Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 3. febrúar 2009. |
|
Nr. 36/2009. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn X (Jón Höskuldsson hrl.) |
Kærumál. Framsal. Frávísun máls frá Hæstarétti.
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra um að X yrði framseldur pólskum yfirvöldum. Í skriflegri kæru X var ekki að finna lýsingu á þeim ástæðum sem kæran var reist á, eins og áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2009, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra 28. október 2008 um að varnaraðili yrði framseldur pólskum yfirvöldum. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og breytt á þann veg að fallist verði á kröfu hans um að fyrrgreind ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra verði felld úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 24. gr. laga nr. 13/1984 sæta úrskurðir þeir sem kveðnir eru upp samkvæmt þeim lögum kæru til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Í 1. mgr. 193. gr. þeirra laga segir að héraðsdómari leiðbeini þeim sem ekki nýtur aðstoðar lögmanns um rétt til að kæra úrskurð og um kærufrest. Í 2. mgr. greinarinnar segir að vilji maður kæra úrskurð skuli hann lýsa því yfir innan þriggja sólarhringa frá því að hann fékk vitneskju um úrskurðinn. Sé kæru lýst yfir á dómþingi megi kærandi láta við það sitja að bókað verði um hana í þingbók, þar á meðal í hvaða skyni kært sé. Að öðrum kosti skuli hann afhenda héraðsdómara skriflega kæru þar sem greina skuli frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæðum sem kæra er reist á.
Varnaraðili var ásamt verjanda sínum viðstaddur uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Kæru var ekki lýst á dómþinginu heldur bókað að varnaraðili tæki sér kærufrest. Skrifleg kæra barst héraðsdómi 16. janúar 2009. Í henni er ekki að finna lýsingu á þeim ástæðum sem kæran er reist á eins og nú er áskilið í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Eru því slíkir annmarkar á framkominni kæru að vísa verður málinu frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2009.
Með bréflegri kröfu, sem dagsett er 11. desember sl. og þingfest var 8. þm. hefur ríkissaksóknari krafist þess að staðfest verði ákvörðun dómsmálaráðuneytis 28. október sl. um það að varnaraðili, X, kt. [...], [heimilisfang] hér í borg, pólskur ríkisborgari, verði framseldur pólskum yfirvöldum. Kröfunni er mótmælt.
Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili dvalið hér á landi á þriðja ár og fram er komið að hann er hér í fastri vinnu og á hér föður, bróður og kærustu. Upphaf málsins var það að varnaraðili var handtekinn hér á landi 4. ágúst sl. þegar pólsk yfirvöld höfðu lýst eftir honum í Schengen-upplýsingakerfinu. Í kjölfarið var tilkynning send til yfirvalda í Póllandi um að hann hefði verið handtekinn hér á landi og þess óskað að nauðsynleg gögn vegna málsins yrðu send dómsmálaráðuneytinu. Ráðuneytinu barst svo beiðni pólskra yfirvalda, dagsett 26. ágúst sl. um að varnaraðili yrði framseldur héðan vegna óafplánaðrar refsingar. Í hinni pólsku framsalsbeiðni kemur fram að varnaraðili var með dómi héraðsdóms Bialystok í Póllandi, 9. júní 2005, dæmdur í 16 mánaða fangelsi fyrir brot á 2. mgr. 46. gr. pólskra ávana- og fíkniefnalaga, með því að hafa á tímabilinu janúar til desember 2004 selt nafngreindum aðilum kannabisefni og fyrir brot gegn 48. gr. sömu laga með því að hafa í janúar 2005 haft í vörslum sínum 19,36 g af kannabis. Dómur þessi var staðfestur af áfrýjunardómstóli í Bialystok 20. október sama ár. Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglu 5. september sl. og kannaðist hann þá við að dómur þessi varðaði hann. Ráðuneytið sendi samdægurs ríkissaksóknara mál þetta til meðferðar samkvæmt lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13, 1984. Ríkissaksóknari sendi dómsmálaráðuneytinu umsögn sína með bréfi dags. 15. september, þar sem segir að uppfyllt séu skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laganna.
Næst er þess að geta að pólsk yfirvöld sendu dómsmálaráðherra aðra framsalsbeiðni á hendur varnaraðila, dagsetta 11. september sl. vegna þriggja skilorðsdóma á árunum 2004 og 2005 sem óafplánaðir eru. Var þar í fyrsta lagi um að ræða dóm héraðsdóms Bialystok 13. febrúar 2004 fyrir brot á 1. mgr. 280. gr., sbr. 1. mgr. 13. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa 24. október 2003 með ofbeldi og hótun um ofbeldi gert tilraun til að ræna gsm síma af nafngreindum aðila. Refsing var ákveðin fangelsi í tvö ár, skilorðsbundið til fjögurra ára. Dómurinn var staðfestur af áfrýjunardómstól í Bialystok þann 16. september 2004. Í öðru lagi var um að ræða dóm héraðsdóms Bialystok uppkveðinn 12. október 2004 þar sem varnaraðili var sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 291. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa í júlí 2004 keypt gsm síma af óþekktum aðila brátt fyrir að vita að síminn væri illa fenginn. Refsing var ákveðin fangelsi í sex mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár. Loks var krafist framsals vegna dóms héraðsdóms Bialystok uppkveðins 4. janúar 2005 en þá var hann sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 278. gr. pólskra hegningarlaga með bví að hafa 24. júlí 2004 stolið gullhálsfesti. Refsing var ákveðin 10 mánaða fangelsi, skilorðsbundið i fimm ár og 50 daga sektareiningar. Fyrir liggur að 23. ágúst 2006 felldi héraðsdómurinn í Bialystok niður skilorð þessara dóma með ákvörðun í samræmi við þarlend lög þar sem varnaraðili hafði á árinu 2004 gerst sekur um brot gegn fíkniefnalöggjöf og auk þess dæmdur í óskilorðsbundna fangelsisrefsingu 9. júní 2005, eins og fyrr sagði.
Ríkissaksóknara var send þessi síðari framsalsbeiðni til meðferðar og var varnaraðila kynnt hún hjá lögreglu 17. október. Kannaðist hann við að málin vörðuðu hann að undanskyldu því fyrst talda. Sendi ríkissaksóknari dómsmálaráðuneytinu umsögn sína vegna málsins 24. s.m., þar sem fram kemur það álit embættisins að skilyrði til þess að framselja varnaraðila væru uppfyllt. Dómsmálaráðuneyti tilkynnti með bréfi til ríkissaksóknara 28. október sl. að ákveðið hefði verið að verða við beiðni pólskra yfirvalda og framselja varnaraðila þeim í hendur. Bréfið hljóðar svo: “Ráðuneytið vísar til fyrri bréfaskipta er varða beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal þarlends ríkisborgara, X, f. 12. mars 1986, til fullnustu refsidóms, sbr. síðast greinargerðir ríkissaksóknara til ráðuneytisins, dags. 15. september sl. og 24. október sl. Í tilvísuðum greinargerðum kemur fram að háttsemi sú er X er gefin að sök myndi hér á landi varða við, annars vegar 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og gæti samkvæmt því varðað fangelsi allt að 6 árum og hins vegar 252. gr., sbr. 1. mgr. 20., 254. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gæti samkvæmt því varðað fangelsi allt að 16 árum. Samkvæmt fyrrnefndum greinagerðum ríkissaksóknara eru brotin ófyrnd, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 81. gr. hegningarlaga.
Með vísan til 17. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984, hefur dómsmálaráðuneytið ákveðið að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja X til Póllands.
Þess er hér með farið á leit að þér komið framangreindri ákvörðun ráðuneytisins á framfæri við X í samræmi við tilvitnuð lög eins fljótt og kostur er.
Meðfylgjandi eru gögn málsins.”
Ákvörðun þessi var kunngerð varnaraðila 2. desember sl. og með bréfi verjanda varnaraðila sama dag var þeirri ákvörðun skotið til héraðsdóms Reykjavíkur.
Varnaraðili hefur, sem fyrr segir, mótmælt kröfu ríkissaksóknara og krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að hann verði framseldur. Byggir hann kröfu sína aðallega á því að ekki sé unnt að heimila framsal vegna þriggja síðast töldu dómanna, enda hafi skilorð þeirra einungis verið fellt niður með ákvörðun en ekki með dómi. Þá verði ekki séð af gögnum málsins að sú ákvörðun hafi á sínum tíma verið birt fyrir varnaraðila. Loks er því borið við að hagir varnaraðila, þ.e. að hann sé í fastri vinnu og eigi hér föður, bróður og unnustu, séu með þeim hætti að rétt sé að synja um framsal af mannúðarástæðum, sbr. 7. gr. framsalslaganna. Er í því sambandi auk þess fundið að því að ráðuneytið hafi, þegar það ákvað að framselja skyldi varnaraðila, ekki fjallað um þessa hlið málsins.
Niðurstaða
Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. framsalslaga er heimilt að framselja mann til fullnustu á dómi ef refsing samkvæmt dóminum er minnst fjögurra mánaða fangelsi. Hver og einn hinna fjögurra dóma sem um ræðir uppfyllir þetta skilyrði laganna og brotin eru ófyrnd samkvæmt íslenskum lögum. Þá skiptir það ekki máli hér hvort varnaraðila hafi, áður en til framsalsbeiðninnar kom, verið birt ákvörðun héraðsdómsins í Bialystok um að fella niður skilorð dómanna þriggja. Loks er þess að geta að pólsk lög hljóta hér að ráða því hvernig slík ákvörðun skuli tekin, hvort það skuli gert með dómi eða á annan hátt.
Samkvæmt 7. gr. framsalslaga er heimilt að synja um framsal manns ef mannúðarástæður mæla með því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar ástæður. Dómurinn fær ekki séð að hagir ákærða séu slíkir að þetta ákvæði laganna taki til hans. Þá getur það heldur ekki valdið ónýtingu ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins að ekki hafi verið talin ástæða til þess að fjalla sérstaklega um þessa hlið málsins í bréfinu 28. október sl.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið eru hvorki efnis- né formgallar á meðferð máls þessa og ber því að staðfesta ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 28. október 2008 um það að varnaraðili skuli framseldur dómsmálayfirvöldum í Póllandi. Þóknun til verjanda varnaraðila, 393.821 krónu, að meðtöldum virðisaukaskatti, ber samkvæmt 2. mgr. 16. gr. framsalslaga að greiða úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, 28. október 2008, um það að varnaraðili, X, kt. kt. [...], [heimilisfang] hér í borg, pólskur ríkisborgari, verði framseldur pólskum yfirvöldum.
Þóknun til verjanda varnaraðila, 393.821 króna, greiðist úr ríkissjóði.