Hæstiréttur íslands

Mál nr. 22/2008


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Skilorðsrof


                                     

Fimmtudaginn 27. nóvember 2008.

Nr. 22/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari)

gegn

Gunnari Róberti Guðjónssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Brot gegn valdstjórninni. Skilorðsrof.

G var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hótað lögreglumanni líkamsmeiðingum og slegið hann með krepptum hnefanum í vinstri vanga og eyra. Með brotinu rauf hann skilorð dóms þar sem hann hlaut fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í samræmi við 60. gr. almennra hegningarlaga var sá dómur tekinn upp og bæði málin dæmd í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Að þessu virtu var refsing G ákveðin fangelsi í níu mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð og skilorðsbundin.

Með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að öðru leyti með vísan  til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Gunnar Róbert Guðjónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 261.986 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 22. desember 2006 á hendur Gunnari Róbert Guðjónssyni, kt. 270383-5219, Sjávargötu 11, Álftanesi, fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 13. ágúst 2006, á akbrautinni við Suðurfell í Reykjavík, hótað lögreglumanninum A lífláti og líkamsmeiðingum, því næst slegið A með krepptum hnefa í vinstri vanga og eyra með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og yfirborðsáverka á eyra og loks slegið hann ítrekað í vinstri hlið líkamans.

Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 101/1976 og lög nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

Aðfaranótt sunnudagsins 13. ágúst 2005 kl. 03.12 stöðvaði lögregla bifreiðina xx-xxx við Suðurfell í Reykjavík til að athuga ástand og ökuréttindi ökumanns. Í lögreglubifreið voru lögreglumennirnir A og B. Fór A og ræddi við ökumann bifreiðarinnar xx-xxx, C. Gunnar Róbert Guðjónsson, ákærði í máli þessu, var farþegi í framsæti bifreiðarinnar. Kemur fram í frumskýrslu lögreglu að C hafi gert sig líklegan til að aka af stað og A því tekið lykla úr kveikjulás bifreiðarinnar og skipað honum að stíga út úr bifreiðinni. Hafi ökumaður verið mjög æstur og í annarlegu ástandi og því verið ákveðið að færa hann í handjárn. Hafi hann veitt mótþróa og því verið haldið þétt upp við lögreglubifreiðina. Á meðan á þessu stóð hafi ökumaður skallað nokkrum sinnum í vinstri hliðarrúðu lögreglubifreiðar­innar, milli þess sem hann hafi látið ókvæðisorð dynja á lögreglumönnum. Ákærði hafi orðið æstur þegar ökumaðurinn var handtekinn og farið út úr bifreiðinni og að lögreglubifreiðinni þar sem ökumanni var haldið. Hafi lögreglumaðurinn A þá farið til móts við ákærða og reynt að róa hann niður. Ákærði hafi verið með hótanir í garð lögreglunnar og ógnandi í framkomu. Hafi hann gert sig líklegan til að ráðast á lögreglumanninn, sem hafi skipað honum að róa sig niður og fara aftur inn í bifreiðina. Hafi ákærði ekki sinnt þessu heldur farið þétt upp að lögreglumanninum og sýnt ógnandi tilburði. Hafi lögreglumaðurinn A því tekið upp lögreglukylfu sína og skipað ákærða að stíga til baka og róa sig niður. Ákærði hafi verið með ítrekaðar hótanir í garð lögreglumannsins og lýst yfir að hann ætlaði að berja hann og drepa ef hann gerði sig líklegan til að beita kylfunni. Hafi lögreglumaðurinn þá slíðrað kylfuna. Ákærði hafi þá slegið snögglega með krepptum hnefa hægri handar til lögreglumannsins og höggið komið við eyrað á vinstri vanga A. Í frumskýrslu er tekið fram að „Höggið var þungt og greinilega til þess ætlað að valda lögreglumanninum skaða. Gunnar fylgdi högginu á eftir með því að ráðast á [lögreglumanninn] og slá til hans ítrekað. ...lentu höggin m.a. í vinstri upphandlegg og líkama. Gunnar var yfirbugaður og settur í lögreglutök og lagður í götuna.“ Ákærði var í framhaldi benslaður á fótum. Var ökumaður einnig lagður á götuna og þeir báðir fluttir með lögreglubifreið á lögreglustöð.

Í málinu liggur frammi læknisvottorð Elísabetar Benedikz sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsett 9. október 2006, vegna komu A á slysadeild 13. ágúst 2006 kl. 04.42. Þar segir að A hafi þurft að hafa afskipti af æstum manni sem hafi endað með því að sá hafi komið höggi á vinstra eyra A. A hafi sagst finna fyrir miklum eymslum í eyranu. Fram kemur að eyrað hafi verið örlítið rautt og ,,þreifieymsli" umhverfis það aftan til og framan. A hafi hlotið yfirborðsáverka, mar yfir vinstra eyra. A lagði fram kæru á hendur ákærða 17. ágúst 2006.

Tekin var lögregluskýrsla af ákærða síðdegis 13. ágúst 2006 eftir dvöl hans í fangageymslu. Kvaðst hann ekki muna eftir að hafa kýlt lögreglumann og kvaðst hafa hlýtt fyrirmælum lögreglu nóttina áður. Hann kvaðst hafa róast þegar lögreglumaðurinn hafi verið rólegur. Hafi allt í einu verið gripið í ákærða aftan frá og hann ekki vitað hver það var. Hafi hann barist um til að losa sig og kvað líklegt að lögreglumaðurinn fyrir framan hann hafi fengið högg í sig við átökin. Tók ákærði fram að hann myndi óglöggt eftir þessu fyrr en hann var kominn í götuna. Orðrétt segir: „Gunnar er spurður hvort hann hafi haft í hótunum við lögreglumennina. Hann kvaðst ekki muna það. Hann tók hins vegar fram að hann hafi verið ósáttur við meðferðina á þeim og því hafi hann hugsanlega sagt eitthvað án þess að muna það nákvæmlega... Samkvæmt skýrslu lögreglu kemur fram að Gunnar hafi hótað að drepa lögreglumanninn ef hann gerði sig líklegan til að beita kylfunni. Gunnar er beðinn um skýringar á þessu. Gunnar kveðst ekki hafa sagt það við hann heldur hafi hann sagt það við lögreglumanninn sem hélt honum í tökum á jörðinni.“

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að lögreglumenn hafi stöðvað hann og C við akstur í Suðurfelli. C hafi farið úr bifreiðinni og lögreglumennirnir handtekið hann og verið með læti við það.  Hafi C ekki streist á móti. Þetta hafi tekið nokkra stund. Ákærði hafi farið að skipta sér af handtökunni. Hafi hann sett fótinn út úr bifreiðinni og spurt hvort lögreglumennirnir þyrftu að vera svona harkalegir. Lögreglumaðurinn A hafi þá gengið að ákærða með höndina á kylfunni eins og hann ætlaði að draga hana úr slíðri. Hann hafi verið dálítið ógnandi, bent í átt að ákærða á ögrandi máta og sagt honum að hafa sig hægan. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið þessu vel og beðið lögreglumanninn, ef til vill án þess að nota rétta orðbragðið, um að ögra sér ekki. Ákærði kvaðst hafa sagt við lögreglumanninn að hann skyldi ekki ota að sér þessu priki, þá myndi hann lemja lögreglumanninn, eða eitthvað slíkt. Hafi lögreglumaðurinn þá tekið höndina af kylfunni og ákærði róast við það. Hafi hann næst ætlað að snúa sér við og fara inn í bílinn en þá hafi verið gripið í hann aftan frá og hann tekinn hálstaki. Hafi ákærði ekki vitað hver það var sem tók í hann og ekki séð þann mann koma. Ákærði kvaðst hafa reynt aða losa sig, ærslast og baðað út höndunum. Kvaðst ákærði giska á að þá hafi lögreglumaðurinn A fengið í sig högg, vegna þess að hann hafi aldrei slegið í áttina að honum viljandi. Þegar ákærði hafi áttað sig á að sá sem hélt honum væri lögreglumaður hafi hann róast. Ákærði kvað það aldrei hafa verið ásetning sinn að kýla lögreglumanninn og kvaðst ekki hafa veitt neinum högg áður en ráðist var á hann. Lögreglumennirnir hafi þegar hér var komið verið orðnir æstir og þeir handjárnað ákærða á mjög harkalegan máta. Hafi þeir sett á hann fótbensli svo harkalega að hann hafi farið að gráta, enda með gamla áverka á ökklum og bólginn. Hafi ákærði legið á götunni og lögreglumennirnir verið farnir að meiða hann mikið. Hafi hann þá verið með munnsöfnuð. Ákærði kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað hann hafi sagt. Ákærði kvaðst hafa drukkið tvo til þrjá bjóra um kvöldið og kvaðst ekki hafa fundið fyrir miklum áfengisáhrifum.

Lögreglumaðurinn A bar að þegar hann og lögreglumaðurinn B hafi verið að handjárna ökumanninn C hafi hann verið mjög æstur. Hafi ákærði þá einnig orðið æstur, staðið upp og ætlað að nálgast þá. A kvaðst hafa farið á móti ákærða og reynt að róa hann niður, dregið upp lögreglukylfuna og ítrekað við ákærða að róa sig og færa sig aftur á bak. Ákærði hafi verið að nálgast hann mjög mikið þannig að hann hafi sett hendurnar fyrir sig til að tryggja fjarlægðina á milli þeirra. A kvað ákærða hafa orðið enn meira æstan við þetta og sagst mundu láta af æsingnum ef A legði frá sér kylfuna. Hafi ákærði sagt við hann að leggja frá sér þetta prik og hótað að drepa og berja hann. A kvaðst ekki muna nákvæmlega orðalag ákærða en þetta hafi falist í orðum hans. Hafi A lagt kylfuna frá sér og ákærði róast tímabundið, en svo aftur orðið æstur. Hafi A þá aftur tryggt fjarlægðina á milli þeirra og reynt að fá ákærða til að róa sig niður. Ákærði hafi þá fyrirvaralaust stokkið til og kýlt A í andlitið. Við það hafi A ætlað að reyna að yfirbuga ákærða til að handtaka hann. Ákærði hafi þá kýlt A í síðuna, en það högg hafi þó ekki verið alvarlegt. Hafi þetta gengið svona þar til B lögreglumaður hafi komið til aðstoðar og hjálpað A að yfirbuga ákærða. B hafi verið upp við lögreglubifreiðina og um það bil fimm metrum frá þegar ákærði hafi slegið A. B hafi ekki komið að orðaskiptunum fyrr en eftir að ákærði var búinn að kýla A. Ákærði hafi virst vera mjög ölvaður og æstur. Ákærða hafi verið haldið við handtökuna en hann hafi verið mjög æstur. Hafi hann verið með garg og læti en A kvaðst ekki muna nákvæmlega eftir orðalaginu. Ökumaður bifreiðarinnar hafi verið farinn að gráta og A farið að tala við hann en B átt við ákærða. A kvaðst ekki muna eftir að ákærði hafi farið að gráta.

B lögreglumaður var ásamt A við eftirlit umrætt kvöld. Kvaðst B, ásamt A lögreglumanni, hafa handjárnað ökumanninn, C. Hafi C verið mjög æstur og farið að skalla lögreglubifreiðina. Hafi það orðið til þess að ákærða varð einnig æstur og komið út úr bifreiðinni. B kvaðst hafa staðið við lögreglubifreiðina með ökumanninn á meðan A hafi farið til að ræða við ákærða og reyna að róa hann niður. Ákærði hafi verið mjög æstur og ógnandi og A tekið upp kylfuna. Hafi hann haldið kylfunni niður með hliðinni en ákærði orðið ennþá æstari við það og byrjað að öskra á hann og segja honum að leggja frá sér prikið. Hafi A eftir skamma stund sett hana aftur í slíðrið. B kvað það næsta sem hann hafi séð hafa verið að ákærði sló lögreglumanninn utan undir, eiginlega upp úr þurru. B kvaðst hafa verið við hliðina á lögreglubifreiðinni þegar hann sá þetta, en lögreglubifreiðin hafi verið fyrir framan þá bifreið sem hafi verið stöðvuð. Ákærði og A hafi staðið á móts við hægra framhorn  bifreiðarinnar. Átök hafi orðið á milli ákærða og A. Hafi B farið og aðstoðað A og þeir í sameiningu yfirbugað ákærða. B kvaðst ekki hafa blandast inn í þetta fyrr en hann hafi horft á ákærða lemja A, en hafa gripið í ákærða aftan frá til að ná honum niður í jörðina. B kvaðst hafa heyrt orðaskipti að takmörkuðu leyti, en kvaðst muna eftir að ákærði hafi talað um prikið. Hann kvað ákærða hafa verið að öskra á lögreglumanninn og greinilega hafa verið ósáttan. B kvaðst telja að ákærði hafi verið í annarlegu ástandi annað hvort af völdum áfengis eða vímuefna.

C kvað lögreglumann hafa tekið sig út úr bifreiðinni greint sinn og hent sér á jörðina. Hafi hann fengið hnén á lögreglumanni ofan á bakið á sér. Þá hafi ákærði farið að skipta sér af. Hafi lögreglumaður tekið C upp og hent honum utan í bifreiðina. Annar lögreglumaðurinn hafi farið að ákærða og C heyrt þá rífast. Kvaðst C hafa byrjað að skalla í gluggann á bifreiðinni til að fá athygli. Hafi þá annar lögreglumaðurinn tekið í C. C kvaðst ekki hafa séð hvað var að gerast. Síðan hafi hann og ákærði báðir legið í götunni og verið fluttir á brott í sitt hvorri lögreglubifreiðinni. C kvaðst ekki hafa heyrt hvað sagt hafi verið, en hann hafi ekki hlustað á það. Þá kvaðst hann ekki hafa getað séð ákærða og lögreglumanninn. Kvaðst hann hafa staðið eitt augnablik aleinn, á meðan báðir lögreglumennirnir hafi haft afskipti af ákærða og hann þá byrjað að skalla í gluggann. Þeir hafi komið tilbaka og verið með ákærða með sér, hent þeim í götuna og næst sett þá inn í bifreiðina.

Niðurstaða:

Ákærða er gefið að sök að hafa hótað lögreglumanninum A lífláti og líkamsmeiðingum, því næst hafa slegið hann með krepptum hnefa með þeim afleiðingum er í ákæru greinir og loks slegið hann ítrekað í vinstri hlið líkamans.

Með samhljóða framburði tveggja lögreglumanna er fram komin lögfull sönnun um að ákærði hafi slegið lögreglumanninn A með krepptum hnefa í vinstri vanga og eyra. Þær afleiðingar er ákæra tilgreinir eru í samræmi við læknisvottorð, en A leitaði á slysadeild í beinu framhaldi af atburðum. Ákærði hefur viðurkennt að hafa hrópað ókvæðisorð að lögreglumanninum A og m.a. hótað honum að hann myndi ,,lemja” hann. Með vísan til þess og framburðar A hefur ákærði orðið sannur að því að hafa hótað lögreglumanninum líkamsmeiðingum. Ákærða er að auki gefið að sök að hafa ítrekað slegið í vinstri hlið líkama A. Lögreglumaðurinn B bar ekki með afdráttarlausum hætti um það og hefur ákærði neitað að svo hafi verið. Er því einungis framburði lögreglumannsins A til að dreifa um það atriði, en A vill reyndar ekki gera mikið úr þessum höggum. Verður ákærði ekki sakfelldur fyrir að hafa slegið A ítrekað í vinstri hlið líkamans.  Með vísan til þessa verður ákærði sakfelldur fyrir hótun og að hafa slegið lögreglumann við skyldustörf. Slík háttsemi er brot gegn valdstjórninni. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga. 

Ákærði er fæddur í mars 1983. Ákærði var 21. desember 2005 sakfelldur fyrir líkamsárás og dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í þrjú ár. Héraðsdómurinn var staðfestur í Hæstarétti 21. september 2006. Ákærði var dæmdur 12. apríl 2006 til greiðslu sektar fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot og brot gegn almennum hegningarlögum. Hinn 4. desember 2006 gekkst ákærði undir sátt fyrir umferðarlagabrot. Sakaferill ákærða, þó nokkur sé, hefur að öðru leyti ekki áhrif á ákvörðun refsingar. Með broti því sem ákærði er nú fundinn sekur um rauf hann skilorð dómsins frá 21. desember 2005. Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. laga nr. 19/1940 ber að taka upp refsingu samkvæmt dóminum og gera ákærða refsingu í einu lagi vegna beggja málanna. Til þess er að líta að um hegningarauka er að ræða við sáttirnar 31. ágúst 2006 og 4. desember 2006. Verður refsing ákærða því ákveðin með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til alvarleika brotsins, en ákærði réðst að lögreglumanni við skyldustörf. Þá verður litið til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 418/2006. Loks verður litið til þess að ákærði hefur áður verið sakfelldur fyrir stórfellda líkamsárás. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði. 

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnar­laun skipaðs verjanda, að viðbættum virðisaukaskatti, með þeim hætti er í dómsorði greinir. 

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragna Bjarnadóttir fulltrúi ríkissaksóknara.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Róbert Guðjónsson, sæti fangelsi í níu mánuði.

Ákærði greiði 122.500 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 96.800 krónur.