Hæstiréttur íslands

Mál nr. 461/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför


 

Miðvikudaginn 22. ágúst 2012.

Nr. 461/2012.

Drómi hf.

(Bjarki Már Baxter hdl.)

gegn

Önnu Dagrúnu Pálmarsdóttur

(enginn)

 

Kærumál. Aðför.

D hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að stöðva gerð í aðfararmáli D hf. gegn Ö. Við fyrirtöku aðfararbeiðninnar var bókað í gerðabók, „Með tilliti til dóms Hæstaréttar nr. 600/2011 er ekki ljóst hvort og hversu há vanskil gerðarþola eru. Sýslumaður ákveður að stöðva gerðina“. Í dómi Hæstaréttar kom fram að aðfararbeiðni D hf. hefði fullnægt formkröfum 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989 og að ekki hefði legið fyrir að beiðninni yrði ekki fullnægt samkvæmt efni sínu, sbr. 1. mgr. 17. gr. sömu laga. Því hefði sýslumaður ekki átt að stöðva aðfarargerðina af sjálfsdáðum og var ákvörðun hans felld úr gildi. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2012 sem barst  réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2012, þar sem staðfest var sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 28. febrúar 2012 að stöðva gerð í aðfararmáli sóknaraðila gegn varnaraðila nr. 011-2012-00477. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumann að framkvæma fjárnám hjá varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili krafðist fjárnáms með aðfararbeiðni sem móttekin var af sýslumanninum í Reykjavík 1. febrúar 2012 til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi útgefnu 28. mars 2008. Skuldari er tilgreindur Jónas Þór Þorvaldsson en varnaraðili er tilgreindur sem veðsali. Segir í beiðninni að tvö tryggingarbréf með veði í fasteign varnaraðila, Bakkastöðum 47, Reykjavík, séu að baki áðurnefndu skuldabréfi. Beiðnin var gerð að undangengnum greiðsluáskorunum sem birtar voru fyrir Jónasi Þór og varnaraðila 15. nóvember 2011. Í aðfararbeiðni er höfuðstóll skuldar tilgreindur á sama hátt og í greiðsluáskorunum og skuldin sundurliðuð í höfuðstól, dráttarvexti og nánar tilgreinda kostnaðarliði. Heildarfjárhæð skuldarinnar er sögð vera 60.344.182 krónur. Þar kemur einnig fram að lánið hafi verið í erlendri mynt að jafnvirði ,,ISK 38.000.000“ og að baki því séu tvö tryggingarbréf. Jafnframt kemur fram að búið sé að endurreikna lánið í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum nr. 471/2010, 603/2010 og 604/2010 og lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010. Þá segir einnig: ,,Lánið er í vanskilum frá 20. 4. 2011.“ Sóknaraðili hefur upplýst að aldrei hafi verið greitt af láninu en fyrsti gjalddagi þess hafi verið 1. apríl 2009. Ástæða hinna tilvitnuðu orða sé sú að staða lánsins hafi verið endurútreiknuð miðað við tilvitnaðan dag og sá endurútreikningur birtur skuldara. Honum hafi, samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, verið óheimilt að krefjast dráttarvaxta vegna vanskila fram að framkvæmd endurútreiknings. Því hafi með tilvitnuðum orðum verið vísað til þess að lánið hafi verið í vanskilum og gjaldfallið þegar endurútreikningurinn var kynntur varnaraðila og dráttarvextir verði því reiknaðir frá þeim degi.

Sýslumaður boðaði varnaraðila til fjárnáms 7. febrúar 2012 og Jónas Þór í öðru máli sama dag. Varnaraðili mætti ekki þegar aðfararbeiðnin gegn henni var tekin fyrir hjá sýslumanni. Hún lét málið heldur ekki til sín taka fyrir héraðsdómi.

Beiðni sóknaraðila um aðför fullnægði formkröfum 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989. Ekki lá fyrir að beiðninni yrði ekki fullnægt samkvæmt efni sínu, sbr. 1. mgr. 17. gr. sömu laga, og voru því ekki að lögum skilyrði til þess að sýslumaður stöðvaði  aðfarargerðina af sjálfsdáðum. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi tilgreinda ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík.

Varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Felld er úr gildi sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 28. febrúar 2012 að stöðva gerð í aðfararmáli nr. 011-2012-00477, sóknaraðila, Dróma hf., gegn varnaraðila, Önnu Dagrúnu Pálmarsdóttur.

Varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, 300.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2012.

Með tilkynningu, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. mars sl., var þessu máli skotið til dómsins. Sóknaraðili, Drómi hf., kt. 710309-1670, Lágmúla 2, Reykja­vík, krefst þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 28. febrúar 2012, að stöðva gerð í máli nr. 011-2012-00477 og lagt verði fyrir sýslumann að halda gerðinni áfram og gera fjárnám í eignum varnaraðila.

Sóknaraðili krefst enn fremur málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili, Anna Dagrún Pálmarsdóttir, kt. 131268-4169, Bakkastöðum 47, Reykja­vík, hefur ekki látið málið til sín taka þrátt fyrir lögmæta boðun.

Sýslumaðurinn í Reykjavík nýtti sér heimild, sem honum er veitt í 5. mgr. 86. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, til að senda héraðsdómara athugasemdir sínar varðandi álita­efni þessa máls með bréfi, dags. 9. maí 2012.

Málsatvik

Eiginmaður varnaraðila, Jónas Þór Þorvaldsson, tók lán hjá Sparisjóði Reykja­víkur og nágrennis hf., að fjárhæð 38.000.000 kr., með skuldabréfi útgefnu 28. mars 2008. Lánið var í íslenskum krónum og gengistryggt þannig að ekki samrýmdist 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt skilmálum skulda­bréfs­ins skyldi end­ur­greiða lánið á þremur gjalddögum á tólf mánaða fresti, fyrst 1. apríl 2009. Sóknar­aðila var heimilt að skuldfæra reikning Jónasar, nr. 1150-26-30321, á gjald­dögum lánsins.

Að sögn sóknaraðila reyndist ekki innstæða fyrir afborguninni auk vaxta á fyrsta gjalddaga lánsins. Þá hafi 15 milljón króna yfirdráttarheimild Jónasar á reikn­ingnum nánast verið fullnýtt eins og framlagt yfirlit yfir stöðu bankareiknings hans sýni. Samkvæmt 5. gr. skilmála skuldabréfsins var skuldin þar með öll fallin í gjald­daga án uppsagnar eða tilkynningar. Tilraunir sóknaraðila til að fá Jónas til að semja um uppgjör skuld­ar­innar eða nýja greiðsluskilmála hafi ekki borið árangur. Jónas hafi ekki greitt eina krónu af skuld sinni við sóknaraðila frá því krafan stofnaðist.

Til tryggingar greiðslu skuldabréfsins setti Jónas tvö tryggingarbréf. Annars vegar tryggingarbréf, útgefið 5. janúar 2007, að fjárhæð 35.000.000 kr., bundið vísi­tölu neysluverðs með grunnvísitöluna 266,20. Tryggingarbréfið hvílir á 3. veð­rétti fast­eignar varnaraðila að Bakkastöðum 47 í Reykjavík. Hins vegar trygg­ing­ar­bréf, útgefið 30. maí 2007, að fjárhæð 50.000.000 kr., bundið vísitölu neyslu­verðs með grunn­vísi­töluna 268,70, sem hvílir á 4. veðrétti sömu fasteignar.

Með aðfararbeiðni, dags. 30. janúar 2012, krafðist sóknaraðili þess að Sýslu­maður­inn í Reykjavík gerði fjár­nám hjá varnaraðila í eignarhluta hennar í fasteigninni fyrir skuld Jónasar sem þá nam sam­tals 53.760.652 kr. auk dráttar­vaxta og kostnaðar eftir að skuldin hafði verið endur­reiknuð í samræmi við lög og dóma Hæstaréttar. Hvorki Jónas né umboðs­maður hans mættu við fyrirtöku aðfar­ar­beiðninnar hjá sýslu­manni, 28. febrúar 2012, þrátt fyrir boðun. Sýslu­maður ákvað, engu að síður, að stöðva gerðina að eigin frum­kvæði með svo­felldri bókun:

 Með tilliti til dóms Hæstaréttar nr. 600/2011 er ekki ljóst hvort eða hversu há vanskil gerðarþola eru. Sýslumaður ákveður því að stöðva gerðina.

Sóknaraðili fellst ekki á afstöðu sýslumanns og krefst þess að ákvörðun hans verði felld úr gildi. Sóknaraðili kveðst ekki með neinu móti geta fallist á að dómur Hæsta­réttar í máli nr. 600/2011 hafi nokkur áhrif á þetta mál eða stöðu skuldar Jónasar gagn­vart sóknaraðila, enda hafi þessi dómur Hæstaréttar fyrst og fremst fjallað um þýð­ingu svokallaðra fullnaðarkvittana eða ígildis þeirra við framsetningu við­bótar­krafna lánveitenda vegna vaxta á hendur lánþegum með íslensk gengistryggð lán. Eins og áður hafi komið fram hafi Jónas aldrei greitt af láninu og af því leiði, eðli máls­ins sam­kvæmt, að hann hafi aldrei fengið afhentar fullnaðarkvittanir eða ígildi þeirra. Lán Jónasar hafi verið endurreiknað í samræmi við niðurstöðu Hæsta­réttar í máli nr. 471/2010 og lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og því hafi sýslu­maður ekki haft nein efni til þess stöðva gerðina.

Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 21. mars 2009, hafi sóknaraðili, Drómi hf., tekið við öllum eignum og öðrum réttindum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., þar með talið því skuldbréfi sem aðfararbeiðnin styðst við.

Sóknaraðili vísar til þess að 16. september 2010, í máli nr. 471/2010, hafi Hæsti­réttur kveðið upp stefnu­markandi dóm um vaxtaskilmála gengistryggðra lána. Í stuttu máli hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að LIBOR-vaxtakjör af gengis­bundnu láni hefðu ekki getað komið til álita nema vegna gengis­trygg­ingar þess, sem hefði verið dæmd ólögmæt í dómum Hæsta­réttar, 16. júní 2010, í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Þegar virt væri að ákvæði um gengis­tryggingu í samningi aðilanna væri ógilt og bein og órjúfanleg tengsl væru milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti, væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrir­mæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lægi fyrir að á millibankamarkaði í London hefðu aldrei verið skráðir LIBOR-vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um hundraðshluta vaxta. Í þeim samn­ingi, sem málið varðaði, væri hins vegar ákveðið að skuldin bæri vexti. Hafi réttur­inn komist að þeirri niðurstöðu að þeir skyldu fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu allt frá því að krafan stofnaðist.

Í kjölfar dómsins hafi lögum nr. 38/2001 verið breytt með lögum nr. 151/2010. Með breytingunni hafi meðal annars verið lögfest á hvaða hátt skyldi endurreikna gengis­tryggð lán, sbr. núgildandi 5. mgr. 18. gr. laganna, sem byggist á framan­greindum dómi í máli nr. 471/2010. Í stuttu máli fari endur­útreikningurinn þannig fram að upp­haf­legur höfuðstóll gengistryggðra lána, miðað við íslenskar krónur, sé vaxta­reiknaður miðað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum á hverjum tíma, sbr. 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Frá þeirri fjárhæð dragist greiðslur, sem lán­taki hafi innt af hendi (það er afborganir af höfuð­stól, vextir, dráttarvextir og van­skila­álögur), vaxta­reikn­aðar frá greiðsludegi til við­mið­unar­dags endurútreiknings, miðað við sömu vexti. Þannig útreiknuð fjárhæð myndi eftir­stöðvar lánanna, það er nýjan höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Sam­kvæmt ákvæðinu sé kröfuhöfum ekki heimilt að krefjast dráttar­vaxta jafnvel þótt vanskil hafi verið á lánstímanum.

Lán Jónasar hafi verið endurreiknað á framangreindan hátt en eðli málsins sam­kvæmt hafi ekki komið til þess að greiðslur inn á lánið yrðu dregnar frá endur­reikn­uðum höfuðstól lánsins. Endurútreikningurinn hafi verið kynntur Jónasi 19. apríl 2011.

Í dómi Hæstaréttar, 15. febrúar 2012, í máli nr. 600/2011 hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að lánveitendum væri óheimilt að krefjast viðbótar­greiðslna aftur í tímann vegna vangreiddra vaxta í þeim tilvikum þegar lántakar hafi staðið í skilum með þær greiðslur sem lánveitandinn hafði krafið þá um á grundvelli greiðslu­seðla og lán­takarnir því greitt svokallaðar fullnaðargreiðslur og fengið fyrir þeim fulln­að­ar­kvitt­anir eða ígildi þeirra. Þá hafi sérstaklega verið tiltekið í V. kafla dóms­ins, í umfjöllun um fyrrnefnd breytingalög nr. 151/2010, að með almennum lögum væri ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti sem á reyndi í málinu, „að hrófla með aftur­virkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt. Færi slíkt í bága við þá vernd eignar­rétt­inda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar.“

Í kjölfar dómsins hafi skapast óvissa um endurútreikning gengistryggðra lána. Vegna óvissunnar hafi sýslumannsembætti landsins almennt stöðvað, að eigin frum­kvæði, aðfarargerðir og nauðungarsölur í þeim tilvikum sem lán kunni að falla undir dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 og óvissa kunni að vera uppi um stöðu lána og van­skil. Sóknaraðili hafi ekki gert athugasemdir við þá framkvæmd.

Athugasemdir sýslumanns

Í athugasemdum sínum til héraðsdóms vísar sýslumaður til þess að í 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför sé áskilið að í aðfararbeiðni sé tiltekið nákvæmlega hvers sé krafist með aðfarargerð. Jafnframt skuli, sé krafist aðfarar til fullnustu kröfu um greiðslu pen­inga, sundurliða fjárhæð hennar svo sem þá sé kostur. Aðfararheimild sókn­ar­aðila sé gengis­tryggt skuldabréf. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 sé lán­veit­anda óheimilt að krefjast viðbótargreiðslna aftur í tímann vegna vaxta í þeim tilvikum þar sem við­kom­andi lántakar hefðu staðið í skilum og gefin hefði verið út fulln­aðar­kvittun.

Fyrsti gjalddagi skuldabréfsins, sem aðfarar­heimildin byggist á, sé 1. apríl 2009 en vanskil séu, samkvæmt aðfararbeiðninni, sögð vera frá 20. apríl 2011. Því geti sýslu­maður ekki annað séð af gögnum málsins en að lántaki hafi greitt af bréfinu í ein­hvern tíma og því þurfi að líta til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 til að fá rétta stöðu á kröfu sóknaraðila. Þar sem sá útreikningur liggi ekki fyrir verði ekki talið að sund­ur­liðun á kröfu sóknaraðila fullnægi skilyrðum 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili telur ótvírætt að lán Jónasar falli ekki undir framan­greindan dóm og því hafi sýslumaður ekki haft nein efni til að stöðva gerðina. Eins og að framan sé rakið hafi Jónas ekki greitt eina krónu af láni sínu, hvorki í vexti né afborgun af höfuð­stól þess. Af því leiði að dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 hafi ekki nein áhrif á stöðu skuldar Jónasar, enda hafi hann hvorki fengið fullnaðar­kvittanir né ígildi þeirra. Að sama skapi sé fullljóst að fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, um að í stað LIBOR-vaxta skuli gengistryggð lán bera vexti sem á hverjum tíma skuli vera jafn­háir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, standi óhaggað og hafi verið ítrekað í seinni dómum réttarins svo sem í fyrrnefndum dómi í máli nr. 600/2011. Eins og áður hafi verið rakið hafi lán Jónasar verið endur­reiknað á grund­velli dómsins og laga nr. 38/2001 og greiðsluáskorun og aðfar­ar­beiðni stuðst við stöðu skuld­ar­innar eftir þann endurútreikning.

Við fyrirtöku málsins, 9. maí sl., hafi verið lagðar fram athugasemdir Sýslu­manns­ins í Reykjavík samkvæmt 5. mgr. 86. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, vegna málsins. Í athuga­semdunum segi meðal annars að af gögnum málsins „verði ekki annað séð en að greitt hafi verið af bréfinu í einhvern tíma“. Það sé rangt, eins og áður sé rakið. Hvergi í gögnum málsins komi fram að greitt hafi verið af láninu og sé ályktun sýslu­manns um annað byggð á misskilningi eins og að framan sé rakið.

Í greiðsluáskorun og aðfararbeiðni segi, eins og sýslumaður bendi á, að lán Jónasar sé í vanskilum frá 20. apríl 2011. Sú setning byggist á því að lánið hafi verið endur­reiknað eins og áður greinir og endurútreikningurinn verið birtur Jónasi 19. apríl 2011. Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 sé sóknaraðila óheimilt að krefjast drátt­ar­vaxta vegna vanskila við framkvæmd endurútreikningsins. Því hafi sókn­ar­aðili með setningunni „Lánið er í vanskilum frá 20. apríl 2011“ verið að vísa til þess að lánið var í vanskilum og gjaldfallið þegar endurútreikningurinn var kynntur Jónasi og drátt­ar­vextir, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu, því reiknaðir frá þeim degi.

Í 10. gr. laga um aðför, sem sýslumaður vísi til í fyrrnefndu bréfi, segi að í aðfararbeiðni skuli meðal annars koma fram hverjir séu aðilar gerðarinnar og við hverja heimild hún styðjist. Þá skuli einnig tiltekið nákvæmlega hvers sé krafist með aðfarar­gerð og sé krafist aðfarar til fullnustu kröfu um peningagreiðslu, skuli sundur­liða fjár­hæð hennar svo sem þá sé kostur. Aðfararbeiðni í þessu máli fullnægi þessum áskilnaði öllum, enda skýrlega tiltekið að lánið sé endurútreiknað og sé vísað til þeirra heim­ilda sem endurútreikningurinn styðjist við og að framan sé gerð grein fyrir. Þá sé sund­ur­liðun skuldarinnar í samræmi við áskilnað ákvæðisins og venju við gerð aðfar­ar­beiðna. Aðfararbeiðnin uppfylli því öll skilyrði 10. gr. laga um aðför.

Til viðbótar við framangreint telji sóknaraðili að Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi farið út fyrir lagaheimildir við stöðvun gerðarinnar. Eins og áður sé rakið hafi varn­ar­aðili hvorki mætt við fyrirtöku beiðninnar né látið mæta fyrir sig. Við þær aðstæður standi heimildir sýslumanns aðeins til þess að kanna hvort skilyrðum 1. mgr. 17. gr. og 24. gr. laga um aðför sé fullnægt. Sýslumanni sé hins vegar ekki heimilt á grund­velli laga um aðför að leggja sjálfstætt mat á aðfararbeiðni og bera upp á tiltekna dóma Hæstaréttar í ósambærilegum málum og stöðva þannig aðfarargerðir til tjóns fyrir kröfuhafa. Með því sé sýslumaður kominn út fyrir heimildir sínar sam­kvæmt lögum nr. 90/1989. Í því samhengi veki sérstaklega athygli að í endurriti gerð­ar­bókar sýslu­manns sé ekki bókað um lagaheimild fyrir stöðvun gerðarinnar. Í endur­rit­inu sé hins vegar bókað að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 sé full­nægt. Því komi aðeins til skoðunar hvort sýslumanni hafi verið heimilt að stöðva gerð­ina á grundvelli 1. mgr. 17. gr. laga um aðför.

Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 17. gr. laganna beri sýslumanni, þegar honum hafi borist beiðni um aðför, að kanna „hvort beiðni og aðfararheimild eru í lögmætu formi, hvort telja megi beiðni komna fram í réttu umdæmi og hvort fullnægt er skil­yrðum 8. gr. í þeim tilvikum, sem við á“. Í framangreindu ákvæði komi skýrt fram að sé skilyrðum þess fullnægt synji sýslumaður ekki af sjálfsdáðum um aðför á grund­velli seinni málsliðar ákvæðisins. Eins og ákvæðið sé orðað sé ljóst að heimildir sýslu­manns til að synja um aðför séu tæmandi taldar í fyrri málslið 1. mgr. 17. gr. lag­anna. Af þessu tilefni sé rétt að taka fram að í þessu máli haldi sýslumaður því ekki fram að aðfar­ar­beiðni sóknaraðila uppfylli ekki framangreindan áskilnað.

Sóknaraðili getur þess einnig að greiðsluáskorun hafi verið birt Jónasi í sam­ræmi við 8. gr. laga um aðför, aðfar­ar­beiðnin hafi komið fram í réttu umdæmi og bæði beiðnin og aðfarar­heimildin hafi verið í lögmætu horfi í skilningi 17. gr. laganna. Því geti sýslu­maður ekki sótt heimildir til stöðvunar gerðarinnar til ákvæðisins.

Niðurstaða

Sóknaraðili höfðar þetta mál með heimild í 14. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 3. mgr. 27. gr. sömu laga, þar sem hann sættir sig ekki við þá ákvörðun sýslu­manns að stöðva aðfarargerð og hafna beiðni sóknaraðila um fjárnám hjá varnar­aðila.

Í þessu máli þarf einungis að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili hafi lagt nægi­lega skýra aðfararbeiðni og gögn fyrir sýslumann til þess að sýslumanni hefði verið rétt að gera fjár­nám hjá varnaraðila fyrir kröfum sóknaraðila.

Sýslumaður stöðvaði gerðina þar sem hann taldi, miðað við þær upplýsingar sem sóknaraðili lagði fyrir hann, að það lán sem var tryggt með veði í eign varnaraðila félli undir dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011, þar sem ekki yrði annað séð en lántaki hefði greitt af láninu í tvö ár. Þar sem endurreikningur lánsins hefði ekki verið lagður fram taldi sýslumaður aðfararbeiðni sóknar­aðila ekki uppfylla kröfur 10. gr. laga um aðför.

Í aðfararbeiðni krefst sóknaraðili fjárnáms hjá varnaraðila fyrir höfuðstól að fjár­hæð 53.760.652 kr. og er heimildarskjali beiðninnar lýst svo:

Veðskuldabréf nr. 16953 í erlendri mynt, jafnvirði í ISK 38.000.000, útgefið í Reykja­vík 28.03.2008. Að baki bréfinu eru tvö tryggingarbréf. Tryggingarbréf nr. 1150-63-9709 að fjárhæð kr. 35.000.000,- og tryggingarbréf nr. 1150-63-9760 að fjár­hæð kr. 50.000.000,-, bæði bréfin eru tryggð með veði í Bakkastöðum 47, Reykjavík. Búið er að endur­útreikna lánið í samræmi við dómarafordæmi Hæstaréttar í málum nr. 471/2010, 603/2010 og 604/2010 og lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010. Lánið er í vanskilum frá 20.04.2011.

Kaflinn „Málavextir, rök og heimildir“ í aðfararbeiðni er svohljóðandi:

Gerðarbeiðandi styður heimild sína til að krefjast aðfarar hjá gerðarþola, Jónasi Þór Þor­valdssyni, við framangreint heimildarskjal sbr. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.

Gerðarbeiðandi styður heimild sína til aðfarar á hendur gerðarþola, Önnu Dagrúnu Pálmars­dóttur, við tryggingarbréf nr. 1150-63-9760 að fjárhæð kr. 50.000.000,- tryggt með veði í fasteigninni Bakkastöðum 47, Reykjavík, með vísan til 1. mgr. 3. gr. AFL og 1.mgr. 36. gr. AFL.

Í greinargerð sinni til héraðsdóms byggir sóknaraðili þá málsástæðu að lánið falli ekki undir dóm Hæstaréttar á því að lántaki hafi aldrei greitt eyri af láninu. Í aðfar­ar­beiðni, sem sóknaraðili sendi sýslu­manni, getur hann þess þó hvergi að lántaki hafi aldrei greitt neitt af láninu. Það kemur ekki heldur fram í neinu þeirra skjala sem var lagt fram með aðfarar­beiðn­inni. Í fram­lagðri greiðsluáskorun sóknar­aðila til varn­ar­aðila segir að útgáfudagur og gjald­dagi heimildarskjals sé 19. apríl 2011 en það ekkert skýrt nánar þrátt fyrir að heimildarskjalið hafi verið gefið út 28. mars 2008. Þar segir einnig að lánið sé í vanskilum frá 20. apríl 2011 án frek­ari skýringa.

Eins og sýslumaður gerir grein fyrir í athugasemdum sínum til héraðsdóms stendur á skulda­bréfinu að fyrsti gjalddagi afborgana af því sé 1. apríl 2009. Í aðfarar­beiðni tilgreinir sóknaraðili að vanskil hafi staðið frá 20. apríl 2011. Við fyrirtöku hjá sýslu­manni 28. febrúar sl. lagði lögmaður, sem mættur var fyrir hönd sóknaraðila, fram endurútreikning lánsins. Það var þó ekki sá endurreikningur sem aðfararbeiðni og greiðsluáskorun sóknaraðila byggðust á. Sá endur­útreikningur sem sóknaraðili lagði fram var dag­settur 28. febrúar 2012 en ekki í apríl 2011. Þar segir að nýr höfuð­stóll sé 48.084.899 kr. og í tölvuskeyti frá sókn­ar­aðila, sem fylgdi með, segir að útreikn­ing­ur­inn sé sendur sýslumanni til þess að sýna hvernig allra hag­stæðasti útreikn­ingur gæti litið út fyrir skuldara og að þetta sé vinnu­skjal en ekki loka­endur­útreikningur.

Í greinargerð sinni til héraðsdóms getur sóknaraðili þess jafnframt að með setn­ing­unni „Lánið er í vanskilum frá 20. apríl 2011“ hafi hann verið að vísa til þess að lánið hafi verið í van­skilum og gjaldfallið þegar endurútreikningurinn var kynntur lán­taka og drátt­ar­vextir, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu, því reikn­aðir frá þeim degi. Þessu bar honum að gera sýslumanni grein fyrir í aðfarar­beiðn­inni en í þeim gögnum sem sóknaraðili lagði með beiðni sinni var ekkert skjal sem gaf sýslumanni til kynna að til­grein­ing upp­hafs­dags vanskila réðist af því að lántaka hefði verið kynntur endur­útreikn­ingur sóknaraðila 19. apríl 2011 og að af þeim sökum reiknaði sóknaraðili sér dráttarvexti frá 20. apríl 2011.

Í greinargerð sinni til héraðsdóms getur sóknaraðili þess einnig að í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 hafi skapast óvissa um endurútreikning gengis­tryggðra lána. Vegna þessarar óvissu hafi sýslumannsembætti landsins almennt stöðvað, að eigin frum­kvæði, aðfarargerðir og nauðungarsölur í þeim tilvikum sem lán kynnu að falla undir dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 og óvissa kynni að vera uppi um stöðu lána og van­skil og hafi sóknaraðili virt þá framkvæmd.

Þrátt fyrir að sóknaraðili vissi af þessari framkvæmd og virti hana og þrátt fyrir að það skuldabréf, sem hann byggir aðfararbeiðni sína á, hafi verið gengistryggt á ólög­mætan hátt og félli því undir dóm Hæstaréttar hefði lántaki greitt af því, lét sókn­ar­aðili hjá líða að taka það fram í aðfararbeiðni sinni að hann teldi að bréfið, þrátt fyrir gengis­trygg­ingu þess, félli ekki undir dóm Hæstaréttar þar sem lántaki hefði aldrei innt neina greiðslu af hendi.

Eins og málið var lagt fyrir sýslumann var ekkert sem gaf honum til kynna annað en að annað hvort hefði lántaki greitt af láninu eða sóknaraðili skuld­fært reikn­ing lántaka, eins og hann hafði heimild til, allt fram til 20. apríl 2011 og lántaki fengið full­naðar­kvittun fyrir hverri greiðslu. Endurútreikningurinn, sem var lagður fram hjá sýslumanni, sýndi 5,6 milljón króna lægri höfuðstól en til­greindur var í aðfarar­beiðni. Enn fremur var endurútreikningurinn dagsettur þann dag sem aðfarar­beiðnin var tekin fyrir en ekki í apríl 2011. Það var því eðlilegt að sýslu­maður teldi vafa leika á því hversu hárri fjárhæð sóknar­aðili ætti rétt á úr hendi lántaka. Aðfararbeiðni sóknar­aðila og gögnum sem með henni fylgdu var því svo áfátt að fallist er á það með sýslu­manni að beiðnin hafi ekki verið á því formi sem 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför áskilur. Honum bar því, sam­kvæmt 1. mgr. 17. gr. laganna að stöðva gerðina. Af þeim sökum verður ákvörðun hans staðfest.

Þar sem varnaraðili hélt ekki uppi vörnum verður málskostnaður, þrátt fyrir þessa niðurstöðu, ekki dæmdur.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð

Staðfest er sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 28. febrúar 2012, að stöðva gerð í aðfararmáli nr. 011-2012-00477, Drómi hf. gegn Önnu Dagrúnu Pálmars­dóttur.

Málskostnaður dæmist ekki.