Hæstiréttur íslands
Mál nr. 283/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 29. maí 2009. |
|
Nr. 283/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Karl Vilbergsson, aðstoðarsaksóknari) gegn X (Erlendur Þór Gunnarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. júní 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 3. júní 2009 kl. 16:00. Þá er þess einnig krafist að tilhögun gæsluvarðhalsins verði samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að að kvöldi mánudagsins 25. maí sl. hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um innbrot og þjófnað í einbýlishúsi að Y á Seltjarnarnesi, þar sem ráðist hafi verið á húsráðanda, A, f. [...], hann sleginn niður og bundinn á höndum og fótum og skilin eftir á gólfi heimili síns.
A segi hjá lögreglu að hann hafi komið heim til sín um kl. 20.00 umrætt kvöld og þá heyrt þrusk úr svefnherbergi. Hann hafi þá gengið að herberginu og í sömu mund hafi komið þaðan út maður sem hafi veist að honum, slegið hann í höfuðið og hrint honum í gólfið. Því næst hafi maðurinn og félagi hans bundið hann á höndum og fótum.
Hann segi annan manninn hafa staðið yfir sér á meðan hinn hafi farið um húsið í leit að verðmætum. Hann kveður mennina hafa spurt sig hvar úrin væru geymd, en A sé úrsmiður. Hafi hann bent þeim á vinnustofu sína á fyrstu hæð hússins.
A segi mennina hafa tekið skartgripi frá sér að verðmæti um 1,2 milljónir króna og hafi A fengið talsverða áverka í andliti eftir hnefahöggið sem hann hafi orðið fyrir. Hvað varði áverka A vísist til mynda í gögnum málsins en ekki hafi enn borist vottorð af slysadeild vegna áverka hans.
Í gærdag hafi lögreglu borist tilkynning frá vegfaranda um bifreið sem lagt hefði verið í námunda við Y, á umræddum tíma. Við nánari eftirgrennslan lögreglu hafi bifreiðin verið rakin til meðkærða, B, og hafi hann og kærði, verið handteknir í kjölfarið er þeir hafi fundist á dvalarstað meðkærða.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi meðkærði viðurkennt B verknaðinn og lýst því hvernig hann og kærði hafi brotist inn að Y á Seltjarnarnesi og stolið þaðan ýmsum verðmætum. Þá komi einnig fram í framburði meðkærða B að hann og X hafi verið sendir í þennan „leiðangur“ af þriðja aðila. Meðkærði B hafi skuldað þessum þriðja aðila vegna fíkniefnaskuldar og þessi aðili hafi hótað meðkærða og fjölskyldu hans ofbeldi ef hann færi ekki í þennan þjófnaðarleiðangur til að greiða fíkniefnaskuld. Þessi aðili hafi séð um skipulagningu þjófnaðarins og hafði hann gefið kærða og meðkærða B nákvæmar leiðbeiningar um hverju ætti að stela og hvar þýfið væri að finna.
Þá komi einnig fram í framburði meðkærða B að fjórði aðilinn hafi ekið þeim á vettvang og beðið eftir þeim þangað til þeir hafi komið til baka úr þjófnaðarleiðangrinum og ekið þeim síðan á brott af brotavettvangi eftir þjófnaðinn.
Aðilinn sem sendi kærða og meðkærða B í þennan þjófnað hafi tekið við öllu þýfinu strax eftir atvikið.
Kærði X hafi hinsvegar neitað allri sök og segist hann hafa verið heima hjá sér sofandi þegar þetta atvik hafi átt stað.
Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi og sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en meðal annars eigi eftir að yfirheyra sakborninga frekar, svo og að hafa upp á öðrum sakborningum og þýfinu.
Mál þetta sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus. Lögregla eigi enn eftir að finna tvo samverkamenn kærða í þessu máli og þá eigi ennþá eftir að finna allt þýfið sem stolið hafi verið umrætt sinn. Telji lögreglan því nauðsynlegt að hún fái nokkurra daga svigrúm til að reyna finna þessa aðila án þess að eiga hættu á því að kærðu torveldi það, auk þess sem þeir gætu komið þýfinu undan hafi það ekki þegar verið gert.
Málið sé enn á frumstigi en miðað við rannsókn lögreglu telji hún að ætluð brot teljist varða við 226. gr., 244. gr. eða 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verði ekki hjá því litið að um mjög grófa atlögu gegn brotaþola sé að ræða, sem framin hafi verið á sársaukafullan og meiðandi hátt og ráðist sé að honum á heimili hans. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Til rannsóknar er ætlað brot gegn 226. gr., 244. gr. eða 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er fallist á með lögreglu að brýnir hagsmunir séu fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar, enda geti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gangi hann laus. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina, eins og hún er fram sett. Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun skv. b- lið 1. mgr. 99. gr. laganna.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 3. júní 2009 kl. 16:00.
Kærði skal látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.