Hæstiréttur íslands
Mál nr. 262/1998
Lykilorð
- Varnir gegn mengun sjávar
- Förgun skips
- Lögskráning
|
|
Fimmtudaginn 11. mars 1999. |
|
Nr. 262/1998. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Bjarna Andréssyni og (Kristján Stefánsson hrl.) Tryggva Ársælssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Varnir gegn mengun sjávar. Förgun skips. Lögskráning.
B og T voru ákærðir fyrir að hafa dregið skipsskrokk í eigu B úr fjöru, þar sem hann hafði legið árum saman, út á Tálknafjörð og sökkt honum þar. Yfirvöld höfðu höfðað mál á hendur B til að fá hann dæmdan til að fjarlægja skrokkinn að viðlögðum dagsektum. Talið var að þeir B og T hefðu hlotið að sjá það fyrir sem langlíklegustu afleiðingu af flotun og drætti skipsskrokksins að hann sykki. Voru þeir sakfelldir fyrir brot á lögum um varnir gegn mengun sjávar auk þess sem T var sakfelldur fyrir brot gegn siglingalögum og lögum um lögskráningu sjómanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. júní 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds. Ríkissaksóknari krefst þess, að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og refsing þeirra þyngd frá því sem ákveðið var í héraðsdómi.
Ákærðu krefjast aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds en til vara að refsing verði milduð.
I.
Í máli þessu er ákærðu gefið að sök að hafa að kvöldi 15. nóvember 1997 dregið skipsskrokk Þryms BA 7, sem var um 200 brúttórúmlesta stálskip, með farþegabátnum Lindu, skipaskrárnúmer 1479, sem er tæplega 23 brúttórúmlestir, úr fjöru við athafnasvæði Vélsmiðjunnar Skanda ehf. út á Tálknafjörð og sökkt honum þar. Telst þetta varða við 1. mgr. 13. gr., sbr. 27. gr., laga nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar. Voru ákvæði þessi mótuð með hliðsjón af efni alþjóðasamninga á þessu sviði, sem Ísland er aðili að. Héraðsdómur taldi, að um vítaverða vanrækslu hefði verið að ræða af hálfu ákærðu og sakfelldi þá fyrir brot gegn 13. gr. laganna, sem kveður á um það, að allt úrkast efna og hluta í hafið sé óheimilt. Í 3. tl. 3. gr. laganna er hugtakið úrkast skilgreint á þann veg, að það merki „allt það sem ekki er losun, þ.e. að efnum eða hlutum er vísvitandi fleygt í sjóinn frá skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum á sjó, þar með talið að sökkva skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum í sjó“. Samkvæmt þessu nægir gáleysi ekki til sakfellis heldur er gerður áskilnaður um ásetning.
II.
Í héraðsdómi er því lýst, að ákærði Bjarni keypti skipið Þrym BA 7 árið 1989, en það hafði verið úrelt og tekið af skipaskrá 1986. Var skipinu siglt upp í fjöru á hafnarsvæði Tálknafjarðarhrepps, við athafnasvæði Vélsmiðju Tálknafjarðar hf., síðar Skanda ehf., fyrirtækis í eigu ákærða Bjarna. Fyrirsvarsmenn hreppsins kröfðust þess ítrekað, að skipið yrði fjarlægt, og höfðu þeir í ágúst 1995 fengið tilboð í niðurrif skipsins að fjárhæð 1.900.000 krónur, og var flutningur þess ekki innifalinn. Með lögum nr. 61/1996 um breyting á lögum nr. 32/1986 var með öllu bannað að farga skipum með því að sökkva þeim. Að endingu höfðaði hreppurinn mál á hendur ákærða Bjarna í apríl 1997 til viðurkenningar á skyldu hans til að fjarlægja skipið, að viðlögðum dagsektum. Átti aðalmeðferð í því máli að fara fram 26. nóvember sama ár.
Að kvöldi 15. nóvember hófst ákærði Bjarni handa um að losa skipið úr fjörunni, þar sem það hafði legið óhirt í rúm 8 ár, en búið var að fjarlægja allar vélar úr skipinu, skrúfu þess og stýri og loka fyrir stefnisrör. Til aðstoðar fékk hann með stuttum fyrirvara ákærða Tryggva skipstjóra á Lindu. Taug var sett milli skipanna og var ákærði Tryggvi fyrst einn um borð í Lindu, sem togaði í Þrym. Ákærði Bjarni var í landi á skurðgröfu og ýtti á skipið og „juggaði“ því til með skóflu gröfunnar. Tókst með þessum hætti að losa það. Hvorugur ákærðu kannaði ástand skipsbolsins áður en hann var losaður úr fjörunni og ekki heldur eftir að hann var kominn á flot, en sérstakrar aðgæslu var þörf í ljósi þess hve lengi skipið hafði legið í fjörunni.
Ákærði Bjarni bar fyrir dómi, að hann hefði ætlað að flytja skipsskrokkinn til bráðabirgða upp í fjöru í Stóra-Laugardal við norðanverðan Tálknafjörð. Er sú frásögn með miklum ólíkindabrag. Engin gögn liggja fyrir um undirbúning flutningsins eða viðbúnað í Stóra-Laugardal til móttöku skipsins í fjörunni. Ekkert var tilkynnt um fyrirhugaðan drátt skipsins og yfirvöldum var ekki tilkynnt, að skipið hefði sokkið. Við upphaf lögreglurannsóknar 17. nóvember 1997 neitaði ákærði Bjarni að gefa upplýsingar um málið, og við yfirheyrslur hjá lögreglu 20. og 21. nóvember sagðist hann aðeins hafa fjarlægt skipsskrokkinn en vildi ekki tjá sig um afdrif hans. Það var ekki fyrr en 24. nóvember, 9 dögum eftir að skipið sökk, þegar landhelgisgæslan hafði hafið leit að skipinu, að hann skýrði lögreglunni frá því, hvar skipið hefði sokkið.
Í ljósi allra aðstæðna og þeirrar leyndar, sem einkenndi háttsemi ákærðu, þykir flest benda til þess, að það hafi verið ákvörðun þeirra fyrirfram að sökkva Þrymi BA 7. Varhugavert er þó, eins og sönnunargögnum er háttað, að slá því alveg föstu að svo hafi verið. Hins vegar er ljóst, að ákærðu hafi báðir hlotið að sjá það fyrir sem langlíklegasta afleiðingu af flotun og drætti skipsins að það sykki, yrðu frekari ráðstafanir ekki gerðar. Þrátt fyrir þetta hófu þeir við svo búið að draga skipið frá landi með þeim afleiðingum, að það fór fljótlega að síga og sökk síðan. Samkvæmt þessu verða ákærðu sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 13. gr. laga nr. 32/1986.
Staðfest er afgreiðsla héraðsdóms um sakfellingu ákærða Tryggva fyrir brot á 6. gr., sbr. 239. gr. siglingalaga nr. 34/1985, og 6. gr., sbr. 2. gr. og 17. gr. laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna.
Við ákvörðun refsingar er vísað til forsendna héraðsdóms, en ekki er fram komið, að olía eða önnur hættuleg efni hafi verið í skipinu er það sökk. Þykir refsing ákærða Tryggva hæfilega ákveðin í héraðsdómi, en refsing ákærða Bjarna þykir hæfilega ákveðin 2.500.000 krónur í sekt í Mengunarvarnarsjóð, sbr. reglugerð nr. 198/1991.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði Bjarni Andrésson greiði 2.500.000 króna sekt í Mengunarvarnarsjóð innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 5 mánuði.
Ákærði Tryggvi Ársælsson greiði 500.000 króna sekt í Mengunarvarnarsjóð innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 60 daga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði Bjarni greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Ákærði Tryggvi greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Ákærðu greiði annan áfrýjunarkostnað óskipt, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 100.000 krónur.
Dómur héraðsdóms Vestfjarða 4. maí 1998.
Ár 1998, mánudaginn 4. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Vestfjarða, sem háð er í Dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara, sem dómsformanni og meðdómsmönnunum Finni Torfa Hjörleifssyni héraðsdómara og Agnari Erlingssyni skipaverkfræðingi kveðinn upp dómur í málinu nr. S-1/1998: Ákæruvaldið gegn Bjarna Andréssyni og Tryggva Ársælssyni, sem tekið var til dóms 7. apríl síðastliðinn, að loknum munnlegum málflutningi.
Málið höfðaði Ríkislögreglustjóri með ákæru dagsettri 27. janúar 1998 á hendur ákærðu, Bjarna Andréssyni, fæddum 24. júní 1938, Miðtúni 18, Tálknafirði, og Tryggva Ársælssyni, fæddum 14. ágúst 1965, Bugatúni 14, Tálknafirði, til refsingar fyrir ætlað brot á 1. mgr. 13. gr., sbr. 27. gr. laga nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar ,,með því að hafa að kvöldi laugardagsins 15. nóvember 1997 dregið skipsskrokk Þryms B.A. 7, á farþegaskipinu Lindu, skipaskrárnúmer 1479, úr fjöru við athafnasvæði Vélsmiðjunnar Skanda hf., við Strandgötu 39, á Tálknafirði út á Tálknafjörð og sökkt skipskrokknum á stað 65°38,385N - 023°53,823V.“
Þá er ákærða Tryggva jafnframt gefið að sök brot á 6. gr., sbr. 239. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og 6. gr., sbr. 2. gr. og 17. gr. laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna ,,með því að hafa farið í framangreinda sjóferð, á farþegaskipinu Lindu, skipaskrárnúmer 1479, 22,57 brúttórúmlestir, 13,44 metra að lengd með 316 kílówatta vél, án þess að láta lögskrá áhöfn á skipið.“
Ákærðu halda uppi vörnum í málinu og krefjast sýknu af kröfum ákæruvalds.
I.
Vorið 1989 keypti ákærði Bjarni vélskipið Þrym af Hraðfrystihúsi Patreksfjarðar hf. til niðurrifs. Þrymur, sem var tæplega 200 brúttórúmlesta stálskip, hafði áður borið umdæmistöluna BA 7 og skipaskrárnúmer 999, en var úrelt 1986 og tekið af skipaskrá. Ákærði færði skipið úr Patrekshöfn til Tálknafjarðar, þar sem því var siglt upp í fjöru á hafnarsvæði Tálknafjarðarhrepps, við athafnasvæði Vélsmiðju Tálknafjarðar hf., síðar Skanda ehf., fyrirtækja í eigu ákærða. Fyrirsvarsmenn hreppsins gerðu fljótlega athugasemdir við legu skipsins og kröfðust þess ítrekað á næstu árum á eftir að það yrði fjarlægt. Fór svo í apríl 1997, að hreppurinn höfðaði einkamál fyrir Héraðsdómi Vestfjarða á hendur ákærða Bjarna til viðurkenningar á skyldu hans til að fjarlægja skipið, að viðlögðum dagsektum. Í þinghaldi í september 1997 var ákveðin aðalmeðferð í því máli er fram skyldi fara 26. nóvember s.á. Áður en til hennar kom gerðist það laugardaginn 15. nóvember, að skipið var dregið úr fjöru við athafnasvæði Skanda, án þess að upplýst væri um afdrif þess. Varð sá atburður kveikja að opinberri rannsókn, sem leiddi til útgáfu ákæru í máli þessu. Verður nú rakið það helsta í rannsókninni (II), því næst gerð grein fyrir dómsframburði ákærðu og vitna (III) og loks greindar röksemdir og niðurstöður fjölskipaðs dóms í málinu (IV-V).
II.
Laust eftir hádegi mánudaginn 17. nóvember 1997 fór Jónas Sigurðsson aðalvarðstjóri lögreglunnar á Patreksfirði við annan mann til Tálknafjarðar, en þá hafði farið á kreik kvittur um að ákærði Bjarni hefði laugardagskvöldið áður dregið bol vélskipsins Þryms á haf út og sökkt honum með aðstoð farþegaskipsins Lindu, skipaskrárnúmer 1479. Samkvæmt opinberri skráningu er Linda eign Bjargsýnar ferðaþjónustu, einkahlutafélags í eigu ákærða Bjarna. Þrátt fyrir eftirgrennslun lögreglu tókst ekki að afla frekari upplýsinga um afdrif Þryms. Þó mun ákærði hafa staðfest, í óformlegum viðræðum við lögreglu, að skipið hefði verið fært úr fjörunni, án þess að hann upplýsti frekar um afdrif þess.
Með bréfi Hollustuverndar ríkisins til Sýslumannsins á Patreksfirði, dagsettu 19. nóvember 1997, var krafist opinberrar rannsóknar á afdrifum Þryms BA 7, en samkvæmt heimildum Hollustuverndar hefði bolur skipsins verið dreginn úr fjöru í Tálknafirði og út á fjörðinn með aðstoð Lindu, sem síðan hefði lagst við bryggju að nýju um klukkustund síðar. Fram kemur í bréfinu og fylgigögnum með því, að förgun Þryms hefði lengi verið þrætuepli og að af hálfu heilbrigðisyfirvalda á staðnum hefði verið lagt hart að ákærða Bjarna á umliðnum árum að farga skipinu á viðeigandi hátt. Þá segir í bréfinu, að ákærði hefði margsinnis verið búinn að sækja um leyfi til að sökkva skipinu, en ætíð verið synjað, enda hefði slík förgun skipsins verið skýlaust brot á lögum nr. 32/1986, að mati Hollustuverndar.
Björn Óli Hauksson sveitar- og hafnarstjóri Tálknafjarðarhrepps gaf skýrslu fyrir lögreglu á Patreksfirði miðvikudaginn 19. nóvember 1997. Björn kvaðst ekki vita hvað orðið hefði af skipinu og sagðist fyrst hafa tekið eftir því sunnudaginn 16. s.m. að það væri horfið. Björn kvaðst eftir það hafa hitt ákærða Bjarna að máli og innt hann eftir afdrifum skipsins. Ákærði hefði verið svarafár og aðeins sagt að skipið væri farið.
Ákærði Bjarni var yfirheyrður af lögreglu fimmtudaginn 20. nóvember 1997. Hann kvaðst umrætt laugardagskvöld hafa fjarlægt bol skipsins á stórstraumsflóði og við verkið hafa notað farþegaskipið Lindu, sem hann hefði haft aðgang að. Ákærði vildi ekki upplýsa hver eða hverjir hefðu aðstoðað hann við verkið. Hann kvað skipsbolinn vera á stað, þar sem hann myndi hvorki skaða náttúru og lífríki né valda hættu fyrir sjófarendur. Ákærði vildi að öðru leyti ekki tjá sig um afdrif skipsins.
Sama dag lét varðskipið Ægir úr höfn í Hafnarfirði með fyrirmæli um að sigla vestur og aðstoða lögreglu við leit að hinu horfna skipi. Varðskipið sigldi inn á Patreksfjörð að morgni föstudagsins 21. nóvember. Skömmu síðar hófst skipuleg leit á Tálknafirði að vélskipinu Þrym, með aðstoð m/b Hítarár BA 55, sem lögreglan á Patreksfirði hafði tekið á leigu í þágu rannsóknar málsins. Leit var hætt síðdegis og ákveðið að fá til hennar málmleitartæki að sunnan, í eigu Landhelgisgæslunnar.
Ákærði Bjarni var yfirheyrður að nýju á Patreksfirði að kvöldi föstudagsins 21. nóvember og kynnt, að væntanlegur kostnaður vegna fyrirhugaðrar leitar að flaki Þryms yrði færður sem málskostnaður. Ákærði mótmælti því harðlega og kvað engin haldbær rök fyrir hendi, sem réttlættu leit að skipinu. Fleira kvaðst ákærði ekki vilja um málið segja.
Árla morguns mánudaginn 24. nóvember létu varðskipið Ægir og Hítará úr höfn á Patreksfirði og hófu um kl. 08:40 leit á Tálknafirði, sem stóð fram til kl. 19:05.
Ákærði Bjarni mætti ótilkvaddur á lögreglustöðina á Patreksfirði kl. 20:39 sama kvöld. Hann skýrði svo frá, að hann hefði greint sinn dregið bol Þryms á stórstraumsflóði úr fjörunni við athafnasvæði Skanda og notað til þess farþegaskipið Lindu. Vel hefði gengið að koma bolnum á flot. Í fyrstu hefði verið fylgt hefðbundinni siglingaleið út Tálknafjörð, en ætlunin hefði verið að koma Þrym fyrir í fjöru fyrir neðan jörðina Laugardal við Tálknafjörð. Er skipin hefðu verið stödd um 3-400 metra frá landi, rétt innan við svokallaða Deild, hefði Þrymur skyndilega byrjað að síga í sjó og skipið síðan sokkið á 40-50 metra dýpi. Ákærði færði inn á sjókort líklega staðsetningu skipsflaksins. Aðspurður kvaðst hann ekki fyrr hafa talið ástæðu eða lagaskyldu til að upplýsa um afdrif Þryms, en í ljósi víðtækrar leitar og mikils umstangs hefði hann nú talið rétt að láta lögreglu vita af flakinu til að koma í veg fyrir frekari vandræði. Ákærði kvað hvorki olíu né önnur spilliefni hafa verið í skipinu er það sökk.
Í ljósi frásagnar ákærða Bjarna var leit fram haldið á sjó kl. 07:14 að morgni þriðjudagsins 25. nóvember. Kl. 11:28 var varðskipið Ægir yfir skipsflaki, sem sást greinilega á dýptarmæli skipsins á stað 65°38,385´N - 023°53,823´V. Taldi ákærði Bjarni, sem þá var um borð í varðskipinu, líklegt að um flak Þryms væri að ræða. Kl. 14:08 fóru kafarar Landhelgisgæslunnar niður að flakinu. Samkvæmt skýrslu skipherra á Ægi til forstjóra Landhelgisgæslunnar munu kafararnir hafa staðfest, að flak Þryms væri fundið á 39,2 metra dýpi.
Umræddir kafarar, Benedikt Svavarsson og Mikael Róbert Ólafsson, gáfu skýrslur fyrir lögreglu á Patreksfirði sama dag. Þeir kváðust fyrr um daginn hafa kafað niður að flaki skips, sem legið hefði á stað 65°38,385 N - 023°53,823 V. Flakið hefði legið nánast kjölrétt. Benedikt kvaðst hafa sannreynt að um hefði verið að ræða flak Þryms BA 7 með því að beina ljósi á skipaskrárnúmer á brúarþaki og lesa þar tölustafina 999. Hann kvaðst síðan hafa gefið Mikael Róbert bendingu um að koma og lesa skipaskrárnúmer á brúarþakinu. Mikael Róbert staðfesti, að hann hefði lesið töluna 999 á brúarþakinu. Hann kvaðst einnig hafa veitt því athygli, að bolur skipsins hefði verið grænmálaður, en rekverk og yfirbygging hvít. Hefði það verið í samræmi við þá lýsingu á Þrym BA 7, sem hann hefði fengið fyrir köfun.
Miðvikudaginn 26. nóvember 1997 fór Jónas Sigurðsson aðalvarðstjóri að Stóra- og Litla-Laugardal við Tálknafjörð til að kanna hvort þar væru ummerki í fjöru, sem bent gætu til þess að einhverjar ráðstafanir hefðu verið gerðar til að taka á móti skipi til geymslu. Samkvæmt skýrslu lögreglumannsins, sem gerð var sama dag, voru þar ekki sjáanleg för eftir stórar vinnuvélar eða neitt annað er gæti gefið vísbendingu um framkvæmdir í fjörunni.
Fimmtudaginn 27. nóvember 1997 var ákærði Tryggvi kvaddur sem vitni til skýrslugjafar fyrir lögreglu á Patreksfirði. Hann kvaðst hafa verið skipstjóri á farþegaskipinu Lindu er bolur Þryms BA 7 hefði verið dreginn úr fjöru í Tálknafirði. Í ljósi þess framburðar var gert stutt hlé á skýrslutöku, en henni síðan fram haldið og ákærði þá yfirheyrður sem grunaður. Ákærði skýrði svo frá, að meðákærði Bjarni hefði greint sinn beðið hann að aðstoða sig við að draga bol Þryms úr fjöru í Tálknafirði og út í Laugardal, en þar hefði meðákærði ætlað að draga bolinn upp í fjöru. Ákærði kvaðst hafa vitað að meðákærði hefði verið búinn að gera þar ráðstafanir til að taka á móti skipinu. Ákærði kvað vel hafa gengið að ná Þrym úr fjörunni í Tálknafirði, en það hefðu ákærðu gert á stórstraumsflóði, um kl. 20:00. Linda hefði hins vegar ekki reynst góður dráttarbátur og því hefði gengið illa að draga bolinn í átt að Laugardal. Þó hefði Þrymur verið kjölréttur og farið vel í sjó. Veður hefði verið gott, SA eitt til tvö vindstig og sléttur sjór. Ákærði kvað ferðina hafa gengið vel þar til þeir hefðu verið staddir framan við Lambeyri, Tálknafirði. Þar hefði ákærði veitt því athygli, að Þrymur hefði verið byrjaður að síga að framan. Ákærðu hefðu þó haldið förinni áfram, uns þeir hefðu verið staddir út af svokallaðri Deild, en þá hefði sjór verið farinn að flæða inn á dekk Þryms. Ákærðu hefðu þá leyst dráttartógið frá Lindu og síðan fylgst með Þrym í u.þ.b. 30 mínútur, en kl. 23:00 hefði skipið sokkið. Ákærði kvaðst ekki hafa gert neinar ráðstafanir varðandi merkingar á Þrym áður en dráttur hófst og kvaðst engum hafa tilkynnt um fyrirhugaða sjóferð. Hann kvað ekki hafa verið lögskráð á farþegaskipið Lindu.
III.
Ákærði Bjarni skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hefði um kvöldmatarleyti laugardaginn 15. nóvember hafist handa við að losa Þrym úr fjöru í Tálknafirði, en þar hefði skipið legið með stefni upp í fjöru. Búið hefði verið að fjarlægja allar vélar úr skipinu, svo og skrúfu þess og stýri og loka fyrir stefnisrör. Umrætt kvöld hefði ákærði ekki kannað sérstaklega ástand skipsbolsins heldur fyrst og fremst gengið úr skugga um að sjór væri ekki í bolnum eftir síðasta flóð. Því næst hefði hann hringt til meðákærða Tryggva og beðið hann að aðstoða sig. Ákærði kvaðst síðan hafa losað um bolinn með 25 tonna skurðgröfu, en á meðan hefði meðákærði verið um borð í Lindu og togað í. Vel hefði gengið að koma Þrym á flot og hefðu skipin látið úr höfn milli kl. 20 og 20:30. Þaðan hefði Þrymur verið dreginn út að bauju við Sveinseyrarodda og frá baujunni í stefnu að Stóra-Laugardal, jarðar í eigu tengdamóður ákærða. Að sögn ákærða hefði Linda látið illa að stjórn með Þrym í togi og því hefði ferðin gengið verr en hann hefði búist við, þrátt fyrir að straumur hefði verið út fjörðinn. Er skipin hefðu verið stödd skammt austan við Lambeyri hefði ákærði tekið eftir að leki hefði verið kominn að Þrym og að skipið hefði verið farið að síga að framanverðu. Drætti hefði engu að síður verið haldið áfram og stefnu haldið í átt að Laugardal, allt fram til þess er ákærðu hefðu talið of hættulegt að hafa taug á milli skipanna. Þá hefðu þeir skorið á dráttartógin og fylgst með Þrym í um það bil hálfa klukkustund, uns skipið hefði sokkið á stað 65°38,385N - 023°53,823V. Taldi ákærði þá hafa verið liðnar tvær til þrjár klukkustundir frá því hann hefði fyrst orðið lekans var. Hann kvaðst á greindum tíma ekki hafa hugleitt þann möguleika að draga bol skipsins upp í fjöru annars staðar en í Laugardal. Ákærði kvað fyrirhugaðan flutning Þryms þangað aðeins hafa átt að vera til bráðabirgða, enda hefði hann verið tilneyddur að færa skipið fyrirvaralaust vegna yfirvofandi dóms. Í Laugardal hefði verið ætlunin að draga skipið svo nálægt fjöru að það tæki niður og láta síðan fjara undan því, með taug bundna í land. Síðan hefði verið ráðgert að bíða næsta flóðs og draga þá skipið upp í fjöru með jarðýtu, sem búið hefði verið að flytja á staðinn.
Ákærði Tryggvi viðurkenndi fyrir dómi, að hann hefði greint sinn verið skipstjóri á Lindu og farið í umrædda sjóferð, án þess að láta lögskrá áhöfn á skipið. Ákærði kvaðst enga reynslu hafa haft af drætti skipa. Hann skýrði frá flotun og drætti Þryms með líkum hætti og meðákærði Bjarni, meðal annars um að Linda hefði látið illa að stjórn með Þrym í togi. Ákærði hefði því látið skipin reka frá höfninni að Sveinseyrarodda. Hann kvaðst enga athugun hafa gert á ástandi Þryms áður en dráttur hófst og fyrst hafa tekið eftir að skipið hefði verið farið að síga er komið hefði verið út fyrir Lambeyri. Hálfri til einni klukkustund síðar hefði Þrymur sokkið. Vegna þess hve brátt það hefði borið að kvað ákærði ekkert hafa verið unnt að gera til bjargar skipinu. Hann kvaðst ekkert hafa fært í skipsdagbók Lindu um atvikið og kunni á því enga skýringu. Ákærði kvaðst ekki hafa tilkynnt yfirvöldum um atvikið, enda hefði hann talið meðákærða myndu hlutast til um það.
Vitnið Jónas Sigurðsson aðalvarðstjóri staðfesti fyrir dómi lögregluverk sín frá 17. og 26. nóvember 1997, sem greint er frá í kafla II að framan. Jafnframt staðfesti vitnið, að ákærði Bjarni hefði í samtali þann 17. ekki viljað láta neitt uppi um afdrif Þryms. Aðspurt um orðróm í Tálknafirði þess efnis, að ákærði Bjarni hefði dregið skipið á haf út með aðstoð Lindu og sökkt því, sagði vitnið ótiltekinn fjölda íbúa á staðnum hafa skýrt lögreglu svo frá, en enginn þeirra hefði verið reiðubúinn að gefa um þetta formlega skýrslu og hefði lögregla ekki gengið eftir því. Vitnið kvað lögreglurannsókn málsins fyrst og fremst hafa beinst að því að finna flak skipsins, en síður hefði verið hugað að því að staðreyna orsakir þess að skipið sökk.
Björn Óli Hauksson hafnarstjóri og kafararnir Benedikt Svavarsson og Mikael Róbert Ólafsson báru vitni fyrir dómi og skýrðu frá atvikum með líkum hætti og áður. Öll staðfestu vitnin lögregluskýrslur sínar fyrir dómi. Fram kom í vætti kafaranna, að tilgangur nefndrar köfunar hefði eingöngu verið að staðreyna hvort þúst sú er birst hefði á dýptarmæli varðskipsins Ægis væri flak Þryms. Vitnin kváðu dýpi og skort á fullkomnari köfunarbúnaði hafa torveldað frekari skoðun, en sökum þessa hefði þeim ekki verið unnt að dvelja nema tvær til þrjár mínútur við flakið. Til að unnt hefði verið að kafa öðru sinni hefðu vitnin þurft tólf klukkustunda hvíld.
Einnig báru vitni fyrir dómi lögreglumennirnir Jónas Þór og Skúli Berg, Davíð Egilson frá Hollustuvernd ríkisins, Jón Þorgilsson verkstjóri hjá Tálknafjarðarhreppi og Kristjana Sigríður Bárðardóttir leiðbeinandi í þorpinu. Þykja ekki efni til að rekja framburði þessara vitna.
IV.
Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar er allt úrkast efna og hluta í hafið lýst óheimilt. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laganna getur Hollustu-vernd ríkisins veitt undanþágu frá slíku banni. Á það reynir ekki í máli sem þessu. ,,Úrkast“ merkir í lögunum allt það sem ekki er losun, þ.e. að efnum eða hlutum er vísvitandi fleygt í sjóinn frá skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum á sjó, þar með talið að sökkva skipum eða öðrum mannvirkjum í sjó, sbr. 3. gr. laganna. Brot gegn lögunum og reglum settum samkvæmt þeim varða fésektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar, sbr. 27. gr.
Lög nr. 32/1986 teljast til sérrefsilöggjafar hér á landi. Um saknæmisskilyrði gildir því ekki regla 18. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en samkvæmt henni er ásetningur áskilinn sem saknæmisskilyrði að meginstefnu til. Aðeins er heimilt að refsa fyrir gáleysi ef sérstök heimild er til þess í hegningarlögunum. Öfug regla gildir í sérrefsilöggjöf. Þar eru ásetnings- og gáleysisbrot yfirleitt lögð að jöfnu og varða refsingu, nema annað sé tekið fram í lögunum. Slíkar takmarkanir á refsiábyrgð er ekki að finna í lögum nr. 32/1986. Gáleysi nægir því til sakaráfellis, að öðrum refsiskilyrðum uppfylltum.
V.
Engir utanaðkomandi sjónarvottar voru að því er vélskipið Þrymur sökk á Tálknafirði laust fyrir miðnætti laugardaginn 15. nóvember 1997. Af hálfu ákæruvalds hafa ekki verið leidd vitni að því er skipið var dregið úr fjöru í Tálknafirði fyrr um kvöldið, en ráða má af vætti Jónasar Sigurðssonar lögregluvarðstjóra, að ótiltekinn fjöldi íbúa í þorpinu hafi séð til athafna ákærðu í fjörunni. Ekki var gengið eftir því að viðkomandi gæfu lögregluskýrslur, en þær hefðu getað orðið til þess að varpa ljósi á atburðarásina. Verður því við úrlausn málsins að horfa til framburðar ákærðu og óbeinna sönnunargagna, sem færð hafa verið fram við meðferð málsins fyrir dómi.
Sannað er með framburði ákærðu, vætti kafaranna Benedikts Svavarssonar og Mikaels Róberts Ólafssonar og niðurstöðu staðsetningar- og dýptarmælingar áhafnar varðskipsins Ægis, að vélskipið Þrymur hafi greint sinn sokkið á Tálknafirði út af svokallaðri Deild, á stað 65°38,385N - 023°53,823V.
Kemur þá til álita hvort sá atburður verði metinn ákærðu til sakar fyrir ásetning eða gáleysi, en leggja verður til grundvallar, að þeir hafi ekki notið aðstoðar annarra við flotun og drátt skipsins. Ákærði Bjarni átti skipið og hafði frumkvæði að flotun þess umrætt sinn. Skipið var gamalt, úr sér gengið og hafði legið óhirt í fjöru í rúm átta ár. Ákærði Bjarni skoðaði ekki skipið með tilliti til ástands þess áður en það var sjósett, heldur lét sér nægja að ganga úr skugga um að sjór væri ekki í bol þess eftir síðasta flóð. Í framhaldi af því hringdi hann til meðákærða Tryggva og fékk hann með klukkustundar fyrirvara sér til aðstoðar, sem skipstjóra á farþegaskipinu Lindu, sem ákærði Bjarni hafði umráð yfir. Ákærði Tryggvi skeytti engu um ástand Þryms áður en flotun hófst. Við það verk, sem fram fór í myrkri, notuðu ákærðu 25 tonna skurðgröfu, sem ákærði Bjarni beitti á stefni Þryms um leið og ákærði Tryggvi togaði í frá sjó. Hvorugur ákærðu hirti um að kanna ástand skipsins eftir sjósetningu. Hefði þó ekki verið miklum vandkvæðum bundið að staldra við í höfninni eða binda Þrym við bryggju, á meðan kannað væri hvort leki hefði komið að skipinu. Að lokinni slíkri varúðarráðstöfun, sem heyrt hefði til eðlilegrar árvekni miðað við kringumstæður, hefði mátt halda förinni áfram strax í birtingu. Var sérstakrar aðgæslu þörf í ljósi þess hve lengi Þrymur hafði legið og grotnað í fjöru. Ákærðu létu sér slíkar ráðstafanir í léttu rúmi liggja og lögðu ótrauðir af stað úr höfninni, á Lindu, með Þrym í togi. Er Linda þó flatbytna með tvær afturliggjandi aðalvélar, samtals 316 kílóvött, en Þrymur var tæplega 200 brúttórúmlestir. Ákærði Tryggvi hafði enga reynslu af drætti skipa og engin reynsla var af Lindu sem dráttarskipi, enda kom fljótlega í ljós, að Linda lét illa að stjórn með Þrym í togi. Þrátt fyrir að ákærðu hafi verið þetta ljóst í upphafi ferðar hvarflaði ekki að þeim að snúa við og eigi heldur er komið var út fyrir Lambeyri, en við það verður að miða, að ákærðu hafi eigi síðar en þá gert sér ljóst að skipið myndi sökkva. Ákærðu héldu förinni engu að síður áfram, í allt að tvær til þrjár klukkustundir samkvæmt framburði ákærða Bjarna, í stað þess að snúa við eða reyna að draga Þrym á öðrum stað upp í fjöru, eða a.m.k. nær landi. Þegar ákærðu var loks orðið ljóst, að þeir kæmust ekki öllu lengra með Þrym í togi skáru þeir á dráttartóg og fylgdust aðgerðarlausir með skipinu í u.þ.b. hálfa klukkustund, uns það sökk á áðurgreindum stað. Þrátt fyrir framangreindar hrakfarir var ekkert fært um atvikið í skipsdagbók Lindu og skeytti hvorugur ákærðu um að tilkynna atvikið til Siglingastofnunar Íslands eða annarra yfirvalda, þrátt fyrir skýlaus fyrirmæli þar að lútandi í 20. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar nr. 32/1986.
Með vísan til þess, sem nú hefur verið rakið, er það álit dómsins, að háttsemi ákærðu, einkum ákærða Bjarna, bendi eindregið til þess að verknaðurinn, þ.e. flotun og dráttur Þryms, hafi átt að fara leynt. Má í því sambandi benda sérstaklega á eftirtalin atriði: i) Engin vitni hafa fundist að flotun skipsins. ii) Ákærðu tilkynntu yfirvöldum ekki um fyrirhugaðan drátt. iii) Skipið var dregið á brott ljóslaust í myrkri. iv) Ákærði Bjarni neitaði ítrekað fyrir lögreglu að upplýsa um afdrif skipsins. v) Engar merkingar voru settar á þeim stað er skipið sökk. vi) Ekki virðast hafa verið gerðar viðhlítandi ráðstafanir til að taka á móti skipinu í fjöru við Stóra-Laugardal. vii) Sú skýring ákærða Bjarna, að koma hefði átt skipinu þar fyrir til geymslu er ótrúverðug. viii) Engin grein hefur verið gerð fyrir því hvernig ákærði Bjarni ætlaði að farga skipinu, en geymsla þess til bráðabirgða í fjöru í Laugardal hefði verið skýlaust brot á lögum nr. 93/1996 um náttúruvernd.
Gögn málsins bera með sér, að ákærði Bjarni hafi ítrekað, en árangurslaust sótt um leyfi yfirvalda til að sökkva Þrym í sjó. Þegar skipið var dregið úr fjöru 15. nóvember 1997 stóð ákærði frammi fyrir aðalmeðferð í einkamáli um viðurkenningu á skyldu hans til að fjarlægja skipið að viðlögðum dagsektum, sem hefðu getað numið tugum eða hundruðum þúsunda króna. Meðal málsskjala er tilboð frá hausti 1995 um löglega förgun skipsins að fjárhæð krónur 1.900.000, auk kostnaðar við drátt skipsins suður til Garðabæjar.
Eins og áður er rakið átti ákærði Bjarni vélskipið Þrym og hafði einn frumkvæði að flotun þess og drætti. Hann skirrðist einskis við að hrinda verkinu í framkvæmd og sýndi með framferði sínu næstu daga eftir að skipið sökk hroka og virðingarleysi gagnvart náttúru Íslands, yfirvöldum og landslögum. Bendir greind háttsemi ákærða eindregið til þess, að hann hafi litið á þetta sem sitt einkamál, sem engum öðrum hafi komið við. Ákærði Tryggvi, sem var skipstjóri á Lindu í hinni örlagaríku ferð, viðhafði ekki þá aðgæslu, sem af honum mátti krefjast sem skipstjóra dráttarskips, er hann greint sinn hóf ferðina, án þess að huga áður að ástandi bols og öðru er laut að haffæri Þryms, án þess að búa skipið siglingaljósum og án þess að tilkynna fyrirhugaðan flutning þess til Siglingastofnunar Íslands. Þá tilkynnti ákærði eigi heldur um afdrif skipsins og færði ekkert um það atvik að skipið sykki í skipsdagbók Lindu.
Þegar framangreind atriði eru virt heildstætt er það álit dómsins, að ákærðu hafi með framferði sínu að kvöldi laugardagsins 15. nóvember 1997 skapað þær aðstæður, sem urðu þess valdandi að vélskipið Þrymur sökk. Verður atvikið ekki rakið til slyss eða óhappatilviljunar, heldur til gáleysis ákærðu beggja, sem telja verður vítavert. Ákærðu gerðust þannig brotlegir við 1. mgr. 13. gr., sbr. 27. gr. laga nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar.
Sannað er með framburði ákærða Tryggva við rannsókn og meðferð málsins, sem er í samræmi við önnur gögn, að hann hafi sem skipstjóri farið í framangreinda sjóferð, án þess að lögskrá áhöfn á farþegaskipið Lindu. Var slíkt ófrávíkjanleg lagaskylda, sem ákærða var vel kunn. Er hann því einnig sakfelldur fyrir brot á 6. gr., sbr. 239. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og 6. gr., sbr. 2. gr. og 17. gr. laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna.
Við ákvörðun refsingar ber einkum að líta til þeirra mikilvægu almannahagsmuna, sem brot ákærðu á lögum nr. 32/1986 beindist að og til þess að um samverknað var að ræða. Þá þykir það horfa refsingu ákærða Bjarna til þyngingar, að hann var upphafsmaður að brotinu og að hann sýndi með framferði sínu eftir framningu þess, að hann hefði landslög að engu. Þykir refsing ákærða Bjarna því hæfilega ákveðin 3.000.000 króna sekt, sem renni í Mengunarvarnarsjóð samkvæmt 32. gr. laga nr. 32/1986, sbr. reglugerð nr. 198/1991. Er við ákvörðun sektarfjárhæðar einnig tekið tillit til þess að ákærði Bjarni hagnist ekki á broti sínu. Við ákvörðun refsingar ákærða Tryggva ber auk framanritaðs að horfa til þess, að brot hans voru framin í þágu meðákærða og hefur ekki verið sýnt fram á að ákærði hafi haft af þeim fjárhagslegan ávinning. Samkvæmt því og að teknu tilliti til ákvæða 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða Tryggva hæfilega ákveðin 500.000 króna sekt í Mengunarvarnarsjóð. Greiði ákærðu hvor fyrir sig ekki framangreindar sektir innan 4 vikna frá dómsbirtingu skulu þær afplánaðar í varðhaldi, sem ákveðst 6 mánuðir að því er ákærða Bjarna varðar og 60 dagar að því er varðar ákærða Tryggva.
Samkvæmt 165. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 ber að dæma ákærða Bjarna til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 120.000 krónur, og ákærða Tryggva til að greiða sömu fjárhæð í málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt, þar með talin 120.000 króna saksóknarlaun í ríkissjóð, en Jón H. Snorrason saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvalds.
Það athugast, að vegna páskaleyfa og embættisanna dómsformanns hefur uppkvaðning dóms dregist nokkuð.
Dómsorð:
Ákærði Bjarni Andrésson greiði 3.000.000 króna sekt í Mengunarvarnarsjóð, sbr. reglugerð nr. 198/1991, innan 4 vikna frá dómsbirtingu, en sæti ella varðhaldi 6 mánuði.
Ákærði Tryggvi Ársælsson greiði 500.000 króna sekt í Mengunarvarnarsjóð, sbr. reglugerð nr. 198/1991, innan 4 vikna frá dómsbirtingu, en sæti ella varðhaldi 60 daga.
Ákærði Bjarni greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, krónur 120.000.
Ákærði Tryggvi greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, krónur 120.000.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt, þar með talin 120.000 króna saksóknarlaun í ríkissjóð.