Hæstiréttur íslands

Mál nr. 162/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 3. mars 2015.

Nr. 162/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2015, þar sem fallist var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. mars 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um háttsemi sem getur varðað fangelsisrefsingu samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá eru vegna rannsóknarhagsmuna uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. mars nk. kl 16:00 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.   

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að í nótt hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í Reykjavík vegna hnífstungu. Hafi tilkynningunni fylgt að þar væru menn vopnaðir skotvopnum. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi íbúi í húsnæðinu, A, tekið á móti þeim og tjáð þeim að eitthvað væri í gangi í herbergi innst á ganginum á annarri hæð húsnæðisins. Í herberginu hafi mátt sjá karlmann, B, sitja í sófa og hafi hann verið mikið blóðugur í andliti og á líkama. Yfir honum hafi staðið C og hafi hann haldið á hníf. Hafi C verið skipað að leggja frá sér hnífinn en C hafi sagt að hann væri aðeins að hjálpa til, árásaraðilar væru farnir af vettvangi. Sjá hafi mátt áverka á B og hafi hann sagt lögreglu að C hafi ráðist á sig og skorið á höfuð. Hafi C verið handtekinn í kjölfarið. Við skoðun hafi C verið blóðugur á höndum og þá hafi blóð verið á fatnaði hans. Þá hafi C verið með hnífahulstur í belti, en enginn hnífur hafi verið í hulstrinu.

                Við leit lögreglu í annarri íbúð í húsnæðinu hafi X, bróðir C fundist bak við hurð og hafi fatnaður hans verið blóðugur. Hafi hann verið handtekinn í kjölfarið. Í morgun hafi tilraun verið gerð til að yfirheyra X vegna málsins en sökum ástands hans hafi yfirheyrslu verið hætt.

                Hafi lögregla rætt við tvo íbúa í húsnæðinu, sem hafi skýrt frá því að þrír hettuklæddir aðilar, C, X, ásamt þriðja manni, hafi ráðist inn í húsnæðið og hafi tveir þeirra verið vopnaðir byssum, skammbyssu og riffli. Virtust árásarmennirnir samkvæmt framburði vitna fyrst hafa ruðst inn á konu sem búi í húsnæðinu og haft í hótunum við hana og síðan inn til A og ráðist á hann vopnaðir hníf og skorið hann í andlitið, en sjá hafi mátt áverka á A við skoðun. Að lokum virðast árásarmennirnir hafa ruðst inn í íbúð B og ráðist á hann með höggum og skorið hann í andlitið.

                Samkvæmt áverkavottorði vegna komu B á slysadeild í nótt sé hann nefbrotinn og mikið skorinn í andlitið og var hann m.a. með 18 cm langan skurð í andliti. C og X liggi nú undir rökstuddum grun um að hafa í nótt, ásamt þriðja manni, ruðst inn í húsnæðið við [...] og þar ráðist á tvo menn vopnaðir hníf og byssum.

Rannsókn málsins sé á frumstigi. Lögregla leiti enn að þriðja árásarmanninum. Ekki hafi tekist að yfirheyra X vegna málsins og eigi eftir að taka skýrslur af íbúum við [...] og fleiri vitnum sem kunni að hafa vitneskju um málið. Þá hafi skotvopn sem brotaþolar og vitni beri að mennirnir hafi verið með ekki fundist.

                Þyki því brýnt með hliðsjón af gögnum málsins og rökstuddum grunsemdum lögreglu að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að C og X gangi lausir svo þeir geti ekki torveldað rannsókn málsins.

                Ætlað sakarefni sé talið varða 2. mgr. 218. gr., 4. mgr. 220. gr. og 231 almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 23. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, og b. liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga,  sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.

Niðurstaða

                Að mati dómsins er fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði X og C hafi í nótt, ásamt þriðja manni,  ruðst inn í húsnæði að [...] í Reykjavík og þar vopnaðir hníf og byssum ráðist á tvo menn.

             Brot sem kærði og C eru grunaðir um er sérstaklega alvarlegt og er talið varða við 2. mgr. 218. gr., 4. mgr. 220. gr. og 231 almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 23. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

              Rannsókn málsins er á frumstigi. Lögreglan leitar enn að þriðja árásarmanninum, ekki hafði í morgun tekist að yfirheyra X vegna ástands hans  og eftir er að taka skýrslur af íbúum að [...] og fleiri vitnum er kunna að hafa vitneskju um málið. Þá hafa skotvopn sem brotaþolar og vitni bera að kærði og þriðji árásarmaðurinn hafi verið með ekki fundist.

               Samkvæmt því sem rakið hefur verið og gagna málsins að öðru leyti þykir því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að fyrirbyggja að hann torveldi rannsókn málsins, sbr. a liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt þykir nauðsynlegt af sömu ástæðu að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr.  sömu laga. Verður því fallist á kröfur lögreglu eins og  í úrskurðarorði greinir.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. mars nk. kl 16:00 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.