Hæstiréttur íslands
Mál nr. 266/2011
Lykilorð
- Veðsetning
- Misneyting
|
|
Fimmtudaginn 24. nóvember 2011. |
|
Nr. 266/2011.
|
A (Grétar Haraldsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) |
Veðsetning. Misneyting.
A krafðist ógildingar á veðsetningu fasteignar sinnar á grundvelli tveggja tryggingabréfa útgefnum af B ehf. til L hf. en A veitti heimild fyrir veðsetningunni. Með vísan til þess að A hefði getað gert sér grein fyrir þýðingu skuldbindinga sinna þegar hún gekkst undir þær staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sýknu L hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2011. Hún krefst þess að ógilt verði veðsetning B ehf. á íbúð hennar að [...] í Reykjavík fyrir tryggingarbréfi B ehf. til Landsbanka Íslands hf., útgefnu 24. október 2007, vegna skuldar að fjárhæð 557.000 danskar krónur, „samkvæmt skjali um veðbandslausn af [...] Reykjavík ... og veðflutning yfir á fasteign [áfrýjanda] undirritað af því félagi þann 3. október 2008 og jafnframt af Landsbanka Íslands hf. og samkvæmt veðheimild [áfrýjanda].“ Að auki krefst áfrýjandi þess að ógilt verði veðsetning B ehf. á sömu fasteign áfrýjanda samkvæmt veðtryggingarbréfi að fjárhæð 5.000.000 krónur útgefnu af því félagi 3. október 2008 til Landsbanka Íslands hf. og með áritaðri veðheimild áfrýjanda sama dag. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fallist verður á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómendum, að áfrýjandi hafi getað gert sér grein fyrir þýðingu umræddra skuldbindinga sinna þegar hún ritaði undir veðleyfið 2. október 2008 og tryggingarbréf daginn eftir. Með vísan til þess verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir en rétt þykir að láta málskostnað fyrir Hæstarétti falla niður.
Dómsorð:
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum áfrýjanda, A.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 20. janúar sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af A, [...], Reykjavík, á hendur NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu þingfestri 24. nóvember 2009.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að ógilt verði veðsetning B ehf., kt. [...], nú þrotabú, á 1. veðrétti í fasteign stefnanda fmnr. [...], íbúð [...], þriggja herbergja íbúð í kjallara hússins nr. [...] við [...] í Reykjavík fyrir tryggingarbréfi ehf. til Landsbanka Íslands hf., vegna skuldar DKK 557.000, útgefnu 24. október 2007, vst. 276,7 samkvæmt skjali um veðbandslausn af [...], Reykjavík, fmnr. [...] og veðflutning yfir á fasteign stefnanda undirritað af því félagi þann 3. október 2008 og jafnframt af Landsbanka Íslands hf. og samkvæmt veðheimild stefnanda.
Að ógilt verði veðsetning B ehf., kt. [...], nú þrotabú, á 2. veðrétti í fasteign stefnanda [...], íbúð [...], þriggja herbergja íbúð í kjallara hússins nr. [...] við [...] í Reykjavík samkvæmt veðtryggingarbréfi að fjárhæð 5.000.000 útgefnu af því félagi 3. október 2008 til Landsbanka Íslands hf., að fjárhæð 5.000.000 króna og með áritaðri veðheimild stefnanda sama dag.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær, að öllum dómkröfum stefnanda verði hafnað og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Málavextir eru þeir, að hinn 3. október 2008 undirritaði B ehf. veðbandslausn af [...], Reykjavík, fmnr. [...], og veðflutning á 1. veðrétt í íbúð stefnanda í húsinu nr. [...] við [...], fyrir skuld B ehf. DKK 557.000, útgefið 24. október 2007, grunnvísitala 276,7 og var skjalið um veðbandslausn og veðflutning jafnframt áritað af Landsbanka Íslands hf. Stefnandi heimilaði veðsetningu á eign sinni, samkvæmt sérstakri veðheimild.
Stefndi var stofnaður hinn 9. október 2008, með lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem samþykkt voru á Alþingi hinn 6. október 2008. Fólu lögin m.a. í sér breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og var Fjármálaeftirlitinu m.a. fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og víkja félagsstjórn frá störfum. Skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995, í samræmi við 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 9. október 2008, var Nýi Landsbanki Íslands hf., nú NBI hf., stefndi í málinu, stofnaður.
Einkahlutafélagið B var stofnað 9. júlí 2005 og voru stofnendur þess systkinin C og D, en þau skipuðu stjórn félagsins og voru prókúruhafar þess frá stofnun.
Félagið var í viðskiptum við Landsbanka Íslands hf. og hinn 24. október 2007 gaf félagið út tryggingarbréf, allsherjarveð, DKK 557.000, til tryggingar öllum skuldum og fjárskuldbindingum félagsins gagnvart bankanum, með veði í fasteigninni [...], íbúð [...], Reykjavík, fastanr. [...]. Fasteignin var skráð eign E, dóttur C.
Stefndi kveður að í september 2008, hafi B ehf. óskað eftir samþykki Landsbanka Íslands hf. fyrir því að flytja framangreint tryggingarbréf af [...], Reykjavík, yfir á fasteignina [...], íbúð [...], fastanr. [...]. Eigandi eignarinnar er stefnandi, A, móðir C og D.
Stefndi kveðst hafa samþykkt veðflutninginn með því skilyrði að erfingjar stefnanda samþykktu veðsetninguna, þar sem stefnandi hafi setið í óskiptu búi.
Hinn 3. október 2008 gaf B ehf. út tryggingarbréf, allsherjarveð, til Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 5.000.000 króna og áritaði stefnandi það um heimild til þinglýsingar, sem þinglesinn eigandi, með undirritun sinni á veðleyfi, hinn 2. október 2008, og undir það skjal rituðu einnig fjögur af fimm börnum stefnanda, þar sem þau samþykktu veðsetninguna.
B ehf. var í viðskiptum við Landsbanka Íslands hf. á þessum tíma.
Hinn 1. apríl 2009 lokaði NBI hf. tékkareikningi B ehf. hjá bankanum og nam þá yfirdráttur á reikningnum 6.690.268 krónum.
Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettum 7. apríl 2009.
Hinn 21. júlí 2009, ritaði stefndi stefnanda kröfubréf vegna veðtryggingarbréfsins, að fjárhæð 5.000.000 króna, og tilgreindi heildarskuld samkvæmt bréfinu 6.690.268 krónur.
Hinn 5. ágúst 2009, ritaði dóttir stefnanda, D, stefnda bréf, þar sem óskað var eftir því að stefndi felldi tryggingarbréfið niður.
Með bréfi svokallaðs fagráðs Landsbankans, dagsettu 19. október 2009, tilkynnti stefndi um synjun erindisins.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 3. nóvember 2009, var farið fram á að veðböndum stefnda yrði aflétt af eign stefnanda innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins.
Stefnandi kveður stefnda hafa tekið við óbeinum eignarréttindum, þ.m.t. veðkröfum Landsbanka Íslands hf., samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008.
Hinn 18. maí 2010 var Björn Einarsson, öldrunarlæknir, dómkvaddur, að ósk lögmanns stefnda, til að meta andlegt ástand stefnanda, greind hennar, þroska og skilning hennar á þeim veðgerningum, sem málið snýst um, miðað við ástand hennar hinn 3. október 2008, er hún skrifaði undir.
Í niðurstöðu matsmannsins kemur fram, að engin ástæða sé til að ætla að stefnandi hafi árið 2008, verið það vitrænt skert að hún hafi ekki getað skilið þýðingu fjárhagslegra skuldbindinga, hafi það verið nægilega útskýrt fyrir henni. Taldi matsmaður, að stefnandi hefði um árabil þjáðst af langvinnu ódæmigerðu þunglyndi, sem bæði hafi verið vangreint og ómeðhöndlað. Því væri ástæða til að ætla að hún hafi verið þunglynd í október 2008, þegar hún skrifaði undir veðsetningu á íbúð sinni.
Í umfjöllun matsmanns um misneytingu aldraðra kemur fram að stefnandi sé ekki það vitrænt skert að það skýri hugsanlega misneytingu á henni. Hún sé hins vegar með töluvert þunglyndi, og hafi þunglyndiseinkenni sem geri misneytingu á henni líklega, þ.e. minnimáttarkennd, vonleysi, svartsýni, fortíðargrufl, sjálfsásakanir og sektarkennd. Það sé því álit matsmannsins að þunglyndi A samrýmist því sem geti skert hæfni, þ.e. bágindi, einfeldni, fákunnáttu eða léttúð, til að gera sér grein fyrir alvarleika þess að takast á hendur fjárhagslegar skuldbindingar. Þá segir svo í matsgerðinni: „Það er heldur ekki líklegt að hún hafi haft þekkingu á fjárhagslegum gerningum sem hefðu nægt henni til að forðast misnotkun á sér, annað hvort bankans eða barna hennar eða beggja aðilanna. Hún hafi aldrei þurft að sinna flóknari fjármálum á heimili sínu meðan eiginmaður hennar lifði. Eftir lát hans hafi hún ekki þurft að taka afstöðu til meiriháttar fjárhagslegra ákvarðanna og var því alveg grunlaus þegar börn hennar fá hana til að veðsetja íbúð sína. Vegna þekkingarskorts á fjárhagslegum skuldbindingum og gerningum tel ég það til of mikils mælst að hún geri sér grein fyrir þeim afleiðingum sem undirskrift hennar um veðsetningu íbúðar hennar gæti haft í för með sér.
Ég tel því fulla ástæðu til að ætla að svo kunni að hafa verið að A hafi orðið fyrir fjárhagslegri misneytingu aldraðra þegar hún skrifaði undir veðsetningu á íbúð sinni 03.10.2008. Það sem gerir það líklegt er þunglyndi hennar og fákunnátta í fjármálum.
Hvort A hafi verið útsett fyrir andlegri misbeitingu get ég ekki fullyrt um en það er engan veginn útilokað en D er eina barn hennar sem ég hitti. Einu einkennin sem samrýmast einkennum um andlega misbeitingu er að A er mjög til baka og dregur sig í hlé og er afneitandi, en hún sýnir ekki kvíða, pirring eða afbrigðilega hegðun, eins og þeim er lýst sem hafa orðið fyrir andlegri misbeitingu. Einnig er vert að minnast þess að C sonur hennar og fyrrum eigandi B er skv. geðlæknisvottorði geðsjúkur maður, en bágindi hugsanlegs geranda eru einnig áhættuþáttur fyrir misneytingu aldraðra, eins og áður segir. Það myndi enn auka líkurnar á að A hafi verið misnotuð fjárhagslega við veðsetningu á íbúð hennar í því tilfelli sem mál þetta fjallar um.“
Niðurstaða matsins er svohljóðandi:
„A er með væga vitræna skerðingu sem þó er ekki það mikil að hún gæti ekki gert sér grein fyrir þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem um er að ræða.
A er með töluvert þunglyndi. Bæði var hún þunglynd í ágúst 2007 og hún er þunglynd nú 2010, svo að öllum líkindum hefur hún líka þjáðst af þunglyndi í október 2008, enda hefur hún ekki fengið meðferð við þunglyndi allan þennan tíma. Þunglyndiseinkenni A eru af þeim toga, að þau auka á líkur á fjárhagslegri misneytingu á henni.
Geðhvarfasýki C sonar hennar eykur líkur þess að hann hafi misnotað móður sína fjárhagslega með flutningi umrædds veðs á íbúð hennar.
A er ekki vön að fást við meiriháttar fjárhagslegar skuldbindingar og hefur því ekki þekkingu á slíkum málum, og hefði því þurft að útskýra þær fyrir henni. Það virðist ekki hafa verið gert nægilega vel.
Ég tel miklar líkur á því að A hafi orðið fyrir fjárhagslegri misneytingu aldraðra og hún hafi ekki haft andlega burði til að sjá við þeirri misnotkun vegna þunglyndis og fjárhagslegrar fákunnáttu.“
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að B ehf. hafi verið í viðskiptum við Landsbanka Íslands hf. sem þekkt hafi slæman fjárhag félagsins. Stefnandi málsins hafi verið 84 ára gömul í október 2008, þegar hún undirritaði umdeilda gerninga. Hafi því verið ríkar ástæður fyrir stefnda, fjármálafyrirtæki, að kynna stefnanda fjárhagsstöðu B ehf. og láta fara fram greiðslumat hjá því fyrirtæki. Veðheimild sé í reynd sams konar og ábyrgð og megi hér þannig líta til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem tekið hafi gildi 1. nóvember 2001. Dómar Hæstaréttar í viðlíka málum séu afgerandi og skýrir, nú síðast hæstaréttardómur í málinu nr. 249/2008, og vísar stefnandi einnig til hæstaréttardóma í málunum nr. 3/2003, 152/2002 og 163/2005.
Stefnandi byggir á því, að stefndi hafi brotið reglur gagnvart stefnanda, vanrækt upplýsingaskyldu sína og auk þess verið í vondri trú vegna hás aldurs stefnanda og af þeim ástæðum einum borið að sýna sérstaka árvekni og vanda vinnubrögð sín gagnvart henni. Það hafi Landsbanki Íslands hf., nú stefndi, ekki gert. Því sé krafist ógildingar á veðgerningum stefnanda með vísan til 31. gr. og 33. gr. laga nr. 7/1936. Stefnandi byggir einnig á því, að stefndi hafi gerst brotlegur við ákvæði 36. gr. sömu laga.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
IV
Stefndi byggir á því, að krafa stefnanda um ógildingu á umræddum veðgerningum í eigu stefnda snúist um atvik sem að öllu leyti hafi átt sér stað áður en stefndi hafi verið stofnaður. Með engu móti verði ráðið af málatilbúnaði stefnanda á hvaða grundvelli stefndi beri ábyrgð á athöfnum þeim eða athafnaleysi sem stefnandi telji að leitt geti til ógildingar á veðgerningum áður en stefndi hafi verið stofnaður 9. október 2008. Kröfu um ógildingu veðgerninganna vegna atvika sem orðið hafi fyrir 9. október 2008 sé því ranglega beint að stefnda í málinu og krefst hann því sýknu á kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Stefndi byggir kröfur sínar og á því, að Landsbanki Íslands hf. hafi ekki haft vitneskju um slæman fjárhag félagsins B ehf., eins og stefnandi haldi fram. Bendir stefndi á, að þegar veðflutningurinn hafi átt sér stað og nýja tryggingarbréfið hafi verið gefið út hafi B ehf. ekki verið á vanskilaskrá Creditinfo og sé fyrsta færslan á vanskilaskrá fyrirtækisins dagsett 4. nóvember 2008, samkvæmt framlagðri útprentun úr þeirri skrá. Á þeim tíma er veðflutningurinn fór fram og tryggingarbréfið hafi verið gefið út hafi Landsbanki Íslands hf., ekki haft nokkurn möguleika á að sjá það fyrir að óskað yrði eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2009.
Í 2. gr. tilvitnaðs samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, komi fram að það eigi einungis við þegar einstaklingur hafi gefið út leyfi til að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars einstaklings. Það eigi ekki við í þeim lögskiptum sem fram hafi farið milli stefnanda, stefnda og B ehf., en þar hafi einstaklingur lánað fyrirtæki fasteign sína sem veð vegna skuldbindinga þess. Ljóst sé því að engin lagaleg skylda hafi hvílt á Landsbanka Íslands hf., að greiðslumeta skuldarann, þ.e. B ehf., og bankinn hafi því ekki vanrækt upplýsingaskyldu sína við stefnanda. Þar að auki hafi verið um að ræða fyrirtæki í eigu barna stefnanda og því hafi það staðið þeim næst að fara yfir áhættuna sem stefnandi hafi tekið með því að lána veð í eign sinni með því að fara yfir fjárhagslega stöðu B ehf. og líkurnar á því að Landsbanki Íslands hf. gæti gengið að veðinu. Þar fyrir utan hafi Landsbanka Íslands hf. verið óskylt og beinlínis óheimilt að upplýsa stefnanda um fjárhagslega stöðu B ehf., samkvæmt 48. gr. og 60. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
Í 8. gr. Samkomulagsins sé að finna eina skilyrðið um aldur ábyrgðarmanna, en þar segi að fjármálafyrirtækjum beri að miða við að aldur ábyrgðarmanna sé að jafnaði ekki lægri en 20 ára. Engin skilyrði séu sett um hámarksaldur ábyrgðarmanna. Sé því ljóst að hvorki hafi verið ólöglegt né óeðlilegt að Landsbanki Íslands hf. samþykkti að stefnandi, þrátt fyrir háan aldur, setti fasteign sína að veði fyrir fyrirtæki í eigu barna sinna, enda hafi hún gert það sjálfviljug og engin ástæða fyrir bankann að efast um andlega hæfni stefnanda, en engin athugasemd hafi komið frá börnum stefnanda, sem samþykkt hafi veðgerningana. Stefndi mótmæli því þeirri fullyrðingu stefnanda að Landsbanki Íslands hf. hafi verið í vondri trú vegna hás aldurs stefnanda. Stefnandi sé fjárráða og samkvæmt meginreglum um öryggi í viðskiptum hafi Landsbanki Íslands hf. mátt treysta því að hún hefði hæfi til þess að taka ákvörðun um að veita bankanum veð í fasteign sinni.
Stefndi kveður Landsbanka Íslands hf., hafa farið fram á það að erfingjar stefnanda samþykktu veðflutninginn af [...] yfir á fasteign stefnanda, þar sem stefnandi hafi setið í óskiptu búi. Þá líti stefndi svo á að með undirritun á veðleyfið hafi erfingjarnir verið að staðfesta að stefnandi, móðir þeirra, hafi haft andlega heilsu til þess að taka þessa ákvörðun og gert sér grein fyrir hvaða áhætta væri samfara því að veita veðleyfi í eign sinni. Ljóst sé að enginn hafi þekkt stefnanda betur og heilsu hennar en börn hennar og megi vera öruggt að þau hefðu aldrei samþykkt veðsetninguna ef þau hefðu talið að andleg heilsa stefnanda væri með þeim hætti að hún gerði sér ekki grein fyrir þýðingu þess að undirrita veðleyfið.
Stefndi hafnar því að hafa gerst brotlegur við ákvæði 31. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, í lögskiptum sínum við stefnanda. Erfingjar stefnanda hefðu aldrei samþykkt veðleyfið ef atvik sem talin séu upp í 31. gr. laga nr. 7/1936, ættu við, þ.e. að stefndi eða C hefðu notað sér bágindi stefnanda, einfeldni, fákunnáttu eða léttúð. Aflað hafi verið samþykkis erfingjanna sökum þess að stefnandi hafi setið í óskiptu búi og tryggt væri að þeir myndu gæta hagsmuna stefnanda við veðsetninguna.
Stefndi mótmælir því, að hann hafi haft einhverja vitneskju, þegar veðsetningin hafi farið fram og nýja tryggingarbréfið verið gefið út, sem leitt gæti til þess að löggerningarnir væru ógildir samkvæmt ákvæðum 33. gr. laga nr. 7/1936. Stefndi mótmælir einnig að 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við, þar sem það hafi hvorki verið ósanngjarnt né gegn góðri viðskiptavenju af Landsbanka Íslands hf. að samþykkja að taka veð í fasteign stefnanda fyrir skuldum B ehf., sem stefnandi hafi samþykkt sjálf án nokkurs þrýstings frá stefnda.
Stefndi byggir á því að veðgerningarnir séu löglegir og vísar til meginreglu samningaréttar um að samningar skuli standa og meginreglu sakarreglunnar um sönnunarbyrði, en stefnandi hafi ekki sýnt fram á að Landsbanki Íslands hf. og starfsfólk hans hafi sýnt af sér siðferðislega ámælisverða háttsemi eða óheiðarleika, hvorki gagnvart stefnanda né C, enda hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn sem sýni að háttsemin hafi verið kærð.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 75/1995, um samningsveð, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, sem og meginreglna samninga- og veðréttar.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.
V
Í máli þessu krefst stefnandi ógildingar á tveimur veðtryggingarbréfum sem hvíla á eign hennar að [...], vegna skulda B ehf., en það félag er nú gjaldþrota en var áður í eign sonar hennar og dóttur. Byggir stefnandi annars vegar á því að Landsbanki Íslands hf. hafi átt að upplýsa hana um fjárhagslega stöðu félagsins og hins vegar að Landsbankinn hafi verið í vondri trú vegna hás aldurs stefnanda og vísar til 31. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti annars vegar og hins vegar á því að Landsbanki Íslands hf., hafi hvorki vitað um slæma stöðu B ehf. né hafi Landsbankanum verið heimilt að upplýsa stefnanda um fjárhagslega stöðu þess fyrirtækis. Byggir stefndi og á því, að hann hafi ekki gerst brotlegur við tilvitnuð ákvæði laga nr. 7/1936, í lögskiptum aðila.
Eins og áður greinir var stefndi stofnaður hinn 9. október 2008, með lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem samþykkt voru á Alþingi hinn 6. október 2008. Fólu lögin m.a. í sér breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt heimild í 100. gr. a. í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Við úrlausn á ágreiningi aðila um það hvort kröfum stefnanda sé réttilega beint að stefnda, verður að líta til þess, sem ákvörðunin samkvæmt efni sínu tilgreinir að ráðstafað hafi verið yfir til hins nýja banka.
Af ákvæðum framangreindrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins er ljóst, að með henni var ráðstafað tilgreindum og nánar afmörkuðum eignum, réttindum og skyldum frá Landsbanka Íslands hf. yfir til stefnda, áður Nýja Landsbanka Íslands hf. Þar segir í 1. tl. að öllum eignum Landsbanka Íslands hf., hverju nafni sem nefnast, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum, sé ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf. þegar í stað, en undanskildar eru þó þær eignir og skuldir, sem sérstaklega eru tilgreindar í viðauka. Segir og í 2. tl. að Nýi Landsbanki Íslands hf. taki jafnframt við öllum tryggingaréttindum Landsbanka Íslands hf., þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum bankans. Samkvæmt því sem fram kemur í ákvörðuninni sjálfri fluttust því umdeild réttindi yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf., nú stefnda, með áðurgreindri ráðstöfun, enda ekki um að ræða eignir sem sérstaklega eru tilgreindar í áðurgreindum viðauka. Stefnandi byggir á því að krafa hans sé um ógildingu á fjármálagerningum sem fluttir voru yfir til hins nýja banka með fyrrgreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Telst því stefndi réttur aðili málsins.
Kemur þá til skoðunar sú málsástæða stefnanda að ógilda beri umdeilda gerninga á grundvelli ákvæða laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem stefndi hafi verið í vondri trú.
Við aðalmeðferð málsins gaf F, dóttir stefnanda, skýrslu. Kvaðst hún hafa ritað undir umdeild bréf að ósk bróður síns C, eftir ítrekaðar beiðnir hans. Hún kvaðst hafa verið hálf hrædd þar sem bróðir hennar sé veikur og hún ekki vitað hverju hún ætti von á. Hún kvað Landsbanka Íslands hf. aldrei hafa haft samband við sig. Hún kvað fjögur systkinanna hafa ritað undir, en þau séu fimm talsins. Hún kvaðst hafa lesið bréfin og skrifað undir inni í eldhúsi heima hjá sér vegna þrýstings frá C. Hún kvaðst aðspurð hafa haldið að móðir hennar hefði eiginlega ekki gert sér grein fyrir skuldbindingunni. Hún kvaðst ekki hafa reynt að koma í veg fyrir að móðir hennar skrifaði undir gerningana, en móðir hennar hafi alltaf ráðið því sem hún hafi gert, eins og hún komst að orði. Hún kvað móður sína hafa hugsað sjálfa um fjármál sín. Hún kvaðst ekki hafa vitað til þess að fjármál hennar á þessum tíma hafi verið í ólestri eða að hún gæti ekki annast um þau.
D, dóttir stefnanda, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hún kvaðst hafa skrifað undir veðheimildirnar vegna beiðni bróður síns, sem hafi verið mjög ör og æstur á þessum tíma og hún ekki vitað hvað myndi gerast ef hún skrifaði ekki undir. Hún hafi bara gert það sem hún taldi sig þurfa að gera þá, en ekki hafa hugsað nánar út í það. Hún hafi aðeins verið að hugsa um móður sína og hvað bróðir hennar myndi gera ef hún skrifaði ekki undir. Bróðir hennar hafi átt við geðsjúkdóm að stríða og sé nú á lokaðri geðdeild, annars búi hann hjá móður þeirra, en það hafi hann ekki gert árið 2008. Hún kvað móður sína alltaf segja já við öllu sem bróðir hennar, C, óskaði eftir. Hún kvað móður sína ekki skilja svona fjármálagerninga, enda hafi hún ekki neina reynslu af slíkum málum. Kvaðst hún hafa fengið umboð frá móður sinni fyrir þremur til fjórum árum til þess að annast fjármál hennar, þ.e. til að taka út af bankareikningi hennar og greiða reikninga. D kvaðst hjálpa móður sinni með innkaup og fjármál og hafa gert í nokkur ár. Taldi hún að móðir hennar gæti annars ekki búið ein. Aðspurð kvað hún Landsbanka Íslands hf. ekki hafa haft samband við sig vegna þessara gerninga. Hún kvað tengsl sín við B ehf. einungis hafa verið að lána bróður sínum nafnið sitt, eins og hún komst að orði. Hún hafi aldrei tekið þátt í rekstri fyrirtækisins og ekki hafa setið stjórnarfundi eða fylgst með rekstrinum á annan hátt eða fengið greitt fyrir störf í þágu fyrirtækisins.
G viðskiptafræðingur gaf einnig skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann var vottur að réttri dagsetningu og fjárræði á bréfinu. Hann kvaðst hafa unnið fyrir C og B ehf. á þessum tíma. C hafi á þessum tíma verið með verksamning við fyrirtæki sem hafi verið að innrétta íbúðir á [...]. Fyrirtæki C hafi einnig gert annan verksamning uppi á [...], svokallað alútboð. Til þess að halda verkinu áfram hafi C fórnað íbúðinni í [...] til þess að fá rafvirkja til að vinna rafmagn í [...]. [...] hafi í raun verið eign C, en verið á nafni dóttur hans þar sem C hafi ekki getað fengið lán hjá Íbúðalánasjóði. Til þess að ná þessu í gegn hafi C viljað flytja þessi tryggingabréf yfir á íbúð móður sinnar. Hann kvaðst hafa bannað honum að gera þetta og m.a. lent í orðaskaki við útibússtjóra bankans. Hann kvaðst einnig hafa rætt þetta við systkinin og lagst gegn því að þau skrifuðu undir. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa talað við stefnanda og bent henni á þýðingu þess að skrifa undir veðheimildirnar. Hann kvað ástand C ekki hafa verið gott á þessum tíma. Fyrirtækið B hafi á þessum tíma staðið tæpt þar sem það hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sína vegna fyrrgreindra verksamninga.
Þá gaf Björn Einarsson, öldrunarlæknir og matsmaður, skýrslu við aðalmeðferð málsins og staðfesti matsgerð sína. Hann kvað stefnanda hafa haft á sér þunglyndislegt yfirbragð þegar hann hafi hitt hana. Hún sé ekki með heilabilun en hafi verið með minnistap, sem þó hafi ekki komið fram í stuttu viðtali. Aðspurður kvað hann ólíklegt að starfsmenn bankans hafi getað gert sér grein fyrir að stefnandi hafi verið þunglynd. Spurður að því hvort stefnandi hafi skilið afleiðingar þess að skrifa undir umrædda gerninga kvað hann stefnanda aldrei hafa þurft að setja sig inn í fjármál og ekki hafa neina reynslu af því, hún treysti þess vegna á að aðrir sæju fyrir hagsmunum hennar. Í einfeldni sinni hafi hún treyst á aðra og ekki gert sér grein fyrir því sjálf eða skilið hvað um væri að ræða. Hún hafi verið mjög þunglynd og einkenni hennar hafi aðallega falist í því að hún hafi haft minnimáttarkennd og því hafi hún ekki getað skilið að verið væri að misnota hana. Hann kvaðst ekki geta fullyrt að hún hafi verið misnotuð en miklar líkur hafi verið á því, hún sé bæði þunglynd og einföld svo að miklar líkur séu á að þannig hafi verið. Stefnandi hafi ekki verið greindarskert, hún hafi haft meðalgreind, en aðallega valdi þunglyndi hennar því að hún hafi haft minnimáttarkennd og því hafi hún ekki reynt að halda uppi vörnum fyrir sjálfa sig.
Brynjólfur Ægir Sævarsson, útibússtjóri vesturbæjarútibús Landsbankans, gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann kvað B hafa verið með viðskipti sín í útibúi því sem hann starfaði í en hann hafi komið til starfa 12. september 2007 og upp úr því hafi kynni hans af C hafist. Í mars eða apríl 2008 hafi fyrirtæki C tekið að sér fyrir annað félag verkefni sem snúist hafi um að breyta tveimur iðnaðarhúsum í íbúðir. Staða B hafi verið þröng og ekki verið mikið svigrúm til þess að fara í miklar framkvæmdir eða mæta áföllum. Seinnipart sumars árið 2008 eða í ágúst það ár hafi bankinn verið að skoða að veita félaginu aukna fyrirgreiðslu með veði í tveimur fasteignum í eign annars félags, sem C hafi átt í félagi við einhverja aðra, sem ekki hafi verið í viðskiptum við bankann. Landsbankanum hafi sýnst vera veðrými á þessari eign, en það hafi síðan ekki reynst vera og því ekki verið unnt að veita honum umbeðna fyrirgreiðslu. Síðan hafi komið að því að C hafi óskað eftir veðflutningi af eign dóttur sinnar í Nökkvavogi, en það tryggingarbréf hafi verið til tryggingar á ábyrgð vegna fasteignaviðskipta í Danmörku. Hafi C óskað eftir að flytja bréfið yfir á eign móður sinnar vegna þess að hann hafi ætlað að nota íbúðina í Nökkvavogi sem uppgjör tengt framkvæmdum fyrirtækis hans. C hafi einnig viljað fá aukna fyrirgreiðslu og boðið eign móður sinnar að veði. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið vel í það að taka veð í eignum lífeyrisþega og þar sem móðir C sæti í óskiptu búi svo að málið snerti aðra erfingja. Bankinn hafi talið að þörf hafi verið á að öll systkinin samþykktu. G hafi útbúið skjalið fyrir C og C síðan aflað samþykkis systkinanna. Hafi það verið skilyrði bankans að yfirlýsingin kæmi áður en bankinn veitti umbeðna fyrirgreiðslu. Hann kvaðst hafa haldið að öll börn stefnanda hefðu ritað samþykki sitt á skjölin, og ef bankinn hefði vitað að svo var ekki hefði hann ekki samþykkt þetta. Hann kvaðst hafi rætt við G í tengslum við þetta, en kannaðist ekki við að hafa rætt við hann um að bankinn hefði verið að brjóta reglur með því að taka veð í eign stefnanda, enda hefði bankinn þá ekki tekið á móti skjalinu. Hann kvað C oft hafa verið á hraðferð og að flýta sér og viljað að hlutirnir gerðust hratt eins og títt sé um menn sem hafi mikið að gera og séu í eigin rekstri, en kvaðst ekki hafa vitað af því þá að C væri veikur á geði. C hafi hins vegar sagt honum það síðar. Hann kvað bankann ekki hafa haft samband við stefnanda í tengslum við þetta eða börn hennar, sem undirrituðu. Fyrirtæki C hafi á þessum tíma verið að reyna að ljúka verkinu í byrjun október áður en allt keyrði um koll, sem síðan hafi gert það ómögulegt að ljúka verkinu. Félagið B ehf. hafi átt talsvert inni hjá verkkaupa á þessum tíma, m.a. húsaleigu, og ljóst hafi verið þá að með því að ljúka verkinu yrði félagið í mun betri stöðu. Hann kvað síðustu samskipti sín við C hafa verið í byrjun mars árið 2009. Spurður um upplýsingar sem fram koma á dskj. nr. 19, um að 27. júlí 2008 hafi verið árituð stefna á B vegna 3,3 milljón króna skuldar, taldi hann trúlegt að bankinn hafi vitað af henni og því líklegt að hann hafi vitað af henni.
Í málinu liggur frammi vottorð læknis þess efnis að sonur stefnanda, C, eigi við geðhvarfasýki að stríða og hafi barist við hana árum saman.
Eins og að framan hefur verið lýst voru umdeildir veðgerningar til tryggingar skuldum B ehf., en eigandi þess félags var sonur stefnanda. Samkvæmt framlagðri matsgerð á hæfi stefnanda kemur fram að hún var á matsdegi talin vera með væga vitræna skerðingu, sem þó sé ekki það mikil að hún gæti ekki gert sér grein fyrir þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem um sé deilt. Matsmaður kemst þó einnig að þeirri niðurstöðu að sökum þunglyndis stefnanda og einfeldni hennar, sem og geðhvarfasýki sonar hennar, aukist líkur á fjárhagslegri misneytingu á henni, þar sem hún hafi ekki haft andlega burði til að sjá við þeirri misnotkun sökum þunglyndis og fjárhagslegrar fákunnáttu. Það er mat hinna sérfróðu meðdómsmanna að það sem fram komi í matsgerð um andlega getu stefnanda sýni að hana hafi ekki skort hæfi til að gera sér grein fyrir umræddum skuldbindingum sem hún undirgekkst með nafnritun sinni og þrátt fyrir háan aldur stefnanda hafi hún ekki mátt gera sér grein fyrir þýðingu þeirra gerninga sem hún skrifaði undir. Þá verður og við mat á því hvort láta beri stefnda bera hallann af því að stefnandi var fákunnandi um fjármál ráðast af því, að stefndi gerði það að skilyrði að börn hennar samþykktu skriflega skuldbindingu stefnanda, sem þau og gerðu. Er ekkert það fram komið í málinu sem styður það að stefndi hafi mátt ætla að undirritun stefnanda hafi verið fengin með óheiðarlegum hætti eða að stefndi hafi búið yfir einhverri þeirri vitneskju sem leitt gæti til ógildingar löggerningsins eða að óheiðarlegt sé að bera hann fyrir sig.
Er það því niðurstaða dómsins að ekkert annað liggi fyrir en að stefnandi hafi af fúsum og frjálsum vilja gengist í þær ábyrgðir sem fyrr greinir. Verður hún sjálf að bera ábyrgð á þeim gjörðum sínum. Stefnda var óskylt og beinlínis óheimilt án samþykkis B ehf., að upplýsa stefnanda um fjárhagsleg málefni eiganda þess einkahlutafélags sem hún gekkst í ábyrgð fyrir, sbr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Þá getur stefnandi ekki byggt kröfur sínar um ógildingu ábyrgða sinna á samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem samkvæmt ákvæðum samkomulagsins á eingöngu við um ábyrgð á skuldum einstaklinga. Tekur það því ekki til ábyrgða á skuldum einkahlutafélags.
Samkvæmt framansögðu er það því niðurstaða dómsins að hafna beri öllum kröfum stefnanda.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Dóminn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt meðdómendunum Jóni Eyjólfi Jónssyni lækni og Jóni Snædal lækni.
D Ó M S O R Ð :
Hafnað er kröfum stefnanda, A, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.