun reisir hann einkum á 131. og 141. gr. laganna. Fjárkrafa stefnanda byggist á 1. og 3. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga sem og almennum reglum skaðabótaréttarins. Um vexti og dráttarvexti vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá sé krafa um málskostnað reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísar stefnandi til V. kafla sömu laga. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt 1. mgr. 148. gr., sbr. bráðabirgðaákvæði 194. gr. laga nr. 21/1991, sé mál þetta höfðað innan málshöfðunarfrests.
2. Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu mótmæla því í fyrsta lagi að þeir séu nákomnir stefnanda í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þeir taka fram að í stefnu sé ekki haft fyrir því að heimfæra þessa málsástæðu að neinum þeirra sex töluliða sem fram komi í ákvæðinu. Það sé skiljanlegt þar sem enginn þeirra eigi við um tengsl stefndu Símonar og Miðbúðarinnar við stefnanda, eigendur hans eða stjórnendur. Hvorki vinátta né sjálfstæðar fjárfestingar tveggja aðila í öðrum og óskyldum félögum, sem ekkert hafi með sakarefni málsins að gera, geti leitt til þess að aðilar teljist nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Hvorki stefndi Símon né Miðbúðin hafi átt hluti í stefnanda og stefnandi hafi ekki átt neina hluti í Miðbúðinni. Hvorki stefndi Símon né nokkur honum tengdur hafi setið í stjórn stefnanda eða átt hlut í honum eða dóttur- eða systurfélögum stefnanda. Þá hafna stefndu því að stefnandi geti á síðari stigum málsmeðferðar lagt fram frekari gögn sem sanni að þessir aðilar séu nákomnir, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndu taka fram að frestdagur við skiptin á búi stefnanda sé 26. janúar 2012. Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. megi rifta gjafagerningi ef gjöf hefur verið afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaður hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Riftunarfrestur gagnvart nákomnum hafi hins vegar verið 48 mánuðir talið frá frestdegi væri dómsmál höfðað fyrir áramót 2012, sbr. 1. mgr. 194. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og lög nr. 31/2010. Annars sé riftunarfresturinn 24 mánuðir.
Stefndu taka fram að stefndi Miðbúðin og stefnandi hafi undirritað samninginn 18. ágúst 2008, þ.e. 41 mánuðum og 8 dögum fyrir frestdag. Riftun verði því ekki byggð á 2. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Sú ranga og ósannaða fullyrðing stefnanda í stefnu, að dagsetning samningsins sé fölsuð og eigi að vera 10. október 2008, breyti engu fyrir framangreinda niðurstöðu.
Til sönnunar því að dagsetning samningsins sé rétt benda stefndu á að 18. ágúst 2008 hafi verið aflað gagna frá lánveitendum stefnda Miðbúðarinnar. Þær fjárhæðir sem tilgreindar séu í gögnum fjármálafyrirtækjanna hafi verið teknar upp í samninginn. Stefndu benda einnig á að sama dag og kaupsamningurinn hafi verið undirritaður hafi verið gengið frá sambærilegum kaupsamningi milli stefnda Miðbúðarinnar og stefnda Símonar um kaup á hlutum í Byr sparisjóði fyrir 27.878.809 krónur. Við þau kaup hafi stefndi Símon m.a. yfirtekið skuld við Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 7.604.486 krónur. Hafi skuld stefnanda við Landsbanka Íslands hf. lækkað sem því nam.
Stefndu mótmæla því að þeir hafi fengið fé að gjöf frá stefnanda. Í stefnu sé því haldið fram að stefnandi hafi lánað stefnda Símoni 190.000.000 króna 30. nóvember 2007. Hvað það varðar taka stefndu fram að stefndi Símon hafi aldrei samið við stefnanda um lántöku eða almennt þurft á lánveitingum frá stefnanda að halda persónulega. Stefnandi hafi ekki verið að lána stefnda Símoni Sigurði 190.000.000 króna persónulega 30. nóvember 2007 heldur hafi lánið verið til stefnda Miðbúðarinnar, þó að það væri greitt inn á einkareikning stefnda Símonar í Glitni banka hf. Sama dag hafi stefndi Símon millifært 188.936.665 krónur af fénu til MP-fjárfestingarbanka hf. Mismuninn, 1.063.345 krónur, hafi stefndi Símon lagt inn á bankareikning stefnda Miðbúðarinnar 4. desember 2007. Um þetta hafi aldrei verið ágreiningur með stefnanda og stefnda Símoni. Stefndi Símon eigi því enga aðild að máli þessu og því á því byggt að sýkna beri hann af kröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndu taka að öðru leyti fram að stefndi Miðbúðin hafi upphaflega heitið AB 116 ehf., Borgartúni 27, Reykjavík. Stefndi Símon hafði samið um kaup allra hluta í félaginu 22. nóvember 2007 fyrir 630.000 krónur. Kaupverðið hafi verið greitt seljanda, AB-ráðgjöf ehf., 27. nóvember 2007. Á hluthafafundi þann sama dag hafi nafni félagsins verið breytt í Miðbúðin fjárfestingarfélag ehf. og ný stjórn verið kjörin. Stefndi Símon hafi verið kjörinn stjórnarmaður auk þess sem hann hafi jafnframt verið framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins.
Stefndu vísa einnig til þess að stefndi Símon hafi lánað AB 116 ehf. 20.318.907 krónur til kaupa á stofnfé í Byr sparisjóði 23. nóvember 2007. Stefndi Símon hafi greitt kaupverð þessara hluta af bankareikningi sínum til MP-fjárfestingarbanka hf. Í skýringum hafi þess verið getið að greiðslan væri vegna AB 116 ehf. Hér hafi verið um að ræða lán hans til félagsins, en hlutafé þess hafi numið 500.000 krónum.
Stefndu taka einnig fram að 27. nóvember 2007 hafi verið samið um frekari kaup á stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði fyrir samtals 188.936.665 krónur. Fjármunir vegna þessara kaupa hafi komið úr sjóðum stefnanda, sem lán til stefnda Miðbúðarinnar. Stefndi Símon og stefnandi hafi því báðir lagt stefnda Miðbúðinni til lánsfé vegna kaupa á stofnfjárhlutum í Byr í lok nóvember 2007.
Af hálfu stefndu er jafnframt vísað til þess að stefndi Miðbúðin hafi keypt hluti í Sparisjóði Kópavogs af Ellert Vigfússyni, sem hafi verið 100% veðsettir Byr sparisjóði vegna láns sjóðsins til Ellerts að fjárhæð 244.448.000 krónur. Lán þetta hafi verið komið á gjalddaga. Byr sparisjóður hafi þó ekki gengið frá skuldskeytingu lánsins fyrr en 7. febrúar 2008. Lánsfjárhæðin hafi þá staðið í 266.168.733 krónum. Lánið hafi átt að endurgreiða með vöxtum 7. febrúar 2009. Arð af hlutum í Byr sparisjóði hafi hins vegar átt að greiða inn á lánið yrði arðgreiðsla ákveðin. Stefndi Miðbúðin hafi einnig orðið að taka þátt í aukningu stofnfjár í Byr í desember 2007 til að viðhalda eign sinni. Landsbanki Íslands hf. hafi fallist á að lána fé til kaupanna 21. desember 2007, samtals 232.000.000 krónur. Um hafi verið að ræða kúlulán til sex mánaða með REIBOR-vöxtum + 2,50% álagi gegn handveði í stofnfjárbréfum BYR sparisjóðs að nafnverði 138.099.196 krónur. Gjalddagi lánsins hafi verið 20. júní 2008. Lánveiting þessi hafi verið staðfest í lánanefnd Landsbanka Íslands hf. 9. janúar 2008.
Stefndu byggja á því að samkomulag hafi verið með stefnda Símoni og stefnanda að stefndi Miðbúðin gæti eftir aðalfund Byrs sparisjóðs á árinu 2008, en í síðasta lagi þegar kæmi að uppgjöri kúluláns Landsbanka Íslands hf., selt stefnanda alla þá hluti í Byr sparisjóði sem keyptir hefðu verið fyrir lánsfé frá stefnanda, Landsbanka Íslands hf. og Byr sparisjóði.
Stefndu taka fram að á aðalfundi Byrs sparisjóðs 9. apríl 2008 hafi verið samþykkt að greiða stofnfjáreigendum 44% arð vegna ársins 2007. Þá hafi verið samþykkt 5,9% hækkun endurmats vegna ársins 2007 og að nýta heimild í lögum um sérstakt 3% endurmat stofnfjár. Í bréfi til stefnda Miðbúðarinnar 21. apríl 2008 frá Ólafi Kr. Ólafs f.h. Byrs segi svo: ,,Hækkun endurmats kemur fram í endurmatsstuðli stofnfjárbréfanna sem er í apríl 2008 2,0481924.“ Samkvæmt bréfi Byrs hafi arður til stefnda Miðbúðarinnar numið 121.059.827 krónum. Til greiðslu hafi verið 108.953.844 krónur eftir að 12.105.983 krónur höfðu verið dregnar frá í fjármagnstekjuskatt. Arðurinn hafi gengið að jöfnu til þeirra lánveitenda stefnda Miðbúðarinnar sem hafi átt veð í stofnfjárhlutum félagsins í Byr sparisjóði, sem hafi verið Byr sparisjóður og Landsbanki Íslands hf. Lán hvors lánveitanda um sig hafi lækkað um 54.476.922 krónur. Skuldin við Byr sparisjóð hafi þá staðið í 211.691.811 krónum og skuldin við Landsbanka Íslands hf. í 189.937.656 krónum.
Stefndu halda því fram að eftir aðalfund Byrs sparisjóðs og móttöku arðgreiðslna, og áður en komið hafi verið að gjalddaga láns Landsbanka Íslands hf. 20. júní 2008 til stefnda Miðbúðarinnar, hafi verið farið að huga því að losa félagið við stofnfjárhlutina í Byr sparisjóði til stefnanda, eins og um hafði verið samið milli félagsins og stefnanda áður en ráðist hafi verið í hin miklu kaup í lok nóvember og desember 2007. Það hafi aðeins verið mögulegt með samþykki Byrs sparisjóðs og Landsbanka Íslands hf. sem lánveitenda stærsta hluta kaupverðs stofnfjárhlutanna. Forsvarsmenn stefnanda hafi strax í júní óskað eftir samþykki lánveitenda og fengið samþykki fyrir því að ganga frá uppgjöri við stefnda Miðbúðina. Landsbanki Íslands hf. hafi fengið áfallna vexti lánsins til 20. júní 2008 greidda og stefnandi greitt þá beint til bankans. Lánveitendurnir hafi sent stöðu lána sinna miðað við 18. ágúst 2008. Samkvæmt upplýsingum Byrs sparisjóðs hafi lán þess staðið í 233.232.676 krónum og lán Landsbanka Íslands hf. í 195.488.065 krónum. Um allt þetta vísa stefndu til framlags dómskjals sem geymi samskipti starfsmanna stefnanda og Landsbanka Íslands hf. m.a. frá 18. júní til 4. júlí 2008, við Byr sparisjóð í ágúst 2008 og gögn lánveitenda um stöðu lána og uppgjörsblað stefnda Miðbúðarinnar og stefnanda.
Í greinargerð stefndu kemur fram að þegar komið hafi verið að frágangi viðskiptanna hafi stefndi Símon ákveðið að færa á sitt nafn þá stofnfjárhluti í Byr sparisjóði sem hann hafði lánað stefnda Miðbúðinni fé til kaupa á. Þess vegna hafi verið gengið frá tveimur samningum 18. ágúst 2008. Annar samningurinn hafi verið milli stefnda Miðbúðarinnar og stefnda Símonar og hinn milli stefnda Miðbúðarinnar og stefnanda. Samningur stefnda Miðbúðarinnar og stefnda Símonar hafi verið um kaup þess síðarnefnda á 5.461.962 hlutum í Byr sparisjóði á genginu 2,3224. Kaupverðið hafi verið 27.878.809 krónur. Það hafi verið greitt með skuldajöfnuði við það fé sem stefndi Símon hafði lagt fram í nóvember 2007 og yfirtöku Símonar á 7.604.486 krónum af láni Miðabúðarinnar frá Landsbanka Íslands hf.
Samningur stefnda Miðbúðarinnar og stefnanda hafi hins vegar verið um kaup stefnanda á 135.059.444 hlutum í Byr sparisjóði á 608.956.746 krónur. Kaupverðið hafi verið greitt með skuldajöfnuði á ,,skuld“ stefnda við stefnanda að fjárhæð 200.106.281 króna og hins vegar með yfirtöku á láni við Byr sparisjóð að fjárhæð 233.232.676 krónur og Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 187.883.579 krónur. Auk þess hafi stefndi Miðbúðin átt að greiða stefnanda 630.730 krónur í reiðufé og skila endurgreiddum fjármagnstekjuskatti, að fjárhæð 11.635.060 krónur, þremur dögum eftir að hann bærist. Stefndi Miðbúðin hafi þannig átt að greiða stefnanda í uppgjörinu 12.265.790 krónur. Greiðslur þessar hafi verið inntar af hendi.
Með vísan til framangreinds kveða stefndu það rangt sem haldið sé fram í stefnu að með samningi stefnda Miðbúðarinnar og stefnanda hafi stefnandi verið að hreinsa út skuld viðskiptafélaga síns, stefnda Símonar, úr bókum stefnanda fyrir gjaldþrot stefnanda. Því sé líka mótmælt, sem fram komi í stefnu, að samningurinn, sem gerður hafi verið milli stefnanda og stefndu Miðbúðarinnar, hafi verið stefnanda afar óhagstæður og ekki byggður á viðskiptalegum forsendum heldur til þess eins að losa stefnda Miðbúðina undan lánaskuldbindingum gagnvart Byr sparisjóði og Landsbanka Íslands hf. Stefndu benda í þessu sambandi á að á þeim tíma sem samningurinn hafi verið gerður hafi enginn verið þeirrar skoðunar að stefnandi væri gjaldþrota hvað þá að stofnfjárhlutir í Byr sparisjóði væru verðlausir. Ekki hafi heldur verið unnt að leysa stefnda Miðbúðina undan skuldbindingum sínum gagnvart fjármálafyrirtækjum, sem hafi lánað félaginu fé, nema með samþykki þeirra. Þau samþykki hafi stefnandi fengið og tekist á hendur skuldbindingarnar bæði gagnvart Byr sparisjóði og Landsbanka Íslands hf., síðar Nýja Landsbanka Íslands hf., sem hafi tekið yfir allar eignir Landsbanka Íslands hf. á hendur stefnanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sem hafi tekið gildi frá og með 9. október 2008. Stjórnendur þessara fjármálafyrirtækja hafi talið stofnfjárhluti í Byr sparisjóði geyma verðmæti og að stefnandi væri hæfur lántakandi. Til stuðnings því að ekkert athugavert hafi verið við viðskipti þessi 18. ágúst 2008 benda stefndu á að forsvarsmenn Byrs sparisjóðs og Glitnis banka hf. hafi á þessum tíma unnið að sameiningu þessara tveggja fjármálafyrirtækja. Frá þeirri hugmynd hafi fyrst verið horfið eftir 29. september 2008 þegar Seðlabanki Íslands hafi fyrir hönd ríkissjóðs tilkynnt að ríkið ætlaði að leggja Glitni banka hf. til nýtt hlutafé að fjárhæð 600 milljónir evra og eignast 75% hlut í bankanum. Þá hafi það hins vegar gerst að Landsbanki Íslands hf. hafi fengið áhuga á Byr sparisjóði og lánað m.a. út á stofnbréf hans 3. október 2008. Nýi Landsbanki Íslands hf. hafi lánað stefnanda fé til að unnt væri að ganga frá uppgjöri á láni Landsbanka Íslands hf. sem stefnandi hafði yfirtekið með samningnum 18. ágúst 2008. Byr sparisjóður hafi lifað af hrun viðskiptabankanna í kjölfar setningar neyðarlaganna 7. október 2008. Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði 22. apríl 2010, en þá hafi hafist formleg slitameðferð hans sem enn standi yfir.
Stefndu telja að engu skipti fyrir niðurstöðu málsins hvenær lánveitendur stefnanda, sem hafi samþykkt skuldskeytinguna, hafi gengið formlega frá skuldskeytingunni gagnvart stefnanda. Allt hafi verið umsamið og frágengið milli stefnanda og stefndu 18. ágúst 2008. Við frágang skuldskeytingar og veitingu nýrra lána til stefnanda vegna kaupa hans á hlutum stefnda Miðbúðarinnar hafi komið í ljós að skekkja hafi frá upphafi verið í veðsetningum á hlutum í Byr sparisjóði milli Byr sparisjóðs og Landsbanka Íslands hf. Þessa skekkju hafi stefnandi leyst með því að setja Byr sparisjóði að veði fleiri stofnfjárhluti í sparisjóðnum ásamt öðrum tryggingum. Stefndu Miðbúðin og Símon hafi ekkert komið að lausn þessara mála, enda hafi þau verið þeim óviðkomandi. Engu skipti heldur fyrir úrslit máls þessa hvenær stefnandi hafi fært uppgjörið í bækur sínar. Hafi endanlegt samþykki Byrs sparisjóðs legið fyrir 10. október 2008 þá sé eðlilegt að taka það fram í samþykki sparisjóðsins hvaða vextir hafi fallið á lánið á þeim degi. Það breyti hins vegar ekki uppgjöri stefnanda við stefndu, þar sem áhættan af lánum hafi flust til stefnanda frá og með 18. ágúst 2008. Hið sama hafi gilt um áhættuna af stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði.
Stefndu telja að það sem hér hafi verið rakið beri með sér að hvorugur stefndi hafi fengið neitt fé að gjöf frá stefnanda. Hafi uppgjörið 18. ágúst 2008 falið í sér greiðslu skuldar með verðmætum sem hafi haft það verðgildi sem samið hafi verið um að þau hefðu þegar uppgjörið hafi farið fram. Uppgjörið hafi ekki haft í för með sér rýrnun á eignum stefnanda. Það hafi heldur ekki leitt til auðgunar stefndu og tilgangur þess hafi ekki verið sá að gefa heldur að eiga viðskipti með raunveruleg verðmæti sem fjármálafyrirtæki hafi tekið sem góð og gild veð. Þegar viðskiptin hafi farið fram hafi legið fyrir nýsamþykktur, endurskoðaður ársreikningur stefnanda, þar sem talið var að rúm væri fyrir arðgreiðslu að fjárhæð 500.000.000 króna, sem lánveitendur, eins og Landsbanki Íslands hf., hafi ekki gert neinar athugasemdir við að færu fram þegar stefnandi átti í samningaviðræðum við bankann frá febrúar til mars 2008 um hærri lán en það sem stefnandi hafi þurft að yfirtaka vegna samningsins við stefnda Miðbúðina 18. ágúst 2008. Eigið fé stefnanda hafi samkvæmt ársreikningum numið liðlega 15 milljörðum.
Stefndu byggja sýknukröfu sína í öðru lagi á því að 141. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við um lögskipti stefndu og stefnanda 18. ágúst 2008. Hafi stefnandi ekki sannað að riftunarskilyrði þessarar huglægu riftunarreglu séu til staðar. Stefndu telja þvert á móti að með samningnum 18. ágúst 2008 hafi stefnandi fengið í sinn hlut stofnfjárhluti í Byr sparisjóði sem hafi haft það verðgildi sem um hafi verið samið. Þetta hafi ekki aðeins verið mat stefnda Miðbúðarinnar og stefnanda, heldur einnig lánastofnana þeirra, sem hafi átt veð í viðkomandi stofnfjárhlutum og orðið að samþykkja stefnanda sem nýjan lántakanda eða veita stefnanda lán til að greiða upp lán stefnda Miðbúðar, sem tryggð hafi verið með veði í viðkomandi stofnfjárhlutum. Þeir aðilar, sem hafi þurft að veita samþykki sitt, hafi á þessum tíma einnig verið lánveitendur stefnanda. Kröfuhafarnir hefðu varla farið að samþykkja viðskiptin með stofnfjárhlutina og skuldskeytingu lánanna hefðu þeir talið samninginn ótilhlýðilegan til hagsbóta fyrir stefnda Miðbúðina á kostnað annarra, þ. á m. þeirra sjálfra, leiða til þess að eignir stefnanda yrðu ekki til reiðu þeim og öðrum kröfuhöfum til fullnustu eða leiða til skuldaaukningar þeim og öðrum kröfuhöfum til tjóns. Stefnandi hafi ekki verið ógjaldfær þegar samningurinn hafi verið gerður og hafi ekki orðið ógjaldfær vegna samningsins. Hefði svo verið hefðu fjármálafyrirtæki ekki samþykkt viðskiptin með stofnfjárhlutina í Byr sparisjóði og skuldskeytingu lánanna. Stefndu hafi ekkert þekkt til fjárhags stefnanda og ekki þurft að kynna sér hann í tengslum við samningsgerðina 18. ágúst 2008. Stefndu hafi ekkert heyrt frá stefnanda eða lánveitendum frá því samningurinn hafi verið gerður þangað til skiptastjóri stefnanda hafi látið birta þeim stefnu í máli þessu að kvöldi 28. desember 2012, þ.e. liðlega 52 mánuðum eftir samningsgerðina.
Stefndu telja jafnframt að Rannsóknarskýrsla Alþingis sé ekki sönnunargagn í máli þessu fremur en í öðrum einkamálum, eins og virðist byggt á af hálfu stefnanda í stefnu. Efnahagur stefnanda hafi án efa orðið fyrir höggi þegar íslenskt efnahagslíf hafi hrunið í kjölfar setningar neyðarlaganna 7. október 2008. Það breyti hins vegar engu fyrir mál þetta. Áhættan af kaupum stofnfjárhlutanna hafi flust til stefnanda 18. ágúst 2008.
Verði þrátt fyrir framangreint talið að rifta megi viðskiptum stefndu og stefnanda taka stefndu fram að þá eignist stefnandi endurgreiðslukröfu á hendur stefndu. Um þær kröfur gildi annars vegar 1. mgr. eða 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Stefndu taka fram að samkvæmt 1. mgr. 141. gr. verði þeir aðeins dæmdir til að greiða stefnanda fé sem svari til þess sem greiðsla stefnanda hafi orðið stefndu að notum. Stefndu hafi enga greiðslu fengið frá stefnanda sem hafi nýst þeim með einhverjum sérstökum hætti þannig að þeir hafi auðgast á kostnað stefnanda, enda hafi verið látin af hendi verðmæti sem stefnandi og viðskiptabanki hans hafi talið hafa það verðgildi sem samið hafi verið um. Stefnandi hafi ekki sannað, t.d. með matsgerð, að mat stefnanda á verðmæti stofnfjárhlutanna hafi verið rangt 18. ágúst 2008.
Stefndu taka einnig fram að samkvæmt 3. mgr. 143. gr. eigi sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun að greiða bætur eftir almennum reglum. Í þessu máli sé leitast við að rifta gagnkvæmum samningi sem gerður hafi verið 18. ágúst 2008 og krefjast bóta á þeim forsendum að hann hafi verið ótilhlýðilegur. Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda séu 4 ár sbr. 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Hann reiknist frá þeim degi sem kröfuhafi hafi fyrst getað átt rétt til efnda. Gagnkvæm efndaskylda stefnda og stefnanda hafi verið 18. ágúst 2008. Stefndi Miðbúðin hafi efnt samninginn gagnvart stefnanda þá og greitt stefnanda lánið frá 30. nóvember 2007 með stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði, sem stefnandi hafi metið sem fullgilda greiðslu, og Landsbanki Íslands hf. og Byr sparisjóður sem fullnægjandi tryggingu fyrir þeim lánum sem stefnandi hafi orðið að fá skuldskeytingu á til að efna samning sinn við stefnda. Áhættan af rýrnun stofnfjárhlutanna í Byr fluttist frá sama tíma til stefnanda og lánveitenda hans. Allar bótakröfur samkvæmt samningi þessum hafi verið fyrndar 18. ágúst 2012. Sé litið svo á að skaðabótakrafan sé ekki fyrnd telja stefndu ekkert liggja fyrir um það hvert tjón stefnanda sé samkvæmt almennum reglum. Á stefnanda hvíli sönnun þess.
Stefndu byggja einnig á því að fari svo ólíklega að riftunarkröfur stefnanda nái fram að ganga beri að færa bætur úr hendi stefndu niður með heimild í 145. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem það geti aldrei talist sanngjarnt að stefnandi, sem hafi borið alla áhættu af verðrýrnun stofnfjárhluta í sparisjóðnum Byr eftir 18. ágúst 2008, eigi liðlega 800 milljóna króna endurgreiðslukröfu á hendur stefndu 52 mánuðum eftir að viðskiptin hafi átt sér stað vegna þess eins að stefnandi hafi orðið gjaldþrota 14. mars 2012. Í því sambandi verði að horfa til þess m.a. að viðskiptin 18. ágúst 2008 hefðu aldrei getað átt sér stað nema vegna þess að Landsbanki Íslands hf. og Byr sparisjóður hafi samþykkt þau. Landsbanki Íslands hf. hafi lýst bróðurparti krafna í bú stefnanda ásamt Íslandsbanka hf. sem hafi tekið Byr sparisjóð hf. yfir eftir endurreisn bankakerfisins eftir hrun.
Stefndu byggja jafnframt á því að verði einhverjar fjárkröfur stefnanda teknar til greina eigi ekki að dæma stefndu til greiðslu dráttarvaxta, þar sem dómkrafa stefnanda um dráttarvexti sé hvorki í samræmi við ákvæði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 né ákvæði III. kafla og 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, hvað þá dómafordæmi Hæstaréttar Íslands um framsetningu dráttarvaxtakrafna í málum. Stefndi mótmælir því að stefnandi fái bætt úr þessum hnökrum á málatilbúnaði sínum. Ber dómara því að vísa dráttarvaxtakröfunni frá dómi án kröfu, enda verði hún ekki tekin upp óbreytt sem ályktunarorð dómsniðurstöðu í málinu. Engu breytir þó reynt sé að bæta úr þessum vanköntum á kröfugerðinni á síðu 14 í stefnu.
Um lagarök fyrir sýknukröfum vísa stefndu til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi stefnda Símon sérstaklega og varðandi báða stefndu til 3. gr., 2. mgr. 131. gr., 141. gr. og 1. og 3. mgr. 142. gr. sem og 145. gr. laga nr. 21/1991, 2. gr., sbr. 3. gr. sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, III. kafla, sbr. 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og d-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá byggja stefndu kröfu sína um málskostnað á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á ætlaðri gjöf hins gjaldþrota félags að fjárhæð 200.106.281 króna, aðallega til stefnda, Símonar Sigurðar Sigurpálssonar, en til vara til stefnda, Miðbúðarinnar fjárfestingarfélags ehf. Jafnframt krefst stefnandi riftunar á ætlaðri gjöf félagsins til stefnda Miðbúðarinnar að fjárhæð 421.116.255 krónur. Báðar þessar ráðstafanir eiga samkvæmt málatilbúnaði stefnanda rætur að rekja til kaupsamnings, dags. 18. ágúst 2008, milli stefnda Miðbúðarinnar og hins gjaldþrotafélags, um kaup þess síðarnefnda á stofnfjárhlutum í BYR sparisjóði. Kaupverð hlutanna var 608.956.746 krónur og skyldi kaupandinn greiða það meðal annars með skuldajöfnuði við kröfu hans á hendur seljanda, stefnda Miðbúðarinnar, að fjárhæð 200.106.281 króna. Jafnframt skyldi kaupandi taka yfir tvær lánsskuldbindingar seljanda hjá BYR sparisjóði annars vegar og Landsbanka Íslands hf. hins vegar, sem samtals námu 421.116.255 krónum. Upplýst er að ekki fóru fram eiginleg skuldaraskipti á láninu hjá Landsbanka Íslands hf., heldur mun hið gjaldþrota félag hafa tekið nýtt lán hjá bankanum og notað þá fjármuni til að greiða upp skuld stefnda Miðbúðarinnar.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stofnfjárhlutirnir, sem skiptu um hendur með samningnum, hafi verið einskis virði þegar kaupin fóru fram. Það er því afstaða stefnanda að með framangreindum ráðstöfunum hafi hið gjaldþrota félag fellt niður skuld stefnda Símonar við félagið um 200.106.281 krónu, yfirtekið skuld stefnda Miðbúðarinnar við BYR sparisjóð að fjárhæð 233.232.676 krónur og greitt skuld sama stefnda við Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 187.883.579 krónur, allt án þess að fá nokkur verðmæti í staðinn. Af þeim sökum telur stefnandi að líta verði á framangreindar ráðstafanir sem gjafagerninga sem riftanlegir séu á grundvelli 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Verði þessum ráðstöfunum ekki rift á þeim grundvelli telur stefnandi að rifta beri þeim með vísan til 141. gr. sömu laga.
Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin hefur verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Einnig má krefjast riftunar á gjafagerningi samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. sömu greinar ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Í síðari málslið 2. mgr. segir síðan að þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag. Með 1. gr. laga nr. 31/2010 var nýju ákvæði, 194. gr., bætt til bráðabirgða við lög nr. 21/1991. Þar kemur fram að þar sem kveðið sé á um tuttugu og fjögurra mánaða frest, meðal annars í 2. mgr. 131. gr. laganna, skuli sá frestur vera fjörtíu og átta mánuðir í þeim málum sem höfðuð eru fyrir árslok 2012.
Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu fyrir stefnda Símoni persónulega og fyrir hönd stefnda Miðbúðarinnar 28. desember 2012. Lenging riftunarfrestsins samkvæmt 194. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 31/2010, gildir einungis um gjafir til nákominna. Um nákomna er fjallað í sex töluliðum í 3. gr. laganna. Ákvæðinu var breytt með lögum nr. 95/2010. Þar sem atvik gerðust fyrir gildistöku þeirra verður að leysa úr því hvort aðilar séu nákomnir á grundvelli 3. gr. laganna eins og þau voru fyrir þá breytingu, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 95/2010.
Í stefnu er ekki vísað til ákveðins töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 í þessu sambandi. Eins og mál þetta er vaxið er augljóst að fyrstu þrír töluliðirnir koma ekki til álita, en þar er lýst persónulegum tengslum sem byggist á hjúskap, sambúð, skyldleika eða mægðum. Samkvæmt 4. og 5. tölulið 3. gr. laganna, eins og þeir hljóðuðu á þeim tíma sem hinir umdeildu gerningar fóru fram, valda tiltekin eignatengsl milli manns og félags eða tveggja félaga því að líta verður á þessa aðila sem nákomna. Það er óumdeilt að stefndu eða maður þeim nákominn hafi ekki átt hlut í hinu gjaldþrota félagi. Stefndi Miðbúðin var að öllu leyti í eigu stefnda Símonar og átti hið gjaldþrota félag því engan hlut í því. Skilyrðum 4. og 5. töluliður 3. gr. var því ekki fullnægt.
Í 6. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991 segir að með nákomnum sé einnig átt við menn, félög og stofnanir „sem eru í sambærilegum tengslum og um ræðir í 1. 5. tölul.“ Viðkomandi töldust ekki nákomnir samkvæmt ákvæðinu nema þau tengsl, sem voru til staðar á þeim tíma sem hér skiptir máli, væru lögð að jöfnu við þau persónulegu tengsl sem lýst er í 1. til 3. tölul. eða þau eignatengsl sem koma fram í 4. til 5. tölul. 3. gr. laganna.
Í máli þessu virðist stefnandi skírskota til þess að stefndu og hið gjaldþrotafélag og stjórnendur þess hafi verið í slíkum viðskipta- og vinatengslum að þeim verði jafnað til tengsla sem lýst er í 1. til 5. tölulið 3. gr. laganna, sbr. 6. tölulið sömu greinar. Í stefnu er um þetta einungis vísað til atriða er lúta að sameiginlegu eignarhaldi á öðrum félögum og stjórnarsetu stefnda Símonar og Páls Þórs Magnússonar, framkvæmdastjóra hins gjaldþrota félags, í þeim. Ályktun dómara um hvort tengsl aðila séu með þeim hætti að þeir séu nákomnir í skilningi 3. gr. laganna verður einungis reist á þeim atriðum, sbr. 5. mgr. 101. gr. og 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.
Í skýrslum sínum fyrir dómi kváðust stefndi Símon og Páll Þór þekkjast og vera kunningjar. Samkvæmt gögnum málsins munu þeir báðir hafa setið í stjórn VBS fjárfestingabanka hf. sem og í félögunum Búð ehf. og D-1 ehf. Upplýst var við aðalmeðferð málsins að félagið Búð ehf. eigi jörð og jarðarpart með aðgangi að laxveiðiá og að félagið hafi laxveiðiána á leigu frá veiðifélagi árinnar. Hins vegar könnuðust stefndi Símon og Páll Þór hvorugur við félagið D-1 ehf. Dómurinn fær ekki séð að tengsl af þessu tagi, sem byggjast á sameiginlegu eignarhaldi og stjórnarsetu í öðrum, óskyldum félögum, verði lögð að jöfnu við þau tengsl sem lýst er í 1. til 5. tölul. 3. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafa ekki verið færðar sönnur á að svo sterk vináttutengsl hafi verið milli stefnda Símonar og Páls Þórs að líta verði svo á að stefndu og hið gjaldþrota félag séu nákomnir aðilar í framangreindum skilningi.
Þar sem stefndu eru samkvæmt framansögðu ekki nákomnir hinu gjaldþrota félagi er einungis unnt að krefjast riftunar á hinum ætluðu gjafagerningum á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 ef gjafirnar voru afhentar tólf mánuðum fyrir frestdag eða síðar, sbr. fyrri málslið 2. mgr. 131. gr. laganna. Eins og rakið hefur verið er frestdagur við skiptin 26. janúar 2012. Stefnandi heldur því fram að gjafagerningarnir hafi átt sér stað rúmum þremur árum fyrir þann tíma. Skilyrðum er því ekki fullnægt til að rifta þessum gerningum á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi reisir kröfur sínar um riftun hinna tilgreindu ráðstafana jafnframt á 141. gr. laga nr. 21/1991. Þar kemur fram að krefjast megi riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verða ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Það er skilyrði fyrir riftun á grundvelli þessa ákvæðis að þrotamaðurinn hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar sem og að sá sem hag hafði af henni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.
Af framlögðum gögnum verður ráðið að stefndi Miðbúðin hafi keypt af MP-banka stofnfjárbréf í BYR sparisjóði að nafnverði 1.429.902 krónur hinn 23. nóvember 2007 fyrir 20.018.628 krónur. Samkvæmt kvittun fyrir viðskiptunum fór uppgjör fram 27. sama mánaðar, en þann sama dag innti stefndi Símon af hendi kaupverðið til seljanda ásamt þóknun, samtals 20.318.907 krónur. Stefndi Miðbúðin keypti sama dag stofnfjárbréf í sama sparisjóði að nafnverði 16.990.342,898 krónur af MP-banka fyrir 186.144.498 krónur. Samkvæmt kvittun fór uppgjör viðskiptanna fram 29. nóvember 2007, en daginn eftir, 30. nóvember 2007, greiddi stefndi Miðbúðin MP-banka kaupverðið ásamt þóknun, samtals 188.936.665 krónur. Af framlögðum bókhaldsgögnum verður ráðið að hið gjaldþrota félag, Sund hf., hafi fjármagnað síðargreindu kaupin og fært kröfuna inn á viðskiptareikning stefnda Símonar í bókhaldi stefnanda. Samkvæmt viðskiptayfirliti yfir kortareikning stefnda Símonar var kaupverð stofnfjárbréfanna ásamt þóknun tekin út af hans reikningi á greiðsludegi 30. nóvember 2007. Verður að leggja til grundvallar að stefndi Símon hafi með þessu lánað stefnda Miðbúðinni fyrir kaupum á fyrrgreindum stofnfjárbréfum í BYR-sparisjóði og notað til þess lánsfé frá hinu gjaldþrota félagi.
Ekki nýtur við ótvíræðra gagna um kaup stefnda Miðbúðarinnar á stofnfjárbréfum af Ellerti Vigfússyni. Af þeim verður þó ráðið að fyrrgreindur Ellert hafi um mitt ár 2007 keypt stofnfjárbréf, líklega í Sparisjóði Kópavogs, og fjármagnað kaupin með láni frá BYR sparisjóði, upphaflega að fjárhæð 244.448.000 krónur, sem skyldi endurgreiða 5. nóvember 2007. Sparisjóðurinn tók veð í stofnfjárhlutum í Sparisjóði Kópavogs að nafnverði 17.989.950 krónur. Sparisjóður Kópavogs og BYR sparisjóður munu hafa sameinast haustið 2007 og borið nafn þess síðarnefnda eftir það. Eins og rakið hefur verið yfirtók stefndi Miðbúðin umrædda skuldbindingu með yfirlýsingu um skuldskeytingu 7. febrúar 2008, en nýr höfuðstóll skuldarinnar nam þá 266.168.733 krónum. Þykir rétt að ganga út frá því að stefndi Miðbúðin hafi með þessum viðskiptum orðið eigandi þeirra stofnfjárhluta í BYR sparisjóði sem Ellert hafði áður átt.
Að auki kemur fram í greinargerð að stefndi Miðbúðin hafi tekið þátt í stofnfjáraukningu í BYR sparisjóði sem fram fór í desember 2007. Ekki liggja fyrir ítarleg gögn um þessi viðskipti. Þó má af fyrirliggjandi gögnum ráða að stefndi Miðbúðin hafi tekið lán hjá Landsbanka Íslands 21. desember 2007, sem virðist hafa verið notað til að fjármagna kaupin sem áttu rætur að rekja til stofnfjáraukningarinnar. Lán þetta nam 232 milljónum króna og mun hafa verið tryggt með handveði í stofnfjárbréfum í BYR sparisjóði að nafnverði 138.099.196 krónur.
Samkvæmt framansögðu stóð stefndi Miðbúðin að umtalsverðum kaupum á stofnfjárbréfum í BYR sparisjóði um áramótin 2007 til 2008. Í aðilaskýrslu stefnda Símonar fyrir dómi kom fram að hann hafi ekki haft áhuga á því að félagið ætti þessi stofnfjárbréf. Kvað hann munnlegt samkomulag hafa verið í gildi milli hans og hins gjaldþrota félags um að stefndi Miðbúðin ætti sölurétt á þessum stofnfjárbréfum til fyrrgreinda félagsins. Á þeim grundvelli hafi verið gengið út frá því að hið gjaldþrota félag yfirtæki bréfin um mitt ár 2008. Það hafi hins vegar dregist fram til 18. ágúst 2008.
Páll Þór Magnússon skýrði með hliðstæðum hætti frá framangreindu samkomulagi um sölurétt stofnfjárbréfanna til hins gjaldþrota félags. Kvað hann fyrrgreindan Ellert hafa átt sölurétt til félagsins en sá réttur hafi færst til stefnda Miðbúðarinnar þegar það félag hafi eignast bréfin. Jafnframt kom fram hjá honum að við það hafi verið miðað að hið gjaldþrota félag yfirtæki bréfin í byrjun árs eða um mitt árið 2008. Kvaðst vitnið hafa haft milligöngu um fjármögnun á kaupum Miðbúðarinnar á umræddum bréfum.
Eins og rakið hefur verið ber fyrrgreindur kaupsamningur um stofnfjárbréfin milli stefnda Miðbúðarinnar og hins gjaldþrota félags með sér að hafa verið undirritaður 18. ágúst 2008. Stefnandi byggir á því að samningurinn hafi í raun verið gerður síðar, eða 10. október 2008. Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu. Samningurinn er vottaður af Hrafnhildi Jóakimsdóttur, en stefnandi hefur ekki leitt hana fyrir dóm til að bera um það hvenær samningurinn var undirritaður. Páll Þór kvaðst hins vegar í skýrslu sinni fyrir dómi muna það vel að skrifað hafi verið undir samninginn 18. ágúst 2008, en þá eigi dóttir hans afmæli. Þá hafa stefndu lagt fram tölvuskeyti frá 18. ágúst 2008 þar sem Páll Þór leitar upplýsinga um stöðu láns Miðbúðarinnar hjá BYR sparisjóði á þeim degi. Starfsmaður sparisjóðsins svarar sama dag og upplýsir að svokallað uppgreiðsluverð lánsins nemi 233.232.676 krónum, en það er sama fjárhæð og kemur fram í kaupsamningnum. Jafnframt liggur fyrir í málinu skjal sem stafar frá starfsmanni Landsbanka Íslands hf. um stöðu lánsins frá bankanum hinn 18. ágúst 2008. Námu eftirstöðvarnar samtals 195.488.065 krónum. Með tveimur kaupsamningum, sem báðir eru dagsettir 18. ágúst 2008, yfirtók hið gjaldþrota félag 187.883.579 krónur af framangreindum eftirstöðvum lánsins, en stefndi Símon 7.604.486 krónur.
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur dómurinn að ganga verði út frá því að dagsetningin sé rétt í kaupsamningnum, enda hefur stefnanda ekki tekist að færa sönnur á annað. Hinn 18. ágúst 2008 komst því á bindandi samningur milli stefnda Miðbúðarinnar og hins gjaldþrota félags um kaup þess síðarnefnda á umræddum stofnfjárhlutum í BYR sparisjóði fyrir umsamið kaupverð, 608.956.746 krónur, sem meðal annars skyldi greiða með því að kaupandinn tæki yfir fyrrgreinda skuldbindingu seljanda hjá sparisjóðnum og meginhluta skuldbindingar hans hjá Landsbanka Íslands hf. Að auki skyldi kaupverðið greitt að hluta með skuldajöfnuði á móti „skuld seljanda við kaupanda samtals kr. 200.106.281“. Ljóst er að stefndi Miðbúðin skuldaði ekki hinu gjaldþrota félagi 200.106.281 krónu heldur stefndi Símon. Eftir sem áður liggur fyrir, eins og að framan greinir, að stofnað var til þeirrar skuldar til að fjármagna kaup Miðbúðarinnar á stofnfjárbréfum í BYR sparisjóði. Þó að ekki liggi fyrir gögn um það verður að ætla að með kaupsamningnum, þar sem skuldin var notuð til skuldajafnaðar á móti kaupverði stofnfjárbréfanna, hafi skuld stefnda Miðbúðarinnar við hann fallið niður.
Í málinu liggur fyrir að nokkur dráttur hafi orðið á því að framangreindur kaupsamningur væri efndur að öllu leyti. Þannig verður ekki annað séð en að skuldskeyting lánssamningsins við BYR sparisjóð hafi verið afgreidd 10. október 2008, eins og áritun á forsíðu lánssamningsins ber með sér. Þá verður enn fremur að leggja til grundvallar að viðskiptin samkvæmt samningnum hafi ekki verið færð til bókar í bókhaldi hins gjaldþrota félags fyrr en 10. október 2008.
Hvað sem þessu líður virðist stefndi Símon ekki hafa tekið annan þátt í fyrrgreindum viðskiptum en að samþykkja þau fyrir hönd stefnda Miðbúðarinnar með undirritun sinni á kaupsamninginn 18. ágúst 2008, sem varð þá skuldbindandi fyrir báða samningsaðila. Eins og atvikum er háttað telur dómurinn að leggja verði mat á þau atriði sem þýðingu hafa samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 eins og þau horfðu við á þeim degi, en ekki 10. október 2008. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hið gjaldþrota félag, sem var tekið til gjaldþrotaskipta 14. mars 2012, hafi verið ógjaldfært 18. ágúst 2008, hvað þá að stefnda Símon hafi þá átt að gruna að svo væri eða mátt vita að umræddar ráðstafanir væru ótilhlýðilegar. Hvað síðast greinda atriðið varðar er meðal annars litið til þess að stefnandi hefur ekki leitt í ljós að stefndi Símon hafi mátt gera sér grein fyrir því 18. ágúst 2008 að verðmæti stofnfjárbréfanna væri verulega lægra en gengið var út frá í samningi aðila. Af þessum sökum er ekki fallist á að skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 séu fyrir hendi.
Samkvæmt framansögðu er skilyrðum ekki fullnægt til að rifta þeim ráðstöfunum sem um er deilt í málinu á grundvelli 131. gr. eða 141. gr. laga nr. 21/1991. Því ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað. Með hliðsjón af ágreiningsefninu og umfangi málsins þykir hann hæfilega ákveðinn 450.000 krónur til stefndu hvors um sig. Við þá ákvörðun hefur verið virt til lækkunar málskostnaðar að málflutningur fór fram um kröfu stefndu um frávísun málsins, sem var hafnað með úrskurði 31. október 2013, en ákvörðun málskostnaðar látinn bíða lokaniðurstöðu málsins.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Símon Sigurður Sigurpálsson og Miðbúðin fjárfestingarfélag ehf., eru sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, þrotabús IceCapital ehf.
Stefnandi greiði hvorum stefndu 450.000 krónur í málskostnað.