Hæstiréttur íslands

Mál nr. 151/2016

Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)
gegn
Sigurgeiri Hannessyni (Steingrímur Þormóðsson hrl.)

Lykilorð

  • Akstur án ökuréttar
  • Ítrekun
  • Refsiákvörðun

Reifun

S var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa tvisvar sinnum ekið bifreið án ökuréttinda. Að virtum sakaferli S og með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var refsing hans ákveðin fangelsi í 30 daga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttur settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2016 að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða.

Samkvæmt sakarvottorði ákærða hefur hann fimm sinnum áður sætt refsingu vegna umferðarlagabrota. Hinn 3. apríl 2009 var honum gerð sekt og hann sviptur ökurétti tímabundið vegna aksturs undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá var ákærða með sátt 30. mars 2012 gerð sekt vegna aksturs undir áhrifum áfengis og hann á ný sviptur ökurétti tímabundið. Með sátt 2. ágúst 2013 var ákærða gerð sekt vegna aksturs sviptur ökurétti. Með dómi 2. mars 2015 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi og til greiðslu sektar vegna aksturs undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti en þau brot voru framin 22. nóvember 2014. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt. Var sá dómur birtur ákærða 12. maí 2015 og þann sama dag var ákærða gerð sekt vegna aksturs sviptur ökurétti 29. desember 2014.

Brot þau sem ákærði er nú sakfelldur fyrir voru framin annars vegar 6. janúar 2015 og hins vegar 14. júlí sama ár. Fyrra brotið var framið fyrir uppkvaðningu dómsins 2. mars 2015 og er því hegningarauki við hann, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu er brot það sem ákærði framdi 14. júlí 2015 þriðja brot hans gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Að þessu virtu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 30 daga.

Ákærði verður dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurgeir Hannesson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 381.408 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.    

                                                                 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 29. september 2015, á hendur Sigurgeiri Hannessyni, kennitala [...], [...], Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík, með því að hafa:

1. Þriðjudaginn 6. janúar 2015, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Hraunbæ uns hann stöðvaði aksturinn og lögregla hafði afskipti af honum.

2. Þriðjudaginn 14. júlí 2015, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Höfðabakka og að Fálkabakka þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Teljast brot í báðum liðum varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 24/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

         Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall.  Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

         Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

         Ákærði er fæddur í febrúar 1989.  Ákærði er í máli þessu fundinn sekur um að aka í tvígang sviptur ökurétti.  Með dómi Héraðsdóms Suðurlands, uppkveðnum 2. mars 2015, var ákærða gert að sæta fangelsi í 30 daga og greiða 100.000 krónur í sekt fyrir að aka undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti.  Þá gekkst ákærði undir sekt samkvæmt lögreglustjórasátt 12. maí 2015 fyrir að aka sviptur ökurétti.  Það brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir samkvæmt fyrri ákærulið var framið fyrir uppkvaðningu dómsins 2. mars 2015 og verður ákærða því dæmdur hegningarauki hvað það brot varðar, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Það brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir samkvæmt síðari ákærulið var framið eftir gerð framangreindrar sáttar 12. maí 2015.  Við ákvörðun refsingar er við það miðað að ákærði hafi nú í annað sinn, eftir að hann varð fullra 18 ára og innan ítrekunartíma, sbr. 1. og 3. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1940, verið fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti.  Með hliðsjón af 77. gr. sömu laga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 200.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja en sæta ella fangelsi í fjórtán daga.

         Sakarkostnað leiddi ekki af málinu.

         Valborg Steingrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð:

         Ákærði, Sigurgeir Hannesson, greiði 200.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja en sæti ella fangelsi í fjórtán daga.