Hæstiréttur íslands

Mál nr. 287/2004


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Sönnun
  • Aðilaskýrsla
  • Vátrygging


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 2004.

Nr. 287/2004.

Sergia Margrét Leonar og

Ibex Motor Policies at Lloyd’s

(Kjartan Reynir Ólafsson hrl.)

gegn

Leifi Agnarssyni

(Hákon Árnason hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Sönnun. Aðilaskýrsla. Vátrygging.

L missti stjórn á bifreið sinni, sem hann ók austur Suðurlandsveg, er hann reyndi að forða árekstri við rauða bifreið af Volvo gerð, sem ekið var á röngum vegarhelmingi. Við þetta kastaðist bifreið L framan á bifreið SS, sem ekið var vestur sama veg. Sama dag tilkynnti SML lögreglu um skemmd á spegli á bifreið sinni sem hún kvað stafa af því að bifreið hennar hafi mætt hvítri sendibifreið er hún ók vestur Suðurlandsveg og hafi bifreiðarnar ekið svo nálægt hvor annarri að hliðarspegill hafi brotnað. Kvaðst SML hafa mætt umræddri bifreið á svipuðum slóðum og áðurnefndur árekstur átti sér stað. L höfðaði mál á hendur SML til greiðslu skaðabóta. Í málinu var upplýst að á slysdegi var þoka og slæmt skyggni á umræddum slóðum. Talið var sannað með vísan til framburðar vitna að rauðri bifreið af Volvo gerð hafi verið ekið með háskalegum hætti í niðdimmri þoku á röngum vegarhelmingi vestur Suðurlandsveg á þeim tíma, sem áreksturinn varð. Þá var talið sannað að SML hafi ekið á sama tíma slíkri bifreið vestur Suðurlandsveg og að vinstri spegill hennar hafi brotnað við snertingu við aðra bifreið. Kom árekstrarstaður saman við lýsingu SML. Þá hafði vitnið SP lýst því að rauðri bifreið af Volvo gerð hafi verið ekið svo nærri sendibifreið að það hafi jafnvel talið að bifreiðarnar hafi nuddast eitthvað saman. Með vísan til þessa og framburðar SML fyrir lögreglu um að hún hafi mætt neyðarbifreiðum slökkviliðs á leið austur Suðurlandsveg um það bil 5 mínútum eftir að bifreið hennar rakst á bifreiðina, sem hún taldi hafa verið hvíta sendibifreið, var talið sannað að bifreið SML hafi verið sú bifreið, sem kom á móti bifreið L á röngum vegarhelmingi. Var krafa L því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2004. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í greinargerð lögmanns áfrýjenda til Hæstaréttar kemur fram, að ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar til að ná sambandi við áfrýjandann Sergiu Margréti Leonar. Þær hafi ekki borið árangur og ekki sé vitað hvar hana sé að finna. Af þessu tilefni hafa af hálfu áfrýjenda verið lagðir fram í Hæstarétti skilmálar fyrir ábyrgðartryggingar ökutækja, sem giltu um vátryggingarsamning þeirra. Þar kemur meðal annars fram, að vátryggjandi skuli annast málsvörn fyrir íslenskum dómstólum, komi fram bótakrafa á sviði sem vátryggingin nær til. Við málflutning af hálfu áfrýjenda fyrir Hæstarétti var upplýst, að áfrýjandi Ibex Motor Policies at Lloyd´s hafi tekið ákvörðun um áfrýjun málsins og þá fyrir hönd áfrýjanda Sergia Margrétar Leonar á grundvelli þessa ákvæðis í skilmálunum.

Þá hefur verið upplýst fyrir Hæstarétti, að starfsemi áfrýjanda Ibex Motor Policies at Lloyd’s hér á landi á vettvangi bifreiðatrygginga fari fram með stoð í 65. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi og að Baldvin Hafsteinsson hæstaréttarlögmaður sé fulltrúi þessa vátryggingafélags hér á landi samkvæmt síðari málslið 4. tl. 2. mgr. 65. gr. laganna, en honum var stefnt til fyrirsvars í héraði.

Stefndi lýsti yfir því fyrir Hæstarétti að hann gerði ekki athugasemdir við framangreind atriði.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms segir að til þess hafi verið litið við mat á sönnunarfærslu um atvik að slysi því, sem málið fjallar um, að áfrýjandi Sergia hafi ekki mætt fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Til þess að fjarvera málsaðila geti haft áhrif af þessu tagi á sönnunarfærslu í einkamáli, þarf gagnaðilinn að hafa skorað á hann að gefa skýrslu sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þótt stefndi hafi nefnt nafn þessa áfrýjanda í héraðsstefnu meðal þeirra sem óskað væri eftir að skýrslur yrðu teknar af fyrir dómi, felur slík tilgreining ekki í sér áskorun, sem haft getur þessi tilteknu réttaráhrif. Átti athugasemd um þetta því ekki rétt á sér í héraðsdóminum.

Í hinum áfrýjaða dómi er rökstudd sú niðurstaða, að nægilega sé sannað í málinu, að bifreið áfrýjandans Sergia hafi verið sú bifreið, sem kom á móti bifreið stefnda á röngum vegarhelmingi og olli því að hann missti stjórn á henni. Auk þess sem þar er nefnt, fær sú niðurstaða stoð í þeim framburði áfrýjanda Sergia fyrir lögreglu, að um það bil 5 mínútur hafi liðið frá því bifreið hennar rakst í hvíta sendibifreið, sem hún taldi hafa verið, þar til hún hafi mætt neyðarbifreiðum slökkviliðs, sem þá hafi verið á leið austur Suðurlandsveg í forgangsakstri. Verður niðurstaða héraðsdóms um þetta staðfest.

Áfrýjandi hefur haldið því fram, að slysið megi að minnsta kosti að hluta rekja til þess, að stefndi Leifur Agnarsson hafi ekið of hratt miðað við aðstæður, þegar slysið varð. Stefndi taldi sjálfur í skýrslu sinni fyrir dómi, að hann hefði ekið á 70-80 kílómetra hraða miðað við klukkustund. Hefur framburði hans um þetta ekki verið hnekkt. Hámarkshraði á akbrautinni þarna var 90 kílómetrar á klukkustund. Þrátt fyrir að þoka hafi gefið ökumönnum tilefni til að aka með sérstakri gát umrætt sinn, verður ekki talið að í þessum aksturshraða felist gáleysi sem eigi að hafa þau áhrif að sök verði skipt í málinu. Er þess þá gætt, að áfrýjandi Sergia átti yfirgnæfandi sök á árekstrinum með því að aka á röngum vegarhelmingi á móti umferð úr gagnstæðri átt.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Sergia Margrét Leonar og Ibex Motor Policies at Lloyd´s, greiði stefnda, Leifi Agnarssyni, óskipt málskostnað fyrir Hæstarétti 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2004.

Stefnandi málsins er Leifur Agnarsson, kt. 100856-5579, Þorláksgeisla 49, Reykjavík, en stefndu eru, Sergia Margrét Leonar, kt.050658-2019, Unufelli 46, Reykjavík og tjónafulltrúi Lloyd´s á Íslandi v/Ibex Motor Policies at Lloyd´s á Íslandi, Tryggvagötu 8, Reykjavík. Eftirleiðis verður vísað til Sergiu sem stefndu nema annað sé tekið fram.

Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 15. desember 2003, sem árituð er sama dag um birtingu af lögmanni stefndu. Það var þingfest hér í dómi 18. sama mánaðar.

Málið var dómtekið 5. apríl sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.

Dómkröfur:

Upphaflegar dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndu verði í sameiningu dæmd til að greiða honum 500.000 krónur og dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 26. apríl 2000 og svo árlega þann dag.

Við aðalmeðferð málsins breytti stefnandi dráttarvaxtakröfu sinni þannig, að krafist var dráttarvaxta, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. desember 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðslu­dags, en dráttarvextir leggist við höfuðstól fjárkröfu á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 16. desember 2000.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins úr hendi beggja stefndu í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

Stefndu mótmæla breyttri dráttarvaxtakröfu stefnanda, sem of seint fram kominni.

Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

Árekstur varð með bifreiðunum BZ-737, sem stefnandi ók, og KN-871 hinn 26. apríl 1999 á móts við vegamót Suðurlandsvegar og afleggjara að Skíðaskálanum í Hveradölum. Ökumaður bifreiðarinnar KN-871 var Svanur Hólm Sigurðsson.  Bif­reiðarnar stórskemmdust og slys varð á farþegum og ökumönnum. Lögreglan á Selfossi var tilkvödd og samdi skýrslu um vettvangskönnun sína. Tekin var skýrsla af ökumönnum bifreiðanna á vettvangi og Sigurði Péturssyni, farþega í bifreiðinni KN-871. Stefnandi gaf einnig skýrslu hjá lögreglunni á Selfossi 29. apríl s.á. Þess er getið í frumskýrslu lögreglunnar, að Málfríður Sigurhansdóttir hafi hringt daginn eftir slysið og gefið lýsingu á aksturslagi rauðrar fólksbifreiðar af Volvogerð. Einnig hafi Eyjólfur K. Kolbeins hringt og gefið svipaða lýsingu. Þá liggur fyrir skýrsla lögreglunnar í Reykjavík, sem tekin var af stefndu, en hún ók bifreiðinni IM-260, sem er rauð á lit af Volvogerð.

Málavaxtalýsing er byggð á skýrslum lögreglu. Stefnandi segist hafa ekið bifreiðinni BZ-737 austur Suðurlandsveg og verið einn á ferð. Skyggni hafi verið mjög slæmt, þoka og rigning, þannig að varla hefði sést lengra fram á veginn en rúmlega eina vegstiku.  Hafi hann ekið nokkra hríð á eftir Subarubifreið, sem ekið var á innan við 60 km hraða. Þegar hann var kominn þangað sem vegurinn skiptist í tvær akreinar fyrir umferð í austur neðst í Hveradölum, hafi hann aukið hraðann og farið vinstra megin fram úr Subarubifreiðinni. Hann hafi ekki verið búinn að skipta yfir á vinstri akrein, þegar allt í einu hafi rauð bifreið af Volvo -700 gerð birst í þokunni og hafi hann ekki séð til ferðar hennar, fyrr en hún var rétt framan við hann, þótt ökuljós hennar væru kveikt. Honum fannst sem hann heyrði smell um leið og Volvobifreiðin þaut hjá.  Bifreiðinni hafi verið ekið á röngum vegarhelmingi, þ.e. á akrein, sem ætluð sé umferð til austurs. Við þetta hafi honum brugðið og fyrst sveigt til hægri að því er hann hélt, en síðan til vinstri til að rétta bifreiðina af. Afturendi hennar hafi þá kastast til og hafi hún snúist og farið þvert fyrir veginn í veg fyrir bifreið, sem ekið var í vesturátt. Framendi bifreiðarinnar, KN-871, hafi komið á hægri hlið bifreiðar hans.  Í skýrslu sinni á vettvangi sagðist stefnandi ekki muna, hvort hann beygði til vinstri eða hægri, þegar bifreiðin birtist á móti honum.

Svanur Hólm Sigurðsson sagðist hafa ekið vestur Suðurlandsveg á 60-70 km hraða í slæmu skyggni, þannig að ekki hafi sést lengra fram á veginn en sem svaraði u.þ.b. einni vegstiku. Skammt á undan honum hafi rauðri Volvobifreið verið ekið til vesturs á miðri akrein. Á móts við Skíðaskálann í Hveradölum hafi hann séð bifreið stefnanda koma í ljós fyrir aftan Volvobifreiðina. Hann hafi hemlað, en ekki náð að afstýra árekstri við bifreið stefnanda.

Sigurður Pétursson sagðist strax í Kömbum hafa veitt athygli rauðri Volvo­bifreið, þar sem honum hafi fundist aksturslag hennar nokkuð sérkennilegt. Skammt fyrir ofan Kamba, þar sem vegurinn þrengist, hafi Volvobifreiðinni verið ekið sam­hliða hvítri sendibifreið líklegast af Volkswagengerð.   Fannst honum bif­reiðarnar fara svo nálægt hvor annarri, að þær hafi jafnvel nuddast eitthvað saman.  Þegar komið var að Smiðjulág, þar sem vegurinn verður tvöfaldur til austurs, hafi Volvonum strax verið ekið inn á miðju akreinanna og verið þar. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við bifreið stefnanda, fyrr en hún birtist skyndilega fram undan afturenda Volvosins.

Málfríður Sigurhansdóttir sagðist hafa mætt rauðri Volvobifreið efst í Hvera­dölum skammt frá þeim stað, sem slysið átti sér stað og hafi Volvoinn nánast verið kominn yfir á þá akreins, sem sé hægra megin til austurs.

Eyjólfur K. Kolbeins sagðist einnig hafa mætt rauðri Volvobifreið efst í Hvera­dölum, skammt þaðan sem áreksturinn varð. Hann hafi verið kominn út á vegöxlina, þegar hann mætti Volvonum, sem farið hafi þétt fram hjá honum á vesturleið.

Frá því er greint í skýrslu lögreglunnar í Reykjavík, að stefnda hafi hringt 26. apríl og tilkynnt tjón á bifreið sinni og að hún væri á leið heim til sín. Lögreglan hafi komið í þann mund, sem hún var að leggja bifreið sinni á bifreiðarstæði fyrir utan heimili hennar, og hafi hún þá verið nýkomin frá Hveragerði.  Í skýrslunni segir, að vinstri hliðarspegill bifreiðarinnar hafi verið brotinn úr rammanum. Síðan er eftir stefndu haft: Kvaðst Sergia vera að koma frá Hveragerði um Suðurlandsveg og að þoka og rigning hafi verið á heiðinni. Kvaðst hún hafa verið nýkomin niður af heiðinni þegar hún mætti hvítri sendibifreið og að bifreiðarnar hafi ekið svo nálægt hvor annarri að þær hafi snerst og að við það hafi vinstri hliðarspegill bifreiðar hennar brotnað. Sagði hún að sendibifreiðin hafi ekki verið með glugga á hliðunum aftan við farþegarýmið. Kvaðst hún hafa orðið mjög skelkuð við þetta og að hún hafi stöðvað bifreið sína út í vegkanti á eftir. Var þá sendibifreiðin horfin inn í þokuna sem þá var mjög þétt. Varð árekstur á milli tveggja bifreiða á Suðurlandsvegi við Skíðaskálann um svipað leyti og Sergia átti þar leið um. Kvaðst Sergia ekki hafa orðið vör við þann árekstur og taldi að um það bil 5 mínútur hafi liðið frá því að bifreið hennar rakst utan í hvítu sendibifreiðina og að hún hafi mætt neyðarbifreiðum slökkviliðsins sem þá voru á leið austur Suðurlandsveg í forgangsakstri.

Stefnandi, sem ekki taldi sig eiga sök á árekstrinum, leitaði til tjónanefndar vátryggingafélaga, sem komst að þeirri niðurstöðu, að ökumaður IM-260 ætti alla sök á honum. Bifreið stefndu var tryggð hjá meðstefnda, tjónafulltrúa Lloyd´s á Íslandi, sem neitaði greiðsluskyldu. Málið var því lagt fyrir úrskurðarnefnd í vá­trygg­inga­málum 29. september 1999, sem felldi þann úrskurð 16. nóvember s.á., að stefnda ætti alla sök á árekstri stefnanda og bifreiðarinnar KN-871, þar sem hún hafi ekið vinstra megin við óbrotna línu, þegar hún mætti bifreið stefnanda og með því orsakað þá hættu, sem olli árekstrinum.

Samkomulag er með málsaðilum um upphæð tjónafjárhæðar og að stefnandi sé réttur sóknaraðili málsins, þar sem hann hafi verið raunverulegur eigandi bifreiðar­innar BZ-737, þegar áreksturinn átti sér stað.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að stefnda eigi alla sök á árekstri bifreiðanna BZ-737 og KN-871. Bifreið stefndu hafi verið tryggð hjá meðstefnda, tjónafulltrúa Lloyd´s á Íslandi, og sé meðstefndi því greiðsluskyldur gagnvart stefnanda.

Sannað sé með lögregluskýrslum, að bifreið stefndu hafi verið ekið á röngum vegarhelmingi, þegar stefnandi mætti henni. Bæði Svanur Hólm Sigurðsson og Sigurður Pétursson staðfestu, að rauðri Volvobifreið hafi verið ekið á öfugum vegarhelmingi rétt fyrir slysið og það sama geri tveir aðrir vegfarendur, sem leið áttu um Hellisheiði rétt fyrir slysið.  Einnig liggi fyrir, að stefnda hafi verið á leið um Suðurlandsveg á sama stað og tíma og stefnandi varð rauðu Volvobifreiðarinnar var. Þá hafi stefnda staðfest, að bifreið hennar hafi rekist í aðra bifreið og að bifreið hennar hafi skemmst við það. Þá sé sannað, að stefnda tilkynnti lögreglu um snertingu bifreiðar sinnar við aðra bifreið kl. 18.00, en fram komi í lögregluskýrslu, að tilkynnt hafi verið um áreksturinn kl. 17.35. Með vísan til þessa hljóti að teljast nægilega sannað, að bifreið sú, sem stefnandi mætti á móts við Hveradali á öfugum vegarhelmingi hafi verið bifreið stefndu. Ljóst sé, að það háttarlag stefndu að aka á öfugum vegarhelmingi hafi skapað mikla hættu og hafi beinlínis valdið árekstri bifreiðar stefnanda við bifreiðina KN-871. Slíkt aksturslag fari í bága við 4. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Aðstæður hafi verið þannig, þegar áreksturinn varð, að skyggni hafi verið slæmt og vegurinn blautur og því sérstök nauðsyn að haga akstri með hliðsjón af því. 

Stefnandi byggir einnig á því, að stefnda hafi með akstri á öfugum vegar­helmingi handan óbrotinnar línu á vegi gerst brotleg við 14. gr. umferðarlaga, en slíkt aksturslag hafi verið sérstaklega hættulegt, eins og akstursskilyrði voru.

Þá styður stefnandi kröfur sínar þeim lagarökum, að stefndu hafi borið að gæta þess, að nægilegt bil væri á milli bifreiðar hennar og þeirra bifreiða, sem á móti komu, sbr. 19. gr. og 36. gr. umferðarlaga.

Stefnandi telur, með vísan til þess, sem að framan sé rakið, að sannað sé með óyggjandi hætti, að stefnda hafi ein átt sök á árekstri umræddra bifreiða og hann hafi ekkert getað gert til að afstýra honum. Meðstefndi beri, sem vátryggjandi bifreiðar stefndu, greiðsuskyldu á tjóni því, sem hlaust af háskaakstri hennar á grundvelli 91. gr. umferðarlaga. Meðstefndi hafi hafnað greiðslu bóta, þrátt fyrir gagnstæða niðurstöðu tjónanefndar vátryggingafélaga og úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Stefnandi eigi því ekki annars úrkosta en höfða mál þetta.

Stefnandi vísar til ákvæða umferðarlaga, eins og áður er getið, svo og til skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna skaðabótaréttar og kröfuréttar.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu byggja í fyrsta lagi á því, að lögregluskýrsla, dags. 26. apríl 1999, veiti enga vitneskju um staðsetningu bifreiðar stefndu, þegar áreksturinn átti sér stað, enda hafi bifreið hennar eða önnur samsvarandi ekki verið á árekstursstað.

Margt sé óljóst um málsatvik og misræmi í frásögnum þeirra, sem hafi tjáð sig um málsatvik. Stefnandi telji sig hafa verið á vinstri akrein, þegar rauði Volvoinn hafi skyndilega birst beint fyrir framan hann á vesturleið. Hann hafi ekki getað munað, hvort hann hafi beygt fram hjá henni vinstra eða hægra megin. Þegar Volvoinn hafi verið kominn hjá, hafi bifreið hans verið kominn þvert á veginn og yfir á akreinina, sem liggi til vesturs. Þar hafi hvít bifreið komið aðvífandi og í sömu mund hafi hann fundið þungt högg og að bifreið hans hafi snúist.

Svanur H. Sigurðsson hafi talið sig hafa ekið á 60-70 km hraða og verið á vesturleið. Skammt á undan bifreið hans hafi rauðri bifreið, líklega af Volvogerð, verið ekið í sömu átt á miðri akrein. Á móts við Skíðaskálann hafi skyndilega birst hvít bifreið fyrir aftan Volvoinn, þvert fyrir bifreið hans.

Sigurði Péturssyni hafi sagst svo frá, að Volvonum hafi verið ekið samsíða hvítri sendibifreið, líklegast Volkswagen, og bifreiðarnar farið svo nálægt hvor annarri að þær hefðu eitthvað nuddast saman. Þetta hafi gerst, þar sem vegurinn til vesturs þrengist fyrir ofan Kamba. Þegar komið var í Smiðjulaut, þar sem vegurinn verði tvöfaldur til austurs, hafi Volvonum verið ekið inn á miðjuakreinina og verið þar. Hann hafi ekki orðið bifreiðar stefnanda var, fyrr en hún hafi birst skyndilega fyrir aftan Volvoinn.

Ljóst sé af framburði þessara manna, að enginn þeirra hafi vitað með neinni vissu, hvar þeir voru staddir á Hellisheiði. Sama eigi við um lýsingu Málfríðar Sigurhansdóttur og Eyjólfs K. Kolbeins. Stefnda vekur athygli á því, að enginn þeirra, sem vísað sé til, hafi getað borið um skráningarnúmer rauðu bifreiðarinnar. Ekkert liggi heldur fyrir um það, hvort önnur Volvobifreið hafi verið á ferð um Hellisheiði, þegar slysið átti sér stað. Þá séu menn ekki á eitt sáttir um undirtegund meintrar Volvobifreiðar.  Allir séu þó sammála um það, að dimm þoka hafi verið og slæmt skyggni. Hafa beri í huga, að menn missi allt fjarlægðar- og áttarskyn, þegar ekið sé í dimmri þoku, enda séu engin kennileiti sýnileg, sem taka megi mið af.

Stefnda bendir einnig á, að hraði beggja bifreiðanna, sem lentu saman, hafi verið alltof mikill miðað við akstursskilyrði.  Ljóst sé af lýsingu, að ökumenn þeirra hafi ekki séð lengra fram en 20-25 metra. Nálgunartími bifreiðanna á þeim hraða, sem ökumenn segjast hafa ekið á, hafi verið u. þ. b. 0,5 sek. Viðbragðstími þeirra til að forðast árekstur hafi því verið ónógur.

Stefnda vísar einnig til skýrslu sinnar. Hún hafi verið nýkomin niður af heiðinni, þegar hún mætti hvítri sendibifreið og hafi bifreiðunum verið ekið svo nálægt hvor annarri, að þær hafi snerst og vinstri hliðarspegill bifreiðar hennar brotnað. Þegar hún hafi stöðvað bifreið sína nokkru síðar, hafi sendibifreiðin verið horfin í þokuna. Þá heldur stefnda því fram, að hún hefði orðið þess vör, ef árekstur hefði orðið með þeim hætti, sem stefnandi lýsi.

Í máli þessu liggi engin sönnun fyrir því, að stefnda hafi með beinum eða óbeinum hætti átt nokkurn þátt í umræddum árekstri.

Hins vegar sé ljóst, að áreksturinn hafi orðið vegna háskaaksturs þeirra, sem þar komi við sögu. Hraði bifreiðanna hafi verið allt of mikill miðað við akstursskilyrði og verði stefnandi, sem sýnilega hafi átt sök á árekstrinum, að taka afleiðingum þess.

Stefndi vísar til 1. mgr. 36.gr. umferðarlaga og 2. mmgr. b og h.liða, en byggir málskostnaðarkröfu sína á sömu lagaákvæðum og stefnandi vísar til, svo og kröfu sína um virðisaukaskatt á tildæmda lögmannsþóknun.

Niðurstaða.

Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Einnig var skýrsla tekin af þeim einstaklingum, sem lögregla hafði samband við og getið er hér að framan. Lögmaður stefndu, kvaðst ekki hafa náð sambandi við umbj. sinn, þrátt fyrir ítarlegar tilraunir og sagðist ekki vita, hvar hana væri nú að finna.

Verður nú getið þess helsta í framburði þessa fólks fyrir dóminum.

Stefnandi lýsti aðdraganda árekstursins með sama hætti og fram kemur í lögregluskýrslu. Hann kvað skyggni ekki hafa verið eins rosalega slæmt og fram kemur í skýrslu hans hjá lögreglu. Þokan hafi verið kaflaskipt og misþétt. Hann hafi vitað nákvæmlega, hvar hann var staddur, enda hafi hann ótal sinnum ekið þessa leið við allar mögulegar aðstæður.  Hann hafi mætt bifreið, sem ekið var á öfugum vegarhelmingi og ósjálfráð viðbrögð valdið því, að hann hafi sveigt bifreiðinni til hægri, en síðan rétt hana af og beygt til vinstri og misst við það stjórn á henni. Hún hafi snúist í hring og beint í veg fyrir bifreið, sem kom úr gagnstæðri átt. Kvaðst hann aldrei hafa séð þá bifreið. Bifreiðin, sem ekið var á röngum vegarhelmingi, hafi verið af Volvogerð og hafi hún farið svo nálægt sinni bifreið, að honum hafi fundist bifreiðarnar snertast. Volvoinn hafi verið með ökuljósin kveikt. Mætti sagðist ekki vera viss um það nú, hvort hann hafi farið fram úr Subaru bifreið, sem lýst sé í lögregluskýrslu, en sú bifreið hafi ekki verið stöðvuð við áreksturinn og óvíst sé, hvort ökumaður þeirrar bifreiðar hafi orðið árekstursins var. Mætti taldi sig hafa verið á 70 km og í mesta lagi á 80 km hraða og líklega hafi Volvonum verið á svipuðum hraða. Hann hafi ekki veitt skárningarnúmeri Volvosins athygli og sagðist ekki hafa veitt því athygli, hvort ökumaður hennar var karl eða kona. Hann kvaðst hafa verið vankaður, þegar lögregluskýrsla var tekin á vettvangi. Hann taldi að einhver á staðnum hafi tilkynnt um slysið, strax eftir að það átti sér stað.

Vitnið Sigurður Pétursson staðfesti skýrslu sína hjá lögreglu. Hann sagðist hafa fylgst vel með akstri sonar síns.  Mjög dimm þoka hafi verið á Hellisheiði og ekki sést milli stika. Ekið hafi verið eftir stikunum og kantlínu vegarins.  Hann kvaðst hafa fylgst með hraðamæli bifreiðarinnar og hafi henni verið ekið á 60 til 70 km hraða. Ekið var á eftir rauðum bíl af Volvogerð og afturljós hans sjáanleg framundan. Þegar komið var í brekkuna ofan við Skíðaskálann, þar sem vegurinn breikki í tvær akreinar til austurs,  hafi hann séð, að Volvonum var ekið inn á miðju vegarins, þ.e. á akrein, sem ætluð sé umferð til austurs. Hann hafi þá beðið son sinn að hægja ferðina. Þeir hafi misst sjónar af Volvonum um skeið, en þegar hann kom aftur í augsýn, hafi hann beðið son sinn að hægja ferðina á ný, þar sem hann hafi talið hættu á því, að Volvoinn fengi einhvern framan á sig. Hann hafi vart sleppt þessum orðum, þegar bíll hafi komið fljúgandi þversum á móti þeim og árekstri ekki verið afstýrt. Hann hafi misst meðvitund við áreksturinn. Þá hafi bifeið þeirra verið utan vegar öfugu megin við akstursleið þeirra. Vitnið kvaðst aðspurt áður hafa veitt Volvonum athygli. Það hafi verið, þegar þeir hafi verið komnir upp Kambana, þangað sem vegurinn mjókki í eina akrein í hvora átt. Þá hafi sér virst sem ökumaður Volvosins hafi ekki vitað, hvar hann ætti að vera á veginum. Bifreiðinni hafi t.d. verið ekið öfugu megin fram úr ljósri bifreið, sem þar var á ferð. Svo hafi virst sem ökumaður Volvosins hafi þá áttað sig og haldið sig á réttum vegarhelmingi, allt þar til vegurinn skiptist á ný ofan við Skíðaskálann, en þá hafi bifreiðinni aftur verið ekið yfir á öfugan vegarhelming. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa séð skrásetningarnúmer Volvobifreiðarinnar.

Svavar Hólm Sigurðsson staðfesti skýrslu sína hjá lögreglu. Hann sagði blinda þoku hafi verið á Heiðinni og hafi hann orðið að aka eftir vegstikum og línu með fram veginum. Hann hafi fylgst með bíl fyrir framan hann á sömu leið, sem lengi hafi verið ekið á röngum vegarhelmingi. Þetta hafi verið rauður meðalstór fólksbíll, að því að hann minnti. Dregið hafi sundur með bifreiðunum og hafði hann misst sjónar á henni, þegar bifreið stefnanda hafi allt í einu birst beint framundan og árekstur orðið.

Vitnið, Eyjólfur Kristinn Kolbeins, staðfesti þá frásögn, sem lögreglan skráði eftir honum og áður er getið. Að fenginni reynslu kvaðst hann aka lengst til hægri alveg út við vegstikur, þegar þoka væri á Heiðinni, en umræddan dag hafi þokan verið mjög dimm. Allt í einu hafi rauð bifreið birst í þokunni á öfugum vegarhelmingi, þannig að hann hafi talið víst að árekstur yrði. Þetta hafi átt sér stað nokkru fyrir ofan Skíðaskálann. Hann hafi ekki veitt athygli skráningarnúmeri rauðu bifreiðarinnar, enda hafi þetta gerst á örskotsstundu.

Vitnið, Aðalbergur Sveinsson lögreglumaður, staðfesti skýrslu sína. Hann sagðist líklega hafa farið frá lögreglustöð á Selfossi og vart náð á slysstað á skemmri tíma en hálfri klukkustund miðað við aðstæður. Hann taldi eitthvað styttri tíma taka að aka til Reykjavíkur frá slysstað. Skýrsla sú, sem liggi frammi í málinu hafi bæði verið tekin á vettvangi og einnig á sjúkrahúsi. Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega, hvernig veðurskilyrði hafi verið en vísar til skýrslu sinnar.

Vitnið, Málfríður Sigurhansdóttir, staðfesti frásögn lögreglu, sem eftir henni er höfð í lögregluskýrslu. Henni sagðist svo frá, að hún og fjölskylda hennar hafi verið á austurleið. Eiginmaður hennar hafi ekið bifreið þeirra. Þau hafi mætt þar rauðri Volvobifreið, sem ekið var á öfugum vegarhelmingi og hafi svo virst sem árekstur myndi verða. Þeim hafi verið mjög brugðið við aksturslag þessarar bifreiðar. Eftir að bifreiðarnar mættust, hafi Volvobifreiðinni verið sveigt aftur inn á öfugan vegar­helming og hafi þau haft áhyggjar af bifreiðum, sem á eftir þeim komu. Hún taldi, að bifreið þeirra hafi verið ekið á vinstri akrein til austurs, en vildi ekki fullyrða það. Atvikið hafi átt sér stað ofan við Skíðaskálann.

Álit dómsins:

Sannað þykir, að rauðri fólksbifreið af Volvogerð var ekið með háskalegum hætti í niðdimmri þoku um Hellisheiði og Hveradali til vesturs á röngum vegarhelmingi á þeim tíma, sem áreksturinn varð.

Einnig liggur fyrir, að stefnda, Sergia Margrét Leonar, var á sama tíma á ferð um Hellisheiði og ók rauðri Volvobifreið. Gler í vinstri spegli bifreiðar hennar hafði brotnað við snertingu við aðra bifreið.

Allt annað verður að leiða af líkum.

Stefnandi bar hér fyrir dómi, svo og í skýrslu sinni hjá lögreglu, að bifreið sú, sem skyndilega hafi birst í þokunni á öfugum vegarhelmingi, hafi verið rauð Volvobifreið og hafi honum fundist bifreiðarnar snertast um leið og þær mættust.

Engin rannsókn fór fram á bifreiðum málsaðila til að ganga úr skugga um, hvort ummerki sæjust um þessa snertingu.

Stefnda greindi lögreglu frá því, að hún hefði mætt hvítri sendiferðabifreið, þegar hún var nýkomin niður af Heiðinni og hafi þær ekið svo nálægt hvor annarri, að þær hafi snerst og við það hafi gler í vinstri spegli bifreiðar hennar brotnað.

Árekstrarstaðurinn kemur heim við lýsingu stefndu um snertingu við aðra bifreið og einnig það, að bifreið stefnanda var hvít á lit og allstór (Peugeot 405). Á hinn bóginn var bifreið stefnanda fólksbíll en ekki sendiferðabíll, eins og stefnda lýsti. Þá er til þess að líta, að vitnið Sigurður Pétursson skýrði lögreglu frá því, að rauða volvonum hefði verið ekið svo nærri hvítum sendiferðabíl, að hann hafi jafnvel talið, að bifreiðarnar hefðu nuddast eitthvað saman. Styður þetta atvikalýsingu stefndu Sergiu, en á móti kemur, að vitnið kvað þetta hafa gerst rétt eftir að komið var upp úr Kömbum.

Vitnin Sigurður Pétursson og Svanur Hólm Sigurðsson skýrðu dóminum frá því, að rauða Volvonum hafi verið ekið á röngum vegarhelmingi, þegar þeir misstu sjónar af honum í þann mund, sem bifreið stefnanda hafi skyndilega birst í þokunni,  rétt fyrir áreksturinn. Styður þetta lýsingu stefnanda á atburðarásinni.

Þegar allt það er virt, sem að framan er rakið, og til þess litið, að stefnda, Sergia, mætti ekki fyrir dóminn til skýrslugjafar, þykir verða að telja, að hún hafi verið ökumaður rauða Volvosins og valdið tjóni stefnanda með háskaakstri sínum.

Stefndu, Sergia og Ibex Motor Policies at Lloyd´s, verða því sameiginlega dæmd til að greiða stefnanda 500.000 krónur, enda hafa málsaðilar komið sér saman um að miða tjón stefnanda við þá fjárhæð.

Dráttarvaxtakrafa stefnanda, eins og hún var sett fram í stefnu, var óljós og ekki tæk til efnisdóms. Sú dráttarvaxtakrafa, sem stefnandi setti fram við aðalmeðferð málsins, verður að telja of seint fram komna með hliðsjón af mótmælum lögmanns stefndu, og verður því ekki á hana fallist.

Rétt þykir með vísan til 130. gr. laga nr. 19/1991, að stefndu greiði stefnanda máls­kostnað, sem ákveðst 155.000 krónur, að teknu tilliti til lögmælts virðisauka­skatts.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Stefndu, Sergia Margrét Leonar og Ibex Motor Policies at Lloyd´s, greiði stefnanda, Leifi Agnarssyni, 500.000 krónur.

Stefndu greiði stefnanda 155.000 krónur í málskostnað.