Hæstiréttur íslands
Mál nr. 398/2008
Lykilorð
- Farbann
- Kærumál
|
|
Þriðjudaginn 22. júlí 2008. |
|
Nr. 398/2008. |
Ríkissaksóknari(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Úrskurður
héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr.
og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2008, þar sem varnaraðila var áfram bönnuð för frá Íslandi þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, þó ekki lengur en til föstudagsins 31. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2008 var varnaraðili dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnu útgefinni 14. júlí 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds. Ákærði er pólskur ríkisborgari og fram er komið að hann hefur hug á að fara til Póllands til að leita meðferðar hjá geðlækni. Fallist er á að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru ákærða á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti og að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að varnaraðila verði bönnuð för úr landi samkvæmt 110. gr. laganna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms
Reykjavíkur föstudaginn 18. júlí 2008.
Ríkissaksóknari
hefur krafist þess að X, kt. [...], skuli sæta áfram farbanni uns dómur gengur
í máli hans í Hæstarétti, þó ekki lengur en til föstudagsins 31. október nk.
kl. 16.00.
Ákærði
var dæmdur til að sæta fangelsi í þrjú ár með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 13.
júní sl. Var hann sakfelldur fyrir brot
gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði er pólskur
ríkisborgari. Hann sagði fyrir dómi að
foreldrar sínir væru búsettir hér á landi og að hann byggi hjá móður sinni í
[...]. Kvaðst hann þurfa að fara til Póllands til að leita til geðlæknis. Hann hefði verið í læknismeðferð þar og
þyrfti að halda henni áfram. Of dýrt
væri fyrir sig að leita til geðlæknis hér á landi.
Ákærði hefur verið dæmdur til
þungrar refsingar fyrir alvarlegt brot gegn almennum hegningarlögum. Hann er erlendur ríkisborgari og er ekki
annað fært en að farbanni verði beitt til að tryggja að hann verði til staðar
er dómur gengur í Hæstarétti og til afplánunar á hugsanlegri fangelsisrefsingu. Verður farbanninu markaður tími eins og
ákæruvald krefst.
Jón
Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Ákærði,
X, kt. [...], sæti áfram farbanni uns dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, þó
ekki lengur en til föstudagsins 31. október nk. kl. 16.00.