Hæstiréttur íslands

Mál nr. 407/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


Mánudaginn 28

 

Mánudaginn 28. júlí 2008.

Nr. 407/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanns.

Úrskurður héraðsdóms, um að staðfesta ákvörðun dómsmálaráðherra frá 25. júní 2008 um að framselja X til Póllands, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2008, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 25. júní 2008 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 má synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Dómsmálaráðherra hefur metið aðstæður í þessu máli svo, að slíkar ástæður standi ekki gegn framsali varnaraðila. Ekki eru efni til að dómstólar hnekki því mati, eins og á stendur í málinu. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2008.

I

      Mál þetta var tekið til úrskurðar 21. júlí 2008.

Dómsmálaráðherra tók ákvörðun 9. apríl sl., um að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja sóknaraðila, X, kt. [...]. Var þeirri ákvörðun komið á framfæri við sóknaraðila 29. apríl 2008 og krafðist hann þess að málið yrði borið undir Héraðsdóm Reykjavíkur, með bréfi til ríkissaksóknara, dagsettu sama dag. Ríkissaksóknari kom þeirri kröfu á framfæri við dóminn 6. maí sl. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. maí sl., var staðfest sú ákvörðun dómsmálaráðuneytisins að framselja sóknaraðila til Póllands. Með dómi Hæstaréttar 26. maí sl., var ákvörðunin felld úr gildi, en í niðurstöðu meirihluta réttarins kemur fram að ekki yrði með vissu ráðið hvort sóknaraðili hefði skilið leiðbeiningar lögreglu um rétt hans til að hafa samband við lögmann við meðferð málsins hjá lögreglu. Þar sem hann hefði ekki notið lögmannsaðstoðar á því stigi máls hefðu óskir hans um synjun á framsali á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984 ekki verið skráðar í gögn málsins og ekki komið til skoðunar hjá dómsmálaráðuneytinu.

      Með bréfi 27. maí sl., óskaði dómsmálaráðuneytið eftir því að tekin yrði lögregluskýrsla að nýju af varnaraðila og var það gert að verjanda hans og túlki viðstöddum, 10. júní sl. Í kjölfar þess tók dómsmálaráðherra ákvörðun, 25. júní sl., um að framselja varnaraðila til Póllands. Lögreglan á Akranesi kynnti varnaraðila ákvörðunina 3. júlí sl., að verjanda hans og túlki viðstöddum, en varnaraðili mótmælti ákvörðuninni og með bréfi sem barst ríkissaksóknara sama dag krafðist verjandi varnaraðila úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi.

      Dómkröfur sóknaraðila eru að fyrrgreind ákvörðun dómsmálaráðherra, frá 25. júní sl., verði felld úr gildi.  Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

      Dómkröfur varnaraðila eru þær, að staðfest verði fyrrgreind ákvörðun dómsmálaráðherra frá 25. júní sl.

II

      Sóknaraðili er pólskur ríkisborgari, fæddur [...]. 

      Í bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 10. október 2007, til ríkissaksóknara, kemur fram að ráðuneytinu hafi borist beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal X, kt. [...], pólsks ríkisborgara, sem búsettur sé að [...]. Framsalsbeiðninni hafi fylgt afrit ákæru héraðssaksóknara í A, útgefinni 29. nóvember 2005, á hendur varnaraðila fyrir þjófnaðarbrot, en honum er gefið að sök að hafa, hinn 22. júlí 2005, í félagi við nafngreindan mann, brotist inn í tilgreint íbúðarhús í A og stolið þaðan tölvu og tölvubúnaði að verðmæti um 3.000 zloty (100.692 íslenskar krónur). Framsalsbeiðninni hafi einnig fylgt handtökuskipun, útgefin af Héraðsdómi A, dagsett 14. mars 2006, auk endurrits hlutaðeigandi refsiákvæða. Lögreglustjórinn á Akranesi kynnti varnaraðila framsalsbeiðnina 2. nóvember sl., og mótmælti hann framsalskröfunni.

      Að fenginni umsögn ríkissaksóknara, með bréfi dagsettu 13. nóvember sl., um að uppfyllt væru skilyrði framsals, samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984, ákvað dómsmálaráðherra 9. apríl sl., að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja sóknaraðila og var framhald málsins eins og lýst er í kafla I, hér að ofan.

      Um skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 vísar varnaraðili til umsagnar ríkissaksóknara frá 13. nóvember 2007. Jafnframt þyki fullnægt skilyrðum II. kafla laganna um form framsalsbeiðninnar. Af hálfu íslenska ríkisins sé málinu vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur, sbr. staflið e 2. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, og II. kafla laga nr. 13/1984.

III

      Sóknaraðili byggir á sömu rökum og þeim er fram komu við meðferð fyrri framsalskröfu og kveður að hafna beri framsalsbeiðninni á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984, vegna sérstakra persónulegra aðstæðna hans. Sóknaraðili byggir á því, að hann hafi aðeins verið 18 ára er brot það hafi verið framið sem honum sé gefið að sök.  Brot þetta hafi verið léttvægt og hann hafi verið með hreint sakavottorð á þeim tíma.  Hann kveðst vera saklaus, en hafa verið neyddur til þess að skrifa undir játningu.  Hann sé nú 21 árs og stundi hér vinnu og standi sig þar vel. Allir ættingjar hans, m.a. foreldrar, búi hér á landi. Hann hafi búið hér í rúm tvö ár og hafi ekki lengur neitt samband við föðurlandið. Stríði það því gegn fyrrgreindu lagaákvæði að framselja hann til Póllands.

      Varnaraðili vísar til þeirra raka sem fram koma í ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 25. júní 2008. Þar segir að í 1. mgr. 3. gr. framsalslaga sé kveðið á um að framsal á manni sé aðeins heimilt ef verknaður geti varðað fangelsi meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum og í 2. mgr. 3. gr. laganna segir að framsal sé einungis heimilt ef tekin hafi verið ákvörðun í erlenda ríkinu um að sá sem óskað er framsals á, skuli handtekinn eða fangelsaður fyrir viðkomandi verknað. Í 9. gr. segi svo að framsal sé óheimilt ef sök eða dæmd refsing sé fyrnd eða að öðru leyti fallin niður samkvæmt íslenskum lögum. Öll lagaskilyrði um framsal hafi verið uppfyllt að mati ráðuneytisins þegar ákvörðun hafi verið tekin um framsal 9. apríl sl. og ekkert hafi komið fram í málinu sem hnekki því mati. Þá séu engin mál til meðferðar á hendur sóknaraðila sem geti varðað minnst 2 ára fangelsi, sbr. 10. gr. framsalslaga. Framangreind lagaskilyrði fyrir framsali séu því uppfyllt.

      Þá komi til skoðunar hvort skilyrði séu til að synja um framsal á grundvelli 7. gr. framsalslaga, en þar segi að í sérstökum tilvikum megi synja um framsal ef mannúðarástæður mæli gegn því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Í greinargerð með 7. gr. segi að hafðar séu í huga félagslegar aðstæður viðkomandi í heild. Við mat á þeim geti skipt máli hvort viðkomandi eigi fjölskyldu hér á landi, reki hér atvinnustarfsemi, hversu lengi hann hafi búið hérlendis eða hafi fasta atvinnu. Þá verði að hafa í huga að ekki megi beita þessu ákvæði nema í alveg sérstökum tilvikum, því annars missi framsalskerfið marks í alþjólegu samstarfi á sviði afbrotamála. Í ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins kemur fram að ekki þyki þau tilvik vera fyrir hendi í máli hans að réttmætt sé að synja um framsal á grundvelli 7. gr. framsalslaga, enda um undantekningarákvæði að ræða sem skýra beri þröngt. Hann hafi einungis búið hér í tvö ár, hann sé pólskur ríkisborgari, hann eigi ættingja í Póllandi og stutt sé síðan það brot hafi verið framið sem honum sé gefið að sök. Þá hafi pólsk yfirvöld metið það svo að þau hafi hagsmuni af því að fá hann framseldan. Aldur hans gefi ekki heldur tilefni til þess að ákvæðinu verði beitt. Þá vísar ráðuneytið til  dóms Hæstaréttar í málinu nr. 65/2005 þar sem ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um framsal á pólskum ríkisborgarar var staðfest.

IV

      Í 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum kemur fram að heimilt sé að framselja mann, ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Í framsalsbeiðni pólskra yfirvalda kemur fram að sóknaraðili sé grunaður um refsiverðan verknað og hefur verið gefin út handtökuskipun á hendur honum, sbr. 1. gr. og 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Meint brot sóknaraðila eru ófyrnd, sbr. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga og geta varðað samkvæmt íslenskum lögum allt að 6 ára fangelsi. Stendur 9. gr. laga nr. 13/1984 því ekki í vegi fyrir að sóknaraðili verði framseldur. 

      Kemur þá til skoðunar hvort 7. gr. laga nr. 13/1984 standi því í vegi að framsalskrafa nái fram að ganga, en samkvæmt því ákvæði má synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Sóknaraðili er tæplega 22 ára gamall og ekkert fram komið í málinu um að heilsufar hans sé með þeim hætti að mannúðarástæður mæli gegn framsali. Hann á fjölskyldu hér á landi og kveðst hafa verið í fastri vinnu frá því að hann flutti til Íslands. Dómsmálaráðherra hefur metið aðstæður í þessu máli svo, að mannúðarástæður standi ekki í vegi fyrir framsali sóknaraðila og er sú niðurstaða í samræmi við dóm Hæstaréttar frá 25. febrúar 2007 í málinu nr. 65/2005, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um framsal á pólskum ríkisborgara, sem hafði búið hérlendis mun lengur en sóknaraðili, átti hér lítið barn og fjölskyldu og hafði fasta atvinnu. Þykja samkvæmt framangreindu ekki efni til að hnekkja því mati dómsmálaráðherra, að mannúðarástæður mæli ekki gegn framsali. Verður ákvörðunin því ekki felld úr gildi á þessum grundvelli.

      Þegar allt framangreint er virt eru uppfyllt skilyrði um framsal sóknaraðila og staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra frá 25. júní 2008, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

      Þóknun skipaðs réttargæslumanns sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984.

      Úrskurð þennan kveður upp Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari.

Ú R S KU R Ð A R O R Ð :

      Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 25. júní 2008 um að framselja sóknaraðila, X, til Póllands, er staðfest.

      Þóknun réttargæslumanns sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.