Hæstiréttur íslands

Mál nr. 415/2015

A (Jóna Björk Helgadóttir hrl.)
gegn
Húsafli sf., B, C, D, E og F (Guðjón Ármannsson hrl.)
og til réttargæslu Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Guðjón Ármannsson hrl.)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Fasteign
  • Ábyrgðartrygging
  • Eigin sök
  • Gjafsókn

Reifun

Í málinu krafðist A viðurkenningar á því að H sf. o.fl. bæru óskipta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem hann kvaðst hafa orðið fyrir árið 2006 er hann féll tæpra níu ára gamall við klifur í byggingarkrana á lóð H sf. Með hliðsjón af gögnum málsins og framburði vitna fyrir dómi var talið nægilega í ljós leitt að slysið hefði orðið með þeim hætti sem A hefði lýst. Fallist var á með A að H sf. o.fl. hefðu ekki viðhaft fullnægjandi öryggisráðstafanir eða varnaraðgerðir til að koma í veg fyrir að börn yrðu þar við hættulegan leik. Þá þótti ekki standa rök til að fella eigin sök á A, sem var barn að aldri þegar slysið varð. Var krafa A því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 2015. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndu beri óskipta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem hann varð fyrir í slysi 16. mars 2006 á byggingarlóð stefnda Húsafls sf. við […] 22 í […]. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem sér hefur verið veitt.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að þeir verði „einungis dæmdir skaðabótaskyldir að hluta vegna þess tjóns sem áfrýjandi varð fyrir þann 16. mars 2006, er hann féll og handleggsbrotnaði“ og að málskostnaður verði felldur niður. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur af hálfu réttargæslustefnda.

I

Óumdeilt er að áfrýjandi brotnaði á hægri hendi 16. mars 2006 á byggingarsvæði […]. Var hann þá rétt tæpra 9 ára gamall að leik með jafnaldra sínum, G. Bjó áfrýjandi á þessum tíma í fjölbýlishúsi um það bil 120 metrum frá byggingarsvæðinu. Svæðið var ógirt en náði yfir lóðir nr. 16 til 22 við […] og var á hverri lóð hús í smíðum, mislangt á veg komið. Voru byggingarframkvæmdir á lóð nr. 22 á vegum stefnda Húsafls, sem er sameignarfélag í eigu annarra stefndu, með þann tilgang að annast verktakastarfsemi í byggingariðnaði. Félagið var með ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda.

Áfrýjandi var fluttur á bráðamóttöku landspítalans sama dag og slysið varð þar sem gert var að brotinu. Áfrýjandi útskrifaðist úr meðferð nær einkennalaus 11. apríl 2006 en á hinn bóginn kom í ljós síðar að afleiðingar slyssins urðu varanlegar og verulegar. Varð áfrýjandi fyrir vaxtarskerðingu í fjærenda sveifar hægri handar og gekkst hann meðal annars undir skurðaðgerð 15. mars 2010 í því skyni að stýra vexti beina hægri handar hans. Af hálfu áfrýjanda er því lýst að ástæða þess að ekki var krafist bóta úr hendi stefndu fyrr en nokkrum árum eftir slys séu hinar síðbúnu og ófyrirséðu afleiðingar þess.

Áfrýjandi kveður slysið hafa komið þannig til að hann hafi klifrað upp í steyptar einingar aftan á byggingarkrana sem verið hafi á vegum stefnda Húsafls sf., en fallið á jörðina úr rúmlega tveggja metra hæð. Stefndu kveðast fyrst hafa fengið tilkynningu um slysið með bréfi lögmanns áfrýjanda 22. september 2010 og geti því eðli málsins samkvæmt ekkert fullyrt nánar um málsatvik, sem þeir telja ósönnuð. Hafi áfrýjandi fallið úr vinnukrana verði að líta til þess að á einhverjum tíma að minnsta kosti hafi einnig verið annar vinnukrani á nærliggjandi lóðum sem síðar hafi verið fjarlægður. Kunni það að vera sá krani sem áfrýjandi hafi verið að klifra upp í.  

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi deila málsaðilar að öðru leyti um hvort frágangi byggingarsvæðisins og þess krana sem áfrýjandi hafi fallið úr hafi verið svo áfátt að stefndu beri af þeim sökum skaðabótaábyrgð á því tjóni sem áfrýjandi varð fyrir umrætt sinn.

II

Samkvæmt vottorðum landspítalans var bókuð við komu áfrýjanda þangað á slysdegi sú frásögn að slysið hafi orðið vegna klifurs hans í byggingarkrana. Degi eftir slysið skráði H, starfsmaður heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar sem bjó í sama húsi og áfrýjandi, kvörtun um ástand vinnusvæðisins þar sem sérstaklega var tilgreind hætta vegna kranans. Þá eru í gögnum málsins loftmynd tekin 7. júlí 2006 er sýnir einn krana á vinnusvæðinu við […] nr. 22 og ljósmynd sem málsaðilar eru sammála um að sé af krana sömu gerðar. Voru myndir þessar bornar undir áfrýjanda og vitni við meðferð málsins í héraði. Staðfesti áðurnefndur G, frásögn áfrýjanda um að hann hafi fallið vegna klifurs í krana við lóð nr. 22 á þann hátt sem að framan greinir. Þá báru áðurnefndur H og foreldrar áfrýjanda að þau hefðu þekkt til vettvangsins og að krani sá sem áfrýjandi hafi fallið úr hafi staðið við lóð nr. 22. Af framburði þeirra verður einnig ályktað að á þeim tíma sem slysið varð hafi þetta verið eini kraninn á svæðinu. Loks kom fram hjá stefnda C, sem var byggingarstjóri að verkinu, að þótt annar krani hafi verið við lóðir nr. 16 til 20 á vinnusvæðinu á einhverjum tíma þá hafi krani sá sem kæmi fram á áðurnefndri loftmynd af svæðinu örugglega verið sá krani sem notaður var við framkvæmdir stefnda Húsafls sf. á þeim tíma sem um ræðir, en verið var að reisa sökkla á lóðinni. Samkvæmt framansögðu er nægilega í ljós leitt að slys áfrýjanda varð með þeim hætti sem hann lýsir.

Framkvæmdum á byggingarsvæðinu fylgdi mikið rask og bera gögn málsins með sér að frágangur þar hafi ekki verið í góðu horfi þegar litið er til aðstæðna allra. Þannig lá svæðið við þétta íbúðarbyggð og var krani sá sem um ræðir staðsettur við göngustíg. Mátti beinlínis gera ráð fyrir að börn myndu nýta svæðið til leikja, sem var og raunin, með afleiðingum eins og þeim sem um ræðir í máli þessu. Þótt fallist verði á með stefndu að um kranann hafi legið keðja með þeim hætti sem þeir lýsa, var hún á engan hátt hindrun fyrir börn sem leika vildu sér í honum. Verður ekki séð að reynt hafi verið að ganga þannig frá á vinnusvæðinu að börn yrðu hindruð við hættulegan leik. Bera stefndu því skaðabótaábyrgð á slysi áfrýjanda eftir almennum reglum skaðabótaréttar og standa ekki rök til þess að fella eigin sök á áfrýjanda, sem var tæpra 9 ára gamall er slysið varð.

Stefndu verða dæmdir til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.  

Það athugast að í hinum áfrýjaða dómi er ítrekað rætt um móður áfrýjanda sem stefnanda málsins í héraði þótt hún hafi þar aðeins komið fram sem fyrirsvarsmaður hans í málinu þar til hann varð lögráða fimm dögum fyrir uppsögu dómsins.

Dómsorð:

Viðurkennt er að stefndu, Húsafl sf., B, C, D, E og F, beri óskipta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem áfrýjandi, A, varð fyrir 16. mars 2006 á byggingarlóð stefnda Húsafls sf. við […] 22 í […].

Stefndu greiði óskipt áfrýjanda 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði.

Stefndu greiði óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 1.000.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. febrúar 2015, var höfðað 23. júní 2014 af I, […] f.h. ólögráða sonar síns, A, sama stað, á hendur Húsafli sf., […], Reykjavík og fyrirsvarsmönnum Húsafls sf., þeim E, […], B, […], C, […], D, […] og F, […], óskipt til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna slyss sem A varð fyrir þann 16. mars 2006 og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu.

Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði sameiginleg óskipt skaðabótaskylda stefndu Húsafls sf. og E, B, C, D og F vegna líkamstjóns sem A varð fyrir í slysi þann 16. mars 2006.

Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda óskipt og sameiginlega málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi. Jafnframt er þess krafist að dæmdur málskostnaður taki mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

Stefndu krefjast þess aðallega að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Stefndu krefjast þess til vara að þeir verði einungis dæmdir skaðabótaskyldir að hluta og að einungis verði viðurkenndur að hluta, réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu Húsafls sf. hjá réttargæslustefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna þess tjóns sem hann varð fyrir þann 16. mars 2006, er hann féll og handleggsbrotnaði að […] og að í því tilviki verði málskostnaður felldur niður.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Helstu málsatvik eru þau að A, þá tæpra níu ára gamall, handleggsbrotnaði þann 16. mars 2006 á framhandlegg hægri handar, nánar tiltekið á fjærenda sveifar, þegar hann var við leik á byggingarsvæði við […]. Þegar slysið varð bjó hann að […], sem er í námunda við iðnaðarhverfið við […] og þá var verið að reisa hús við þá götu á lóðum númer 16-22. Stefndi Húsafl sf. og meðstefndu, sem eru eigendur Húsafls sf., unnu á þessum tíma að því að reisa hús að […] 22 og verið var að steypa botnplötu hússins um það leyti sem slysið varð. Stefndi Húsafl sf. var þá með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda Sjóvá-Almennum tryggingum.

Stefnandi lýsir slysinu svo að á ógirtri lóðinni hafi staðið byggingarkrani á vegum stefnda Húsafls. A hafi farið upp á neðsta hluta kranans og fallið niður u.þ.b. tvo og hálfan metra. Stefnandi I hafi haft áhyggjur af því að aðgengi barna inn á byggingarsvæðið væri algerlega hindrunarlaust. Hafi hún gert sér ferð þangað nokkru áður en slysið varð, þar sem þá hefði sést til ungra drengja að leik á og við byggingarlóðina, og lýst áhyggjum sínum fyrir mönnum sem þar hafi verið að störfum.

Farið var með stefnanda á bráðamóttöku og gert að handleggsbrotinu og var skráð koma klukkan 19.25 þann 16. mars 2006. Í skýrslu bráðamóttöku var skráð að engin vitni hefðu verið að fallinu, en í gögnum málsins er skrifleg yfirlýsing, dags. 3. febrúar 2012, frá félaga drengsins um að hann hafi orðið vitni að atburðum, þá átta ára gamall.

Stefnandi upplýsti nágranna sinn, H, um slysið. Hann bjó þá einnig að […] og starfaði sem heilbrigðisfulltrúi hjá Reykjavíkurborg. H fór og skoðaði aðstæður við […] 16-22 og setti eftir skoðunarferðina athugasemdir sínar inn í tölvukerfi borgarinnar. Þar kemur fram að kvörtun hafi komið fram vegna […] 16-22 og staðfest sé að byggingarsvæðið sé ógirt, aðgengi barna opið og íbúðabyggð nálægt. Líklegast taki byggingarreglugerð á þessu máli. Rætt hafi verið við J á embætti byggingarfulltrúa og hann upplýstur um málið og aðilar væru sammála um að þetta félli undir verksvið byggingarfulltrúa sem tæki við málinu. H ítrekaði við byggingarfulltrúa að kvartanir hefðu borist vegna girðingarleysis rúmum mánuði síðar, 19. apríl 2006.

Á árinu 2007 handleggsbrotnaði A aftur á hægri hönd og þá var brotið við nærenda sveifar. Á árinu 2009 kom í ljós að vaxtaskerðing hefði orðið í fjærenda sveifar og ölnin í handlegg hans væri orðin hlutfallslega lengri en sveifin. Í mars 2010 gekkst hann undir skurðaðgerð þar sem frekari vöxtur alnar var stöðvaður til að hindra frekara ósamræmi.

Stefndu bárust upplýsingar um slysið rúmum fjórum árum eftir að það varð, með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda Húsafls sf., 22. september 2010. Þar kom fram að stefnandi teldi fyrirtækið og byggingastjórann bera skaðabótaábyrgð á slysinu. Í kjölfar kröfubréfsins var réttargæslustefndi upplýstur um kröfuna um bætur úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda Húsafls sf. Í framhaldinu voru nokkrar bréfaskriftir milli lögmanns stefnanda og starfsmanna réttargæslustefnda þar sem þess var freistað að afla frekari gagna um slysið og aðstæður á slysstað, s.s. afrits af lögregluskýrslu eða ljósmyndir af vettvangi en án árangurs þar sem engin slík gögn voru til. Af hálfu réttargæslustefnda var greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu hafnað. Stefnandi vildi ekki una þeirri niðurstöðu og skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Með úrskurði nefndarinnar, dags. 27. mars 2012, var bótaskyldu hafnað. Stefnandi hefur ekki viljað una þeirri niðurstöðu og hefur því höfðað mál þetta.

Dómari gekk á vettvang í upphafi aðalmeðferðar málsins. Við aðalmeðferðina gáfu skýrslur I, móðir A og stefnandi fyrir hans hönd, pilturinn A, K, faðir hans, G, félagi hans og H, fyrrum nágranni hans. Þá kom stefndi C fyrir dóminn og gaf skýrslu, en hann var byggingarstjóri framkvæmda við […] 22 í mars 2006.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að slys A verði rakið til þess að stefndu hafi ekki viðhaft fullnægjandi öryggisráðstafanir eða varnaraðgerðir á og við byggingarlóðina að […] 22 í […]. Vegna nálægðar við íbúðabyggð hafi verið sérstaklega mikilvægt að haga öryggisráðstöfunum eða varnaraðgerðum þannig að börn kæmust ekki inn á byggingarlóðina eða að sérstaklega hættulegum stöðum inni á lóðinni svo sem að byggingarkrananum sem A hafi fallið úr. Vegna nálægðar við íbúðabyggð hafi stefndu mátt vera fullljóst að börn myndu fara inn á lóðina enda vel þekkt að börn leiti inn á byggingarlóðir til leikja.

Þrátt fyrir augljósa hættu á slysi eins og því sem A hafi orðið fyrir hafi stefndu ekki gripið til öryggisráðstafana eða varnaraðgerða til að fyrirbyggja hættuna. Slys A sé afleiðing af þessari vanrækslu stefndu.

Í tölvupósti frá réttargæslustefnda, dags. 8. júní 2011, segi að lóðin hafi verið girt út við götu. Þetta sé ekki rétt, lóðin hafi verið ógirt. Stefnandi bendi engu að síður á að það hefði verið með öllu ófullnægjandi ráðstöfun af hálfu stefndu, einkum Húsafls, að girða aðeins þá hlið sem snúi að götu, þegar fjölmenn íbúðabyggð sé á hina hliðina og göngustígur liggi með fram tveimur hliðum lóðarinnar. Þær hliðar hefðu stefndu sömuleiðis átt að girða. Girða hefði þurft alla lóðina til að hindra aðgang að henni.

Í sama tölvupósti komi fram að stefndi hafi hengt keðju á fjóra vegu kringum kranann og keðjurnar verið festar í fætur kranans. Stefnandi bendi á að þetta sé í ósamræmi við frásögn móður A, sem segist fyrst hafa séð þessa keðju eftir að slys A hafi orðið. Stefnandi bendi engu að síður á að slík ráðstöfun hefði verið gagnslaus til að koma í veg fyrir að börn kæmust að krananum og klifruðu upp í hann.

Kröfur stefnanda gagnvart Húsafli sem verktaka framkvæmda að […] 22 séu reistar á hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar, reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 441/1998, ákvæðum reglna nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, ákvæðum laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og lögreglusamþykkt Reykjavíkur, nr. 506/2004.

Byggingarframkvæmdir að […] 22 hafi verið unnar af stefnda Húsafli, en tilgangur félagsins samkvæmt fyrirtækjaskrá sé verktakastarfsemi í byggingariðnaði. Það sé því ljóst að stefnda Húsafl hafi borið ábyrgð á aðstæðum og aðbúnaði á og við byggingarlóðina.

Stefnandi byggi á eftirfarandi:

1. Gáleysi - sakarreglan og regla skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð

Aðbúnaður á og við byggingarsvæðið að […] 22 hafi verið óforsvaranlegur, enda hafi stefndi Húsafl eða starfsmenn sem hann beri ábyrgð á á grundvelli reglna skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð ekki gripið til fullnægjandi öryggisráðstafana eða varnaraðgerða til að koma í veg fyrir að börn kæmust inn á byggingarlóðina og/eða kæmust að sérstaklega hættulegum stöðum inn á byggingarlóðinni eins og krananum sem A hafi fallið úr.

Stefnandi telji að gera eigi miklar kröfur til stefnda sem verktaka og byggingafyrirtækis um að grípa til fullnægjandi öryggisráðstafana eða varnaraðgerða þegar íbúðarbyggð sé í næsta nágrenni við framkvæmdasvæðið. Það sé vel þekkt staðreynd að börn fari inn á byggingarsvæði í leit að leiksvæði. Þetta megi verktökum eins og stefnda vera ljóst. Stefnandi telji að fullyrða megi að það hafi verið því sem næst fyrirsjáanlegt í ljósi aðstæðna að börn úr nálægðri byggð færu inn á byggingarlóðina og gerðu sér að leik að klifra í umræddum krana. Þrátt fyrir framangreint hafi stefndi Húsafl ekki gripið til öryggisráðstafana eða varnaraðgerða til að koma í veg fyrir þessa slysahættu.

Stefnandi bendi á að stefndi Húsafl hefði ekki þurft að grípa til umfangs- eða kostnaðarmikilla ráðstafana til að draga verulega úr hættu á slysinu. Setja hafi mátt upp girðingu úr vírneti umhverfis byggingarlóðina og/eða í kringum byggingarkranann enda hættan sem af honum hafi stafað verið augljós sé byggingarlóðin ógirt. Slíkar girðingar megi víða sjá umhverfis byggingarsvæði, sérstaklega þegar byggt sé nálægt íbúðabyggð. Þá bendi stefnandi á að göngustígar liggi með fram og mjög nærri byggingarlóðinni, og þannig sé beinlínis gert ráð fyrir umferð fótgangandi með fram byggingarsvæðinu. 

Slys A sé afleiðing af ófullnægjandi öryggisráðstöfunum eða varnaraðgerðum af hálfu stefnda Húsafls. Stefndi Húsafl beri því skaðabótaábyrgð á slysi A á grundvelli sakarreglunnar og reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.

2. Brot á ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum

Stefndi Húsafl sé atvinnurekandi skv. 12. gr., sbr. einnig 90. gr. laga nr. 46/1980. Á slysdegi hafi […] 22 verið vinnustaður í skilningi 41. gr. laga nr. 46/1980.

Samkvæmt 13. gr. laganna hafi stefnda borið að tryggja að gætt væri fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Í ákvæðinu sé sérstaklega vísað til VI. kafla laganna sem fjalli um vinnustaði og VII. kafla laganna sem fjalli um vélar, tækjabúnað og fleira. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skuli vinnustaður þannig úr garði gerður að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. skulu vélar, tæki og búnaður þannig úr garði gerð að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.

Stefnandi telji að þar sem stefndi hafi ekki gripið til öryggisráðstafana eða varnaraðgerða til að koma í veg fyrir að óviðkomandi, þ. á m. börn, kæmust inn á byggingarlóðina eða að byggingarkrananum hafi hann vanrækt þær skyldur sem á honum hvíli samkvæmt áðurnefndum ákvæðum laga nr. 46/1980, enda geti það ekki talist fyllsta öryggi eða góður aðbúnaður eða hollustuhættir að láta byggingarlóð og byggingarkrana svo nærri fjölmennri íbúðarbyggð standa óvarða og/eða gæslulausa. 

3. Brot á öryggisreglum

Stefndi Húsafl sem verktaki framkvæmdanna hafi ekki fullnægt skyldum sínum samkvæmt ákvæðum reglna nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, og það hafi leitt til slyssins. Reglurnar séu settar með stoð í 38. gr. laga nr. 46/1980.

Samkvæmt 8. gr. reglnanna skulu atvinnurekendur eða verktakar gera ráðstafanir sem samræmist kröfum sem gerðar séu í IV. viðauka og hafa hliðsjón af leiðbeiningum samræmingaraðila til að tryggja öryggi á byggingarvinnustaðnum. Samkvæmt gr. 1.2 í A-hluta IV. viðauka við reglurnar, skuli við ófullgerð hús og önnur mannvirki gengið þannig frá að sem minnst hætta geti stafað af fyrir óviðkomandi. Hér sé beinlínis mælt fyrir um skyldu stefnda sem verktaka til að haga öryggisráðstöfunum með tilliti til þeirra sem kunni að eiga leið hjá framkvæmdasvæðinu, þar séu börn engin undantekning, og stefnda hafi borið að taka tillit til þess að framkvæmdirnar hafi staðið svo nærri íbúðarbyggð að umferð óviðkomandi, einkum barna hafi verið fyrirsjáanleg. Þrátt fyrir þessa skyldu hafi stefndi Húsafl ekki gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir slysahættu fyrir óviðkomandi, t.d. með því að reisa girðingu umhverfis byggingarlóðina og/eða kranann sem A hafi fallið úr.

Samkvæmt f-lið 6. gr. reglna nr. 547/1996 skuli samræmingaraðili á framkvæmdastigi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að aðeins þeir sem þangað eigi erindi fái aðgang að byggingarsvæðinu.

Hvort sem slíkur samræmingaraðili hafi verið skipaður eða ekki, og óháð því hvort skylda hafi verið til að skipa samræmingaraðila vegna framkvæmdanna að […] 22, hafi það ekki áhrif á skyldu stefnda til að tryggja að aðeins þeir sem þangað hafi átt erindi fengju aðgang að byggingarsvæðinu. Ástæðan sé sú að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglnanna leysi það verktaka ekki undan ábyrgð þeirri, sem kveðið sé á um í 6. gr., að ekki hafi verið skipaður samræmingaraðili. Af þessu leiði að stefnda Húsafli hafi borið skylda til að tryggja að aðeins þeir sem þangað hafi átt erindi hefðu aðgang að byggingarsvæðinu. Það hafi stefndi ekki gert. Slys A sé afleiðing af þessari vanrækslu stefnda og beri stefndi því skaðabótaábyrgð á afleiðingum slyssins.

Í reglum nr. 547/1996 komi einnig fram að verktökum sé skylt að sjá til þess að skipulag á vinnustað sé fullnægjandi, m.a. að því er varði samskipti við einstaklinga í nágrenni byggingarsvæðisins, sjá. j-lið 8. gr. reglnanna. Stefnandi telji að ákvæðið skuli skýra svo að verktökum sé skylt að huga sérstaklega að öryggisráðstöfunum með tilliti til einstaklinga í nágrenni byggingarsvæðisins. Þessi skylda sé enn ríkari þegar byggingarsvæðið standi nálægt fjölmennri íbúðabyggð. Ákvæðið verði ekki túlkað öðruvísi en þannig að á stefnda Húsafli hafi hvílt skylda til að eiga frumkvæði að samskiptum við nágranna byggingarlóðarinnar. Engin slík samskipti hafi farið fram, en ekki sé hægt að útiloka að slík samskipti hefðu leitt til aðgerða af hálfu Húsafls til að koma í veg fyrir að börn legðu leið sína inn á byggingarlóðina.

Þá telji stefnandi að stefndi Húsafl hafi ekki fullnægt skyldum sem á stefnda hvíli samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 441/1998, einkum ákvæði 4. mgr. 56. gr. Í ákvæðinu segi að ef byggingarvinnustaður liggur við götu eða svo nálægt götu að hætta geti stafað af fyrir gangandi vegfarendur sé skylt að girða hann af. Girðingar skuli þó ekki hindra umferð fótgangandi um götuna eða aðra umferð. Samkvæmt tilvitnaðri 4. mgr. 56. gr. byggingarreglugerðarinnar kunni aðstæður að vera með þeim hætti að girða beri af byggingarsvæði til að koma í veg fyrir slysahættu vegfarenda. Stefnandi telji að ákvæðið verði ekki túlkað þannig að því sé aðeins ætlað að mæla fyrir um skyldu til að girða byggingarsvæðið af við götu, heldur umhverfis byggingarsvæðið enda segi í ákvæðinu að girðing skuli ekki hindra umferð utan lóðar. Göngustígur liggi með fram og fyrir ofan byggingarsvæðið.

Einnig byggi stefnandi á því að stefndi Húsafl hafi ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 17. gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkur, nr. 506/2004, sem í gildi hafi verið á slysdegi. Samkvæmt því ákvæði sé eiganda eða verktaka skylt að forðast að valda hættu fyrir vegfarendur þegar hús sé byggt, og setja upp skilti til leiðbeiningar, sbr. 1. mgr. 17. gr. samþykktarinnar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli girðingar sem reistar séu vegna mannvirkjagerðar fjarlægðar þegar þeirra sé ekki lengur þörf. Af þessum ákvæðum verði að mati stefnanda að draga þá ályktun að skylda verktaka til að koma í veg fyrir tjón á vegfarendum feli meðal annars í sér skyldu til að setja upp girðingu umhverfis byggingarsvæðið.

Þar sem stefnda Húsafl sé sameignarfélag meðstefndu beri þeir sameiginlega og óskipta ábyrgð á skuldbindingum þess samkvæmt 8. sbr. 2. gr. laga nr. 50/2007, og sé þeim stefnt fyrir hönd félagsins og persónulega skv. 18. gr. laga nr. 91/1991.

Þá byggi stefnandi á því að slysið verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi F, húsasmíðameistara byggingarinnar að […] 22. Störf hans sem húsasmíðameistara byggingarinnar hafi verið unnin í þágu stefnda Húsafls. Stefndi Húsafl beri því ábyrgð á því tjóni sem rakið verði til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi F samkvæmt reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð.

Kröfur stefnanda á hendur F byggi einnig á þeirri málsástæðu að á honum sem húsasmíðameistara við framkvæmdirnar hafi hvílt skylda til að grípa til viðeigandi öryggisráðstafana eða varnaraðgerða á byggingarstaðnum einkum hvað varði aðbúnað við kranann sem A hafi fallið úr og aðgengi að honum.

Stefnandi vísi til þess að skv. 52. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skuli iðnmeistari bera ábyrgð gagnvart byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda á að þeir verkþættir sem hann taki að sér að hafa umsjón með séu unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.

Í byggingarreglugerð nr. 441/1998 séu nánari ákvæði um skyldur húsasmíðameistara. Í 38. gr. segi að húsasmíðameistari beri ábyrgð á allri trésmíðavinnu við bygginguna, steypumótum, stokkum og götum sem sett séu á steypumót. Samkvæmt ákvæði 56.6 í byggingarreglugerðinni sé iðnmeisturum skylt að sjá um að sem minnst hætta, óþrifnaður eða önnur óþægindi stafi af framkvæmdum og viðhafðar séu fyllstu öryggisráðstafanir, eftir því sem aðstæður leyfi. Við öryggisráðstafanir á vinnustað þurfi bæði að hafa í huga þá sem þar séu vegna vinnu sinnar og þá sem þar kunni að koma af öðrum ástæðum. Af framangreindu leiði að það sé á ábyrgð hvers og eins iðnmeistara að viðeigandi öryggisráðstafana sé gætt á starfssviði hans.

Stefnandi telji að líta verði svo á að notkun byggingarkrana falli innan starfssviðs húsasmíðameistara og sé á hans ábyrgð, enda verði ekki séð hvernig öll trésmíðavinna og steypuvinna í svo stórri byggingarframkvæmd eins og hér er um ræði, verði unnin án byggingarkrana. Með vísan til framangreinds og þess að byggingarlóðin hafi staðið nærri íbúðarbyggð hafi F, sem húsasmíðameistara byggingarinnar, borið að grípa til fullnægjandi öryggisráðstafana til að koma í veg fyrir að börn kæmust að byggingarkrananum. Það hefði mátt gera án mikillar fyrirhafnar eða kostnaðar, t.d. með því að reisa girðingu í kringum lóðina.

Stefnandi bendi á að jafnvel þó að gripið hafi verið til einhverra ráðstafana, t.d. að strengja keðju kringum kranann eins og haldið sé fram af hálfu réttargæslustefnda, breyti það engu um skaðabótaskyldu bæði Húsafls og F, enda sé slík ráðstöfun eða varnaraðgerð með öllu ófullnægjandi, og eigi ekki að koma í veg fyrir að börn geri sér að leik að klifra í krananum.

Á slysdegi hafi A verið níu ára gamall. Stefnandi telji að engar forsendur séu fyrir því að skerða bótarétt hans vegna hugsanlegrar eigin sakar. Háttsemi hans sé í engu frábrugðin þeirri háttsemi sem vænta megi af níu ára gömlu barni. Vanræksla stefndu á að grípa til fullnægjandi öryggisráðstafana sé það mikill og ráðandi þáttur í því að slysið hafi átt sér stað að ekki komi til greina að skerða bótarétt í málinu vegna meðábyrgðar A.

Stefnandi vísi einnig til 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. A þurfi að búa með afleiðingum þessa slyss alla sína ævi. Afleiðingarnar séu honum þungbærar, enda alvarlegar, t.d. stytting á hægri handlegg, eins og rakið sé í læknisvottorði L, dags. 16. október 2013. Stefnandi telji því að ekki komi til álita að skerða bótarétt sökum eigin sakar í málinu. 

Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaður stefnanda beri virðisaukaskatt skv. lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr., 1. mgr. 41. gr. og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Um heimild stefnanda til að höfða mál til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð stefndu, Húsafls sf. og F, vísist til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi hafi augljósa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, enda hafi hann orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna slyssins sem honum beri að fá bætt samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 verði fallist á viðurkenningarkröfu hans. Um afleiðingar slyssins vísist m.a. til læknisvottorðs L þar sem afleiðingarnar séu raktar og sérstaklega tekið fram að frekari bata sé ekki að vænta og tímabært sé að meta afleiðingar slyssins.

Um málshöfðun á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vísist til 21. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en félaginu sé stefnt til réttargæslu.

Málsástæður og lagarök stefndu og réttargæslustefnda

Aðalkrafa stefndu um sýknu sé á því byggð að ósannað sé að tjón stefnanda sé að rekja til aðstæðna eða atvika sem stefndu beri ábyrgð á að lögum. Stefndu telji að tjón stefnanda sé fyrst og fremst að rekja til gáleysislegrar hegðunar af hans hálfu og/eða óhappatilviljunar.

Stefndu telji í fyrsta lagi ósannað að slys stefnanda hafi orðið á lóð sem verið hafi á ábyrgð stefndu og að hann hafi fallið úr byggingarkrana sem verið hafi í eigu og á ábyrgð stefndu. Sönnunarbyrðin um það hvernig slysið hafi átt sér stað hvíli á stefnanda. Þá sé jafnframt stefnanda að sanna að slysið hafi orðið á lóðinni […] 22 en ekki á nærliggjandi lóðum og að stefnandi hafi fallið úr byggingarkrana í eigu og á ábyrgð stefnda Húsafls sf. Það liggi fyrir að […] hafi á þessum tíma verið að byggjast upp og framkvæmdir hafi einnig verið til að mynda á nærliggjandi lóðum, […] 20 og […] 16-18. Byggingarkranar hafi verið á þessum lóðum á ákveðnum tímabilum. Ekki liggi fyrir í gögnum málsins hvort byggingarkranar hafi verið á þessum lóðum á slysdegi. Skortur á upplýsingum um hvernig aðstæður hafi verið á byggingarsvæðinu á slysdegi séu á ábyrgð stefnanda. Stefnandi eða forráðamenn stefnanda hafi ekki kallað lögreglu á vettvang né upplýst stefndu um slysið. Slysið hafi átt sér stað utan vinnutíma og stefndu hafi fyrst heyrt af því um fjórum og hálfu ári eftir að það hafi átt sér stað. Eðli máls samkvæmt geti stefndu ekki munað nákvæmlega hvernig aðstæður hafi verið á tilteknum degi mörgum árum áður.

Eina samtímagagnið sem finna megi í gögnum málsins sé samantekt H, sem gerð hafi verið 17. mars 2006. H hafi á þessum tíma unnið sem heilbrigðisfulltrúi og hafa beri í huga að skoðunarferðir á byggingarverkstaði og úttekt á byggingarkrönum hafi ekki verið hluti af hans daglegu störfum, sbr. tölvupóst frá M. Þá beri einnig að hafa í huga við mat á vitnaframburði H að hann hafi verið búsettur í sama húsi og stefnandi. Ljóst sé því að óhlutdrægni H sé ekki algjör. Þá skuli einnig á það bent að í skýrslunni frá 17. mars 2006 fjalli H um byggingarsvæðið að […] 16-22 og geri engan greinarmun á þessum þremur lóðum. Í gögnum málsins sé að finna bréf frá H, dags. 3. mars 2011, og þá sé umfjöllunin sögð vera eingöngu um […] 22. Stefndu mótmæli því harðlega að djúpur pollur hafi verið á lóðinni að […] 22 og telji að þar hljóti að vera um misminni hjá H að ræða. Á lóðinni hafi einungis verið flatur grunnurinn og engin vatnssöfnun möguleg í honum. Þá hafi aldrei verið rætt við forsvarsmenn byggingarsvæðisins um nauðsyn þess að koma í veg fyrir auðvelt aðgengi barna í hverfinu. Þeirri fullyrðingu í bréfi H sé því harðlega mótmælt.

Mótmælt sé þeirri fullyrðingu í stefnu að forráðamenn stefnanda hafi haft samband við fyrirsvarsmenn stefnda Húsafls sf. og lýst yfir áhyggjum af skorti á öryggis- og varnarráðstöfunum á svæðinu. Þá hafi stefndu ekki verið kunnugt um það að svæðið væri vinsælt leiksvæði hjá börnunum í hverfinu líkt og haldið sé fram í stefnu.

Í vottorði N, sem sinnt hafi stefnanda á bráðamóttöku sé haft eftir stefnanda að engin vitni hafi verið að fallinu. Í gögnum málsins sé aftur á móti að finna yfirlýsingu frá G, dags. 3. febrúar 2012, um að hann hafi orðið vitni að atburðum. Stefndu leggi áherslu á að G muni hafa verið 8 ára á slysdag og yfirlýsingin sé skrifuð tæpum 6 árum eftir slysið. Þá sé orðlag yfirlýsingarinnar þannig að telja verði ólíklegt að 14 ára drengur hafi ritað hana. Stefndu telji að líta beri til þessa þegar sönnunargildi yfirlýsingar G sé metið.

Sönnunarbyrði um að orsakir slyssins sé að rekja til saknæms gáleysis af hálfu stefndu hvíli á stefnanda. Stefndu mótmæli því alfarið að skort hafi á að viðhafðar væru nauðsynlegar öryggisráðstafanir og að slysið hafi orsakast af skorti á varúðar- og öryggisráðstöfunum.

Stefndu byggi sýknukröfu sína á því að ekki hafi skort á öryggisráðstafanir á verkstað og að varnaraðgerðir á og við byggingarlóðina hafi að öllu leyti fullnægt gildandi reglum og kröfum eftirlitsaðila. Þá hafi aðstæður og aðbúnaður á verkstað einnig verið í samræmi við það sem almennt hafi tíðkast við byggingarframkvæmdir á þessum tíma. Stefndu bendi á að kröfu til stefndu um að afgirða lóðina hefði byggingarfulltrúi getað sett fram en slík krafa hafi aldrei verið gerð og það þrátt fyrir að byggingarfulltrúi hafi komið margsinnis á byggingarsvæðið til úttekta, m.a. 11. janúar 2006, 30. janúar 2006, 4. mars 2006 og 6. mars 2006, samkvæmt byggingarsögu hússins. 

Allur málatilbúnaður stefnanda byggi á því að verksvæðið hafi átt að vera afgirt til að varna því að börn í aðliggjandi hverfum kæmust inn á svæðið. Hvergi sé í skráðum reglum gerð krafa um að byggingarsvæði séu girt af að öllu leyti. Þá verði að hafa í huga að á þessum tíma hafi […] öll verið að byggjast upp og gatan því í raun eitt stórt byggingarsvæði. Til að mynda var á sama tíma verið að reisa […] 16-18 og […] 20. Þessar þrjár lóðir séu samliggjandi og það liggi fyrir að þessar lóðir hafi ekki heldur verið afgirtar. Stefnandi hafi því getað komist inn á byggingarsvæðið í gegnum nærliggjandi lóðir. Það sé algjörlega ósannað að hann hafi komið inn á svæðið nákvæmlega á þeirri lóð sem verið hafi á ábyrgð stefndu, þ.e. […] 22.

Í stefnu sé þessi meinta skylda til að afgirða lóðina talin byggja á því að byggingarsvæðið hafi verið í námunda við íbúðabyggð og því ljóst að börn myndu leita í að leika sér á lóðinni. […] sé í atvinnu- og iðnaðarhverfi, en það sé rétt að handan við mön sem liggi austan við […] sé íbúðahverfi. Það sé ekki nýtt af nálinni að húsnæði séu reist í námunda við íbúðabyggð né að börn stelist til að leika sér á slíkum svæðum en þrátt fyrir það hafi ekki verið settar neinar almennar reglur sem krefjist þess að byggingarsvæði séu afgirt þannig að enginn fótgangandi komist þar inn. Svo ríkar kröfur verði því ekki lagðar á stefndu. Varúðarskylda hvíli að sjálfsögðu fyrst og fremst á einstaklingunum sjálfum og forráðamönnum þeirra.

Stefndu hafi á framkvæmdartíma sett upp girðingu að […] 22 á þeim hluta lóðarinnar sem snúið hafi að götunni. Aldrei hafi verið sett upp girðing á hinum hliðunum enda hafi stefndu engin skylda borið til þess og aldrei hafi komið fram krafa um slíkt frá eftirlitsaðilum.  

Því fylgi ávallt hætta að klifra upp á hluti. Stefnandi hafi kosið í umrætt sinn að klifra upp byggingarkrana sem staðsettur hafi verið á byggingarsvæði þar sem var verið að reisa nokkrar byggingar. Stefndu telji fullljóst að stefnandi hafi í umrætt sinn haft þroska til að vita að hann væri á svæði sem hann hafi ekki mátt vera á og að því hafi fylgt hætta að klifra upp á byggingarkranann. Þrátt fyrir það hafi stefnandi kosið að klifra upp kranann. Nákvæmlega hversu hátt hann hafi klifrað liggi ekki fyrir. Í stefnu sé talað um að hann hafi fallið niður um það bil 2,5 metra. Í vottorði L, sé því haldið fram að fallið hafi verið 3,5 metrar og í vottorði N segi að stefnandi hafi klifrað upp byggingarkrana, litið niður þegar hann hafi verið kominn eitthvað áleiðis, brugðið við hversu hár kraninn væri og dottið niður á útrétta hægri höndina. Það liggi því ekki nákvæmlega fyrir úr hvaða hæð stefnandi hafi dottið. Stefndu vilji benda á að handleggsbrot geti orsakast af falli úr lítilli hæð eða jafnvel á jafnsléttu. Þá skuli því einnig haldið til haga að stefnandi hefði eins vel getað dottið eftir að hafa klifrað upp á t.d. húsvegg en enginn geri þó kröfu um að allir húsveggir séu afgirtir. Það hafi ekki verið hættueiginleikar byggingarkranans sem slíks eða byggingarsvæðisins sem orsakað hafi slysið heldur einungis það að stefnandi hafi klifrað upp og dottið. Þá megi líka halda því fram að þeir sem ætla inn á byggingarsvæði til að klifra í byggingarkrönum láti ekki grindverk stöðva sig og jafnvel klifri yfir það. Engin orsakatengsl séu milli þess að ekki hafi verið grindverk allt í kringum framkvæmdasvæðið að […] og þess að stefnandi hafi fallið niður úr krana eftir að hafa klifrað í honum.

Stefndu byggi einnig á því að það sé algjörlega ósannað að stefnandi hafi fallið úr byggingarkrana í eigu stefndu. Nokkur hús, m.a. […] 20 og […] 16-18, hafi verið í byggingu í mars 2006. Byggingarkranar hafi einnig verið við þessi hús á tímabili en ekkert liggi fyrir um það í gögnum málsins hvort kranarnir hafi verið þarna í mars 2006 eða ekki. Það sé því algjörlega ósannað að byggingarkraninn sem stefnandi hafi fallið úr hafi verið í eigu og á ábyrgð stefndu. Jafnvel þó að gengið sé út frá því að stefnandi hafi í umrætt sinn fallið úr byggingarkrana í eigu og á ábyrgð stefndu þá beri stefndu ekki bótaábyrgð á tjóni hans. Því sé sérstaklega mótmælt að af krananum hafi stafað augljós hætta. Byggingarkrani stefndu hafi að öllu leyti uppfyllt gildandi lög og reglur, þ. á m. ákvæði reglna nr. 609/1999 um öryggisbúnað krana og lyftibúnað. Þá liggi fyrir að kraninn hafi verið skoðaður af Vinnueftirlitinu án athugasemda. Kraninn hafi verið útbúinn keðju allt umhverfis fætur kranans. Sérstaklega sé tilgreint í skýrslu H að á svæðinu hafi verið krani sem ekki hafi verið lokaður aðgengi. Þar sem krani stefndu hafi verið lokaður með keðjum auki það líkurnar á að H hafi ekki verið að vísa til krana stefndu í tölvufærslunni. Þá verði auðvitað einnig að leggja á það áherslu að eftirlit með byggingarkrönum hafi ekki fallið innan verksviðs H. Eftirlit með vinnuvélum sé á hendi Vinnueftirlitsins og kraninn sem verið hafi í eigu og á ábyrgð stefndu hafi uppfyllt allar kröfur sem Vinnueftirlitið hafi gert.

Stefndu hafi fyrst heyrt af slysi stefnanda rúmum fjórum árum eftir slysið eða í lok september 2010 með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda Húsafls sf., dags. 22. september 2010. Stefnandi hafi aftur á móti skilað inn tjónstilkynningu til réttargæslustefnda rúmu ári áður eða þann 19. ágúst 2009, þar sem farið hafi verið fram á bætur úr frítímaslysatryggingu föður stefnanda. Athygli veki að í þessari tilkynningu sé slysstaður ekki tilgreindur með sama hætti og í stefnu. Í tjónstilkynningunni segi að slysstaður hafi verið […] en í stefnu og kröfubréfi, dags. 22. september 2010, sé slysstaður tilgreindur sem […] 22. Af tjónstilkynningunni frá 2009 sé ekki að sjá að stefnandi hafi á þeim tíma talið saknæmt gáleysi byggingarverktaka að […] hafa orsakað slysið.

Þar sem stefndu hafi ekki frétt af slysinu fyrr en rúmum fjórum árum eftir að það hafi átt sér stað og þar sem þeim hafi aldrei borist neinar kvartanir vegna aðbúnaðar eða öryggisráðstafana á svæðinu þá hafi stefndu ekki haldið nákvæmlega utan um t.d. hvernig aðstæður hafi verið þarna í mars 2006, hvar nákvæmlega verkið hafi verið statt og hvort búið hafi verið að setja upp grindverk götumegin við byggingarvæðið. Skortur á nákvæmari upplýsingum sé þó ekki á ábyrgð stefndu og áhersla sé lögð á að sönnunarbyrðin hvíli að sjálfsögðu á stefnanda. Það sé stefnanda að sýna fram á að aðstæður hafi verið með þeim hætti að bótaskylda hafi stofnast. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram sem styðji slíkar fullyrðingar.

Í stefnu komi fram að nágranni stefnanda, H, sem á þessum tíma hafi starfað sem heilbrigðisfulltrúi, hafi farið á vettvang eftir slysið og skoðað aðstæður. Í bókun um heimsóknina tali H alltaf um svæðið 16-22 og geri engan greinarmun á þessum þremur lóðum. Þá komi einnig fram í bókuninni að málinu hafi verið vísað áfram til byggingarfulltrúa þar sem þetta sé mál sem raunverulega eigi heima á borði byggingarfulltrúa en ekki hjá heilbrigðiseftirliti. Þetta hafi svo fengist staðfest í tölvupósti M deildastjóra, þar sem skýrt komi fram að frágangur á byggingarsvæði sé á verksviði byggingarfulltrúa og að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki eftirlit með frágangi og aðbúnaði byggingarkrana heldur Vinnueftirlit ríkisins sem hafi eftirlit með vinnuvélum. Í tölvupósti M komi einnig fram að það verði ekki ráðið af gögnum heilbrigðiseftirlitsins að verktakanum hafi verið gerð grein fyrir málinu.

Af bókun H og tölvupósti, dags. 19. apríl 2006, megi sjá að byggingarfulltrúi hafi í tvígang verið látinn vita af fram kominni kvörtun vegna girðingaleysis við […] 16-22. Þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi engar kröfur gert um úrbætur. Samkvæmt tölvupósti frá starfsmanni byggingarfulltrúa, þá sé ekki neitt skráð inn á byggingarleyfið vegna […] 22, um kvartanir eða aðfinnslur við aðbúnað eða öryggisráðstafanir. Þá sé ekkert minnst á slíkt í byggingarsögu hússins. Af þessu hljóti að vera hægt að draga þá ályktun að byggingarfulltrúi hafi ekki talið þörf á umbótum eða þörf á að skylda stefndu og/eða aðra, sem verið hafi við byggingarframkvæmdir við […] á þessum tíma, til að girða í kringum byggingarsvæði og byggingarkrana.

Stefndu mótmæli öllum málsástæðum stefnanda sem fram komi í stefnu. Þar á meðal sé því mótmælt að stefndu hafi gerst brotleg við ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ákvæði reglna nr. 547/1996 um aðbúnað hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum, ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eða lögreglusamþykkt Reykjavíkur nr. 506/2004. Hvergi í lögum og reglum sé gerð krafa um að byggingarsvæði séu afgirt að fullu né að byggingarkranar séu afgirtir.

Stefndu mótmæli því að slysið sé að rekja til skaðabótaskyldrar háttsemi stefnda F húsasmíðameistara. Stefndi F hafi gripið til allra þeirra öryggisráðstafana og varnaraðgerða á byggingarstaðnum sem lög, reglur og eftirlitsaðilar hafi krafist af honum. Stefndu mótmæli því sérstaklega að stefndi F hafi gerst brotlegur við 52. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Stefndu telji ljóst vera að sýkna beri þá alfarið af öllum kröfum stefnanda þar sem algjörlega ósannað sé að slysið sé að rekja til saknæmra aðstæðna og aðbúnaðar á ábyrgð stefndu. Slys stefnanda hafi eingöngu verið að rekja til gáleysislegrar hegðunar hans sjálfs og/eða óhappatilviljunar. Því beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu sé þess krafist að sök verði skipt og stefndu verði einungis dæmdir skaðabótaskyldir að hluta og að einungis verði viðurkenndur að sama hluta réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefndu.

Stefndu telji að jafnvel þótt talið yrði að slys stefnanda sé á einhvern hátt að rekja til atvika eða aðbúnaðar sem stefndu beri ábyrgð á sé mestan hluta tjóns stefnanda að rekja til gáleysislegrar hegðunar stefnanda og/eða óhappatilviljunar. Stefnandi hafi vissulega einungis verið níu ára gamall er slysið hafi átt sér stað en níu ára barn hafi þroska og vitsmuni til að vita að það fylgi því fallhætta að klifra upp á háa hluti. Þá hafi hann haft þroska til að vita að honum væri óheimilt að fara inn á annarra manna lóðir og sér í lagi lóðir sem séu í byggingu þar sem því fylgi hættur. Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda hafi forráðamönnum stefnanda þá verið kunnugt um að börn í hverfinu hafi sótt í að leika á byggingarsvæðinu og móðir stefnanda hafi haft af því áhyggjur. Þá hafi einnig komið fram í yfirlýsingu G að hann og stefnandi hafi oft áður, þ.e. fyrir slysið 16. mars 2006, gert [sér] að leik að fara inn á byggingarsvæðið. Af þessu megi draga þá ályktun að móðir stefnanda hafi sem forráðamaður hans gert honum grein fyrir þeim hættum sem fylgdu því að leika sér á byggingarsvæðinu og óskað eftir því að hann myndi láta af því. Stefnanda hafi því verið fullljós hættan sem fylgt hafi háttsemi hans.

Að öðru leyti sé um röksemdir fyrir varakröfu vísað til umfjöllunar um aðalkröfu eftir því sem við eigi. Stefndu mótmæli því að skilyrði 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu fyrir hendi í málinu.

Um lagarök vísi stefndu einkum til meginreglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, saknæmi, eigin sök tjónþola og óhappatilvik. Þá sé vísað til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglna sem settar hafi verið á grunni þeirra laga. Þá sé sérstaklega vísað til reglna nr. 609/1999 um öryggisbúnað krana og lyftibúnaðar.

Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnandi byggir kröfu sína, um viðurkenningu á bótaskyldu stefndu, á því að slysið sem A varð fyrir hafi orðið á byggingarsvæði sem stefndu hafi borið ábyrgð á og að orsakir slyssins séu þær að stefndu hafi ekki viðhaft fullnægjandi öryggisráðstafanir eða varnaraðgerðir á og við byggingalóðina. Sönnunarbyrði um þessi atriði hvílir á stefnanda. Óumdeilt er að drengurinn slasaðist og að hann hefur lögvarða hagsmuni af því að úr því verði skorið með dómi hvort bótaskylda stefndu sé fyrir hendi.

Slysið var ekki tilkynnt til lögreglu og ekki liggja fyrir um það nein samtímagögn önnur en vottorð frá bráðamóttöku þar sem fram kemur að engin vitni hafi verið að slysinu og upplýsingar frá nágranna stefnanda, H. Hann var þá starfsmaður heilbrigðiseftirlits borgarinnar og skoðaði byggingarsvæði á lóðum númer 16 til 22 við […] eftir slysið og færði daginn eftir inn í tölvukerfi á vinnustað sínum upplýsingar um að byggingarsvæðið væri ógirt og líklegast væri að grein 56.6 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 tæki á málinu. Samkvæmt þeirri grein var byggingarstjóra og iðnmeisturum skylt að sjá um að sem minnst hætta, óþrifnaður eða önnur óþægindi stöfuðu af framkvæmdum og að viðhafðar væru fyllstu öryggisráðstafanir, eftir því sem aðstæður leyfðu, og að við öryggisráðstafanir á vinnustað þyrfti bæði að hafa í huga þá sem væru þar vegna vinnu sinnar og þá sem þar kynnu að koma af öðrum ástæðum. Í athugasemd H kemur fram að byggingarfulltrúi hafi verið upplýstur um málið, þetta félli undir verksvið byggingarfulltrúa sem tæki við málinu. Samkvæmt minnisblaði um símtal H sama dag við nafngreindan starfsmann embættis byggingarfulltrúa ætlaði sá að „taka á málinu“ og senda mann strax á staðinn til þess að skoða aðstæður.

Í grein 56.2 í fyrrnefndri byggingarreglugerð sagði að meisturum og byggingarstjóra væri skylt, ef byggingarfulltrúi ákvæði, að sjá svo um að hindruð væri umferð óviðkomandi aðila um vinnustað og enn fremur sagði í grein 56.7 í reglugerðinni að byggingarstjóra væri skylt að framfylgja tilmælum byggingarfulltrúa/ byggingarnefndar um öryggisráðstafanir á lóðarmörkum byggingarstaðar. Sami starfsmaður byggingarfulltrúa og tók við tilkynningu H hafði samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja í málinu brugðist á árinu 2002 við kvörtun varðandi hættu fyrir börn á öðru byggingarsvæði við […] með kröfu um að framkvæmdasvæði yrði girt. Kvörtun H virðist samkvæmt því hafa verið borin upp við þann aðila sem sinnti því hlutverki að krefjast úrbóta þegar tilefni væri til, sem byggingaraðila hefði verið skylt að hlíta. Engin gögn liggja fyrir frá byggingarfulltrúa um að athugasemdir hafi verið gerðar við stefndu af hálfu byggingarfulltrúa varðandi frágang á byggingarlóð stefndu, númer 22 við […]. Rennir það stoðum undir það sem stefndu halda fram um að aldrei hafi verið gerðar neinar athugasemdir við fyrirsvarsmenn eða starfsmenn stefnda Húsafls sf. um að ekki væri staðið nægilega vel að öryggis- og varúðarráðstöfunum, eða tilmæli um að girða bæri umhverfis svæðið eða auka varnir við byggingarkrana. Líkur standa því til þess að þessi opinberi eftirlitsaðili hafi ekki talið tilefni til þess að gera athugasemdir við byggingarsvæði stefndu, þrátt fyrir skoðun eftir þá ábendingu sem borist hafði frá nágranna stefnanda. Þær líkur styður einnig það að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum úr færslubók byggingarfulltrúa voru gerðar úttektir á framkvæmdum stefndu, merktar plötupróf, botnplata, fokheldi, botn, burðarþol og frárennsli í grunni, á tímabilinu janúar til maí 2006, án þess að þar sé getið athugasemda um að lóðin sé ógirt eða annað varðandi öryggi á lóð. Sumar þessara úttekta voru gerðar af þeim starfsmanni byggingarfulltrúa, sem áður er getið og tók við kvörtun nágranna stefnanda eftir slysið. Verður því að ætla að aðbúnaður og frágangur á lóðinni hafi verið í samræmi við þágildandi reglur.

Samkvæmt fyrrnefndum reglum skyldi girða af byggingarvinnustað ef hann lægi við götu, en girðingar skyldu þá ekki hindra umferð fótgangandi um götuna eða aðra umferð. Af hálfu stefndu er því haldið fram, sem stefnandi mótmælir, að sett hafi verið upp girðing við lóðarmörkin sem liggja að götunni […] í samræmi við þær reglur. Stefnandi heldur því ekki fram í málinu að aðgengi um þau lóðarmörk, sem liggja fjærst fyrrum heimili stefnanda, skipti máli um orsakir slyssins og hefur vafi um girðingu þar ekki sérstaka þýðingu við úrlausn málsins.

Stefnandi heldur því fram að athygli manna að störfum á lóð stefnda hafi verið vakin á því nokkru fyrir slysið að foreldrar í nærliggjandi íbúðahverfi teldu að svæðið væri hættulegt börnum. Stefndu kannast ekki við að neinar ábendingar í þessa veru hafi borist þeim og liggur ekkert fyrir um það hvaða menn það hafi verið sem rætt hafi verið við. Þetta er óupplýst og verður ekki á því byggt að stefndu hafi verið kunnugt um áhyggjur foreldra vegna svæðisins.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fengu stefndu upplýsingar um slysið, sem varð 16. mars 2006, með bréfi lögmanns stefnanda 22. september 2010. Ekki hefur verið sýnt fram á það í málinu að stefndu hafi fyrir þann tíma haft vitneskju um slysið eða hafi vitað um framkomna kvörtun yfir aðstæðum á byggingarlóðum við […] 16-22 eða umhverfis þær. Þegar upplýsingar bárust um slysið höfðu stefndu takmarkaða möguleika til að tryggja sér sönnun um þau atriði sem stefnandi heldur fram í málinu að ábótavant hafi verið. Á það meðal annars við um ástand byggingarkrana stefndu, sem stefnandi byggir á að klifrað hafi verið í, en hann mun ekki lengur vera í eigu stefndu. Stefndu hefur ekki tekist að afla staðfestingar frá Vinnueftirliti um ástand þess krana við skoðun, en engar vísbendingar liggja fyrir um að Vinnueftirlit hafi gert athugasemdir við búnað hans á þeim tíma sem stefndu áttu hann. Í ljós þykir leitt, meðal annars með framburðum vitna fyrir dóminum, að um fætur kranans sem A klifraði upp í hafi verið strengd keðja og töldu vitni umbúnað svipaðan og á ljósmynd af öðrum krana sem fyrir liggur í málinu, þar sem gild rauð og hvít keðja er strengd milli fóta kranans í um það bil eins metra hæð frá jörðu. Þótt keðjan hafi ekki komið í veg fyrir að A klifraði upp í byggingarkranann sem hann féll úr, þá gefur slíkur frágangur til kynna að aðgengi sé óheimilt.

Byggingarsvæði stefndu var ekki leiksvæði og hafði börnum í hverfinu verið bannað að leika sér þar samkvæmt því sem fram er komið af hálfu stefnanda. Svæðið var í um það bil 120 metra fjarlægð frá lóð hússins þar sem stefnandi bjó samkvæmt því sem greinir í stefnu. Börn sem bjuggu þar gátu ekki svo séð verði villst óviljandi inn á byggingarsvæðið við […] frá görðum eða öðrum leiksvæðum við heimili sín, heldur hefðu þau þurft að ætla sér inn á svæðið og gera sér ferð þangað og það gátu þau gert, þegar þau léku sér útivið án eftirlits foreldra eða forráðamanna, þrátt fyrir bönn og jafnvel hindranir. Af vettvangsgöngu við meðferð málsins, og loftmyndum af svæðinu sem teknar voru nokkrum mánuðum fyrir og eftir slysið, er ljóst að þar á milli var meðal annars lóð annars húss, bílastæði, bílskúrslengja, göngustígur og loks jarðvegsupphækkun þar sem nú er grasi gróin hæð. Ekki þykir unnt að fallast á það með stefnanda að lóðin þar sem byggingarkrani stefndu stóð sé svo nærri íbúðabyggð að umferð barna um byggingarsvæðið hafi verið fyrirsjáanleg og kallað á frekari aðgerðir stefndu, án þess að tilmæli byggingarfulltrúa kæmu til, til þess að varna börnum aðgengi að lóðinni eða byggingarkrananum.

Það er niðurstaða dómsins að öllu framangreindu virtu að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að slysið hafi orðið vegna vanbúnaðar á byggingarsvæði sem stefndu beri ábyrgð á. Ekki hefur verið sýnt fram á að byggingarsvæði stefndu við […] 22 hafi í mars 2006 verið hættulegt eða að gengið hafi verið frá því á óforsvaranlegan hátt og eru meint brot stefndu gegn þeim varúðarreglum, sem í gildi voru og stefnandi vísar til, ósönnuð. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að frágangur á svæðinu eða umbúnaður byggingarkranans hafi brotið gegn almennum öryggisreglum eða að umrætt slys verði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefndu eða annarra atvika sem stefndu beri ábyrgð á. Stefnandi ber hallann af þeim sönnunarskorti. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna alla stefndu af kröfum stefnanda í málinu. Af þeirri niðurstöðu leiðir jafnframt að stefnandi á ekki kröfu til bóta úr ábyrgðartryggingu stefndu hjá réttargæslustefnda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Húsafl sf., E, B, C, D og F, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, I, f.h. ólögráða sonar síns, A, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.