Hæstiréttur íslands

Mál nr. 449/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                                         

Föstudaginn 13. ágúst 2010.

Nr. 449/2010.

Kaupþing líftryggingar hf.

(Óðinn Elísson hrl.)

gegn

A

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Aðilar deildu um rétt A til bóta úr sjúkdómatryggingu hjá tryggingafélaginu. A krafðist þess að dómkvaddir yrðu tveir menn til að meta nánar tilgreind atriði varðandi mál hennar, þar sem þau atriði sem beðið væri mats á hefðu ekki verið metin áður og mat á þeim gæti haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. A hélt því fram að þessi atriði hefðu þegar verið metin. Var krafa A tekin til greina og fallist á beiðni hennar, enda yrði ekki talið að gögn, sem hún hygðist afla með matsbeiðninni, yrðu talin þýðingarlaus fyrir málið, að matsbeiðnin væri of seint fram komin eða að aðrir gallar yrðu taldir á henni sem leiddu til að beiðnin næði ekki fram að ganga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2010, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að dómkvaddir yrðu tveir menn til að meta nánar tilgreind atriði varðandi mál hennar á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað og henni gert að greiða kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnað án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en gjafsókn, sem henni var veitt 24. júní 2008, er bundin við rekstur málsins fyrir héraðsdómi og tekur því ekki til meðferðar þessa kærumáls, sbr. 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kaupþing líftryggingar hf., greiði varnaraðila, A, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur2. júlí 2010.

Mál þetta var höfðað 22. desember 2008 af A gegn Kaupþingi líftryggingum hf. til innheimtu bóta úr sjúkdómatryggingu. Ágreiningur málsaðila í þessum þætti málsins var tekinn til úrskurðar 22. júní sl.

 Í málinu er deilt um rétt stefnanda til bóta úr sjúkdómatryggingu vegna heila­blóðfalls, sem hún hafi fengið 3. ágúst 2004, en hún hafði sjúkdóma­tryggingu hjá stefnda frá árinu 2000. Samkvæmt 3. gr. sjúkdómatrygginga­skilmálanna, sem þar gilda, tekur sjúkra­tryggingin til sjúkdóma sem taldir eru upp, þar á meðal heilaáfall. Sá sjúkdómur er í skilmálunum skilgreindur sem sérhver blóðrásar­truflun í heila sem veldur einkennum frá miðtaugakerfi sem vara lengur en í sólarhring og felur í sér drep í heilavef, blæðingu og blóðrek. Skilyrði er einkenni varanlegra skemmda á miðtauga­kerfi.

Í þinghaldi 28. maí sl. var lögð fram beiðni af hálfu stefnanda um að dóm­kvaddir verði matsmenn, tveir eða eftir atvikum þrír, til að svara matsspurningum varðandi blóðstreymistruflun í heila stefnanda 3. ágúst 2004 og um einkenni í því sambandi. Af hálfu stefnda var mót­mælt að krafa stefnanda um dómkvaðningu matsmanna næði fram að ganga. Úrskurð­urinn er kveðinn upp til úrlausnar á þessum ágreiningi málsaðila.  

Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi var lögð inn á Landspítalann 3. ágúst 2004. Þar voru gerðar á henni rannsóknir vegna gruns um heilablóðfall. Hún var á spítalanum til rannsókna til 18. ágúst sama ár og fékk við útskrift sjúkdóms­greininguna heiladrep.

Af hálfu stefnanda var lögð fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna 15. maí 2009 og var matsgerð Torfa Magnússonar taugalæknis lögð fram 18. september sama ár. Þar kemur fram að matsmaður telji líklegt að upphafleg einkenni stefnanda í formi dofa og máttleysis megi rekja til heilaáfalls/blóðtappa, sem hún hafi fengið í byrjun ágúst 2004, en heilaáfallið/blóðtappinn hafi hins vegar ekki valdið varanlegum skemmdum í heila. Samkvæmt matinu eru ekki talin vera fyrir hendi einkenni, sem rakin verði til heilaáfalls/blóðtappa, og ólíklegt talið að drep hafi orðið í heilavef við áfallið.

Af hálfu stefnanda var lögð fram beiðni um dómkvaðningu tveggja yfirmats­manna í þinghaldi 12. október 2009. Samkvæmt beiðninni skyldi endurmeta þau atriði sem áður voru metinn samkvæmt framangreindri matsgerð. Yfirmatsgerð var lögð fram 1. mars sl. Í henni kemur fram að við taugaskoðun 30. desember 2009 hafi heilataugar verið eðlilegar og engin lömun finnanleg í andliti. Annað sem skoðað var virtist eðlilegt. Í niðurstöðu yfirmatsins kemur fram að yfirmatsmenn hafi ekki fundið merki um varanlega skemmd á taugakerfi stefnanda á matsdegi. Yfirmatsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að matsbeiðandi hafi ekki orðið fyrir heiladrepi 3. ágúst 2004. Því uppfylli hún ekki skilyrði heilaáfalls/slags samkvæmt sjúkdóma­trygginga­skilmálum sem um ræði.   

Með matsbeiðninni, sem stefnandi hefur lagt fram og deilt er um hvort nái fram að ganga, er óskað eftir því að matsmenn svari þeirri spurningu hvort stefnandi hafi fengið blóðstreymistruflun í heila 3. ágúst 2004, hvaða einkenni blóðstreymistruflunin hafi skilið eftir sig hjá henni og hverjar væru orsakir fyrir svokallaðri Babinski svörun hægra megin í líkama stefnanda. Enn fremur er spurt hverjar væru orsakir slíkra einkenna, ef þær væru ekki blóðstreymistruflanir.

Í vottorði Sverris Bergmanns læknis og sérfræðings í heila- og taugafræði 23. maí 2010 kemur fram að hann telji að stefnandi hafi fengið blóðstreymistruflun í heila 3. ágúst 2004, líklega vegna segareks frá hjarta. Læknirinn telur enn fremur líklegt að hún hafi hlotið taugakerfisskaða sem ekki hafi skilið eftir sig vefræn einkenni en hugsanlega stafræna truflun. Í vottorðinu er því lýst að bráðaeinkenni geti staðið lengur en einn til tvo sólar­hringa og hin tímabundna blóðþurrð jafnvel einnig svo lengi. Einkennin mildist svo en eftir geti staðið viðvarandi einkenni, þótt vægari séu. Rannsóknir af heila, m.a. myndrænar, geti verið alveg eðlilegar. Þetta sé líklegast það sem komið hafi fyrir stefnanda, þótt lítil æðastífla sé einnig möguleg. Þetta megi nefna að heilinn tileinki sér það starfræna ástand sem af blóð­streymistrufluninni hljótist, þótt engin sjáist vefjaskemmdin. Læknirinn telur einkenni, sem fram komi hjá stefnanda, afleiðingar blóðstreymistruflunar sem væru komnar til að vera. Þær stafi ekki af þekktum sjúkdómum hennar. Hún hafi fengið skyndileg einkenni frá heila í ágúst 2004, en við slík einkenni sé jafnan um truflun á blóðstreymi að ræða – blæðingu eða blóðþurrð – og kallist einu nafni heilablóðfall. Eftir standi varanleg einkenni í mynd dofa og máttleysis í hægri hlið líkamans og skertrar hugar­orku.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að þau atriði sem nú sé beðið um mat á hafi ekki verið metin áður. Mat á þeim geti haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að þýðingarlaust sé að leggja mat á það sem um er beðið í matsbeiðni stefnanda, en það hafi þegar verið metið. Einnig er vísað til þess að ekki sé unnt að leggja vottorð Sverris Bergmanns læknis til grundvallar við úrlausn á þeim ágreiningi sem hér um ræði. Á þetta er ekki fallist. Telja verður að í vottorðinu, sem er dagsett 23. maí sl., komi fram upplýsingar sem ekki verður horft fram hjá við ákvarðanir um áframhaldandi meðferð málsins.  

Matsbeiðni stefnanda lýtur að því að staðreyna hvort hún hafi fengið blóð­streymis­­truflun umræddan dag og jafnframt hvaða einkenni blóðstreymistruflun hafi skilið eftir sig hjá henni. Verður að líta svo á að þar sé meðal annars átt við einkenni um varanlegar skemmdir á miðtaugakerfi.

Þegar litið er til þess sem fram hefur komið í málinu og hér að framan er rakið verður ekki af því ráðið að þegar hafi verið skorið úr um það sem nú er beðið um að metið verði. Að minnst kosti verður að líta svo á að úr því hafi ekki verið skorið með mats­gerðum með afgerandi hætti hvaða einkenni blóðrásatruflun í heila stefnanda hafi skilið eftir sig hjá henni, eins og nú er beðið um mat á. Stefnandi hefur samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 forræði á öflun sönnunargagna í málinu, að því tilskildu að þau hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Með vísan til framangreindra forsendna verður ekki talið að gögn, sem stefnandi hyggst afla með matsbeiðninni, verði talin þýðingarlaus fyrir málið eða að mats­beiðnin sé of seint fram komin eða að aðrir ágallar verði taldir á henni sem leiði til að hún nái ekki fram að ganga. Ber því að fallast á beiðnina um að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að meta það sem um er beðið í matsbeiðninni. Krafan er því tekin til greina.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Fallist er á beiðni stefnanda um að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að meta það sem um er beðið í matsbeiðninni á dómskjali nr. 28.

                                                                                     .