Hæstiréttur íslands

Mál nr. 368/1999


Lykilorð

  • Eignardómsmál
  • Frávísun frá héraðsdómi


           

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000.

Nr. 368/1999.

Íslenska ríkið

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

gegn

Sigvalda Ragnarssyni og

Grétu Dröfn Þórðardóttur

(Helgi V. Jónsson hrl.)

                                              

Eignardómsmál. Frávísun frá héraðsdómi.

Eigendur jarðarinnar H höfðuðu eignardómsmál og kröfðust þess að eignarréttur sinn að heiðarbýlinu V yrði viðurkenndur, en þeir töldu að V hefði fylgt með í kaupunum þegar forfaðir þeirra keypti H. Málinu var vísað frá héraðsdómi þar sem eignardómsstefnan var ekki talin fela í sér næga greinargerð um heimild að lögum til útgáfu hennar og eigendur H hefðu að svo komnu ekki sýnt nægilega fram á, hver nauðsyn hafi borið til að höfða málið sem eignardómsmál

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. september 1999. Hann krefst þess aðallega, að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara, að öllum kröfum stefndu verði synjað. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar á héraðsdómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf jarðanefndar Norður-Múlasýslu til lögmanns stefnenda í héraði frá 7. september 1999. Þar kemur fram, að stefndi Sigvaldi Ragnarsson hefur keypt Hákonarstaði I í Jökuldal af Björgvin Sigvaldasyni, sem lést 29. júlí 1999. Samkvæmt upplýsingum lögmanns stefndu fóru þau kaup fram 14. maí 1999, skömmu fyrir uppsögu héraðsdóms. Er dánarbú Björgvins Sigvaldasonar því ekki aðili að málinu fyrir Hæstarétti. Í bréfi jarðanefndar kemur einnig fram, að Björgvin hafi selt stefndu báðum sinn hlut í Veturhúsum. Jarðanefnd bendir á, að í þinglýsingabókum séu Veturhús talin eign Jökuldalshrepps, þar til jörðin hafi verið sameinuð Hákonarstöðum. Leggur nefndin til, að gengið verði í að lagfæra þessi mál og „jarðirnar Hákonarstaðir, Víðihólar og Veturhús verði sameinaðar.“

Einnig hafa verið lögð fram afsal Þórðar Sigvaldasonar 24. september 1989 til stefndu Grétu Drafnar, dóttur hans, fyrir Hákonarstöðum II í Jökuldalshreppi og afsal Ragnars Sigvaldasonar 27. mars 1994 til stefnda Sigvalda, sonar hans, fyrir Hákonarstöðum III. Lögmaður stefndu segir dagsetningu þessa skjals hafa misritast þannig á því eintaki, sem fór til þinglýsingar, að mars hafi komið í stað febrúar, sem verið hafi hinn rétti undirskriftarmánuður.

Þá hefur verið lagt fram bréf Hilmars Gunnlaugssonar hdl. frá 7. febrúar 2000, þar sem hann greinir frá því, að til hans hafi leitað Guðný Kristjánsdóttir fyrir hönd erfingja Guðnýjar Torfadóttur og Péturs Kristjánssonar, en hún mun vera sonardóttir þeirra. Í bréfinu segir, að henni hafi fyrir skömmu orðið ljóst, að höfðað hefði verið það eignardómsmál, sem nú er til meðferðar, en hún og ættingjar hennar haldi því fram, „að þau eigi jörðina Víðihóla, þ.e. að hún hafi ekki fylgt með þegar Hákonarstaðir voru framseldir.“ Lögmaðurinn kveður umbjóðanda sínum það mjög í mun að geta varið rétt sinn, þótt hún hafi ekki veitt Lögbirtingablaðinu með eignardómsstefnunni eftirtekt, og telji hún, að stefnendur í héraði hefðu með réttu átt að hafa frumkvæði að því að gefa erfingjum Guðnýjar og Péturs kost á að taka til varna í málinu. Sú ósk er því látin í ljós, að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Loks hefur verið lögð fyrir Hæstarétt yfirlýsing frá 13. febrúar 2000, sem undir rita Guðrún Einarsdóttir, ekkja Hákonar Péturssonar, sonar Guðnýjar Torfadóttur og Péturs Kristjánssonar, og þeir Pétur Jökull og Sigurður, synir Hákonar. Þar segir, að framangreint bréf Hilmars Gunnlaugssonar hdl. hafi ekki verið ritað fyrir þeirra hönd og Guðný Kristjánsdóttir hafi ekki haft umboð þeirra til að leita aðstoðar lögmannsins. Þá lýsa þau því yfir, að þau telji Víðirhóla fylgja Hákonarstöðum og stefndu séu nú réttmætir eigendur þeirra, þar sem þau eigi Hákonarstaði.

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti um frávísunarþátt þess kom fram, að Guðný Torfadóttir og Pétur Kristjánsson hafi átt þrjú börn, þau Hákon, Kristján og Margréti.

II.

Héraðsdómarinn á Austurlandi gaf út eignardómsstefnu í þessu máli 13. janúar 1998. Þar eru dómkröfur stefnenda í héraði sagðar vera þær, „að með dómi verði viðurkenndur eignarréttur stefnenda að Víðihólum, Jökuldalshreppi, Norður-Múlasýslu ásamt öllum réttindum er fylgja jörðinni.“

Í stefnunni er málavöxtum í upphafi svo lýst, að á landnámsöld hafi Hákon Hákonarson numið land í Jökuldal „þar á meðal jörðina (heiðarbýlið) Víðihóla, sem var hjáleiga Hákonarstaða.“ Þá segir, að jörðin hafi „mestmegnis verið byggð út eða nýtt af ábúendum og/eða eigendum Hákonarstaða í Jökuldal.“ Heimilda um þetta er að litlu getið í stefnunni. Í Landnámu greinir frá því, að Hákon hafi numið Jökuldal allan fyrir vestan Jökulsá og fyrir ofan Teigará og búið á Hákonarstöðum. Skjöldólfur Vémundarson hafi numið Jökuldal fyrir austan Jökulsá upp frá Knefilsdalsá og búið að Skjöldólfsstöðum. Af þessari lýsingu verður ekki ráðið, að heiðarlönd ofan dalsins hafi verið numin í öndverðu. Þá er engin viðhlítandi grein gerð fyrir því, hvernig Víðirhólar, sem svo eru nefndir í eldri heimildum, hafi byggst úr landi Hákonarstaða og hvernig nýtingu hafi verið háttað á þessu landsvæði, frá því að byggð lagðist af á heiðarbýlinu á árinu 1905. 

Í eignardómsstefnunni segir, að Pétur Kristjánsson hafi eignast Hákonarstaði 1909 og fyrir átt „jörðina Víðihóla“ eftir móður sína, Jakobínu Pétursdóttur. Á árinu 1941 hafi ekkja hans, Guðný Torfadóttir, selt Sigvalda Torfasyni Hákonarstaði og hafi fylgt sölunni „jörðin Víðihólar auk allra annarra réttinda er fylgdu Hákonarstöðum.“ Það er ekki nefnt, að í afsali Guðnýjar 13. október 1941, sem lagt var fram við þingfestingu, er Víðirhóla að engu getið heldur einungis sagt, að Sigvaldi bóndi Torfason sé „löglegur eigandi að jörðinni Hákonarstöðum á Jökuldal.“

Þá er engin grein gerð í stefnu fyrir mörkum þess svæðis, sem eignardóms er krafist um, en til þess er vísað, að til sé sérstök landamerkjalýsing fyrir Víðirhóla frá 1921. Við þingfestingu málsins 3. mars 1998 var lagt fram endurrit úr landamerkjabók Norður-Múlasýslu um landamerki Víðirhóla í Jökuldalshreppi, en sú lýsing var undirrituð á Skjöldólfsstöðum 24. október 1921, meðal annarra af Pétri Kristjánssyni á Hákonarstöðum, og þinglesin á Skjöldólfsstaðamanntalsþingi 27. júlí 1922.

Fram kemur í eignardómsstefnu, að stefndu byggi einnig á því, að eignarréttur þeirra að Víðirhólum hafi stofnast fyrir hefð, þar sem þeir sjálfir og þeir, sem þeir rekja rétt sinn til, hafi haft alger og óskoruð yfirráð yfir jörðinni í fullan hefðartíma. Engin frekari grein er þó gerð fyrir því, hvernig notum þeirra á svæðinu hafi í raun verið háttað. Þá er heldur ekki að finna umfjöllun um afnotarétt, þar á meðal beitarrétt, er aðrir kynnu að hafa notið á heiðarsvæðinu, sem að engu leyti mun vera afgirt.

Stefndu kveðast í stefnu rekja eignarrétt sinn til hins umdeilda svæðis frá Pétri Kristjánssyni til Sigvalda Torfasonar, „forföður“ þeirra. Ekki er gerð nánari grein fyrir því, hvernig þau leiða rétt sinn frá Sigvalda. Það skýrist ekki fyrr en í frekari málatilbúnaði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

 

 

III.

Í 1. mgr. 122. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir, að sanni maður eða geri sennilegt, að hann hafi öðlast réttindi yfir fasteign, skrásettu skipi eða loftfari, skrásettri bifreið eða viðskiptabréfi með samningi eða hefð, en hann skorti skilríki fyrir rétti sínum, geti hann leitað eignardóms. Um eignardómsstefnu fer eftir því, sem fyrir er mælt í 121. gr. laganna um ógildingarmál, sbr. 2. mgr. 122. gr. Þannig á í stefnunni að koma fram nákvæm lýsing á þeim rétti, sem eignardóms er krafist um. Sú röksemdafærsla, sem í gildistíð laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði átti að koma fram í beiðni til dómara um útgáfu eignardómsstefnu, sbr. 217. gr., 218. gr. og 220. gr. þeirra laga, verður nú að koma fram í sjálfri stefnunni, sem aðili leggur fyrir dómara til útgáfu. Rétt er því, að henni fylgi þau skjöl, sem dómkrafan er reist á, og þar komi fram nákvæm lýsing á því, sem eignardóms er krafist fyrir, þar á meðal um landamerki eftir því sem við á. Ekki nægir, að efni þessara skjala verði fyrst fullkunnugt við þingfestingu eða síðar, en eignardómsmál sæta sérstakri meðferð fyrir dómstólum. Með útgáfu eignardómsstefnu tekur dómari þá ákvörðun, að hann telji sýnt af málatilbúnaði stefnanda, að skilyrði séu fyrir eignardómi, þótt ekki sé hann bundinn við það mat á síðari stigum. Samkvæmt 3. mgr. 121. gr., sbr. 2. mgr. 122. gr., laga nr. 91/1991 skal birta eignardómsstefnu í Lögbirtingablaði og af henni verða allir að geta ráðið, hver sé grundvöllur og inntak þess réttar, sem dóms er krafist um.

Samkvæmt því, sem að framan er rakið, fól eignardómsstefnan ekki í sér næga greinargerð um heimild að lögum til útgáfu hennar. Héraðsdómara var því ekki rétt að gefa hana út við svo búið.

IV.

Í eignardómsstefnu segir, að stefnendum í héraði, stefndu hér fyrir dómi, sé nauðsyn að höfða mál þetta til að fá skriflega eignarheimild fyrir „jörðinni Víðihólum“, þar sem ekki sé til sérstakt þinglýsingarblað í fasteignabók fyrir hana og eignarheimildir þeirra, sem stefnendur reki rétt sinn til, hafi ekki verið skriflegar. Skilja verður málatilbúnað stefndu svo, að þeir krefjist í raun viðurkenningar á því, að í afsali Guðnýjar Torfadóttur til Sigvalda Torfasonar 13. október 1941 hafi falist, að Víðirhólar hafi á þeim tíma tilheyrt Hákonarstöðum og verið afsalað með þeim. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram, að stefndu sé kunnugt um, hverjir séu erfingjar og afkomendur Guðnýjar Torfadóttur og Péturs Kristjánssonar. Liggur því ekki annað fyrir en að stefndu hafi mátt beina kröfu að þeim til viðurkenningar á inntaki þess réttar, sem þeir telja hafa falist í afsalinu. Hafa stefndu því ekki að svo komnu sýnt nægilega fram á, hver nauðsyn hafi borið til að höfða málið sem eignardómsmál samkvæmt XVIII. kafla laga nr. 91/1991.

V.

Samkvæmt framansögðu ber að vísa máli þessu frá héraðsdómi.

Með hliðsjón af 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt, að stefndu greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndu, Sigvaldi Ragnarsson og Gréta Dröfn Þórðardóttir, greiði áfrýjanda, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 9. júlí 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní sl., er höfðað fyrir héraðsdómi Austurlands af Bernhard Bogasyni hdl. f.h. Björgvins Sigvaldasonar, kt. 150327-3779, Lagarfelli 9, Fellabæ, Sigvalda Ragnarssonar, kt. 290668-3529, Hákonarstöðum 3, Jökuldalshreppi, og Grétu Drafnar Þórðardóttur, kt. 190558-2319, Hákonarstöðum 4, Jökuldalshreppi, með eignardómsstefnu útgefinni 13. janúar 1998.

Stefnendur gera þær dómkröfur, að með dómi verði viðurkenndur eignarréttur stefnenda að Víðihólum, Jökuldalshreppi, Norður-Múlasýslu, ásamt öllum réttindum er fylgja jörðinni.

Þá er krafist málskostnaðar eftir mati dómsins.

Fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra tóku til varna vegna íslenska ríkisins og og eru dómkröfur varnaraðila:

Aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að kröfum stefnenda verði synjað. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnendum verði gert að greiða stefnda hæfilegan málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Í greinargerð varnaraðila var tekið fram, að hann teldi engin tormerki á því að mál þetta væri flutt í einu lagi um aðalkröfu hans um frávísun frá dómi og um efnishlið málsins.

 

Málavextir:

Stefnendur lýsa málavöxtum svo að á landnámsöld hafi Hákon Hákonarson numið land í Jökuldal þar á meðal jörðina (heiðarbýlið) Víðihóla, sem var hjáleiga Hákonarstaða. Jörðin hefur mestmegnis verið byggð út eða nýtt af ábúendum og/eða eigendum Hákonarstaða í Jökuldal. Á árinu 1956 var heimaland Hákonarstaða skipt upp í þrjá hluta en úthögum, þ.á.m. Víðihólum, var ekki skipt upp og hafa eigendur Hákonarstaða I, II og III nýtt landið sameiginlega til beitar, veiða o.fl.

Pétur Kristjánsson eignaðist jörðina Víðihóla á síðustu öld eftir móður sína Jakobínu Pétursdóttur. Pétur átti einnig heiðarbýlin Rangalón og Veturhús. Árið 1909 eignaðist Pétur Kristjánsson einnig Hákonarstaði og bjó hann þar en nýtti heiðarbýlin til búskapar síns auk þess sem töluverð veiði hefur alla tíð verið stunduð á heiðarbýlunum. Eignarheimildum Péturs fyrir heiðarbýlunum var aldrei þinglýst. Á árinu 1909 er Pétur veðsetti heiðarbýlin Landsbanka Íslands var veðskjölunum þinglýst með athugasemd um að veðsali hefði ekki þinglýsta eignarheimild fyrir hinu veðsetta. Veðskjalinu var þinglýst í fasteignabók á blað Hákonarstaða. Sérstök landamerkjalýsing er til fyrir Víðihóla frá árinu 1921, undirrituð af Pétri Kristjánssyni auk eigenda aðliggjandi landa.

Pétur Kristjánsson lést á árinu 1921. Áður hafði hann selt heiðarbýlið Veturhús. Á árinu 1942 voru Veturhús seld til Kjartans Ólafssonar með afsali útgefnu af sýslumanni Norður-Múlasýslu, skv. heimild Dómsmálaráðuneytis, f.h. dánarbús Önnu Einarsdóttur, síðasta ábúanda að Veturhúsum. Afsalinu var þinglýst og var það í fyrsta sinn sem eignarheimild fyrir jörðinni var þinglýst og var þá útbúið sérstakt blað í fasteignabók fyrir jörðina.

Hinn 11. júní 1940 seldi Guðný Torfadóttir, ekkja Péturs Kristjánssonar, jörðina Rangalón til Jóns Þórarinssonar og gaf út afsal því til staðfestu. Því afsali var þinglýst og var þá fyrst útbúin blaðsíða í fasteignabók fyrir Rangalón.

Guðný Torfadóttir seldi Sigvalda Torfasyni Hákonarstaði þann 13. október 1941. Stefnendur eru öll afkomendur Sigvalda. Sölunni til Sigvalda fylgdi jörðin Víðihólar auk allra annarra réttinda er fylgdu Hákonarstöðum, án þess, að þess væri að neinu getið í afsali.

Víðihólar hafa samkvæmt framangreindu að meginstefnu til allt til til dagsins í dag fylgt Hákonarstöðum og verið nýttir með Hákonarstöðum. Stefnendur, sem allir eru ábúendur Hákonarstaða, og þeir sem stefnendur rekja rétt sinn til hafa því nýtt jörðina Víðihóla, greitt fasteignagjöld af Víðihólum, svarað til fjallskila og farið með full og óskoruð eignarráð yfir Víðihólum í áratugi.

Þar sem ekki er sérstakt þinglýsingarblað í fasteignabók fyrir Víðihóla og vegna þess að eignarheimildir þeirra er stefnendur rekja rétt sinn til yfir jörðinni Víðihólum voru ekki skriflegar telja stefnendur nauðsynlegt að höfða mál þetta til að fá skriflega eignarheimild yfir jörðinni.

 

Málsástæður stefnenda:

Stefnendur, sem eru eigendur Hákonarstaða, kveðast rekja eignarrétt sinn yfir jörðinni Víðihólum frá Pétri Kristjánssyni, sem hafi eignast jörðina (heiðarbýlið) á síðustu öld en aldrei haft skriflega þinglýsta eignarheimild fyrir jörðinni. Ekkja Péturs Kristjánssonar hafi selt Sigvalda Torfasyni, forföður stefnenda, Hákonarstaði og allt það sem þeirri jörð fylgdi, þ.á.m. Víðihóla, enda Víðihólar frá byrjun þessarar aldar og fyrr á tímum verið nýttir með Hákonarstöðum og taldir fylgja Hákonarstöðum.

Með vísan til 122. gr. laga nr. 91/1991 séu því skilyrði til að kveðinn verði upp eignardómur í málinu að kröfu stefnanda.

Stefnandi byggir einnig á að eignarréttur þeirra að Víðihólum hafi stofnast fyrir hefð þar sem stefnendur og þeir er stefnendur rekja rétt sinn til hafi haft alger og óskoruð yfirráð yfir jörðinni í fullan hefðartíma.

 

Málsástæður varnaraðila:

Til stuðnings aðalkröfu byggir varnaraðili á því að mjög skorti á að nægjanlega skýr grein sé gerð í eignardómsstefnu eða framlögðum málsgögnum fyrir þeim eignarrétti sem stefnendur krefjast dóms um. Ekki komi nægjanlega skýrt fram hver eru mörk jarðarinnar Víðihóla eða hver afnotaréttindi stefnendur telja að aðrir en þeir kunni að eiga eða hafa nýtt. Engin heimildarbréf eða nægjanleg sönnunargögn fyrir eigninni geti hafa réttlætt útgáfu eignardómsstefnu samkvæmt 122. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verði ekki ráðið af þeim gögnum sem stefnendur hafa lagt fram að sennilegt sé að einn þeirra eða fleiri eigi tilkall til heiðarbýlisins Víðihóla.

Fjármálaráðherra fari með málefni sem varða eignir ríkisins almennt, sbr. 5. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969. Vísast einnig til dómaframkvæmdar er varðar ágreining um jarðir og lönd þar sem vafi hefur verið um einstaklingsbundinn eignarrétt og ríkissjóður hefur átt aðild.

Til fyrirsvars fyrir varnaraðila sé einnig landbúnaðarráðherra vegna málefna um afréttir og jarðir, sbr. jarða- og ábúðarlög, en óljóst sé hvort Víðihólar hafi talist  lögbýli fyrr eða síðar. Varnaraðili sem handhafi almannavalds hafi lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu þar sem ekkert í málatilbúnaði stefnenda bendi til að jörðin Víðihólar sé eða hafi verið undirorpin einstaklingsbundnum eða beinum eignarrétti stefnenda. Verði við svo búið að leggja til grundvallar að jörðin sé eign ríkisins að allsherjarrétti með því að ríkið hafi umráða og ráðstöfunarrétt yfir þeim jörðum sem enginn annar hafi sannað eignarrétt sinn að. Allt að einu hafi Alþingi heimild til að kveða á um rástöfun eða eignarhald slíkra eigna með lögum og komi í hlut varnaraðila að gæta þeirra almannahagsmuna er lúti að jörðum sem ekki sýnast háðar lögmætum grunneignarrétti annarra en ríkisins sem almannaeignar. Umráðaréttur og vald til að ráðstafa almenningum sé að forræði ríkisvaldsins.

Stefnendur hafa lagt fram allnokkur skjöl sem varða jörðina Hákonarstaði og byggja kröfur sínar á eignarrétti að þeirri jörð. Hins vegar fullyrða stefnendur að jörðin Víðihólar hafi fylgt jörðinni Hákonarstöðum. Þessu er mótmælt af hálfu varnaraðila sem röngu og ósönnuðu. Engu breyti í þessu efni, hvort stefnendur eða fyrri eigendur Hákonarstaða hafi nýtt Víðihóla til beitar eða veiða eins og fullyrt er í stefnu. Þau afnot geri ekki líklegan beinan grunneignarrétt að jörðinni.

Þótt í heimildum komi fram vísbendingar um að eigendur Hákonarstaða hafi nýtt landssvæðið Víðihóla, sé ekkert í gögnum málsins sem geri sennilegt að Víðihólar hafi verið hluti af Hákonarstöðum. Í frá 1941 um jörðina Hákonarstaði sé ekki minnst á Víðihóla. Verði að gera ráð fyrir að svo hefði verið gert ef hún hefði verið seld með, enda hafi þá verið til lýsing landamerkja fyrir Víðihóla undirrituð í desember 1921 af tveimur öðrum landeigendum. Landskiptagerð frá 1956 milli eigenda Hákonarstaða bendi einnig til þess að þeir hafi einungis talið um beitarafrétt væri að ræða sem þeim væri ekki heimilt að skipta enda landið ekki undirorpið eignarrétti þeirra. Í stefnu er greint frá því að í raun sé um úthaga að ræða.

Landið Víðihóla sé ekki að finna í gömlum fasteignamatsskrám, en skráð í fasteignamat 1938 sem auð og enginn ábúandi þar tilgreindur. Í ritinu "Ný jarðabók fyrir Ísland" frá 1861 séu aðeins nefndar tvær hjáleigur Hákonarstaða (Sænautasel og Veturhús), en Víðihóla ekki getið. Í jarðaskrám landbúnaðarráðuneytis frá 1959 sé jörðin tilgreind án búskapar, en sögð auð í jarðaskrá 1964 - 1965. Jörðin sé ekki tilgreind í jarðaskrám frá 1967 - 1968. Hafi jörðin einhvern tíma talist til lögbýla hafi hún um langan aldur talist í óbyggðra landa, sbr. 2. mgr. 1. gr. eldri ábúðarlaga nr. 36/1961. Ekki sé komið fram hvort eða á grundvelli hvaða heimilda landið hafi verið byggt eða að eignarheimildir hafi færst yfir til stefnenda.

Af hálfu varnaraðila er því mótmælt, að viðurkenningarkrafa stefnenda verði tekin til greina á grundvelli hefðar. Stefnendur hafa ekki sannað óskoruð yfirráð yfir jörðinni Víðihólum í fullan hefðartíma. Það eitt sé komið fram í málinu að eigendur Hákonarstaða hafi nýtt jörðina til beitar og veiða, en slík afnot geti ekki helgað grunneignarrétt fyrir hefð. Ekki sé til úrslausnar í málinu hvort eða hvað miklu leyti afnotaréttur kynni að hafa stofnast fyrir hefð. Ekki sé fram komið að stefnendur hafi nýtt jörðina á þann hátt sem leiða myndi af fullkomnum eignarrétti eða eignarhaldi, t.d. með því að koma fyrir húsakosti stunda þar ræktun og hirða arð af jörðinni. Engir eignayfirfærslugerningar um jörðina styðja heldur eignarhald í hefðartíma samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 46/1905 um hefð.

Um frekari lagarök vísar varnaraðili til almennra reglna eignarréttar og dómaframkvæmdar um tilkall og hagsmuni ríkisins varðandi almenninga og eignir sem ekki eru háðar grunneignarrétti annarra.

Til stuðnings kröfu varnaraðila um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Forsendur og niðurstaða:

Verður nú tekin afstaða til frávísunarkröfu varnaraðila.

Stefndi hefur rökstutt kröfu sína um frávísun málsins frá dómi, með því, að mjög skorti á að nægjanlega skýr grein sé gerð í eignardómsstefnu eða framlögðum málsgögnum fyrir þeim eignarrétti, sem stefnendur krefjast dóms um.

Ekki komi nægjanlega skýrt fram hver séu mörk jarðarinnar Víðihóla, eða hver afnotaréttindi stefnendur telji að aðrir en þeir kunni að eiga eða hafa nýtt.

Engin heimildarbréf eða nægjanleg sönnunargögn fyrir eigninni hafi getað réttlætt útgáfu eignardómsstefnu samkvæmt 122. gr. laga nr. 91/1991. Verði ekki ráðið af þeim gögnum, sem stefnendur hafa lagt fram, að sennilegt sé að einn þeirra eða fleiri eigi tilkall til heiðarbýlisins Víðihóla.

Í 122. gr. l. nr. 91/1991 kemur fram, að nægilegt er til þess að leita eignardóms, að stefnandi geri sennilegt, að hann hafi öðlast þann rétt sem hann krefst staðfestingar á. Það er hins vegar ekki skilyrði, að hann hafi við upphaf málshöfðunar fært fullar og óyggjandi sönnur á rétt sinn, enda mundi vöntun á slíkri sönnun eiga að leiða til synjunar á kröfum hans en ekki frávísun.

Samkvæmt ákvæðum 122. gr. l. nr. 91/1991 er grunnskilyrði þess, að eignardómsmál verði höfðað, að stefnanda skorti skilríki fyrir rétti sínum. Skortur á skilríkjum fyrir þessum rétti getur þannig ekki leitt til þess að synjað sé um útgáfu eignardómsstefnu, eða frávísunar málsins frá dómi. 

Í þeim gögnum sem fram eru lögð í málinu, sem og í stefnu, eru réttindi þau sem krafist er staðfestingar á afmörkuð með nafni jarðarinnar auk þess sem fram er lögð landamerkjalýsing, sem dagsett er 24. október 1921 og árituð um að allir aðilar sem undir hana hafa ritað hafi gert það ágreiningslaust. Skjalið er þinglesið á manntalsþingi 27. júlí 1922. Er jarðarinnar einnig marggetið í fasteignabókum og jarðaskrám, bæði hrepps og landbúnaðarráðuneytis, án þess, að nokkur vafi virðist leika á, um hvaða eign sé að ræða.

Verður því ekki talið að neitt skorti á að eign þeirri, sem krafist er eignardóms fyrir, sé nógu skilmerkilega lýst.

Þá verður það ekki talið varða frávísun málsins, að ekki séu tilgreind í stefnu hugsanleg afnotaréttindi annarra en stefndu að landinu, einkum ef ekki er kunnugt um slík afnotaréttindi.

Að öllu þessu athuguðu verður aðalkröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá dómi hafnað.

Í skjölum og öðrum gögnum er hin umdeilda jörð ýmist nefnd Víðirhólar, Víðihólar eða Víðihóll. Nú mun algengast að rita Víðihólar og mun því haldið í dóminum, nema um sé að ræða beinar tilvitnanir.

Í ritinu Austurland, safn austfirskra fræða, undir ritstjórn Halldórs Stefánssonar og Þorsteins M. Jónssonar, Akureyri 1947, segir á bls. 167: „Landnám heiðarinnar stóð tímabilið 1841 til 1862. Fyrsta býlið á heiðinni var numið 1841, það var býlið Háreksstaðir. Tveim árum síðar byggðist Sænautasel við suðurenda Sænautavatnsins og enn næsta vor Rangárlón við norðurenda vatnsins og Gestreiðarstaðir í dalnum samnefnda. Þremur árum þar á eftir (1847) byggðust Veturhús og Víðihólar í Suðurheiðinni.”

Í sama riti bls. 168 segir: „... Víðihólar og Sænautasel voru byggð úr Hákonarstaðalandi,...”

Í Jarðamatsbók frá 1849 er lýst Hákonarstöðum með „afbýlunum Sæneitaseli og Veturhúsum.” Víðihóla er þar ekki getið. Jörðin með afbýlunum er þá virt á 1200 rbd. Pétur Pétursson er þá eigandi jarðarinnar.

Í Nýrri Jarðabók fyrir Ísland, að því er virðist frá 1861, er getið meðal jarða í Jökuldals og Hlíðar hreppi, Hákonarstaða og undir þeim hjáleigurnar Sænautasel og Veturhús og er jörðin og hjáleigurnar metin saman til 16 hundraða að fornu tali en 39,5 að nýju tali. Víðihóla er þar ekki getið. Eiganda er ekki getið.

Í skjölum, sem lögð hafa verið fram í máli þessu, er Víðihóla fyrst getið 1874 í afsali, þar sem  Sigfinnur Pétursson selur Sveini Magnússyni Hákonarstaði, en í afsalinu segir: „Landamerki milli Grundar, Víðirhóla og Hákonarstaða sjást á bréfi því, er hér hefur áður verið samið og eg nú afhendi Sveini.” Virðist mega af þessu sjá, að Víðihólar séu þá orðnir sérgreind jörð, hvort sem hún hefur verið í eigu Sigfinns eða ekki og jafnframt, að hún fylgir ekki í kaupum þeirra.

Í landamerkjaskýrslu frá 1885 fyrir Hákonarstaði segir m.a: „Ennfremur eiga Hákonarstaðir, Grund og Víðirhólar, að tiltölu eftir dýrleika hverrar jarðar, hval og allan reka... ”, en undir skrifa: Sveinn Magnússon- eigandi Hákonarstaða - Kristján Jón Sigurðsson - eigandi Víðirhóla - og Bjarni Rústíkusson (eigandi Grundar).

Í Hreppaskilabók fyrir Jökuldalshrepp 1899-1909 eru Víðihólar  taldir með eyðibýlum í eign Péturs Kristjánssonar, árin 1906, 1907 og 1908.

Hinn 21. júní 1908 selur Sigurður Guðjónsson Pétri Kristjánssyni Hákonarstaði og er afsali þinglýst án athugasemda 5. júlí 1909.

Eru þá jarðirnar báðar komnar í eigu Péturs Kristjánssonar, en hvað Víðihóla varðar nýtur engra gagna um það annarra en þess, sem skráð er í hreppaskilabókina.

Í Gjörðabók fasteignamatsefndar í Norður-Múlasýslu á fundi, sem dagsettur virðist vera 15. júní 1916,  segir svo: „Hákonarstaðir. Eigandi og ábúandi Pétur bóndi Kristjánsson. Dýrleiki eftir jarðamat 1861, ásamt með hjáleigunum Sæmundarseli og Veturhúsum og eyðibýlinu Víðirhólum, 3,9 hndr.” Síðan er skotið inn í textan neðanmáls: „Meðan eyðibýlið Víðirhólar voru í byggingu, var landskuld greidd með Kr. 40,00; og árið 1912 var býlið virt til lántöku Kr. 500,00. - Fyrir 13 árum síðan lagðist býlið í eyði, og öll hús voru niðurrifin. Verður býli þetta því metið með aðaljörðinni,-Hákonarstöðum.” 

Ekki virðist vera til að dreifa neinum þinglýstum gerningum varðandi Víðihóla, öðrum en veðsetningum Péturs Kristjánssonar, en þeim er þinglýst á blaðsíðu Hákonarstaða í fasteignaregistri.

Pétur Kristjánsson lést árið 1921. Ekki hafa verið lögð fram nein gögn um skipti á dánarbúi hans, en með afsali hinn 13. október 1941 selur ekkja Péturs, Guðný Torfadóttir,  bróður sínum, Sigvalda Torfasyni, Hákonarstaði. Í því afsali er Víðihóla að engu getið. Afsalinu er þinglýst með þeirri einu athugasemd, að umboð Guðnýjar skorti, en afsalið hefur verið undirritað fyrir hennar hönd af syni þeirra Péturs, Hákoni Péturssyni.

Síðustu skráningar um eignarhald á Víðihólum, sem fram eru lagðar, er að finna í Hreppstjórabók Jökuldalshrepps 1931-1953, en þar er skráð fyrir árin 1942-1943, að eigandi Víðihóla sé, Guðný Torfadóttir, en ábúandi Hákonarstaða er meðal annarra Sigvaldi Torfason. Guðný er síðan í þessari bók skráð eigandi Víðihóla á hverju ári og síðast 1950-1951. Guðný lést árið 1948. Árið 1951-1952 er í sömu heimild Hákon Pétursson nefndur eigandi, en 1952-1953 er Sigvaldi Torfason nefndur eigandi. Engar skýringar fylgja nafnabreytingum þessum í Hreppstjórabókinni.

Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um skipti eftir Guðnýju Torfadóttur. Í Skrá um tilkynningar til skiptaréttarins um mannslát í Reykjavíkurbæ árið 1948, er skráð, að Kristján Pétursson, hafi tilkynnt lát Guðnýjar Torfadóttur, 59 ára að aldri, til heimilis á Elliheimilinu Grund í Reykjavík og í búi hennar séu engar eignir.

Samkvæmt framburðum aðila og vitna hefur það land, sem talið er til Víðihóla, verið nýtt af ábúendum Hákonarstaða, að minnsta kosti frá tímum Péturs Kristjánssonar, eins og fram kemur í ofangreindri gjörðabók fasteignamatsnefndar.

Nytjarnar eru að sögn þessara aðila einkum beit, en landið, einkum svokallaðir Hákonarstaðaflóar, er talið mjög gott beitiland og er nýtt bæði til vetrarbeitar sem og til vor og sumarbeitar. Í fyrstu var einnig um að ræða slægjuafnot, en þeim var hætt snemma á öldinni, eftir því sem engjasláttur lagðist af almennt. Fjallagrös voru nýtt til heimilisnota. Veiði hefur verið stunduð í stöðuvatni því er Gripdeild nefnist og í Víðidalsá. Þá hafa ábúendur Hákonarstaða að eigin sögn sleppt silungi í ræktunarskyni bæði í Gripdeild og Stúfatjörn á milli 1970 og 1980.

Þá hefur komið fram hjá þeim aðilum, sem fyrir dóm komu sem og vitnum, að fjallskil Víðihóla og Hákonarstaða hafi Hákonarstaðaábúendur annast og annist einir. 

Í vottorði frá Jökuldalshreppi kemur fram, að stefnandi Björgvin Sigvaldason hafi staðið skil á fasteignagjöldum til Jökuldalshrepps af jörðinni Víðirhólum í Jökuldalsheiði sem skráð hafi verið hans eign á fasteignamatsskrá.

Þá liggur fyrir í málinu Matsvottorð Fasteignamats ríkisins um jörðina Víðihóla, sem þar er auðkennd með númeri, sem gefur til kynna, að um sé að ræða skráða eign.

Jörðin Víðihólar er þekkt sem afmörkuð eign sem sjá má af landamerkjabréfi frá 1921. Þetta hefur verið staðfest af Fasteignamati ríkisins sem hefur jörðina í mati hjá sér undir sérstöku númeri.

Í öðrum opinberum skrám virðist lítil regla vera á um hvort Víðihólar eru skráð sem sérstök jörð.

Þannig er Víðihóla að engu getið í Fasteignabók fjármálaráðuneytisins 1932, en í sams konar bók 1942-1944 er hennar getið, talin í einkaeign og auð. Enn er Víðihóla getið 1957, eignarhalds ekki getið, en jörðin talin auð.

Í svokölluðum jarðaskrám, sem varnaraðili segir stafa frá landbúnaðarráðuneytinu, er Víðihóla ýmist getið eða ekki og er engin skýring til á því, hvers vegna breyting verður á. 

Enginn vafi leikur á því, að jörð þessi hefur í upphafi verið hluti af Hákonarstöðum og orðið sjálfstæð afmörkuð bújörð um 1847.  Í fyrstu í leiguábúð í eigu eiganda Hákonarstaða, en síðar í einkaeigu.

Verður ekki séð, að eignarhaldi á Víðihólum hafi nokkru sinni verið þinglýst.  Þannig mun Pétur Kristjánsson, sem hafði þinglýsta eignarheimild fyrir Hákonarstöðum, aldrei hafa haft þinglýsta eignarheimild fyrir Víðihólum.

Nægilega er sannað að nýting Víðihóla eftir að Pétur eignaðist báðar jarðirnar, hefur verið sem Víðihólar væru hluti Hákonarstaða. Eftir andlát Péturs var Guðný Torfadóttir talin eigandi beggja jarðanna og mun hafa leigt þær til Sigvalda Torfasonar, þar til hann keypti Hákonarstaði 1941.

Frá því að Sigvaldi Torfason eignaðist Hákonarstaði árið 1941 hefur hann og þeir, sem eignast hafa jörðina eftir hann, nytjað Víðihóla og greitt af henni skatta og skyldur. Þeir hafa litið á jörðina sem sína eign.  Þá hafa þeir, sem í nágrenni búa, þar á meðal stjórnendur Jökuldalshrepps, talið að Víðihólar væru eign stefnenda.

Stefnandi, Björgvin Sigvaldason, hlaut eignarhluta sinn að arfi eftir föður sinn, Sigvalda Torfason.

Stefnandi, Sigvaldi Ragnarsson, keypti eignarhluta sinn af föður sínum, Ragnari Sigvaldasyni, sem hlaut hann í arf eftir föður sinn, Sigvalda Torfason.

Stefnandi Gréta Dröfn Þórðardóttir, keypti eignarhluta sinn af föður sínum, Þórði Sigvaldasyni, sem hlaut hann í arf eftir föður sinn, Sigvalda Torfason.

Verður því með vísan til 1. gr., 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. laga nr. 46/1905 að telja að stefnendur hafi, með því að hafa jörðina Víðihóla í Jökuldalshreppi í óslitnu eignarhaldi í að minnsta kosti 56 ár, unnið fullan eignarrétt hennar fyrir hefð.

Er með vísan til þessa viðurkenndur eignarréttur stefnenda að jörðinni Víðihólum, Jökuldalshreppi, Norður-Múlasýslu ásamt öllum réttindum, sem jörðinni fylgja.

Stefnendur kröfðust málskostnaðar við aðalmeðferð málsins, en þau áskildu sér rétt til að gera slíka kröfu er greinargerð varnaraðila var lögð fram.  Er þessi krafa því tímanlega fram komin og er rétt að varnaraðili greiði hluta af málskostnaði stefnenda með kr. 200.000.  Er virðisaukaskattur innifalinn. 

Mál þetta dæmir Logi Guðbrandsson, dómstjóri, dómsformaður, ásamt Auði Þorbergsdóttur, héraðsdómara, og Jóni Finnbjörnssyni, héraðsdómara.

Dómsorð:

Framkominni frávísunarkröfu er hafnað.

Viðurkenndur er eignarréttur stefnenda, Björgvins Sigvaldasonar, Sigvalda Ragnarssonar og Grétu Drafnar Þórðardóttur, að jörðinni Víðihólum, Jökuldalshreppi, Norður-Múlasýslu, ásamt öllum réttindum, er jörðinni fylgja.

Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði stefnendum kr. 200.000 í málskostnað.