Hæstiréttur íslands
Mál nr. 67/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 24. febrúar 2000. |
|
Nr. 67/2000. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn Jóni Ágústi Garðarssyni (Andri Árnason hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Krafist var framlengingar gæsluvarðhaldsvistar J, eingöngu á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en J var undir rökstuddum grun um aðild að broti, sem varðaði verulegt magn af fíkniefnum. Ekki var fallist á að hlutur J í brotinu væri slíkur, að gæsluvarðhaldsvist hans yrði framlengd á þessum grunni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. febrúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 31. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili er grunaður um aðild að broti, sem varðar verulegt magn af fíkniefninu MDMA. Hann hefur játað að hafa í desember 1999 tekið pakka, sem hann taldi að hefði að geyma 7.000 töflur með umræddu fíkniefni, komið pakkanum til Guðmundar Inga Þóroddssonar og verið viðstaddur þegar pakkinn var opnaður. Í kjölfarið hafi hann tekið við um 2.000 töflum og fært um helming þeirra Þóri Jónssyni, en afhent síðar Guðmundi aftur 300 töflur og Antoni Kristni Þórarinssyni 700 töflur. Sóknaraðili kveðst telja varnaraðila hafa gert grein fyrir þætti sínum að málinu og sé gæsluvarðhalds yfir honum ekki lengur þörf vegna rannsóknar þess. Krafan um áframhald gæsluvarðhalds sé hins vegar reist á ákvæði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Fallist verður á að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi með fyrrgreindri háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sem varðað getur allt að tíu ára fangelsi. Sóknaraðili hefur á hinn bóginn ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að áðurgreindur hlutur varnaraðila í málinu sé slíkur að áframhald gæsluvarðhalds yfir honum megi telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eru því ekki næg efni til að verða við kröfu sóknaraðila á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2000.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Jóni Ágústi Garðarssyni, kt. 070280-4699, Réttarbakka 1, Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 31. mars 2000 klukkan 16:00
Kærði hefur mótmælt kröfunni. Til vara gerir hann kröfu um að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglunnar kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík (áfd) hafi um nokkurt skeið unnið að rannsókn á innflutningi og dreifingu á e-töflum. Snúi málið að innflutingi og dreifingu þúsunda taflna en þær hafi verið fluttar til landsins í desember sl.
[...]
Brot þau, sem ætlað er að kærði hafi framið samkvæmt því sem fram hefur komið og hér hefur verið rakið, geta varðað 10 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður að telja ríka almannahagsmuni fyrir því að komið verði í veg fyrir dreifingu verulegs magns hættulegra fíkniefna. Með vísan til þess verður að telja að hér sé um brot að ræða þess eðlis að varðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt þessu þykja skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera fyrir því að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi eins og krafist hefur verið. Þá liggur einnig fyrir að rannsókn málsins er nú á lokastigi og er gert ráð fyrir að tekin verði ákvörðun á næstu vikum um málshöfðun gegn kærða og öðrum sem rannsókn máls þessa hefur beinst að. Með vísan til þess og annars sem hér hefur verið rakið verða ekki talin rök fyrir því að 5. gr. samnings um mannréttindi og mannfrelsi, sbr. lög nr. 62/1994, standi í vegi fyrir því að krafa lögreglustjórans í Reykjavík verði tekin til greina. Þá verða eigi talin, með vísan til þess sem fram hefur komið, efni til að ákveða að gæsluvarðhaldstíminn verði styttri en sá tími sem farið er fram á af hálfu lögreglustjóra. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfuna eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn
Úrskurðarorð:
Kærði, Jón Ágúst Garðarsson, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 31. mars. nk. kl. 16:00.