Hæstiréttur íslands
Mál nr. 162/1999
Lykilorð
- Þjófnaður
|
|
Fimmtudaginn 16. september 1999. |
|
Nr. 162/1999. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Jóni Hinrik Hjartarsyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður.
J var ákærður fyrir þjófnað. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna og J dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Jón Hinrik Hjartarson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. mars 1999.
Mál þetta var dómtekið 17. febrúar sl. Er það höfðað með ákæru sýslumannsins í Hafnarfirði 15. janúar 1999 á hendur ákærðu [...], og Jóni Hinrik Hjartarsyni, kt. 161268-5189, Skúlaskeiði 16, Hafnarfirði, fyrir eftirtalin brot:
I.
[...]
II.
Gegn ákærðu báðum fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:
1. Fyrir þjófnað, með því að hafa í félagi, miðvikudaginn 4. nóvember 1998, stolið úr versluninni R.Ó. Rafbúð-rafverkstæði, Hafnargötu 52, Keflavík, tveimur rafölum og einni halogen ljósaperu, samtals að verðmæti kr. 31.270,-. (mál nr. 34-1998-3824).
2. Fyrir þjófnað, með því að hafa í félagi, miðvikudaginn 4. nóvember 1998, stolið úr versluninni Stapafelli hf., Hafnargötu 29, Keflavík, hleðslu- og starttæki, þrýstimæli, hníf, hitamæli og mæli í bifreiðar, samtals að verðmæti kr. 16.570,-. (mál nr. 34-1998-3824).
Telst háttsemi þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III.
Gegn ákærða Jóni Hinrik Hjartarsyni fyrir þjófnað, með því að hafa einhvern tímann á tímabilinu frá miðjum desember 1998 fram í byrjun janúar 1999, stolið loftpressu að verðmæti 120.000,- kr. úr nýbyggingu að Berjahlíð 1, Hafnarfirði, en hann var handtekinn með hana í sinni vörslu 3. janúar s.l. fyrir utan Skúlaskeið 16, Hafnarfirði. (mál nr. 36-1999-10)
Telst háttsemi þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
IV.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að ákærði M sæti upptöku 0,4 gr af hassi skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.
I. kafli ákæru.
[...]
II. kafli ákæru.
Ákæruliðir 1-2
Þann 4. nóvember 1998 var lögreglunni í Keflavík tilkynnt um þjófnað úr versluninni Stapafelli í Keflavík. Vitnið Magnús Jensson starfsmaður í versluninni sagðist hafa veitt tveimur mönnum athygli í versluninni sem voru báðir með íþróttatöskur en frekar óíþróttamannlegir að sjá. Þegar þeir voru farnir út sá hann að bílahleðslutæki var horfið úr einni hillunni. Hann sagðist hafa séð að mennirnir hefðu gengið yfir götuna og yfir á veitingastaðinn Pizza 67. Hefði hann látið hringja í lögregluna og tilkynnt um grun sinn um þjófnað og hvar mennirnir væru niður komnir. Lögreglan fór á staðinn og voru ákærðu báðir handteknir, töskurnar fundust á bak við hurð inn á salerni.
Vitnin Jón Birgisson Olsen og Sigurður Vignir Ragnarsson komu fyrir dóm. Þeir voru gestir á veitingastaðnum Pizza 67 í umrætt sinn. Sögðu þeir að svolítið fát hefði komið á ákærðu er lögreglan kom á staðinn og hefði annar mannanna hlaupið með töskurnar inn á salerni.
Vitnið Reynir Jens Ólason eigandi R.Ó. Rafbúð-rafverkstæði við Hafnargötu 52 í Keflavík afgreiddi ákærðu í umrætt sinn. Hann sagði að þeir hefðu verið afskaplega geðugir og elskulegir menn. Annar þeirra hefði keypt af honum rafmagnsnúru. Hann hefði því heldur betur orðið hissa þegar lögreglan hefði hringt í hann eftir hádegi og beðið hann um að koma upp á lögreglustöð til þess að bera kennsl á nokkra muni sem lögreglan taldi að hefði verið stolið úr verslun hans. Kvaðst Reynir hafa þekkt munina enda merktir versluninni.
Lögreglumennirnir Ólafur Ólafsson og Arngrímur Guðmundsson er stóðu að handtöku ákærðu í umrætt sinn gáfu einnig skýrslu fyrir dómi. Þeir sögðu að þýfið hefði verið blandað í báðum töskunum og rafmagnsnúra sú sem keypt var í annarri versluninni hefði ekki verið ein sér í annarri töskunni.
Ákærði Jón Hinrik skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hefði farið til Keflavíkur ásamt ákærða Mána rétt fyrir hádegi þennan dag. M hefði ætlað að hitta mann að nafni Þórir. Ákærði Jón Hinrik neitar því alfarið að hafa stolið einhverju úr þessum verslunum. Hann kvaðst hafa keypt þar rafmagnsnúru hjá R.Ó. búðinni en kveðst ekkert hafa tekið ófrjálsri hendi. Hann kveðst ekki vita hvort ákærði M hefði tekið eitthvað. Ákærði staðfesti að þeir hefðu haft tvær íþróttatöskur meðferðis.
Ákærði M skýrði aftur á móti svo frá að hann hefði farið til Keflavíkur til að hitta mann sem hann vildi ekki nánar tilgreina. Hann kannaðist ekki við að hafa farið inn í umræddar tvær verslanir en kannaðist þó við að hafa verið með tvær töskur meðferðis. Hefði hann skilið þær eftir á salerni á veitingastaðnum Pizza 67. Líklegast væri að hann hefði gleymt þeim þar. Þeir munir sem í töskunum voru hafi verið greiðsla upp í skuld.
Með framburði vitna og skýrslum lögreglunnar þykir nægilega sannað að ákærðu voru að verki í umrætt sinn og er brot þeirra rétt færð til refsiákvæðis í ákæru.
III. kafli ákæru
Aðfarnótt 3. janúar 1999 hafði lögreglan tal af ákærða Jóni Hinrik fyrir utan heimili hans að Skúlaskeiði 16, Hafnarfirði. Kom í ljós að stór loftpressa var í aftursæti bifreiðar hans við hlið barnabílstóls. Á vettvangi sagði ákærði að vinur hans Ágúst ætti loftpressuna. Hjá lögreglu sagði ákærði að hann hefði fundið loftpressuna í vegkanti rétt við Snælandsvídeó sem er við Staðarberg 2-4 í Hafnarfirði. Kveðst hann hafa tekið loftpressuna og ætlað sér að koma henni til réttra eigenda þar sem hann taldi hana liggja undir skemmdum þar sem hún lá úti á víðavangi. Fór ákærði með lögreglu og sýndi henni hvar hann hafði fundið loftpressuna en það var við nýbyggða göngubrú á milli Staðarbergs og Stekkjarbergs.
Fyrir dómi skýrði ákærði á sama veg frá. Hann hefði ætlað að bjarga verðmætum frá glötun og koma loftpressunni í hendur réttra eigenda. Sagði hann ennfremur að loftpressan hefði verið þarna í reiðuleysi í nokkra daga, líklegast frá 30. desember 1998.
Vitnin Jón Hansson, Hörður Jónsson og Kristján Bjarnason, allir búsettir að Stekkjarbergi nálægt vettvangi komu fyrir dóm.
Jón og Hörður töldu mjög líklegt að þeir hefðu orðið loftpressunar varir ef hún hefði verið á þeim stað sem ákærði heldur fram. Kristján vildi ekki fullyrða að hann hefði orðið þess var.
Vitnið Pétur Einarsson verktaki er eigandi loftpressunar. Hann kom fyrir dóm og sagðist hafa þekkt loftpressuna greinilega aftur vegna sérkenna hennar. Loftpressan hefði verið geymd í nýbyggingu að Berjahlíð 1 og hefði hann ekki haft hugmynd um að henni hafi verið stolið þegar lögreglan hafði samband við hann.
Með framburði vitna og öðrum gögnum málsins þykir nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis.
Ákvörðun refsingar.
[...]
Ákærði Jón Hinrik Hjartarson.
Ákærði Jón Hinrik hefur 9 sinnum undirgengist sáttir vegna brota á umferðarlögum og lögum um ávana-og fíkniefni. Hann hefur alls hlotið 5 dóma fyrir brot á umferðarlögum, lögum um ávana og fíkniefni og hegningarlögum. Tveir af þessum dómum eru skilorðsbundnir fangelsisdómar, kveðnir upp 1989 og 1990. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði en rétt þykir að skilorðsbinda hana og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. alm. hgl.
Með vísan til 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 verða ákærðu dæmdir til að greiða in solidum allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. saksóknarlaun í ríkissjóð, 50.000 krónur.
[...]
Ákærði Jón Hinrik Hjartarson greiði skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 80.000 krónur í málsvarnarlaun.
Dómsorð:
[...]
Ákærði, Jón Hinrik Hjartarson, sæti fangelsi í 4 mánuði en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. alm. hgl.
Ákærðu greiði in solidum allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. saksóknarlaun í ríkissjóð, 50.000 krónur.
[...]
Ákærði, Jón Hinrik Hjartarson greiði skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 80.000 krónur í málsvarnarlaun.