Hæstiréttur íslands

Mál nr. 232/2017

Ákæruvaldið (Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)
gegn
X (Hörður Felix Harðarson hrl.) og Y (Kristín Edwald hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara

Reifun

Hafnað var kröfu X og Y um að héraðsdómari viki sæti í máli Á gegn X, Y o.fl.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Greta Baldursdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 7. apríl 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2017, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Símon Sigvaldason héraðsdómari víki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að fyrrgreind krafa þeirra verði tekin til greina.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Það er meginregla sakamálaréttarfars að héraðsdómari getur leyst efnislega úr máli þótt dómur, sem hann hefur kveðið upp í því, hafi verið ómerktur af æðra dómi, enda er hann ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni í málinu. Samkvæmt því verður ekki talið að ákvæði g. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 standi almennt í vegi fyrir að héraðsdómari leysi að nýju úr máli þegar þannig háttar til. Undantekning er gerð frá fyrrgreindri meginreglu í niðurlagsákvæði 3. mgr. 208. gr. laganna, en þar er svo fyrir mælt að hafi héraðsdómur verið ómerktur fyrir þá sök að niðurstaða dómara um sönnunargildi munnlegs framburðar kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls megi þeir dómarar, sem skipa dóm í málinu við nýja meðferð þess í héraði, ekki vera hinir sömu og áður fóru með það. Hafi héraðsdómur verið ómerktur af öðrum ástæðum er á hinn bóginn ekkert því til fyrirstöðu að sömu dómarar leggi dóm á málið að nýju.

Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2017.

Með ákæru embættis sérstaks saksóknara, 26. júní 2014, var ákærðu, X og Z, í I og II. kafla ákæru gefinn að sök aðallega fjárdráttur, en til vara umboðssvik, ákærða Y aðallega hlutdeild í fjárdrætti meðákærðu en til vara umboðssvik, þrautavara hylmingu en þrautaþrautavara peningaþvætti, í tengslum við tvær millifærslur af reikningi A inn á reikning B og áfram inn á reikning hins ákærða félags Þ. Ákærða Æ var gefin að sök aðallega hylming, en til vara peningaþvætti, í tengslum við ofangreindar millifærslur. Í III. kafla ákæru voru ákærðu, X og Z, gefin að sök umboðssvik og ákærða Y aðallega hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu en til vara hylming og þrautavara peningaþvætti, í tengslum við kaup A á skuldabréfum útgefnum af A í tilgreindum sjö skuldabréfaflokkum af hinu ákærða félagi Þ. Ákærða Æ var gefin að sök aðallega hylming en til vara peningaþvætti í tengslum við ofangreind viðskipti. Á hendur hinu ákærða félagi og ákærða Æ er gerð krafa um upptöku á tilgreindum innistæðum og eignasöfnum í tilgreindum bönkum í [...].

Mál þetta var dæmt í héraði 9. október 2015. Var dómi héraðsdóms áfrýjað til Hæstaréttar, sem með dómi í máli nr. 809/2015, sem upp var kveðinn 23. febrúar sl., ómerkti hinn áfrýjaða dóm ásamt meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísaði því heim í hérað til úrlausnar á ný þar sem hinn sérfróði meðdómandi í málinu var vanhæfur til meðferðar málsins.

Í þinghaldi 27. mars sl. hafði ákærði X uppi þá kröfu að Símon Sigvaldason héraðsdómari viki sæti í málinu vegna vanhæfis. Ákærði Y tók undir kröfu meðákærða. Sækjandi krafðist þess að kröfum ákærðu um að héraðsdómari víki sæti yrði hafnað. 

Var málið flutt um kröfu ákærðu og sækjanda 3. apríl sl. og málið tekið til úrskurðar í framhaldi.

Ákærðu X og Y byggja kröfu sína um að héraðsdómari víki sæti á g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákvæðið sé matskennt, en í því sé mælt fyrir um að héraðsdómari víki sæti ef ástæða sé til að draga hæfi hans í efa. Ákvæðið sé lítt mótað en túlkun á því hafi tekið breytingum. Í dag séu gerðar strangari kröfur varðandi hæfi héraðsdómara en áður, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 36/2008. Í því máli hafi Hæstiréttur talið að ummæli héraðsdómara hafi getað gefið ákærða tilefni til að draga óhlutdrægni hans í efa. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 54/2014 hafi verið lögð sérstök áhersla á tilgang hæfisreglna. Þar hafi m.a. verið áréttað að vanhæfi snérist líka að ásýnd dómstóla. Dómafordæmi Hæstaréttar hafi vissulega slegið föstu að héraðsdómari geti haldið áfram með mál eftir ómerkingu á þeim grundvelli að hann sé þá ekki bundinn af fyrri úrlausn. Mál það sem hér sé til meðferðar sé ólíkt að þessu leyti í nokkrum atriðum.

Í fyrsta lagi hafi héraðsdómur verið fjölskipaður í málinu. Í því efni verði að hafa í huga að óhjákvæmilegt sé að hver dómari hafi áhrif á annan því starf þeirra sé markað af samstarfi. Í þessu máli hafi hinn sérfróði meðdómandi verið vanhæfur. Fjölskipaður héraðsdómur hafi undir fyrri meðförum málsins komist að þeirri niðurstöðu að sakfella ákærðu m.a. á grundvelli matskenndra atriða. Í því efni hafi dómurinn tekið afstöðu sem ein heild. Þó svo nýr dómari komi í stað hins sérfróða hafi dómurinn í heild sinni þegar tjáð sig. Erfitt sé fyrir ákærða að hagga þeirri skoðun dómsins.

Í annan stað hafi héraðsdómur tekið afstöðu til ummæla hins sérfróða meðdómanda í úrskurði sínum um vanhæfi. Í þeirri niðurstöðu hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að draga óhlutdrægni hins sérfróða meðdómanda í efa. Hæstiréttur hafi verið ósammála því í afdráttarlausri úrlausn sinni. Ákærði eigi ekki að þurfa að þola að sá dómari sem tók þessa afstöðu dæmi í máli ákærða á nýjan leik. Með fyrri afgreiðslu hafi héraðsdómur hlutrænt séð látið í ljós afstöðu sína til sakarefnisins. Hafi héraðsdómara ekki þótti ummæli hins sérfróða meðdómanda aðfinnsluverð.

Í þriðja lagi hafi Hæstiréttur ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að héraðsdómari sé vanhæfur ef hann hafi verið með yfirlýsingar um líklega niðurstöðu málsins. Sambærileg staða sé í þessu máli. Hafi héraðsdómur gengið lengra og tekið afstöðu til sektar ákærðu.

Í fjórða lagi kveði lög nr. 88/2008 á um að dómari dæmi ekki í máli ef hann hafi úrskurðað ákærða í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Í því tilviki séu ekki öll sönnunargögn komin fram í máli. Hér sé staðan sú að þau séu öll komin fram. Hafi héraðsdómur tekið afstöðu til sektar ákærðu eftir að gagnaöflun var lokið. Hafi dómurinn því metið hvert atriði varðandi sekt ákærðu. Dómurinn hafi því tekið efnislega afstöðu. Það geri það að verkum að ástæða sé til að draga óhlutdrægni hans í efa.

Í fimmta lagi hafi sú staða verið uppi í dómi Hæstaréttar nr. 54/2014 að Hæstiréttur hafi ómerkt héraðsdóm vegna vanhæfis sérfróðs meðdómanda. Dómsformaður hafi í framhaldi orðið vanhæfur einnig vegna athugasemda sinna. Eftir hafi setið einn héraðsdómari í málinu. Í bréfi dómstjóra til nefndar um dómarastörf vegna ákvörðunar um að þessi dómari yrði ekki áfram í dómi komi fram að það hafi verið samdóma álit dómstjóra og þess dómara sem eftir hafi setið að réttast væri að fundinn yrði annar héraðsdómari við dóminn til að taka sæti. Í því efni hafi verið bent á að afstaða héraðsdómarans til málsins og einstakra ákæruliða lægi fyrir í málinu og því eðlilegt að dómurinn yrði skipaður dómurum sem hefðu ekki haft nein afskipti af því áður. Sömu sjónarmið eigi við í þessu máli.

Í sjötta lagi sé vakin athygli á því að í Hæstarétti gildi sú regla að ef einhver dómari sé vanhæfur í máli skuli öllum dómurum skipt út ef mál er þar dæmt á ný. Engin rök standi til þess að annað gildi fyrir héraðsdómi.

Af hálfu sækjanda er vísað til þess að dómaframkvæmd Hæstaréttar leiði í ljós að g. liður 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 standi ekki í vegi fyrir að sá héraðsdómari, sem áður hafi dæmt mál sem sé ómerkt, dæmi í máli á nýjan leik. Eina undantekningin frá því komi fram í 3. mgr. 108. gr. laganna. Við það sé miðað að sönnunarfærsla fari fram á ný og sé dómari ekki bundinn af fyrri niðurstöðu sinni við úrlausn málsins. Þessu hafi margsinnis verið slegið föstu í dómum Hæstaréttar, sbr. mál réttarins nr. 567/2006, 466/2012 og 664/2012. Engin rök standi til annars en að það sama gildi í máli þessu.

                Niðurstaða:  

                Samkvæmt g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 er dómari, þar á meðal meðdómsmaður, vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. 

                Fjölmörg dómafordæmi Hæstaréttar liggja fyrir um að dómari sé ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni sé héraðsdómur ómerktur, enda fari sönnunarfærsla fram að nýju. Verði ekki litið á að fyrri efnisúrlausn dómara geri hann vanhæfan í máli. Samkvæmt því verði ekki talið að ákvæði g. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 standi almennt í vegi fyrir því að héraðsdómari leysi að nýju úr máli þegar þannig háttar til. Ákærði hefur ekki bent á önnur atvik eða aðstæður sem geti verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómara með réttu í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Verður kröfu um að héraðsdómari víki sæti því hafnað.

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Hafnað er kröfu ákærðu, X og Y, um að Símon Sigvaldason héraðsdómari víki sæti í málinu.