Hæstiréttur íslands
Mál nr. 562/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Kröfulýsing
- Skuldajöfnuður
- Skuldabréf
|
Fimmtudaginn 4. október 2013. |
Nr. 562/2013.
|
Stapi lífeyrissjóður (Gunnar Sturluson hrl.) gegn LBI hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Kröfulýsing. Skuldajöfnuður. Skuldabréf.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu S um að tekin yrði til greina krafa hans um viðurkenningu á rétti til skuldajafnaðar við slit L hf., en gagnkröfu sína reisti S á skuldabréfi útgefnu af L hf. fyrir milligöngu D. Með vísan til dóms Hæstaréttar 12. október 2011 í máli nr. 398/2011 var talið að S brysti fyrir sitt leyti heimild til að hafa uppi kröfu við slit L hf. á grundvelli skuldabréfs þess sem um ræddi í málinu. Af því leiddi að S gæti ekki heldur teflt fram til skuldajafnaðar kröfu á þeim sama grundvelli, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. ágúst 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að tekin yrði til greina krafa hans um viðurkenningu á rétti til skuldajafnaðar við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna við kröfur varnaraðila kröfu sinni að fjárhæð 3.055.768 bandaríkjadalir auk álags og áfallinna vaxta frá 22. apríl 2009 til 20. júlí 2011, en krafan byggir á hlutdeild í skuldabréfi með ISIN-númer US5150X1AB50. Til vara gerir hann samhljóða kröfu að öðru leyti en því að miða skuli við höfuðstólsfjárhæð kröfu sóknaraðila 22. apríl 2009, 3.055.768 bandaríkjadalir. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvikum og málatilbúnaði aðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir brast sóknaraðila fyrir sitt leyti heimild til að hafa uppi kröfu við slit varnaraðila á grundvelli skuldabréfs þess sem um ræðir í málinu, sbr. dóm Hæstaréttar 12. október 2011 í máli nr. 398/2011. Af því leiðir að hann getur heldur ekki teflt fram til skuldajafnaðar kröfu á þeim sama grundvelli, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Stapi lífeyrissjóður, greiði varnaraðila, LBI hf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. ágúst 2013.
Þetta mál, sem barst dóminum, 2. maí 2012, með bréfi slitastjórnar LBI hf. var þingfest 8. júní það ár og tekið til úrskurðar 25. júní 2013.
Sóknaraðili, Stapi lífeyrissjóður, kt. 601092-2559, Strandgötu 3, Akureyri, krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna kröfu sinni, samkvæmt skuldabréfi með ISIN-númer US5150X1AB50 að höfuðstólsfjárhæð 3.055.768 Bandaríkjadalir auk álags og áfallina vaxta frá 22. apríl 2009 til 20. júlí 2011, samtals 495.546.079 kr. við kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila.
Auk þess krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.
Varnaraðili, slitabú LBI hf., kt. 540291-2259, Álfheimum 74, Reykjavík, krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Varnaraðili krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málavextir
Árið 2006 ákvað Landsbanki Íslands hf., í því skyni að afla sér lánsfjár, að gefa út skuldabréf í Bandaríkjunum allt að 7.500.000.000 Bandaríkjadala. Af þessum sökum gaf bankinn út útgáfulýsingu, 21. júlí 2006, og síðari viðauka, 11. ágúst 2006, fyrir skuldabréfaútgáfuna „US$ 7.500.000.000 Medium-Term Program“. Í þessari útgáfulýsingu voru annars vegar upplýsingar um útgefanda, Landsbanka Íslands hf., og hins vegar skilmála útgáfunnar og þeirra skuldabréfaflokka sem til stóð að gefa út. Útgáfulýsingin, auk viðauka, myndaði rammaskilmála vegna þeirra skuldabréfaflokka sem átti að gefa út en tekið var fram að um einstakar útgáfur skuldabréfa giltu jafnframt þeir skilmálar sem þá yrðu ákveðnir.
Sama dag og Landsbanki Íslands hf. gaf út þessa útgáfulýsingu, 21. júlí 2006, gerðu hann, sem útgefandi (e. Issuer), og Deutsche Bank Trust Company Americas (DBTCA), sem fjárvörslu- og umsýsluaðili (e. Trustee), með sér rammasamning um skuldabréfaútgáfu, þar sem kveðið var á um ýmsa skilmála fyrirhugaðrar skuldabréfaútgáfu og réttindi og skyldur DBTCA, sem fjárvörslu- og umsýsluaðila þeirra. Samkvæmt samningnum var Landsbankanum heimilt að gefa út skuldabréf í einum eða fleiri flokkum. Tekið var fram að aðilar gætu gert með sér einn eða fleiri viðbótarrammasamninga (e. Supplemental Indenture) vegna útgáfu einstakra skuldabréfaflokka.
Landsbanki Íslands hf. og DBTCA gerðu með sér viðbótarrammasamning (e. First Supplemental Indenture) 25. ágúst 2006, þar sem kveðið var á um skilmála fyrir skuldabréfaútgáfuna „Floating Rate Senior Notes, due 2009“. Þennan sama dag gaf bankinn út skuldabréf undir þeirri skuldabréfaútgáfu (e. Pricing Supplement), það er „US$ 750.000.000 Floating Rate Senior Notes, due 2009“, að fjárhæð 750.000.000 Bandaríkjadala, með ISIN-númer US5150X1AB50. Í tengslum við skuldabréfaútgáfuna var gefið út svokallað allsherjarskuldabréf (e. Global Note) í bandarísku verðbréfamiðstöðinni DTC. Skráður handhafi (e. Registered Holder) allsherjarskuldabréfsins er Cede & Co., sem er hlutdeildarfélag DTC. Sóknaraðili tekur fram að Cede & Co. sé samkvæmt reglum DTC skráður handhafi allra verðbréfa sem gefin eru út í kerfi DTC, bæði hlutabréfa og skuldabréfa og því skráður handhafi meirihluta allra verðbréfa sem skráð séu á markað í Bandaríkjunum.
Samkvæmt skuldabréfinu skuldbatt bankinn sig til að endurgreiða fjárhæðina til Cede & Co. (e. Registered Holder) en DTC tilefndi það fyrirtæki sem viðtökuaðila í framangreindri útgáfulýsingu.
Varnaraðili segir ágreiningslaust að Cede & Co. sé skráður handhafi og eigandi tilgreinds skuldabréfs samkvæmt tilnefningu DTC. Þá sé ágreiningslaust á milli aðila að DBTCA hafi verið heimilt, fyrir hönd Cede og Co., að lýsa kröfu við slitameðferð varnaraðila á grundvelli skuldabréfsins. DBTCA hafi lýst kröfu við slitameðferð varnaraðila vegna tilgreindrar skuldabréfaútgáfu Landsbanka Íslands hf., þ.e. „US$ 750.000.000 Floating Rate Senior Notes, due 2009“, og hafi sú krafa verið samþykkt með breytingum við slitameðferð varnaraðila, sbr. kröfu nr. 2584 í kröfuskrá Landsbanka Íslands hf. (málsnr. 200911-3391). Sóknaraðili hafi ekki mótmælt þeirri afstöðu slitastjórnar að viðurkenna kröfuna en allir þeir sem mótmælt hefðu afstöðu slitastjórnar hafi fallið frá þeim mótmælum og sé krafan því endanlega samþykkt við slitameðferð varnaraðila.
Að sögn sóknaraðila keypti hann, 17. janúar 2008, skuldabréf, sem varnaraðili gaf út 25. ágúst 2006, með ISIN-númer US5150X1AB50, að fjárhæð 3.055.768 Bandaríkjadalir en 407.113.157 krónur að höfuðstól miðað við 22. apríl 2009. Skuldabréfið hafi fallið undir skuldabréfaútgáfu varnaraðila og verið gefið út á grundvelli heildarútgáfuramma (e. Medium-Term Note Program) að fjárhæð 7.500.000.000 Bandaríkjadala með vísan til útboðslýsingar (e. Offering Circular), 21. júlí 2006, sem var uppfærð 11. og 22. ágúst 2006.
Varnaraðili mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðila sem rangri og ósannaðri að sóknaraðili hafi, 17. janúar 2008, keypt skuldabréf útgefið af Landsbanka Íslands hf., með ISIN-númer US5150X1AB50, að fjárhæð 3.055.768 Bandaríkjadalir eða 407.113.157 krónur að höfuðstól miðað við 22. apríl 2009. Til stuðnings þessum kaupum hafi sóknaraðili vísað til fram lagðrar kaupnótu frá Íslenskum verðbréfum. Hið rétta sé að sóknaraðili hafi í gegnum hið óbeina vörslukerfi einungis keypt hagsmuni (e. beneficial interest) á grundvelli skuldabréfs sem Landsbanki Íslands hf. hafi gefið út. Þau viðskipti séu skráð á reikningi sóknaraðila hjá verðbréfamiðlara eða milligönguaðila sóknaraðila, Íslenskum verðbréfum hf., eins og fram lögð staðfesting sýni. Sóknaraðili hafi hvorki lagt fram eintak af hinu meinta skuldabréfi, það er skriflega yfirlýsingu þar sem Landsbanki Íslands hf. sem útgefandi viðurkenni einhliða og skilyrðislaust skyldu til að greiða sóknaraðila ákveðna peningagreiðslu, né önnur sönnunargögn um eignarhald sitt á framseljanlegu skuldabréfi útgefnu af Landsbanka Íslands hf. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili eigi ekki neina kröfu á hendur varnaraðila samkvæmt hagsmunum sóknaraðila á grundvelli skuldabréfsins. Framangreind staðhæfing sóknaraðila eigi sér því ekki stoð í gögnum málsins. Varnaraðili vísar að öðru leyti um þetta efni til málsástæðna sinna.
Varnaraðili vísar til þess að í framangreindri útgáfulýsingu, auk síðari viðauka, og skuldabréfinu sjálfu sé fjallað um svokallaða hagsmunaeign í skuldabréfi (e. beneficial interest), þá hagsmuni sem sóknaraðili keypti á grundvelli skuldabréfsins, 17. janúar 2008. Í útgáfulýsingunni sé einnig gerð grein fyrir hinu óbeina vörslukerfi sem sóknaraðili keypti hagsmuni sína í gegnum.
Í þessu tilviki hafi Landsbanki Íslands hf. gefið út eitt áþreifanlegt skuldabréf sem Cede & Co., sem tilnefndur aðili af hálfu DTC, hafi verið skráður handhafi að. DBTCA hafi verið fjárvörslu- og umsýsluaðili útgáfunnar eins og að framan greini og hafi á þeim grundvelli verið heimilt að lýsa kröfu fyrir handhafa skuldabréfsins við slitameðferð varnaraðila. Í hinu óbeina vörslukerfi fari viðskipti ekki fram með framsali á slíku skuldabréfi heldur með framsali á hagsmunum á grundvelli skuldabréfsins sem fari fram með rafrænum skráningum í skrám DTC, í skrám milligönguaðila sem hafi reikning hjá DTC og í skrám fyrirtækja sem séu viðskiptavinir slíkra milligönguaðila, til hagsbóta fyrir hina endanlegu viðskiptamenn. Í samræmi við framangreint hafi orðið til marglaga vörslukerfi verðbréfamiðlara eða milligönguaðila svo unnt sé að framselja hagsmuni í skuldabréfi og sé fyrsti aðilinn í þessu kerfi hinn skráði handhafi skuldabréfsins, þ.e. Cede & Co. Milligönguaðili í tilviki sóknaraðila hafi verið Íslensk verðbréf hf.. Hagsmunum í skuldabréfinu sé dreift til næstu aðila að kerfinu, það er frá Cede & Co. til verðbréfamiðlana og fjármálastofnana sem eigi verðbréfareikning hjá tilgreindum handhafa, og þaðan til viðskiptamanna þeirra aðila þar sem hagsmunirnir séu skráðir. Í tilviki sóknaraðila séu hagsmunir í skuldabréfinu skráðir á reikningi hans hjá Íslenskum verðbréfum hf. Varnaraðili vísar að öðru leyti um hið óbeina vörslukerfi til gagna málsins sem og til dóms Hæstaréttar frá 12. október 2011 í máli réttarins nr. 398/2011.
Vegna eðlis málsins og ekki síst með tilliti til framkvæmdar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum við skuldabréfaútboð svo og til þess að ágreiningur málsaðila verði skýrari og aðgengilegri en annars, telur sóknaraðili nauðsynlegt að útskýra almennt hvernig sé háttað skuldabréfaútgáfu, eins og þeirri sem hið umdeilda skuldabréf verður rakið til.
Undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar og í upphafi þess áttunda, hafi bandaríski verðbréfamarkaðurinn staðið frammi fyrir óvenjulegu vandamáli sem nefnt hafi verið „pappírsvinnslukrísan“ (e. The paperwork crisis). Það hafi falist í því að vegna gríðarlegs magns skjala og eftir því mikillar pappírsvinnslu í tengslum við viðskipti með verðbréf á mörkuðum, hafi slík viðskipti verið orðin óöruggari en þótti viðunandi, auk þess sem opnunartími markaða var styttri og afgreiðslutími og uppgjör viðskipta lengra. Þannig hafi til dæmis verið lokað fyrir viðskipti á miðvikudögum og uppgjörstími viðskipta að sama skapi lengdur í fimm daga úr fjórum, allt vegna þess að markaðurinn hafði ekki undan allri skjalavinnslunni sem fylgdi verðbréfaviðskiptum. Markaðurinn hafi því bókstaflega verið að drukkna í pappír.
Til að mæta þessum mikla vanda í Bandaríkjunum, sem óx í takt við aukin viðskipti á markaði, hafi verið komið á óbeinu vörslukerfi fyrir verðbréf. Með því hafi verið hægt að vinna bug á þeim flöskuhálsi sem myndaðist við það að gríðarlegur fjöldi skjala þurfti sérstakar skráningar og þurfti að fara milli margra manna, jafnvel margoft á skömmum tíma. Jafnframt tryggði kerfið aukið öryggi fjárfesta þar sem ástandið hafi verið orðið slíkt að fjöldinn allur af skjölum glataðist í öngþveiti pappírsvinnslunnar. Nú sé svo komið að aðilar sem fyrirhugi að afla fjármagns með útgáfu markaðsverðbréfa í Bandaríkjunum hafi ekki annan raunhæfan kost en að gefa verðbréf sín út í gegnum óbeina vörslukerfið.
Óbeina vörslukerfið virki þannig að gefið sé út eitt allsherjarverðbréf og sé Cede & Co. sé skráður handhafi þess. Annar aðili, sem uppfylli tiltekin, ströng lagaleg skilyrði, sé svo „umsýsluaðili“ (e. Trustee) útgáfunnar. Í þeirri skuldabréfaútgáfu sem hér um ræðir sé sá aðili DBTCA og sjái hann til dæmis um að útdeila greiðslum frá útgefandanum til fjármálafyrirtækja sem séu næst í keðjunni og gegni hlutverki milligönguaðila við fjárfesta og önnur fjármálafyrirtæki sem séu neðar í keðjunni. Milligönguaðilarnir útdeili greiðslunum frá DBTCA til fjárfesta, það er hinna endanlegu eigenda (e. benificial owners). Með þessu móti fari allar greiðslur fram í gegnum óbeina vörslukerfið, allar skráningar fari fram á rafrænan hátt og mikilvæg skjöl á prenti séu ávallt geymd á sama staðnum. Eignaskráning réttinda hinna endanlegu eigenda sé á safnreikningi hjá milligönguaðilunum, sem í tilviki sóknaraðila sé Íslensk verðbréf hf. Allsherjarskuldabréfið sé aftur á móti gefið út á pappír og kyrrt á öruggum stað eins og öll önnur sambærileg verðbréf sem séu gefin út í bandarísku verðbréfamiðstöðinni DTC.
Langstærsti hluti uppgjörs allra verðbréfaviðskipta í Bandaríkjunum fari fram í gegnum óbeina vörslukerfið. Þannig hafi verið tryggð mikil skilvirkni í markaðsviðskiptum þrátt fyrir mikinn fjölda viðskipta og að sama skapi hafi öryggi fjárfesta í viðskiptum aukist. Grundvallaratriði hafi verið að endanlegir eigendur (e. benificial owners), sem óumdeilanlega hafi verið taldir hinir raunverulegu eigendur, skuli njóta allra þeirra fjárhagslegu- og félagaréttarlegu hagsmuna sem eign þeirra fylgi, til dæmis réttar til afborgana, réttar til arðs og atkvæðisréttar. Kerfið eigi þannig ekki með neinu móti að rýra réttindi fjárfesta, jafnvel þótt umsýsluaðilinn hafi heimild til að lýsa heildarkröfu á grundvelli allsherjarskuldabréfsins fyrir hönd endanlegra eigenda, eins um og um ræðir í máli þessu.
Sóknaraðili getur þess einnig að sambærilegu kerfi hafi verið komið á víðar en í Bandaríkjunum, þar með talið á Íslandi sbr. lög 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Íslenska kerfið sé þó frábrugðið hinu bandaríska að því leyti að í því séu gefin út rafbréf og réttindi samkvæmt þeim yfirleitt skráð á nafn endanlegra eigenda í kerfi Verðbréfaskráningar Íslands hf. Safnskráning sé þó heimil, sbr. 12. gr. laga nr. 108/2007 og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 131/1997. Það sé einmitt tilhögunin í Bandaríkjunum, þó þannig að gefið sé út eitt pappírsverðbréf á nafn Cede & Co. en haldið sé utan um réttindi raunverulegra eigenda á safnreikningum hjá milligönguaðilum (e. Street name registration).
Varnaraðili mótmælir þessari umfjöllun sóknaraðila um skuldabréfaútgáfu sem þýðingarlausri fyrir úrlausn sakarefnis málsins sem og umfjöllun um tilurð hins óbeina vörslukerfis og hinnar svokölluðu „pappírsvinnslukrísu“.
Hinn 7. október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 og tók yfir starfsemi Landsbanka Íslands og skipaði honum skilanefnd. Í kjölfarið, 5. desember 2008, var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar. Gildistaka laga nr. 44/2009, 22. apríl 2009, markaði upphaf slitameðferðar bankans og 29. apríl 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur honum slitastjórn. Samkvæmt lögum nr. 44/2009 gilda reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. í meginatriðum um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þar á meðal um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki.
Slitastjórnin birti innköllun 30. apríl 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 30. október 2009. Sóknaraðili lýsti nokkrum kröfum innan frestsins, þar á meðal vegna ofangreinds skuldabréfs. Að sögn sóknaraðila var í kröfulýsingu annars vegar krafist höfuðstóls að fjárhæð 3.055.768 Bandaríkjadalir, sem umreiknast í kröfuskrá í 399.419.435 kr., og vaxta að fjárhæð 62.762 Bandaríkjadalir, sem umreiknast í kröfuskrá í 8.203.621 krónu. Kröfunni var lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili mótmælir því sem röngu að krafa sóknaraðila að fjárhæð 3.055.768 Bandaríkjadalir hafi verið að höfuðstólsfjárhæð 407.113.157 krónur miðað við 22. apríl 2009. Hið rétta sé að krafa sóknaraðila að höfuðstólsfjárhæð 3.055.768 Bandaríkjadalir sé umreiknuð í kröfuskrá í 399.419.435 krónur miðað við skráð sölugengi Bandaríkjadals hjá Seðlabanka Íslands, 22. apríl 2009, en gengi Bandaríkjadals á þeim degi hafi numið 130,71 krónu. Í kröfulýsingu hafi sóknaraðili jafnframt krafist vaxta að fjárhæð 62.762 Bandaríkjadalir sem umreiknist í kröfuskrá í 8.203.621 krónur miðað við skráð sölugengi Bandaríkjadals hjá Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009. Lýst heildarkrafa sóknaraðila nemi því 407.623.056 krónum.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila með bréfi, 19. maí 2010. Þar vísaði hún til þess að samkvæmt ákvæðum útgáfulýsingar (e. Offering Circular) skuldabréfaútgáfunnar „USD $7.500.000.000 Medium-Term Note Program“ dags. 21. júlí 2006, ásamt viðauka hennar, dags. 11. ágúst 2006, hafi sóknaraðili hvorki verið skráður handhafi né eigandi skuldabréfsins „US$ 750.000.000 Floating Rate Senior Notes“ sem Landsbanki Íslands hf. gaf út 25. ágúst 2006. Hið svokallaða allsherjarskuldabréf hafi verið gefið út og eignaskráð á nafn Cede & Co., það fyrirtæki sem hafi verið tilnefnt sem viðtökuaðili af hálfu vörslufyrirtækis skuldabréfsins The Depository Trust & Clearing Corporation (DTC). Slitastjórn vísaði jafnframt til þess að DBTCA væri fjárvörsluaðili (e. Trustee) viðkomandi skuldabréfaútgáfu og að samkvæmt ákvæði 5.4 (a) í rammasamningi um skuldabréfaútgáfuna (e. Senior Indenture), dags. 21. júlí 2006, komi eftirfarandi fram.
the Trustee [...] shall be entitled and empowered [...] to file and prove a claim for the whole amount of principal [...] and interest, if any, owing and unpaid in respect of the Notes of such Series and to file such other papers or documents as may be necessary or advisable in order to have the claims of the Trustee [...] and the Holders of the Notes of such Series allowed in such proceeding.
Í samræmi við framangreint hafi slitastjórn varnaraðila viðurkennt heimild DBTCA, sem fjárvörslu- og umsýsluaðila, til að lýsa heildarkröfu á grundvelli skuldabréfsins. Á þeim grundvelli hafi slitastjórn varnaraðila alfarið hafnað kröfu sóknaraðila.
Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila til kröfunnar á kröfuhafafundi 27. maí 2010. Ekki tókst að jafna ágreininginn á fundinum og því fyrirséð að boðað yrði til sérstaks ágreiningsfundar síðar.
Hinn 29. júlí 2011 gerðu málsaðilar með sér samkomulag um fullnaðaruppgjör vegna afleiðusamninga sem þeir höfðu gert sín á milli. Í samkomulaginu fólst að sóknaraðili greiddi varnaraðila skuldir vegna afleiðusamninganna, en að sama skapi samþykkti varnaraðili skuldajöfnuðarrétt sóknaraðila vegna tiltekinna krafna sem sóknaraðili átti á hendur varnaraðila.
Við gerð samkomulagsins var enn ágreiningur milli málsaðila um hina umþrættu kröfu, annars vegar hvort sóknaraðila væri rétt að lýsa henni við slitameðferð varnaraðila og hins vegar hvort sóknaraðili gæti notað hana til skuldajafnaðar við skuldir sínar gagnvart varnaraðila. Í samkomulaginu var því gert ráð fyrir að sóknaraðila væri heimilt að fresta greiðslu sem næmi 495.546.079 kr. þar til ágreiningurinn væri til lykta leiddur, eftir atvikum með öðru samkomulagi eða fyrir dómstólum. Sú fjárhæð sem sóknaraðili fékk að fresta greiðslu á er nú fjárhæð þeirrar kröfu sem hann telur sig eiga rétt til að nýta til skuldajöfnuðar.
Samkvæmt 6. gr. samkomulagsins voru málsaðilar sammála um að líta á niðurstöðu í máli Eyris Invest o. fl. gegn DBTCA og Kaupþingi (Eyris-málið) sem fordæmi fyrir ágreining sinn. Þó voru aðilar sammála um að hvorum þeirra um sig væri heimilt, teldu þeir endanlega niðurstöðu málsins ekki fordæmisgefandi fyrir ágreininginn, að lýsa því yfir skriflega og rökstutt innan 30 daga frá dómsuppsögu að þeir teldu málið ekki fordæmisgefandi.
Hæstiréttur felldi dóm í máli nr. 398/2011 Eyrir Invest ehf. gegn Kaupþingi banka hf. og DBTCA, 12. október 2011, og 10. nóvember 2011 sendi sóknaraðili varnaraðila rökstudda yfirlýsingu í samræmi við ákvæði 6. gr. áðurnefnds samkomulags, þess efnis að sóknaraðili liti ekki á dóm Hæstaréttar í Eyris-málinu sem fordæmi fyrir ágreining aðila um skuldajöfnuðarrétt sóknaraðila. Taldi sóknaraðili dóminn ekki fordæmisgefandi þar sem hann fjallaði einvörðungu um réttinn til að lýsa kröfu, en ekki með neinu móti um rétt til skuldajöfnuðar samkvæmt lögum nr. 21/1991.
Á fundum 15. og 22. febrúar 2012 reyndu málsaðilar að jafna ágreining sinn. Þar sem það tókst ekki beindi slitastjórnin honum til Héraðsdóms Reykjavíkur í samræmi við 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
Í bréfi slitastjórnar til dómsins segir að ágreiningur málsaðila lúti annars vegar að þeirri afstöðu slitastjórnar að hafna kröfu kröfuhafa (sóknaraðila) við slitameðferð bankans og hins vegar rétti kröfuhafa til að nota hina umþrættu kröfu til skuldajöfnuðar á móti óumdeildri afleiðuskuld kröfuhafa við bankann að höfuðstólsfjárhæð 407.113.157 krónur miðað við 22. apríl 2009 eða 495.546.079 krónur að teknu tilliti til álags og áfallinna vaxta til 20. júlí 2011.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að Eyris-málið sé ekki fordæmisgefandi fyrir sakarefni þessa máls þar sem í því máli hafi ekki verið tekið á rétti sóknaraðila til skuldajöfnuðar og því eigi eftir að skera úr um þann rétt sóknaraðila.
A. Eyris-málið er ekki fordæmisgefandi um sakarefni þessa máls
Svo sem að framan greinir lýtur ágreiningur aðila í málinu eingöngu að því hvort sóknaraðili hafi heimild til að skuldajafna kröfu sinni samkvæmt skuldabréfi sem varnaraðili gaf út með ISIN-númer US5150X1AB50 að höfuðstól 3.055.768 Bandaríkjadalir. Með umsömdum vöxtum og álagi nemi fjárhæðin nú 495.546.079 krónum.
Sóknaraðili telur Eyris-dóminn ekki hafa leyst úr ágreiningi um rétt sóknaraðila til skuldajöfnuðar. Í því máli hafi eingöngu verið fjallað um hvort endanlegir eigendur skuldabréfa, sem séu gefin út á sama hátt og það skuldabréf sem hér er deilt um, hafi rétt til þess að lýsa og fá samþykkta kröfu sína á grundvelli slíkra skuldabréfa. Hæstiréttur hafi hafnað því og staðfest að slitastjórn Kaupþings hafi verið rétt að samþykkja heildarkröfu umsýsluaðilans DBTCA á grundvelli allsherjarskuldabréfsins. Sú niðurstaða hafi enga þýðingu í þessu máli, enda sé það til dæmis ekki skilyrði skuldajöfnuðarréttar að krafa sé á kröfuskrá við slitameðferð varnaraðila, samanber 3. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991. Því geti fordæmið í Eyris-málinu eingöngu tekið til þess hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að lýsa kröfunni í bú varnaraðila í ljósi þess að DBTCA lýsti á sama tíma heildarkröfu á grundvelli allsherjarskuldabréfsins.
B. Um rétt sóknaraðila til skuldajöfnuðar
Þess vegna eigi eftir að skera úr um það hvort sóknaraðili eigi rétt til skuldajöfnuðar. Sóknaraðili byggir á því að öll skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt og því sé ekkert því til fyrirstöðu að viðurkenna rétt hans til skuldajöfnuðar.
Sóknaraðili hafi eignast skuldabréfið fyrir hinn lögbundna þriggja mánaða frest. Sóknaraðili hafi hvorki vitað né mátt vita að varnaraðili ætti ekki fyrir skuldum og hafi því ekki eignast kröfuna í þeim tilgangi að nýta hana til skuldajöfnuðar. Þá hafi gagnkrafan stofnast vel fyrir frestdag eins og fram sé komið. Öll þessi atriði séu óumdeild á milli aðila og óþarfi að fjölyrða um þau.
Ágreiningur sé hins vegar um hvort krafa sóknaraðila sé tæk til skuldajöfnuðar, þar sem umrætt skuldabréf sé gefið út í Bandaríkjadölum í hinu óbeina vörslukerfi sem notast sé við í Bandaríkjunum. Sóknaraðili byggi á því að sú staðreynd hafi engin áhrif á kröfuréttarsamband aðila. Samkvæmt umræddu skuldabréfi skuldi varnaraðili sóknaraðila þá fjárhæð sem þar er getið.
i. Sóknaraðili á bein eignarréttindi að skuldabréfinu og uppfyllir þar með skilyrði um skuldajöfnuð.
Þrátt fyrir að við útgáfu skuldabréfsins, sem sóknaraðili fjárfesti í, hafi verið notast við óbeina vörslukerfið, breyti það ekki því að eignarréttindi að skuldabréfinu liggi eftir sem áður hjá sóknaraðila.
Eignarréttur sóknaraðila endurspeglist skýrt í útgáfulýsingu skuldabréfanna og rammasamningi um útgáfuna. Þá sé hann ítrekað áréttaður í þeirri bandarísku löggjöf sem gildi að hluta um útgáfuna, New York Uniform Commercial Code (UCC). Um það megi meðal annars benda á eftirfarandi atriði:
- Sóknaraðili á tilkall til allra réttinda vegna skuldabréfsins. Það sé ein af meginreglum óbeina vörslukerfisins að raunverulegur eigandi eigi tilkall til allra fjárhagslegra og félagaréttarlegra réttinda sem fylgi skuldabréfunum. Þetta komi meðal annars fram í opinberum athugasemdum við gr. 8-503 í UCC. Þannig séu endanlegir eigendur réttir viðtakendur allra greiðslna sem inntar séu af hendi samkvæmt skuldabréfunum, hvort heldur afborganir höfuðstóls og vaxta eða greiðslur sem inntar séu af hendi í tengslum við slitameðferð varnaraðila. Þá eigi endanlegir eigendur tilkall til að fara með þann atkvæðisrétt sem bréfunum fylgir. Þetta sé í samræmi við að óbeina vörslukerfið sé einvörðungu við lýði af hagkvæmnisástæðum og eigi ekki í neinu að skerða réttindi fjárfesta, hinna endanlegu eigenda.
- Sóknaraðili á beint tilkall til skuldabréfs í pappírsformi ef hið óbeina vörslukerfi er lagt af. Samkvæmt ákvæðum útgáfulýsingarinnar og rammasamnings um útgáfuna geti bandaríska verðbréfamiðstöðin, DTC, ákveðið að veita ekki áframhaldandi þjónustu vegna allsherjarskuldabréfsins og með sama hætti geti varnaraðili ákveðið að notast ekki lengur við hið óbeina vörslukerfi fyrir milligöngu DTC. Í slíkum tilvikum skuli skuldabréf prentuð út og afhent hinum endanlegu eigendum í pappírsformi. Af því leiði að varnaraðili inni greiðslur af hendi beint til hinna endanlegu eigenda við slíkar aðstæður, án milligöngu DTC eða annarra. Þessi staðreynd bendi auðsjáanlega til þess að sóknaraðili eigi hagsmunina og óbeina vörslukerfið breyti henni í engu.
- DBTCA getur falið endanlegum eigendum að gæta hagsmuna sinna sjálfir. DBTCA, umsýsluaðilinn, geti falið hinum endanlegu eigendum að gæta hagsmuna sinna sjálfir og þar með framselt rétt sinn til að lýsa kröfu til þeirra, sbr. gr. 8-506(2) í UCC. Ávallt liggi til grundvallar sú meginskylda DBTCA að tryggja að endanlegir eigendur fái notið allra þeirra fjárhagslegu og félagaréttarlegu réttinda sem bréfunum fylgja.
- Réttur til framsals og veðsetningar var hjá sóknaraðila. Óumdeilt sé að endanlegir eigendur, eins og sóknaraðili, hafi fyrir fall varnaraðila getað framselt og veðsett þau skuldabréf sem um ræðir.
Með vísan til framangreinds sé ljóst að sóknaraðili, sem sé endanlegur eigandi, fari með hinn beina eignarrétt yfir skuldabréfinu og njóti þar með ótvíræðs réttar til að skuldajafna kröfu vegna bréfsins við kröfur varnaraðila.
Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðis 100. gr. laga nr. 21/1991 geti hver sá sem skuldi þrotabúi dregið það frá sem hann „á hjá því“ hafi hann „eignast“ kröfuna fyrir tiltekinn tíma. Það séu því eignarréttindin sem skipti höfuðmáli.
Þetta hafi mikla þýðingu í þessu máli. Af því sem að framan sé rakið um réttindi sóknaraðila samkvæmt útgáfulýsingu skuldabréfsins sé ljóst að hann fari með hin beinu eignarréttindi. Sóknaraðili njóti alls efnahagslegs ávinnings af skuldabréfi sínu og hann fari með allan ráðstöfunarrétt yfir því. Hann geti framselt skuldabréfið eða veðsett. Þá eigi sóknaraðili tilkall til allra kröfuréttarlegra réttinda sem skuldabréfið feli í sér, þar með talið skuldajöfnuðarrétt.
Í þessu sambandi bendir sóknaraðili á að samkvæmt bandarískum rétti sé slíkur skuldajöfnuðarréttur endanlegra eigenda að meginreglu til staðar. Samkvæmt grein 8-202(f) í UCC, geti útgefandi ekki haldið uppi vörnum gegn kröfum endanlegs eiganda verðbréfs sem sé gefið út í gegnum óbeina vörslukerfið, væri þeim sömu vörnum ekki komið við gagnvart eigendum bréfa sem gefin væru út utan óbeina vörslukerfisins. Skuldajöfnuðarréttur falli ótvírætt þarna undir.
ii. Útgáfulýsingin mælir fyrir um skuldajöfnuðarrétt sóknaraðila
Útgáfulýsingin taki til mögulegrar útgáfu forgangsskuldabréfa (e. Senior Notes), víkjandi skuldabréfa (e. Subordinated Notes) og skuldabréfa með sérstökum skilmálum (e. Capital Notes). Skuldabréf sóknaraðila sé forgangsskuldabréf.
Um forgangsskuldabréfin segi í lýsingunni að þau skuli mynda beinar, óskilyrtar, almennar og ótryggðar skuldbindingar varnaraðila, þær skuli vera jafnréttháar innbyrðis og skuli enn fremur hafa sömu stöðu og allar aðrar ótryggðar og almennar kröfur útgefandans, til samræmis við lagaákvæði sem gildi um eða hafi áhrif á réttindi kröfuhafa þegar um er að ræða ógreiðslufærni. Því sé ljóst að staða forgangsskuldabréfanna skyldi vera jöfn stöðu allra sambærilegra skuldbindinga varnaraðila. Þetta verði að skilja sem svo að kröfur vegna skuldabréfanna feli í sér sömu réttindi og aðrar sambærilegar kröfur á hendur varnaraðila samkvæmt íslenskum gjaldþrotalögum, þar á meðal réttinn til skuldajöfnuðar.
Þessi skilningur fái ótvíræðan stuðning í umfjöllun útgáfulýsingarinnar um víkjandi skuldabréf og skuldabréf með sérstökum skilmálum. Þar sé sérstaklega tekið fram að eigendur slíkra skuldabréfa teljist hafa afsalað sér öllum rétti til skuldajöfnuðar á hendur varnaraðila.
Í umfjöllun um forgangsskuldabréf sé hins vegar í engu vikið að því að eigendur slíkra skuldabréfa hafi afsalað sér rétti til skuldajöfnuðar. Sóknaraðili hafi því staðið í þeirri góðu trú að hann ætti rétt til skuldajöfnuðar og að krafa hans samkvæmt skuldabréfinu væri jafnsett öllum öðrum almennum skuldbindingum varnaraðila eins og skýrt komi fram í útgáfulýsingunni. Það gefi augaleið að væru eigendur skuldabréfa samkvæmt útgáfunni almennt ekki taldir eiga rétt til skuldajöfnuðar, hefði verið fullkomlega óþarft að taka það sérstaklega fram að vissum tegundum skuldabréfanna fylgdi ekki slíkur réttur.
Ástæða sé til að minna á þau sanngirnissjónarmið sem búi að baki skuldajöfnuðarrétti gjaldþrotaréttar, að kröfuhöfum, sem jafnframt skuldi þrotabúi, sé ekki gert að greiða þrotabúinu aðalkröfuna að fullu, en verði svo að sæta því að fá einungis hluta krafna sinna greiddan. Sé ætlunin að takmarka þennan rétt verði að gera það á skýran hátt, rétt eins og gert var í tengslum við hin réttlægri bréf í útgáfulýsingu.
iii. Efni gildir umfram form
Verði ekki fallist á ofangreind sjónarmið bendir sóknaraðili á að umgjörð skuldabréfaútgáfunnar breyti ekki eðli eignarréttinda sóknaraðila yfir skuldabréfinu sem varnaraðili gaf út. Eins og áður segi hafi óbeina vörslukerfið verið sett á fót í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar af hagkvæmnisástæðum. Markmiðið hafi verið að einfalda og auðvelda verðbréfaviðskipti og gera þau þannig öruggari og skilvirkari. Óbeina vörslukerfinu hafi síður en svo verið ætlað að breyta eðli eða inntaki eignarréttinda eigenda verðbréfa á nokkurn hátt, heldur hafi því þvert á móti verið ætlað að auka fjárfestavernd. Í útgáfulýsingu skuldabréfsins segi enda að innlögn allsherjarskuldabréfa og allsherjarinneignarskírteina (e. Global Notes and Global Receipts) hjá DTC og skráning þeirra í nafni Cede & Co. hafi engin áhrif á eignarhald hagsmuna.
Þannig sé ljóst að varsla og skráning skuldabréfsins hjá DTC og Cede & Co hafi einungis verið formlegs eðlis og til hagræðis, en hafi ekkert efnislegt inntak að því er varði eignarréttinn að kröfunni á hendur varnaraðila.
Í þessu samhengi sé nauðsynlegt að hafa í huga að í íslenskum rétti sé fremur litið til efnis samninga en forms þeirra. Í grunninn sé samningssamband varnaraðila sem útgefanda og sóknaraðila sem kaupanda skuldabréfs einfalt. Varnaraðili skuldi peninga samkvæmt skuldabréfi sem sóknaraðili eigi. Ljóst sé að hvorki DBTCA sem umsýsluaðili, né Cede & Co. sem skráður handhafi allsherjarbréfsins, beri ábyrgð á skuldbindingu varnaraðila gagnvart sóknaraðila. Varnaraðili sé útgefandinn og skuldarinn. Formleg umgjörð samningssambandsins hér skipti því ekki máli að því er varðar rétt sóknaraðila til skuldajöfnuðar samkvæmt lögum nr. 21/1991. Horfa beri á inntak og eðli eignarréttinda sóknaraðila óháð því formi sem var á útgáfu skuldabréfanna.
Til stuðnings kröfu sinni vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 16. og 18. kafla laganna. Hann vísar einnig til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sbr. einnig lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sóknaraðili vísar að auki til laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og laga nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Enn fremur vísar hann til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldajöfnuð og efndir fjárskuldbindinga og meginreglu eignarréttar um umráða- og ráðstöfunarrétt eiganda yfir eign sinni. Sóknaraðili reisir kröfu sína um málskostnað á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt á málskostnað vísast til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili vísar fyrst til þess að sóknaraðili krefjist þess ekki í greinargerð sinni, að krafa hans að fjárhæð 3.055.769 Bandaríkjadalir verið viðurkennd við slitameðferð varnaraðila en krefjist þess einungis að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna kröfunni við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila. Ágreiningur málsaðila sé þannig afmarkaður við meintan rétt sóknaraðila til skuldajöfnuðar.
Eins og málið liggi fyrir verði fyrst að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili eigi þær fjárkröfur á hendur varnaraðila sem hann haldi fram. Í tilkynningu varnaraðila til sóknaraðila, 19. maí 2010, um þá afstöðu slitastjórnar að hafna kröfu sóknaraðila, hafi kröfu sóknaraðila verið hafnað með vísan til þess að sóknaraðili væri hvorki skráður handhafi né eigandi að skuldabréfinu „US$ 750.000.000 Floating Rate Senior Notes“ sem Landsbanki Íslands hf. gaf út, 25. ágúst 2006. Þá hafi verið vísað til þess að slitastjórn varnaraðila hefði viðurkennt heimild DBTCA, sem fjárvörslu- og umsýsluaðila, til að lýsa heildarkröfu á grundvelli skuldabréfsins. Varnaraðili telur framangreinda afstöðu slitastjórnar standast að öllu leyti og því sé þess krafist að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili eigi ekki lögvarða kröfu á hendur varnaraðila enda hafi ekki stofnast skuldarsamband milli Landsbanka Íslands hf. og sóknaraðila á grundvelli viðskipta sóknaraðila við Íslensk verðbréf hf., 17. janúar 2008. Varnaraðili mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðila sem rangri og ósannaðri að hann hafi, 17. janúar 2008, keypt skuldabréf útgefið af Landsbanka Íslands hf., með ISIN-númer US5150X1AB50, að fjárhæð 3.055.768 Bandaríkjadalir eða 407.113.157 kr. að höfuðstól miðað við 22. apríl 2009. Varðandi hin meintu skuldabréfakaup hafi sóknaraðili vísað til kaupnótu frá Íslenskum verðbréfum. Hið rétta sé að sóknaraðili hafi, í gegnum hið óbeina vörslukerfi, keypt hagsmuni á grundvelli skuldabréfs sem Landsbanki Íslands hf. hafi gefið út. Þau viðskipti séu skráð á reikningi sóknaraðila hjá verðbréfamiðlara eða milligönguaðila sóknaraðila, það er hjá Íslenskum verðbréfum hf., eins og ráða megi af yfirliti yfir verðbréfaeign sóknaraðila hjá því eignastýringarfyrirtæki. Sóknaraðili hafi hvorki lagt fram eintak af hinu meinta skuldabréfi, það er skriflega yfirlýsingu þar sem Landsbanki Íslands hf. sem útgefandi viðurkenni einhliða og skilyrðislaust skyldu til að greiða sóknaraðila ákveðna peningagreiðslu, né önnur sönnunargögn um eignarhald á framseljanlegu skuldabréfi útgefnu af Landsbanka Íslands hf. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili eigi ekki neina kröfu á hendur sér samkvæmt hagsmunum sóknaraðila á grundvelli skuldabréfsins.
Varnaraðili byggir á því að samkvæmt gögnum málsins og því skuldabréfi sem hér sé til umfjöllunar, „US$ 750.000.000 Floating Rate Senior Notes“, hafi Landsbanki Íslands hf. aðeins undirgengist fjárskuldbindingu gagnvart Cede & Co. á grundvelli skuldabréfsins sem sé eigandi og handhafi þess. Sóknaraðili sé því hvorki handhafi né eigandi skuldabréfsins og hafi hvorki fengið það framselt sér í heild né að hluta. Framlögð kvittun sóknaraðila frá Íslenskum verðbréfum geti þannig hvorki talist skuldabréf að íslenskum né bandarískum lögum. Samkvæmt kvittuninni hafi sóknaraðili aðeins keypt hagsmuni á grundvelli skuldabréfsins en slík réttindi geti ekki orðið grundvöllur beinna kröfuréttinda á hendur Landsbanka Íslands hf., nú varnaraðila. Því hafi ekki stofnast neitt skuldarsamband milli sóknar- og varnaraðila á grundvelli hagsmuna sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu. Sóknaraðili eigi eingöngu kröfu gagnvart sínum verðbréfamiðlara eða milligönguaðila, það er Íslenskum verðbréfum hf., á grundvelli sinna hagsmuna samkvæmt skuldabréfinu en ekki nein bein réttindi gagnvart Landsbanka Íslands hf. sem útgefanda. Landsbanki Íslands hf. sé þannig aðeins skuldbundinn gagnvart Cede & Co., sem löglegum eiganda og handhafa skuldabréfsins, og geti varnaraðili ekki losnað undan skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. á grundvelli skuldabréfsins með greiðslu til sóknaraðila í gegnum skuldajöfnuð. Þetta komi skýrt fram í framlagðri kaupnótu sóknaraðila frá Íslenskum verðbréfum en þar segi m.a.:
„Vinsamlega athugið að Íslensk verðbréf er mótaðili þessara viðskipta.“
Sóknaraðili byggir á því að framangreindar málsástæður fái stoð í dómi Hæstaréttar, 12. október 2011, í máli nr. 398/2011, Eyris-máli. Varnaraðili vísar til eftirfarandi forsendna í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna í framangreindum dómi:
Ekki er unnt að fallast á að orðalag ofangreindrar kaupnótu gefi til kynna að sóknaraðili hafi í umrætt sinn keypt skuldabréf, eins og það hugtak hefur almennt verið skilgreint í kröfurétti hér á landi, og styðja heldur engin önnur gögn þá staðhæfingu sóknaraðilans. Þykir því ekki skipta máli þótt starfsmaður sóknaraðila hafi í aðdraganda viðskiptanna talið sig vera að kaupa skuldabréf, útgefið af Kaupþingi banka hf., enda er sóknaraðili fagfjárfestir í skilningi laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og bjó yfir sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Ekki taldi hann heldur ástæðu til að kynna sér þau gögn sem lágu að baki viðskiptunum. Hins vegar ber kaupnótan með sér að hún er „skrifleg staðfesting, þar sem getið er um helstu atriði viðskiptanna“, eins og áðurnefnd útgáfulýsing mælti fyrir um að viðskiptavinur ætti að fá í hendur við kaup á hagsmunum í allsherjarskuldabréfinu, og vísar þannig greinilega til kaupa sóknaraðila á hagsmunum sem tengjast skuldabréfaútgáfunni „Series C Senior Floating Rate Notes due 2010“ og allsherjarskuldabréfi í þeim flokki, nefnd „Series C Senior Floating Rate Note“, merkt ISIN nr. US48632FAC59. Í ljósi þessa, svo og með vísan til skilmála ofangreindrar útgáfulýsingar og rammasamnings um skuldabréfaútgáfuna, þar sem beinlínis er tekið fram að skráður handhafi og eigandi allsherjarskuldabréfsins sé Cede & Co. samkvæmt tilnefningu DTC, hafnar dómurinn þeirri málsástæðu sóknaraðila að hann eigi kröfurétt á hendur Kaupþingi banka hf. á grundvelli þeirra viðskipta sem hér eru rakin, og geti af þeirri ástæðu krafist greiðslu sér til handa. Um leið er minnt á að samkvæmt skuldabréfinu skuldbatt Kaupþing banki hf. sig til að greiða Cede & Co. fjárhæð skuldabréfsins, ásamt vöxtum, og verður ekki séð af gögnum málsins að bankinn geti einhliða komist hjá þeirri greiðsluskyldu, t.a.m. með því að greiða eigendum hagsmuna milliliðalaust hlutdeild þeirra í heildarkröfu Cede & Co. á hendur bankanum.
Varnaraðili byggir á því að framangreindur dómur Hæstaréttar sé að öllu leyti fordæmisgefandi vegna þessa ágreinings málsaðila. Sóknaraðili eigi ekki kröfurétt á hendur varnaraðila enda hafi ekki stofnast skuldarsamband milli þeirra. Þar sem sóknaraðili eigi ekki kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli skuldabréfsins beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu sóknaraðila um skuldajöfnuð, sbr. 100. gr. laga nr. 21/1991 og almennar meginreglur kröfuréttar um skuldajöfnuð. Varnaraðili mótmælir með öllu þeim málsástæðum sóknaraðila að framangreindur dómur Hæstaréttar sé ekki fordæmisgefandi um sakarefni þessa máls og að fordæmisgildi dómsins sé takmarkað við það hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að lýsa kröfunni í bú varnaraðila í ljósi þess að DBTCA lýsti á sama tíma heildarkröfu á grundvelli skuldabréfsins. Telja verði framangreinda niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, hafa fordæmisgildi í málinu enda sé því slegið þar föstu að eigendur hagsmuna á grundvelli skuldabréfs eigi ekki kröfurétt á hendur útgefanda bréfsins og ekkert skuldarsamband sé á milli slíkra aðila.
Varnaraðili vísar í þessu samhengi til þess sem áður greinir um að DBTCA hafi lýst heildarkröfu við slitameðferð varnaraðila á grundvelli skuldabréfsins, það er skuldabréfaútgáfu Landsbanka Íslands hf. „US$ 750.000.000 Floating Rate Senior Notes, due 2009“. Slitastjórn varnaraðila samþykkti heildarkröfu DBTCA með breytingum við slitameðferð varnaraðila, sbr. kröfu nr. 2584 í kröfuskrá Landsbanka Íslands hf. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi ekki mótmælt afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu DBTCA og að allir þeir sem mótmælt hafi afstöðunni hafi fallið frá þeim mótmælum. Heildarkrafa DBTCA sé því endanlega samþykkt við slitameðferð varnaraðila, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi sóknaraðili ekki krafist þess að krafa hans að fjárhæð 3.055.768 Bandaríkjadalir verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila heldur er þess einungis krafist að viðurkenndur verði réttur sóknaraðila til að skuldajafna tilgreindri kröfu við kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila. Byggir varnaraðili á því að afstaða slitastjórnar um höfnun kröfu sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila, nr. 3404 í kröfuskrá, sé því endanleg, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili byggir á því að þar sem DBTCA hafi lýst heildarkröfu vegna útgáfunnar leiði það til þess að eigendur hagsmuna, í skuldabréfakröfu Cede & Co. á hendur Landsbanka Íslands hf., eins og sóknaraðili þessa máls, geti hvorki lýst kröfu á hendur varnaraðila, eins og ágreiningslaust sé í þessu máli, né krafist skuldajöfnuðar. Varnaraðili vísar til þess að hagsmunir sóknaraðila á grundvelli skuldabréfsins séu hluti af framangreindri kröfu DBTCA við slitameðferð varnaraðila. Yrði fallist á kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á heimild til skuldajöfnuðar hefði það í reynd þá afleiðingu að ein og sama krafan yrði tvísamþykkt við slitameðferð varnaraðila, annars vegar í gegnum framangreinda heildarkröfu DBTCA og hins vegar í gegnum skuldajöfnuð þar sem sóknaraðili fengi kröfu sína greidda að fullu með skuldajöfnuði. Slík niðurstaða leiddi til ójafnræðis meðal kröfuhafa við slitameðferðina enda væri þá ein og sama krafan tvísamþykkt.
Í samræmi við það sem að framan sé rakið byggi varnaraðili á því að skuldajöfnuðarkrafa sóknaraðila á grundvelli hagsmuna í skuldabréfinu uppfylli ekki skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 og beri því að hafna öllum dómkröfum sóknaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 geti hver sá, sem skuldi þrotabúi, dregið það frá sem hann eigi hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu sé varið hafi lánardrottinn eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag. Varnaraðili byggir á því að krafa sóknaraðila um skuldajöfnuð uppfylli ekki skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 þar sem sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann eigi kröfu á hendur varnaraðila.
Varnaraðili mótmælir sem röngum og ósönnuðum öllum málsástæðum sóknaraðila fyrir því að uppfyllt séu skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991. Í samræmi við það sem að framan sé rakið sé því mótmælt sem röngu að sóknaraðili hafi eignast skuldabréf gefið út af Landsbanka Íslands hf. og eigi þannig bein eignarréttindi að skuldabréfinu.
Samið hafi verið um það að bæði undirliggjandi samningar og sjálft skuldabréfið skyldi túlkað samkvæmt lögum New York-ríkis. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar beri að beita þeim lögum við túlkun á efni skjalanna og um meintan efnislegan rétt sóknaraðila til skuldajöfnuðar í málinu. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðila hafi ekki lánast að sýna fram á að hann eigi rétt til skuldajöfnuðar á grundvelli þeirra réttarreglna sem hann vísi til í málatilbúnaði sínum enda hvíli sönnunarbyrðin fyrir tilvist og efni hinna erlendu réttarreglna á sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991.
Varnaraðili byggir á því að samkvæmt samræmdum viðskiptalögum New York-ríkis, The New York Commercial Code, sem séu lögð fram að hluta sé Landsbanki Íslands hf. aðeins skuldbundinn gagnvart Cede & Co. sem eiganda og handhafa skuldabréfsins. Í tilgreindum lögum komi fram að aðili sem ekki sé eigandi skuldabréfs heldur einungis eigandi að hagsmunum á grundvelli skuldabréfs sé handhafi réttinda (e. Entitlement holder) og eigi réttindi gagnvart sínum milligönguaðila (e. Securities intermediary) eins og þau hugtök séu skilgreind í lögunum. Handhafi réttinda eigi hins vegar engin réttindi í skuldabréfinu sjálfu eða gegn útgefanda þess heldur séu slík réttindi einungis hlutfallslegur réttur í þeim hagsmunum sem milligönguaðili eigi. Ágreiningslaust sé að Cede & Co. sé eini handhafi og eigandi að hinu umþrætta skuldabréfi. Sóknaraðili eigi því hvorki beina kröfu á hendur Landsbanka Íslands hf., sem útgefanda, né eignarrétt að skuldabréfinu. Sóknaraðili eigi þannig eingöngu réttindi gagnvart sínum milligönguaðila, þ.e. Íslenskum verðbréfum hf., eins og að framan sé rakið. Þá bendir varnaraðili á það að í framlögðum samningum séu ekki nein ákvæði sem heimili eigendum hagsmuna að lýsa kröfu og fá greiðslur á grundvelli slíkra krafna við slitameðferð varnaraðila, þ.e. hvorki við útgreiðslu við slitameðferð varnaraðila né í gegnum skuldajöfnuð.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðila hafi verið ljóst, eða hafi í öllu falli mátt vera ljóst, að hann ætti ekki kröfu á hendur Landsbanka Íslands hf. á grundvelli hagsmuna í skuldabréfinu. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili sé lífeyrissjóður á Íslandi sem starfi samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að kynna sér útgáfulýsingar og önnur undirliggjandi gögn áður en hann keypti hagsmuni á grundvelli skuldabréfsins. Hafi sóknaraðili látið það ógert verði hann sjálfur að bera hallann af því. Þá hafi sóknaraðili verið flokkaður sem viðurkenndur gagnaðili hjá Landsbanka Íslands hf. í skilningi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Varnaraðili mótmælir í heild sinni þeim málsástæðum sóknaraðila sem byggi á því að sóknaraðili eigi bein eignarréttindi að skuldabréfinu og uppfylli þar með skilyrði um skuldajöfnuð. Sóknaraðili haldi því fram í málatilbúnaði sínum að hann eigi tilkall til allra réttinda vegna skuldabréfsins. Varnaraðili mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðila. Auk þess sem að framan sé rakið ítrekar varnaraðili og leggur áherslu á að ágreiningslaust sé á milli aðila að Cede & Co. sé eini handhafi og eigandi þess skuldabréfs sem þetta mál varðar. Landsbanki Íslands hf. sé þannig einungis skuldbundinn gagnvart þeim aðila á grundvelli skuldabréfsins. Þá vísar varnaraðili til þess að framangreind krafa DBTCA við slitameðferð varnaraðila, nr. 2584 í kröfuskrá, tryggi hagsmuni allra þeirra aðila sem eigi hagsmuni í skuldabréfakröfu Cede & Co. Þannig beri DBTCA, sem fjárvörslu- og umsýsluaðila, samkvæmt áðurgreindum rammasamningi að afhenda Cede & Co., sem handhafa og eiganda skuldabréfsins, þær greiðslur sem hann taki við við slitameðferð varnaraðila á grundvelli lýstrar heildarkröfu. Í kjölfar þess beri handhafa bréfsins að leggja greiðsluna inn á reikninga þeirra aðildarfélaga DTC sem eigi hagsmuni á grundvelli skuldabréfsins en þeim beri svo aftur að leggja greiðslur inn á reikninga viðskiptavina sinna. Landsbanki Íslands hf., sem útgefandi skuldabréfsins, beri ekki ábyrgð á greiðslum til eigenda hagsmuna. Varnaraðili hafi þannig innt sínar skyldur af hendi með greiðslu til Cede & Co., eða eftir atvikum DBTCA sem fjárvörslu- og umsýsluaðila. Byggir varnaraðili á því að eigendur hagsmuna eigi ekki neinn rétt gagnvart varnaraðila á grundvelli slíkra hagsmuna, þ.e. hvorki til þess að lýsa eða innheimta kröfu á hendur varnaraðila né rétt til að krefjast skuldajöfnuðar. Verði sóknaraðili því að beina kröfum sínum á grundvelli hagsmuna í skuldabréfinu til síns verðbréfamiðlara, þ.e. Íslenskra verðbréfa hf.
Varnaraðili mótmælir sem þýðingarlausri og ósannaðri þeirri málsástæðu sóknaraðila að hann eigi bein eignarréttindi að skuldabréfinu á þeim grundvelli að hann eigi beint tilkall til skuldabréfs í pappírsformi verði hið óbeina vörslukerfi lagt af. Varnaraðili vísar til þess að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um að leggja hið óbeina vörslukerfi af vegna hins umþrætta skuldabréfs. Sé sú staða því ekki uppi sem tilgreind málsástæða sóknaraðila byggi á og séu málsástæður sóknaraðila á þessum grundvelli því þýðingarlausar. Varnaraðili áréttar að kjarni málsins sé sá að Landsbanki Íslands hf. hafi gefið út skuldabréf, 25. ágúst 2006, og skuldbundið sig til að endurgreiða fjárhæðina til Cede & Co. sem handhafa og eiganda bréfsins. Ekki hafi orðið neinar breytingar á eignarhaldi skuldabréfsins og hafi tilgreind málsástæða sóknaraðila því ekkert með meintan rétt sóknaraðila til skuldajöfnuðar að gera.
Varnaraðili mótmælir jafnframt sem þýðingarlausri og ósannaðri þeirri málsástæðu sóknaraðila að DBTCA geti falið „endanlegum eigendum“ að gæta hagsmuna sinna sjálfir sem leiði til þess að sóknaraðili verði talinn eiga bein eignarréttindi að skuldabréfinu og uppfylli þar með skilyrði um skuldajöfnuð. Varnaraðili telur þessa málsástæðu sóknaraðila ekkert hafa með sakarefni málsins að gera. Hafi DBTCA þannig ekki falið eigendum hagsmuna á grundvelli skuldabréfsins að gæta hagsmuna sinna sjálfir. Þvert á móti hafi DBTCA sjálfur lýst heildarkröfu á grundvelli skuldabréfsins við slitameðferð varnaraðila eins og áður hafi verið rakið. Þá bendir varnaraðili á að DBTCA hafi staðið í ágreiningsmáli í sambærilegu máli við eigendur hagsmuna í skuldabréfi sem Kaupþing banki hf. hafi gefið út, sbr. dóm Hæstaréttar, 12. október 2011, í máli réttarins nr. 398/2011.
Þá mótmælir varnaraðili þeirri staðhæfingu sóknaraðila að réttur til framsals og veðsetningar skuldabréfsins hafi verið hjá „endanlegum eigendum“. Vísar varnaraðili til þess að óumdeilt sé að sóknaraðili hafi í gegnum hið óbeina vörslukerfi keypt hagsmuni á grundvelli skuldabréfsins og að þau viðskipti séu skráð á reikningi sóknaraðila hjá Íslenskum verðbréfum hf. Sóknaraðili sé ekki, og hafi aldrei verið, handhafi að neinu skuldabréfi útgefnu af Landsbanka Íslands hf. vegna þessara viðskipta og að sóknaraðili sé ekki eigandi að sjálfu skuldabréfinu. Engum hluta skuldabréfsins hafi verið afsalað til sóknaraðila enda hafi Íslensk verðbréf hf. ekki heimild til að afsala slíkri eign Cede & Co. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi þannig hvorki getað framselt né veðsett eign Cede & Co., þ.e. útgefið skuldabréf af hálfu Landsbanka Íslands hf. Það hvort sóknaraðili hafi getað framselt og veðsett hagsmuni á grundvelli skuldabréfsins hafi ekkert með varnaraðila að gera enda myndi slíkir hagsmunir ekki bein kröfuréttindi á hendur varnaraðila eins og áður greinir.
Þá mótmælir varnaraðili því sem ósönnuðu að slíkur skuldajöfnuðarréttur sem sóknaraðili haldi fram sé að meginreglu til staðar samkvæmt bandarískum rétti.
Varnaraðili mótmælir sem rangri þeirri staðhæfingu sóknaraðila að útgáfulýsingin mæli fyrir um skuldajöfnuðarrétt sóknaraðila. Hvergi komi fram í tilgreindri útgáfulýsingu eða síðari viðaukum, að eigendur hagsmuna á grundvelli skuldabréfsins hafi heimild til að lýsa yfir skuldajöfnuði á móti kröfum útgefanda á hendur slíkum aðilum. Þá áréttar varnaraðili í þessu samhengi að þar sem sóknaraðili eigi ekki kröfu á hendur varnaraðila vegna hagsmuna á grundvelli skuldabréfsins eigi sóknaraðili eðli málsins samkvæmt ekki neina kröfu á hendur varnaraðila sem sé tæk til skuldajöfnuðar. Þá byggir varnaraðili á því að réttur til skuldajöfnuðar sé eðli málsins samkvæmt hjá þeim sem eigi kröfu á grundvelli skuldabréfsins á hendur varnaraðila, þ.e. hjá Cede & Co. Engu breyti í þessu efni þótt tekið sé fram í útgáfulýsingu vegna víkjandi skuldabréfa (e. Subordinated Notes) að eigendur slíkra skuldabréfa teljist hafa afsalað sér rétti til skuldajöfnuðar á hendur útgefanda. Varnaraðili bendir í því samhengi á að víkjandi skuldabréf í framangreindum skilningi teljist til eftirstæðra krafna, samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991, við gjaldþrotaskipti og slitameðferðir fjármálafyrirtækja og samkvæmt 2. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 verði þær kröfur, sem taldar eru upp í 114. gr. ekki notaðar til skuldajöfnuðar nema að því leyti sem eignir þrotabúsins hrökkvi til greiðslu þeirra við úthlutun. Því sé lögbundið að kröfur samkvæmt víkjandi skuldabréfum séu ekki tækar til skuldajöfnuðar. Að öðru leyti mótmælir varnaraðili því að unnt sé að gagnálykta út frá umfjöllun útgáfulýsingar varðandi víkjandi skuldabréf um rétt aðila sem eigi hagsmuni á grundvelli forgangsskuldabréfs (e. Senior Notes).
Þá mótmælir varnaraðili því að það hafi þýðingu fyrir meintan rétt sóknaraðila til skuldajöfnuðar hvort hann hafi verið í góðri trú um að hann ætti þann rétt og að krafa hans samkvæmt skuldabréfinu væri jafnsett öllum öðrum almennum skuldbindingum varnaraðila. Varnaraðili áréttar að sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að kynna sér útgáfulýsingar og önnur undirliggjandi gögn áður en hann keypti hagsmuni á grundvelli skuldabréfsins og verði sóknaraðili sjálfur að bera hallann af því hafi hann látið það ógert. Þá bendir varnaraðili á að krafa DBTCA á grundvelli skuldabréfsins, í þágu handhafa og eiganda bréfsins, hafi verið viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.
Varnaraðili mótmælir jafnframt tilvísun sóknaraðila til sanngirnissjónarmiða sem búi að baki skuldajöfnuðarrétti gjaldþrotaréttar, þ.e. að kröfuhöfum, sem jafnframt skuldi þrotabúi, sé ekki gert skylt að greiða aðalkröfuna að fullu til þrotabúsins, en verði svo að sæta því að fá einungis hluta krafna sinna greiddan. Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili eigi ekki kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli hagsmuna hans í skuldabréfinu. Hann geti því ekki talist kröfuhafi við slitameðferð varnaraðila. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili viðurkenni í málatilbúnaði sínum heimild DBTCA til að lýsa kröfu á grundvelli skuldabréfsins við slitameðferð varnaraðila. Sóknaraðili hafi því hvorki heimild til að mæta á kröfuhafafundi við slitameðferð varnaraðila né rétt til að neyta atkvæðisréttar á slíkum fundi. Þannig sé því mótmælt sem röngu sem fram komi í málatilbúnaði sóknaraðila að eigendur hagsmuna, þar á meðal sóknaraðili, fái notið allra þeirra fjárhagslegu og félagaréttarlegu réttinda sem skuldabréfinu fylgja. Varnaraðili haldi því fram að það sé í fullu samræmi við meginreglu gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa við þá sameiginlegu fullnustugerð sem felst í gjaldþrotaskiptum og slitameðferðum fjármálafyrirtækja að hafna því að kröfur, sem ekki eru lögvarðar eða grundvöllur er fyrir að öðru leyti, séu tækar til skuldajöfnuðar.
Þá mótmælir varnaraðili í heild þeim málsástæðum sóknaraðila sem byggi á að efni gildi umfram form hvað varðar skuldabréfaútgáfuna og að umgjörð hennar breyti ekki eðli eignarréttinda sóknaraðila yfir skuldabréfinu sem útgefið hafi verið af Landsbanka Íslands hf. Leyfir varnaraðili sér hvað þessar málsástæður sóknaraðila varðar að vísa til þess sem að framan greinir um það að sóknaraðili eigi ekki kröfurétt á hendur varnaraðila á grundvelli hagsmuna í skuldabréfinu.
Verði fallist á kröfur sóknaraðila að einhverju leyti er því mótmælt að krafa hans að höfuðstólsfjárhæð 3.055.768 Bandaríkjadalir auk álags og áfallinna vaxta frá 22. apríl 2009 til 20. júlí 2011, samtals 495.546.079 krónur, sé tæk til skuldajafnaðar við kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila. Vísar varnaraðili til þess að hvorki sé gerð grein fyrir því í málatilbúnaði sóknaraðila hvernig krafa sóknaraðila að höfuðstólsfjárhæð 3.055.768 Bandaríkjadalir sé til komin né krafa hans um vexti til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 67.762 Bandaríkjadalir. Gerir varnaraðili því fyrirvara við umkrafða fjárhæð sóknaraðila til skuldajöfnuðar.
Þá vísar varnaraðili til þess að krafa sóknaraðila að höfuðstólsfjárhæð 3.055.768 Bandaríkjadalir sé umreiknuð í kröfuskrá í 399.419.435 krónur miðað við skráð sölugengi dals hjá Seðlabanka Íslands, 22. apríl 2009. Í kröfulýsingu sóknaraðila sé jafnframt krafist vaxta til 22. apríl 2009 að fjárhæð 62.762 Bandaríkjadalir sem umreiknist í kröfuskrá í 8.203.621 krónu. Lýst heildarkrafa sóknaraðila nemi því 407.623.056 krónum. Byggir varnaraðili á því að kröfur sóknaraðila um álag og áfallna vexti frá 22. apríl 2009 til 20. júlí 2011 teljist til eftirstæðra krafna við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Þær kröfur sem taldar séu upp í 114. gr. laga nr. 21/1991 verði ekki notaðar til skuldajöfnuðar nema að því leyti sem eignir slitabúsins hrökkvi til greiðslu þeirra við úthlutun, sbr. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Slitastjórn varnaraðila hafi ekki tekið afstöðu til eftirstæðra krafna við slitameðferð varnaraðila þar sem fullvíst megi telja að ekki geti komið til greiðslu slíkra krafna að neinu leyti við slitameðferð varnaraðila, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Því beri að lækka dómkröfur sóknaraðila sem því nemi verði fallist á dómkröfur hans að einhverju leyti.
Varnaraðili vísar til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar og laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Hann vísar jafnframt til almennra meginreglna kröfuréttar um heimild til skuldajöfnuðar sem og til 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá vísar hann til kafla 8-102 og 8-503 í samræmdum viðskiptalögum New York-ríkis (New York Uniform Commercial Code). Kröfu sína um málskostnað byggir hann á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Niðurstaða
Fyrir dóminn er lögð sú spurning hvort sá sem ekki hefur heimild til að lýsa fjárkröfu í slitabú, og á því ekki kost á að fá fjárkröfu í búið viðurkennda, njóti engu að síður réttar til skuldajöfnuðar við kröfu sem búið á á hendur honum.
Landsbankinn ákvað árið 2006 að gefa út skuldabréf í Bandaríkjunum til þess að afla sér lánsfjár allt að 7.500.000.000 Bandaríkjadala og gaf af þeim sökum út, 21. júlí 2006, útgáfulýsingu (US$ 7.500.000.000 Medium Term Program). Bankinn samdi jafnframt við Deutsche Bank Trust Company Americas (DBTCA) um að sá síðarnefndi yrði fjárvörslu- og umsýsluaðili (Trustee) skuldabréfaútgáfunnar. Samkvæmt samningi þeirra gat bankinn gefið út skuldabréf í einum eða fleiri flokkum.
Hinn 25. ágúst 2006 gaf bankinn út skuldabréf að fjárhæð 750.000.000 Bandaríkjadala í flokknum „US$ 750.000.000 Floating Rate Senior Notes, due 2009“. Í tengslum við þessa skuldabréfaútgáfu gaf bankinn út allsherjarskuldabréf (Global Note) sem auðkennt var með ISIN-númerinu US5150X1AB50. Það var skráð á nafn Cede & Co., en vörslufyrirtæki skuldabréfsins The Depository Trust & Clearing Corporation (DTC) hafði tilnefnt Cede & Co. sem viðtökuaðila og er það félag skráður handhafi (Registered Holder) skuldabréfsins. Samkvæmt allsherjarskuldabréfinu skuldbatt bankinn sig til að endurgreiða Cede & Co. fjárhæð þess.
Sóknaraðili keypti, fyrir milligöngu Íslenskra verðbréfa hf., hlutdeild í allsherjarskuldabréfinu, 17. janúar 2008. Fjárkrafa, sem sóknaraðili átti á grundvelli þeirrar hlutdeildar, var ógreidd, 7. október 2008, þegar Fjármálaeftirlitið ákvað, með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 12572008, að taka yfir stjórn Landsbankans og skipa honum skilanefnd.
Við slit bankans, sem þá fóru í hönd, lýsti DBTCA, fyrir hönd Cede & Co., heildarkröfu á grundvelli þess allsherjarbréfs sem Landsbankinn gaf út vegna skuldabréfaútgáfunnar „US$ 750.000.000 Floating Rate Senior Notes, due 2009“. Slitastjórnin samþykkti kröfu DBTCA með breytingum. Sóknaraðili mótmælti ekki þeirri afstöðu slitastjórnarinnar. Allir þeir kröfuhafar sem mótmæltu henni féllu síðar frá mótmælum sínum og því er krafa DBTCA á grundvelli skuldabréfsins endanlega samþykkt við slitameðferð varnaraðila, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.
Á grundvelli hlutdeildar sinnar í allsherjarskuldabréfinu lýsti sóknaraðili fjárkröfu í slitabú varnaraðila. Hann krafðist þess þó ekki að fá að nýta hana til skuldajöfnuðar við kröfur sem bankinn átti á hendur honum. Slitastjórn hafnaði fjárkröfunni með þeim rökum að sóknaraðili væri hvorki skráður handhafi né eigandi skuldabréfsins svo og að samkvæmt ákvæði 5.4 (a) í rammasamningi um skuldabréfaútgáfuna, 21. júlí 2006, hafi DBTCA, fjárvörslu- og umsýsluaðilinn, heimild til að lýsa heildarkröfu á grundvelli þess.
Á þeim tíma sem málsaðilar reyndu að ná samkomulagi um kröfu sóknaraðila í slitabú varnaraðila hafði Hæstiréttur til meðferðar mál vegna sambærilegrar skuldabréfaútgáfu Kaupþings banka hf. og sömdu málsaðilar, 29. júlí 2011, um að bíða niðurstöðu réttarins. Í dómi sínum, 12. október 2011 í máli nr. 398/2011, staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að einungis fjárvörslu- og umsýsluaðilinn DBTCA hefði haft heimild til að lýsa kröfu í slitabú Kaupþings banka á grundvelli allsherjarskuldabréfsins en kröfuhafi, í sömu stöðu og sóknaraðili þessa máls, hefði ekki heimild til að lýsa kröfu á grundvelli hlutdeildar sinnar í skuldabréfinu.
Sóknaraðili telur þennan dóm ekki fordæmisgefandi þar sem hann svari ekki þeirri spurningu hvort eigendur hlutdeildar í allsherjarskuldabréfinu eigi rétt til að nýta kröfu sína til skuldajöfnuðar við kröfu bankans, útgefanda skuldabréfsins, á hendur þeim.
Fyrir dómi krefst sóknaraðili ekki viðurkenningar á því að hann eigi fjárkröfu í slitabú varnaraðila heldur aðeins þess að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna tilgreindri fjárkröfu við fjárkröfu varnaraðila á hendur honum. Krafa hans á sér enga samsvörun í kröfulýsingu en þar lýsti hann fjárkröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 en krafðist þess ekki að henni yrði skuldajafnað við kröfur búsins á hendur honum. Þessa útfærslu kröfu sinnar, það er að krefjast annars fyrir dómi en í kröfulýsingu, styður hann við 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en samkvæmt 3. tölulið þeirrar greinar sé það ekki skilyrði skuldajöfnuðar að krafa hafi verið tekin á kröfuskrá.
Samkvæmt 3. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991 fellur krafa á hendur þrotabúi, sem var ekki lýst innan lögboðins kröfulýsingarfrests, ekki niður sé hún höfð uppi til skuldajöfnuðar við kröfu þrotabús enda séu skilyrði 100. gr. laganna uppfyllt. Ætla verður að 3. töluliður 118. gr. eigi því aðeins við að kröfu hafi ekki verið lýst en sóknaraðili lýsti, eins og áður segir, kröfu í slitabú varnaraðila.
Sóknaraðili byggir engu að síður á því að hann glati ekki rétti sínum til skuldajöfnuðar þótt hann hafi ekki rétt til að lýsa kröfu og þar með ekki heldur möguleika á að fá fjárkröfu í slitabúið viðurkennda, því DBTCA lýsti kröfu fyrir hönd skráðs handhafa, Cede & Co., en ekki þeirra sem höfðu keypt hlutdeild í skuldabréfinu.
Samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 getur hver sá, sem skuldar þrotabúinu, dregið frá skuld sinni það sem hann á hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið að uppfylltum skilyrðum sem ekki skipta máli hér.
Til þess að 100. gr. geti átt við þarf sóknaraðili að sýna fram á að hann eigi fjárkröfu og að hún sé á hendur þrotabúinu. Þar sem skuldajöfnuður samsvarar greiðslu kröfu þarf allra fyrst að staðreyna kröfuréttarsamband milli kröfuhafans og slitabúsins, það er að segja að staðreyna að hann eigi eitthvað hjá búinu eins og það er orðað í 100. gr. laganna.
Eins og fram er komið krefst sóknaraðili þess ekki að fjárkrafa hans í slitabúið verði viðurkennd. Dómurinn getur því ekki tekið afstöðu til þess hvort hann eigi yfirhöfuð fjárkröfu á hendur því. Þess vegna er ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort hann eigi kröfu sem hann getur nýtt til skuldajöfnuðar því sá sem hefur ekki fengið fjárkröfu í slitabú samþykkta hefur ekkert til að krefjast skuldajöfnuðar með. Af þeim sökum er kröfu sóknaraðila hafnað.
Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, ber sóknaraðila að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 2.000.000 króna. Við ákvörðun hans var tekið tillit til 250.000 króna þingfestingargjalds, 408.772 króna vegna þýðingar skjala og til virðisaukaskatts.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er þeirri kröfu sóknaraðila, Stapa lífeyrissjóðs, að hann geti nýtt fjárkröfu sem hann á, á grundvelli hlutdeildar í allsherjarskuldabréfi með ISIN-nr. US5150X1AB50 sem Landsbanki Íslands hf. gaf út 25. ágúst 2006, til skuldajöfnuðar við kröfu sem varnaraðili, slitabú LBI hf., á á hendur sóknaraðila.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 2.000.000 króna í málskostnað.