Hæstiréttur íslands

Mál nr. 649/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. janúar 2007.

Nr. 649/2006.

Hrefna Rut Kristjánsdóttir

(Gísli Guðni Hall hdl.)

gegn

Snæfellsbæ

(Jónatan Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

H krafðist viðurkenningar á því að ákvörðun S-bæjar um að segja henni upp störfum hefði verið ólögmæt. Eftir að hún höfðaði málið fékk hún sams konar starf hjá S-bæ. Var talið að krafa í þessum búningi væri í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa málinu frá. Þá var hafnað kröfu H um málskostnað í héraði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 6. desember 2006, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar. Til vara krefst hún málskostnaðar í héraði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en um málskostnað, sem sóknaraðili verði dæmdur til að greiða ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila til viðurkenningar á að ákvörðun varnaraðila um að segja henni upp störfum 28. júní 2006 „hafi verið ólögmæt“. Krafa í þessum búningi er í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um frávísun málsins.

Sóknaraðili reisir varakröfu sína um málskostnað í héraði á því að hún hafi haft lögvarða hagsmuni af kröfu sinni þegar málið var höfðað, en þá hafi varnaraðili ekki verið búinn að ráða hana á ný til starfa. Frávísun málsins hafi verið reist á atvikum sem síðar gerðust. Með vísan til fyrrgreindra forsendna fyrir staðfestingu hins kærða úrskurðar eru ekki efni til að taka þessa kröfu til greina.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

          Sóknaraðili, Hrefna Rut Kristjánsdóttir, greiði varnaraðila, Snæfellsbæ, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 6. desember 2006.

Mál þetta var höfðað 25. ágúst 2006 og tekið til úrskurðar 29. nóvember sama ár. Stefnandi er Hrefna Rut Kristjánsdóttir, Sandholti 30 í Ólafsvík, en stefndi Snæfellsbær, Snæfellsási 2 á Hellissandi.

Stefnandi hefur höfðað málið til að fá viðurkennt með dómi að sú ákvörðun stefnda að segja stefnanda upp störfum, sem tilkynnt var með bréfi bæjarstjóra 28. júní 2006, hafi verið ólögmæt. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða málskostnað.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Í úrskurði þessum er tekin til úrlausnar aðalkrafa stefnda um að málinu verði vísað frá dómi. Krefst stefnandi þess að þeirri kröfu verði hrundið og að málskostnaður bíði efnisdóms. Verði frávísunarkrafan hins vegar tekin til greina gerir stefnandi kröfu um að henni verði úrskurðaður málskostnaður.

I.

Með samningi 7. september 2001 var stefnandi ráðin til starfa hjá stefnda sem baðvörður í íþróttahúsinu í Ólafsvík og var starfshlutfallið 63%. Stéttarfélag stefnanda er Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu en það félag á aðild að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Fóru laun stefnanda og önnur starfskjör eftir kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og svokallaðs samflots bæjarstarfsmanna.

Haustið 2005 fór stefndi þess á leit að gerðar yrðu breytingar á vinnutilhögun bæjarstarfsmanna sem störfuðu í íþróttahúsunum í Ólafsvík. Fólst breytingin í því að starfsmennirnir kæmu til stafa tvo morgna í viku í íþróttahúsinu á Hellissandi til að gegna stafi baðvarða meðan yngri börn væru í skólaleikfimi. Um þetta leyti mun einnig hafa risið ágreiningur milli stefnda og bæjarstarfsmanna sem störfuðu í íþróttahúsunum í Ólafsvík og á Hellissandi og í sundlauginni í Ólafsvík.

Með bréfi 31. maí 2006 var stefnanda og öðrum starfsmönnum íþróttahúsanna og sundlaugarinnar sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þær uppsagnir voru hins vegar dregnar til baka með bréfi stefnda 16. júní sama ár. Fyrir því var tilgreind sú ástæða að formgalli hefði verið á uppsögnum.

Stefnanda var aftur sagt upp starfi hjá stefnda með bréfi bæjarstjóra 28. júní 2006. Í bréfinu var tekið fram að bæjarráð hefði samþykkt 27. sama mánaðar að koma á breyttu skipulagi í íþróttahúsum og sundlaug Snæfellsbæjar. Því hefði bæjarstjóra verið falið að segja stefnanda upp störfum. Einnig var tekið fram að ráðið yrði aftur í störf að endurskipulagningu lokinni og að undangenginni auglýsingu. Aðrir starfsmenn stefnda í hliðstæðum störfum og stefnandi fengu samhljóða erindi.

 Í kjölfar uppsagnar starfsmanna stefnda voru haldnir tveir fundir í júlí 2006 með fyrirsvarsmönnum stefnda og forsvarsmönnum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja auk formanns Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu. Á fundunum var rætt um uppsagnirnar og breytta vinnutilhögun hjá stefnda.

Lögmaður stefnanda og annarra þeirra starfsmanna sem sagt var upp störfum ritaði stefnda bréf 27. júlí 2006 þar sem því var haldið fram að uppsagnirnar væru bæði ólögmætar og illa ígrundaðar. Nánar var þetta rökstutt þannig að með uppsögnunum hefði verið brotið gegn form- og efnisreglum stjórnsýsluréttar. Einnig var gerð sú krafa að uppsagnirnar yrðu þegar dregnar til baka og eigi síðar en 31. sama mánaðar. Að öðrum kosti yrðu dómsmál höfðuð til viðurkenningar á ólögmæti uppsagna og í kjölfarið krafist bóta úr hendi stefnda vegna þess tjóns sem leiddi af uppsögnunum. Stefndi svaraði ekki þessu erindi lögmannsins.

Í bæjarblaðinu Jökli, sem kom út 27. júlí 2006, voru auglýst laus til umsóknar störf baðvarða/starfsmanna við íþróttamannvirki Snæfellsbæjar. Var tekið fram að unnið yrði eftir vaktafyrirkomulagi og nýjum starfslýsingum. Umsóknarfrestur var til 27. ágúst sama ár en miðað var við að þeir sem yrðu ráðnir myndu hefja störf eigi síðar en 1. október það ár.

Stefnandi var ein þeirra sem sótti um lausar stöður hjá stefnanda og var hún ráðin í starf baðvarðar með ráðningarsamningi 26. september 2006 en starfshlutfallið samkvæmt þeim samningi var 66%. Hóf stefnandi störf samkvæmt nýjum ráðningarsamningi 1. október það ár, áður en uppsögn hennar úr starfi hafði komið til framkvæmda.

II.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um tilvist eða efni þeirra réttinda sem krafa hennar lýtur að og því beri að vísa málinu frá dómi. Stefnandi hafi verið ráðin í eitt af þeim störfum sem auglýst voru laus til umsóknar hjá stefnda og hafi hún verið ráðin, áður en fyrri ráðning féll úr gildi fyrir uppsögn. Ráðningarsambandið hafi því aldrei fallið niður og stefnandi haldið launum allan tímann og geri enn. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir nokkru tjóni og hafi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína.

Stefndi telur einnig að kröfugerð stefnanda feli í sér lögspurningu í ljósi þess að ekki hafi komið til þess að stefnandi léti af störfum hjá stefnanda. Af þeim sökum beri einnig að vísa málinu frá dómi þar sem málatilbúnaðurinn sé í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

III.

Stefnandi andmælir því að hún hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína eða að málatilbúnaðurinn feli í sér lögspurningu.

Stefnandi bendir á að rétt tæpir þrír mánuðir hafi liðið frá því henni var sagt upp störfum með bréfi stefnda 28. júní 2006 og þar til hún var ráðin til starfa á ný með samningi 26. september 2006. Á þeim tíma hafi mikil óvissa ríkt um hagi stefnanda, ekki bara atvinnu hennar heldur einnig búsetu á Snæfellsnesi. Þessi röskun á stöðu og högum stefnanda hafi ekki aðeins valdið stefnanda vanlíðan heldur einnig tjóni jafnt fjárhagslegu sem ófjárhagslegu. Í því sambandi bendir stefnandi á að ýmiss kostnaður hafi fallið til við atvinnuleit en í hana hafi stefnandi þurft að verja sumarleyfi sínu að nokkru leyti. Einnig bendir stefnandi á að það að fá uppsögn úr starfi sé mikill álitshnekkur, sérstaklega í fámennu plássi úti á landsbyggðinni.

Einnig vísar stefnandi til þess að dómstólar hafi markað þá stefnu með vísan til 60. gr. stjórnarskrár að aðili máls fyrir stjórnvaldi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um hvort stjórnvald hafi farið að lögum við meðferð máls og úrslausn. Í öllu falli beri að gæta varfærni við að vísa málum frá dómi en það verði ekki gert af þessum sökum nema því verði slegið föstu að ekki hafi á neinn hátt raunhæft gildi fyrir aðila að fá leyst úr ágreiningi.

Til stuðnings kröfu um málskostnað, verði málinu vísað frá dómi, bendir stefnandi á að gera megi aðila að greiða þeim sem tapi máli málskostnað ef viðkomandi hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að málið var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Stefnanda var sagt upp störfum hjá stefnda með bréfi 28. júní 2006. Eftir að stefnandi höfðaði málið og áður enn uppsögnin tók gildi var stefnandi ráðin til áframhaldandi starfa hjá stefnda með samningi 26. september sama ár. Í málinu liggur fyrir að kjör stefnanda samkvæmt þeim samningi eru ekki lakari en samkvæmt fyrri ráðningarsamningi og um er að ræða starf fyllilega hliðstætt því starfi sem stefnandi hafði áður gegnt hjá stefnda. Að þessu virtu getur dómur um lögmæti uppsagnarinnar engu breytt um vinnuréttarsambandið, sem nú er reist á síðari ráðningasamningi aðila.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hún hafi þurft að þola röskun á stöðu og högum sínum vegna uppsagnarinnar sem jafnframt hafi valdið henni tjóni, bæði fjárhagslegu og ófjárhagslegu. Því telur stefnandi sig hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína.

Ákvörðun stefnda að segja stefnanda upp störfum var stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar. Við töku þeirrar ákvörðunar bar stefnanda að fara að reglum III. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, auk þess sem ákvörðunin varð að vera reist á málefnalegum sjónarmiðum.

Stefnandi hefur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr því fyrir dómi hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart henni á þeim grundvelli að ákvörðun um uppsögn ráðningarsamnings hafi verið ólögmæt. Einnig er stefnanda kleift í samræmi við almennar reglur að bera undir dóm ágreining um uppsögnina með kröfu um að ákvörðun um hana verði felld úr gildi. Kröfugerð stefnanda hér fyrir dómi gengur hins vegar skemur þar sem aðeins er gerð sú krafa að viðurkennt verði að ákvörðun um uppsögnina hafi verið ólögmæt. Þótt fallist yrði á það með stefnanda að ákvörðunin hafi í einhverju tilliti ekki verið lögum samkvæmt leiðir ekki óhjákvæmilega af því að ákvörðunin sé ógildanleg. Sama niðurstaða þarf heldur ekki að leiða til þess að stefndi verði talinn bótaskyldur gagnvart stefnanda. Að þessu gættu verður ekki talið að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður fallist á kröfu stefnda um að málinu verði vísað frá dómi.

Þótt stefndi hafi að undangenginni starfsauglýsingu gert nýjan ráðningarsamning við stefnanda verður ekki litið svo á að með því hafi stefndi viðurkennt málsgrundvöll stefnanda. Að því gættu og eftir öðrum atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.