Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-127

A (Agnar Þór Guðmundsson lögmaður)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Ólafur Lúther Einarsson)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Árslaun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 1. nóvember 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. október sama ár í máli nr. 498/2021: A gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort skilyrðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé fullnægt þannig að meta skuli árslaun leyfisbeiðanda sérstaklega við ákvörðun bóta til hans vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir árið 2017. Gagnaðili hefur greitt leyfisbeiðanda bætur sem taka mið af lágmarkslaunum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna og því lýtur málið að kröfu leyfisbeiðanda um frekari bætur.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda sem byggði á því að meta skyldi árslaun hans sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Landsréttur rakti að leyfisbeiðandi hefði verið […] ára þegar slysið varð í nóvember 2017 og að hann hefði unnið sem […] hér á landi frá árinu 2006. Hann hefði lokið sveinsprófi í þeirri iðn árið 2008 og hlotið meistarabréf í janúar 2016. Þá vísaði rétturinn til þess að leyfisbeiðandi hefði hvorki með framlögðum gögnum né á annan hátt sýnt fram á að atvinnutekjur hans hefðu eitthvert heilt almanaksár fyrir slysið í nóvember 2017 náð lágmarkslaunum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Jafnframt yrði miðað við framlögð gögn og lagt til grundvallar að leyfisbeiðandi hefði hvorki fyrr né síðar haft atvinnutekjur sem næðu meðallaunum iðnaðarmanna og því yrði að hafna aðal- og þrautavarakröfu leyfisbeiðanda sem tækju mið af þeim. Enn fremur var hafnað varakröfu hans um að miða við reiknað endurgjald hans árið 2017 auk hreins hagnaðar af rekstri hans það ár.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að dómur Landsréttar fari í bága við áralanga og fastmótaða dómaframkvæmd Hæstaréttar í málum af þessu tagi þar sem lagt hafi verið til grundvallar að ljúki tjónþoli starfsréttindanámi á viðmiðunartímabilinu og starfi við þá iðn á slysdegi beri að leggja til grundvallar meðallaun þeirrar starfstéttar. Þá reisir leyfisbeiðandi beiðni sína á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Um það vísar hann meðal annars til þess að dómurinn hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga væri ekki fullnægt. Sú niðurstaða gangi gegn fordæmum Hæstaréttar í sambærilegum málum og lögskýringargögnum.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.