Hæstiréttur íslands
Mál nr. 130/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 3. mars 2014. |
|
Nr. 130/2014.
|
A (Ingólfur Kristinn Magnússon hdl.) gegn B (enginn) |
Kærumál. Málskostnaður. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kært var ákvæði í dómi héraðsdóms um málskostnað í máli A gegn B. Málinu var vísað frá Hæstarétti með vísan til þess að kæra A beindist ekki að úrskurði heldur ákvæði í dómi þar sem kveðið var á um fleira en málskostnað. Því færi þannig fjarri að heimild yrði fundin í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til kæru í málinu.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2014 um málskostnað í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til g. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess „að fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanns hans verði ákveðin hærri en gert var í hinum kærða úrskurði.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Varnaraðili hefur tilkynnt Hæstarétti að hann muni ekki láta málið til sín taka hér fyrir dómi.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 24. júlí 2013 á hendur varnaraðila og krafðist þess meðal annars að sá síðarnefndi yrði dæmdur faðir sinn. Varnaraðila, sem ekki sótti þing, var skipaður málsvari. Undir rekstri málsins fór fram mannerfðafræðileg rannsókn, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að meira en 99% líkindi stæðu til þess að varnaraðili væri faðir sóknaraðila. Á þessum grundvelli var fyrrgreind krafa sóknaraðila tekin til greina með dómi 7. febrúar 2014 auk þess sem varnaraðila var gert að greiða meðlag með sóknaraðila frá fæðingardegi hans til 18 ára aldurs. Með dóminum var málskostnaður milli aðilanna felldur niður, en lögmanni sóknaraðila ákveðin þóknun úr ríkissjóði að fjárhæð 410.000 krónur, sbr. 11. gr. barnalaga nr. 76/2003. Kæra sóknaraðila beinist að síðastnefndri ákvörðun.
Samkvæmt upphafsorðum 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 sæta úrskurðir héraðsdómara kæru eftir nánari fyrirmælum í ákvæðinu, þar á meðal úrskurðir um ómaksþóknun, málskostnað eða gjafsóknarlaun, enda sé ekki kveðið á um annað í úrskurði, sbr. g. lið þess. Kæra sóknaraðila beinist ekki að úrskurði, heldur ákvæði í dómi. Í dóminum var leyst úr kröfum um faðerni sóknaraðila og greiðslu meðlags með honum og var þannig kveðið þar á um fleira en málskostnað. Því fer þannig fjarri að heimild verði fundin í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 til kæru í máli þessu og verður því vísað af þeim sökum frá Hæstarétti.
Eins og atvikum er hér háttað getur ekki komið til álita að dæma sóknaraðila kærumálskostnað úr ríkissjóði, enda er kæra í málinu bersýnilega að ófyrirsynju.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2014.
Stefnandi, C, kt. [...], [...], [...], höfðaði mál þetta fyrir hönd ólögráða sonar síns, A, kt. [...], með stefnu birtri 24. júlí 2013, á hendur B, kt. [...], [...], [...], [...].
Stefnandi gerir þá dómkröfu að stefndi, B, verði dæmdur faðir stefnanda, A.
Gerð er sú krafa að stefndi verði dæmdur til að greiða einfalt meðlag með stefnanda frá fæðingu til 18 ára aldurs hans.
Þá er þess krafist að þóknun lögmanns stefnanda verði greidd úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun dómsins, svo og annar málskostnaður stefnanda, þar með talinn kostnaður við öflun mannerfðafræðilegra rannsókna og annarra sérfræðiskýrslna sem afla þarf.
Stefndi gerir engar kröfur í málinu.
Í þinghaldi 26. nóvember 2013 var Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl. skipuð málsvari stefnda.
I.
Málavöxtum er lýst svo í stefnu að stefnandi þessa máls, A, sé fæddur [...]. Móðir stefnanda kveðst telja allar líkur á að stefndi, B, sé faðir barnsins og kveðst hún útiloka að aðrir komi til greina. Móðir stefnanda og stefndi hafi [...] [...]. [...]. [...]. Stefndi hafi ekki verið samvinnuþýður við skráningu faðernis hjá sýslumanni og því nauðsyn að höfða mál þetta.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003. Stefnandi eigi rétt á að þekkja foreldra sína, samkvæmt 1. gr. a. Móður hans sé skylt að feðra barn sitt samkvæmt sömu grein en stefndi hafi ekki fengist til að gera neinar ráðstafanir svo það megi vera. Lítið samband hafi verið á milli móður stefnanda og stefnda frá þeim tíma þegar [...]. Stefndi hafi ekki formlega viðurkennt faðerni sitt gagnvart stefnanda en móðir stefnanda, fyrir hönd hans, telji sig ekki eiga annarra kosta völ en að höfða faðernismál til að fá það viðurkennt með dómi að stefndi sé faðir stefnanda. Því byggi stefnandi kröfu sína á 1. mgr. 10. gr. og stefnir stefnda á heimilisvarnarþingi stefnanda, fyrir héraðsdómi Reykjavíkur með heimild í 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 10. gr. laganna.
Krafa um meðlag byggi á 6. mgr. 57. gr. barnalaga, en samkvæmt ákvæðinu skuli dómari sem sker úr ágreiningsmáli um faðerni eða forsjá barns einnig, að kröfu, leysa úr ágreiningi um meðlag í dómi.
Krafa um málskostnað byggi á ákvæði 11. gr. barnalaga nr. 76/2003 en samkvæmt ákvæðinu skal þóknun lögmanns stefnanda greiðast úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun dómsins, svo og annar málskostnaður stefnanda, þar með talinn kostnaður vegna mannerfðafræðilegra rannsókna og annarra sérfræðiskýrslna sem afla þarf.
II.
Af hálfu stefnda hefur hvorki verið sótt né látið sækja þing og er honum þó löglega stefnt. Ber því samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum, nema gallar séu á málinu sem varða frávísun þess án kröfu.
Hinn 20. nóvember sl. óskaði aðstoðarmaður dómara eftir að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn í því skyni að fá staðfest faðerni stefnanda. Liggur nú fyrir álitsgerð Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði og er hún dagsett 22. janúar 2014. Niðurstaða þeirrar rannsóknar er að líkurnar fyrir því að stefndi, B, sé faðir stefnanda séu meiri en 99%.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu og með vísan til 17. gr. barnalaga nr. 76/2003 þykir ekki varhugavert að taka til greina þá kröfu stefnanda að staðfest verði með dómi að stefndi, B, sé faðir stefnanda.
Stefnandi hefur krafist þess að stefnda verði gert að greiða meðlag með stefnanda frá fæðingu hans til 18 ára aldurs. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu dómsins um faðerni verður stefndi, B, dæmdur til að greiða stefnanda einfalt meðlag frá fæðingu stefnanda, 27. janúar 2013 til 18 ára aldurs hans, sbr. 57. gr. laga nr. 76/2003.
Eftir atvikum þykir rétta að málskostnaður falli niður milli aðila málsins.
Með vísan til 11. gr. barnalaga nr. 76/2003 greiðist allur kostnaður stefnanda af málinu úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Ingólfs Kristins Magnússonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 410.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Þóknun til handa málsvara stefnda, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 90.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði, samkvæmt 39. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Kolbrún Birna Árdal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp þennan dóm.
DÓMSORÐ
Stefndi, B, telst vera faðir stefnanda, A.
Stefndi greiði einfalt meðlag með stefnanda frá 27. janúar 2013 til 18 ára aldurs hans.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Ingólfs Kristins Magnússonar hdl., 410.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Þóknun málsvara stefnda, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 90.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.