Hæstiréttur íslands
Mál nr. 104/2000
Lykilorð
- Rán
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 25. maí 2000. |
|
Nr. 104/2000. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Sigvarði Hans Hilmarssyni(Björgvin Jónsson hrl.) |
Rán. Skilorð.
S var sakfelldur fyrir rán samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessu broti rauf hann skilorð samkvæmt tveimur héraðsdómum, þar sem hann hafði verið dæmdur til að sæta fangelsi í samtals 60 daga fyrir þrjú þjófnaðarbrot. Var refsing S ákveðin í einu lagi fyrir öll brotin og þótti hún hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Þegar haft var í huga að S hafði gengist undir áfengismeðferð og brot hans virt að öðru leyti þótti hins vegar mega binda refsingu hans í heild skilorði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að refsing, sem honum var gerð með héraðsdómi, verði milduð og að öllu leyti skilorðsbundin.
Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði réttilega sakfelldur fyrir að hafa staðið ásamt tveimur meðákærðu og með hlutdeild þess þriðja að ráni í söluturni að Ofanleiti 14 í Reykjavík 7. júlí 1999 og brotið á þann hátt gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessu rauf ákærði skilorð samkvæmt dómum Héraðsdóms Suðurlands 9. janúar 1997 og Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 1998, en með þeim var hann dæmdur til að sæta fangelsi í samtals 60 daga fyrir þrjú brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga, svo og tilraun til enn eins slíks brots. Refsing verður nú ákveðin í einu lagi vegna allra umræddra brota, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Við ákvörðun refsingar verður að öðru leyti að líta til þess að ákærði drýgði svo sem áður segir verknaðinn í sameiningu með öðrum, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, en var þó eins og greinir í héraðsdómi ekki staðfastur í ásetningi sínum, sbr. 6. tölulið 1. mgr. sömu lagagreinar, og réðist ekki heldur sjálfur að verslunarmanninum í fyrrnefndum söluturni. Hins vegar verður ekki fallist á með ákærða að ákvæði 9. töluliðar 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga geti átt hér við, enda var hann samkvæmt gögnum málsins eftirlýstur af lögreglunni eftir að verslunarmaðurinn hafði við myndaskoðun aðfaranótt 8. júlí 1999 borið kennsl á ákærða, sem sinnti síðan boðun lögreglunnar um að mæta til skýrslugjafar vegna málsins 12. sama mánaðar.
Að gættu öllu því, sem að framan greinir, verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um að refsing ákærða sé hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, hefur ákærði nú gengist undir áfengismeðferð, en í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst hann hafa átt við áfengisvanda að etja þegar hann drýgði brot sitt. Þegar þetta er haft í huga og brot ákærða er að öðru leyti virt þykir mega binda refsingu hans í heild skilorði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Dæma verður ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Ákærði, Sigvarður Hans Hilmarsson, sæti fangelsi í átta mánuði. Skal fullnustu þeirrar refsingar frestað og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2000.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 14. september sl. á hendur ákærðu, A, K, R og Sigvarði Hans Hilmarssyni, kt. 220179-3899, Eyjahrauni 26, Þorlákshöfn, „fyrir eftirtalin ránsrot framin árið 1999 í Reykjavík:
[...]
2. Gegn ákærðu öllum fyrir að hafa, miðvikudagskvöldið 7. júlí, í félagi staðið saman að ráni við söluturn að Ofanleiti 14, ákærði K ekið meðákærðu í því skyni að söluturninum, ákærðu A, R og Sigvarður Hans ráðist þar á Steinþór Kristjánsson, 38 ára, verslunarstjóra, A og R með hulin andlit, vopnaðir klaufhamri og hníf, hrópað að Steinþóri að afhenda peningana, ákærði A slegið til hans með hamrinum og hrifsað af honum skjalatösku sem hann bar og ákærðu höfðu á brott með sér, en taskan innihélt um 40-60.000 krónur, happaþrennur og greiðslukort, sem ákærðu deildu allir með sér.
Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist, að ákærðu verði dæmdir til refsingar”.
Málavextir
I.
[...]
II.
Miðvikudagskvöldið 7. júlí var lögregla kvödd að Grill-video við Ofanleiti hér í borg. Eigandi fyrirtækisins, Steinþór Kristjánsson, var þar fyrir og skýrði frá því að 3 piltar hefðu veist að honum þegar hann var að læsa þetta kvöld. Hefði hann verið með 40 - 60.000 krónur í skjalatösku. Hefði verið sagt: “Peningana, komdu með peningana...” Einn piltanna hefði haldið á einhverju sem líktist felgulykli og haft hettu fyrir andlitinu. Sá sem að baki honum stóð hefði verið með hettu yfir höfðinu og rétt grillti í andlit hans. Sá þriðji hefði staðið álengdar og kvaðst Steinþór kannast við hann í sjón. Þegar hann hefði ekki viljað láta töskuna af hendi hefði pilturinn með “felgulykilinn” slegið til hans með verkfærinu svo að hann missti töskuna. Hafi þessi piltur beygt sig niður og tekið töskuna en í því kvaðst Steinþór hafa getað komið á hann sparki. Piltarnir hefðu svo hlaupið á brott, tveir saman í austurátt en hinn þriðji í átt að Verslunarskólanum. Steinþór bar kennsl á ljósmynd af ákærða, Sigvarði Hans, í safni lögreglunnar. Kvað hann það vera piltinn sem ekki hafði hulið andlit sitt og staðið álengdar. Hefði sá piltur komið til hans fyrr um kvöldið og keypt eitthvað. Leiddi þetta til þess að ákærðu voru handteknir og yfirheyrðir og hald lagt á klaufhamar svo og skjalatöskuna og 9.500 krónur af peningunum úr ráninu, happdrættismiða, skilríkji og ýmislegt annað sem í töskunni hafði verið.
Ákærði, K, skýrði frá því að piltur sem kallaður væri “Siggi” hefði hringt til hans og beðið hann um að skila til sín geisladiski sem hann var með í láni. Kvaðst hann hafa verið að aka um í bíl foreldra sinna með tveimur piltum og stúlku sem heiti D. Hefði hann ekið inn á Kleppsveg til þess að hitta Sigga þennan og látið hann fá diskinn. Þá hefðu komið þar að nokkrir unglingar, þar á meðal þrír piltar í bíl. Hafi hann kannast við tvo þeirra, A og R, en ekki þann þriðja, stórvaxinn pilt, sem heiti Sigvarður Hans. Hefðu komumenn farið að rífast við Sævar og dregið hann út úr bílnum og lumbrað á honum. Á eftir hefðu þeir A og R spurt hvort hann vildi ekki aka þeim en hann hefði neitað. Að lokum hefði hann látið undan þeim þar sem hann hefði verið hræddur við þá eftir að hafa séð þá fara illa með Sævar. Hann hefði því ekið af stað með þá þrjá eftir að þau hin höfðu verið rekin út úr bílnum. Hefðu þeir ekki sagt hvert ætti að aka en A sem sat fram í hefði vísað veginn jafnóðum. Þeir A og R hefðu talað sænsku sem hann skildi ekki. Hann hefði svo verið látinn aka inn á bílastæði við útvarpshúsið og nema þar staðar. Þar hefði honum verið skipað að fara að sjoppu með piltinum sem hann ekki þekkti. Hefði hann þá grunað að til stæði að ræna sjoppuna. Þeir hefðu svo gengið inn í sjoppuna og séð þar afgreiðslumann og strák. Sá stórvaxni hefði keypt sér eitthvað og þeir svo farið út. Þeir hefðu gengið aðra leið að bílnum sem sá stóri hefði valið. Hefðu þeir sest inn í bílinn og R sagt að þeir ætluðu að ræna sjoppuna. A hefði sagt við sig að hann skyldi bíða í bílnum og yrði hann barinn ef hann stingi af á meðan. Einn þeirra hefði talað um að ráðast á “kallinn” þegar hann kæmi út úr sjoppunni, en ákærði mundi ekki hver hefði sagt það. Ákærði kvaðst hafa hjálpað A við að setja hanska á vinstri höndina þar sem hann hefði verið í gipsi á hægri hendi. Hann kvaðst hafa séð að þeir voru með tvær töskur meðferðis þegar þeir yfirgáfu bílinn. Ákærði kvaðst ekki hafa þorað að fara af ótta við að verða barinn eins og Sævar, enda hefði hann vitað að þeir hefðu barið aðra stráka og Sævar verið blóðugur og hart leikinn eftir þá. Hann kvaðst hafa beðið þarna í 20 - 25 mínútur en þá hefðu þeir A og R komið hlaupandi með skjalatösku meðferðis. Hann hefði ekki séð hvort þeir höfðu fleira meðferðis. Þeir hefðu sest upp í bílinn og sagt sér að aka af stað. Eftir stuttan spöl hefðu þeir tekið Sigvarð Hans upp í. Eftir að hafa ekið um nokkrar götur hefðu þeir sagt sér að aka heim og hann gert það og numið staðar í innkeyrslunni heima hjá sér. Þeir hefðu farið inn með skjalatöskuna og R haldið á henni. Þar hefðu þeir hinir skipt á milli sín peningunum úr töskunni og hefði hann ekkert fengið af þeim. Aftur á móti hefði hann verið að skoða happaþrennumiða sem hann tók úr töskunni. A hefði afhent sér 9.500 krónur og beðið sig að geyma þær ásamt happaþrennumiðunum. Hefði A sett skjalatöskuna undir rúmið og afhent sér klaufhamar og sagt að hann skyldi fela hann. Hamarinn hefði hann ekki séð fyrr. Þá kvaðst hann ekki hafa séð hníf hjá þeim hinum. Hann hefði svo ekið með þá inn á Kleppsveg og þeir allir farið inn.
Ákærði, A, skýrði frá því að þeir R hefðu um skeið haft á prjónunum að ræna verslun rétt hjá Laugarásbíói en hætt við það þar sem þeir héldu að lögreglan væri á næstu grösum. Hefðu þeir því fengið K og pilt sem hann kannaðist við, Sigvarð Hans, til að koma með þeim á bíl K og leita að sjoppu til að ræna. Þeir hefðu hist á Kleppsvegi þar sem voru margir unglingar. Kvaðst hann hafa séð R berja þar pilt að nafni Sævar. Hefðu þeir R ákveðið að ræna annað hvort sjoppu í Álftamýri eða þá Ofanleiti og hefði sú síðarnefnda orðið fyrir valinu. Hjá lögreglu kvaðst hann ekki muna hvort þeir Sigvarður Hans og K hafi vitað að til stóð að ræna sjoppu þegar þeir lögðu af stað en þó halda að R hafi sagt þeim það. Sagði hann að Sigvarður Hans hefði alltaf verið að reyna að fá þá til þess að hætta við þetta og myndi K ekki hafa þorað öðru en að fara með þeim. Þeir hefðu auk þess talið honum trú um að hann fengi enga refsingu þar sem hann væri aðeins ökumaður. Fyrir dómi sagði hann að þeir þrír hefðu skipulagt ránið og hefðu svo hitt K og sagt honum hvað stæði til. Hefði hann viljað koma með en aðeins viljað keyra og ekki gera annað en fengi auk þess hluta af fengnum. Hefði honum verið sagt að hann myndi þá ekki fá jafn mikið af peningum og þeir hinir. Hefði hann ekki verið gabbaður í þetta að neinu leyti og ekki beittur neinum hótunum. Þarna hefðu orðið átök við pilt að nafni Sævar en þau tengist ekki málinu á nokkurn hátt en Sævar hefði verið barinn að beiðni K. Þeir hefðu haft meðferðis græna “ræningjahettu”, trúðsgrímu, hníf, klaufhamar og eitthvað fleira. Hefðu þeir R verið með þetta hvor í sinni töskunni og útvegað sér þetta dagana á undan ráninu. R hefði verið með hnífinn en hann kvaðst hafa verið með hamarinn og átti að hræða manninn með þessum vopnum og hettuna og grímuna til þess að dyljast. Þeir hefðu ekið um og rætt um hvaða sjoppu skyldi ræna og Ofanleitissjoppan orðið fyrir valinu. Hefði bílnum verið lagt við útvarpshúsið og þeir rætt saman um þessa fyrirætlun. Þeir Sigvarður Hans og K hefðu svo farið í sjoppuna og skoðað aðstæður og flóttaleiðir. Hann kvaðst ekki muna hvort einn frekar en annar af þeim hafi ráðið því hvernig þetta skyldi framkvæmt en heldur telja að þetta hafi þeir ákveðið í sameiningu. Þegar þeir Sigvarður Hans og K komu aftur hefðu hann, R og Sigvarður Hans farið til þess að ræna sjoppuna en K orðið eftir í bílnum, líklega vegna þess að þetta hefði verið bíllinn hans. Áður hefði K hjálpað honum að setja hanska á vinstri hendi en hann verið með gips á hinni hendinni. Fyrir dómi sagði ákærði að K hefði þá getað keyrt á brott ef hann hefði viljað. Þeir hefðu tekið með sér töskurnar með dótinu og beðið átekta á bak við sjoppuna. Þar hefðu þeir ákveðið að bíða eftir eigandanum og ræna hann þegar hann kæmi út. Hefði Sigvarður Hans viljað hætta við þetta allt saman en þegar þeir höfðu beðið í um korter hefðu þeir séð að maðurinn kom út úr sjoppunni með skjalatösku í hendinni og kvaðst hann þá hafa sett á sig grænu hettuna og látið hamarinn síga niður úr erminni svo hann hélt um skeftið. Hefði hann gengið fyrstur að manninum og sagt við hann "komdu með peningana" og slegið um leið laust í skjalatöskuna með hamrinum. Maðurinn hefði misst töskuna við þetta og hann gripið hana. Maðurinn hefði náð að sparka í hægri höndina á sér svo að hann missti hamarinn og datt. Hann hefði ekki hirt um það, hlaupið í burtu með töskuna og að bílnum og R á eftir honum. Kvaðst hann ekki vita hvað orðið hefði af hamrinum. Sigvarður Hans hefði hlaupið í aðra átt en svo komið stuttu síðar. K hefði svo ekið þeim á brott og upp í Grafarvog þar sem K átti heima. Þar hefðu þeir farið inn í herbergið hans með töskuna. Þeir hefðu allir fjórir skipt þessu á milli sín. Hefðu þrír þeirra fengið um 10.000 krónur en K þó aðeins fengið 3-5.000 krónur og happdrættismiðana og greiðslukort til þess að svíkja út peninga. Hefði K viljað hafa þetta svona. Síðan hefðu þeir falið töskuna undir rúminu hans K og farið aftur á Kleppsveginn. Hann kvaðst fljótlega hafa notað af peningunum til þess að greiða skuldir en beðið K um að geyma hluta af þeim, 6-10.000 krónur, og svo töskuna. Ákærði skýrði muninn á framburði sínum hjá lögreglu og fyrir dómi með því að þegar hann gaf lögregluskýrslurnar hefði hann setið í varðhaldi og ekki vitað hvað hinir voru búnir að segja og því ekki viljað segja of mikið til þess að gera hlut þeirra Sigvarðar Hans og K ekki verri en nauðsyn bar til.
Ákærði, R, skýrði frá því að þeir A hefðu verið búnir að tala um að framkvæma rán dagana á undan, enda hefðu þeir verið peningalausir. Hefðu þeir verið búnir að ganga fram hjá og fara inn í nokkrar sjoppur til að skoða hvort þar væru myndavélar eða hverjir væru að vinna. Þennan miðvikudag hefði hann hitt strák, Sigvarð Hans, niðri á Lækjartorgi. Þeir séu kunningjar og hefði hann spurt hann hvort hann vantaði peninga og sagt að þá A vantaði þriðja manninn í rán. Hefði Sigvarður Hans sagt að hann væri „kannski” til í það. Þeir hefðu svo hist seinna á Kleppsvegi og veit hann ekki hvað klukkan var. Nokkru síðar var kominn þangað K í gömlum bíl. Með honum í bílnum voru Sævar, annar strákur og stúlka. Þarna voru nokkrir aðrir unglingar og var eitthvert rifrildi í gangi. Kvaðst ákærði hafa verið búinn að frétta það að Sævar ætlaði að stinga hann og því ákveðið að berja Sævar þarna á staðnum. Hefði hann barið hann nokkur högg í andlitið svo að hann datt. Fyrir dómi hefur ákærði bætt því við að Sævar hefði verið búinn að berja K og þeir því tuskað hann til út af því. Hann segir þá A hafa verið með tvær töskur og hafi verið fiskflökunarhnífur í annarri og klaufhamar í hinni. Hefði hnífurinn verið úr eldhúsinu heima hjá A en hamarinn hefðu þeir A átt saman. Þá hefðu verið í töskunum andlitsgríma, svört lambhúshetta, blá húfa og græn hetta með götum fyrir munn og augu. Hefðu þeir tekið þetta með í ferðina til þess að nota við ránið. Kvaðst ákærði hafa spurt K hvort hann ætlaði ekki að skutla þeim og Sigvarð Hans hvort hann ætlaði að vera með en Sigvarður Hans svarað að hann kæmi kannski með. Fyrir dómi sagði hann enn fremur að K hefði þá spurt hvert þeir ætluðu og þeir sagt honum að þeir væru að fara til þess að ræna. A hefði sest í framsætið í bílinn, sjálfur hefði hann sest aftur í ásamt Sigvarði Hans. K hefði spurt hvert þeir væru að fara og hefðu þeir A vísað honum veginn. Hefðu þeir talað sænsku sín á milli. Hefði Siggi ekki vitað hvar ætti að ræna. Þeir A hefðu komið sér saman um það tveir að ræna sjoppu við Ofanleiti. Höfðu þeir skoðað þá sjoppu fyrir nokkrum dögum til þess að athuga hvort hægt væri að ræna hana. Hefðu þeir álitið að afgreiðsluborðið væri það hátt að það væri hindrun og væri betra að bíða eftir eigandanum fyrir utan. Hefðu þeir látið K aka upp að útvarpshúsinu og nema þar staðar. Sigvarður Hans hefði verið á báðum áttum um það hvort hann vildi vera með. Hefði þá annar hvor þeirra A sagt honum að fara að sjoppunni og skoða þar aðstæður. Hefðu þeir Sigvarður Hans og K farið úr bílnum og að sjoppunni. Kvaðst ákærði ekki muna hvort K var beðinn um að fara með Sigvarði. Þegar þeir komu aftur hefði Sigvarður Hans sagt að þetta yrði ekki erfitt því að kallinn liti út fyrir að vera auðveldur viðfangs. Kvaðst ákærði telja að hann hefði beðið K um að bíða meðan þeir færu. Hefðu þeir ekki sagt honum að þeir hinir ætluðu að ræna sjoppuna. Kvaðst hann hafa sett hnífinn upp í ermina en hann kvaðst ekki muna hver hefði haldið á hamrinum. Þeir hefðu allir þrír gengið stíg að sjoppunni og farið á bak við hana þar sem þeir biðu í 15 - 20 mínútur. Hefðu þeir ákveðið að réttast væri að bíða eftir að maðurinn í sjoppunni færi út með verðmætin. Hann kvaðst svo hafa heyrt þegar maðurinn opnaði dyrnar og hefði hann þá dregið hettu yfir höfuðið án þess þó að hylja andlitið. A hefði dregið grænu hettuna niður yfir andlitið og verið með hamarinn í vinstri hendi, þar sem hann var í gipsi á þeirri hægri. Sigvarður Hans hefði ekki reynt að hylja andlitið og hefði hann beðið á bak við sjoppuna meðan þeir A hlupu að manninum. Hefði A verið á undan og kallað til mannsins: „Komdu með peninginn...” eða eitthvað á þá leið. A hefði slegið í skjalatösku sem maðurinn hélt á í annarri hendi og maðurinn misst hana. Maðurinn hefði sparkað frá sér, líklega í höndina á A sem hefði hrökklast frá. Hefði maðurinn fylgt þessu eftir og ákærði kvaðst þá hafa ætlað að grípa töskuna. Hefði maðurinn séð það og snúið sér að honum en Andri Kalman þá gripið hana og hlaupið með hana af stað. Hefði maðurinn þá aftur snúið sér að honum en hann kvaðst þá hafa sýnt honum hnífsblaðið niður úr erminni og rétt fram handlegginn. Hefði maðurinn þá hætt við að ráðast á hann. Maðurinn hefði þá hlaupið á eftir Sigvarði Hans sem hefði hlaupið manninn af sér. Þeir A hefðu hlaupið í aðra áttina, eftir göngustígnum að bílnum. Hefðu þeir flýtt sér inn í bílinn og sagt K að keyra af stað. Hefðu þeir sagt honum að þeir hefðu rænt sjoppuna. Ákærði kvaðst hafa sett hnífinn undir sætið eða aftur í farangursrýmið en hann hefði ekki séð hamarinn eftir ránið. Þá hefði hann sett skjalatöskuna aftur í farangursrýmið, aftur fyrir aftursætið, með því að færa sætisbakið fram. Þeir hefðu ekið fram á Sigvarð Hans á götu við Kringluna og hann sest inn í bílinn í framsætið. Þeir hefðu ákveðið að fara heim til K upp í Grafarvog þar sem þeir fóru allir fjórir inn og inn í herbergi K. Kvaðst ákærði hafa haldið á skjalatöskunni og hafa opnað hana eftir að inn var komið. Hefðu þeir þrír, ákærði, A og Sigvarður Hans skipt á milli sín peningunum úr henni og um 10.000 krónur komið í hlut hvers. K hefði hins vegar fengið 2.000 krónur í peningum og nokkrar happaþrennur. Annað hefði ekki verið tekið úr töskunni.
Ákærði, Sigvarður Hans, skýrði frá því að hann hefði hitt R niðri í bæ á miðvikudeginum sem um ræðir og hefði hann spurt sig hvort hann vantaði pening og sagt að þeir A ætluðu að ræna 11/11-búðina sem væri rétt við Laugarásbíó. Þá vantaði hins vegar þriðja manninn í ránið. Kvaðst hann myndu fara með þeim en ekki myndi hann gera meira en það. Hefði R sagt að það nægði. R hefði svo hringt í sig seinna um daginn og þeir mælt sér mót á Kleppsvegi 28. Þar hefðu þeir hist um tíuleytið. A og R hefðu svo farið og náð í tvo bakpoka sem í voru tvær lambhúshettur og gríma með hári sem þeir sögðu honum að nota. Á meðan hefði stúlka komið og beðið hann að berja fyrir sig strák sem heiti Sævar fyrir sakir sem hún tiltók. Í þeim svifum hefðu þeir R og A komið og R slegið Sævar nokkur högg svo að hann datt utan í bíl. Síðan hefðu þeir R og A skipulagt ránið. Ætluðu þeir að berja afgreiðslustúlkuna með hamri og einnig að hafa tiltækan hníf sem þeir sýndu honum, langan flatningshníf. Þeir hefðu svo sest inn í bíl hjá K, sem þarna var með bíl og hann ekið með þá af stað. Hefði komið fram hjá K að hann vissi að þeir ætluðu að fara í rán en ákærði kvaðst telja að hann hafi ekki vitað hvert. Hefði K ekki verið þvingaður til fararinnar og aldrei talað um að fá að losna úr þessu fyrirtæki. Þá minnti hann að A sem sat fram í hefði vísað K til vegar. Ákærði kvaðst hafa beðið R að hætta við að ræna 11/11-búðina þar sem hann væri hræddur við að taka þátt í því að ræna hana. Þá hefðu þeir R og A ákveðið að ræna sjoppu og sögðust vita um söluturn sem væri auðvelt að ræna. Þar væri aðeins einn starfsmaður og engar öryggismyndavélar. Þó væri það nokkuð erfitt þar sem afgreiðsluborðið væri frekar hátt. Hefði A vísað K veginn og látið hann nema staðar við útvarpshúsið. Hefðu þeir A og R beðið þá K að fara út og kanna aðstæður og þeir gert það. Hefðu þeir m.a. farið í söluturninn og kvaðst hann hafa keypt sígarettur og fleira. Þegar þeir komu aftur úr ferðinni hefði K verið beðinn að bíða eftir þeim og vera tilbúinn um miðnætti þegar þeir kæmu hlaupandi. A hefði sett upp hanska á aðra höndina þar sem hin var í gifsi en R hefði ekki verið með hanska. Sjálfur hefði hann verið með grímuna í úlpuvasanum en ákveðið að nota hana ekki þar sem hann taldi að sjoppueigandinn myndi ekki sjá framan í hann. R hefði sagt að það yrði auðveldara að ræna manninn þegar hann kæmi út úr sjoppunni. Hefðu þeir gengið allir þrír eftir göngustíg að sjoppunni og beðið fyrir aftan hana í 10 mínútur. Kvaðst ákærði hafa verið farinn að vona að eigandinn færi af staðnum áður en hann yrði rændur eða kæmist hlaupandi inn í bíl. Hann kvaðst hafa séð R með hnífinn bak við sjoppuna og að hann stakk honum upp í ermina. A hefði sett upp græna lambhúshettu þegar maðurinn kom út úr söluturninum. Hefði A haldið á hamrinum og hlaupið að manninum og sá ákærði þegar sjoppueigandinn sparkaði í gifsið hjá A. Hann kvaðst hafa staðið álengdar og ekki séð þegar þeir tóku töskuna en eigandinn hefði snúið sér að honum og hlaupið á eftir honum. Hefði hann heyrt eigandann kalla að hann myndi þekkja hann aftur. Þeir R og A hefðu hlaupið eftir göngustígnum en sjálfur hefði hann hlaupið niður á götu og farið þar í bílinn og sest inn að framan. Annar hvor þeirra hinna hefði sagt K að aka heim til hans upp í Grafarvog. Þeir hefðu allir farið inn hjá K og inn í herbergi hans með töskuna þar sem hann setti hana undir rúmið. Kvaðst hann ekki hafa fengið neitt af fengnum og taskan ekki verið opnuð meðan hann sá til, og hafi þeir ekki staðið lengi við þarna. Ákveðið hefði verið að þeir skiptu fengnum í þrjá jafnstóra hluta og minni hlut sem K ætti að fá. Hefðu þeir ætlað að hittast daginn eftir og spá í töskuna. Hann hefði svo farið að sjá eftir þessu og gefið sig fram við lögreglu til þess að gera hreint fyrir sínum dyrum. Hann eigi við áfengisvandmál að stríða og vilji hann komast í meðferð vegna þess.
Steinþór Kristjánsson, eigandi sjoppunnar í Ofanleiti, skýrði frá því að þegar hann hefði verið að læsa sjoppunni hefðu komið þrír menn hlaupandi og æpandi þarna fyrir hornið. Tveir þeirra hefðu verið grímuklæddir en sá þriðji sem var álengdar hefði ekki verið með grímu. Sá sem fremstur fór hefði slegið til hans með einhvers konar járni og hann misst töskuna. Hefði höggið komið á handlegginn á honum en hann hefði náð að sparka í einn þeirra. Þeir hefðu svo hrifsað töskuna og horfið með hana á brott. Hefði þetta ekki tekið nema 10-15 sekúndur allt saman. Hann hefði snúið sér að þriðja manninum og elt hann en hætt þar sem hann taldi sig myndu þekkja hann aftur enda hefði það reynst rétt. Í töskunni hefði verið tékkhefti og kort, skilríki, happaþrennur og annað svo og 30-40.000 krónur í peningum. Hann kvaðst ekki hafa séð önnur vopn í fórum mannanna en þetta járn.
Niðurstaða
Sannað er með skýrslum þeirra ákærðu, A, R og S, svo og vitnisins Steinþórs, að þeir þrír fóru saman að margnefndri sjoppu við Ofanleiti og stóðu saman að því að ræna Steinþór þeim verðmætum sem greinir í ákærunni. Hafa þeir orðið sekir um brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga.
[...]
Refsing og sakarkostnaður
[...]
Ákærði, Sigvarður Hans, var orðinn tvítugur þegar hann framdi brot sitt. Hann var dæmdur í 40 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað í janúar 1997 og aftur í 20 daga skilorðsbundið fangelsi í júní 1998, einnig fyrir þjófnaðarbrot. Var fyrri dómurinn látinn standa óraskaður. Ákærði hefur þannig rofið skilorð beggja dómanna og ber að dæma þá upp og gera ákærða refsingu í einu lagi. Þegar haft er í huga að ákærði var ekki staðfastur í ásetningi sínum, tók ekki sjálfur þátt í árásinni á Steinþór Kristjánsson og gaf sig fram við lögreglu, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd 6 mánaða af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Dæma ber ákærðu til þess að greiða verjendum sínum málsvarnarlaun; ákærðu, A, K og R, 160.000 krónur hverjum og ákærða, S, 140.000 krónur sínum verjanda. Annan sakarkostnað leiddi ekki af málinu svo kunnugt sé.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn
DÓMSORÐ:
[...]
Ákærði, Sigvarður Hans Hilmarsson, sæti fangelsi í 8 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd 6 mánaða af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð.
Dæma ber ákærðu, A, K og R, til þess að greiða verjendum sínum 160.000 krónur í málsvarnarlaun hverjum, þeim Erni Clausen, Brynjari Níelssyni og Hilmari Ingimundarsyni, hæstaréttarlögmönnum og ákærða, Sigvarð Hans, 140.000 krónur Björgvini Jónssyni hæstaréttarlögmanni.