Hæstiréttur íslands

Mál nr. 226/2003


Lykilorð

  • Skip
  • Kaupsamningur
  • Veiðiheimildir
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. janúar 2004.

Nr. 226/2003.

Útgerðarfélagið Rún sf.

(Garðar Garðarsson hrl.)

gegn

Árna Jónssyni ehf.

(Jónatan Sveinsson hrl.)

og gagnsök 

 

Skip. Kaupsamningur. Veiðiheimildir. Skaðabætur.

Með kaupsamningi 31. júlí 2001 keypti Á fiskibátinn R af Ú. Fyrir kaupin voru veiðar á keilu, löngu og skötusel frjálsar öllum, sem höfðu almennt veiðileyfi samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/1990 og sættu veiðar á þessum fisktegundum ekki takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Með reglugerð sem gefin var út tveimur vikum eftir kaupin varð breyting á þessu og skyldi aflahlutdeild á fyrrgreindum fisktegundum úthlutað í samræmi við veiðireynslu skips. Ú taldi að sér bæru umdeildar veiðiheimildir en Á hafnaði því og veitti ekki atbeina sinn til að þær yrðu fluttar af fiskibátnum R yfir á nýtt skip Ú. Með vísan til fyrri dóma Hæstaréttar í sambærilegum málum var fallist á að Ú hafi átt rétt á að fá í sinn hlut aflamark og aflahlutdeild þá sem ágreiningurinn snérist um. Þar sem Á hafði komið í veg fyrir að Ú gæti nýtt sér þessi réttindi átti Ú rétt á skaðabótum úr hendi Á og voru kröfur félagsins teknar til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 2003. Hann krefst þess aðallega, að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 2.666.154 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.301.100 krónum frá 1. september 2001 til 1. september 2002 en af 2.666.154 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess, að ákvæði kaupsamnings aðila 31. júlí 2001 um kaupverð skipsins Rúnu II RE-250, skipaskrárnúmer 2150, verði með dómi vikið til hliðar og kaupverðið  hækkað um 2.666.154 krónur og gagnáfrýjanda gert að greiða sér þá fjárhæð með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Héraðsdómi var gagnáfrýjað 10. júlí 2003. Endanlegar dómkröfur gagnáfrýjanda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda og sér dæmdur málskostnaður úr hendi hans í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms um annað en dráttarvexti, sem verði dæmdir frá 25. ágúst 2002, og verði aðaláfrýjandi jafnframt dæmdur til að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. Til þrautavara krefst gagnáfrýjandi þess, að hann verði dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 2.555.014 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 af 365.090 krónum frá 25. ágúst 2002 til 1. september sama ár, af 665.114 krónum frá þeim degi til uppsögudags þessa dóms en af 2.555.014 krónum frá þeim degi til greiðsludags auk 250.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Bátum og búnaði ehf. og Jóni Ólafi Þórðarsyni hdl. hefur verið stefnt til réttargæslu í málinu.

Ekki er ágreiningur um málavexti, sem raktir eru í héraðsdómi. Eins og þar greinir seldi aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda fiskibátinn Rúnu II RE 250, skipaskrárnúmer 2150, með kaupsamningi 31. júlí 2001 á grundvelli tilboðs frá honum 19. sama mánaðar, en afsal fyrir bátnum var gefið út 3. ágúst 2001. Kaupverð var 30.000.000 krónur. Í öllum framangreindum skjölum var tekið fram, að báturinn seldist án aflahlutdeildar og aflamarks og að réttur hans samkvæmt ákvæði XXV til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða með áorðnum breytingum „til úthlutunar úr 3000 lesta potti“ fylgdi ekki með í kaupunum og flytji seljandi þann rétt yfir á annan bát. Í héraði urðu málsaðilar ásáttir um leggja til grundvallar matsgerð Björns Jónssonar 3. júlí 2002 úr öðru dómsmáli, enda væri þar fjallað um sams konar hagsmuni og í þessu máli.

Fyrir kaupin voru veiðar á keilu, löngu og skötusel frjálsar öllum, sem höfðu almennt veiðileyfi samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/1990, og sættu veiðar á þessum fisktegundum ekki takmörkunum á leyfilegum heildarafla, sbr. 1. mgr. 7. gr. sömu laga. Á þessu var gerð breyting með reglugerð nr. 631/2001 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2001/2002, sem gefin var út 16. ágúst 2001 eða rúmum tveimur vikum eftir gerð kaupsamnings. Samkvæmt henni var heildarafli þessara fisktegunda takmarkaður frá og með nýju fiskveiðiári 1. september 2001 og skyldi fiskiskipum, sem aflareynslu höfðu af veiðum á keilu, löngu og skötusel á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 2001, úthlutað aflahlutdeild á grundvelli veiðireynslu sinnar á áðurgreindu tímabili í þeim tegundum. Ekkert var kveðið á um það í kaupsamningi aðilanna, hvorum þessi réttur skyldi tilheyra.

Með dómi Hæstaréttar 27. nóvember 2003 í máli nr. 217/2003 var leyst úr sams konar ágreiningsefni og hér er til meðferðar. Með vísun til röksemda þess dóms verður fallist á, að aðaláfrýjandi hafi átt rétt á að fá í sinn hlut aflamark og aflahlutdeild, sem ágreiningur málsaðila snýst um. Gagnáfrýjandi hefur komið í veg fyrir, að aðaláfrýjandi gæti nýtt sér umrædd réttindi. Honum er því skylt að svara aðaláfrýjanda skaðabótum vegna tjóns, sem hann hefur orðið fyrir af þeim sökum og mál þetta varðar.

Samkvæmt þessu verður aðalkrafa aðaláfrýjanda tekin til greina en þó þannig, að dráttarvextir verða reiknaðir af kröfufjárhæðinni frá 1. desember 2001, er mánuður var liðinn frá fyrsta kröfubréfi hans til gagnáfrýjanda, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Verður gagnáfrýjandi jafnframt dæmdur til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi, eins og nánar greinir í dómsorði.     

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Árni Jónsson ehf., greiði aðaláfrýjanda, Útgerðarfélaginu Rún sf., 2.666.154 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2001 til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur  Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2003.

Stefnandi málsins er Útgerðarfélagið Rún sf., kt. 540297-2589, Vesturströnd 1, Seltjarnarnesi, en stefndi er Árni Jónsson ehf., kt. 561299-2779, Iðavöllum 13, Keflavík. Réttargæslustefndu eru Skipasalan Bátar og búnaður ehf., kt. 410467-0119, Barónsstíg 5, Reykjavík og Jón Ólafur Þórðarson hdl, kt. 160146-4279Arnartanga 60, Mosfellsbæ.

Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 27. september 2002, sem árituð var um birtingu af lögmanni stefnda f.h. félagsins hinn 2. október s.á. Það var þingfest hér í dómi 10. október s.á. Ekki var mætt í málinu af hálfu réttargæslustefndu.

Málið var dómtekið 20. febrúar sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.

Dómkröfur:

Dómkröfur stefnanda eru þær, aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 2.666.154 kr., auk dráttarvaxta skv. 9. sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 2.301.100 kr. frá 1. september 2001 til 1. september 2002 en af 2.666.154 kr. frá þeim degi til greiðsludags.  

Til vara krefst stefnandi þess:

a) að ákvæði kaupsamnings aðila, dags. 31. júlí 2001, um kaupverð skipsins, verði með dómi vikið til hliðar og því breytt þannig að kaupverðið hækki um 2.666.154 kr., úr kr. 30.000.000 í 32.666.154 kr., og

b) að stefnda verði dæmt skylt að greiða stefnanda 2.666.154 kr., auk dráttarvaxta skv. 9. sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 2.301.100 kr. frá 1. september 2001 til 1. september 2002 en af 2.666.154 kr.frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda að mati dómsins.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu á þessu stigi.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu.

Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

Málavextir eru þeir, að stefnandi seldi stefnda vélbátinn Rúnu II, RE-250 skipaskrárnúmer 2150, fyrir milligöngu réttargæslustefnda, Báta og búnaðar efh. Lögskiptin byggðust á tilboði stefnda, sem dagsett er 19. júlí 2001. Í kauptilboði stefnda segir, að báturinn seljist án aflahlutdeildar og án aflamarks. Einnig er tekið fram í tilboðinu, að ekki fylgi í kaupunum réttur bátsins til úthlutunar úr 3000 lesta potti, samkvæmt ákvæði XXV til bráðabirgða við lög 38/1990, og að seljandi flytji þann rétt yfir á bát, sem hann tilgreini.  Stefnandi samþykkti tilboðið óbreytt. Kaupsamningur var gerður 31. júlí s.á., sem var efnislega samhljóða kauptilboði stefnda. Stefnandi gaf síðan út afsal í kjölfarið, sem dagsett er 3. ágúst s.á., með samhljóða efni, að því er aflaheimildir varðar.

Sjávarútvegsráðuneytið gaf út reglugerð nr. 631/2001 um veiðar í atvinnuskyni. Í þeirri reglugerð var ákveðið að takmarka veiði á keilu, löngu og skötusel, sem áður voru án veiðitakmarkana. Í niðurlagsgrein reglugerðarinnar, sem ber yfirskriftina Ákvæði til bráðabirgða segir svo: Fyrir upphaf fiskveiðiársins 2001/2002, skal fiskiskipum, sem veiðileyfi hafa með almennu aflamarki og aflareynslu hafa í keilu, löngu og skötusel í aflamarkskerfi á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 2001, úthlutað aflahlutdeild í þessum tegundum á grundvelli veiðireynslu þeirra í þessum tegundum á áðurgreindu tímabili. Við útreikning á aflahlutdeild hvers fiskiskips, skal eingöngu leggja til til grundvallar aflaupplýsingar samkvæmt aflaupplýsingarkerfinu Lóðs og hlutfall heildarafla í keilu, löngu og skötusel, sem einstök skipt hafa veitt á ofangreindu viðmiðunartímabili…Síðan segir m.a., að úthlutað verði til bráðabirgða fyrir komandi fiskveiðiár 80% af leyfilegum heildarafla í umræddum tegundum, en útgerðum viðkomandi skipa verði sendar tilkynningar um endanlega aflahlutdeild í þessum tegundum og endanlegt aflamark þeirra á fiskveiðiárinu 2001/2002.  Endanleg úthlutun færi síðan fram 15. október s.á.

Fiskistofa sendi stefnda bréf, dags. 20. ágúst s.á., sem eiganda að fiskibátnum Árna KE-89, áður Rúnu II RE-250. Þar er gerð grein fyrir því, hvert verði heildar­aflamagn í löngu, keilu og skötusels, sem komi til úthlutunar á komandi fiskveiðiári, og að úthlutað verði til bráðabirgða 80% þess magns til þeirra báta, sem áunnin réttindi hafi, miðað við veiðar þeirra á þessum fisktegundum á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 2001. Einnig var tekið fram í bréfinu, að ekki væri unnt að flytja aflahlutdeild fyrir þessar þrjár fisktegundir milli skipa, fyrr en endanleg úthlutun lægi fyrir. Bréfinu fylgdi tafla, sem sýndi bráðabirgðaaflahlutdeild og bráðabirgðaaflamark Árna KE-89. Fiskistofa sendi stefnda tilkynningu um aflahlutdeild og aflamark fyrir skötusel með bréfi, dags. 10. desember 2001, en fyrir keilu og löngu með bréfi, dags. 15. mars 2002. Aflahlutdeild og aflamark skipsins í keilu, löngu og skötusel var sem hér segir:

Keila:  aflahlutdeild 0,0000776%; aflamark 2001/2002, 3 kg.

Langa: aflahlutdeild, 0,0600575%; aflamark 2001/2002, 1.441 kg.

Skötuselur, aflahlutdeild 0,1306191%; aflamark 2001/2002 1.763 kg.

Hinn 16. ágúst 2001 voru öll fiskveiðiréttindi (aflahlutdeild og aflamark) skráð af Árna KE-89 yfir á nýjan bát stefnanda, sem ber nafnið Rúna RE-150, skipaskrárnúmer 2462, að undanskildum réttindum til veiða á löngu, keilu og skötusel, enda var þá óheimilt að flytja þau réttindi milli skipa.

Að sögn stefnanda hafi stefndi neitað að skrá þessi réttindi yfir á Rúnu RE-150, þegar að því kom, að það varð heimilt. Stefndi hafi borið því við, að ekki lægi ljóst fyrir,  hvort veiðireynsla skipsins hafi fylgt með í kaupunum.

Stefnandi sendi stefnda bréf, dags. 1. nóvember 2001, þar sem þess er krafist (ítrekað, eins og í bréfinu segir), að stefndi flytji strax aflamark í löngu, keilu og skötusel, sem úthlutað var til Árna KE-89 hinn 1. september.  Úthlutun þessara réttinda hafi stefnandi áunnið sér vegna veiða bátsins, meðan hann var í eigu stefnenda.  Lögmaður stefnda hafnaði þessari beiðni í bréfi til stefnanda, dags. 5. nóvember s.á., og byggði synjun sína á því, að nærtækast væri að skilja ákvæði 2. mgr. 11. gr. fiskveiðistjórnarlaganna nr. 38/1990 á þann veg, að úthlutun umræddra fisktegunda féllu til skráðs eiganda fiskiskips, nema þær væru sérstaklega undanskildar.

Fyrir liggur bréf frá lögmanni stefnanda til stefnda, dags. 25. júlí 2002, þar sem þess er krafist, að stefndi flytji umrædd veiðiréttindi af skipi sínu yfir á skip stefnanda í síðasta lagi 31. júlí s.á. Þar segir m.a. svo: Þegar Fiskistofa opnaði nú í vor fyrir flutning aflahlutdeilda í þessum tegundum var þess farið á leit við yður, að þér flyttuð á bát umbj. m. þær aflahlutdeildir sem m.b. Árna KE var úthlutað á grundvelli veiðireynslu skipsins meðan það var í eigu umbj. m. Þér hafi enn ekki orðið við þeirri áskorun. Tilboðum yðar um að umbj.m. fengi einungis hluta af þessum réttindum, á þeim grundvelli að hann gæti krafið skipasalann um skaðabætur ef hann fengi þær ekki allar, hefur verið vísað á bug. Ef þér teljið yður hafa orðið fyrir tjóni vegna mistaka skipasalans, þá er nærtækast fyrir yður að sækja þá kröfu.

Frekari bréfaskipti virðast ekki hafa gengið milli málsaðila eða lögmanna þeirra.

Ágreiningur málsaðila fellst í því álitaefni, hvort veiðireynsla skipsins Rúnar II RE-250 hafi yfirfærst til stefnda við sölu þess eða ekki.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir kröfugerð sína á matsgerð Björns Jónssonar, forstöðumanns kvótamiðlunar LÍU, Barðaströnd 11, 170 Seltjarnarnesi, sem Héraðsdómur Reykjavíkur dómkvaddi til að meta til fjár aflahlutdeildir og aflamark í löngu, keilu og steinbít í dómsmáli, sem einnig er rekið hér fyrir dómi.   Matsgerð Björns er dags. 3. júlí 2002. Matsmaður byggir niðurstöðu sína á markaðsverði aflahlutdeildar og afla­marks á þeim tíma, sem matið var framkvæmt.  Aflamarkið miðast við úthlutun fiskveiðiársins 2001/2002.  Útreiknað matsverð hans er á þessa leið:

Tegund:

Aflahlutdeild pr. kg.

Aflamark pr. kg.

Langa

kr. 450

kr.   82

Keila

kr. 190

kr.   36

Skötuselur

kr. 730

kr. 140

Sé umrætt matsverð fært yfir á úthlutun til skips stefnda, nr. 2150, á fiskveiðiárinu 2001/2002 eru verðmæti heimildanna, sem hér segir:

Úthlutað magn í tegund 01-02:

Verðmæti aflahlutdeildar í kr.

Verðmæti aflamarks 01-02 í kr.

Langa 1.441kg.

648.450

118.162

Keila 3 kg.

570

      108

Skötuselur 1.763 kg.

1.286.990

              246.820

Stefnandi skýrir kröfu sína svo, að verðmæti aflahlutdeildanna nemi samtals 1.936.010 kr. og verðmæti aflamarks fiskveiðiársins 2001/2002, samtals 365.090 kr. Fiskveiðiárinu 2001/2002 hafi lokið þann 31. ágúst 2002 og hafi aflamarki verið úthlutað á nýjan leik fyrir umræddar tegundir (fiskveiðiárið 2002/2003) á grundvelli aflahlutdeildar þeirrar, sem stefndi haldi fyrir stefnanda.  Hinn 1. september 2002 hafi sama magni verið úthlutað af löngu og skötusel og fiskveiðiárið 2001/2002, en í keilu hafi úthlutunin verið 2 kg í stað 3ja kg árið áður.  Sé aflamark fiskveiðiársins 2002/2003 reiknað út á sama verði fyrir hverja tegund fyrir sig, sem í matsgerðinni greinir, en að teknu tilliti til þess, að úthlutunin í keilu hafi verið einu kílói minni, þá nemi verðmæti aflamarks 2002/2003 samtals 365.054 kr.  Samtala þessara fjárhæða nemi 2.666.154 kr., sem  myndi dómkröfu stefnanda.

Lögmenn málsaðila séu sammála um að leggja matsgerð Björns til grundvallar, enda varði matsgerðin sömu hagsmuni og hér fjallað um.

Stefnandi byggir á því, að stefndi hafi neitað að verða við samningsbundnum skyldum sínum og komið með því í veg fyrir, að stefnandi fái notið réttinda sinna: Stefnandi hafi því ekki átt annars úrkosti, en að höfða skaðabótamál á hendur stefnda vegna þess tjóns, sem hann hafi orðið fyrir við það að missa aflahlutdeild sína í keilu, löngu og skötusel, og tilheyrandi aflamark.  Verði ekki fallist á skaðabótakröfuna, krefst stefnandi þess, að ákvæði kaupsamnings þeirra um kaupverð skipsins verði vikið til hliðar og því breytt á grundvelli heimildar í 36. gr. laga nr. 7/1936 með síðari breytingu, eins og vikið verði að í umfjöllun um varakröfu hans.

Aðalkröfu sína styður stefnandi þeim rökum, að stefnda hafi mátt vera það dagljóst, að engin réttindi tengd veiðum skipsins, hvorki aflahlutdeild, aflamark né réttindi byggð á aflareynslu hafi átt að fylgja við sölu þess. Auglýsingar í tengslum við sölutilraunir skipsins hafi gefið þetta kynna, og einnig umsamið kaupverð þess og öll þau ákvæði, sem tilgreind séu um veiðiréttindin í kaupsamningi og afsali og síðan öll eftirfarandi framkvæmd málsins.  Umsamið kaupverð fyrir skipið og búnað þess hafi numið 30 milljónum króna, eins og nánar sé tíundað í kaupsamningi.  Báðum málsaðilum hafi verið um það kunnugt, að takmarkanir á veiðum í umræddum tegundum hafi staðið fyrir dyrum í aðdraganda lögskipanna.  Þurft hafi að taka fram með skýrum hætti í kaupsamningi, hefði áunnin veiðireynsla skipsins hefði átt að fylgja því, og ekki síst hefði þurft að taka tillit til þess við ákvörðun kaupverðs.  Stefndi geti ekki vænst þess, að þessi réttindi falli honum í skaut án endurgjalds, enda myndi slík niðurstaða leiða til óeðlilegrar og ósanngjarnrar niðurstöðu.

Það sé að sönnu rétt, að í skjölum sé einungis sagt, að skipið sé selt án aflahlutdeildar og aflamarks og án réttinda í 3.000 tonna pottinum og ekki sé minnst þar á veiðireynslu.  Engu að síður geti stefndi ekki byggt á því, að þau réttindi, sem veiðireynslan skapi, hafi átt að falla honum endurgjaldslaust í skaut. Byggist það; hvorki á samningnum sjálfum, atvikum öðrum, lagaákvæðum, venju né dómafordæmum.

Stefndi byggi afstöðu sína á dómi Hæstaréttar frá árinu 1998 í máli Flóa ehf. gegn Ými ehf.  Sá dómur skapi fordæmi í þeim viðskiptum, sem hér sé til úrlausnar. Hæstiréttur vísi í umræddum dómi til rgl. 362/1996, en þar segi:  Hafi veiðileyfi verið flutt milli skipa fylgir aflareynslan veiðileyfinu.  Hæstiréttur hafi talið ósannað, að veiðireynsla (í steinbít) hafi verið undanskilin í þessum tilteknu viðskipum en sagði svo:  Gera verður ráð fyrir því að aðilar hafi metið veiðileyfið til fjár í kaupum sínum.  Þessi orð verði að túlka svo, að Hæstiréttur hafi litið svo á, að veiðireynsla hafi verið innifalin í mati á verðmæti veiðileyfisins, þar sem annað hafi ekki sannast ekki í málinu. Veiðileyfi skipa hafi verið mjög verðmætt, þegar dómurinn gekk, þar sem réttur til endurnýjunar skipa hafi verið háður veiðileyfinu. Auk þess hafi veiðireynsla fylgt veiðileyfinu, nema um annað væri samið.  Þetta hafi gjörbreyst með lögum nr. 1/1999, sem sett hafi verið í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 3. des. 1998, í svokölluðum Valdimarsdómi. Nú geti eigendur fiskiskipa viðstöðulaust fengið veiðileyfi, ef skip þeirra eru á íslenskri skipaskrá og hafi haffærisskírteini.  Veiðileyfi kosti nú aðeins 16.500 kr., og hafi sú fjárhæð engin áhrif á verðmat fiskiskipa; þar komi nú allt önnur atriði til mats.  Nú séu engin sérstök réttindi tengd veiðileyfinu per se, og í rgl. nr. 631/2001 séu ekki ákvæði sambærileg þeim, sem fyrr sé vísað til um flutning veiðileyfis í rgl.  362/1996.  Lagaumhverfið sé því gjörbreytt frá árinu 1998 og verði ekki byggt á eldri dómum, hvað þetta varðar.

Stefnandi byggir á því, að stefndi haldi í heimildarleysi umræddum réttindum fyrir honum og hafi þannig vísvitandi vanefnt kaupsamning aðila með ólögmætum hætti.  Því eigi stefnandi ekki annars kost en að krefjast skaðabóta fyrir missi þessara réttinda á grundvelli almennra reglna kröfuréttar, sakarreglunnar og annarra skaðabótareglna innan og utan samninga

Stefndi byggir varakröfu sína á 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 1. gr  l. 14/1995 og 6. gr.  l. 11/1986. Í lagaákvæði þessu segi efnislega, að samningi megi víkja til hliðar í heild eða hluta, ef það yrði talið andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Við mat á “góðri viðskiptavenju” skuli m.a. líta til efnis samnings, atvika við samning og atvika sem síðar komu til.  

Dómara sé þannig veitt víðtæk heimild til að endurmeta ákvæði samninga til að ná eðlilegri og sanngjarnri niðurstöðu.  Nái stefnandi ekki fram skaðabótakröfu sinni, sé þess því krafist, að dómurinn hækki kaupverð skipsins um sömu fjárhæð og skaðabótakröfunni nemi, og dæmi auk þess stefnda til að greiða dráttarvexti af þannig hækkuðu kaupverði með sama hætti og krafist sé í skaðabótakröfunni, auk máls­kostnaðar.  Í þessu sambandi bendir stefnandi á þá augljósu staðreynd, að ekki hafi verið tekið tillit til þessara réttinda við verðmat á bátnum, né reynt að meta þau til fjár.  Stefnda beri því að greiða fyrir þessi réttindi, ef hann eigi að halda þeim.  Krafan sé byggð á því, að hækkun á verði bátsins með þessum hætti nálgist raunverulegt verðmæti þeirra réttinda, sem stefndi hafi fengið í hendur við kaupsamning aðila.  Stefnandi krefst þannig greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs bátsins, samkvæmt framansögðu, samtals kr. 2.666.154, auk dráttarvaxta og áfallins og áfallandi kostnaðar.

Kröfur sínar á hendur réttargæslustefndu byggir stefnandi á því, að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna ónákvæmrar og ófullnægjandi skjalagerðar, sem réttargæslu­stefndu beri ábyrgð á, verði niðurstaðan sú, að dómurinn fallist ekki á kröfur hans á hendur stefnda. Slíkt krafa verði ekki höfð uppi í þessu máli, en þótt hafi rétt að stefna þessum aðilum til réttargæslu, og skorar stefnandi á réttargæslustefndu að veita honum það liðsinni, sem þeir best geti í málinu.

Stefnandi byggir dráttarvaxtakröfu sína á því, að hann hafi orðið af umræddum réttindum frá upphafi fiskveiðiársins 2001/2002, sem var 1. september 2001.  Það eigi við um aflahlutdeildina og aflamark fiskveiðiársins 2001/2002.  Því er krafist dráttar­vaxta af verðmæti þessara réttinda frá þeim degi.  Krafa vegna verðmætis aflamarks fiskveiðiársins 2002/2003 hafi skapast 1. september 2002, og sé því krafist dráttarvaxta af þeim hluta kröfunnar frá þeim degi til greiðsludags.  Um vaxtakröfu stefnanda vísar hann til ákvæða III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Kröfu sína um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130 gr.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að stefndi hafi vanefnt samningsbundnar skyldur sínar, er hann keypti umrætt skip af stefnda. Stefndi hafi veitt atbeina sinn til að öll aflahlutdeild stefnanda samkvæmt kaupsamningnum hafi verið flutt hinn 16. ágúst 2001 á nýtt skip stefnanda, Rúnu RE-150 (2462), sem smíðað hafi verið í Kína og þá nýkomið til landsins. Ósannað sé, að frekari skyldur hafi hvílt á stefnda, að lögum eða samkvæmt kaupsamningi málsaðila. Þegar af þeirri ástæðu beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi byggir á eftirfarandi rökum að því er varðar aðalkröfu stefnanda.

Skipið hafi verið selt með almennu veiðileyfi, þ.e. heimild til að stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland, sbr. 4. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Veiðileyfið veiti heimild til að stunda frjálsar veiðar á ókvótabundnum tegundum í efnahagslögsögu Íslands, sbr. 1. mgr. 7. gr. sömu laga.  Sú meginregla sé lögfest í fiskveiðistjórnunarlögunum, sbr. 2. mgr. 11. gr., að við eigendaskipti á skipi fylgi veiðiheimildir þess og veiðireynsla í ókvótabundnum tegundum, nema aðilar geri með sér skriflegt samkomulag um annað.

Málsaðilar hafi með gert með sér skriflegt samkomulag um;

að skipið sé selt án aflahlutdeildar og aflamarks, svo vitnað sé orðrétt til kaupsamningsins og afsalsins og

að réttur skipsins skv. ákvæði XXV. til bráðabirgða  í lögum um stjórn fiskveiða til úthlutunar úr 3000 lesta potti fylgi heldur ekki með í kaupunum og verði því flutt af skipinu.

Ekkert sé vikið að því, að aflareynsla skipsins í ókvótabundnum tegundum hafi ekki átt að fylgja með í kaupunum, eins og algengt sé að tekið sé fram í kaupsamningum um skip, eftir að dómur gekk í Hæstarétti í máli nr. 305/1997: Flói ehf. gegn Ými ehf.  Í tilvitnuðum Hæstaréttardómi hafi verið tekið á ýmsum álitaefnum í lögum um stjórn fiskveiða, m.a. hvernig skýra beri 2. mgr. 11. gr. laganna, að því er varði veiðireynslu viðkomandi skips á eignarhaldstíma seljanda í ókvótabundnum tegundum, þ.e. þeim tegundum sem ekki sættu takmörkunum í leyfilegum heildarafla. Skilgreint sé í dóminum, hvað felist í almennu veiðileyfi, skv. 4. gr., og hvernig fara skuli með veiðireynslu viðkomandi skips í steinbít á eignarhaldstíma seljanda, sem ekki hafi verið undanskilin í kaupsamningnum um viðkomandi skip, en seinna hafi skapað grundvöll til  úthlutunar á aflahlutdeild og aflamarki í steinbít. Í II. kafla dómsins á bls. 4, næstneðstu málsgrein, segi um þessi álitaefni orðrétt: Við gerð kaupsamningsins var öllum, sem höfðu veiðileyfi, frjálst að veiða steinbít. Í kaupsamningnum segir ekkert um hvernig fara skuli með aflareynslu bátsins í fisktegundum sem ekki sættu takmörkunum í leyfilegum heildarafla. Þar sem veiðileyfi fylgdi bátnum og aflareynsla hafði ekki verið sérstaklega flutt af skipinu við söluna verður aðaláfrýjandi ekki án skýrs ákvæðis í kaupsamningi talinn hafa sannað að aflareynsla varðandi steinbít hafi verið undanskilin kaupunum og gagnáfrýjanda hafi mátt vera ljóst að skilningur hans væri á þann veg.

Byggt hafi verið á sömu sjónarmiðum í dómi Hæstaréttar frá 28. janúar 1999 í málinu nr. 241/1998: Básafell hf. gegn Barði ehf. Í niðurstöðum dómsins hafi bæði verið vísað til framangreinds dóms í máli nr. 305/1997 og til dóms frá 7. maí 1998 í málinu nr. 346/1997. Þar hafi þessi réttindi þótt nægilega undanskilin í kaupsamningi. Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda, að lög nr. 1/1999, sem sett hafi verið í kjölfar svokallaðs Valdimarsdóms hafi, gjörbreytt lögum nr. 38/1990. Með breytingalögunum hafi eingöngu verið feldar úr gildi þær takmarkanir, skv. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, sem lutu að því, hverjir gætu fengið almennt veiðileyfi í atvinnuskyni við Ísland, sbr. 4. gr. laganna. Ekki hafi verið hróflað við ákvæði 2. mgr. 11. gr. laganna með lögum nr. 1/1999.

Einnig sé rangur sá skilningur stefnanda, að engin sérstök réttindi séu lengur tengd almennu veiðileyfi skv. 4. gr. laganna. Slíku leyfi fylgi eftir sem áður réttur til veiða á utankvóta tegundum í fiskveiðilandhelgi Íslands, veiðireynsla í slíkum tegundum fylgi viðkomandi skipi við eigendaskipti, enda sé hún ekki löglega undan­skilin í kaupsamningi um skipið, og réttur til að eignast, geyma og hagnýta veiði­heimildir í kvótabundnum tegundum sé bundinn við það, að viðkomandi eigi skip með almennu veiðileyfi skv. 4. gr. laganna.

Stefndi byggir sýknukröfu sína gagnvart varakröfu stefnanda á því, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að efnis- eða lagaskilyrði séu fyrir því að hrófla við efni kaupsamnings að þessu leyti. Stefndi vísar til þess, að reynt hafi á slíka málsástæðu í áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 26. febrúar 1998 í málinu nr. 305/1997. Þeirri málástæðu hafi verið hafnað, sbr. III. kafla dómsins.

Stefndi styður sýknukröfu sína að öðru leyti eftirgreindum efnis- og lagarökum:

Að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að stefndi hafi vanefnt þær samnings- og lagaskyldur, sem á honum hvíldu sem kaupanda skipsins, eins og áður sé lýst.

Að söluverð skipsins hafi verið hátt, eða 30 milljónir króna, þegar um var að ræða sölu á 51 brúttórúmlesta, kvótalausu fiskiskipi, gagnstætt því, sem stefnandi haldi fram. Framlögð gögn hnekki þessari fullyrðingu stefnanda. Söluverð skipsins hafi þvert á móti verið svo ríflegt, að það hafi auðveldlega rúmað markaðsverð skipsins og markaðsverð umræddra veiðiheimilda í löngu, keilu og skötusel.

Hafa verði hugfast, að kvótasetning þessara tegunda stuttu eftir kaupin á skipinu, hafi svipt stefnda möguleikum til að sækja í þessar tegundir án takmörkunar á heildarafla þeirra. Hinn óverulegi kvóti, sem bátnum var úthlutað í þessum tegundum eftir kaupin, sé langt í frá því að vega upp verðmæti þess réttar, sem frjáls sókn í þær tegundir hefði getað gefið stefnda að óbreyttu. Hafi einhver orðið fyrir tjóni við kvótasetningu þessara tegunda þá sé það stefndi.

Ósannað sé með öllu, að fyrirsvarsmenn málsaðila hafi rætt veiðireynslu skipsins í þessum tegundum sín í milli í aðdraganda kaupanna. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að taka upp í kaupsamninginn um skipið fyrirvara, sem laut að því, að undanskilja veiðireynslu skipsins í þessum ókvótabundnu tegundum, eins og nú tíðkist.

Með vísan til alls þessa sé fráleitt að halda því fram, að einhver sanngirnisrök hnigi að því, að stefndi hafi átt að verða við tilmælum stefnanda um að ljá honum atbeina sinn til að flytja aflaheimildir í löngu, keilu og skötusel yfir á skip stefnanda. Hafa verði hliðsjón af þeim lagaskyldum,  sem hvíldu á stefnanda einum, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990.

Niðurstaða.

Við aðalmeðferð málsins gáfu eftirtaldir einstaklingar dóminum skýrslu: Sumarrós Magnea Jónsdóttir, sem er framkvæmdastjóri stefnanda og eigandi félagsins, ásamt eiginmanni sínum og öðrum hjónum. Sæmundur Ingi Hinriksson, framkvæmdastjóri stefnda, Gunnlaugur Jónsson, sölumaður hjá réttargæslustefnda, Bátum og búnaði ehf., og réttargæslustefndi, Jón Ólafur Þórðarson. Verður framburður þeirra rakinn í stórum dráttum.

Sumarrós Magnea Jónsdóttir kvað stefnanda hafa selt stefnda umræddan fiskibát án allra aflaheimilda eða annarrar réttinda, s.s. veiðireynslu, sem kynni að hafa þýðingu eftir sölu hans. Þetta hafi verið greinilega tekið fram í söluauglýsingum um skipið, og eins hafi hún lagt áherslu á þetta við sölumann skipasölunnar, sem annaðist sölu bátsins. Þetta hafi hins vegar ekki komið beint til tals í viðræðum við Sæmund fyrirsvarsmann stefnda. Hún hafi treyst því, þegar skrifað var undir samninga, að báturinn væri seldur án allra afla- og veiðiheimilda, þar með taldri veiðireynslu. Við samningsgerðina hafi veiðireynsla ekki komið til umræðu, en fyrirsvarsmanni stefnda hafi verið það fullljóst, að veiðireynsla hafi ekki átt að fylgja. Mistök skipasölunnar hafi valdið því, að veiðireynslu var ekki getið í samningum um bátinn. Hún kvaðst hafa litið svo á, að þau ákvæði samninganna, að báturinn seldist án aflahlutdeildar og aflamarks, væri fullnægjandi, enda hafi sölumaður skipasölunnar talið svo vera.  Hún hafi haft samband við Sæmund fyrirsvarsmann stefnda, eftir að aflamarki hafði verið úthlutað í umræddar fisktegundir, og hafi hann þá sagt, að hann tæki ekki það, sem hann ætti ekki. Síðan hafi verið haldinn fundur með málsaðilum og lögmönnum þeirra hjá skipasölunni, en þá hafi Sæmundur sagst ætla að láta reyna á þetta mál. Mjög slæmt hafi verið fyrir stefnanda að missa af þessum réttindum, þar sem hann hafi orðið að útvega sér kvóta í þessum tegundum með leigu eða skiptum, því að þessar tegundir kæmu alltaf með í dragnótina. Að öðrum kosti myndi útgerðin verða svipt veiðiheimildum. Hún kvað verð skipsins hafa verið mjög lágt og langt frá því verði, sem fyrirsvarsmenn stefnanda höfðu reiknað með. Stefnandi hafi hins vegar orðið að selja bátinn á umsömdu verði, þótt lágt væri, þar sem kvótastaða félagsins hafi ekki leyft útgerð tveggja báta. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa vitað við samningsgerðina, að til stæði að takmarka veiðar á umræddum tegundum.

Sæmundur Ingi Hinriksson, kvaðst hafi stundað útgerð um margra ára skeið, og einnig hafi hann stundað sjó, m.a. sem skipstjóri á skuttogara. Hann sagðist hafa haft spurnir af því að m/b Rúna væri til sölu og gert tilboð í bátinn, sem hafi verið tekið og í kjölfarið hafi verið gengið frá kaupunum, eins og framlögð skjöl beri með sér. Hann hafi ekki rætt við fyrirsvarsmenn stefnanda, áður en hann gerði kauptilboð í bátinn. Það hafi fyrst átt sér stað,  þegar hann skoðaði bátinn í Þorlákshöfn. Ekkert hafi verið talað um veiðireynslu, hvorki þá né síðar. Hann kvaðst hafa vitað á þessum tíma að fyrirhugað væri að kvótabinda a.m.k. löngu og keilu. Það hafi lengi staðið til og verið á almanna vitorði, eftir að veiðar á steinbíti voru takmarkaðar. Menn hafi  aftur á móti alls ekki átt von á því, að veiðar yrðu takmarkaðar á skötusel. Hann taldi sig hafa fullnægt ákvæðum samninganna við stefnanda með því að flytja aflahlutdeild og aflamark yfir á bát stefnanda hinn 16. ágúst 2001. Hann hafi undir mánaðamót ágúst/september þetta ár fyrst fengið að vita um kvótabindingu umræddra fisktegunda. Fyrirsvarsmenn stefnanda hafi skömmu síðar, með milligöngu skipasalans, óskað eftir því, að aflamark þessara tegunda yrði flutt á bát þeirra.  Hann hafi ekki talið þessi tilmæli fráleit, en svarað því til, að hann vildi kynna sér málið. Aðspurður kvaðst hann hafa við sölu á báti þeim, sem hann átti og seldi í apríl 2002, hafa sett inn í samninga, að veiðireynsla fylgdi ekki. Sérstaklega inntur eftir því, hvort hann hafi við kaupin talið sig vera að kaupa veiðireynslu, sagðist hann líklega ekki hafa litið svo á. Hann hafi talið sig vera að kaupa bát, sem hann gæti nýtt til veiða á ókvótabundnum fiskitegundum.

Vitnið Gunnlaugur Jónsson, sölumaður hjá skipasölunni Bátum og búnaði, sagist hafa litið svo á, að verið væri að selja bát með rétti til veiða, en án aflaheimilda. Aflareynsla skipsins hafi ekki komið til umræðu í áheyrn hans. Hann taldi ástæðu þess, að veiðireynslu hafi ekki verið getið í samningum málsaðila, að ekki hafi þá legið fyrir, að það hefði þýðingu. Hann kvaðst hafa útbúið kauptilboð stefnda í samvinnu við Jón Ólaf Þórðarson, en Jón Ólafur hafi annast gerð kaupsamnings og afsals, en vitnið kvaðst hafi lesið þessi skjöl yfir. Hann minntist þess ekki, að fyrirsvarsmenn stefnanda hafi gert athugasemdir við efni þessara skjala. Að hans mati var veiðireynsla bátsins ekki verðlögð sérstaklega.

Réttargæslustefndi, Jón Ólafur Þórðarson, sagðist hafa annast skjalagerð í tengslum við sölu á m/b Rúnu II, en hann hafi ekki komið að samningum milli málsaðila. Honum hafi verið kunnugt um það, að bátinn ætti að selja án nokkurra veiðiheimilda.  Oft væri tekið fram í samningum um kvótalausa báta að aflareynsla í kvótalausum tegundum ætti ekki að fylgja, en hann kvaðst yfirleitt ekki setja slíkt ákvæði inn í samninga, þar sem hagsmunir væru oftast mjög óverulegir og það gæti skapað ágreining að nokkrum árum liðnum, ef kvóti yrði þá settur á einhverjar fisktegundir. Í umræddu tilviki hafi þó verið ástæða til að taka fram, að veiðireynsla fylgdi ekki, þar sem um verulega hagsmuni hafi verið að ræða. Honum hafi verið ókunnugt um að kvótabinda ætti keilu, löngu og skötusel og því hafi hann ekkert fjallað um veiðireynslu í samningum málsaðila.

Álit dómsins:

Ágreiningur málsaðila lýtur að því álitaefni, hvort aflahlutdeild og afleitt aflamark í löngu, keilu og skötusel hafi átt að fylgja m/b Rúnu, skipaskrárnúmer 2150, við sölu bátsins til stefnda, eða hvort túlka beri þann fyrirvara í kaupsamningi og afsali til stefnda, að báturinn seljist án aflahlutdeildar og aflamarks svo, að engar veiðiheimildir hafi átt að fylgja honum, utan leyfis til veiða á ókvótabundnum tegundum.

Lögin um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 (fvstl.) byggja á því, að öll réttindi til veiða fylgi skipi, hvort sem um sé að ræða heimildir til veiða á fiskistofnun, sem aðgangur er takmarkaður að,  eða til veiða á fiskistofnum, sem öllum er frjálst að veiða.

Þau skip ein hafa heimild til veiða við Ísland í atvinnuskyni, sem fengið hafa til þess almennt veiðileyfi, sbr. 4. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna (fvstl.) Séu veiði­heimildir takmarkaðar, er fyrirfram ákveðnu hlutfalli heildarafla (aflahlutdeild) úthlutað árlega til einstaks skips (aflamark), sbr. 7. gr. fvstl. Aflahlutdeild fylgir skipi við eigandaskipti, nema aðilar geri sín á milli skriflegt samkomulag um annað, sbr. 2. mgr. 11. gr. fvstl.

Í máli því, sem hér er til úrlausnar, var þess sérstaklega getið í heimildarskjölum fyrir eignayfirfærslu m/b Rúnar (samþykktu kauptilboði, kaupsamningi og afsali), að báturinn seldist án aflahlutdeildar og aflamarks. Einnig er sérstakt ákvæði um ráðstöfun á rétti til úthlutunar úr 3000 lesta potti, sem tilheyra skyldi stefnanda.  Ekkert er vikið að því í samningi málsaðila, hvor þeirra skyldi njóta veiðireynslu bátsins, ef takmarkaður yrði aðgangur að öðrum fisktegundum, eins og síðar varð raunin.  Með reglugerð nr. 631/2001, sem áður er lýst, voru veiðar á keilu, löngu og skötusel takmarkaðar. Úthlutun aflahlutdeildar var byggð á veiðireynslu m/b Rúnu, sem varð til á eignarhaldstíma stefnanda.

Með vísan til 2. mgr. 11. gr. fvstl. fylgja öll veiðiréttindi skipi við eigendaskipti, nema þau séu sérstaklega undanskilin með skriflegum hætti. Af því leiðir, að sú veiðireynsla, sem úthlutun aflahlutdeildar og síðan aflamarks í umræddum þremur fiskitegundum byggðist á, fylgdi bátnum við sölu hans til stefnda, þar sem þessara réttinda var í engu getið í heimildarskjölum að eignaryfirfærslu bátsins.

Þessum réttindum verður því aðeins ráðstafað aftur til stefnanda með skriflegri yfirlýsingu stefnda til Fiskistofu, sbr. 10. og 11. gr. rgl. 631/2001. Stefndi hefur hafnað þeirri úrlausn.

Því verður að taka afstöðu til þess, hvort stefnandi eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda eða hækkunar á verði hins selda báts, eins og hann gerir kröfu til. Við mat á því álitaefni þykir verða að líta til stöðu málsaðila við samningsgerðina.

Framkvæmdastjóri stefnanda bar það hér fyrir dómi, að hún hafi ekki haft vitneskju um það við samningagerðina, að ráðgert væri að kvótabinda umræddar tegundir. Hún og fyrirsvarsmenn stefnanda hafi litið svo á, að engin veiðiréttindi hafi átt að fylgja bátnum, hvorki bein eða óbein, önnur en þau, sem fólust í leyfi bátsins til veiða hér við land, enda hafi stefnandi á sama tíma verið að fá afhentan nýjan fiskibát erlendis frá, sem hann hugðist færa á öll veiðiréttindi hins selda báts. Réttargæslustefndi, Jón Ólafur Þórðarson, skipasali, og sölumaðurinn Gunnlaugur Jónsson staðfestu fyrir dóminum, að sá hafi einnig verið skilningur þeirra.

Framkvæmdastjóri stefnda lýsti því á hinn bóginn yfir hér í dómi, að hann hefði talið sig vera að kaupa bát, sem hann gæti nýtt til veiða á ókvótabundnum tegundum, en hann hafi líklega ekki reiknað með, þegar kaupin voru ráðin, að veiðireynsla stefnanda á  umræddum þremur fiskitegundum myndi fylgja með í kaupunum, en vildi láta reyna á þann rétt. Einnig kvaðst hann hafa haft vitneskju um það, að til stæði að takmarka veiðar á a.m.k. keilu og löngu, en veiðitakmarkanir á skötusel hafi komið honum og öðrum á óvart.

Fyrst fyrirsvarsmaður stefnda taldi ólíklegt, að veiðireynsla bátsins ætti að fylgja með í kaupunum, vitandi um að takmarka ætti veiðar á keilu og löngu, hlaut honum jafnframt að hafa verið ljóst, að stefnandi myndi kalla til réttar um veiðiheimildir þessara tegunda, ef miða ætti takmörkunina við veiðireynslu, eins og áður hafði verið gert, þegar veiðar á steinbíti voru takmarkaðar nokkrum árum fyrr, sbr. einnig ákvæði 1. mgr. 8. gr. fvstl.  Með neitun sinni á að yfirfæra réttindi þessum tegundum tengd, þykir stefndi hafa hagnast á kostnað stefnanda sem svarar til verðmætis aflahlutdeildar þessara tveggja fisktegunda.

Það er því niðurstaða dómsins með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum, að stefnda beri að greiða stefnanda andvirði aflahlutdeildar löngu og keilu, eins og þessi réttindi hefðu sérstaklega verið verðlögð við samningsgerðina. Aflamarksréttindi eru á hinn bóginn afleidd af aflahlutdeild og beintengd henni og verður stefnda því ekki gert að bæta stefnanda fyrir missi þeirra réttinda miðað við framangreinda niðurstöðu.

Málsaðilar eru sammála um að leggja matsgerð Björns Jónssonar til grundvallar að því, er varðar verð á aflahlutdeild og aflamarki, og verður því við hana stuðst.

Samkvæmt því ber stefnda að greiða stefnanda 648.450 krónur fyrir aflahlutdeild löngu, en 570 krónur fyrir aflahlutdeild keilu, samtals 649.200 krónur.

Stefnandi krafðist þess fyrst með sannanlegum hætti í bréfi, dags. 1. nóvember 2001, að stefndi færði aflamark í löngu, keilu og skötusel yfir á bát hans m/b Rúnu, skipaskrárnúmer 2164, sem stefnandi keypti í stað þess báts, sem hann seldi stefnda. Því þykir rétt að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti af tildæmdri fjárhæð frá 1. desember 2001, samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags, eins og nánar er lýst í dómsorði.

Með vísan til 1. tl. 130. gr. ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 150.000 krónur.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Stefndi, Árni Jónsson ehf., greiði stefnanda, Útgerðarfélaginu Rún sf.,  649.200 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga, frá 1. desember 2001 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.