Hæstiréttur íslands
Mál nr. 202/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Föstudaginn 28. maí 1999. |
|
Nr. 202/1999. |
Ákæruvaldið (Egill Stephensen saksóknari) gegn Þórhalli Guðmundssyni (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Læknirinn B hafði ekki sinnt sérfræðilegri rannsókn á rannsóknarstigi opinbers máls samkvæmt 70. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þótti skýrslugjöf hans fyrir dómi því ekki geta helgast af ákvæðum VIII. kafla laga nr. 19/1991 um vitnaskýrslur, en því var ekki haldið fram að B hefði reynt af eigin raun einhverja þá atburði, sem lágu til grundvallar ákæru í málinu. Þá hafði B ekki verið dómkvaddur sem mats- eða skoðunarmaður í málinu. Þótti því bresta skilyrði til að verða við kröfu um að B yrði leiddur fyrir dóm til að gefa skýrslu sem vitni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. maí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 1999, þar sem sóknaraðila var heimilað að leiða Birgi Guðjónsson lækni sem vitni við aðalmeðferð máls sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kröfu sóknaraðila um vitnaleiðsluna hafnað.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hinnar kærðu ákvörðunar.
I.
Varnaraðili sætir ákæru fyrir ólögmætan innflutning vefaukandi lyfja eins og nánar greinir í henni. Við þingfestingu málsins 14. apríl 1999 kvað varnaraðili verknaðarlýsingu ákæru rétta, en mótmælti því jafnframt að háttsemi hans hefði verið ólögmæt. Tók hann sérstaklega fram að það magn lyfja, sem hann flutti til landsins, hefði verið innan þeirra marka, er lög heimiluðu honum. Við meðferð málsins í héraði var lagt fram af hálfu sóknaraðila bréf Birgis Guðjónssonar 4. maí 1999, þar sem svarað var fyrirspurn sóknaraðila um notkun og verkun karlkynshormóna á líkamsstarfsemi. Einnig er þar tilgreint hversu margir dagskammtar felist í magni þeirra lyfja, sem ákæra tilgreinir með hliðsjón af læknisfræðilegri nauðsyn. Framlagningu þessa skjals var mótmælt af hálfu varnaraðila. Vísar sóknaraðili meðal annars til þess að nauðsynlegt sé að spyrja Birgi um tiltekin atriði varðandi efni skjalsins fyrir dómi.
II.
Af ákvæðum VIII. kafla laga nr. 19/1991, sbr. lög nr. 36/1999, verður ráðið að aðilum opinbers máls sé almennt heimilt að leiða vitni fyrir dóm til þess að færa sönnur á málsatvik, enda sé slík sönnunarfærsla ekki sýnilega þarflaus til að upplýsa málið, sbr. 4. mgr. 128. gr. laganna. Samkvæmt þessu er vitnaleiðsla í opinberu máli heimil að því marki, sem hún er til þess fallin að leiða málsatvik í ljós. Leiðir af þessu að skýrsla manns, sem ekki getur borið af eigin raun um atvik máls, er almennt þarflaus. Samkvæmt 63. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari hins vegar, eftir ósk aðila eða af sjálfsdáðum, dómkvatt kunnáttumenn einn eða fleiri til að framkvæma mats- eða skoðunargerðir í opinberu máli. Miðar slík gagnaöflun þannig að því að leita sérfræðilegs álits á tilteknum staðreyndum hjá mönnum, sem ekki hafa reynt atvik af eigin raun. Lýtur gagnaöflun sem þessi og sérstökum reglum um öflun mats og hæfi mats- og skoðunarmanna, sbr. 64. gr. og 65. gr. laga nr. 19/1991 og IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 65. gr. laga nr. 91/1991 ber mats- og skoðunarmanni að kröfu aðila að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð og um atriði, sem tengjast henni.
Samkvæmt 70. gr. laga nr. 19/1991 leitar rannsóknari til kunnáttumanna, þegar þörf er á sérfræðilegri rannsókn vegna opinbers máls. Getur slík rannsókn á málsatvikum verið nauðsynleg til þess að ákveða hvort sækja skuli mann til sakar og afla nauðsynlegra gagna til undirbúnings málsmeðferðar, sbr. 67. gr. laganna. Af þessu leiðir einnig að nauðsynlegt kann að vera að kveðja þann, er veitt hefur slíka sérfræðilega aðstoð, sem vitni fyrir dóm til þess að skýra þau gögn málsins, er frá honum stafa eða atriði, sem þeim tengjast. Verður að telja slíka vitnaleiðslu sérfræðings heimila, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991.
III.
Af gögnum málsins verður ráðið að álits Birgis Guðjónssonar hafi verið aflað eftir að rannsókn málsins var lokið og ákæra gefin út. Framkvæmdi Birgir því ekki sérfræðilega rannsókn að beiðni sóknaraðila á rannsóknarstigi málsins samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991. Að þessu virtu getur skýrslugjöf hans fyrir dómi ekki helgast af ákvæðum VIII. kafla laga nr. 19/1991 um vitnaskýrslur, en sóknaraðili heldur því ekki fram að Birgir geti af eigin raun borið um þá atburði, sem liggja til grundvallar ákæru.
Birgir Guðjónsson hefur ekki verið dómkvaddur sem mats- eða skoðunarmaður í málinu samkvæmt 63. gr. laga nr. 19/1991. Verður hann því ekki að óbreyttu leiddur fyrir dóm, sbr. 3. mgr. 65. gr. laganna og 65. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt framangreindu brestur skilyrði til að verða við kröfu sóknaraðila um að fá að leiða Birgi Guðjónsson fyrir dóm til að gefa vitnaskýrslu. Verður þessari kröfu því hafnað.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila um að Birgir Guðjónsson læknir gefi skýrslu fyrir dómi sem vitni í máli sóknaraðila gegn varnaraðila.