Hæstiréttur íslands
Mál nr. 48/2007
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Miskabætur
Fimmtudaginn 31. maí 2007.
Nr. 48/2007. Ákæruvaldið
(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)
gegn
Edward Apeadu Koranteng
(Brynjar Níelsson hrl.
Herdís Hallmarsdóttir hdl.)
Kynferðisbrot. Miskabætur.
E var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa þröngvað Y með ofbeldi til samræðis. Með vísan til framburðar Y, sem samrýmdist framburði vitnanna B og F, auk ýmsum eftirfarandi atvikum, þar á meðal breytingum á hegðun Y í kjölfar atburðarins, var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu E fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Var hann jafnframt dæmdur til að greiða Y 1.000.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða Y 1.200.000 krónur með vöxtum eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Til vara krefst hann sýknu, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að kröfu Y verði vísað frá héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Edward Apeadu Koranteng, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 435.021 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 5. september 2006 á hendur Edward Apeadu Koranteng, kt. 290585-2019, Eiríksgötu 17, Reykjavík, fyrir kynferðisbrot, með því að hafa í september 2005, á ofangreindu heimili sínu, með ofbeldi þröngvað Y, kt. [...], til samræðis.
Þetta er talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Einkaréttakrafa
Af hálfu Y er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 1.200.000, auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2005 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan var kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun við réttargæslu úr hendi ákærða að viðbættum virðisaukaskatti.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að honum verði tildæmd hæfileg málsvarnarlaun.
Þriðjudaginn 29. nóvember 2005 mætti á lögreglustöð X. Kvaðst hún mætt í þeim tilgangi að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart ólögráða dóttur sinni, Y. Kvað hún brotið hafa átt sér stað á heimili ákærða í kjallaraíbúð að Eiríksgötu 17 í Reykjavík. Í kærunni kom fram að Y hafi sagt systur sinni, A, frá því að ,,Eddi boy” hafi nauðgað henni á Eiríksgötu í september 2005. Í framhaldi af því hafi Y sagt X frá þeim atvikum málsins að hún hafi verið á Hlemmtorgi með bekkjarsystur sinni úr [...]skóla, B. Þær hafi hitt tvo þeldökka menn sem hafi boðið þeim að hlusta á tónlist. Þær hafi farið með mönnunum heim til þeirra að Eiríksgötu. Ákærði hafi læst Y inni í herbergi og síðan nauðgað henni. Á meðan hafi B verið inni í eldhúsi ásamt hinum manninum. Í kæruskýrslu kemur fram að B hafi tekið hljóð upp á gsm síma sinn þegar atburðurinn hafi átt sér stað. Y hafi tjáð móður sinni að það hafi blætt talsvert úr henni eftir atburðinn. Eftir hann hafi Y og B farið út úr íbúðinni og í Sundhöll Reykjavíkur. Þar hafi Y þrifið blóðið. X greindi frá því að Y hafi ritað bréf um atburðinn. Afhenti hún lögreglu bréfið. Kvaðst X hafa farið með dóttur sína á Neyðarmóttöku.
Í rannsóknargögnum málsins er handritað bréf sem undirritað er af Y. Er bréfið ódagsett. Þar rekur hún atburði þess dags er hún og B hafi hitt dökkan mann á Hlemmtorgi. Rekur hún hvernig maðurinn hafi boðið þeim heim til sín til að hlusta á tónlist. Eftir að hafa gengið eftir þeim hafi þær fallist á að fara með honum heim. Eftir að heim til hans kom hafi hann beðið þær um að setja gsm síma sína á hljótt og svara þeim ekki yrði hringt. Síðan hafi hann farið með Y inn í herbergi og læst hurðinni. Í framhaldi ,,gerir hann svoldið sem mer finnst mjög Erfitt að lísa = c hann ítti mer í sófann og birjaði að leysa frá buxunum mínum og þá varð ég skíthrædd og ætlaði að standa upp. Þá ítti hann mér á Rúmið og girti niðrum sig og hann var með smokk á sér og birjaði að stinga tippinu inn í mig og oftar og oftar og þetta var svo sárt hann var svo lengi að þessu.”
Rituð hefur verið skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á Y, sem framkvæmd var laugardaginn 26. nóvember 2005. Í skýrsluna er færð frásögn sjúklings. Þar kemur fram að Y hafi verið á Hlemmtorgi með B vinkonu sinni. Hafi hún setið á bekk er maður hafi tekið þær tali. Hafi hann boðið þeim heim til sín til að hlusta á tónlist. Þegar heim til hans kom hafi maðurinn og Y farið inn í herbergi en B orðið eftir frammi í stofu. Maðurinn hafi tekið af henni síma og læst herberginu. Hafi hann klætt hana úr fötum og káfað á brjóstum hennar og kynfærum. Hann hafi sennilega tekið smokk úr skáp. Hann hafi sett lim í leggöng en ekki væri vitað hvort honum hafi orðið sáðlát. Y hafi fundið fyrir miklum sársauka og hafi blætt í marga daga. Vinkona Y hafi komið inn í herbergið þegar hún hafi heyrt að Y var ýtt upp að vegg. Þær hafi komist út og farið upp í Sundhöll Reykjavíkur þar sem hún hafi farið á snyrtinguna. Hún hafi verið aum í nokkra daga í kringum leggangaopið og hafi aðeins blætt. Hún hafi verið leið og grennst um 14 kg á einum mánuði. Gangi henni verr í skóla. Í reiti fyrir frásögn sjúklings er einnig merkt við kynmök í leggöng, snertingu með getnaðarlim, káfað á kynfærum, brjóstum og rassi og fingur settur í leggöng. Loks er merkt við að smokkur hafi verið notaður. Í niðurstöðu læknis er fært að Y hafi komið á Neyðarmóttöku um 4 vikum eftir nauðgun. Sýni hún kreppuviðbrögð og einbeitingarskort. Hafi hún farið að gráta er hún hafi sagt frá atburðinum, en verið samvinnuþýð við skoðunina. Ekki sjáist rifur eða slíkt á ytri kynfærum eða við endaþarm. Við samtal og skoðun komi berlega í ljós að þessi unga stúlka hafi orðið fyrir miklu áfalli.
Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur í Barnahúsi hefur 15. nóvember 2006 ritað skýrslu vegna viðtala er hún hefur átt við Y. Er rakið að Barnaverndarnefnd Hveragerðis hafi 20. desember 2005 óskað eftir þjónustu Barnahúss fyrir stúlkuna vegna gruns um að hún hafi sætt kynferðislegu ofbeldi. Í skýrslunni kemur fram að Y hafi sótt 6 viðtöl til Vigdísar. Í niðurstöðu segir að viðtölin hafi leitt í ljós fjölmörg vandamál sem séu þekkt meðal barna sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi. Telpan uppfylli greiningarskilmerki áfallaröskunar auk vægrar depurðar. Fram hafi komið að miklar breytingar hafi orðið á líðan hennar haustið 2005 eða um líkt leyti og ætlað kynferðisbrot hafi átt að eiga sér stað. Sjálfsmat hennar sé lágt og skapsveiflur og einbeitingarerfiðleikar valdi henni talsverðum erfiðleikum í félagslegum samskiptum og námi. Þrátt fyrir að stúlkan hafi sótt viðtöl í rúmt hálft ár hafi ekki orðið merkjanlegar breytingar á líðan hennar. Ætla megi að hún muni um langt skeið glíma við afleiðingar hins kynferðislega ofbeldis er hún hafi sagt að hún hafi sætt.
Ákærði var boðaður til skýrslugjafar hjá lögreglu 14. desember 2005. Skýrði hann svo frá að í lok september 2005 hafi félagi ákærða, C, hringt í hann og sagt honum að fjórar stúlkur væru að hringja dyrabjöllu á íbúð ákærða að Eiríksgötu 17 í Reykjavík. Hafi það gerst nokkrum sinnum að stúlkurnar hafi hringt dyrabjöllunni en farið síðan. Þetta hafi orðið til þess að ákærði hafi farið úr vinnunni og upp á Eiríksgötu. Hafi hann séð stúlkurnar fela sig á bak við runna á Eiríksgötunni. Hafi hann tekið þær tali og þær komið inn í íbúðina. Fyrir í íbúðinni hafi verið C og vinur ákærða D. Hafi ákærði sagt við stúlkurnar að þær ættu ekki að vera þarna. Hafi hann jafnframt tjáð C að ekki ætti að hleypa stúlkunum inn ef þær skyldu banka. Stúlkurnar hafi viljað horfa á sjónvarpið og C sagt að þeir skyldu leyfa þeim það. Ákærði, C og D hafi farið inn í annað herbergi þar sem þeir hafi rætt saman. Stúlkurnar hafi horft á myndina til enda en síðan hafi ákærði sagt þeim að þær skyldu fara. Þær hafi farið í framhaldinu. Ákærði kvaðst hafa hringt í stúlkurnar nokkru síðar þar sem C hafi tjáð honum að þær væru sífellt að koma að dyrum heimilisins. Hafi ákærði hringt í gsm síma Y og sagt að stúlkurnar ættu ekki að koma að heimili ákærða. Þær hafi rofið sambandið en síðan hringt í ákærða úr heimasíma sínum. Hann hafi ítrekað að þær ættu ekki að koma heim til hans. Þá kvaðst ákærði vilja taka fram að hann hafi tjáð vinnuveitanda sínum að ef krakkar kæmu á vinnustað ákærða og spyrðu eftir honum ætti að vísa þeim á brott. Ákærði kvaðst neita því alfarið að hafa átt kynferðisleg samskipti við Y. Ákærði var inntur eftir því hvort hann væri kallaður gælunöfnum. Kvaðst hann vera kallaður ,,Body” og ,,Eddie boy” en það væri nafn er hann notaði varðandi rappflutning sinn.
Ákærði var á ný yfirheyrður hjá lögreglu 21. desember 2005. Kvaðst hann ekki vilja breyta fyrri framburði sínum. Var honum kynntur framburður er B gaf hjá lögreglu 29. nóvember 2005 um að hún, ásamt Y og F hafi verið staddar á Hlemmtorgi er þeldökkur maður hafi verið að ,,reyna við” einhverjar stelpur á Hlemmtorgi. Hafi B og vinkonur hennar ákveðið að fara með honum heim til hans í kjallaraíbúð rétt hjá Austurbæjarskóla. Kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa nálgast stúlkurnar á Hlemmtorgi eða að hafa boðið þeim heim. Þá var borin undir ákærða sá framburður B þar sem hún lýsti íbúðinni, að ákærði og Y hafi sest í sófa í herbergi, að ákærði hafi lokað herberginu, skipað B að fara fram og að ákærði hafi verið farinn að horfa á Y ,,kynferðislegum augum.” Ákærði kvað þennan framburð stúlkunnar ekki réttan. Ítrekaði hann að stúlkurnar hafi horft á myndband í einu herbergi en ákærði og félagar hans C og D verið í öðru. Ákærði ítrekaði að ekkert hefði verið á milli sín og Y. Þá var ákærða kynnt að framburður Y fyrir dómi hafi verið mjög á sömu lund um atvik og B. Ákærði kvað það ekki rétt, hann hafi ekkert gert við Y. Kvaðst ákærði enga skýringu hafa á því að Y væri að saka ákærða um kynferðisbrot. Hann kvað þó mögulegt að umfjöllun dagblaðsins DV þar sem ákærði hafi verið sakaður um kynferðisbrot hafi getað leitt til þessa, sem og umfjöllun um ákærða í tímaritinu Sirkus.
Ákærði var loks yfirheyrður hjá lögreglu 12. júní 2006. Kvað hann allt sem Y hefði sagt fyrir dómi vera ósatt. Þá var borinn undir ákærða framburður er F gaf hjá lögreglu 25. apríl 2006. Ákærði kvað þann framburð einnig rangan.
Fyrir dómi bar ákærði að einhver hefði hringt í farsíma sinn. Ákærði hafi ekki náð að svara símtalinu og verið ,,misst call” á símanum. Hafi ákærði hringt í númerið. Stúlka hafi svarað og sagst heita Y. Hana hafi ákærði ekki þekkt fyrir. Hafi hún spurt hann hvort hann væri ,,Eddi”. Ekki kvaðst ákærði vita hvernig stúlkan hefði fengið símanúmer sitt. Umræddur atburður hafi verið í september 2005 á milli kl. 12.00 og 15.00. Sama dag og þetta símtal hafi átt sér stað hafi stúlkan hringt dyrabjöllu á heimili ákærða. Hafi tvær aðrar stúlkur verið með henni í för. Ákærði hafi þá verið heima ásamt C og D. Hafi hann spurt stúlkurnar hvað þær vildu. Kvaðst ákærði telja að þær hafi komið í heimsókn vegna áhuga á þeirri hljómsveit er ákærði var í. Félagi ákærða hafi sagt að ekki væri viðeigandi að stúlkurnar stæðu fyrir utan húsið. Hafi þeim því verið boðið að koma inn. Hafi þau farið inn í herbergi íbúðarinnar. Þau hafi horft á myndband saman. Ákærði kvaðst á þessum tíma hafa búið að Eiríksgötu 17 í Reykjavík. Kvaðst hann ekki hafa átt nein kynferðisleg samskipti við Y. Þá kvaðst hann ekki minnast þess að hafa hitt Y eða vinkonur hennar á Hlemmtorgi og að hafa boðið þeim heim. Ákærði kvaðst vera meðlimur í hljómsveitinni Black Star. Umfjöllun hafi verið um hljómsveitina í blaðinu Sirkus 25. nóvember 2005. Þar hafi birst mynd af ákærða og hafi hann verið ber að ofan. Hljómsveitin hafi m.a. komið fram á veitingastaðnum Gaukur á Stöng, Stapa í Keflavík og Menntaskólanum í Kópavogi. Er ákærði væri í hljómsveitinni gengi hann undir nafninu ,,Eddi boy”.
Þriðjudaginn 20. desember 2005 var tekin skýrsla af Y á rannsóknarstigi málsins fyrir dómi í húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur. Y kvaðst hafa verið á Hlemmtorgi ásamt B og F, en ætlunin hafi verið að taka strætisvagn heim til Y. Þá hafi hún búið á heimili afa sinnar og ömmu að [...] í Reykjavík. Þetta hafi verið eftir hádegið. Ákærði hafi komið að þeim og boðið þeim heim til sín til að hlusta á tónlist. Mynd af ákærða hafi hún séð í blaðinu Sirkus, en hann hafi verið í hljómsveit sem hafi kallað sig Black Star. Þær hafi ákveðið að fara með honum heim. Er þær hafi verið komnar heim til ákærða að Eiríksgötu 17 hafi ákærði sýnt Y blað sem hafi sýnt fólk í samförum. Hafi ákærði sagt að myndirnar væru af honum og Y. Þá hafi hún orðið hrædd við að ákærði myndi gera eitthvað. Hann hafi í framhaldi spurt Y hvort hún vildi ,,gera eitthvað” og hún sagt nei. F hafi þá sagt Y að koma með sér í burtu. Ákærði hafi farið út úr herberginu og rætt við mann sem hafi verið frammi að vinna með mat. Hafi hann sagt manninum að halda B frammi. Sá hafi sennilega verið í sömu hljómsveit og ákærði. Ákærði hafi komið til baka, lokað hurð að herberginu og tekið til við að losa Y úr buxunum. Hún hafi skollið í vegg herbergisins og B þá komið inn í herbergið og spurt hvort ekki væri allt í lagi. Y hafi sagt ,,nei, eða svona jú”. B hafi farið aftur út úr herberginu og ákærði ýtt Y niður á glerborð. Hann hafi aftur reynt að losa Y úr buxunum og hún sagt við hann að hann ætti að hætta og reynt að ýta honum frá sér. Þá hafi ákærði sagt að þau skyldu horfa á ,,sexí mynd”. Hafi hún aftur sagt nei. Hann hafi í kjölfarið sett mynd í myndbandstækið er hafi sýnt konur sýna brjóst sín. Y bar að ákærði hafi í framhaldi farið ,,inn á klofið á mér...”. Hafi hún sagt honum að hætta. Hann hafi síðan ýtt Y í rúmið. B hafi þá komið inn í herbergið en ákærði sagt henni að þau ætluðu að ræða meira saman og sett eitthvað fyrir hurðarhúninn. Þá hafi ákærði verið búinn að klæða sig úr að ofan og verið í buxunum. Y kvaðst hafa verið í gallabuxum þennan dag og peysu. Er B hafi komið inn í herbergið hafi Y verið komin úr gallabuxunum og verið á nærbuxunum. Hafi hún haldið gallabuxunum yfir lærum sínum. Hún hafi þó verið í peysunni. Hafi hún setið á rúmstokknum. Hafi Y litið til B með augum sem hafi gefið til kynna að hún væri hrædd. Ákærði hafi sagt B að fara fram og síðan opnað skáp í herberginu. Hafi ákærði beðið hana um að fara úr fötunum en hún ekki viljað það. Hafi ákærði þá rifið hana úr fötunum. Í framhaldi hafi ákærði byrjað að ,,gera þetta og ég sagði þú meiðir mig bara.” Hafi ákærði nauðgað henni. Hafi henni fundist það vont og sagt hættu, hættu. Hafi hún legið á bakinu og ákærði verið ofan á henni. Hafi hann verið með smokk á getnaðarlim sínum. Hún hafi öll orðið í blóði við þetta. Hún hafi eftir þetta tínt föt sín saman og hlaupið út úr íbúðinni. B hafi hlaupið á eftir henni. Þær hafi farið í Sundhöll Reykjavíkur þar sem Y hafi þurrkað af sér blóð. Er Y var spurð að því hvort F hafi verið á vettvangi bar hún að hún hafi komið inn í íbúðina en svo farið. Hafi F sennilega tekið upp á síma hljóð í íbúðinni. Y kvaðst hafa séð ákærða aftur á menningarnótt. Hann hafi þá brosað til hennar en hún þá farið að gráta. Y kvaðst hafa sagt systur sinni frá þessum atburðum og í kjölfarið móður sinni. Y bar að sér liði illa eftir þessa atburði. Gréti hún. Kvaðst hún vilja reyna að gleyma þessum atburðum en gæti það ekki.
B kvaðst hafa verið stödd á Hlemmtorgi ásamt Y og F. Þær hafi tekið eftir því að þeldökkur maður hafi verið að reyna við stúlkur á Hlemmi. Hafi hann komið til stúlknanna og boðið þeim í samkvæmi. Hafi maðurinn talað ensku og kynnt sig sem ,,Eddie”. Þær hafi ákveðið að fara heim með honum í blokk rétt hjá Austurbæjarskóla. Tveir menn hafi verið fyrir í íbúðinni. Íbúðin hafi samanstaðið af eldhúsi, baðherbergi, litlum gangi og tveimur herbergjum. Er þau hafi komið að húsinu hafi F hlaupið í burtu. Annað hvort B eða Y hafi hringt í hana og fengið hana til að koma til baka. Hafi F verið með þeim eftir þetta í íbúðinni. Tveir mannanna hafi verið í eldhúsinu, en ákærði og Y sest í sófa í herbergi ákærða. Þau hafi öll horft á myndband. Hjá lögreglu bar B að þá hafi ákærði verið farinn að horfa á Y ,,kynæsandi augum” Ákærði hafi beðið B og F um að fara fram. F hafi þá farið fram en B ekki viljað það í fyrstu. Hún hafi þó farið fram eftir stutta stund. Ákærði hafi þá lokað herberginu. B kvaðst ekki hafa þorað öðru en að fara fram. Hafi hún ekki viljað lenda í klandri og því farið út. Stuttu síðar hafi hún bankað á dyr herbergisins en ákærði sagt henni að koma ekki inn. Hún hafi engu að síður opnað herbergisdyrnar. Um leið og hún hafi komið inn hafi ákærði gengið frá Y. Ákærði hafi þá verið ber að ofan og búinn að hneppa frá buxnaklaufinni. Hafi hann verið húðflúraður með kross á vinstri öxl. Hafi hún séð af bungu á nærbuxum hans að ákærði hafi verið með reistan liminn. Y hafi setið buxnalaus í sófa og ríghaldið buxunum ofan á lærum sínum. Hafi B haft það á tilfinningunni að Y hafi verið neydd úr buxunum. Hafi hún séð að Y hafi verið dauðhrædd en hún hafi verið með tár í augunum. Hjá lögreglu bar B að hún hafi spurt Y hvort hún vildi ekki koma með sér en Y ekki þorað það. B kvaðst hafa farið aftur fram á gang og inn í hitt herbergið. Þá bar hún hjá lögreglu að hún hafi heyrt skarkala úr því herbergi er Y og ákærði hafi verið inn í eins og einhver hafi verið að lemja fast á glerborð. Hafi hún heyrt Y segja a.m.k. fimm sinnum ,,hættu, hættu núna.” Hafi hún sömuleiðis heyrt að Y leið illa. Um hálfri klukkustund síðar hafi Y komið fram grátandi en fullklædd. Þær hafi farið út og að Sundhöll Reykjavíkur, en Y hafi viljað kanna hvort blóð væri í nærbuxum. Eftir það hafi þær farið heim til Y að [...]. F hafi þá farið heim til sín. Atburðirnir hafi átt sér stað á um miðjan dag. B bar hjá lögreglu að síðar hafi Y sagt henni að ákærði hafi níðst á henni á Eiríksgötunni. Ekki hafi hún greint frá því í hverju það hafi verið fólgið en haft það á tilfinningunni að hann hafi nauðgað Y. Kvaðst B hafa ráðlagt Y að segja móður sinni frá þessu en hún ekki þorað það.
F greindi frá atvikum bæði hjá lögreglu, sem og fyrir dómi. Var skýrsla hennar hjá lögreglu nokkuð ítarlegri en fyrir dóminum, en hún kvaðst í upphafi skýrslutökunnar fyrir dómi vilja vísa til lögregluyfirheyrslunnar. Fram kom að hún, Y og B, hafi verið á Hlemmtorgi um kl. 16.00 dag einn haustið 2005. Þar hafi þær hitt þeldökkan mann sem hafi sagt að hann héti Edward. Kvaðst hann vera í rapphljómsveit og vera frá Jamaíku. Hafi hann boðið þeim heim til sín. Stúlkurnar hafi verið tregar til en þó fallist á það. Þær hafi allar farið heim til ákærða, en hann hafi búið í kjallaraíbúð í nágrenni við Austurbæjarskóla. Er þau hafi verið kominn inn í stigagang hússins hafi F heyrt einhverja menn tala ensku. Hafi hún orðið hrædd og hlaupið út um aukadyr inn á baklóð. Hafi hún falið sig við Austurbæjarskóla. Stelpurnar hafi hringt í sig og talað við sig í smá stund. Hafi þær báðar hvatt hana til að koma til baka. Hafi F þá farið til baka og aftur inn í íbúðina. Í herbergi ákærða hafi fyrir verið ákærði, Y og B. Í herberginu hafi verið sjónvarp, hljómflutningstæki, borð, sófi og amerískt rúm. Tveir þeldökkir menn hafi verið frammi í eldhúsi íbúðarinnar. Rétt eftir að F hafi verið komin inn hafi ákærði og eldri þeldökki maðurinn spurt þær að því hvað þær væru gamlar. Kvaðst F hafa sagt þeim að hún væri 12 ára en Y og B sagt að þær væru 14 ára. Ákærði hafi rætt eitthvað við Y inni í herberginu. Hafi F tekið eftir því að klámblað hafi verið á borði herbergisins. Hafi Y spurt ákærða að því hvað hann væri að gera með blaðið. Hafi hann svarað því til að hann ætti ekki blaðið. Hann hafi því næst opnað blaðið og bent á mynd og sagt að ein myndin væri af ákærða og Y. Myndin hafi verið af nöktum karlmanni og nakinni konu í samförum. Kvaðst F hafa tekið eftir því að Y varð hrædd við þetta. Ákærði hafi farið fram til hinna mannanna og því næst komið til baka. Hafi hann sagt B og F að fara í annað herbergi og horfa á sjónvarp. Það hafi þær gert. Er þær hafi verið búnar að sitja þar smá stund hafi þær heyrt bank frá herberginu líkt og verið væri að berja í hurð. Kvaðst F hafa orðið mjög hrædd við það. Þær B hafi beðið í smá stund og B því næst farið inn í herbergi til Y. Hún hafi komið stuttu síðar til baka og verið mjög hrædd. Hafi F spurt hana hvað væri um að vera og B sagt að hún hafi séð ákærða yfir Y í sófanum. Hafi Y verið buxnalaus. Hafi B sagt að Y væri hrædd eins og hún vissi ekki hvað væri í gangi. F og B hafi rætt um hvort þær gætu ekki gert eitthvað og F tekið upp símann og látið sem hún væri að svara móður sinni. Hafi hún sagt upphátt að þær væru að koma heim í mat. Þær hafi farið og bankað á herbergisdyrnar hjá Y. Ákærði hafi svarað stuttu síðar og sagt að þær mættu koma inn. Er þær hafi komið inn í herbergið hafi Y setið samanhnipruð í sófa og verið í stuttermabol einum fata. Ákærði hafi verið við hliðina á Y. Ákærði hafi verið í nærbuxum en ber að ofan. Þær hafi allar farið út og Y verið með tárin í augunum. Fram hafi komið hjá Y að ákærði hafi haft samfarir við hana gegn vilja hennar. Hafi Y verið illt í klofinu og sagt að hún þyrfti að fara á snyrtingu. Þær hafi gengið fram hjá Sundhöll Reykjavíkur og séð lögreglumann vera að handtaka mann þar við sjoppuna. Aðspurður hafi lögreglumaðurinn sagt að viðkomandi hafi verið að ræna happaþrennum. Y hafi í Sundhöllinni greint frá því sem ákærði hafi gert við hana. Fyrir dómi bar F að hún hafi farið heim með Y en hjá lögreglu bar hún að hún hafi farið heim til sín eftir að hafa kvatt Y og B við Sundhöllina. Hjá lögreglu greindi F frá því að um viku eftir þennan atburð hafi þær Y verið á ferð saman í miðbænum. Þær hafi farið á veitingastaðinn Apótekið í Austurstræti og Y farið á snyrtinguna. Hafi F séð ákærða þar við vinnu og bent Y á hann er hún hafi komið fram. Y hafi brugðið verulega er hún hafi séð ákærða. Hafi þær drifið sig út.
A, systir Y, bar fyrir dómi að í nóvember 2005 hafi systir hennar greint henni frá því að maður, sem gengið hafi undir nafninu ,,Eddi boy”, hafi nauðgað henni í kjallaraíbúð. Hafi Y lýsti því þannig að hún, ásamt B og F, hafi verið á Hlemmtorgi. Þar hafi hún hitt mann sem hafi boðið þeim að koma heim til sín. Hafi þær færst undan en að lokum ákveðið að þiggja boðið. Þær hafi farið heim til mannsins. F hafi farið af staðnum fljótlega en komið aftur. Á staðnum hafi maðurinn rifið fötin utan af sér, hent sér í sófa og ,,sofið hjá sér.” Y hafi grátið er hún hafi sagt systur sinni frá þessu. A kvað sér hafa brugðið við þetta. Ekki hafi systir hennar greint henni frekar frá málavöxtum en hún hafi fengið hana til að segja móður sinni frá þessu. A kvað systur sína hafa breyst mjög við þetta. Hafi hún farið að hata líf sitt og tekið til við að leysa alla hluti með ofbeldi. Hún hafi orðið þunglynd og grennst mjög mikið.
X, móður Y, kvað eldri dóttur sína, A, hafa komið að máli við sig og sagt að hún þyrfti að ræða við Y. Hafi X farið til dóttur sinnar inn í herbergi og rætt við hana þar. Þar hafi Y verið niðurbrotin og tjáð móður sinni frá því að hún hafi verið á Hlemmtorgi. Þar hafi henni verið boðið heim til manns. Er þangað kom hafi einn maður verið fyrir í eldhúsi íbúðarinnar og annar í herbergi. Maðurinn sem Y hafi farið heim með hafi sýnt henni klámmyndablað og sagt að á einni myndinni væri hann og hún. Í framhaldi þessa hafi maðurinn ýtt henni niður í rúm í herberginu og nauðgað henni. X kvaðst nú sitja uppi með ,,ónýtt barn”. Væri dóttirin nú fallin út úr öllum skólum, vildi svipta sig lífi oft í viku og hafi grennst um nærri 30 kg. Þá væri hún nú byrjuð að reykja. Fyrir þennan tíma hafi dóttirin verið saklaus, feimin og hlédræg stúlka. Kvaðst X hafa tekið eftir að stúlkan hafi verið meira döpur áður en hún hafi greint frá þessu en talið að rekja mætti það til þess að systir Y hafi orðið fyrir áfalli. X kvað dóttur sína hafa orðið fyrir einelti í skóla í Hveragerði þar sem þær hafi búið. Í tengslum við það hafi verið ákveðið að Y færi í skóla í Reykjavík og hafi hún á meðan búið hjá ömmu sinni og afa.
D bar að í september á árinu 2005 hafi stúlka hringt í ákærða þegar hann hafi verið á heimili sínu að Eiríksgötu 17 í Reykjavík. Stúlkan hafi beðið um að fá að koma í heimsókn. Stuttu síðar hafi dyrabjöllu verið hringt og þrjár ungar stúlkur staðið fyrir utan og viljað fá að koma inn. Ákærði hafi heimilað þeim það. C, vinur þeirra, hafi hins vegar viljað að stúlkurnar færu af heimilinu. Stúlkurnar, ákærði og D, hafi farið inn í herbergi ákærða í stutta stund. Hjá lögreglu greindi D frá því að ákærði hafi beðið stúlkurnar um að fara og þær yfirgefið húsnæðið í kjölfarið. Fyrir dómi bar hann hins vegar að hringt hafi verið í eina stúlkuna og þær allar farið skömmu síðar. D kvaðst á þessum tíma hafa búið í Hafnarfirði og komið á heimili ákærða stundum tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Ákærði hafi verið með kærustu á þessum tíma og D stundum hitt hana á Eiríksgötunni. Ekki kvaðst D vita hvað stúlkurnar þrjár hafi viljað ákærða. Hafi þær sagt að þær væru vinir ákærða og hlustað á tónlist í herbergi ákærða. Hafi þær verið í herberginu í tíu til tuttugu mínútur.
Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur staðfesti fyrir dómi skýrslu er hún hefur ritað og varðar Y. Lýsti hún þeim viðtölum er hún hefur átt við Y og niðurstöðum skýrslunnar.
Niðurstaða:
Y hefur skýrt frá atvikum með trúverðugum hætti. Samrýmist framburður hennar í öllum atriðum, sem máli skipta, framburðum B og F. Engum vafa er undirorpið að stúlkurnar eru að greina frá raunverulegum atburðum sem sett hafa mark sitt á þær. Ákærði hefur hins vegar orðið margsaga um tildrög þess að stúlkurnar komu á heimili hans að Eiríksgötu 17 haustið 2005 og hvaða kynni hann hafði haft af þeim áður. Vitnið D kom fyrir dóminn. Framburður vitnisins var óljós og á reiki og óvíst hvort vitnið bar um það atvik sem hér um ræðir eða heimsókn annarra stúlkna á Eiríksgötu 17 á öðrum tíma.
Y, B og F ber saman um að ákærði hafi verið einn í herbergi með Y í nokkurn tíma. Framburður Y og B er samhljóða um að B hafi komið inn í herbergið og séð Y vera komna úr buxum. Y hafi verið hrædd. Eftir að hún hafi lokað herberginu að skipan ákærða hefur B borið að hún hafi heyrt að Y bað ákærða ítrekað um að ,,hætta”. Samkvæmt framburði B og F komu þær síðar að Y í herberginu og var ákærði þá fáklæddur, nærbuxur Y á gólfinu og hún miður sín.
Að virtum framangreindum lýsingum stúlknanna á atvikum að Eiríksgötu 17 umræddan dag verður að hafna sem röngum þeim framburði ákærða um að hann hafi aldrei verið einn í herbergi með Y og að engin kynferðisleg samskipti hafi átt sér stað milli þeirra. Lýsing Y á því sem gerðist í herberginu fær hins vegar stoð í framburði B og F sem og ýmsum eftirfarandi atvikum, þar á meðal breytingum á hegðun Y í kjölfar atburðarins. Leikur því enginn vafi á því að Y upplifði alvarlega atburði í herberginu og varð fyrir áfalli af þeim sökum. Ungur aldur Y mælir einnig gegn því að ítarleg lýsing hennar á því sem gerðist í herberginu sé annað en rétt. Við þessar aðstæður telur dómurinn að leggja verði til grundvallar frásögn Y af atburðum í herberginu. Telst því sannað að ákærði hafi í umrætt sinn þröngvað Y til samræðis við sig.
Samkvæmt framangreindu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í maí 1985. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, svo kunnugt sé. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir alvarlegt kynferðisbrot gagnvart 14 ára stúlku. Neytti hann bæði aldurs- og aflsmunar við brotið. Á hann sér engar málsbætur. Brot ákærða var ófyrirleitið og til þess fallið að valda stúlku á viðkvæmum aldri verulegum skaða. Með vísan til þessa, sbr. og 1., 2. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing hans ákveðin fangelsi í þrjú ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald ákærða frá 14. desember 2005 til 22. desember 2005.
X hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar Y. Er krafist bóta að fjárhæð 1.200.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að stúlkan hafi verið ung að aldri er atburðurinn hafi átt sér stað og reynslan henni þungbær. Sæki atburðurinn mjög á stúlkuna og trufli daglegt líf hennar. Hafi hún strítt við átröskun, verið mjög þunglynd, en fyrir atburðinn hafi hún ekki kennt sér neins meins. Brotið hafi átt sér stað á viðkvæmum aldri stúlkunnar í kynferðisþroska. Þá hafi brotið haft í för með sér neikvæð áhrif á geðheilsu og félagslega aðlögun stúlkunnar, skaðað sjálfsmynd hennar og dregið úr sjálfstrausti. Muni verknaðurinn setja mark sitt á líf stúlkunnar. Um lagarök er vísað til 26. gr. laga nr. 50/1993.
Með vísan til þess er hér að framan er rakið, sem og vottorðs Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings, er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið Y. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.
Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir fulltrúi ríkissaksóknara.
Símon Sigvaldason héraðsdómari, sem dómsformaður, Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari og Skúli Magnússon héraðsdómari kváðu upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Edward Apeadu Koranteng, sæti fangelsi í þrjú ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald ákærða frá 14. desember 2005 til 22. desember 2005.
Ákærði greiði Y, 1.000.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. október 2005 til 12. júlí 2006, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 750.228 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Herdísar Hallmarsdóttur héraðsdómslögmanns, 514.932 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 175.296 krónur.