Hæstiréttur íslands
Mál nr. 659/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Rannsókn
- Gjaldeyrismál
- Haldlagning
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Þriðjudaginn 30. október 2012. |
|
Nr. 659/2012. |
Seðlabanki Íslands (Gizur Bergsteinsson hrl.) gegn X hf. A B ehf. C D E F og G (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Rannsókn. Gjaldeyrismál. Haldlagning. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
Í tengslum við rannsókn SÍ á ætluðum brotum X hf. o.fl. gegn lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum samkvæmt þeim, var m.a lagt hald á bókhaldskerfi X hf. á grundvelli dómsúrskurðar þess efnis. Síðar kom í ljós að aðgangur SÍ að kerfinu hafði verið takmarkaður og hluti bókhaldsgagnanna læstur. Vegna þessa virkjaði SÍ svokallaðan varaaðgang að bókhaldskerfinu til að fá fullan aðgang að því. Í málinu kröfðust X hf. o.fl. þess að rannsóknaraðgerðin yrði dæmd ólögmæt og að SÍ yrði gert að loka fyrir aðganginn aftur og eyða öllum afritum sem kynnu að hafa verið gerð af gögnum á hinu lokaða svæði. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna í Hæstarétti, var kröfu X hf. o.fl. um ólögmæti rannsóknarathafnarinnar vísað frá héraðsdómi þar sem athöfnin var þegar afstaðin. Þá var hafnað kröfu X hf. o.fl. um að SÍ yrði gert að loka fyrir aðganginn aftur og eyða afritum af gögnum, enda hafði heimild SÍ til að skoða bókhaldsgrunninn ekki verið bundin takmörkunum. Þá var jafnframt talið að játa yrði SÍ nokkuð svigrúm til að meta hvort gögnin hefðu þýðingu fyrir rannsókn málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2012, þar sem kröfum varnaraðila á hendur sóknaraðila var að hluta vísað frá dómi en að öðru leyti hafnað. Um kæruheimild er vísað til d., g. og h. liða 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Varnaraðilar krefjast þess að rannsóknaraðgerð sóknaraðila, sem falist hafi í að „brjótast inn á lokuð svæði“ í nánar tiltekinni tölvu, er afhent var í tengslum við haldlagningu gagna hjá tölvufyrirtækinu Y hf. dagana 27. til 31. mars 2012, verði dæmd ólögmæt. Þá er þess jafnframt krafist að sóknaraðila verði gert að loka aftur fyrir aðgang að framangreindum gögnum og eyða öllum afritum, jafnt rafrænum sem skjallegum, sem kunna að hafa verið gerð af gögnum á hinu lokaða svæði tölvunnar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verið staðfestur að öðru leyti en því að vísað verði frá héraðsdómi kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að loka aftur fyrir aðgang að gögnum sem aflað hafi verið með því að brjótast inn á lokuð svæði í nánar tiltekinni tölvu sem varnaraðilinn X hf. afhenti sóknaraðila vegna haldlagningar gagna hjá tölvufyrirtækinu Y hf. 27. til 31. mars 2012. Til vara krefst hann þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Sóknaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og getur þegar af þeirri ástæðu ekki krafist breytingar á niðurstöðu hans.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur eins og í dómsorði greinir, þar með talið ákvæði hans um málskostnað.
Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómsorð:
Kröfu varnaraðila, X hf., A, B ehf., C, D, E, F og G, um að sú rannsóknaraðgerð sóknaraðila, Seðlabanka Íslands, að „brjótast inn“ á lokuð svæði í tölvu af gerðinni Lenovo ThinkPad T520, sem afhent var í tengslum við haldlagningu gagna hjá tölvufyrirtækinu Y hf., dagana 27. til 31. mars 2012, verði dæmd ólögmæt, er vísað frá héraðsdómi.
Hafnað er kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að loka fyrir aðgang að gögnum sem aflað var með framangreindum hætti og eyða öllum afritum af þeim.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2012.
Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur 28. september sl.
Sóknaraðilar eru eftirgreind félög: X hf., [...], A [...], B ehf., [...], C, [...], D, [...], E, [...], F, [...] og G, [...].
Varnaraðili er Seðlabanki Íslands, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík.
Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að úrskurðað verði að rannsóknaraðgerð varnaraðila, sem fólst í þeirri aðgerð að „brjótast inn“ á lokuð svæði í tölvu af gerðinni Lenovo ThinkPad T520, með framleiðslunúmerinu [...], er afhent var í tengslum við haldlagningu gagna hjá tölvufyrirtækinu Y hf. dagana 27. til 31. mars 2012, hafi verið ólögmæt. Jafnframt að varnaraðila verði gert að loka aftur fyrir aðgang að gögnum sem aflað var með framangreindum hætti og eyða öllum afritum, jafnt rafrænum sem skjallegum, sem kunna að hafa verið gerð af gögnum á hinu lokaða svæði tölvunnar. Loks krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Af hálfu varnaraðila er þess aðallega krafist að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara að þeim verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málavextir
Varnaraðili hefur til rannsóknar ætluð brot sóknaraðilans X hf. og tengdra aðila á lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992 og reglum settum samkvæmt þeim. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 24. mars sl., var varnaraðila heimiluð húsleit og haldlagning muna og gagna hjá X hf. og nafngreindum tengdum aðilum. Með úrskurði uppkveðnum sama dag var varnaraðila heimiluð haldlagning muna hjá tölvufyrirtækinu Y hf. Við upphaf húsleitar á starfsstöð X hf. hinn 27. mars kom upp ágreiningur um framgang aðgerðarinnar og gerðu fyrirsvarsmenn X hf. athugasemdir við dómsúrskurðina sem lágu þeim til grundvallar. Sama dag voru að beiðni varnaraðila kveðnir upp tveir nýir dómsúrskurðir. Var varnaraðila heimiluð húsleit og haldlagning gagna hjá fleiri aðilum en áður hafði verið kveðið á um. Þá var Y hf. skyldað til að afhenda varnaraðila til haldlagningar og afrita öll gögn af sameiginlegum svæðum Y hf. og tilgreindra tengdra félaga, heimasvæðum, bókhaldskerfi SAP, og tölvupósti ásamt viðhengjum. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 2. apríl 2012 í málinu nr. 215/2012 var vísað frá Hæstarétti máli vegna kæru tölvufyrirtækisins Y hf. á úrskurði héraðsdóms frá 27. mars. Varnaraðilar samkvæmt framangreindum úrskurðum kröfðust síðar dómsúrskurðar um lögmæti og framkvæmd rannsóknaraðgerðanna á grundvelli 3. mgr. 69. gr. og 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 30. maí 2012 í málunum nr. 356 og 357/2012.
Við húsleit sem fram fór 27. mars og næstu daga á eftir kom í ljós að í svonefnt SAP bókhaldskerfi sóknaraðilans X hf. var fært bókhald fleiri lögaðila, þ. á m. annarra sóknaraðila í máli þessu. Meðal gagna málsins er upplýsingaskýrsla lögreglufulltrúa, sem kom að rannsóknaraðgerðinni fyrir hönd varnaraðila, þar sem kemur fram að bókhaldskerfið hafi verið afritað í heild, en afritum rafræns bókhalds annarra félaga, sem ekki séu tilgreind í úrskurði héraðsdóms, hafi verið læst og séu þau ekki aðgengileg. Þá eru í málinu afrit bréfaskipta forstöðumanns rannsókna hjá varnaraðila og lögmanns sóknaraðila, þar sem hafnað er þeirri umleitan varnaraðila að X hf. afhendi aðgangsorð sem þurfi til að opna framangreindar skrár. Í bréfi starfsmanns varnaraðila til lögmanns sóknaraðila, dagsettu 27. ágúst sl., kemur fram að atbeini X hf. í þessu efni hafi reynst vera óþarfur. Er fram komið að starfsmenn varnaraðila virkjuðu svonefndan varaaðgang að bókhaldskerfinu og fékkst þannig aðgangur að hinum læstu skrám.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðilar reisa kröfu sína á því að varnaraðili hafi ekki haft lagaheimild til að „brjóta sér leið“ inn í hin læstu gögn og skoða þau. Sú rannsóknaraðgerð varnaraðila hafi verið ólögmæt og heimilt sé að bera ágreining þar að lútandi undir dómstóla, sbr. 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008.
Sóknaraðilar vísa í fyrsta lagi til þess að af orðalagi 1. mgr. 15. gr. e. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 8. gr. laga nr. 78/2010 og athugasemdir við frumvarp sem varð að síðarnefndum lögum, verði ráðið að varnaraðili hafi heimild til að óska eftir gögnum frá einstaklingum og lögaðilum í tengslum við rannsókn mála. Hafi varnaraðili hins vegar í hyggju að gera sérstakar athuganir eða leggja hald á gögn, sem hann hafi óskað eftir að fá aðgang að en ekki fengið, beri honum að fara að ákvæðum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Vísa sóknaraðilar í því sambandi til ákvæðis 3. mgr. 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998, um áþekkar heimildir fjármálaeftirlitsins. Sóknaraðilar benda á að varnaraðili hafi ekki haft uppi kröfu um aðgang að gögnunum á grundvelli 2. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008. Þá geti orðalagið „upplýsingar og gögn“, sem greinir í 1. mgr. 15. gr. e. laga nr. 87/1992 með áorðnum breytingum, ekki átt við um aðgangsorð að læstum hlutum tölvu.
Í öðru lagi reisa sóknaraðilar kröfur sínar á því að varnaraðili hafi ekki heimild til að gera sérstakar athuganir eða leggja hald á gögn nema á grundvelli laga nr. 88/2008. Vísa sóknaraðilar í því sambandi til ummæla í 3. gr. athugasemda með frumvarpi sem varð að lögum nr. 67/2006 um breytingu á 3. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998, en það ákvæði sé fyrirmynd 15. gr. e. laga nr. 87/1992, eins og því ákvæði var breytt með lögum nr. 78/2010. Hafi varnaraðili að mati sóknaraðila brotið gegn ákvæðum laga nr. 88/2008 með því að „brjóta sér leið“ inn í hin læstu gögn án þess að verða sér úti um dómsúrskurð þar að lútandi. Þá hafi ekki verið uppfyllt skilyrði þess að beita megi rannsóknarúrræðum samkvæmt IX.-XI. kafla laga nr. 88/2008, þ.e. að 1) samþykki rannsóknarþola sé fyrir aðgerðinni, 2) að bið eftir dómsúrskurði geti valdið réttarspjöllum, eða 3) að aðgerðin hafi verið heimiluð með dómsúrskurði, auk þess sem sóknaraðilar hafi ekki stöðu sakborninga í málinu.
Í þriðja lagi byggja sóknaraðilar á því að jafnvel þótt talið yrði að varnaraðili hefði lagaheimildir til að gera sérstakar athuganir og leggja hald á gögn, þá hefði varnaraðili ekki uppfyllt skyldur sínar svo að honum væri heimilt að nota þær lagaheimildir. Vísa sóknaraðilar í því sambandi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 21. október 1999 í máli nr. 156/1999. Varnaraðili hafi ekki sýnt fram á málefnalegar ástæður fyrir því að skoða þurfi gögnin sem um ræðir. Þá hafi varnaraðili ekki svarað fyrirspurnum sóknaraðila um hvaða gögn hann þyrfti að skoða og í hvaða tilgangi, eða um rannsóknina yfirleitt. Verði hvorki séð að gætt hafi verið að þeim skyldum sem stjórnsýslulög leggi á herðar stjórnvöldum né að „öryggissjónarmiða hafi verið gætt í viðeigandi mæli“, svo sem miðað var við í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Telji sóknaraðilar því ljóst að varnaraðili hafi farið út fyrir allar hugsanlegar heimildir sínar.
Enn fremur telja sóknaraðilar að varnaraðili hafi farið langt út fyrir heimildir sínar samkvæmt 15. gr. e. laga nr. 87/1992. Varnaraðili hafi ekki gætt þeirra sjónarmiða sem fram koma í athugasemdum við 3. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 67/2006, sem breytti sambærilegu ákvæði laga nr. 87/1998, þar sem kemur fram að beita verði ákvæðinu af varfærni og verði því ekki beitt nema rík ástæða sé til að ætla að viðkomandi sérlög hafi verið brotin eða ætla megi að aðgerðir fjármálaeftirlitsins nái ekki tilætluðum árangri með öðrum hætti. Vart verði séð að varnaraðili hafi gætt þeirra sjónarmiða þegar hann ákvað að skoða þau gögn sem læst voru.
Samkvæmt framansögðu telji sóknaraðilar að varnaraðili hafi ekki haft heimild til þess að „brjótast inn“ í hin læstu gögn sem um ræðir. Ekki hafi legið fyrir samþykki sóknaraðila fyrir þeirri aðgerð, heldur hafi því þvert á móti ítrekað verið lýst yfir að varnaraðili hefði enga heimild til að skoða gögnin. Þá hafi engar þær aðstæður verið fyrir hendi að bið eftir dómsúrskurði gæti valdið spjöllum, enda hafi varnaraðili haft tölvuna í sinni vörslu. Loks hafi varnaraðili ekki fengið nýjan dómsúrskurð til þess að skoða gögnin. Samkvæmt framansögðu sé rannsóknaraðgerð varnaraðila ólögmæt.
Um lagarök vísa sóknaraðilar til laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. lög nr. 78/2010, laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998, sbr. lög nr. 67/2006 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Aðalkrafa varnaraðila um frávísun er í fyrsta lagi á því reist að þeirri rannsóknarathöfn, sem fólst í því að taka afrit af SAP bókhaldskerfi sóknaraðilans X hf., hafi lokið 31. mars sl. Rannsóknarathöfnin hafi þegar farið fram og verði lögmæti hennar því ekki borið undir héraðsdóm á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Vísar varnaraðili í því sambandi til dóma Hæstaréttar Íslands frá 30. maí sl. í málunum nr. 356 og 357/2012. Það hafi ekki þýðingu í þessu sambandi þótt bókhaldskerfi X hf. hafi að geyma gögn annarra sóknaraðila í málinu. Með því að geyma bókhald sitt í bókhaldskerfi sóknaraðilans X hf. verði þeir að bera áhættu af því að það komist í hendur annarra vegna lögmætra aðgerða handhafa opinbers valds í garð sóknaraðilans, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 3. maí 2002 í málunum nr. 177 og 178/2002.
Í öðru lagi reisir varnaraðili aðalkröfu sína á því að sú athöfn varnaraðila að stofna varaaðgang að bókhaldskerfinu sé ekki rannsóknarathöfn í merkingu 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Því verði lögmæti þeirrar aðgerðar ekki borið undir héraðsdóm á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laganna.
Varnaraðili telur að skilja verði kröfu sóknaraðila um að honum verði gert að „loka aftur fyrir aðgang að gögnum“ svo að varnaraðila verði gert að eyða þeim varaaðgangi sem stofnaður var að bókhaldskerfinu. Á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 verði þess hins vegar ekki krafist að varnaraðila verði gert að koma tilteknu ástandi á aftur.
Varnaraðili krefst þess til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Vísar varnaraðili til þess að hann hafi tekið afrit af bókhaldskerfi sóknaraðilans X hf. á grundvelli dómsúrskurða uppkveðinna 24. og 27. mars sl. og verði heimildar til haldlagningar þeirra gagna ekki leitað á nýjan leik. Það sé varnaraðila að meta hvaða gögn hafi þýðingu fyrir rannsókn málsins. Sú staðreynd að ekki hafi verið leitað samþykkis sóknaraðila fyrir afritun gagnanna eða skoðun þeirra stafi af því að gögnin séu geymd í bókhaldskerfi sóknaraðilans X hf. Á því beri sóknaraðilar sjálfir ábyrgð.
Varnaraðili bendir á að krafa sóknaraðila um að honum verði gert að „eyða öllum afritum af gögnum, jafnt rafrænum sem skjallegum, sem kunni að hafa verið gerð af hinu lokaða svæði tölvunnar“ sé ekki rökstudd með öðru en því að rannsókn varnaraðila á þeim sé ólögmæt. Sé kröfunni mótmælt þar sem varnaraðili verði að hafa svigrúm til að meta hvort umrædd gögn hafi þýðingu fyrir rannsókn málsins og er í því sambandi vísað til dóma Hæstaréttar Íslands frá 30. maí sl. í málunum nr. 356 og 357/2012. Sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á að þau gögn sem krafa þeirra beinist að varði ekki efnisatriði rannsóknar varnaraðila og séu þýðingarlaus fyrir rannsóknina. Krafa sóknaraðila sé ekki rökstudd með vísan til einstakra gagna, heldur beinist hún að ótilgreindum gögnum.
Þá bendir varnaraðili á að X hf. sé meðal sóknaraðila í málinu, þrátt fyrir að krafa þeirra sé reist á því að varnaraðila skorti heimild til að rannsaka gögn annarra sóknaraðila, sem geymd eru í bókhaldskerfinu. Bendir varnaraðili á að hann hafi lagt hald á bókhaldskerfið eftir að hafa aflað sér heimildar til þess með dómsúrskurði. Krafa X hf. verði því ekki studd sömu málsástæðum og krafa annarra sóknaraðila í málinu. Ætti þetta að leiða til frávísunar á kröfum sóknaraðilans frá héraðsdómi.
Varnaraðili telur sig í einu og öllu hafa gætt að ákvæðum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og andmælir því sérstaklega að ekki hafi verið gætt að ákvæðum 2. mgr. 68. gr. laganna, sem feli í sér að taka beri afrit af gögnum í stað þess að leggja hald á þau ef þess er kostur. Sú ályktun verði ekki dregin af ákvæðinu að varnaraðili hafi fremur átt að beina því til sóknaraðila að veita sér aðgang að gögnunum.
Loks andmælir varnaraðili því að ekki séu málefnalegar ástæður til að skoða þau gögn sem um ræðir. Rökstuddur grunur sé um að erlendum gjaldeyri hafi ekki verið skilað til fjármálafyrirtækis hér á landi í samræmi við fyrirmæli 13. gr. laga nr. 87/1992, að fleiri lögaðilar en áður var talið séu innlendir aðilar í merkingu 1. gr. laganna og að þeir hafi ekki gætt að ákvæðum laganna í starfsemi sinni. Þá hafi grunur varnaraðila jafnframt styrkst um að innlendir aðilar hafi átt frekari útflutningsviðskipti við tengda aðila á grundvelli verulega lakari kjara en tíðkist í viðskiptum óskyldra aðila. Varnaraðili telji sig hafa málefnalegar ástæður til að skoða umrædd gögn.
Niðurstaða
Með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 24. og 27. mars sl., var varnaraðila veitt heimild til húsleitar og haldlagningar muna og gagna hjá sóknaraðilanum X hf. og tengdum aðilum og hjá tölvufyrirtækinu Y hf., vegna rannsóknar á meintu broti gegn lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992 og reglum samkvæmt þeim. Samkvæmt úrskurði uppkveðnum 27. mars var tölvufyrirtækinu Y hf., samkvæmt 15. gr. e. laga nr. 87/1992, sbr. ákvæði 68. gr., 70. gr., 74. gr. og 1. mgr. 75. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, gert skylt að afhenda varnaraðila til haldlagningar og afrita nánar tiltekin gögn, þ. á m. bókhaldskerfi sóknaraðilans Y hf. Í kjölfar húsleitar 27. mars afrituðu starfsmenn tölvufyrirtækisins bókhaldskerfið sem um ræðir á harðan disk tölvu, sem var afhent starfsmönnum varnaraðila. Heimild varnaraðila samkvæmt fyrrgreindum dómsúrskurði náði til þess að afrita bókhaldskerfið í heild, en í því kerfi reyndist vera fært bókhald Y hf. og annarra sóknaraðila í málinu. Ekki var þörf sérstaks dómsúrskurðar til athugunar gagna sem afrituð höfðu verið samkvæmt þeim úrskurði sem lá fyrir. Breytir engu þar um þótt starfsmenn tölvufyrirtækisins, sem önnuðust afritun bókhaldskerfisins, hafi lokað aðgangi að lyklum sem geymdu bókhald annarra sóknaraðila en X hf. Samkvæmt gögnum málsins var afritun bókhaldskerfisins lokið 31. mars sl. og verður lögmæti rannsóknarathafna varnaraðila ekki borið undir héraðsdóm á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 30. maí 2012 í málunum nr. 356 og 357/2012. Ber að vísa frá dómi kröfu varnaraðila sem lýtur að lögmæti þeirrar rannsóknaraðgerðar að opna aðgang að gögnum á lokuðum svæðum í bókhaldsgrunninum.
Samkvæmt 3. mgr. 69. gr. og 1. mgr. 72. gr. laga nr. 88/2008 geta sóknaraðilar krafist þess að dómari aflétti haldi munar og skal haldi aflétt þegar þess er ekki lengur þörf. Ekki verður fallist á það með sóknaraðilum að varnaraðila beri að loka fyrir aðgang að þeim gögnum sem krafa lýtur að og eyða afritum sem kunna að hafa verið tekin af þeim, enda var heimild varnaraðila til að skoða bókhaldsgrunninn ekki bundin takmörkunum, samkvæmt því sem að framan er rakið. Þá verður að játa varnaraðila nokkuð svigrúm til að meta hvort gögnin hafa þýðingu fyrir rannsókn málsins. Er kröfu sóknaraðila að þessu leyti hafnað.
Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá dómi kröfu sóknaraðila, X hf., A, B ehf., C, D, E, F og G, um að úrskurða ólögmæta framangreinda rannsóknaraðgerð varnaraðila, Seðlabanka Íslands.
Hafnað er kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að loka fyrir aðgang að gögnum sem aflað var með framangreindum hætti og eyða öllum afritum af þeim.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.