Hæstiréttur íslands
Mál nr. 62/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 5. febrúar 2007. |
|
Nr. 62/2007. |
Sýslumaðurinn á Selfossi(Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður) gegn X (Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. febrúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. febrúar 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var varnaraðili handtekinn er hann vitjaði póstsendingar, sem hafði að geyma gerviefni, en þar hafði því verið komið fyrir eftir að í sendingunni fundust 107,72 grömm af kókaíni. Er fram kominn rökstuddur grunur um aðild varnaraðila að þessum innflutningi, sem varðar fangelsisrefsingu ef sök sannast. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. febrúar 2007.
Sýslumaðurinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að kærði, X, [kt. og heimilisfang], en til dvalar að [heimilsfang], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 16. febrúar n.k. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að því verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að forsaga málsins sé sú að tollverðir hafi fundið mánudaginn 29. janúar sl., meint fíkniefni í hraðsendingu frá Guyana í húsnæði Fedex að Gjótuhrauni 4 í Hafnarfirði. Sendingin var stíluð á A, [kt. og heimlisfang]. Samkvæmt upplýsingum frá ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík, reyndist sendingin innihalda 107,72 gr. af kókaíni. Fíkniefnin voru fjarlægð, gerviefni sett í staðinn og sendingin hélt áfram sína leið. Sendinguna sótti kærði á pósthúsið í Hveragerði síðdegis í gær og var þá handtekinn af lögreglu.
Kærði hefur neitað að hafa staðið fyrir ofangreindum innflutningi á fíkniefnum. Við húsleit á dvalarstað hans fannst blá bók ofan á peningaskáp í bílskúr, sem kærði hefur játað að geymi samantekt um skuldir ýmissa aðila vegna fíkniefna sem hann útvegi þeim „þegar svo beri undir.“ Í peningarskápnum fundust ýmsir munir sem lögregla telur tengjast fíkniefnaviðskiptum.
Rannsókn lögreglu er nýhafin. Um verulegt magn fíkniefna sé að ræða og telur lögregla öruggt að þau hafi verið ætluð til dreifingar hérlendis. Eftir er að rannsaka bankareikninga X, símtöl og framkvæma efnarannsókn á hinum haldlögðu fíkniefnum. Hætt er við að kærði geti spillt rannsókninni með því að hafa samband við vitni eða aðra samseka, verði hann látinn laus áður en rannsókn verður lengra á veg komin.
Samkvæmt framburði kærða þá segist hann búa bæði hjá A bróður sínum í [heimilisfang] eða í [heimilisfang] en foreldrar hans búi þar. A hafi flutt að [heimilisfang] fyrir um ári en X hafi farið að dvelja hjá honum af og til fyrir um átta mánuðum síðan. Þá segir X að hann hafi verið að leysa út póstsendingu til A bróður síns en hann hefði skömmu áður komið við í [heimilisfang], og þar rekið augun í að A ætti þar tilkynningu um póst á pósthúsinu. Þar sem kærði hafi vitað að A væri í Reykjavík og myndi ekki geta sótt pakkann fyrir lokun pósthússins hefði hann tekið tilkynninguna og farið með hana í pósthúsið og fengið bréfið afhent. Hann hefði síðan verið handtekinn af lögreglunni þegar hann gekk út af pósthúsinu. Það hefði komið honum gjörsamlga á óvart. Kemur fram í framburði kærða að hann hafi fyrir 5-6 vikum pantað varning í tattú-byssur og fengið sent með Fedex en hann hefði látið senda tilkynninguna að [heimilisfang]. Kærði segir í lögregluskýrslu að hann eigi peningaskáp sem fannst við húsleit í [heimilisfang] en í honum voru munir eins og bók sem virtist innihalda samantekt um skuldir ýmissa aðila vegna fíkniefnaviðskipta. Sagði X að hann hefði útvegað félögum sínum, þegar svo bar undir, hass eða spítt.
Kærða er gefið að sök að hafa átt aðild að því að flytja inn 107,72 grömm af kókaíni sem tollverðir fundu þann 29. janúar sl., við leit í húsnæði Fedex að Gjótuhrauni 4, Hafnarfirði. Kom efnið með hraðsendingu frá Guyana. X neitar því að hafa staðið fyrir ofangreindum innflutningi og neitað að hafa vitað að það voru fíkniefni í pakkanum sem hann sótti á póshúsið í Hveragerði þann 31. janúar sl. Í gögnum málsins liggur fyrir að heima hjá kærða fundust ýmis gögn í læstum peningaskáp, sem talin eru tengjast fíkniefnum og hefur kærði játað að eiga þá muni ásamt nokkrum félögum sínum sem kærði neitaði að gefa upp nöfn á. Í peningaskáp þessum fundust meðal annars, marmara mortel, sogrör, hnífsblöð, tvær rúllur af plastfilmu, plastpokar með plastrennilás, plastlok með hvítum efnisleifum, þrjár grammavogir og áhöld sem tengjast fíkniefnaneyslu. Þá liggur fyrir í málinu að kærði fékk sendingu frá sama landi þann 19. desember 2006, stílaða á hann sjálfan að [heimilisfang] en ekki er vitað hvað kærði flutti inn í það sinn.
Rannsókn lögreglu er nýhafin eins og kemur fram í greinargerð hennar. Um verulegt magn fíkniefna sé að ræða og telur lögregla öruggt að þau hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hérlendis. Eftir sé að rannsaka bankareikninga X, símtöl og framkvæma efnarannsókn á hinum haldlögðu fíkniefnum. Allt þetta getur lögregla rannsakað þrátt fyrir að kærði sé ekki í gæsluvarðhaldi. Þá telur lögregla að kærði geti spillt rannsókninni með því að hafa samband við vitni eða aðra samseka, verði hann látinn laus áður en rannsókn verður lengra á veg komin en brot kærða varði við lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 173. gr. a almennra hegningalga nr. 19/1940 og varði fangelsisrefsingu ef sök telst sönnuð. Rannsóknin sé viðamikil og veruleg hætta á að kærði muni torvelda rannsóknina með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni og samseka.
Kærði er grunaður um brot sem geta varðað hann fangelsisrefsingu ef sök sannast. Kærði neitar sakargiftum en rannsóknargögn vekja sterkan grun um aðild hans að framangreindum broti. Eftir er að rannsaka hugsanlega samseka í málinu ásamt öðru sem tekið er fram í greinargerð lögreglu. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og verður að telja að hætta sé á því að kærði geti spillt rannsókninni með óskertu frelsi, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða þá sem hugsanlega eru samsekir. Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og verður krafa sýslumannsins á Selfossi tekin til greina, og skal kærði sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 9. febrúar n.k.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, [kt.], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. febrúar nk. kl. 16:00.