Hæstiréttur íslands
Mál nr. 264/2002
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Sönnun
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 7. nóvember 2002. |
|
Nr. 264/2002. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Gunnari Kristjánssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ölvunarakstur. Sönnun. Ómerking. Heimvísun.
G var gefið að sök að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis frá Mýra- og Borgarfjarðarsýslu um Vesturlandsveg, uns lögregla stöðvaði bifreiðina á móts við Korpúlfsstaði. G neitaði sök en kvaðst hafa drukkið úr fernu með áfengisblönduðum sveskjugraut er hann var eftir handatöku fluttur af lögreglumanni í eigin bifreið að lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar mældist 2,23 í blóði G. Var hann sýknaður í héraðsdómi. Tveir lögreglumenn sem handtóku G báru afdráttarlaust fyrir dómi að G hafi greinilega borið merki áfengisneyslu er akstur hans var stöðvaður. Fékk sá framburður stoð í framburði lögregluvarðstjóra, sem bar, að við yfirheyrslu um 40 mínútum eftir handtöku, hafi G verið mjög áberandi ölvaður. Varð ekki séð að tilefni væri til að draga í efa sönnunargildi framburðar þessara vitna, en ekki var tekin bein afstaða til trúverðugleika vitnanna í héraðsdómi. Þá þótti fullt tilefni hafa verið til að rannsaka innihald umræddrar fernu en það hafði ekki verið gert. Einnig var átalið að eftir handtöku G hafi hann verið fluttur til skýrslutöku af einum lögreglumanni sem farþegi í eigin bifreið. Gat það þó í engu breytt því að með ólíkindum yrði að telja að G hafi sem farþegi í framsæti við hlið lögreglumanns, neytt alls þess áfengis er mældist í blóði hans, á þeim tíma sem tekur að aka frá Korpúlfsstöðum að Hverfisgötu. Þegar alls þessa var gætt voru slíkar líkur á að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og öðrum sönnunargögnum væri rangt að óhjákvæmilegt væri að ómerkja hinn áfrýjaða dóm með vísan til 5. mgr. 159. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2002 og krefst sakfellingar samkvæmt ákæru, refsiákvörðunar og sviptingar ökuréttar. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms og þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
I.
Lögreglustjórinn í Reykjavík höfðaði mál þetta með ákæru 4. mars 2002, þar sem ákærða var gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni SS 032 aðfaranótt laugardagsins 15. desember 2001 undir áhrifum áfengis frá Mýra- og Borgarfjarðarsýslu um Vesturlandsveg, uns lögregla stöðvaði bifreiðina á móts við Korpúlfsstaði. Var þetta talið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum og þess krafist að ákærði sætti refsingu og sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. laganna.
Í frumskýrslu Árna Ólafssonar flokksstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík greindi hann frá því að kl. 01.21 aðfaranótt laugardagsins 15. desember 2001 hafi hann, ásamt Adolf Lundberg Steinssyni lögreglumanni, stöðvað bifreiðina á móts við Korpúlfsstaði, þar sem henni var ekið suður Vesturlandsveg, í kjölfar tilkynningar sem lögreglunni hafi borist um að ökumaður bifreiðarinnar kynni að vera ölvaður. Bifreiðin hafi rásað nokkuð á veginum og virst hafi sem ökumaðurinn hefði ekki fullkomna stjórn á henni. Um ástand ákærða segir að jafnvægi hans hafi verið óstöðugt, framburður ruglingslegur, málfar óskýrt og sjáöldur útvíkkuð. Kemur fram að hann hafi blásið í öndunarpróf sem litað hafi þriðja til fjórða stig. Ákærði hafi óskað þess sérstaklega að bifreiðin yrði ekki skilin eftir á vettvangi. Adolf hafi því ekið bifreið ákærða að lögreglustöðinni við Hverfisgötu en ákærði hafi verið farþegi í bifreiðinni þangað. Á leiðinni hafi ákærði tekið fernu með sveskjugraut, sem stóð opin milli framsæta bifreiðarinnar, og drukkið einn eða tvo sopa úr henni. Fyrrnefndur Adolf hafi gengið úr skugga um að áfengislykt væri ekki úr fernunni. Á lögreglustöðinni hafi ákærði verið færður fyrir Gunnar Fannberg Jónasson varðstjóra. Þar hafi ákærði ýmist haldið því fram að hann hafi neytt áfengis úr fernunni eftir að akstri lauk, eða ekki. Að lokum hafi hann sagst ekki hafa neytt áfengis eftir að akstri lauk. Að því loknu hafi ákærði verið færður til töku blóð- og þvagsýna. Hafi honum tekist að eyðileggja þvagsýnið með því að stinga sýnisglasinu ofan í salernisskálina. Læknir sem annaðist töku blóð- og þvagsýnis hafi sagt að hann myndi ekki taka annað sýni úr ákærða. Blóðsýnið hafi verið tekið kl. 02.40 um nóttina. Samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar mældist 2,23 í blóði ákærða.
Í skýrslu áðurnefnds Adolfs um handtökuna greinir að ákærði hafi sjáanlega verið undir áhrifum áfengis, sjáöldur hans hafi verið útvíkkuð, jafnvægi óstöðugt, framburður ruglingslegur og málfar óskýrt. Samkvæmt skýrslu Gunnars var ákærði leiddur fyrir hann kl. 01.57 umrædda nótt. Þar kemur fram að ákærði hafi játað að hafa drukkið áfengi en aðspurður hafi hann svarað því neitandi að hafa drukkið áfengi eftir að akstri lauk. Um ástand ákærða segir í skýrslunni að sjáöldur hans hafi verið útvíkkuð, jafnvægi óstöðugt, framburður ruglingslegur og málfar óskýrt.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 31. janúar 2002. Lýsti hann atvikum á þá leið að hann hafi drukkið bjór og áfengi með hléum í sumarbústað í Borgarfirði frá kl. 21.00 að kvöldi fimmtudagsins 13. desember 2001 til kl. 15.00 daginn eftir. Þá hafi hann lagt sig og vaknað um kl. 22.00 á föstudagskvöld og ákveðið að halda heim á leið. Hann hafi ekki fundið fyrir áfengisáhrifum við aksturinn en taldi að nokkuð áfengi hafi verið í blóði sínu við aksturinn. Hafi hann ekið bifreiðinni frá Borgarfirði áleiðis að heimili sínu í Hafnarfirði uns lögregla stöðvaði aksturinn á Vesturlandsvegi á móts við Korpúlfsstaði. Annar lögreglumannanna hafi síðan ekið bifreið ákærða á lögreglustöðina í Reykjavík og hann verið farþegi í framsæti hennar. Hinn lögreglumaðurinn hafi ekið lögreglubifreiðinni. Aðspurður um fernu sem staðið hafi milli framsætanna í bifreið hans kvað ákærði að um hafi verið að ræða tveggja lítra fernu með einhvers konar blönduðum ávaxtasafa, meðal annars með sveskjum og tómötum. Fernan hafi verið opin og skorðuð á milli sætanna. Áður en ákærði lagði af stað úr Borgarfirði hafi hann hellt úr um það bil hálfri þriggja pela vodkaflösku út í ávaxtasafann sem fyrir var í fernunni, þannig að hún hafi verið full að um það bil þremur fjórðu hlutum. Hann kvaðst ekki hafa drukkið úr fernunni eftir að hann lagði af stað úr Borgarfirði. Eftir að lögregla hafi stöðvað bifreiðina og hann fært sig yfir í farþegasætið hafi hann hins vegar tekið fernuna og drukkið úr henni nokkuð magn en hann gæti ekki sagt hve mikið. Þá kvaðst hann ekki muna hvort lögreglumaðurinn, sem ók bifreiðinni, hafi gert einhverjar athugasemdir við að hann drykki úr fernunni.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 13. febrúar 2002 lýstu lögreglumennirnir Adolf og Árni atvikum í öllum meginatriðum á sama veg og í áðurnefndri frumskýrslu 15. desember 2001. Adolf lét þess jafnframt getið að um leið og hann hafði tal af ákærða eftir að bifreið hans hafði verið stöðvuð hafi hann séð greinileg áfengisáhrif á honum og áfengislykt hafi lagt frá honum. Hann hafi lyktað af umræddri fernu, sem verið hafi því sem næst tóm, en ekki fundið úr henni áfengislykt og sett hana aftur á sama stað. Í skýrslu Árna kom einnig fram að ákærði hafi borið þess merki að hafa drukkið talsvert af áfengi er bifreið hans var stöðvuð og verið nokkuð óstöðugur. Þá hafi hann gefið öndunarprufu sem litað hafi þriðja til fjórða stig.
Ákærði kom fyrir dóm þegar málið var þingfest 20. mars 2002 og neitaði sök. Við aðalmeðferð þess 8. apríl sama ár greindi ákærði í meginatriðum efnislega á sama veg frá atvikum og í skýrslu sinni hjá lögreglu. Taldi hann sig þó hafa drukkið nær allt úr fernunni á leiðinni frá Korpúlfsstöðum niður á lögreglustöð. Fyrir dómi skýrði Árni Ólafsson frá aðdraganda handtöku ákærða á sama veg og fram kemur í frumskýrslu hans. Hann kvað göngulag ákærða hafa verið fremur óstöðugt og áfengislykt verið af honum. Hann hafi talið tvímælalaust að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis, það hafi ekki farið á milli mála. Að öðru leyti var framburður Árna fyrir dómi efnislega á sama veg og í fyrrnefndri frumskýrslu lögreglunnar og skýrslu hans hjá lögreglu. Gegnir því sama um skýrslu sem Adolf Lundberg Steinsson gaf fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Í skýrslu hans fyrir dómi sagði hann að við handtöku hafi ákærði verið greinilega „talsvert undir áhrifum áfengis“ og „áberandi ölvaður“, göngulag hans, framkoma, málfar og áfengislykt hafi borið þess merki.
Gunnar Fannberg Jónasson varðstjóri gaf einnig skýrslu við aðalmeðferð málsins. Þar kom meðal annars fram að ákærði hafi við yfirheyrslu ýmist haldið því fram að hafa drukkið eftir að akstri lauk eða dregið þann framburð til baka. Niðurstaðan hafi orðið sú að hann hafi ekki drukkið eftir að akstri lauk. Að mati varðstjórans hafi ákærði verið „mjög áberandi ölvaður“ er lögreglumennirnir komu með hann á lögreglustöðina.
II.
Í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms er vísað til þess að þrátt fyrir að lögreglumaðurinn, sem ók bíl ákærða á lögreglustöðina, hafi ekki fundið áfengislykt af umræddri blöndu í bílnum sé ekki unnt að útiloka að um áfengisblöndu hafi verið að ræða en innihald hennar hafi ekki verið rannsakað. Þá sé ekkert í málinu sem geri það að verkum að hafna beri framburði ákærða um að hann hafi drukkið áfengi eftir að akstri lauk, það er á leið á lögreglustöðina. Engin gögn séu fyrir hendi í málinu sem örugglega sýni ástand ákærða á þeirri stundu er lögreglan stöðvaði akstur hans á Vesturlandsvegi. Var hann því sýknaður af kröfum ákæruvalds.
Eins og áður segir báru tveir lögreglumenn, sem handtóku ákærða umrætt sinn, afdráttarlaust fyrir dómi að hann hafi greinilega borið þess merki að hafa drukkið talsvert af áfengi er hann var stöðvaður kl. 01.21 aðfaranótt laugardagsins 15. desember 2001. Þá bar varðstjóri, sem yfirheyrði ákærða um 40 mínútum eftir handtökuna, að ákærði hafi þá verið mjög áberandi ölvaður. Framburður lögreglumannanna tveggja sem handtóku ákærða er í öllum aðalatriðum samhljóða um ástand hans þegar hann var handtekinn. Fær sá framburður stoð í framburði lögregluvarðstjórans, sem ákærði var færður fyrir áður en honum var tekið blóðsýni. Verður ekki séð af gögnum málsins að tilefni sé til að draga í efa sönnunargildi framburðar þessara vitna, en ekki er tekin bein afstaða til trúverðugleika vitnanna í héraðsdómi. Ákærði hefur haldið því fram að í umræddri fernu hafi verið vodkablandaður ávaxtasafi. Fram er komið að ákærði hafi hjá varðstjóra ýmist haldið því fram að hann hafi drukkið áfengi eftir að akstri lauk eða ekki. Var því fullt tilefni til þess að rannsaka innihald umræddrar fernu. Síðari framburður ákærða hefur verið á þá leið að hann hafi drukkið ýmist nokkuð eða næstum allt úr fernunni á leiðinni á lögreglustöðina. Átelja verður að eftir handtöku ákærða hafi hann verið fluttur til skýrslutöku af einum lögreglumanni sem farþegi í eigin bifreið. Getur það þó í engu breytt því, að með ólíkindum verður að telja, þegar litið er til vættis lögreglumannanna um ástand ákærða við handtöku, að hann hafi, sem farþegi í framsæti við hlið lögreglumanns, neytt eftir að akstri lauk alls þess áfengis er mældist í blóði hans á þeim tíma sem tekur að aka frá Vesturlandsvegi við Korpúlfsstaði að lögreglustöðinni við Hverfisgötu.
Þegar alls þessa er gætt eru slíkar líkur á að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og öðrum sönnunargögnum sé rangt að óhjákvæmilegt er að ómerkja hinn áfrýjaða dóm með vísan til ákvæðis 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Verður lagt fyrir héraðsdóm að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram á ný og fella síðan efnisdóm á málið.
Vegna þessara úrslita málsins verður ekki komist hjá að leggja allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, sem ákveðin eru í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til munnlegrar sönnunarfærslu, málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gunnars Kristjánssonar, á báðum dómstigum, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2002.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 4. mars 2002 á hendur: ,,Gunnari Kristjánssyni, kt. 050259-3829, Eyrarholti 3, Hafnarfirði, fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni SS-032, aðfaranótt laugardagsins 15. desember 2001, undir áhrifum áfengis frá Mýra- og Borgarfjarðarsýslu um Vesturlandsveg, uns lögregla stöðvaði aksturinn á móts við Korpúlfsstaði í Mosfellsbæ.
Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.”
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins, verði greidd úr ríkissjóði.
Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 15. desember sl. kl. 00.56 barst lögreglu tilkynning um að grunur léki á ölvun ökumanns bifreiðarinnar SS-032, sem ók suður Vesturlandsveg sunnan Hvalfjarðarganga. Lögreglan stöðvaði akstur bifreiðarinnar kl. 01.21 á þeim stað sem lýst er í ákærunni. Ákærði var ökumaður. Grunur vaknaði um ölvun ákærða. Hann blés í öndunarpróf sem litaði þriðja til fjórða stig, eins og segir í skýrslunni. Þar segir einnig að eftir komu á lögreglustöð í viðræðum við varðstjóra hafi ákærði ýmist haldið því fram að hann hefði drukkið áfengi úr grautarfernu, sem var í bíl hans á leið á lögreglustöð eða að hafa drukkið fyrir akstur. Ákærði var færður á slysadeild til töku blóðsýnis er við rannsókn reyndist innihalda 2.23 alkóhól.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa neytt áfengis eftir að akstri lauk er lögreglan stöðvaði aksturinn við Korpúlfsstaði. Hann hafi hvorki neytt áfengis fyrir akstur né meðan á honum stóð. Ákærði kvað annan lögreglumannanna, sem stöðvaði hann, hafa ekið bifreið ákærða á lögreglustöð og hefði ákærði setið sem farþegi í framsæti. Á leiðinni kveðst ákærði hafa drukkið vodkablandaðan ávaxtasafa, en ákærði kvaðst hafa komið með hann með sér úr sumarbústað þaðan sem hann var að koma er lögreglan stöðvaði hann. Blandan hafi verið í 2 lítra fernu og kvaðst ákærði hafa drukkið nærri því alla blönduna á leiðinni frá Korpúlfsstöðum á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Lögreglumaðurinn sem ók bílnum hefði ekki gert athugasemd við þetta að sögn ákærða.
Ákærði kvað sér ekki hafa tekist að gefa þvagsýni og kvað hugsanlegt að hann hafi sett sýnaglasið ofan í þvagskálinu á sjúkrahúsinu, eins og segir í lögregluskýrslu. Ákærði kvaðst hafa verið ölvaður er þetta átti sér stað.
Ákærði kveðst hafa sagt varðstjóranum, sem tók af honum skýrslu eftir komu á lögreglustöðina, að hann hefði drukkið eftir að akstrinum lauk. Ákærði kvaðst hafa ritað undir þá skýrslu án þess að lesa hana yfir.
Árni Ólafsson lögreglumaður lýsti því er bifreið ákærða var stöðvuð á móts við Korpúlfsstaði. Ákærði hefði sagst hafa drukkið áfengi fyrir aksturinn. Öndunarpróf hefði sýnt þriðja til fjórða stig er ákærði blés í mælinn. Ákærði var að mati Árna sýnilega undir áhrifum áfengis. Hann merkti það á göngulagi ákærða og þá lagði frá honum áfengisþef. Eftir þetta var ákærði handtekinn og færður á lögreglustöð, en á leiðinni þangað var ákærði farþegi í sinni eigin bifreið, sem Adolf Steinsson lögreglumaður ók.
Árni kvaðst hafa verið viðstaddur er Gunnar Fannberg Jónasson varðstjóri ræddi við ákærða á lögreglustöðinni og tók af honum skýrslu. Þá hafi ákærði ýmist svarað því svo að hann hefði drukkið fyrir eða eftir akstur.
Adolf Lundberg Steinsson lögregluflokksstjóri lýsti því er ákærði var stöðvaður í akstri á þeim stað sem í ákæru greinir. Hann kvað ákærða sýnilega hafa verið undir áhrifum áfengis. Adolf kvaðst hafa merkt það á málfari hans, göngulagi og áfengislykt sem lagði frá honum. Adolf kvað ákærða hafa blásið alkótest, sem hefði sýnt þriðja til fjórða stig, en ákærði hefði viðurkennt að hafa neytt áfengis fyrir aksturinn. Ákærði var handtekinn og fluttur á lögreglustöð, en Adolf kvaðst hafa ekið bifreið ákærða, sem var farþegi í framsæti á leið á lögreglustöðina.
Adolf kvað ávaxtafernu hafa verið á milli framsætanna í bílnum. Á leiðinni á lögreglustöð hefði ákærði tekið fernuna einu sinni eða tvisvar og borið að munni sér. Adolf kvaðst hafa tekið af honum fernuna og lyktað upp úr henni, en ekki fundið vínlykt.
Gunnar Fannberg Jónasson lýsti því að ákærði hefði verið áberandi ölvaður er komið var með hann á lögreglustöðina þessa nótt. Gunnar kvað ákærða ýmist hafa greint svo frá að hann hafi drukkið úr ávaxtafernu eða ekki og hefði hann látlaust breytt frásögn sinni.
Niðurstaða
Ákærði var handtekinn kl. 01.24 og úr honum var tekið blóðsýni kl. 02.40. Ekki tókst að taka þvagsýni til rannsóknar. Handtekinn var ákærði fluttur á lögreglustöð farþegi í sinni eigin bifreið. Hann kvaðst fyrst hafa drukkið áfengi á þeirri leið, en ekki áður. Ekkert í málinu gerir það að verkum að hafna eigi framburði ákærða um þetta. Vitnisburður Adolfs Lundbergs Steinssonar, sem ók bílnum, útilokar þetta heldur ekki. Þrátt fyrir að Adolf Lundberg Steinsson hafi ekki fundið áfengislykt af blöndunni útilokar það ekki að um áfengisblöndu hafi verið að ræða eins og ákærði bar en innihald blöndunnar var ekki rannsakað. Samkvæmt þessu er ekkert fram komið í málinu sem útilokar það að í fernunni hafi verið áfengisblanda. Því er áður lýst að frásögn ákærða hjá varðstjóra var ýmist á þá leið að hann hefði drukkið eftir akstur eða ekki. Samkvæmt lögregluskýrslu tókst ekki að afla þvagsýnis. Þetta gaf tilefni til þess að athuga innihald í ávaxtafernunni í bifreið ákærða. Það var ekki gert. Lögreglumennirnir sem handtóku ákærða lýstu því báðir að ákærði hafi verið sýnilega undir áhrifum áfengis er þeir stöðvuðu hann. Þótt líklegt sé, er tekið er mið af áfengismagni í blóði ákærða, sem áður er lýst, og er tekið er mið af vitnisburði lögreglumannanna sem handtóku ákærða, að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis er lögreglan stöðvaði aksturinn eru engin gögn til staðar sem örugglega sýna ástand hans á þeirri stundu. Helgast þetta af því að leggja verður til grundvallar framburð ákærða um áfengisdrykkju eftir að akstri lauk en vitnisburður lögreglumannins sem ók bifreið ákærða á lögreglustöð útilokar ekki að ákæðri hafi drukkið eftir að akstri lauk eins og áður er rakið.
Að öllu þessu virtu er ósannað að ákærði hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greinir og ber því að sýkna hann.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar í 80.000 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.
Sturla Þórðarson yfirlögfræðingur flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Gunnar Kristjánsson, er sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með taldar 80.000 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.