Hæstiréttur íslands

Mál nr. 282/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Veðréttur
  • Réttindaröð
  • Veiðiheimildir


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. ágúst 2005:

Nr. 282/2005.

Sparisjóður Vestmannaeyja

(Sigurður Jónsson hrl.)

gegn

þrotabúi Útgerðarfélags Bjarma ehf.

(Garðar Garðarsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Veðréttur. Réttindaröð. Veiðiheimildir.

S veitti Ú lán með veði í fiskiskipi félagsins með þeim skilmálum að veðið næði einnig til fiskveiðiheimilda skipsins. Fiskiskipið fórst og í máli sem Ú höfðaði á hendur tryggingafélagi skipsins til heimtu vátryggingabóta var tryggingafélagið sýknað. Bú Ú var tekið til gjaldþrotaskipta og seldi skiptastjóri veiðiheimildirnar. S lýsti kröfu í þrotabúið og krafðist þess í málinu að krafa hans yrði viðurkennd sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. en því hafnaði skiptastjóri. Með vísan til 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð var talið að þar sem óheimilt hefði verið að veðsetja fiskveiðiheimildir  skipsins hafi veðréttur S ekki getað náð til þeirra eftir að skipið fórst og gæti krafa hans ekki fengið stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. nefndra laga en yrði með réttu skipað í röð almennra krafna samkvæmt 113. gr. laganna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að tvær nánar tilteknar kröfur að fjárhæð samtals 15.202.230 krónur, sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti varnaraðila 29. apríl og 3. maí 2004, fengju að njóta þar stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefndar kröfur hans verði viðurkenndar sem veðkröfur við gjaldþrotaskiptin, svo og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sparisjóður Vestmannaeyja, greiði varnaraðila, þrotabúi Útgerðarfélags Bjarma ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2005.

I

          Málið barst dóminum 9. febrúar sl. og var þingfest 4. mars sl.  Það var tekið til úrskurðar 31. maí sl. 

          Sóknaraðili er Sparisjóður Vestmannaeyja.

          Varnaraðili er þrotabú Útgerðarfélags Bjarma ehf.

          Sóknaraðili krefst þess að kröfur hans í þrotabú varnaraðila (nr. 18 og 19 á kröfu­skrá) verði viðurkenndar sem veðkröfur samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrotaskipti o.fl. eins og þeim var lýst.  Þá er krafist málskostnaðar.

          Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hrundið og sér úrskurðaður máls­kostnaður úr hendi hans.

II

          Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2004 var bú Útgerðarfélags Bjarma ehf. tekið til gjaldþrotaskipta.  Félagið hafði átt bátinn Bjarma VE-66, en hann fórst 23. febrúar 2002 og með dómi Hæstaréttar var tryggingafélag bátsins sýknað af kröfu um vátryggingabætur.  Skipinu tilheyrði aflahlutdeild í löngu, keilu og skötusel og fékk skiptastjóri þrotabúsins hana flutta af skipinu og síðar seldi hann hana.  And­virðið, um 7 milljónir króna, var greitt búinu í desember sl.  Í kjölfarið tók skiptastjóri af­stöðu til lýstra krafna í búið og samdi kröfulýsingaskrá 21. desember sl.  Í henni hafnaði skiptastjóri því að  kröfur, sem lýst var sem veðkröfum, nytu þeirrar réttar­stöðu vegna þess að hið veðsetta, Bjarmi VE-66, væri farið forgörðum.  Aflahlutdeild gæti ekki verið sjálfstætt andlag veðréttar, sbr. m.a. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samn­ingsveð.

          Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu skiptastjóra, en hann hafði lýst þremur veð­kröfum í búið.  Ekki tókst að jafna ágreininginn á skiptafundi og var málinu vísað til dómsins.  Sóknaraðili krefst þess að tvær kröfur sínar verði viðurkenndar sem veð­kröfur, önnur samkvæmt veðskuldabréfi, upphaflega að fjárhæð JPY 14.500.000 og hin einnig samkvæmt veðskuldabréfi, upphaflega að fjárhæð 2.000.000 króna.

III

          Sóknaraðili byggir á því að hann hafi veitt Útgerðarfélagi Bjarma ehf. lán með veði í skipinu og með þeim skilmálum að veðrétturinn næði til fiskveiðiheimilda, er skráðar væru á skipið.  Veðrétturinn veiti sóknaraðila forgang umfram almenna kröfu­hafa í þrotabúið þar eð krafa hans sé krafa utan skuldaraðar og breyti engu um það þótt hluti hins veðsetta hafi farist.  Sóknaraðili kveðst hafa átt þess kost að láta selja veðið á uppboði í samræmi við ákvæði í veðskuldabréfunum, en samþykkt að skipta­stjóri seldi aflaheimildirnar, enda hafi hann talið það hagfelldast fyrir sig.  Þá byggir hann á því að í 4. mgr. 3. gr. laga um samningsveð sé bannað að skilja frá veðsettum hlut réttindi er stjórnvöld hafi úthlutað lögum samkvæmt og séu opinberlega skráð á hlutinn nema þeir sem veðrétt eigi í honum, gefi þinglýst samþykki fyrir þeirri ráð­stöfun.  Með þessari bannreglu sé þeim, sem veðrétt eigi í slíkum hlut, veitt sú vernd að án samþykkis hans geti eigandi hlutarins ekki ráðstafað rétti til atvinnurekstrar, sem tengdur sé hlutnum og rýrt með því verðgildi hans og þá tryggingu sem veðið njóti.

          Varnaraðili byggir á því að samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða geti skip sem hafi farist eða verið úrskurðað óhaffært ekki haft aflahlutdeild.  Bjarmi VE-66 hafi farist og í framhaldi af því verið tekinn af aðalskipaskrá í samræmi við ákvæði laga nr. 115/1985 um skráningu skipa.  Þar með hafi veiðileyfi bátsins fallið niður og hann því ekki getað fengið aflahlutdeild.  Þegar skip hafi farist sé þó heimilt að flytja aflahlutdeild þess yfir á annað skip í eigu sömu útgerðar.  Útgerðin hafi ekki átt annað skip, en með samþykki Fiskistofu hafi aflahlutdeildin verið flutt yfir á skip annarrar útgerðar er síðan hafi keypt hana.  Til að greiða fyrir þessari af­greiðslu Fiskistofu hafi verið aflað samþykkis veðhafa í bátnum, en þeim gert ljóst að ekki var verið að taka afstöðu til krafna þeirra með því.  Fiskistofa hafi hins vegar ekki talið þörf á samþykki veðhafa þar eð veðrétturinn hafi fallið niður þegar báturinn fórst.  Veð­réttur sóknaraðila hafi því ekki verið viðurkenndur og geti hann ekki byggt á að hann eigi slíkan rétt í andvirði aflaheimildanna.  Veðréttur hans í bátnum hafi ekki náð til aflahlutdeildarinnar, enda óheimilt að veðsetja þau réttindi, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga um samningsveð.  Lagaákvæðið geri að vísu ráð fyrir íhlutunarrétti veðhafa, hyggist skips­eigandi flytja aflahlutdeild af skipi, en það feli ekki í sér að aflahlutdeildin sé hluti af veðinu.  Óheimilt sé að veðsetja aflahlutdeildina þótt hún geti haft fjárhagslegt gildi í viðskiptum.

IV

          Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð er óheimilt að veð­setja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjár­verðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, t.d. aflahlutdeild fiskiskips, en það er verðmæti slíkra réttinda sem deilt er um í málinu.  Eins og rakið var fórst Bjarmi VE-66 og skertist veðtrygging sóknaraðila við það, sbr. 1. mgr. 8. gr. nefndra laga.  Útgerð bátsins átti ekki annað skip, sem hægt var að færa aflaheimildirnar á samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða og voru þær því færðar á skip annarrar útgerðar með samþykki Fiskistofu 24. ágúst 2004 og síðar seldar þeirri út­gerð.  Þar sem óheimilt var að veðsetja aflahlutdeild bátsins gat veðréttur sóknar­aðila ekki náð til hennar eftir að báturinn fórst og getur því krafa hans ekki talist veð­krafa í skilningi 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., heldur almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga eins og skiptastjóri ákvað.  Kröfu sóknaraðila verður því hafnað, en málskostnaður skal falla niður.

          Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

          Kröfu sóknaraðila, Sparisjóðs Vestmannaeyja, er hafnað.

          Málskostnaður fellur niður.