Hæstiréttur íslands

Mál nr. 382/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæra
  • Kæruheimild
  • Málskostnaður


                                     

Fimmtudaginn 13. júní 2013.

Nr. 382/2013.

KG Fiskverkun ehf.

(Magnús Helgi Árnason hdl.)

gegn

LBI hf.

(enginn)

Kærumál. Kæra. Kæruheimild. Málskostnaður.

Kærð var ákvörðun héraðsdómara um að hafna kröfu K ehf. um að meðferð máls K ehf. gegn L hf. yrði frestað ótiltekið eða þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir í tilteknu sakamáli. Málinu var vísað frá Hæstarétti með vísan til þess að hvorki væri að finna í kæru kröfu um að hinni kærðu ákvörðun yrði breytt né væri heimilt að kæra til Hæstaréttar ákvörðun dómara um að synja um frest í máli.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júní sama ár. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að meðferð  málsins fyrir héraðsdómi yrði frestað ótiltekið eða þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir í tilteknu sakamáli. Í kæru er ekki vísað til kæruheimildar. Sóknaraðili krefst þess að Ásmundur Helgason héraðsdómari ,,verði ... áminntur af Hæstarétti fyrir að gera á hlut [sóknaraðila] í dómarastarfi.“

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í kæru til Hæstaréttar kemur fram að hin kærða dómsathöfn sé ákvörðun héraðsdóms um að hafna beiðni sóknaraðila um frest. Í kærunni er á hinn bóginn ekki að finna kröfu um breytingu á þeirri dómsathöfn sem um ræðir. Í b. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er mælt fyrir um að í kæru skuli tilgreina kröfu um breytingu á þeirri dómsathöfn sem kærð er. Samkvæmt þessu uppfyllir kæran ekki fyrirmæli tilgreinds lagaákvæðis um hvert efni hennar skuli að lágmarki vera.

Héraðsdómara var rétt að taka afstöðu til beiðni sóknaraðila um að máli yrði frestað ótiltekið með ákvörðun, sbr. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991. Í 1. mgr. 143. gr. laganna er ekki að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar ákvörðun dómara um að synja um frest í máli.

Samkvæmt framansögðu verður máli þessu vísað frá Hæstarétti. Kæra sóknaraðila er með öllu að ófyrirsynju.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.