Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2011


Lykilorð

  • Fyrning
  • Þjófnaður
  • Tilraun
  • Gripdeild
  • Fjársvik
  • Hylming
  • Nytjastuldur
  • Umferðarlagabrot


Fimmtudaginn 9. júní 2011.

Nr. 44/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir

settur saksóknari)

gegn

Jóhönnu Rut Birgisdóttur

(Kristján Stefánsson hrl.)

Fyrning. Þjófnaður. Tilraun. Gripdeild. Fjársvik.

Hylming. Nytjastuldur. Umferðarlagabrot.

J voru gefin að sök fjölmörg brot í tveimur ákærum. J játaði brotin en krafðist sýknu af einum ákærulið, þar sem sök hefði verið fyrnd þegar ákæra var gefin út. Um var að ræða umferðarlagabrot, framin 31. maí 2008, og var J ekki eftir það yfirheyrð á ný vegna þeirra. Henni var birt ákæran er liðin voru rúm tvö ár frá brotunum og rannsókn lögreglu lauk. Litið var svo á að sakaferill J kæmi ekki til álita við mat á refsingu og þessi brot hefðu verið fyrnd þegar ákæran var birt. Þótti með játningu J, sem ætti sér stoð í gögnum málsins, sannað að J hefði gerst sek um þá háttsemi sem ákært væri fyrir. Litið var til þess að J hefði játað brot sín og var það virt henni til refsimildunar, svo og að nokkur dráttur hefði orðið á útgáfu ákæru að því er varðaði elstu brotin. Var refsing J ákveðin fangelsi í tvö ár, en ekki þótti fært að skilorðsbinda dóminn. Þá var hún einnig svipt ökurétti í tvö ár og sex mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. janúar 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu og sviptingu ökuréttar ákærðu en að refsing hennar verði þyngd.

Ákærða krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af brotum, sem fjallað er um í IV. kafla ákæru 19. júlí 2010, og að henni verði ekki gerð frekari refsing en hún hafi þegar sætt með vist í gæsluvarðhaldi. Til vara er þess krafist að refsing verði milduð og bundin skilorði og að frá henni verði dreginn sá tími sem ákærða sætti gæsluvarðhaldi frá 22. október 2010 til 20. apríl 2011. Þess er einnig krafist að sviptingu ökuréttar verði markaður skemmri tími og upphafsdagur hennar verði frá uppkvaðningu héraðsdóms. 

Í málinu eru ákærðu gefin að sök fjölmörg brot í tveimur ákærum, sem dagsettar eru 19. júlí 2010 og 3. nóvember sama ár. Krafa ákærðu um sýknu af sakargiftum samkvæmt IV. kafla fyrrnefndu ákærunnar er reist á því að sök hafi verið fyrnd þegar ákæra var gefin út. Um var að ræða umferðarlagabrot, framin 31. maí 2008, og var ákærða ekki eftir það yfirheyrð á ný vegna þeirra. Henni var birt ákæran 24. september 2010, en þá voru liðin rúm tvö ár frá brotunum og því að rannsókn lögreglu lauk. Sakaferill ákærðu kemur ekki til álita við mat á refsingu og voru brotin fyrnd þegar ákæran var birt, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Að gættu því, sem að framan greinir, verður héraðsdómur staðfestur að öðru leyti um sakfellingu ákærðu, svo og um refsingu hennar og sviptingu ökuréttar og greiðslu sakarkostnaðar, en þó þannig að henni verður ekki gert að greiða sakarkostnað sem tengist IV. og X. kafla í ákæru 19. júlí 2010. Frá refsingunni dregst sá tími er ákærða sætti gæsluvarðhaldi eins og greinir í dómsorði.

Ákærða verður dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærðu, Jóhönnu Rutar Birgisdóttur, og um sviptingu ökuréttar hennar skulu vera óröskuð. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald, sem hún sætti frá 22. október 2010 til 20. apríl 2011.

Ákærða greiði 624.697 krónur í sakarkostnað í héraði.

Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 235.945 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 225.900 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 2010.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. nóvember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 19. júlí 2010, á hendur Jóhönnu Rut Birgisdóttur, kt. 140670-5109, Njarðvíkurbraut 50b, Reykjanesbæ „fyrir eftirtalin brot:

I.                     (007-2008-30729)

Fyrir gripdeild, með því að hafa þriðjudaginn 29. apríl 2008, í Skartgripaverslun [...] að [...] í Reykjavík, teygt sig inn fyrir afgreiðsluborð verslunarinnar og tekið ófrjálsri hendi gullarmband, að andvirði kr. 3.500, sem þar var geymt í skúffu, og yfirgefið verslunina með armbandið í vörslum sínum.

Telst þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

II.                   (007-2008-35160)

Fyrir fjársvik, með því að hafa 5. og 6. maí 2008, í eftirtalin skipti og á eftirtöldum stöðum, með blekkingum svikið út vörur og þjónustu fyrir samtals að fjárhæð kr. 58.542, með því að framvísa stolnu greiðslukorti [...] í eigu [...], kt. [...], sem ákærða komst yfir, og látið skuldfæra andvirði kaupanna á reikning rétthafa:

1.        Þann 5. maí, um kl. 11.37, á sölustað [...] hf. við Hringbraut í Reykjavík, fyrir samtals fjárhæð kr. 3.704.

2.        Þann 5. maí, um kl. 12.25, á sölustað [...] hf. við Borgartún í Reykjavík, fyrir samtals fjárhæð kr. 7.280.

3.        Þann 5. maí, um kl. 12.26, á sölustað [...] hf. við Borgartún í Reykjavík, fyrir samtals fjárhæð kr. 7.280.

4.        Þann 5. maí, um kl. 13.04, á sölustað [...], við Ægissíðu í Reykjavík, fyrir samtals fjárhæð kr. 18.122.

5.        Þann 5. maí, um kl. 14.10, á sölustað [...] hf. við Skógarsel í Reykjavík, fyrir samtals fjárhæð kr. 5.730.

6.        Þann 6. maí, um kl. 14.38, á sölustað [...] hf. við Hringbraut í Reykjavík, fyrir samtals fjárhæð kr. 14.666.

7.        Þann 6. maí, um kl. 13.13, á sölustað [...] hf. við Skógarsel í Reykjavík, fyrir samtals fjárhæð kr. 20.080.

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1949.

Í málinu gerir A kt. [...], þá kröfu f.h. [...], kt. [...], að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 58.542, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

III.                 (007-2008-39797)

Fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 31. maí 2008, í lyfjaversluninni [...] að [...] í Reykjavík, stolið seðlaveski í eigu starfsmanns verslunarinnar, B kt. [...], sem innhélt tvö greiðslukort, eldsneytiskort og ökuskírteini, sem geymt var í jakka í bakherbergi lyfjaverslunarinnar, og gengið með það út.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

IV.                 (007-2008-39796)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 31. maí 2008, ekið bifreiðinni [...], með skráningarnúmerin [...], óhæf um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (morfín og tedrahýdrókannabínólsýra í þvagi), og án ökuréttinda vestur Skólavörðustíg við Laugarveg í Reykjavík og upp á gangstétt þar sem bifreiðin staðnæmdist.

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.

V.                   (007-2008-43829)

Fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 15. júní 2008, í félagi við C, kt. [...], brotist inn í íbúðarhúsnæði að [...] í Reykjavík, með því að fara þar inn um glugga, með það að markmiði að stela þaðan ávana- og fíkniefnum, sem eigi fundust í íbúðinni.

Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 1. mgr 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VI.                  (007-2008-47278)

Fyrir þjófnað, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 27. júní 2008, í íbúð númer [...] að [...] í Kópavogi, stolið seðlaveski í eigu D, kt. [...], þegar D hugðist kaupa merki til styrktar [...] af ákærðu, sem innihélt að minnsta kosti kr. 15.000 í reiðufé, auk þriggja greiðslukorta, og í framhaldi, í hraðbanka [...] að Hamraborg í Kópavogi, í eftirtalin skipti þann 30. júní, ráðstafað samtals kr. 151.500 af reikningi D númer [...], með því að nota öryggisnúmer í eigu D og þannig skuldfært heimildarlaust af bankareikning D.

1.        Krónur 1.000 með millifærslu inn á óþekkt farsímanúmer.

2.        Krónur 20.000 með úttekt í reiðufé.

3.        Krónur 115.000 með millifærslu inn á eigin bankareikning.

4.        Krónur 1.500 með millifærslu inn á óþekkt farsímanúmer.

5.        Krónur 10.000 með millifærslu inn á bankareikning í eigu móður sinnar, E, kt [...].

6.        Krónur 4.000 með millifærslu inn á bankareikning í eigu móður sinnar, E, kt. [...].

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu gerir D, kt. [...], þá kröfu, að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 151.500.

VII.               (007-2008-52831)

Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 23. júlí 2008, stolið handtösku inni í [...] að [...] í Reykjavík, sem í var seðlaveski, ökuskírteini, húslyklar, 9.000 kr. í reiðufé og farsími af gerðinni Sony, með því að taka töskuna af afgreiðsluborði staðarins og ganga með hana út.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VIII.             (007-2008-55659)

Fyrir gripdeild, með því að hafa föstudaginn 1. ágúst 2008, í útibúi [...] að [...] í Kópavogi, stolið 44.100 dönskum krónum í reiðufé, með því að teygja sig yfir afgreiðsluborð útibúsins og náð þannig reiðufénu og gengið með það út.

Telst þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IX.                (007-2008-59829)

Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 20. ágúst 2008, farið inn í bifreið sem staðsett var í bifreiðarstæði í Brautarholti í Reykjavík, móts við hús nr. [...]. og stolið þaðan Puma íþróttatösku, sem í voru Puma íþróttaskór, snyrtivörutaska og íþróttafatnaður, samtals að verðmæti kr. 35.000.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu gerir F kt. [...], þá kröfu, að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 35.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

X.                  (007-2008-59787)

Fyrir gripdeild og líkamsárás, með því að hafa miðvikudaginn 20. ágúst 2008, á gistiheimilinu [...] að [...] í Reykjavík, slegið eign sinni á seðlaveski í eigu G, kt. [...], sem var á afgreiðsluborði gistiheimilisins og innihélt meðal annars kr. 40.000 í reiðufé, og í framhaldi hlaupið inn á gistiheimilið með það að markmiði að koma sér undan, en náðist svo fyrir utan gistiheimilið þar sem hinir stolnu munir voru endurheimtir, með borgaralegri valdbeitingu, úr vörslum ákærðu af G og eiginmanni hennar, H, kt. [...], en við þá valdbeitingu, hótaði ákærða að smita G af alnæmi og beit hana tvisvar sinnum í vinstri handlegg, meðan á átökunum stóð og uns lögregla mætti á staðinn.

Telst þetta varða við 245. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

Í málinu gerir G kt. [...], þá kröfu, að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 40.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

XI.                (007-2009-54051)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 3. september 2009 ekið bifreiðinni [...], óhæf um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja (í blóði mældist nítrazepam 85 ng/ml), og án ökuréttinda, á bifreiðarstæði við söluturninn [...] við [...] í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði för hennar.

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. 

XII.              (007-2009-65997)

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009, í útibúi [...] í Kringlunni í Reykjavík, stolið kr. 2.000 í reiðufé, með því að teygja sig yfir afgreiðsluborð útibúsins og opnað peningakassann, meðan gjaldkeri útibúsins brá sér frá, og náð þannig reiðufénu, og farið síðan út.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XIII.            (007-2009-62155)

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009, í útibúi [...] að [...] í Reykjavík, stolið seðlaveski af þjónustufulltrúa útibúsins, I kt. [...], með því að fara ofan í handtösku I, þegar hún brá sér frá, og náð þannig seðlaveskinu, sem innihélt tvö greiðslukort, ökuskírteini og 2.000 krónur í reiðufé, og fór svo út eftir að erindi ákærðu við I var lokið.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XIV.            (007-2009-70788)

Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 11. nóvember 2009, í verslun [...], Skeifunni í Reykjavík, stolið Maxf. Miracle Touch andlitsfarða, Chicphia mist ilmvatni, Burn orkuskoti og 4 stk. af Gosh augnskugga, samtals að verðmæti kr. 9.793, með því að setja vörurnar innanklæða og reynt að fara framhjá afgreiðslukössum verslunarinnar án þess að greiða fyrir vörurnar, þar sem öryggisverðir stöðvuðu för hennar.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu gerir J kt. [...], f.h. hönd [...] kt. [...], þá kröfu, að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 3.499, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

XV.              (007-2009-71386)

Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 13. nóvember 2009, í verslun [...] í Smáralind í Kópavogi, stolið CH Allure Sensuelle ilmvatni, Romance cama ilmvatni, CH chanel ilmvatni og Burberry brit sheer ilmvatni, samtals að verðmæti kr. 46.596, með því að setja vörurnar innanklæða og farið framhjá afgreiðslukössum verslunarinnar án þess að greiða fyrir vörurnar.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XVI.            (007-2009-79849)

Fyrir gripdeild, með því að hafa sunnudaginn 20. desember 2009, í söluturninum [...] við [...] í Reykjavík, stolið kr. 17.000 í reiðufé, með því að fara inn fyrir afgreiðsluborð söluturnsins og opnað sjóðvél sem þar var staðsett og farið svo út með reiðuféð.

Telst þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XVII.          (007-2010-607)

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 24. desember 2009, í versluninni [...] að [...] í Reykjavík, stolið seðlaveski er var í handtösku sem var við enda afgreiðsluborðs verslunarinnar, með því að taka seðlaveskið úr handtöskunni og ganga með það út úr versluninni.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XVIII.        (007-2010-9671)

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 11. febrúar 2010, í versluninni [...] að [...] í Reykjavík, stolið Tyranid Broodlord leikfangi að verðmæti kr. 2.895, með því að setja leikfangið innanklæða og ganga út úr versluninni án þess að greiða fyrir leikfangið.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XIX.            (007-2010-12312)

Fyrir gripdeild, með því að hafa miðvikudaginn 24. febrúar 2010, í skartgripaversluninni [...], [...] í Reykjavík, stolið einni 14 k herragullfesti, að verðmæti kr. 73.450, einni 14 k slöngugullfesti úr hvítagulli, að verðmæti kr. 39.900, tveimur 14 k slöngugullfestum úr gulu gulli, samtals að verðmæti kr. 69.600, einni 14 k kassafesti úr hvítagulli, að verðmæti 27.250 og einni 14 k kassafesti úr gulu gulli að verðmæti kr. 26.200, samtals að verðmæti kr. 236.400, með því að teygja sig yfir afgreiðsluborð verslunarinnar og yfirgefið verslunina með hraði.

Telst þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu gerir K, kt. [...], f.h. [...], kt. [...], þá kröfu, að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 236.400.

XX.              (007-2010-12688)

Fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 26. febrúar 2010, í auðgunarskyni, brotið rúðu í glugga á framhlið skartgripaverslun [...], [...] í Reykjavík, með sleggju, en orðið frá að hverfa þegar vitni komu á staðinn og lögreglan í kjölfarið.

Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XXI.            (007-2010-18177)

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 14. mars 2010, í verslun [...] að [...] í Reykjavík, í félagi við L kt. [...], stolið söfnunarbauk frá [...], sem í var kr. 7000, með því að taka hann úr versluninni og ganga með hann út.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu gerir M kt. [...], f.h. hönd [...] kt. [...], þá kröfu, að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 7.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

XXII.          (007-2010-18561)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 24. mars 2010 ekið bifreiðinni [...], óhæf um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist medýlfenídat 90 ng/ml), og án ökuréttinda, vestur [...] í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði för hennar.

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.

XXIII.        (007-2010-23492)

Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 16. apríl 2010, í verslun [...] í Smáralind, í Kópavogi, stolið Gucci ilmvatni að verðmæti kr. 7.899, með því að setja vöruna innanklæða og ganga framhjá afgreiðslukössunum án þess að greiða fyrir vöruna.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XXIV.        (007-2010-32522)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 21. maí 2010, ekið bifreiðinni [...], óhæf um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja og ávana- og fíkniefna (í blóði mældist Alprazolam 10 ng/ml, Nítrazepam 110 ng/ml og Metýlfenídat 15 ng/ml), án ökuréttinda, og svo óvarlega að er hún ók framhjá bifreiðinni [...], rakst [...] á bifreiðina sem var kyrrstæð á bílastæði við [...], og farið af vettvangi án þess að sinna um lögboðnar skyldur sínar í sambandi við áreksturinn, og hélt áfram vestur Stekkjarbakka, uns lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst þetta varða við 1. mgr. 10. gr., 1. og 2. mgr. 44. gr., 1. og 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.

XXV.          (007-2010-35492)

Fyrir þjófnað, með því að hafa mánudaginn 31. maí 2010, á Smáratorgi 1 í Kópavogi, stolið, annars vegar á veitingastaðnum [...], fjórum skrúfjárnum, að verðmæti kr. 4.000 og tæmt úr sjúkrakassa sem staðsettur var baka til ásamt því að hafa spennt upp sjóðvél staðarins, en engin verðmæti voru þar til staðar, og hins vegar á veitingastaðnum [...], 48 stk. af hálfs lítra gosflöskum af gerðinni Pepsi, samtals að verðmæti kr. 10.080, með því að spenna upp lás á kæli þar sem flöskurnar voru geymdar.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XXVI.        (007-2010-35786)

Fyrir þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 1. júní 2010, í versluninni [...] að [...] í Kópavogi, stolið Nokia 5230 farsíma af N, kt. [...], starfsmanni verslunarinnar, að verðmæti kr. 33.990, með því að taka símann, þar sem hann var fyrir innan afgreiðsluborð verslunarinnar, og ganga með hann út.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XXVII.      (007-2010-36067)

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 3. júní 2010, í verslun [...] að [...] í Kópavogi, stolið 500 ml Koskenkorva vodka pela, að verðmæti kr. 3.999, með því að setja vöruna innanklæða og ganga með hana út án þess að greiða fyrir.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XXVIII.    (007-2010-39572)

Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 18. júní 2010, í versluninni [...] að [...] í Reykjavík, stolið tveimur gríngleraugum, átta DVD mynddiskum, þremur sanddýrum, tveimur Babuskum, fjórum hjartasteinum og einum 50 l bakpoka, samtals að verðmæti kr. 12.400, með því að setja umræddar vörur í bakpokann og ganga með hann út án þess að greiða fyrir vörurnar.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XXIX.        (007-2010-39729)

Fyrir þjófnað og fjársvik, með því að hafa laugardaginn 19. júní 2010, í leigubíl sem stöðvaður var við [...] við Skógarhlíð í Reykjavík, stolið leðurbuddu af leigubílstjóra bifreiðarinnar, O kt. [...], með því að taka budduna þar sem hún lá í millihólfi sem er á milli ökumannssætis og farþegasætis bifreiðarinnar, en í buddunni voru kr. 1.720, ásamt því að neita að borga fargjald fyrir leigubílferðina, kr. 3.800, og vísað þess í stað á P kt. [...], sem neitaði að greiða gjaldið eftir að samband var haft við hana.

Telst þetta varða við 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XXX.         (007-2010-40220)

Fyrir þjófnað, með því að hafa mánudaginn 21. júní 2010, í verslun [...] að [...] í Reykjavík, stolið tveimur Ali partýskinkum og þremur Ali hunangsskinkum, samtals að verðmæti kr. 13.939, með því að stinga vörunum í bakpoka, sem kærða hafði meðferðis og farið framhjá afgreiðslukössum verslunarinnar án þess að greiða fyrir vörurnar.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XXXI.       (007-2010-43974)

Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 9. júlí 2010, í verslun [...], [...] í Reykjavík, stolið Boss ilmvatni, að verðmæti kr. 6.294, með því að setja vöruna innanklæða og reynt að fara framhjá afgreiðslukössum verslunarinnar, án þess að greiða fyrir vöruna, þar sem öryggisverðir stöðvuðu för hennar.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Málið er einnig höfðað á hendur ákærðu með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 3. nóvember 2010, á hendur ákærðu „fyrir eftirtalin afbrot:

I.                     (007-2010-33934)

Fyrir hilmingu, með því að hafa, miðvikudaginn 26. maí 2010, á bensínafgreiðslustöð [...] við Ártúnsbrekku í Reykjavík, haft milligöngu um, fyrir hönd óþekkt manns, að afhenda Q, kt. [...], fartölvu í eigu hinnar síðastnefndu, af tegundinni Macbook pro 15", sem stolið hafði verið sama dag, gegn greiðslu að fjárhæð kr. 50.000 í reiðufé. Ákærðu var í umrætt sinn kunnugt um að tölvunni hafði verið aflað með auðgunarbroti, en hún hafði skömmu áður, símleiðis, boðið Q tölvuna til afhendingar með téðum skilmálum.  

Telst þetta varða við 1. mgr. 254.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.                   (007-2010-43110)

Fyrir þjófnað, með því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 24. júní 2010, í verslun [...] að [...] í Reykjavík, í félagi við R, kt. [...], stolið tveimur dósum af pepsí gosdrykk og fimm pokum af harðfiski, samtals að söluverðmæti kr. 16.273, með því að stinga vörunum í poka og tösku og ganga rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu krefst S, kt. [...], þess fyrir hönd [...], kt. [...], að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 16.273, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. júní 2010 til 28. júní 2010, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá 28. júní 2010 til greiðsludags.

III.                 (007-2010-41917)

Fyrir þjófnað, með því að hafa, fimmtudaginn 3. júní 2010, í [...] á [...] í Kópavogi, stolið áfengisflösku af tegundinni Koskenkorva vodka, að verðmæti kr. 3.399, með því að fela flöskuna innanklæða og ganga rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir hana.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu gerir T hæstaréttarlögmaður, fyrir hönd [...], [...], þá kröfu að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 3.399, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. júní 2010 til 23. júní 2010, en eftir það dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er krafist lögmannskostnaðar við að halda uppi kröfu, að fjárhæð kr. 19.896, auk virðisaukaskatts.   

IV.                 (007-2010-48876)

Fyrir þjófnað, með því að hafa, laugardaginn 31. júlí 2010, í verslun [...] við [...] í Reykjavík, stolið veski að verðmæti um kr. 11.000, en í veskinu var meðal annars strætókort að verðmæti kr. 5.600, debetkort og afsláttarkort, samtals að verðmæti um kr. 16.600.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

V.                   (007-2010-50539)

Fyrir nytjastuld og umferðarlagalagbrot, með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 9. ágúst 2010, í heimildarleysi, ekið bifreiðinni [...] frá bifreiðastæði steinsnar frá matstofu [...] í Reykjavík og að [...] í Reykjavík, án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt.

Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga, ásamt áorðnum breytingum á umferðarlögum.

VI.                 (007-2010-51801)

Fyrir þjófnað, með því að hafa, föstudaginn 13. ágúst 2010, í húsnæði [...] við [...] í Reykjavík, stolið ljósmyndinni „[...]“ að verðmæti kr. 9.500, með því að taka myndina niður af vegg og ganga út með hana.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VII.               (007-2010-57314)

Fyrir þjófnað, með því að hafa, mánudaginn 6. september 2010, í versluninni [...] við [...] í Reykjavík, stolið þremur kjólum, lopapeysu, fimm „kanínuhúfum“, þremur krögum, þrem pörum af sokkum, staupi og veski, samtals að verðmæti kr. 141.650, með því að stinga inn á sig téðum vörum og fela innanklæða, en munirnir voru endurheimtir úr vörslum ákærðu á brotavettvangi og við leit í framhaldi.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VIII.             (007-2010-57055)

Fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa, þriðjudaginn 7. september 2010, ekið bifreiðinni [...], í heimildarleysi, án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi), austur um Hringbraut í Reykjavík og um aðrein að Bústaðavegi, uns lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. og 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga, ásamt áorðnum breytingum á umferðarlögum.

IX.                (007-2010-61025)

Fyrir þjófnað, með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 17. september, í opnu rými í verslunarmiðstöðinni Smáratorgi í Kópavogi, brotið upp „sjálfsala“ og stolið úr honum smámynt, um kr. 4.000.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

X.                  (007-2010-61594)

Fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 23. september 2010, á tímabilinu frá kl. 16:30 til 20, við bensínafgreiðslustöð [...] við Borgartún í Reykjavík, heimildarlaust tekið bifreiðina [...] til eigin nota með því að brjótast inn í hana og ekið bifreiðinni óþekkta leið frá Borgartúni, án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt. Bifreiðin var í vörslu ákærðu uns lögregla endurheimti hana að kvöldi sama dags við Suðurhellu í Hafnarfirði, þá kyrrstæða við bensínsjálfsafgreiðslustöð [...].

Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga, ásamt áorðnum breytingum á umferðarlögum.

XI.                (007-2010-67069)

Fyrir þjófnað, með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 1. október 2010, í verslun [...] að [...] í Reykjavík, stolið einni dós af skinku, fjórum pörum af sokkum, einu pari af handprjónuðum ullarvettlingum og einum skokkabuxum, samtals að söluverðmæti kr. 8.836, með því að stinga vörunum inn á sig, fela innanklæða, og ganga út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu krefst U, kt. [...], þess fyrir hönd [...], kt. [...], að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 8.836, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2010 til 5. október 2010, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá 5. október 2010 til greiðsludags.

XII.              (007-2010-70591)

Fyrir þjófnað, með því að hafa, að kvöldi miðvikudagsins 13. október 2010, í verslun [...] að [...] í Reykjavík, stolið einni samloku og einu súkkulaðistykki, samtals að söluverðmæti kr. 580, með því að stinga vörunum inn á sig, fela innanklæða, og ganga út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu krefst V, kt. [...], þess fyrir hönd [...], kt. [...], að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 580, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. október 2010 til 26. október 2010, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá 26. október 2010 til greiðsludags.

XIII.             (007-2010-70587)

Fyrir þjófnað, með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 15. október 2010, í verslun [...] að [...] í Kópavogi, stolið kjötvörum, samtals að söluverðmæti kr. 5.216, með því að stinga vörunum í bakpoka, sem ákærða hafði meðferðis, og ganga rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu krefst V, kt. [...], þess fyrir hönd [...], kt. [...], að ákærða verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 5.216, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. október 2010 til 18. október 2010, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá 18. október 2010 til greiðsludags.

XIV.            (007-2010-68909)

Fyrir þjófnað og umferðarlagabrot, með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 21. október 2010, brotist inn í [...], [...] í Reykjavík, þegar bifreiðinni [...] var ekið af óþekktum manni inn um dyr hársnyrtistofunnar, og stolið þaðan smámynt úr sjóðsvél, um kr. 4.000, og snyrtivörum að verðmæti um kr. 21.000, og fyrir að hafa ekið bifreiðinni frá brotavettvangi og að Mjódd í Reykjavík, án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt. 

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga, ásamt áorðnum breytingum á umferðarlögum.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Mál nr. S-934/2010 var sameinað þessu máli með heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála í þinghaldi 4. nóvember sl.

Í þinghaldi hinn 19. nóvember sl. var af hálfu ákæruvalds fallið frá saksókn á hendur ákærðu samkvæmt V. lið ákæru, útgefinnar 19. júlí 2010, og að því er varðar líkamsárás í X. lið sömu ákæru, en annað skyldi standa samkvæmt þeim lið. Þá var því lýst yfir að fallið væri frá saksókn að því er varðar III. lið ákæru, útgefinnar 3. nóvember 2010.

Af hálfu ákærðu er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald, sem ákærða hefur sætt vegna málsins, komi til frádráttar refsingu. Þá er þess krafist að framkomnum skaðabótakröfum verði vísað frá dómi. Loks er krafist hæfilegrar þóknunar verjanda.

Um málavaxtalýsingu er skírskotað til ákæru.

Ákærða játaði brot sín skýlaust fyrir dóminum eins og þeim er lýst í framangreindum ákærum, að teknu tilliti til þess sem að framan greinir um V. og X. lið ákæru, útgefinnar 19. júlí 2010 og III. lið ákæru, útgefinnar 3. nóvember 2010. Þykir með játningu ákærðu sem á sér stoð í gögnum málsins sannað að ákærða hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og eru brot ákærðu rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærða Jóhanna Rut er fædd árið 1970. Samkvæmt sakavottorði hlaut hún á árunum 1989-1997 sjö fangelsisdóma fyrir skjalafals, þjófnað og fjársvik, þar af þrjá óskilorðsbundna. Þá hlaut hún hinn 11. september 2002 dóm fyrir líkamsárás, en var ekki gerð sérstök refsing. Hinn 13. febrúar 2004 hlaut ákærða eins mánaðar fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað og fjögurra mánaða fangelsisdóm 26. júlí 2006, fyrir þjófnaðar- og fíkniefna- og umferðarlagabrot. Næst var ákærða hinn 15. desember 2006 dæmd í sex mánaða fangelsi fyrir skjalafals, gripdeild, þjófnað og fjársvik og þá hinn 20. mars 2007 í tólf mánaða fangelsi fyrir þjófnaðar-, fjársvika-, nytjastuldar- og umferðarlagabrot. Síðast hlaut ákærða dóm fyrir fjársvik hinn 12. október 2007. Var um að ræða hegningarauka við síðastgreinda tvo dóma og ákærðu ekki gerð frekari refsing.

Ákveða ber refsingu ákærðu með hliðsjón af ákvæðum 77. gr. almennar hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða hefur frá árinu 1989 hlotið alls þrettán refsidóma, þar af níu fyrir auðgunarbrot, síðast 12. október 2007, en þá var ákærða einnig dæmd fyrir nytjastuld. Sakarferill ákærðu Jóhönnu hefur að öðru leyti ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu. Um var að ræða samverknað ákærðu Jóhönnu og annars manns samkvæmt ákærulið XXI. í fyrri ákærunni, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar ákærðu Jóhönnu verður ennfremur litið til 72. gr., 2. mgr. 244. gr. og 255. gr., sem og 5. og 6. tl. 70. gr. sömu laga. Þá er litið til þess að ákærða hefur játað brot sín hreinskilnislega og er það virt ákærðu til refsimildunar, sem og að nokkur dráttur hefur orðið á útgáfu ákæru að því er varðar elstu brotin. Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Vegna sakaferils ákærðu og hegðunar hennar að undanförnu þykir ekki fært að skilorðsbinda dóminn. Til frádráttar refsingunni komi hins vegar gæsluvarðhald, sem ákærða hefur sætt vegna málsins frá 22. október sl.

Í ljósi þess að ákærða hefur nú verið sakfelld fyrir að aka bifreið fjórum sinnum óhæf um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja, en þar af olli ákærða tjóni í eitt skiptið, þykir rétt að svipta ákærðu ökurétti í tvö ár og sex mánuði frá birtingu dómsins.

Ákærða greiði eftirtöldum bótakrefjendum skaðabætur:

Dánarbúi D 151.500 krónur.

Þá greiði ákærða [...] hf. 3.499 krónur, [...] 7.000 krónur og [...] 30.905 krónur, allt með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Bótakröfu [...], F, G og [...] vísað frá dómi þar sem kröfurnar uppfylla ekki skilyrði 2. og 3. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Þá er bótakröfu [...] samkvæmt III. lið ákæru, útgefinnar 3. nóvember sl., vísað frá dómi þar sem fallið hefur verið frá þessum ákærulið af hálfu ákæruvalds.

Ákærða greiði 762.071 krónu í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 188.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærða, Jóhann Rut Birgisdóttir, sæti fangelsi í tvö ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald ákærðu frá 22. október 2010.

Ákærða er svipt ökurétti í tvö ár og sex mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærða greiði dánarbúi D 151.500 krónur í skaðabætur.

Ákærða greiði [...] 3.499 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. nóvember 2009 til 2. apríl 2010, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9.gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærða greiði [...] 7.000 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. mars 2010 til 4. desember 2010, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9.gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærða greiði [...] 30.905 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af 16.273 krónum frá 24. júní 2010 til 1. október 2010, en af 25.109 krónum frá þeim degi til 13. október 2010, en af 25.689 krónum frá þeim degi til 15. október 2010, en af 30.905 krónum frá þeim degi til 4. desember 2010, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9.gr. sömu laga til greiðsludags.

Bótakröfu [...], F, G, [...] og [...] er vísað frá dómi.

Ákærða greiði 762.071 krónu í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 188.250 krónur.