Hæstiréttur íslands

Mál nr. 39/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Málsástæða


Þriðjudaginn 28. janúar 2014.

Nr. 39/2014.

Kaupþing hf.

(Jón Ögmundsson hrl.)

gegn

þrotabúi Baugs Group hf.

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.Málsástæða.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni K hf. um dómkvaðningu matsmanns í ágreiningsmáli á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit K hf. Var í beiðninni óskað eftir mati á því hvert hafi verið eðlilegt kaupverð fyrir hlutafé í H. hf. sem B hf. seldi félaginu 1998 ehf. 28. júní 2008. Taldi héraðsdómur matsgerðinni ætlað að undirbyggja nýja málsástæðu sem væri of seint fram komin og ekki annað séð en hún yrði tilgangslaust sönnunargagn í málinu. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að K hf. hafi í greinargerð sinni í ágreiningsmálinu vísað til kaupa 1998 ehf. á hlutabréfum í H hf. af B hf. Þar hafi þó hvorki verið greind fjárhæð kaupverðsins né því haldið fram að það hefði verið annað og lægra ef lánveitingu K hf. til kaupanna hefðu ekki verið sett skilyrði um ráðstöfun á hluta söluandvirðisins með tilteknum hætti. Með þessum athugasemdum staðfesti Hæstiréttur hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. janúar 2014 sem barst héraðsdómi degi síðar og réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. desember 2013 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind beiðni hans um dómkvaðningu matsmanns verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar héraðsdóms og kærumálskostnaðar.

Í greinargerð sóknaraðila í ágreiningsmáli aðila, sem lögð var fram af hans hálfu á grundvelli 2. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, var meðal annars um málsatvik vísað til kaupa 1998 ehf. á hlutabréfum í Högum hf. 28. júní 2008 af Baugi Group hf. fyrir 30.000.000.000 krónur. Sagði þar að fjármögnun sóknaraðila á kaupunum, sem hefði verið forsenda þess að þau gætu gengið eftir, hefði verið háð því að söluandvirðið yrði að verulegu leyti nýtt til uppgjörs á fjárskuldbindingum Baugs Group hf. við sóknaraðila. Í þeim hluta greinargerðarinnar, þar sem færðar voru fram málsástæður fyrir þeirri kröfu sóknaraðila að kröfu varnaraðila skyldi hafnað, var jafnframt vikið að áðurgreindum kaupum á hlutabréfum í Högum hf. Þar var þó hvorki greind fjárhæð kaupverðsins né því haldið fram að það hefði verið ákveðið annað og lægra ef lánveitingu sóknaraðila til kaupanna hefðu ekki verið sett skilyrði um ráðstöfun á hluta söluandvirðisins með tilteknum hætti.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kaupþing hf., greiði varnaraðila, þrotabúi Baugs Group hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. desember 2013.

                Þetta mál barst dóminum, 8. júní 2012, með bréfi slita­stjórnar Kaupþings hf. Það var tekið til úrskurðar, 11. desember 2013, um þá kröfu varnar­aðila að dóm­kvaddur verði mats­maður.

                Sóknaraðili, þrotabú Baugs Group hf., kt. [...], krefst þess að neðan­greindar fjárkröfur hans við slit varnaraðila

                nr. 20100106-0562 að fjárhæð 1.609.069.981 kr. og

                nr. 20100105-1983 að fjárhæð 6.271.706.583 kr. og

                nr. 20100106-0528 að fjárhæð 8.660.575.262 kr.

verði allar viðurkenndar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

                Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili, Kaupþing hf., kt. [...], Borgar­túni 26, Reykjavík, krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

                Varnaraðili krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

                Á dómþingi 19. nóvember sl. lagði varnaraðili fram matsbeiðni. Á dómþingi 11. desember mótmælti sóknaraðili því að fallist yrði á kröfu varnaraðila um dóm­kvaðn­ingu matsmanns og var málið þá flutt um þann ágreining. Sóknaraðili krafðist jafn­framt málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins sérstaklega.

Málsatvik

                Málavextir eru þeir helstir að sumarið 2008 seldu fjórir fyrrum hluthafar Baugs Group hf. félaginu, að því er félagið fullyrðir verðlaus, hlutabréf í sjálfu sér gegn 15.000.000.000 króna greiðslu. Í mars 2009 var Baugur Group tekið til gjald­þrota­skipta. Þrotabú félagsins telur greiðsluna fyrir eigin hlutabréf riftan­legan gjafagerning í skiln­ingi laga um gjaldþrotaskipti. Fjármunirnir sem Baugur greiddi hluthöfunum fjórum runnu til lánar­drottna þeirra, það er Kaupþings og dótturfélags þess í Lúxem­borg. Þrotabúið telur þessar greiðslur hluthafanna til Kaupþings og dótturfélags þess einnig riftanlegar á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti enda hafi Kaupþing stýrt kaup­unum og vitað um riftanleika ráðstafananna.

                Sóknaraðili þingfesti í mars 2010 mál á hendur hluthöfunum fjórum og dótturfélagi varnaraðila. Kaupþing var þá í slitameðferð og því gat þrotabúið ekki stefnt Kaupþingi fyrir dóm í sama máli. Í einkamálinu voru, á árinu 2011, dómkvaddir mats­menn til þess að meta virði þeirra eigin hluta­bréfa sem Baugur Group hafði keypt. Kaupþing varð matsþoli í því máli. Það var niður­staða matsmanna að ekkert verðmæti hefði verið í þeim eigin hlutabréfum sem Baugur keypti fyrir 15 milljarða króna.

                Þrotabúið lýsti kröfu í bú Kaupþings í desember 2009. Þeirri kröfu var hafnað og ágreiningnum um hana skotið til héraðsdóms í júní 2012. Málsaðilar lögðu greinar­gerðir sínar fram í dómi haustið 2012.

                Vorið 2013 komst héraðsdómur að niðurstöðu í riftunarmáli þrotabúsins gegn hlut­höfunum fjórum og dótturfélagi Kaupþings. Greiðslum til allra hluthafanna var rift á grundvelli þess að greiðsl­urnar væru gjafagerningar. Hluthafarnir undu dómi. Fyrrum dóttur­félag Kaup­þings var sýknað í héraði með þeim rökum að enda þótt ráð­staf­an­irnar væru riftan­legar væri ósannað að dótturfélagið hefði verið grandsamt. Því ætti 146. laga nr. 21/1991 ekki við. Sóknaraðili hefur áfrýjað sýknu dótturfélagsins til Hæstaréttar.

                Í þessu ágreiningsmáli stóð til, síðastliðið vor, að flytja málið um kröfu varnar­aðila um vísun þess frá dómi en varnaraðili féll frá þeirri kröfu á málflutningsdegi. Aðalmeðferð málsins var ráðgerð 19. nóvember síðastliðinn. Við fyrirtöku 30. október var ákveðið að 19. nóvember yrði þinghald til undirbúnings aðalmeðferð. Þann dag lagði varn­ar­aðili fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns.

Málsástæður varnaraðila fyrir matsbeiðni

                Varnaraðili, sem jafnframt er matsbeiðandi, áréttar að sóknaraðili, sem er mats­þoli, krefjist skaða­bóta vegna rift­unar greiðslna Eignarhaldsfélagsins ISP ehf., Fjár­fest­ing­ar­félags­ins Gaums hf. og Gaums Hold­ing S.A., inn á lán félaganna hjá Kaup­þingi banka, samtals að fjár­hæð 16.541.395.818 krónur. Varnaraðili krefjist þess að öllum kröfum sóknaraðila í málinu verði hafnað, einkum á grundvelli þess að skil­yrðum 146. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki full­nægt.

                Varnaraðili byggi meðal annars á því að þessar greiðslur geti ekki verið gjafa­gern­ingar í skiln­ingi gjaldþrotaréttar nema að uppfylltum þremur megin­skil­yrðum, það er að ráð­stöfunin rýri eignir skuldarans, að hún leiði til eignaaukningar hjá við­semj­anda hans og að skuldari hafi í reynd ætlað að gefa viðsemjanda sínum verð­mæti.

                Vegna þessa bendir varnaraðili á að áður en Eignarhaldsfélagið ISP ehf., Fjár­fest­ingarfélagið Gaumur hf. og Gaumur Holding S.A. greiddu inn á lán sín hjá honum hafi félögin selt Baugi Group hf. eigin bréf, samtals 314.000.000 hluta. Þau kaup hafi sókn­ar­aðili aðeins fjármagnað vegna undanfarandi sölu félags­ins á 95,7% hluta­fjár í Högum hf., að nafnverði 1.165.509.976 kr., til einka­hluta­félagsins 1998 ehf., en kaup­verð hafi verið ákveðið 30.000.000.000 kr., sbr. kaup­samning aðila, dags. 28. júní 2008.

                Varnaraðili hafi fjármagnað kaup 1998 ehf. á hlutabréfunum í Högum eins og nánar greini í lánasamningi, dags. 28. júní 2008, en samkvæmt kaup­samn­ingi 1998 ehf. og sóknaraðila skyldi söluandvirði hlutabréfanna ráðstafað í sam­ræmi við sjóð­streym­is­yfir­lit lánasamningsins (e. „which shall be allocated as set forth in the funds flow statement fo the Hagar Loan Agreement“). Lánveitingin hafi jafn­framt verið bundin því skilyrði að gerður yrði samningur á milli sóknaraðila og hluthafa félags­ins um kaup hins fyrrnefnda á 314.000.000 eigin hluta og að sóknaraðili lækkaði hlutafé sitt sem svaraði til þeirra hluta eigi síðar en um áramótin 2008/2009.

                Sóknaraðili byggi á því að kaupverð hlutabréfa í Högum hf. hafi verið viðun­andi og að tjón þrotabúsins nemi þeirri fjárhæð af kaupverðinu, sem Baugur Group hf. hafi síðar notað til kaupa á eigin hlutum af Eignarhaldsfélaginu ISP ehf., Fjár­fest­ing­ar­félag­inu Gaumi hf. og Gaumi Holding S.A.

                Varnaraðili telji aftur á móti ástæðu til að ætla að eðlilegt endurgjald sóknar­aðila fyrir hlutabréf hafi verið umtalsvert lægra en umsamið kaupverð, en kaupverðið hafi engu að síður verið ákvarðað 30 milljarðar króna vegna þeirra ströngu skilyrða sem fjármögnun varnaraðila á kaupunum gerði ráð fyrir, það er að sóknaraðili nýtti um helm­ing kaupverðsins til kaupa á eigin hlutum af félögunum þremur sem skyldu síðan nýta söluandvirðið til greiðslu á skuldbindingum sínum við varnaraðila. Ráð­stöfun sókn­ar­aðila á hluta söluandvirðis hlutabréfanna í Högum hf. til kaupa á eigin hlutum af félögunum þremur geti því ekki hafa rýrt eignir þrotabúsins til tjóns fyrir kröfu­hafa þess, þar sem fjármunirnir hafi aðeins staðið búinu til ráðstöfunar vegna skil­yrtrar fjár­mögn­unar varnaraðila á kaupum 1998 ehf. á bréfum í Högum hf. Með öðrum orðum telji varnaraðili að kaup­verð á hlutabréfunum í Högum hf. hefði verið ákvarðað annað og lægra hefði lán­veit­ingu varnaraðila til kaupanna ekki verið sett þau skilyrði að hluta söluandvirðisins yrði ráðstafað á framangreindan hátt.

                Aðila málsins greini að þessu leyti verulega á um eðlilegt endurgjald fyrir hluta­bréf í Högum hf. og sé matsbeiðnin nauðsynlegur liður í sönnunarfærslu um það atriði. Með matinu hyggist varnaraðili sanna hvert hafi verið eðlilegt kaupverð/­sölu­verð 95,7% hlutafjár í Högum hf., kt. 670203-2120, að nafnverði 1.165.509.976 krónur, sem Baugur Group hf. seldi 1998 ehf., 28. júní 2008. Af þessum sökum óski hann þess, með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991, að dóm­kvaddur verði hæfur og óvil­hallur matsmaður.

Málsástæður sóknaraðila gegn matsbeiðni

                Sóknaraðili sem jafnframt er matsþoli, þrotabú Baugs Group hf., telur að hafna beri umbeðinni matsbeiðni. Í fyrsta lagi þar sem hún varði atriði sem ekki sé deilt um, í öðru lagi byggi varnaraðili á nýrri málsástæðu sem sé of seint fram komin og í þriðja lagi skipti umbeðið mat ekki neinu máli um sakarefnið eða niðurstaða þess fyrir ágrein­ing málsaðila.

                Sóknaraðili vísar til þess að málsaðilar stýri ágreiningi sínum með máls­sóknar- og málsvarnarskjölum. Samanburður á kröfum og röksemdum þeirra leiði í ljós um hvað þeir deili og hvað sé óumdeilt. Ágreiningsefni þessa máls mótist af samspili máls­ástæðna og rök­semda sókn­ar­aðila, þrota­bús Baugs, og varnaraðila, Kaup­þings. Í greinar­gerð sinni geri sóknaraðili grein fyrir því að sam­kvæmt við­skipta­gern­ingnum Project Polo hafi Baugur átt að fá 30 milljarða króna fyrir hlut sinn í Högum. Alls hafi um 30 milljarðar verið lagðir inn á reikninga Baugs, 11. júlí 2008. Sókn­ar­aðili hafi ekki farið fram á riftun þeirrar greiðslu, eða gern­ingsins Project Polo í heild sinni. Það sé mat sóknar­aðila að verð Haga hafi verið við­un­andi, enda hafi Baugur metið Haga á 30 millj­arða króna í bókum sínum vorið 2008, óháð Project Polo. Þá hafi sókn­ar­aðili ekki farið fram á riftun þeirra greiðslna er lúti að ráð­stöfun Baugs á and­virði um 15 millj­arða króna sem varðaði veðbandslausn hlut­ar­ins í Högum. Hinn hluta and­virðis Haga, alls 15 milljarða, hafi Baugur fengið greiddan inn á reikn­inga sína. Sá hluti hafi hins vegar verið notaður til þess að kaupa bréf sem áttu að standa undir andvirði 15 millj­arða króna. Það hafi umrædd bréf ekki gert, en dóm­kvaddir mats­menn hafi metið bréfin verðlaus. Þeim hluta Project Polo sé því rift.

                Framlagðar greinargerðir málsaðila sýni að þeir deili um það hvort kaup Baugs á bréfum í sjálfum sér hafi verið riftanleg ráðstöfun. Nánar tiltekið deili þeir um það hvort bréfin í Baugi hafi verið verðlaus eða verðminni á þeim tíma, hvort Baugur hafi verið ógjaldfær, hvort við mat á tjóni búsins verði að taka tillit til heildarviðskipta með Project Polo, það er til meints fullnusturéttar Kaupþings á söluandvirði Haga og ábyrgð­ar­hlut á láni 1998. Jafnframt deili aðilar um hvort Kaupþing hafi vitað um rift­an­leika ráðstafananna.

                Í greinargerð sinni tefli Kaupþing ekki fram neinni málsástæðu sem varði verð­mæti Haga. Kaupþing mótmæli ekki þeirri staðhæfingu þrotabús Baugs að samn­ings­verð Haga hafi verið viðunandi. Með þeirri þögn hafi Kaupþing samþykkt máls­ástæðu þrotabús Baugs um verð félagsins og það sé því ekki umdeild staðreynd.

                Það hafi verið hluthafarnir fjórir, þeir sem þrotabú Baugs stefndi í einka­mál­inu, sem héldu fram þeirri málsástæðu að verð Haga hefði verið of hátt. Banque Havil­land hafi ekki haldið henni fram. Hún komi því ekki til skoðunar við áfrýjun málsins vegna kröf­unnar á hendur því félagi.

                Greinargerðir sóknar- og varnaraðila sýni að málsaðilar deili alls ekki um hvert hafi verið eðlilegt verðmæti Haga í júní 2008. Hvorki sóknar- né varnarmegin sé hreyft málsástæðu sem snerti á því að verðlagning bréfa í Högum hafi verið óeðlileg, of há eða verðmæti Haga hafi verið annað en um var samið og samningsverð því til mála­mynda. Í greinargerð sinni mótmæli Kaupþing ekki heldur öllum málsástæðum og lagarökum þrotabús Baugs heldur tilgreini sérstaklega hvaða málsástæðum sé mót­mælt og af hverju. Þar sem ekki sé deilt um þetta atriði í málsvarnarskjölum verði að gera ráð fyrir því að þetta sé eitt þeirra atriða sem 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála geri ráð fyrir að þurfi ekki að sanna.

                Sóknaraðili hafnar alfarið þeirri lýsingu varnaraðila í matsbeiðni að aðila máls­ins greini veru­lega á um endurgjald fyrir hlutabréfin í Högum. Þrotabú Baugs telji samn­ings­verð hafa verið eðlilegt fyrir hlutina. Í greinargerð Kaupþings sé ekki gerð nein athuga­semd við þessa afstöðu sóknaraðila. Um þetta atriði sé því ekki deilt í mál­inu. Sóknaraðili telur varnaraðila leggja matsbeiðnina fram til grundvallar og sönn­unar nýrri máls­ástæðu sem sé of seint fram komin. Umbeðið mat skipti því ekki máli og sé þarf­laust.

Niðurstaða

                Sóknaraðili, þrotabú Baugs Group hf., þingfesti 23. mars 2010 einkamál á hendur Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., Eignarhaldsfélaginu ISP ehf., Gaumi Hold­ing S.A, Bague S.A., sem öll höfðu verið hluthafar í Baugi Group, svo og á hendur Banque Havilland S.A., sem var dótturfélag varnaraðila. Tilgangur málsins var að fá rift greiðslum sem þrotamaðurinn, Baugur Group, hafði greitt hluthöfunum og Banque Havil­land og fá fjármunina endurgreidda. Þar sem varnaraðili var í slita­með­ferð var ekki hægt að höfða einkamál á hendur honum og stefna honum með hlut­höf­unum og dóttur­félaginu. Þess í stað var kröfu lýst við slitameðferð hans.

                Við meðferð einkamálsins voru dómkvaddir matsmenn í apríl 2011 til þess að meta eigna- og skuldastöðu Baugs Group svo og verð hlutabréfa í félaginu sjálfu 30. júní 2008. Samkvæmt úrskurði héraðsdóms og dómi Hæstaréttar var varnaraðili mats­þoli í því máli með stefndu í einkamálinu. Í febrúar 2012 var matsgerð afhent.

                Þetta ágreiningsmál við slit varnaraðila var þingfest 22. júní 2012. Á haust­mán­uðum þess árs lögðu málsaðilar fram grein­ar­gerðir sínar. Í mars 2013 var kveðinn upp héraðsdómur í einkamálinu. Með honum var greiðslum Baugs Group til hlut­haf­anna fjögurra rift og þeir dæmdir til að endurgreiða stefnanda, þrotabúi Baugs, féð. Dóttur­félag varnaraðila, Banque Havilland, var sýknað með þeim rökum að þrátt fyrir að ráðstafanirnar væru rift­an­legar væri ósannað að dótturfélagið hefði verið grandsamt og því ætti 146. laga nr. 21/1991 ekki við.

                Hluthafarnir fjórir undu dómi héraðsdóms. Stefnandi, sem jafnframt er sóknar­aðili og matsþoli í þessu máli, áfrýjaði hins vegar til Hæsta­réttar niðurstöðu héraðs­dóms sem varðaði Banque Havilland.

                Eins og segir í lýsingu málavaxta lagði varnaraðili fram beiðni um dóm­kvaðn­ingu matsmanna á dómþingi 19. nóvember sl. en þá var liðið tæpt ár frá því hann lagði fram greinargerð sína. Til stuðnings því að matsmenn verði dómkvaddir nú vísar varn­ar­aðili til þess að málsaðila greini verulega á um eðlilegt endurgjald fyrir hluta­bréf í Högum hf. og sé matsbeiðnin nauðsynlegur liður í sönnunarfærslu um það atriði.

                Gegn því að dómkvaðningin nái fram að ganga byggir sóknaraðili, sem jafn­framt er matsþoli, einkum á því að fram að því að varnaraðili lagði fram beiðni um dóm­kvaðningu mats­manns hafi hann ekki flíkað athugasemdum við verðmæti hluta­bréfa í Högum, sem Baugur Group hf. seldi 1998 ehf., sumarið 2008. Varn­ar­aðili sé með matsbeiðninni að reyna að skáskjóta inn í málið nýrri málsástæðu sem hann hafi ekki ýjað að í greinargerð sinni.

                Í greinargerð sinni ber varnaraðili því hvorki við að verð­mæti 95,7% hlutafjár í Högum hf., að nafn­verði 1.165.509.976 kr., sem Baugur Group hf. seldi félaginu 1998 ehf., 28. júní 2008, hefði þýð­ingu fyrir vörn hans í málinu né að það hefði verið óeðli­lega hátt eða háð skil­yrðum um fjármögnun. Í matsbeiðninni telur varnaraðili ástæðu til að ætla að eðlilegt endurgjald sóknaraðila fyrir hluta­bréfin hafi verið umtals­vert lægra en umsamið kaupverð. Kaupverðið hafi engu að síður verið ákvarðað 30 millj­arðar króna vegna þeirra ströngu skilyrða sem fjár­mögnun varnaraðila á kaup­unum gerði ráð fyrir, það er að sóknaraðili nýtti um helm­ing kaupverðsins til kaupa á eigin hlutum af félög­unum þremur sem skyldu síðan nýta sölu­andvirðið til greiðslu á skuld­bind­ingum sínum við varnaraðila. Ráð­stöfun sóknaraðila á hluta söluandvirðis hluta­bréf­anna í Högum hf. til kaupa á eigin hlutum af félög­unum þremur geti því ekki hafa rýrt eignir þrota­búsins til tjóns fyrir kröfu­hafa þess, þar sem fjármunirnir hafi aðeins staðið búinu til ráðstöfunar vegna skil­yrtrar fjár­mögn­unar varnaraðila á kaupum 1998 ehf. á Högum hf. Varnaraðili telur að kaup­verð hluta­bréf­anna í Högum hf. hefði verið ákvarðað annað og lægra hefðu lán­veit­ingu varn­ar­aðila til kaup­anna ekki verið sett skil­yrði um ráðstöfun á hluta sölu­and­virð­is­ins á framan­greindan hátt. Þar sem varnar­aðili gerði ekki grein fyrir þessum sjónarmiðum í grein­ar­gerð sinni er fallist á það með sókn­ar­aðila að í mats­beiðn­inni setji varnar­aðili fram nýja málsástæðu.

                Varnaraðili hefur ekki fært neitt fram til rök­stuðn­ings því að honum hafi verið ókleift að bera þessa málsástæðu fyrir sig í grein­ar­gerð heldur fyrst núna, ári eftir að hann lagði greinargerðina fram. Hann hefur þó bent á að sóknaraðili þekki vel þessa máls­ástæðu þar stefndu, hluthafarnir fjórir, hafi borið hana fyrir sig í einka­mál­inu sem áður var nefnt. Nú sé hins vegar útséð um að reyna muni á hana fyrir Hæsta­rétti þar sem þeir hafi ákveðið að una héraðsdómi. Því verði hann sjálfur að fara þess á leit að leyst verði úr því hvert hafi verið eðlilegt verðmæti þeirra hlutabréfa í Högum sem sókn­ar­aðili seldi félaginu 1998 ehf. um mitt ár 2008.

                Hluthafarnir fjórir, sem töpuðu því máli sem sóknaraðili höfðaði á hendur þeim til riftunar kaupum Baugs á eigin bréfum og endurgreiðslu fjárins, báru fyrir sig þá máls­ástæðu að verðmæti hlutabréfa í Högum hefði ekki verið rétt. Þeir hafa hins vegar ákveðið að áfrýja héraðsdómi ekki til Hæstaréttar og því mun ekki reyna á þá máls­ástæðu þar. Þrátt fyrir að með því hafi fallið brott sá möguleiki varnaraðila að fá svar við þeirri málsástæðu sem hann setti ekki sjálfur í greinargerð sína getur það ekki opnað neina glufu fyrir hann til þess að koma henni að í þessu máli.

                Í greinargerð sóknaraðila er skýrt tekið fram að hann telji verðmæti Haga við­un­andi enda hafi Baugur sjálfur metið Haga á 30 milljarða króna í bókum sínum vorið 2008, óháð viðskiptagerningnum Project Polo. Varnaraðila hefur varla dulist þessi afstaða sóknaraðila þegar hann las greinargerð sóknaraðila en nýtti ekki tækifærið þá til þess að mótmæla henni.

                Þar sem ekki verður annað séð en að varnaraðili hefði getað borið þessa máls­ástæðu fyrir sig í greinargerð sinni og þar sem sóknaraðili hefur mótmælt því að hún komist að, verður því hafnað að hún komist að í málinu nú, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

                Þrátt fyrir þá meginreglu að málsaðilar hafi forræði á sönnunarfærslu sinni sam­kvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 er dómstólum þó, í 3. mgr. 46. gr., veitt heim­ild til þess að meina málsaðila að færa fram tiltekin sönnunargögn sé bersýnilegt að það, sem hann vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönn­unar. Þar sem matsgerðinni er ætlað að undirbyggja þessa nýju málsástæðu varnar­aðila, sem dóm­ur­inn fellst á að sé of seint fram komin, en hún hefur ekki neina þýðingu fyrir þær máls­ástæður sem hann færir fram í greinargerð verður ekki annað séð en hún yrði til­gangs­laust sönnunargagn í málinu. Af þessum sökum og með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 verður beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna hafnað.

                Rétt þykir að málskostnaður vegna þessa þáttar málsins bíði efnislegrar niður­stöðu ágreiningsmálsins.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Beiðni varnaraðila, Kaupþings, um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.

                Málskostnaður bíður efnislegrar niðurstöðu málsins.