Hæstiréttur íslands

Mál nr. 255/2011


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Börn
  • Refsilögsaga
  • Kynferðisbrot
  • Ákæra


                                     

Fimmtudaginn 27. október 2011.

Nr. 255/2011.

 

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir settur

vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.

Þyrí Steingrímsdóttir hdl.)

(Hilmar Gunnlaugsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Ákæra. Refsilögsaga. Skaðabætur.

X var gefið að sök að hafa í íþróttahúsi í Svíþjóð káfað innanklæða á brjóstum og kynfærum A, sem þá var 16 ára og stödd þar í ferð á vegum íþróttafélags, sem ákærði var fararstjóri í. Ekki var talið að ákæruvaldinu hefði borið í ákæru að vísa til 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða sænskra laga, enda hefði þess ekki verið krafist að ákærði sætti refsingu fyrir að hafa brotið gegn þeim, sbr. c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hafði ekki borið því við að háttsemin, sem hann var borinn sökum um, hefði ekki verið refsiverð eftir sænskri löggjöf. Var því ekki fallist á kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms þótt skort hefði á að ákæruvaldið reifaði nægilega í héraði hvort ætlað brot væri refsivert samkvæmt sænskum lögum með tilliti til 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga. Framburður tveggja vitna, sem og framburður barnasálfræðings sem tekið hafði viðtöl við A, þóttu til marks um að A hefði orðið fyrir miklu áfalli nóttina sem hið ætlaða brot átti að hafa verið framið. Ekki þótti því varhugavert að leggja framburð A til grundvallar niðurstöðu í málinu. Talið var að fullnægt væri skilyrðum 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga til að refsa fyrir háttsemi X eftir íslenskum lögum. Hann var því dæmdur fyrir brot gegn 2. mgr. 201. gr. sömu laga, sem tæmdi sök gagnvart 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. X var dæmdur í 6 mánaða fangelsi en fullnustu refsingarinnar var frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. X var einnig dæmdur til að greiða A 400.000 krónur ásamt vöxtum í miskabætur.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.

A krefst þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína.

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa í ágúst 2007 í íþróttahúsi í Malmö í Svíþjóð káfað innanklæða á brjóstum og kynfærum fyrrnefndrar A, sem þá var 16 ára og stödd þar í æfinga- og keppnisferð á vegum B, sem ákærði hafi verið fararstjóri í og honum þannig trúað fyrir stúlkunni. Í ákæru er þessi háttsemi talin varða við 2. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Eins og ráðið verður af framansögðu var ætlað brot ákærða framið á stað, sem refsivald annars ríkis nær til að þjóðarétti. Aðalkrafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á því að við meðferð málsins í héraði hafi af hálfu ákæruvaldsins hvorki verið vísað til 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga sem heimildar til að sækja hann til saka fyrir dómstólum hér á landi né reifuð þau ákvæði sænskra laga, sem ætluð háttsemi hans geti hafa varðað við. Á hinn bóginn hafi ákærandi í málinu sent dómsformanni og verjanda ákærða hluta af texta þess kafla sænskra hegningarlaga, sem taki til kynferðisbrota, í framhaldi af því að málið hafi verið dómtekið í héraði, en til ákvæða þeirra laga er vísað í forsendum hins áfrýjaða dóms til stuðnings því að fullnægt sé skilyrðum 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga til að gera ákærða refsingu eftir íslenskum lögum. Af hálfu ákæruvaldsins er því ekki andmælt að atvik hafi verið með þeim hætti, sem hér var greint. Að því verður að gæta að ekki bar nauðsyn til að vísa til síðastgreinds lagaákvæðis eða sænskra laga í ákæru, enda var þess ekki krafist að ákærði sætti refsingu fyrir að hafa brotið gegn þeim, sbr. c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá verður ekki séð að ákærði hafi borið því við fyrir héraðsdómi að háttsemin, sem hann er borinn sökum um, hafi ekki verið refsiverð eftir sænskri löggjöf og slíku hefur í engu verið hreyft fyrir Hæstarétti, heldur lýst yfir að gefnu tilefni við munnlegan málflutning að efnislega væri ekki dregið í efa að ætluð háttsemi ákærða varði við ákvæði í 6. kafla sænskra hegningarlaga. Þótt ákæruvaldinu hefði verið rétt að reifa málið að þessu leyti á viðhlítandi hátt fyrir héraðsdómi með tilliti til skilyrða 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga er að þessu virtu ekki næg ástæða til að verða við kröfu ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að sannað sé að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákæru greinir. Samkvæmt því, sem að framan segir, verður lagt til grundvallar að fullnægt sé skilyrðum 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga til að refsa ákærða fyrir þessa háttsemi eftir íslenskum lögum. Hún varðar við 2. mgr. 201. gr. sömu laga, sem tæmir hér sök gagnvart 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, sbr. dóma Hæstaréttar 6. maí 1993 í máli nr. 440/1992 og 24. mars 1994 í máli nr. 510/1993, sem birtir eru í dómasafni 1993 bls. 906 og 1994 bls. 639. Með því að refsing ákærða er hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, svo og bætur úr hendi ákærða til brotaþola, verður niðurstaða hans staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað að viðbættum útlögðum kostnaði réttargæslumanns brotaþola, auk málsvarnarlauna verjanda síns og þóknunar réttargæslumannsins, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 557.909 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Hilmars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. mars 2011, er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 19. janúar 2011, á hendur X, kennitala[...],[...],[...], fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa í ágúst 2007, í sal íþróttahúss í [...] í Svíþjóð, káfað innanklæða á brjóstum og kynfærum stúlkunnar A, sem þá var 16 ára og var í æfinga- og keppnisferð á vegum B, en ákærði var fararstjóri í ferðinni og hafði þannig verið trúað fyrir stúlkunni.

Telst háttsemi ákærða varða við 2. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992 og 10. gr. laga nr. 61/2007 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kennitala[...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur. Gerð er krafa um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. ágúst 2007 til greiðsludags. Þá er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. nóvember 2010 til greiðsludags.

Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af ákæru, en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa, sem jafnframt verði skilorðsbundin að öllu leyti. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að bótakrafa verði lækkuð verulega. Loks krefst verjandi málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málsatvik

Hinn 29. apríl 2010 barst lögreglustjóranum á [...] kærubréf lögmanns A, vegna meintra kynferðisbrota ákærða, X. Kemur fram að ákærði hafi brotið gegn stúlkunni í [...]ferð sem farin var á vegum B til Svíþjóðar í ágúst 2007, en stúlkan hafi verið í sýningarhópnum ásamt öðrum ungmennum og hafi ákærði verið fararstjóri þeirra. Hafi ákærði leitað á stúlkuna kvöld eitt. Þá er tilgreint annað tilvik sem hafi átt sér stað á heimili foreldra stúlkunnar á [...] í janúar 2008, en ákærði hafi þá afklætt sig og stúlkuna og lagst ofan á hana, en horfið frá því að eiga samræði við hana.

A gaf skýrslu hjá lögreglu hinn 4. júní 2010. Hún sagðist hafa farið með hópi ungmenna sem æfðu [...] í [...]ferð til Danmerkur og Svíþjóðar í lok ágúst 2007, en hún hafi þá verið 16 ára gömul. Ákærði og C hafi verið fararstjórar í ferðinni. Í Svíþjóð hafi þau gist í íþróttahúsi og kvöldið sem um ræðir hafi þau öll verið búin að neyta áfengis. Þau hafi sofið á hörðum frjálsíþróttadýnum, en ákærði hafi hins vegar verið með betri dýnu, sem hafi rúmað tvo. Hann hafi boðið þeim að sofa hjá sér á dýnunni og sagðist A hafa þegið boðið og lagst við hlið hans. Hún hafi síðan orðið þess vör að ákærði fór með hönd inn á hana og hafi hann káfað á kynfærum hennar og brjóstum. A sagðist hafa reynt að færa sig frá ákærða, en hann hafi alltaf komið nær. Hún hafi þá snúið sér á magann og hliðina, en ákærði ekki látið af háttseminni. Síðan hafi virst sem ákærði sofnaði áfengisdauða. Hann hafi vaknað aftur og haldið áfram að káfa á henni, en síðan sofnað með höndina yfir hana. A sagðist hafa farið inn í búningsklefa og hringt til D, frænku sinnar, og rætt þetta við hana. Hún hafi verið grátandi og hafi piltur að nafni E  komið að henni og spurt hvort ekki væri allt í lagi. Hún hafi öskrað á hann og sagt honum að koma sér í burtu. A sagðist síðan hafa sent C sms-skilaboð og beðið hana um að koma og tala við sig. C hafi hins vegar verið sofnuð og því ekki svarað. A  sagðist hafa verið svo hrædd að hún hafi ekki þorað annað en að leggjast aftur á dýnuna við hlið ákærða. Morguninn eftir hafi hún svo sagt C hvað hefði gerst.

Þá skýrði A frá öðru tilviki sem hefði átt sér stað á heimili foreldra hennar [...]  í janúar 2008. Hún hafi haldið þar teiti í tengslum við [...]mót, sem haldið var fyrir austan. Hafi ákærði komið í samkvæmið og þau orðið tvö ein eftir í húsinu eftir að samkvæminu lauk. Ákærði hafi þá leitað á hana, þrýst henni upp að vegg og byrjað að kyssa hana. Hann hafi kastað henni upp í rúm, afklætt þau bæði, legið ofan á henni og káfað á henni eins og í fyrra skiptið. Hann hafi síðan spurt hana hvort hún væri „hrein mey“ og hún svarað því játandi. Hann hafi þá klætt sig og farið.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu hinn 4. október 2010. Hann sagðist hafa verið fararstjóri í umræddri ferð til Svíþjóðar í ágúst 2007. Síðasta kvöldið hafi ungmennin farið út að borða og hafi þau neytt áfengis. Sjálfur hafi hann drukkið einn til tvo bjóra um kvöldið. Ákærði sagðist hafa lagst til svefns í íþróttahúsinu, en A hafi komið og lagst á dýnuna við hlið hans. Hún hafi legið þétt upp við hann og hafi hann tekið utan um hana undir sænginni, þ.e. lagt höndina yfir mitti hennar. Ákærði tók fram að ekkert sérstakt hafi verið á milli þeirra A, ekkert daður.

Ákærði kannaðist við að hafa kysst A eftir samkvæmi á heimili foreldra hennar [...] í janúar 2008. Hann hafi áður spurt hana hvort hann mætti kyssa hana. Stúlkan hafi afklæðst og hann káfað á brjóstum hennar. Hún hafi svo haft á orði að hún hafi aldrei „staðið í svona“. Hann hafi þá fengið bakþanka þar sem hann var í sambandi og hafi hann horfið frá stúlkunni og yfirgefið húsið.

Í málinu er vottorð F, dagsett 24. september 2010, þar sem kemur fram að í sumarbyrjun 2008 hafi A sagt honum frá því að hún hefði sætt kynferðislegri misneytingu af hálfu ákærða í tvígang, í fyrra skiptið á keppnisferðalagi erlendis, en ákærði hafi þar verið með sem fararstjóri. Hafi hún átt erfitt með að segja frá þessum atvikum, ekki síst þar sem um var að ræða mann sem hún þekkti og leit upp til. Hafi lýsing hennar á atburðum verið trúverðug í alla staði. Hún hafi lýst lamandi varnarleysi þegar ákærði kom vilja sínum fram án samþykkis hennar, doða, miklum kvíða og almennri vansæld. Í kjölfarið hafi hún fundið til mikillar reiði. A hafi átt erfitt með samskipti við karlmenn eftir að meint kynferðisbrot áttu sér stað og sé svo enn. Líðan hennar hafi hins vegar farið batnandi eftir að hún gerði grein fyrir þessum brotum og kærði til lögreglu.

Í vottorði F kemur jafnframt fram að hann hafi, að höfðu samráði við A, tilkynnt félagsmálayfirvöldum [...] um málið, en kæran hafi ekki hlotið frekari framgang. Í bréfi félagsmálastjóra [...] til lögreglu, dagsettu 25. október 2010, kemur fram að misskilningi starfsmanna félagsþjónustunnar væri að kenna um það að málið var ekki kært til lögreglu á sínum tíma, en talið hafi verið að foreldrar stúlkunnar hefðu snúið sér til lögreglu.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.

Ákærði sagðist hafa verið fararstjóri í [...]ferð sem farin var á vegum B til Danmerkur og Svíþjóðar í ágúst 2007, en hann hafi verið framkvæmdastjóri B á þessum tíma. Í ferðinni hafi verið hópur ungmenna á aldrinum 16 til 20 ára og hafi A verið þeirra á meðal. Þau C hafi verið fararstjórar, en í því hafi falist að „annast utanumhald“. Ferðin hafi endað í Málmey þar sem þau hafi gist í íþróttahúsi. Síðasta kvöldið hafi hann farið út með fólki sem hafði annast móttökur þeirra, en C hafi farið út að borða með hópnum. Sagðist ákærði hafa drukkið einn til tvo bjóra með mat um kvöldið og grunaði hann að krakkarnir hefðu drukkið bjór á veitingastaðnum. Eftir að í íþróttahúsið kom hafi hann gengið til náða, en þegar hann var lagstur hafi A komið og lagst hjá honum. Hún hafi legið á hliðinni og hafi hann tekið utan um hana þannig að hann lagði höndina yfir mjaðmarbein hennar. Einhverju síðar hafi stúlkan risið á fætur og farið fram, en hún hafi svo komið aftur og lagst á nákvæmlega sama stað við hlið hans. Ákærði sagði þau hafa verið sjö eða átta sem gistu í salnum og taldi hann aðra sem þar voru hafa átt að sjá hvað gerðist.

Ákærði sagði G hafa hringt til sín í janúar 2008 og greint sér frá því að stúlkan hefði ásakað hann um að hafa brotið gegn sér, en þá hafi atvikið á[...] aðeins verið nefnt. Hann sagðist fyrst hafa heyrt um það við skýrslutöku hjá lögreglu að eitthvað ætti að hafa gerst í Málmey. Ákærði sagðist hafa hringt í stúlkuna eftir það sem gerðist á [...] og beðið hana afsökunar.

Ákærði sagðist ekki geta skýrt hvers vegna hann lagði höndina yfir stúlkuna, „hvort það var væntumþykja, heimska eða hvað það var“. Hún hafi legið alveg upp við hann á dýnunni. Hann hafi ekki snert hana af „illum ásetningi“. Hann sagðist ekki muna eftir orðaskiptum áður en stúlkan kom og lagðist hjá honum. Þá myndi hann ekki hvort hún svaf í svefnpoka eða undir sæng, en hann hafi lagt höndina yfir hana undir rúmfötum. Hann sagðist ekki muna hvernig hún var klædd en taldi hana hafa verið í náttfötum. Aðspurður sagði ákærði það hafa verið hlutverk þeirra fararstjóranna að fylgjast með ungmennunum allan sólarhringinn.

A sagðist hafa verið úti um kvöldið með öðrum í hópnum og hafi þau „fengið sér í glas“. Um miðnætti hafi þau komið í íþróttahúsið þar sem þau gistu. Þau hafi sofið þar á þunnum dýnum, sem hafi verið óþægilegt. Ákærði hafi sofið á mýkri dýnu og hafi hann haft á orði við nokkur þeirra að fleiri en einn gætu sofið á dýnunni. A sagðist hafa þegið boðið. Hún hafi verið búin að þekkja ákærða frá því í 5. bekk og hafi öllum litlum krökkum líkað vel við hann. Hún hafi ekki „pælt í neinu svona“. A sagðist hafa lagst við hlið ákærða og ætlað að fara að sofa. Þá hafi hann byrjað að snerta hana með höndum utan klæða og innan á kynfærum og brjóstum. A sagðist hafa „frosið“ og ekki vitað hvað hún ætti að gera. Hún hafi snúið sér á magann, en ákærði þá troðið hendinni undir hana. Hún taldi ákærða síðan hafa sofnað áfengisdauða, en hann hafi lagt höndina yfir hana. Hún hafi reynt að komast í burtu en ákærði þá vaknað og byrjað að snerta hana aftur með sama hætti. Síðan hafi hann sofnað og hún komist í burtu. A sagðist hafa farið inn í kvennaklefa og sent hinum fararstjóranum símaskilaboð. Hún hafi hins vegar verið gengin til náða þegar þetta var og því ekki séð skilaboðin. A sagðist þá hafa hringt í D, frænku sína heima á Íslandi, og hafi hún sagt henni alla söguna, grátandi og öskrandi. Strákur sem var með í ferðinni, E, hafi bankað á dyrnar á meðan hún var í símanum, en hún hafi öskrað á hann að fara. Hún hafi reynt að leggja sig á bekk í búningsklefanum og ætlað að sofna þar, en bekkurinn hafi verið mjór og óþægilegur. Hún hafi ekki þorað annað en að leggjast aftur við hlið ákærða og sofið þar um nóttina. Morguninn eftir hafi C fararstjóri komið að máli við hana og hafi hún sagt henni alla söguna. A sagði aðra sem voru í salnum hafa verið farna að sofa þegar þetta gerðist. Þau ákærði hafi legið við enda salarins. Hún sagðist ekki hafa gefið frá sér neitt hljóð á meðan ákærði snerti hana.

A sagði ákærða hafa leitað aftur á sig á [...] í janúar 2008, eins og hún hafi greint frá hjá lögreglu. Hún hafi sagt H sínum frá atvikinu í Málmey eftir síðara atvikið. Síðan hafi hún sagt foreldrum sínum og sálfræðingi frá því sem hefði gerst. Sálfræðingurinn hafi tilkynnt félagsmálayfirvöldum málið, en það hafi ekki fengið framgang. Hún hafi því sjálf kært málið til lögreglu. A sagði að eftir að fundað hefði verið um málið hjá B hafi ákærði hringt til hennar og lagt að henni að segjast hafa sagt ósatt.

A sagðist hafa litið svo á að ákærði, sem var framkvæmdastjóri A, hefði borið ábyrgð á henni í ferðinni. Hún sagði þessi atvik hafa haft slæm áhrif á sig. Hún hafi orðið þung í skapi í kjölfarið, það hafi bitnað á skólanámi hennar og hún flosnað upp úr skóla. Hún hafi lokað á fyrra tilvikið og ekki viljað segja neinum frá. Í kjölfar þess hafi hún verið viðkvæm, erfið í samskiptum og í andlegu ójafnvægi. Þá hafi þessi atvik haft neikvæð áhrif á kynferðisleg samskipti við kærasta.

C lýsti atvikum í íþróttahúsinu umrætt kvöld og sagði ferðalangana hafa „slegist“ um einu góðu dýnuna sem þau höfðu til umráða, aðallega ákærði og A. Það hafi verið ærslagangur í fólki, en þessu hefði lyktað með því að ákærði fékk dýnuna og hafi A sofið á henni með honum. C sagðist hafa verið vakandi eftir að A lagðist til svefns við hlið ákærða og hafi hún þá heyrt einhver hljóð frá henni, en ekki velt því frekar fyrir sér. Þegar hún vaknaði morguninn eftir hafi hún séð að hún hafði fengið símaskilaboð frá A um klukkan þrjú um nóttina þar sem hún bað hana um að hitta sig inni í búningsklefa. C sagðist hafa gengið á A um atburði næturinnar og hafi stúlkan þá sagt henni að ákærði hafi „farið inn á“ hana. Stúlkan hafi verið mjög „sjokkeruð“ og liðið illa.

C sagði þau ákærða hafa verið fararstjóra og þjálfara í ferðinni. Hún hafi vakið athygli stjórnar B á málinu eftir að A sagði henni að ákærði hefði aftur leitað á hana eftir mót á [...]. Hún hafi rætt við G, sem hafi í framhaldinu rætt við I. Í kjölfarið hafi ákærði verið látinn segja af sér sem framkvæmdastjóri B.

D sagði A hafa hringt til sín um nótt þegar hún var í ferðinni í Svíþjóð, en þær A væru frænkur og nánar vinkonur. A hefði verið hágrátandi, „í brjáluðu skapi“. Hún hafi sagt sér að „[...]“ hafi verið að biðja allar stelpurnar að sofa hjá sér á einu mjúku dýnunni sem var með í ferðinni. A hafi þekkt þennan mann til margra ára og treyst honum alveg og hafi hún því þegið boðið. Þá hafi hann byrjað að káfa á henni og reyna að komast inn á hana. D sagði þær A vera frænkur og nánar vinkonur og vissi hún til þess að A hefði liðið mjög illa eftir þetta atvik.

E lýsti atviki þar sem hann hefði haft samskipti við A í íþróttahúsinu í Málmey, er hún hefði farið „í fýlu“ inn á salerni vegna einhvers. Af framburði vitnisins verður ráðið að um annað atvik sé að ræða en það sem A vísaði til.

H sagðist hafa kennt við grunnskólann á [...] á vormisseri 2006 og hefði hún kennt A  leikfimi og þjálfað hana í [...]. A hefði um þetta leyti sagt sér að ákærði hefði „sofið hjá henni“, en ekki myndi hún nákvæmlega hvernig hún hefði lýst því sem hefði gerst. A hefði sagt þetta hafa átt sér stað á ferðalagi í Danmörku og aftur síðar á [...].

G, fyrrverandi formaður B, sagðist hafa fengið vitneskju um meint brot ákærða gegn A frá C  í mars eða apríl 2008. Í kjölfarið hafi ákærða verið gert að segja af sér sem framkvæmdastjóri félagsins. G sagðist ekki minnast þess að stúlkan hafi nefnt í þessu sambandi að ákærði hefði brotið gegn henni í ferð til Svíþjóðar. Hann hafi fyrst heyrt um það er hann mætti til skýrslutöku hjá lögreglu. Í ferðum sem þessum á vegum B hefðu fararstjórar það hlutverk að halda utan um hópinn og sjá um allt skipulag, s.s. að sjá til þess að hópurinn mæti á réttum tíma í flug og á sýningar- og keppnisstað. Aðspurður sagðist hann telja fararstjóra í þessari ferð hafa borið sérstaka ábyrgð á ungmennum yngri en 18 ára þar sem foreldrar voru ekki með í ferð. 

I formaður B greindi frá aðkomu sinni að málinu, en G hafi hringt í hann og sagt eitthvað hafa komið upp á eftir mót á [...]. Hann sagði það vera hlutverk fararstjóra í ferðum á vegum félagsins að taka ábyrgð á unglingum sem væru með í för.

F barnasálfræðingur sagði A hafa verið hjá sér í viðtölum vegna sértækra námsörðugleika og erfiðleika tengdum þeim. Á vormisseri 2008 hafi hann greint hjá henni vaxandi einkenni depurðar og vanlíðunar, sem hafi verið óskiljanlegt, þar sem meðferð hennar hefði gengið vel fram að því. Ekki hafi fengist skýringar á þessu fyrr en stúlkan sagði honum frá meintum kynferðisbrotum ákærða. Hafi hún skýrt frá því að ákærði hefði í tvígang leitað á hana kynferðislega. Í fyrra skiptið hafi þetta gerst í keppnisferð erlendis og hafi hún lýst því að það hefði komið henni algjörlega í opna skjöldu. Hún hafi fengið algjöra lömunartilfinningu, ekki getað öskrað upp eða gert viðvart um það sem var að eiga sér stað. Henni hafi liðið hræðilega illa í framhaldinu. Síðan hafi þetta endurtekið sig heima hjá henni á [...] eftir mót hjá B.

F sagði atvikið í Svíþjóð hafa haft alvarleg áhrif á stúlkuna, en erfitt væri að meta áhrif hvors tilviks um sig á líðan hennar. Hún hafi verið ung og óreynd á þessu sviði, auk þess sem hún hafi þekkt þennan mann vel og treyst honum, enda hafi hann gegnt ábyrgðarstöðu í íþróttafélaginu. Hún hafi eftir þetta fundið til mikillar depurðar og vanlíðunar og átt erfitt með að eiga náin samskipti við karlmenn. Sjálfsmynd hennar hafi beðið hnekki og hún hafi hrökklast úr skóla. 

                Hann hafi tilkynnt barnaverndarnefnd [...] um málið og fylgt þeirri tilkynningu eftir, en erindinu hafi ekki verið sinnt. Stúlkunni hafi liðið illa yfir þessu og verið mjög ósátt yfir því að málið fengi ekki framgang. Það hafi fyrst verið eftir að hún sneri sér til lögreglu og kærði sjálf að hann hafi farið að greina að líðan hennar færi batnandi.

F áréttaði að mjög góður árangur hefði náðst í meðferð stúlkunnar vegna námsörðugleika og erfiðleika, einkum depurðar og kvíða, sem þeim tengdust og hafi hún verið „komin á gott ról“. Þá hafi þessi vaxandi depurðareinkenni skyndilega komið upp. Þetta hafi verið honum óskiljanlegt þar til hún sagði honum frá þessum málum. Hann sagði það vera sitt mat eftir ítrekuð viðtöl við stúlkuna að hún hefði orðið fyrir því sem hún lýsti og vísaði til þess sem kemur fram í vottorði hans að frásögn hennar væri trúverðug að hans mati.

Niðurstaða

Ákærði var fararstjóri í umræddri [...]ferð, sem farin var á vegum B, en hann gegndi þá trúnaðarstörfum fyrir félagið og var framkvæmdastjóri þess. Ferðin var farin með hópi ungmenna á aldrinum 16 til 20 ára. Eðli máls samkvæmt bar ákærði ábyrgð á ungmennunum, sem honum hafði verið trúað fyrir, en foreldrar voru ekki með í för. Ákærða bar sérstök skylda til að gæta barna yngri en 18 ára sem voru í hópnum, en A var aðeins 16 ára þegar þetta var.

Ákærði neitar alfarið sök í málinu og kveðst ekki hafa káfað á líkama stúlkunnar eins og lýst er í ákæru. Hann kannast hins vegar við að hafa lagt höndina yfir mjöðm hennar undir sængurfötum. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa haft kynferðisleg afskipti af stúlkunni á heimili hennar á [...] nokkrum mánuðum síðar. Kveðst ákærði hafa kysst stúlkuna og farið höndum um líkama hennar eftir að hún hafði afklæðst. Verður af því ráðið að vilji ákærða hafi staðið til þess að eiga náin kynni við stúlkuna. Þykir verða að líta til þess við mat á sannleiksgildi frásagnar hans.

A hefur lýst því að ákærði hafi snert líkama hennar innanklæða eins og lýst er í ákæru. Hefur stúlkan verið staðföst í framburði sínum og lýst atvikum með sama hætti við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Var framburður hennar fyrir dóminum afar trúverðugur að mati dómsins. Þá fær frásögn stúlkunnar stoð í framburði vitnanna C og D, en fram er komið að stúlkan reyndi að leita aðstoðar C um nóttina og hringdi í D og greindi henni frá því sem gerst hefði. Sagði D A hafa verið í miklu uppnámi þegar þær ræddu saman og hafi hún hágrátið er hún lýsti háttsemi ákærða. Er framburður vitnanna tveggja, sem og framburður F, til marks um að stúlkan hafi orðið fyrir miklu áfalli um nóttina. Í ljósi þess sem rakið hefur verið telur dómurinn ekki varhugavert að leggja framburð stúlkunnar til grundvallar niðurstöðu í málinu. Verður ákærði sakfelldur fyrir að káfa innanklæða á brjóstum og kynfærum stúlkunnar í umrætt sinn og er háttsemi hans rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Er háttsemi ákærða jafnframt refsiverð að sænskum lögum, sbr. 6. gr., sbr. 4. gr. Brottsbalken, og með því fullnægt skilyrðum 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði er fæddur í júní 1978 og hefur hann ekki sætt refsingu svo vitað sé. Ákærði er nú sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni gagnvart 16 ára gamalli stúlku sem honum hafði verið falið að gæta í utanlandsferð sem farin var á vegum íþróttafélags. Kemur fram í vottorði F og vætti hans fyrir dómi að háttsemi ákærða hafi valdið stúlkunni verulegri vanlíðan. Á hinn bóginn verður litið til þess við ákvörðun refsingar að tæp fjögur ár eru liðin frá því er ákærði braut gegn stúlkunni. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Með broti sínu hefur ákærði bakað sér skyldu til að greiða stúlkunni miskabætur, sbr. 26. gr. skaðabótalaga. Verður ákærði dæmdur til að greiða stúlkunni miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur auk vaxta sem í dómsorði greinir. Samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu verður miðað við að miskabótakrafa beri dráttarvexti að liðnum mánuði frá þingfestingu málsins, en þá var bótakrafa birt ákærða.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins, 763.300 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 439.250 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hilmars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 263.550 krónur auk útlagðs kostnaðar, 33.500 krónur. Eru málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur vararíkissaksóknari.

Málið dæmdu héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, Jón Finnbjörnsson og Sigrún Guðmundsdóttir.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. ágúst 2007 til 3. mars 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 763.300 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hilmars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 263.550 krónur auk útlagðs kostnaðar réttargæslumanns, 33.500 krónur.